Hæstiréttur íslands
Mál nr. 308/2010
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Kjarasamningur
- Laun
- Orlof
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2011. |
|
|
Nr. 308/2010. |
Viðar Austmann Jóhannsson (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn Ístaki hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Vinnusamningur. Kjarasamningur. Laun. Orlof.
V krafði Í um greiðslu vegna ógreiddra kjarasamningsbundinna hækkana launa og vegna orlofs. Á starfstíma V hjá Í hafði verið samið um launahækkanir hverju sinni og þær verið meiri en kjarasamningsbundnar hækkanir launa samkvæmt þeim kjarasamningi sem V miðaði við. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að þar sem starfskjör V væru ekki lakari en kjarasamningurinn kvað á um, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, væri ekki unnt að fallist á að hann hefði átt rétt til sérstakra launahækkana umfram það sem samið hafi verið um milli aðila. Þeirri kröfu var því hafnað ásamt kröfu um greiðslu orlofs og Í sýknað í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.691.922 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. febrúar 2008 til 1. febrúar 2009, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Viðar Austmann Jóhannsson, greiði stefnda, Ístaki hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Viðari Austmann Jóhannssyni, Laufrima 71, Reykjavík, gegn Ístaki hf., Engjateigi 7, Reykjavík, með stefnu birtri og áritaðri um birtingu 30. mars 2009.
Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda hlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.691.922 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 56.250,00 frá 01.02.2008 til 01.03.2008, af kr. 112.500,00 frá 01.03.2008 til 01.04.2008, af kr. 168.750,00 frá 01.04.2008 til 01.05.2008, af kr. 225.000,00 frá 01.05.2008 til 01.06.2008, af kr. 281.250,00 frá 01.06.2008 til 01.07.2008, af kr. 337.500,00 frá 01.07.2008 til 01.08.2008, af kr. 393.750,00 frá 01.08.2008 til 01.09.2008, af kr. 490.313,00 frá 01.09.2008 til 01.10.2008, af kr. 586.876,00 frá 01.10.2008 til 01.11.2008, af kr. 683.439,00 frá 01.11.2008 til 01.12.2008, af kr. 780.002,00 frá 01.12.2008 til 01.01.2009, af kr. 876.565,00 frá 01.01.2009 til 01.02.2009, af kr. 1.691.928,00 frá 01.02.2009 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Málsatvik
Stefndi er hlutafélag sem starfar á verktakamarkaði. Meðal verkefna stefnda eru húsbyggingar, s.s. bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, sem og önnur mannvirkjagerð.
Stefnandi hóf störf hjá stefnda í ágúst 2000. Honum var sagt upp störfum 31. október 2008 og lét stefnandi af störfum 31. janúar 2009 að liðnum þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Stefnandi er m.a. menntaður byggingatæknifræðingur og starfaði sem slíkur hjá stefnda. Stefnandi starfaði fyrst sem einn af nokkrum framleiðslustjórum við nýbyggingu Smáralindar í starfi sínu hjá stefnda en frá árinu 2002 starfaði stefndi sem staðarstjóri við ýmsar nýbyggingar og við endurbætur á byggingum allt til starfsloka.
Í upphafi var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Stefnandi heldur því fram að allan starfstíma hans hafi launahækkanir hans verið með því móti að laun hans hækkuðu eftir kröfum hans. Stefnandi hafi sett fram óskir um launahækkanir sínar og leit svo á að kröfur hans miðuðust við kjarasamningsbundnar hækkanir auk þess sem ábyrgð í starfi hans jókst með árunum. Frá októbermánuði 2007 voru föst laun stefnanda kr. 750.000. Árið 2008 fékk stefnandi engar launahækkanir en strax í upphafi árs spurðist stefnandi fyrir um kjarasamningsbundna hækkun sem honum bar en samkvæmt kjarasamningi Tæknifræðingafélags Íslands áttu laun tæknifræðinga að hækka um 7,5% frá 1. janúar 2008 og um 5% þann 1. ágúst 2008. Engin svör bárust stefnanda frá stefnda og fékk stefnandi enga hækkun launa sinna frá árinu 2007. Við starfslok stefnanda fékk hann greitt auk mánaðarlauna á uppsagnarfresti, áunnið orlof, orlofsuppbót, desemberuppbót og bílapeninga eins og hann hafði fengið mánaðarlega allan starfstímann. Stefnandi fékk greitt uppsafnað orlof frá yfirstandandi orlofsári og einnig uppsafnað orlof sem stefnandi hafði frestað töku á og var því uppsafnað í upphafi orlofsársins sem hófst 1. maí 2008.
Þegar stefnandi hafði fengið sinn síðasta launaseðil frá stefnda taldi hann vera um ógreidd laun að ræða. Hann telur að ógreidd sé kjarasamningsbundin hækkun launa vegna alls ársins 2008. Þá telur stefnandi að ógreidd sé fjárhæð vegna vangreiddrar launahækkunar við uppgjör á áunnu orlofi. Auk þess telur stefnandi að ógreiddur sé hluti orlofs vegna 25% lengingar orlofs, sem var uppsafnað, en ótekið. Enn fremur telur stefnandi að ógreidd sé fjárhæð fyrir bílapeninga fyrir ógreitt orlofstímabil.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að laun stefnanda hafa verið byggð á samkomulagi milli aðila, enda hafi laun hans ætíð verið langt umfram lágmarkskjör á almennum markaði. Við starfslok stefnanda hafi farið fram uppgjör á mánaðarlaunum á uppsagnarfresti, sem og öðrum greiðslum er stefnandi átti rétt til. Sú upphæð hafi í engu verið vangreidd og hafi falist í þessu fullnaðaruppgjör aðila vegna starfsloka stefnanda.
Stefnda var sent innheimtubréf 16. febrúar 2009 vegna þeirra greiðslna sem stefnandi telur vera ógreiddar. Öllum kröfum stefnanda var hafnað með bréfi lögmanns stefnda dagsettu þann 6. mars 2009.
Málsástæður og lagarök stefnanda:
Kröfur stefnanda byggir hann á eftirfarandi röksemdum:
1. Kröfu um greiðslu kjarasamningsbundinnar hækkunar launa árið 2008 byggir stefnandi á því að samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 séu kjarasamningsbundin réttindi stefnanda lágmarkskjör hans við starf hans hjá stefnda. Stefnandi sé menntaður byggingatæknifræðingur og starfaði sem slíkur hjá stefnda. Samkvæmt 1. gr. kjarasamnings milli Félags ráðgjafarverkfræðinga og Stéttarfélags verkfræðinga og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands nái samningurinn til allra tæknifræðinga sem séu í þjónustu vinnuveitanda. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði og meginreglum vinnuréttar séu samningar einstakra launþega og atvinnurekenda um lakari kjör en almennur kjarasamningur ákveði, ógildir. Því skipti ekki mál hvort launþegi sé félagsmaður í stéttarfélagi eða vinnuveitandi aðili að samtökum atvinnurekanda. Kjarasamningur kveði á um lágmarkskjör.
Fram til loka ársins 2007 hafi stefnandi litið svo á að þær hækkanir sem hann fékk á laun sín væru til að fylgja eftir hækkunum sem honum bar samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og einnig vegna aukinnar ábyrgðar hans í starfi hjá stefnda. Hann hafi hins vegar enga hækkun fengið á árinu 2008 þrátt fyrir kröfur hans þar um og lágmarksréttindi hans samkvæmt því. Vegna þessa gerir stefnandi kröfu um 7,5% hækkun á laun sín (750 þúsund) vegna mánaðanna janúar júlí 2008. Vegna tímabilsins frá 1. ágúst 2008 31. janúar 2009 gerir stefnandi kröfu um framangreinda hækkun sem hann hafi átt rétt á frá 1. janúar 2008 og einnig þá kjarasamningsbundnu hækkun sem honum hafi borið frá 1. ágúst 2008, 5%.
Krafa stefnanda vegna þessa liðar sundurliðast með eftirgreindum hætti:
|
1. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna janúar 2008 |
kr. 56.250,00 |
|
2. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna febrúar 2008 |
kr. 56.250,00 |
|
3. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna mars 2008 |
kr. 56.250,00 |
|
4. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna apríl 2008 |
kr. 56.250,00 |
|
5. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna maí 2008 |
kr. 56.250,00 |
|
6. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna júní 2008 |
kr. 56.250,00 |
|
7. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna júlí 2008 |
kr. 56.250,00 |
|
8. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna ágúst 2008 |
kr. 96.562,00 |
|
9. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna september 2008 |
kr. 96.562,00 |
|
10. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna október2008 |
kr. 96.562,00 |
|
11. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna nóvember 2008 |
kr. 96.562,00 |
|
12. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna desember 2008 |
kr. 96.562,00 |
|
13. Kjarasamningsbundin hækkun launa vegna janúar 2009 |
kr. 96.562,00 |
|
Samtals |
kr. 973.122,00 |
2. Krafa stefnanda vegna leiðréttingar á uppgjöri vegna uppsafnaðs orlofs byggir á því að á launaseðli til hans sem dagsettur sé þann 30. janúar 2009 sé uppgjör vegna orlofs reiknað miðað við þau mánaðarlaun sem stefnandi hafði í síðasta starfsmánuði sínum. Samkvæmt launaseðlinum séu honum greiddar kr. 34.610 fyrir hvern áunninn orlofsdag. Forsendur þeirrar fjárhæðar séu þær að í hverjum mánuði sé að meðaltali 21,67 vinnudagur eins og beri að reikna samkvæmt kjarasamningi. 21,67 sé deilt í 750.000 og fundin meðallaun stefnanda hvern dag eða kr. 34.610. Fjöldi áunninna orlofsdaga sé svo margfaldaður með fjárhæðinni. Stefnandi telur að vegna tímabilsins frá 1. janúar 2008 til 31. júlí 2008 hefði þessi fjárhæð átt að vera 39.066. Stefnandi telur því að vegna þessa liðar kröfugerðar hans sé ógreiddur mismunur að fjárhæð kr. 227.074, þ.e. 39.066*50,96 (áunnir orlofsdagar) = 1.990.803 1.763.729
Krafa stefnanda vegna þessa liðar sundurliðast með eftirgreindum hætti en gert sé ráð fyrir að laun stefnanda síðasta mánuðinn ( janúar 2009) hefðu átt að vera kr. 846.562: 846.562/21,67 dagar = 39.066 * 50.96 áunnir dagar samkvæmt launaseðli =1.990.803 Að frádregnu þegar greiddu vegna þessa =1.763.7 Samtals = 227.074,-
3. Krafa stefnanda vegna greiðslu orlofs vegna 25% lengingar orlofs sem hafi verið uppsafnað en ótekið við upphaf yfirstandandi orlofsárs byggir stefnandi á 4. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Á síðasta launaseðli stefnanda frá stefnda sem dagsettur sé 30. janúar 2010 komi fram að við upphaf yfirstandandi orlofsárs, þ.e. vegna tímabilsins fyrir 1. maí 2008 hafi stefnandi átt uppsafnað orlof í 28,41 dag. Ástæða þess að stefnandi hafði ekki tekið þessa daga var sú að starf stefnanda hjá stefnda hafi verið með því móti að stefndi hafði óskað eftir því við hann að hann tæki ekki allt orlof sitt á orlofstímabili, þ.e. tímabilinu 2. maí til 15. september ár hvert. Það hafi verið vegna eðlis starfs stefnanda. Hann hafi borið ábyrgð á framkvæmdum stefnda á tilteknum verkum og því hafi verið ómögulegt að hann tæki allt orlof sitt á þessu tímabili. Stefnandi byggir kröfu sína vegna þessa á því að ógreitt sé orlof vegna 7,1 dags og gerir kröfu um greiðslu þess nú. Vegna mistaka láðist að geta þessarar fjárhæðar í innheimtubréfi til stefnda þann 16. febrúar 2008.
Krafa stefnanda vegna þessa liðar sundurliðast með eftirgreindum hætti:
7,1 áunninn orlofsdagur * 39.066 kr / dag = 277.369,-
4. Kröfu sína vegna ógreiddrar fjárhæðar fyrir “akstur” byggir stefnandi á því að í raun hafi verið um hluta launagreiðslna að ræða. Allan starfstíma stefnanda hafi hann fengið greidda fjárhæð vegna þessa liðar á launaseðli óháð því hvort hann var við störf eða ekki. Eins og launaseðlar stefnanda bera með sér hafi hann fengið þennan lið greiddan hvort sem hann var við vinnu eða ekki. Stefnandi byggir kröfu sína á því að í hverjum starfsmánuði hans hafi hann fengið greiddar kr. 3.692 fyrir hvern dag mánaðar allan ársins hring vegna þessa ( 80.000 / 21,67 ). Stefnandi gerir kröfu um greiðslu kr. 3.692 fyrir hvern dag vegna áunnins orlofs hans. Krafa sé því um greiðslu þessarar fjárhæðar í 50,96 daga sbr. launaseðil og einnig vegna 7,1 dags sem krafa hans nái til sökum ógreiddrar fjárhæðar vegna lengingar orlofs sem honum beri samkvæmt framansögðu.
Krafa stefnanda vegna þessa liðar sundurliðast því með eftirgreindum hætti:
|
50,96 dagar * 3.692 kr/dag |
kr. 188.144,00 |
|
7,1 dagur * 3.692 kr/dag |
kr. 26.213,00 |
|
Samtals |
kr. 214.357,00 |
Á grundvelli alls framangreinds telur stefnandi ógreidd laun sín fyrir hvern mánuð á tímabilinu frá 1. janúar 2008 31. janúar 2009 sundurliðast þannig:
|
1) Ógreitt vegna janúar 2008 |
kr. 56.250,- |
|
2) Ógreitt vegna febrúar 2008 |
kr. 56.250,- |
|
3) Ógreitt vegna mars 2008 |
kr. 56.250,- |
|
4) Ógreitt vegna apríl 2008 |
kr. 56.250,- |
|
5) Ógreitt vegna maí 2008 |
kr. 56.250,- |
|
6) Ógreitt vegna júní 2008 |
kr. 56.250,- |
|
7) Ógreitt vegna júlí 2008 |
kr. 56.250,- |
|
8) Ógreitt vegna ágúst 2008 |
kr. 96.562,- |
|
9) Ógreitt vegna september 2008 |
kr. 96.562,- |
|
10) Ógreitt vegna október 2008 |
kr. 96.562,- |
|
11) Ógreitt vegna nóvember 2008 |
kr. 96.562,- |
|
12) Ógreitt vegna desember 2008 |
kr. 96.562,- |
|
13) Ógreitt vegna janúar 2009 |
kr. 96.562,- |
|
14) Ógreitt við starfslok vegna orlofs og “aksturs”-peninga |
|
|
(214.357+277.369+227.074) |
kr. 718.800,- |
|
Heildarkrafa |
kr.1.691.922,- |
Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Varðandi lagarök er vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, laga nr. 30/1987 um orlof og kjarasamnings Tæknifræðingafélags Íslands. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefnandi byggi mál sitt á nokkrum málsástæðum. Í fyrsta lagi sé á því byggt að stefndi hafi ekki virt kjarasamningsbundin réttindi stefnanda til hækkunar launa árið 2008. Í öðru lagi sé á því byggt að útreikningur stefnda á uppsöfnuðu orlofi stefnanda hafi verið rangur vegna þess að hann taki ekki tillit til kjarasamningsbundinna hækkana. Í þriðja lagi sé á því byggt að stefnandi hafi ekki fengið greidda 25% lengingu uppsafnaðs orlofs. Í fjórða lagi byggir stefnandi á að hann hafi átt rétt á greiðslu vegna aksturs í orlofi.
Öllum málsástæðum og kröfum stefnanda er mótmælt af hálfu stefnda.
Mun nú farið í hverja og eina málsástæðu stefnanda fyrir sig, en fyrstu tveimur málsástæðunum verður svarað saman.
- Greiðsla kjarasamningsbundinnar hækkunar og leiðrétting á uppgjöri vegna uppsafnaðs orlofs
Krafa stefnanda styðjist við kjarasamning milli Félags ráðgjafarverkfræðinga annars vegar og hins vegar Stéttarfélags verkfræðinga og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands. Stefndi sé ekki aðili að Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Fyrirtækin sem aðilar séu að kjarasamningnum sinni að meginstefnu til verkfræðiráðgjöf en stefndi starfi á verktakamarkaði við mannvirkjagerð. Kjarasamningurinn taki samkvæmt hljóðan orða sinna aðeins til fyrirtækja sem aðild eigi að Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Falli stefndi því ekki undir kjarasamninginn og teljist ekki vinnuveitandi í skilningi hans. Stefndi sé aðili að Samtökum atvinnulífsins og því bundinn samkvæmt kjarasamningum þeirra samtaka.
Engin ákvæði í lögum skylda stefnda til þess að vera aðili að kjarasamningum sem gerðir séu milli aðila vinnumarkaðarins. Þótt kjarasamningar hafi samkvæmt lögum víðtæk réttaráhrif mæla þau ekki fyrir um að kjarasamningar á einu sviði vinnumarkaðar gildi um önnur svið.
Stefndi telur einsýnt með vísan til framangreinds að umræddur kjarasamningur falli ekki undir það að vera almennur kjarasamningur í skilningi 1. greinar laga nr. 55/1980 og geti stefnandi því ekki byggt rétt sinn gagnvart stefnda á honum.
Verði litið svo á að kjarasamningurinn gildi samt sem áður um ráðningarsamband stefnanda við stefnda ber að sýkna stefnda á grundvelli eftirfarandi málsástæðna.
Í 1. gr. laga nr. 55/1980 sé mælt fyrir um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn taki til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
Svipaðs efnis sé 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem mæli fyrir um að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.
Leiði af þessum ákvæðum að svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmarkast við að þau séu hinum síðarnefnda jafn hagstæð eða betri en kveðið sé á um í kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Laun stefnanda hafi hækkað talsvert á starfstíma hans. Í upphafi starfstíma stefnanda voru laun hans hjá stefnda 370.000 krónur á mánuði. Á tímabilinu 31. janúar 2001 til og með 30. nóvember 2007 hafi laun stefnanda verið hækkuð í 13 skipti, minnst um 3% og mest um 12,07% Við starfslok höfðu laun stefnanda hækkað um liðlega 103% frá því að hann hóf störf.
Megi nefna að á tímabilinu 31. ágúst 2006 til starfsloka hafi laun stefnanda verið hækkuð um rúmlega 27%, eða frá 580.000 krónum á mánuði og upp í 750.000 krónur á mánuði. Ef fylgt hefði verið kjarasamningsbundnum hækkunum í fyrrgreindum samningi hefðu laun hans á sama tímabili hækkað úr 580.000 krónum á mánuði upp í 654.675 krónur.
Síðast hafi laun stefnanda hækkað 30. nóvember 2007 um tæp 12% eða aðeins tveimur mánuðum áður en kjarasamningsbundin hækkun hefði komið til framkvæmda. Svo mikil hækkun á þessum tímapunkti bendi eindregið til þess að aðilar hafi ekki stefnt að frekari hækkun stuttu síðar.
Stefnandi hafi ekki áskilið sér sérstakan rétt til kjarasamningsbundinna hækkana launa til viðbótar umsömdum hækkunum, hvorki árið 2008 né fyrr. Fullyrðingum hans um annað sé mótmælt. Verði hann að bera hallann af því að hafa látið undir höfuð leggjast að tryggja rétt sinn að þessu leyti. Helgist það væntanlega af því að stefnandi hafi verið ánægður með þær hækkanir sem hann hafi fengið umfram kjarasamningsbundnar hækkanir. Það að hafa ekki sóst eftir hækkunum launa í samræmi við kjarasamning allt frá ráðningu árið 2000 feli í sér tómlæti af hálfu stefnanda. Það tómlæti hafi það í för með sér að réttur stefnanda til kjarasamningabundinna hækkana sé fyrir margt löngu niður fallinn hafi hann einhvern tími verið fyrir hendi.
Hækkanir á launum stefnanda hafi verið talsvert yfir lágmarkshækkunum kjarasamnings stéttarfélags hans. Ráðningarsamningur stefnanda hafi þannig ekki rýrt rétt hans í heild samkvæmt kjarasamningi, heldur þvert á móti. Líta verði heildstætt á kjör stefnanda hjá stefnda í þessu samhengi og gæta þess að hömlur á samningsfrelsi aðila á almennum vinnumarkaði þurfi að vera skýrar.
Með launahækkunum umfram lágmark sé komið út fyrir svið kjarasamnings, þar sem ákveðin séu lágmarkskjör launþega. Sé samkvæmt því ekki unnt að fallast á þá skýringu stefnanda, að í kjarasamningnum felist að greiða þurfi kjarasamningsbundnar launahækkanir umfram kjör sem séu betri en kjarasamningur kveður á um.
Komi þetta fram í kjarasamningnum sjálfum þar sem mælt er fyrir um að hann raski ekki ákvæðum í gildandi ráðningarsamningum um betri réttarstöðu en felast í ákvæðum kjarasamningsins.
Ágreiningur aðila um fjárhæð orlofs leiði af ágreiningi þeirra um kjarasamningsbundnar hækkanir launa. Á grundvelli sömu málsástæðna og greinir að framan hafnar stefndi því að útreikningur hans á uppsöfnuðu orlofi stefnanda hafi verið rangur vegna þess að hann taki ekki tillit til kjarasamningsbundinna hækkana.
- Greiðsla orlofs vegna 25% lengingar orlofs
Ekki sé stoð fyrir kröfu stefnanda um greiðslur vegna 25% lengingar orlofs.
Heimilt sé að víkja frá ákvæðum 4. gr. laga nr. 30/1987 um skiptingu orlofs að öðru leyti en því að orlofi skuli alltaf lokið fyrir lok orlofsársins. Fjölmargar ástæður geti verið fyrir því að launþegi og vinnuveitandi vilja haga orlofstöku á annan hátt en mælt sé fyrir um í lögunum. Sé alvanalegt að orlof sé ekki veitt í einu lagi heldur í hlutum og að nokkru eða mestu leyti utan hefðbundins orlofstímabils.
Sá hluti orlofs sem tekinn sé utan orlofstímabils skuli því aðeins lengjast um 25% að orlofið sé tekið utan orlofstímabilsins að ósk atvinnurekanda. Þetta skilyrði verði ekki skilið öðruvísi en svo að frumkvæði að slíkri tilhögun orlofs komi frá atvinnurekanda. Sé ósannað að það hafi verið að ósk eða kröfu stefnda sem samkomulag hafi verið með aðilum um að stefnandi færi í orlof utan orlofstímabilsins 2. maí til 15. september 2008. Sé kröfu stefnanda því mótmælt.
Við ráðningarslit skal vinnuveitandi greiða launþega öll áunnin orlofslaun. Áunnin orlofslaun ákvarðist í samræmi við áunninn orlofsrétt á næstliðnu orlofsári. Orlofsárið sé frá 1. maí til 30. apríl. Leiði af eðli máls að ekki geti legið víst fyrir, fyrr en að orlofstímabili liðnu, hve stór hluti sé tekinn utan orlofstímabils. Geti réttur til lengingar orlofs skv. 4. gr. laga nr. 30/1987 talist áunnið orlof megi ljóst heita að það ávinnist ekki á orlofsárinu á undan heldur við það að ákvörðun um tilhögun orlofs komi til framkvæmda og réttur samkvæmt nefndri 4. gr. verði virkur.
Orlofsréttur sá sem stefnandi telur sér bera á grundvelli hins frávíkjanlega lagaákvæðis hafi samkvæmt ofangreindu ekki orðið til á næstliðnu orlofsári. Þannig teljist sú lenging sem hann krefst ekki til áunnins orlofs á orlofsárinu 1. maí 2007 til 30. apríl 2008. Bar stefnda því ekki að reikna þá lengingu á orlofi stefnanda til orlofslauna við ráðningarslit.
- Ógreidd fjárhæð vegna aksturs
Kröfu um greiðslu vegna aksturs til viðbótar orlofi sem greitt var út við starfslok sé alfarið hafnað.
Greiðsla vegna aksturs heyri ekki til mánaðarlauna stefnanda heldur sé sú greiðsla sérstaks eðlis. Greiðsla vegna aksturs sé í eðli sínu greiðsla á kostnaði vegna notkunar á eigin bifreið í starfi. Á meðan stefnandi sé í orlofi notar hann bíl sinn ekki í starfi og á því ekki tilkall til greiðslu vegna aksturs fyrir það tímabil.
Þessu til frekari rökstuðnings megi nefna að til að mynda greiðist ekki iðgjald í lífeyrissjóð af bílapeningum og við álagningu kemur til frádráttar tekjuskatti tiltekið kílómetragjald margfaldað með fjölda kílómetra sem eknir voru á tekjuárinu. Það sé því ljóst að krafa þessi standist ekki skoðun.
Varakrafa stefnda um lækkun styðjist við sömu málsástæður og aðalkrafa stefnda. Vísast því til aðalkröfunnar að breyttum breytanda.
Niðurstaða
Stefnandi gerir í fyrsta lagi kröfu um greiðslu á kjarasamningsbundnum hækkunum launa fyrir árið 2008. Telur stefnandi að laun sín hafi átt að hækka um 7,5% vegna mánaðanna janúar til júlí 2008. Til viðbótar komi svo kjarasamningsbundin hækkun um 5% frá 1. ágúst 2008 til 31. janúar 2009. Er þessi þáttur kröfugerðar stefnanda að fjárhæð kr. 973.122, eins og rakið hefur verið.
Fyrir dómi hefur stefnandi skýrt frá því að umsamin mánaðarlaun hans hafi verið heildarlaun, ekki hafi verið greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Launahækkanir hafi verið umsamdar hverju sinni og kveðst stefnandi hafa litið svo á að þær hækkanir sem hann fékk fælu einnig í sér hækkanir sem hann hafi átt rétt á samkvæmt kjarasamningi. Þær launahækkanir sem stefnandi gerir kröfu um eru byggðar á kjarasamningi milli Félags ráðgjafarverkfræðinga og Stéttarfélags verkfræðinga og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands.
Samkvæmt framlagðri launatöflu liggur fyrir að laun stefnanda á starfstímabili hans hjá stefnda hafa hækkað á hverju ári frá árinu 2001 til 2007, síðast með þeirri launahækkun sem stefnandi fékk í nóvember 2007. Um þessar launahækkanir var samið hverju sinni, en ekkert samkomulag lá fyrir um það með hvaða hætti launin ættu að hækka á starfstímanum, eins og stefnandi skýrði sjálfur frá í aðilaskýrslu sinni. Eins og stefndi bendir á voru umsamdar launahækkanir stefnanda á starfstímabili hans hjá stefnda meiri en kjarasamningsbundnar hækkanir launa á sama tíma samkvæmt þeim kjarasamningi sem stefnandi miðar við. Starfskjör stefnanda voru því ekki lakari en kjarasamningurinn kvað á um, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Verður því ekki fallist á að stefnandi hafi átt rétt til sérstakra launahækkana umfram það sem um var samið milli aðila. Verður því að hafna kröfu stefnanda um greiðslu á kjarasamningsbundnum hækkunum launa fyrir árið 2008.
Krafa stefnanda um greiðslu til leiðréttingar á uppgjöri vegna uppsafnaðs orlofs að fjárhæð kr. 227.074 er leidd af framangreindri kröfu hans um greiðslu á kjarasamningsbundnum hækkunum launa fyrir árið 2008, sem hefur verið hafnað. Verður því einnig að hafna kröfu hans um greiðslu orlofs.
Stefnandi gerir í þriðja lagi kröfu um greiðslu vegna þess hann hafi ekki fengið greidda 25% lengingu uppsafnaðs orlofs. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 30/1987 um orlof skal sá hluti orlofsins, sem tekinn er utan orlofstímabilsins lengjast um ¼ ef orlof er tekið utan orlofstímabilsins að ósk atvinnurekanda. Gegn andmælum stefnda er ósannað að stefnandi hafi tekið orlof utan orlofstímabils samkvæmt ósk stefnda. Verður þessari kröfu stefnanda því einnig hafnað.
Stefnandi gerir í fjórða lagi kröfu um greiðslu vegna áunnins orlofs af greiðslum fyrir akstur. Samkvæmt framlögðum launaseðlum fékk stefnandi fasta greiðslu mánaðarlega fyrir akstur, kr. 80.000. Greiðsla vegna aksturs er í eðli sínu greiðsla á útlögðum kostnaði vegna notkunar á eigin bifreið í starfi. Slíkar greiðslur eru ekki laun í skilningi 1. gr. laga nr. 30/1980 um orlof. Þessi krafa stefnanda á ekki við rök að styðjast og er henni hafnað.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en málskostnaður verður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Ístak hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Viðars Austmann Jóhannssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.