Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2016
Lykilorð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 103.019.818 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi er mál þetta sprottið af samningi 24. nóvember 2006 um lán frá Kaupþingi banka hf. til Þreks Holding ehf. að fjárhæð 10.215.000 danskar krónur bundið gengi tveggja annarra erlendra gjaldmiðla. Til tryggingar láninu gengust málsaðilar ásamt Birni Kr. Leifssyni og Sportfitness ehf. í óskipta sjálfskuldarábyrgð. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var lánssamningnum ráðstaðfað til Arion banka hf., sem þá hét Nýi Kaupþing banki hf. Sá banki framseldi síðan kröfuna með samningi 1. október 2009 til ALMC hf., sem þá hét Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf.
Samkvæmt lánssamningnum átti að endurgreiða lánið með einni greiðslu 26. nóvember 2007. Með skilmálabreytingum sem samþykktar voru af þeim sem tekist höfðu á herðar ábyrgð á láninu var greiðslu þess frestað þrívegis, en samkvæmt þeirri síðustu átti að endurgreiða lánið 20. júlí 2009. Með bréfi ALMC hf. 13. október það ár var Þrek Holding ehf. tilkynnt að lánið væri fallið í gjalddaga og að það hefði verið umreiknað í íslenskar krónur samkvæmt heimild í samningnum. Afrit af þessu bréfi var sent til þeirra sem gengist höfðu í ábyrgð fyrir láninu.
Með úrskurði 12. janúar 2010 var bú áfrýjanda tekið til gjaldþrotaskipta. ALMC hf. lýsti tveimur kröfum í búið og var önnur þeirra vegna umrædds lánssamnings. Í kröfulýsingunni nam fjárhæð kröfunnar 309.059.454 krónum með áföllnum dráttarvöxtum frá 13. október 2009 til úrskurðardags. Af hálfu þrotabúsins var krafan samþykkt eins og henni var lýst.
Samkvæmt samningi um uppgjör kröfuréttinda 22. desember 2012 keypti Laugar ehf., sem mun vera systurfélag áfrýjanda, allar kröfur ALMC hf. á hendur áfrýjanda, Þrek Holding ehf. og fyrrgreindum Birni Kr. Leifssyni. Kaupverð þessara krafna nam 350.000.000 króna og fékk kaupandi lán fyrir öllu kaupverðinu frá seljanda með lánssamningi sem gerður var samhliða. Fyrir því láni voru settar ýmsar tryggingar þar á meðal var veitt veð í þeim kröfum sem ráðstafað var til Lauga ehf.
Skiptastjóri í þrotabúi áfrýjanda lauk skiptum þess 30. ágúst 2013 á grundvelli 2. mgr. 154. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem allar kröfur í búið hefðu verið afturkallaðar.
Hinn 24. október 2013 höfðaði Laugar ehf. mál á hendur stefnda og Sportfitness ehf. til heimtu greiðslu á lánssamningnum 24. nóvember 2006 á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra. Það mál var fellt niður 22. janúar 2014 en í kjölfarið var mál þetta höfðað á hendur stefnda 26. mars sama ár. Bú Sportfitness ehf. hafði þá verið tekið til gjaldþrotaskipta 7. þess mánaðar en það mun hafa verið eignalaust.
II
Áfrýjandi byggir málsókn sína á því að hann hafi á grundvelli ábyrgðar sinnar greitt kröfu samkvæmt lánssamningnum 24. nóvember 2006 að fjárhæð 309.059.454 krónur. Af þeim sökum geti hann beint endurkröfu sinni að stefnda sem jafnframt hefði gengist í ábyrgð fyrir greiðslu lánsins.
Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar gildir sú regla, þegar skuldarar kröfu eru fleiri en einn, að sá þeirra sem innir af hendi greiðslu til kröfuhafa öðlast endurkröfu á hendur samskuldurum sínum eftir innbyrðis réttarsambandi þeirra. Ef slík krafa verður höfð uppi stofnast hún fyrst við greiðslu skuldara til kröfuhafa.
Í stefnu til héraðsdóms kom það eitt fram að með samkomulagi áfrýjanda, Lauga ehf. og Björns Kr. Leifssonar annars vegar og ALMC hf. hins vegar hefði verið gengið frá uppgjöri af hálfu áfrýjanda á skuld samkvæmt lánssamningnum. Þannig var efni þess samkomulags ekki lýst nánar svo og hvernig áfrýjandi stóð skil á greiðslum eftir því þannig að endurkrafa stofnaðist á hendur stefnda. Var þó beint tilefni til að lýsa aðild áfrýjanda nánar í ljósi þess að Laugar ehf., sem fékk kröfu samkvæmt lánssamningum framselda, hafði skömmu áður höfðað mál á hendur stefnda þar sem byggt var á því að skuldin væri að öllu leyti ógreidd. Þessi vanreifun var svo veruleg að úr henni varð ekki bætt undir rekstri málsins og skiptir því ekki máli þótt síðar hafi verið bent á að krafan hafi í öllu falli verið greidd að hluta með tilteknum skuldajöfnuði milli áfrýjanda og Lauga ehf. og greiðslu frá þrotabúi áfrýjanda til ALMC hf., sem komið hafi til lækkunar á skuld Lauga ehf. við það félag. Samkvæmt þessu voru slíkir annmarkar á málatilbúnaði áfrýjanda í öndverðu að vísa verður málinu frá héraðsdómi.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi, ÞS69 ehf., greiði stefnda, Guðmundi Ágústi Péturssyni, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2015.
Mál þetta var höfðað 26. mars 2014 og dómtekið 5. nóvember 2015.
Stefnandi er ÞS 69 ehf., Sundlaugavegi 30a, Reykjavík.
Stefndi er Guðmundur Ágúst Pétursson, Melahvarfi 9, 203 Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 103.019.818 kr., með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2013 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 77.264.863 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Málavextir
Málavextir eru þeir að árið 2006 stofnuðu Björn Leifsson, fyrirsvarsmaður stefnanda og stefndi Guðmundur Ágúst Pétursson, þá fyrirsvarsmaður Sportfitness ehf., Þrek Holding ehf. Stefnandi hét á þessum tíma Þrek ehf. en með tilkynningu til fyrirtækjaskrár 1. október 2009 var nafninu breytt í ÞS69 ehf. Félögin Þrek ehf. og Sportfitness ehf. áttu jafnan hlut í Þreki Holding ehf.
Þann 24. nóvember 2006 tók Þrek Holding ehf. skuldabréfalán að fjárhæð 10.215.000 DKK hjá Kaupþingi banka hf., síðar Arion banka hf., í þeim tilgangi að kaupa danskt líkamsræktarfyrirtæki, Equinox. Tóku Björn og Guðmundur svo og félög þeirra Þrek ehf. og Sportfitness ehf., á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldinni gagnvart bankanum. Gjalddagi lánsins var 26. nóvember 2007 en vexti skyldi greiða á sex mánaða fresti. Lánstíminn var framlengdur vegna greiðsluörðugleika Þreks Holding ehf., og nýr gjalddagi ákveðinn 26. nóvember 2008. Þá var lánstíminn í tvígang framlengdur af Arion banka hf., með samþykki allra hlutaðeigandi, síðast til 20. júlí 2009 sem taldist þá nýr gjalddagi.
Þann 1. október 2009 seldi Arion banki hf., þá Nýi Kaupþing banki hf., Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf., lánssamninginn sem í framhaldinu gerði kröfu um greiðslu lánsins. Þrek Holding ehf. var tilkynnt samdægurs um kröfuhafaskiptin í samræmi við ákvæði í lánssamningnum. Afrit var sent til sjálfskuldarábyrgðaraðila.
Fyrir liggur að krafist var kyrrsetningar á eigum stefnanda 10. nóvember 2009 og var sú gerð árangurslaus. Í kjölfarið, eða þann 18. nóvember 2009, krafðist Straumur-Burðarás hf. gjaldþrotaskipta á búi stefnanda og var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur kveðinn upp 12. janúar 2010 þar sem krafan var tekin til greina. Félagið lýsti kröfu í búið vegna lánssamningsins frá 24. nóvember 2006 að fjárhæð 295.506.630 krónur auk dráttarvaxta frá 13. október 2009 til 12. janúar 2009, samtals 13.552.825 krónur. Var krafan samþykkt sem almenn krafa að fjárhæð 309.059.454 krónur.
Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. var í slitameðferð á þeim tíma er hann tók yfir lánssamninginn frá 24. nóvember 2006. Félagið fékk síðar nafnið ALMC hf. Þann 22. desember 2012 var gerður samningur um uppgjör kröfuréttinda á milli ALMC hf., Lauga ehf., systurfélags stefnanda, og Björns Kr. Leifssonar. Með samningum keypti Laugar ehf. allar kröfur og kröfuréttindi, þ.m.t. tryggingarréttindi sem ALMC hf. átti á hendur stefnanda og á hendur Þreki Holding ehf. og Birni. Tók samningurinn til umræddrar kröfu sem lýst hafði verið í þrotabú stefnanda. Segir í inngangi samningsins að með samningnum sé ætlun samningsaðila að jafna allan ágreining þeirra á milli eins og nánar greini í samningnum.
Kaupverð hins selda var 350.000.000 króna. Samhliða ofangreindum samningi veitti ALMC ehf. Laugum ehf. lán til kaupanna með sjálfskuldarábyrgð Björns, sem var framkvæmdastjóri og einn eigenda Lauga ehf. Til tryggingar skilvísum og réttum efndum lánssamningsins veitti Laugar ehf. ALMC ehf. ýmsar tryggingar, m.a. veð í hinum framseldu kröfum samkvæmt kaupsamningnum.
Þann 21. janúar 2013 var gert samkomulag á milli stefnanda, Lauga ehf., ALMC ehf. og Björns um afturköllun krafna Lauga ehf. á hendur þrotabúi stefnanda. Í samkomulaginu er bókun þar sem fram kemur að í tengslum við afturköllun krafna skuli skiptastjóri stefnanda framselja allar eignir búsins til ALMC hf. eftir nánari fyrirmælum félagsins. Segir að öllum peningum sem til séu á reikningum þrotabúsins skuli ráðstafað inn á tilgreindan reikning í eigu ALMC hf.
Gjaldþrotaskiptum í búi stefnanda lauk þann 30. ágúst 2013 með vísan til 2. mgr. 154. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en fyrir liggur staðfesting skiptastjóra um skiptalok og að allar kröfur í þrotabúið hefðu verið afturkallaðar.
Í fyrirtækjaskrá segir að Þrek Holding ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 22. janúar 2014. Þá segir að félagið Sportfitness hafi verið úrskurðað gjaldþrota 16. apríl 2014.
Kröfu stefnda um frávísun málsins var hafnað með úrskurði þann 18. desember 2014.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir málssókn sína á þeirri málsástæðu að vegna greiðslu hans á kröfu samkvæmt lánasamningnum að fjárhæð 309.059.454 krónur eigi hann rétt til endurgjalds úr hendi annarra ábyrgðarmanna lánasamningsins. Beini hann kröfu sinni að stefnda sem sé einn af fjórum sjálfskuldarábyrgðaraðilum lánssamningsins.
Fjárhæð aðalkröfunnar byggir á því að vegna gjaldþrots sjálfskuldarábyrgðaraðilans Sportfitness ehf. geti stefnandi krafið stefnda um 103.019.818 krónur, sem svarar til 1/3 þeirrar fjárhæðar sem stefnandi hafi greitt sem sjálfskuldarábyrgðaraðili.
Fjárhæð varakröfunnar 77.264.863 krónur byggir á því að stefndi beri að lágmarki ábyrgð á fjórðungi kröfunnar, sem stefnandi hafi greitt sem sjálfskuldarábyrgðaraðili.
Stefnandi gerir kröfu um að sú endurgreiðslukrafa sem dæmd verði beri dráttarvexti frá þeim tíma sem stefnandi gekk frá uppgjöri lánasamningsins þann 30. ágúst 2013 er voru skiptalok hjá stefnanda.
Stefnandi byggir málssókn sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um að gerða samninga beri að efna. Byggir stefnandi á reglum kröfuréttar um hlutfallslega ábyrgð sjálfskuldarábyrgðaraðila innbyrðis.
Fyrningarfrestur krafna samkvæmt lánssamningum sé 10 ár sbr. 2. tölulið 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Fyrningu hafi verið slitið gagnvart stefnanda með kröfulýsingu í þrotabú hans sbr. 6. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og 13. gr. lag nr. 14/1905.
Endurgjaldskrafa ábyrgðarmanns lánasamnings sé dómtæk eins lengi og innleysta krafan hefði verið sbr. lokamálslið 4. töluliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi raunverulega greitt réttmætum eiganda kröfuréttindanna skuld samkvæmt lánssamningnum. Hann hafi ekki lagt fram neinar kvittanir eða gögn sem staðfesti greiðslu sína á kröfunni. Geti hann því ekki krafið stefnda, sem meintan meðábyrgðarmann sinn, um greiðslu til uppgjörs þeirra á milli. Í þessu sambandi sé einnig vísað til þess að í gögnum komi fram að lánssamningurinn sé af hálfu Lauga ehf. veðsettur ALMC hf. og því ljóst að stefnandi hafi ekki greitt hann og því ekki innleyst hann og geti því þegar af þeirri ástæðu ekki krafið stefnda sem meðábyrgðarmann um greiðslu.
Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fyrnd eftir lögum nr. 14/1905. Meint krafa stefnanda á hendur stefnda sé vegna ábyrgðarskuldbindingar og fyrnist hún á fjórum árum skv. 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905. Krafa samkvæmt þeim lánssamningi sem stefnandi telji sig hafa leyst til sín hafi verið gjaldkræf hinn 26. nóvember 2007. Meint krafa samkvæmt lánssamningnum á hendur stefnda hafi því fyrnst fjórum árum síðar, eða hinn 20. júlí 2013, enda hafði eigandi kröfunnar ekki rofið fyrningartímann með málssókn á hendur stefnda skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905. Þegar stefnandi telur sig hafa innleyst kröfuna hinn 30. ágúst 2013 hafi krafan því þegar verið fallin niður á hendur stefnda fyrir fyrningu og verði því ekki endurvakin á hendur honum enda hafi hann ekki lengur verið meðábyrgðarmaður stefnanda. Sé stefnanda einn kostur að gera kröfu á grundvelli 14. gr. laga nr. 14/1905 en það hafi hann ekki gert.
Laugar ehf., sem sé systurfélag stefnanda, telji sig hafa eignast allar kröfur á hendur Þreki Holding ehf., samkvæmt framangreindum lánssamningi, útg. 24. nóvember 2006, og þar með á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnum. Laugar ehf. hafi eignast hina meintu kröfu á hendur stefnda á grundvelli lánssamningsins en ekki með því að innleysa kröfuna, sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Hafi Laugar ehf. af þeim sökum þurft að hlíta því að hin meinta krafa hafi fyrnst á hendur stefnda hinn 20. júlí 2013 með sama hætti og framseljandinn, ALMC ehf., enda ljóst að framsalshafi kröfu öðlist ekki betri rétt en framseljandinn átti.
Jafnframt byggir stefndi á því að Laugum ehf. hafi verið óheimilt að eignast kröfur samkvæmt lánssamningnum fyrir framsal frá ALMC hf. þar sem því fjármálafyrirtæki hafi verið óheimilt að framselja meint réttindi sín til annarra en fjármálafyrirtækja án samráðs eða samþykkis lántakans Þreks Holding ehf. skv. greinum 15.1 og 15.2 í lánssamningnum.
Þá telur stefndi að stefnandi hafi ekki getað eignast kröfu á hendur stefnda á grundvelli lánssamningsins vegna þess að meint sjálfskuldarábyrgð stefnda hafi fallið niður við framsal Arion banka hf. á lánssamningnum til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. þar sem sjálfskuldarábyrgð stefnda hafi eingöngu verið bundin við ábyrgð gagnvart Kaupþingi banka hf. samkvæmt grein 5.1 í lánssamningnum og bankanum því óheimilt að framselja réttindi sín til sjálfskuldarábyrgðarinnar.
Stefndi byggir jafnframt á því að sérstakt samkomulag hafi verið gert með Arion banka hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. í tengslum við framsal kröfuréttinda samkvæmt lánssamningnum um haustið 2009 um að stefndi stæði ekki lengur í sjálfskuldarábyrgð á skuld Þreks Holding ehf. Sé ljóst að stefnandi geti ekki öðlast betri rétt á hendur stefnda við framsal lánssamningsins frá ALMC hf. til Lauga ehf. en þessi viðsemjandi hans eða fyrri kröfuhafar lánssamningsins hafi átt á hendur stefnda á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um um framsal þeirra.
Að endingu byggir stefndi kröfu sína um sýknu á því að ógilda beri sjálfskuldarábyrgð stefnda á lánssamninginn með vísun til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936., sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Vísar stefndi sérstaklega til ákvæðis til bráðabirgða í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og byggir á því að ástæða þess að aðalskuldari lánssamningsins, Þrek Holding ehf. hafi lent í greiðsluþroti hafi verið vegna atvika er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Enn fremur er vísað til þess að dómur verði að líta til þeirra atvika sem komu til eftir gerð lánssamningsins sem eingöngu tengist uppgjöri félaga í eigu Björns Leifssonar og lýst sé í stefnu.
Stefndi krefst þess til vara að krafa stefnanda verði lækkuð og taki einungis mið af höfuðstól lánssamningsins eins og hann hafi verið í íslenskum krónum á útborgunardegi lánsins. Stefnandi hafi ekki lagt fram útreikninga er sýni fjárhæð kröfu hans í tengslum við þær skuldbindingar til greiðslu fjármuna sem formlega séð verði lesnar úr lánssamningnum og framlögðum viðaukum. Ekki nægi að vísa til þess að Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. hafi reiknað kröfuna yfir í íslenskar krónur á árinu 2009 og krafist greiðslu á þeim grundvelli. Sé jafnframt á því byggt að lánssamningurinn hafi í upphafi eða síðar, vegna viðauka við hann, verið ólöglega tengdur við gengi erlendra gjaldmiðla með þeim hætti að ógilda beri greiðsluskuldbindingu sjálfskuldarábyrgðarmanna sem þannig er tengd öðrum gjaldmiðlum en íslenskri krónu, sbr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
IV.
Niðurstaða
Stefnandi telur sig eiga endurgjaldskröfu á hendur stefnda, sem var einn sjálfskuldarábyrgðaraðila lánssamnings frá 24. nóvember 2006, en efni samningsins var rakið í kaflanum um málavexti. Byggir stefnandi kröfu sína á hendur stefnda á því að hann hafi greitt kröfu samkvæmt lánssamningnum að fjárhæð 309.059.454 krónur en það samsvari fjárhæð lýstrar kröfu Straums-Burðaáss fjárfestingarbanka hf., síðar ALMC hf., í bú stefnanda og samþykkt var sem almenn krafa.
Eins og fram hefur komið keypti Laugar ehf. allar kröfur ALMC hf. á hendur þrotabúi stefnanda með samningi um uppgjör kröfuréttinda 22. desember 2012, þar á meðal kröfur á hendur Þreki Holding ehf., sem var aðalskuldari samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi. Í ákvæði 15.1 í lánssamningnum er tekið fram að lánveitandi hafi heimild til að framselja lánið til þriðja aðila, án samráðs eða samþykkis lántaka.
Það er meginregla að ábyrgðir og tryggingar fylgi kröfuframsali nema annað sé sérstaklega tekið fram. Það var ekki gert og verður því ekki fallist á það með stefnda að leiða megi af ákvæðum lánssamningsins að sjálfskuldarábyrgðir hafi verið undanskildar framsalinu.
ALMC hf. lagði til lánsfé til kaupanna samkvæmt ofangreindum samningi frá 22. desember 2012 og öðlaðist veð í framseldum kröfum samkvæmt honum. Aðili að þeim samningi var m.a. Björn Kr. Leifsson, fyrirsvarsmaður stefnanda.
Með samkomulagi á milli Lauga ehf., ALMC hf., stefnanda og Björns frá 21. janúar 2013 var bókað um „afturköllun krafna“ Lauga á hendur stefnanda. Uppgjör allra annarra krafna sem lýst hafði verið í bú stefnanda fór einnig fram og lauk skiptum 30. ágúst 2013.
Eftir að samkomulag þetta lá fyrir höfðaði Laugar ehf. mál þann 24. október 2013 fyrir héraðsdómi Reykjavíkur, nr. E-4363/2013, á hendur stefnda og félagi hans Sportfitness ehf. sameiginlega til greiðslu 295.506.630 króna auk dráttarvaxta, á þeim grunni að félagið væri réttur eigandi þeirra krafna samkvæmt lánssamningnum frá 24. nóvember 2006. Það mál var fellt niður 22. janúar 2014 og var bókað að stefnandi félli frá málssókn að svo stöddu en boðaði nýja málshöfðun. Mál þetta var höfðað rúmum tveimur mánuðum síðar. Við munnlegan málflutning fyrir dómi nú komu ekki fram skýringar á hinni breyttu aðild aðrar en þær að stefnandi teldi sig hafa greitt kröfuna samkvæmt lánssamningnum frá 24. nóvember 2006 og ætti því endurgjaldskröfu á hendur stefnda.
Stefnandi styður kröfu sína á hendur stefnda við samkomulagið frá 21. janúar 2013. Bendir hann á að hann hafi gert upp við kröfuhafa sína, m.a. Laugar ehf., og fengið búið afhent frá skiptastjóra í kjölfarið. Hafi stefnandi þannig innleyst kröfuna við skiptalok og fengið í hendur frumrit lánssamningsins sem sönnun þess.
Hér er þess þó fyrst að geta að þetta er ekki í samræmi við yfirlýsingu ALMC hf., sem er dagsett talsvert löngu eftir samkomulagið frá 21. janúar 2013 eða þann 24. september 2013. Yfirlýsing þessi, sem er á meðal gagna málsins, var lögð fram í máli E-4363/2013. Þar er staðfest að krafa samkvæmt lánssamningi frá 24. nóvember 2006 hafi verið framseld Laugum en jafnframt veðsett ALMC hf., eins og nánar greinir í samningi um uppgjör kröfuréttinda frá 21. desember 2012. Því verður aðild stefnanda að stefnukröfunni ekki byggð á samkomulaginu frá 21. janúar 2013 án frekari skýringa.
Í annan stað er það skilyrði endurkröfuréttar stefnanda á hendur stefnda að hann sýni fram á að hann hafi greitt skuld samkvæmt lánssamningnum frá 24. nóvember 2006 eða hafi með öðrum hætti fengið kröfuna framselda frá réttum eiganda hennar. Kröfuhafi skuldarinnar samkvæmt samningi frá 22. desember 2012 var Laugar ehf., sem rúmu ári síðar afturkallaði kröfur sínar á hendur stefnanda, sem þá var undir gjaldþrotaskiptum. Verður hvorki á það fallist að í afturkölluninni einni sér geti falist greiðsla skuldar í ofangreindum skilningi né annað framsal án nánari skýringa eða viðbótargagna.
Með úrskurði 18. desember 2014 hafnaði dómari kröfu stefnda um frávísun málsins. Í úrskurðinum kemur fram að stefndi vefengi að stefnandi eigi í reynd þá endurgjaldskröfu sem hann hafi uppi á hendur stefnda og hefur ekki verið fallið frá þeirri málsástæðu. Taldi dómari að það atriði lyti að sönnun og væri efnisatriði sem ekki leiddi til frávísunar málsins. Væri til þess að líta að stefndi hefði í greinargerð sinni skorað á stefnanda að leggja fram tiltekin gögn því til sönnunar.
Þótt mál þetta sé að ýmsu leyti vanbúið eins og rakið hefur verið stendur þó eftir að stefnandi hefur ekki við frekari rekstur málsins fært sönnur fyrir því að hann eigi þá kröfu sem hann hefur uppi. Hann hefur hvorki lagt fram gögn sem varpa skýru ljósi á aðild hans að málinu né um efni þeirrar endurkröfu sem hann kann að eiga. Skiptir hér máli að hann hefur undir rekstri málsins ekki sinnt áskorunum um framlagningu gagna til þess að upplýsa um framangreind atriði sem fyrr var rakið. Verður því ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilegur, að teknu tilliti til kostnaðar í tengslum við flutning um frávísunarkröfu, 850.000 krónur.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Guðmundur Ágúst Pétursson, er sýknaður af kröfu stefnanda ÞS69 ehf.
Stefnandi skal greiða stefnda 850.000 krónur í málskostnað.