Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Ölvunarakstur


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. september 2000.

Nr. 341/2000.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

Gunnlaugi Viðari Sigurmundssyni

(Tryggvi Agnarsson hdl.)

                                     

Kærumál. Gagnaöflun. Ölvunarakstur.

G var ákærður fyrir ölvunarakstur. Reyndist vínandamagn í blóðsýni vera 1,51‰. Fyrir héraðsdómi neitaði G sök og óskaði eftir því að rannsókn á vínandamagni í blóðsýni yrði endurtekin. Var orðið við þeirri ósk og sýndi ný rannsókn sömu niðurstöðu og sú fyrri. Óskaði G þá eftir því að gerð yrði DNA rannsókn á blóðsýninu til að staðreyna hvort það væri úr honum. Héraðsdómari varð ekki við beiðni G og kærði hann ákvörðunina. Talið var að ekki væru efni til að hnekkja mati héraðsdómara um að frekari rannsókn væri ekki nauðsynleg til skýringa á málinu, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Var ákvörðun hans því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. september sl. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2000, þar sem héraðsdómari hafnaði að beina til sóknaraðila samkvæmt kröfu varnaraðila að fram færi DNA rannsókn á blóðsýni úr varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að leggja fyrir sóknaraðila að láta umrædda rannsókn fara fram. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt síðdegis 5. desember 1999 að hugsanlegt væri að ökumaður nánar tiltekinnar bifreiðar, sem væri á leið suður Lönguhlíð í Reykjavík í átt að Miklubraut, væri ölvaður. Fóru lögreglumenn á vettvang og komu að bifreiðinni, þar sem henni hafði verið lagt í húsagötu við Miklubraut. Reyndist ökumaður hennar vera varnaraðili. Samkvæmt lögregluskýrslu lagði talsverðan áfengisþef frá varnaraðila, sem var látinn „blása í áfengistest sem sýndi 3. stig.“ Var varnaraðili í kjölfarið færður fyrir lögregluvarðstjóra. Um handtöku varnaraðila voru skráðar upplýsingar á þar til gerðu eyðublaði. Var þar meðal annars fært í viðeigandi reiti að sjáöldur væru útvíkkuð, jafnvægi væri stöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt, en um nánari lýsingu á ástandi sagði að varnaraðili væri sjáanlega ölvaður. Hafði varnaraðili símsamband við lögmann af lögreglustöðinni, en var síðan færður til blóðsýnistöku. Að henni lokinni fór hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt álitsgerð Rannsóknastofu í lyfjafræði 8. desember 1999 reyndist vínandamagn í blóðsýni vera 1,51 o/oo.

Lögreglustjórinn í Reykjavík gaf út ákæru 4. apríl 2000 á hendur varnaraðila, þar sem honum var gefið að sök að hafa með akstri sínum umrætt sinn brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Málið var þingfest 10. maí 2000. Ákærði kom þá fyrir dóm, honum var skipaður verjandi og neitaði hann sakargiftum. Í þinghaldi í málinu 24. sama mánaðar óskaði verjandi eftir að rannsókn á vínandamagni í blóðsýni yrði endurtekin og var orðið við þeirri ósk. Ný álitsgerð Rannsóknastofu í lyfjafræði var fengin 8. júní 2000 og komist þar að sömu niðurstöðu og í áðurnefndri álitsgerð um vínandamagn í blóðsýni. Var nýja álitsgerðin lögð fram á dómþingi 3. júlí 2000 og kom þá fram ósk varnaraðila um að gerð yrði DNA rannsókn á umræddu blóðsýni til að staðreyna hvort það væri úr honum. Ósk þessi var ítrekuð þegar málið var næst tekið fyrir á dómþingi 31. ágúst 2000. Var þá fært til bókar að sóknaraðili teldi gögn málsins ekki gefa tilefni til slíkrar rannsóknar, sem hann myndi því ekki hlutast til um. Krafðist þá verjandi varnaraðila þess að héraðsdómarinn beindi því til sóknaraðila með vísan til 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 að láta rannsóknina fara fram. Tók dómarinn þá afstöðu til kröfunnar að hann teldi ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til rannsóknarinnar og myndi hann því ekki „beina slíkri áskorun til ákæranda“, eins og segir í endurriti úr þingbók. Er þetta hin kærða ákvörðun.

II.

Eins og áður greinir neitaði sóknaraðili á dómþingi 31. ágúst 2000 að verða við ósk varnaraðila um að ákæruvaldið hlutist til um DNA rannsókn á blóðsýninu, sem um ræðir í málinu. Með þessu hefur sóknaraðili fyrir sitt leyti markað málinu þá stefnu að úrlausn um sakargiftir á hendur varnaraðila megi ráðast af mati dómara á því hvort nægilega sé sannað að fyrirliggjandi mæling á vínandamagni hafi verið gerð á blóðsýni úr varnaraðila, án þess að umrædd rannsókn fari fram á sýninu. Úr þessu verður héraðsdómari að leysa með tilliti til ákvæða 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Með hinni kærðu ákvörðun hefur héraðsdómari látið í ljós að hann telji ekki á þessu stigi frekari rannsókn nauðsynlega til skýringar á málinu, sbr. 3. mgr. 128. gr. sömu laga. Eru engin efni til að hnekkja því mati. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, eins og þeim var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2000.

        Fyrir er tekið: Sakamálið nr. 637/2000: Ákæruvaldið gegn Gunnlaugi Viðari Sigurmundssyni

          Af hálfu ákæruvaldsins sækir þing  Sturla Þórðarson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

          Ákærði Gunnlaugur Viðar Sigurmundson, kt. 090152-4679, Miklubraut 78, Reykjavík er mættur og með honum Tryggvi Agnarsson hdl., skipaður verjandi hans.

          Verjandi ákærða ítrekar ósk sína um að fram fari DNA rannsókn á blóðsýni úr ákærða og blóðsýni því, sem lagt hefur verið til grundvallar í máli þessu, til að staðreyna hvort það sé úr ákærða.  Hann óskar jafnframt eftir því að ákærandi hlutist til um rannsókn þessa.

          Fulltrúi ákæruvaldsins kveður gögn málsins ekki gefa tilefni til þess að fyrrgreind DNA-rannsókn fari fram og lýsir því yfir að ákærandi muni ekki óska eftir slíkri rannsókn.

          Verjandi óskar þá eftir að dómari beini því til ákæranda að hlutast til um rannsókn þessa, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991.  Dómari lýsir því yfir að hann telji ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til þess og muni hann því ekki beina slíkri áskorun til ákæranda.

          Verjandi lýsir því yfir að hann kæri ákvörðun dómara til Hæstaréttar í því skyni að hún verði felld úr gildi og dómara verði gert skylt að beina því til ákæranda að það hlutist til um umbeðna DNA rannsókn, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991.

          Málinu er frestað þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir í málinu.