Hæstiréttur íslands

Mál nr. 203/2001


Lykilorð

  • Verksamningur


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001.

Nr. 203/2001.

Fyrirtak ráðgjafarþjónusta ehf.

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

gegn

X-18 hf., The Fashion Group

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Verksamningur.

X hf. óskaði eftir ráðgjöf F ehf. varðandi tölvubúnað. Í verklýsingu F ehf., sem var samþykkt af X hf., kom fram að kostnaður við verkið væri 540.000 krónur án virðisaukaskatts og að nauðsynlegt væri að hafa samráð við alla aðila ef forsendur verksins breyttust. Að verkinu loknu krafðist F ehf. greiðslu á u.þ.b. 300.000 krónum auk virðisaukaskatts til viðbótar framangreindri fjárhæð vegna verkþátta sem félagið taldi að hefði ekki verið gert ráð fyrir í verklýsingu. X hf. taldi sér óskylt að greiða viðbótarfjárhæðina þar sem F ehf. hefði hvorki leitað samþykkis félagsins né haft samráð við það um að bæta við verkþáttum. Talið var að F ehf. hefði ekki sýnt nægilega fram á að umræddir verkþættir féllu utan samnings aðila. Þá væri sannað að X hf. hefði ekki verið gerð grein fyrir því að forsendur verksins hefðu breyst. Því ætti F ehf. ekki kröfu á X hf. umfram þá fjárhæð sem gert væri ráð fyrir í verklýsingu. X hf. var aftur á móti ekki talið geta byggt á óljósri tilgreiningu kostnaðar í tölvubréfi framkvæmdastjóra F ehf. meðal annars vegna þess að fjárhæðum bar ekki saman. Var X hf. gert að greiða F ehf. 540.000 krónur auk virðisaukaskatts að frádreginni þeirri fjárhæð sem félagið hafði þegar innt af hendi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 498.748 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 2. júní 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Fyrirtak ráðgjafarþjónusta ehf., greiði stefnda, X-18 hf., The Fashion Group, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. febrúar s.l., er höfðað með stefnu birtri 3. nóvember s.l.

Stefnandi er Fyrirtak, ráðgjafarþjónusta ehf., kt. 561294-2249, Stórhöfða 15, Reykjavík.

Stefndi er X-18 hf., The Fashion Group, kt. 600298-2759 Fiskislóð 75, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefn­anda kr. 498.748 með dráttarvöxtum af kr. 963.506 frá 2. júní 2000 til 15. október 2000, en af kr. 1.058.998 frá þeim degi til 13. desember 2000 og af stefnu­fjár­hæð frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda í málinu en til vara eru þær kröfur gerðar að dómkröfur stefnanda verði lækk­aðar verulega.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi er ráðgjafarfyrirtæki sem veitir aðstoð við val á tölvu­búnaði fyrir fyrirtæki.  Stefndi leitaði til stefnanda  síðari hluta ársins 1999 um slíka ráðgjöf og samkvæmt verklýsingu fólst þjónusta stefnanda í því að vinna að kort­lagn­ingu á vinnubrögðum og upplýsingaflæði milli stefnda, undirverktaka stefnda, vöru­húsa og sölumanna.  Í framhaldi af því skyldi gerður listi yfir helstu þarfir stefn­anda í upplýsingamálum og jafnframt skyldi stefnandi afla upplýsinga um þau upp­lýs­inga­kerfi sem til sölu væru á íslenskum markaði.  Átti þar að koma fram lýsing á kerf­un­um, verð og tillögur um hvernig staðið skyldi að innleiðingu kerfisins og tíma­áætlun.  Þá skyldi stefnandi aðstoða stefnda við að meta tilboð og velja kerfi.  Þá segir í verklýsingu að framkvæmdaáætlun skyldi endurskoðuð þegar ákvörðun lægi fyrir og tekin skyldi ákvörðun um framhald verkefnisins, þ.e. hvort óskað væri eftir  frekari að­stoð við verkefnastjórnun við innleiðingu kerfisins.  Var að því stefnt að við lok verk­efn­isins lægi fyrir ákvörðun um nýtt upplýsingakerfi ásamt tilboði, fram­kvæmda­áætlun fyrir aðlögun og innleiðingu, ásamt áætluðum kostnaði við hana og var stefnt að því að byrjað yrði að nota hluta af kerfinu um áramótin 1999/2000.

Stefnandi gerði ráð fyrir að verkið tæki hann 108 klukkustundir með 5.000 króna tíma­gjaldi eða samtals kr. 540.000 án virðisaukaskatts.  Í verklýsingu var tekið fram að skilgreining verkefna, gerð tíma- og kostnaðaráætlana skyldi gerð á sameiginlegum fundi fyrirtækis, ráðgjafa og verkefnisstjóra.  Þá var tekið fram að nauðsynlegt væri að hafa samráð við alla aðila ef forsendur verkefnisins breyttust.  Þá var gert ráð fyrir að ráð­gjafi sendi reikning fyrir samþykktum kostnaði til fyrirtækis og verkefnisstjóri fengi afrit af greiddum reikningum frá fyrirtækinu.

Stefndi samþykkti verklýsinguna og á grundvelli hennar óskaði hann eftir fjár­styrk frá Iðntæknistofnun.  Hefur verið upplýst að verkefninu hafi verið veittur styrkur að fjárhæð kr. 98.000 og var gert ráð fyrir að sá kostnaður rynni upp í áætlaðan kostnað við þjónustu stefnanda.

Vinna stefnanda mun hafa leitt til þess að stefndi festi kaup á tiltekinni tegund hug­búnaðar og vélbúnaðar og 2. maí 2000 sendi stefnandi stefnda tvo reikninga vegna vinnu sinnar.  Var annar að fjárhæð kr. 571.953 og er hann sagður vera vegna vinnu við kortlagningu, þarfagreiningu, upplýsingasöfnun og val á tölvukerfi og er hann þannig sundurliðaður að vinna er sögð vera kr. 447.500, ferðir kr. 11.900 og virðis­aukaskattur kr. 112.553.  Hinn reikningurinn er að fjárhæð kr. 391.553 og er sagður vera vegna vinnu við þarfagreiningu fyrir netþjóna og vistun á tölvukerfi 20. janúar til 29. febrúar.  Samkvæmt reikningnum er vinna sögð kr. 307.500, ferðir kr. 7.000 og virðisaukaskattur kr. 77.053.  Þriðji reikningurinn er dagsettur 15. september 2000 og er að fjárhæð kr. 95.492.  Hann er sagður vera vegna vinnu að þarfagreiningu fyrir netþjóna og vistun á tölvukerfi 1. mars til 25. apríl.  Vinna er sögð vera kr. 72.500, ferðir kr. 4.200 og virðisaukaskattur kr. 18.792.

Þar sem stefndi taldi kröfu stefnanda mun hærri en samið hefði verið um greiddi hann ekki reikninga stefnanda en 13. desember s.l. greiddi stefnandi stefnda kr. 560.250 og taldi hann sig ekki skulda stefnanda neitt umfram þá fjárhæð.  Stefnandi mið­aði þessa fjárhæð við upplýsingar sem hann fékk með tölvupósti frá Hauki Alfreðs­syni, fyrirsvarsmanni stefnanda.  Þar kemur fram að upphaflega hafi verið gerð áætlun sem hafi hljóðað á kr. 540.000 án virðisaukaskatts, en kostnaður hafi numið kr. 450.000.  Ákveðið hafi verið að fá aðstoð við að fá tilboð í vélbúnað og síðar vistun og rekstur á öllum hugbúnaði.  Segir í bréfinu að mikil vinna hafi farið í að afla tilboða, fá lækkun á verði, finna ódýrari leiðir, taka inn nýja tækni í sam­skipt­um og toga upp úr Ax upplýsingar um raunverulega vélaþörf o.fl.  Hafi því kostnaður um­fram áætlun numið kr. 235.000, en tekið skal fram að í bréfinu er ýmist talað um að kostnaður vegna upphaflegu áætlunarinnar hafi numið kr. 450.000 eða kr. 460.000  og þá er ýmist talað um að viðbótarkostnaður hafi numið kr. 310.000 eða kr. 315.000.  Greiðsla stefnda 13. desember s.l. er miðuð við að kostnaður vegna umsaminnar þjón­ustu stefnanda hafi numið kr. 450.000 og fjárhæð virðisaukaskatts sé kr. 110.250.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir á framangreindum reikningum og segir stefnda hafa ráðið stefn­anda til aðstoðar við val á hugbúnaði fyrir fyrirtæki sitt.  Upphaflega hafi verið áætlað að kostnaður yrði kr. 540.000 en síðan hafi verið aukið við verkið og endanlegur kostn­aður nemi þeirri fjárhæð er í reikningum greinir.  Við endanlega kröfugerð sé gert ráð fyrir innborgun stefnanda 13. desember s.l. kr. 560.250.

Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um rétt seljanda vöru og þjónustu til að krefjast endurgjalds, sbr. l. nr. 39/1922.  Vaxta­krafa stefnanda er studd við III. kafla vaxtalaga og málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir á því að hann hafi að fullu staðið stefnanda skil á kostnaði við verkið sem forsvarsmaður stefnanda hafi upplýst að hafi numið kr. 450.000.  Stefndi hafi greitt þá fjárhæð að viðbættum virðisaukaskatti 13. desember s.l. og eigi stefnandi því ekki frekari kröfur á hendur stefnda.

Stefndi byggir á því að kröfur stefnanda séu ekki í samræmi við samning þann sem aðilar gerðu með sér á grundvelli verklýsingar, en samkvæmt henni mat stefnandi kostnað við verkið alls kr. 540.000.  Stefnandi hafi hins vegar aukið við verkið án samráðs við stefnda og án hans samþykkis.  Samkvæmt skýru ákvæði verk­lýs­ing­ar­innar hefði stefnandi átt að ráðfæra sig við stefnda ef forsendur verksins breyttust.  Að mati stefnda var slíkt samráð alger forsenda þess að krafa stefnanda gæti talist lög­varin.

Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi engin gögn lagt fram sem sýni með ótví­ræðum hætti að hann hafi aukið við verkþáttum með samþykki eða í samráði við stefnda.  Þá hafi honum ekki tekist að sanna að stefndi hafi skuldbundið sig til þess að greiða stefnanda þann kostnað sem kynni að falla til umfram kostnaðaráætlun, en samkvæmt meginreglum íslensks einkamálaréttarfars hvíli sönnunarbyrðin að þessu leyti á stefnanda.  Af framansögðu og með vísan til meginreglna samninga- og kröfu­réttar telur stefndi leiða að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.

Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist rökstyður hann varakröfu sína í fyrsta lagi með því að hann hafi þegar greitt hluta dómkröfu stefnanda og beri því að lækka kröf­una sem því nemur.  Í öðru lagi bendir stefndi á að stefnandi krefjist u.þ.b. helmingi hærri greiðslu en stefndi hafi fallist á miðað við kostnaðaráætlun.  Telur stefndi dóm­kröfu stefnanda umfram þann hluta hennar sem þegar hefur verið greiddur hvorki vera sann­gjarna né eðlilega og beri því að lækka dómkröfur stefnanda verulega.

Stefndi reisir málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.

Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóm til skýrslugjafar Haukur Alfreðsson, kt. 091251-4699, en hann vann verk það af hálfu stefnanda sem mál þetta snýst um.  Hann skýrði svo frá að komið hafi í ljós að tölvukerfi stefnda hafi ekki ráðið við verk­efnið og hafi þá verið óskað eftir því að hann aflaði tilboða í nýtt tölvukerfi.  Þá hafi komið fram hugmynd um að hugbúnaðurinn yrði vistaður annars staðar.  Hafi verið gerður samningur við SKÝRR varðandi vistun hugbúnaðar, en um þráðlaust samband hafi verið að ræða og þá hafi verið keyptur hugbúnaður frá AXAPTA.  Haukur sagði Adolf Óskarssyni, forsvarsmanni stefnda, hafa verið ljóst að nauðsynlegt hafi verið að bæta verkþáttum við.  Hann kvaðst hafa gefið Adolf upplýsingar um tilboð og þá kvaðst hann hafa gert honum grein fyrir stöðu verkefnisins á hverjum tíma.  Haukur kvað ekki strax hafa komið í ljós hversu kraftmikinn tölvubúnað hafi þurft vegna kerfisins, en hann kvaðst hafa aflað tilboða í kerfið í samráði við Adolf.  Hann kvað kostn­aðaráætlun hafa gert ráð fyrir 540.000 króna kostnaði fyrir 1. verkþátt, en síðan hafi tveir verkþættir bæst við.  Hann kvað ekki hafa verið beðið um kostnaðaráætlun vegna framhaldsins.  Haukur kvaðst hafa verið undir kostnaðaráætlun vegna 1. verk­þáttar og kvaðst hann hafa tilkynnt stefnda það og jafnframt að þeir ættu eitthvað til góða.  Haukur viðurkenndi að hann hefði átt að upplýsa betur um það hver auka­kostn­aður yrði, en engar spurningar hefðu komið frá stefnda þar að lútandi.

Sigurður Kaldal Sævarsson, kt. 260168-3559, fjármálastjóri stefnda, skýrði svo frá fyrir dómi að síðari reikningarnir tveir, sem bárust frá stefnanda, hafi ekki verið í sam­ræmi við kostnaðaráætlun og því kvaðst hann ekki hafa samþykkt þá.  Hann kvaðst ekki hafa vitað nákvæmlega um störf Hauks, en vissi að hann vann við að velja tölvu­kerfi.   Sigurður kvaðst ekki hafa vitað um aukakostnaðinn áður en reikningar þar að lútandi bárust.

Adolf Óskarsson, kt. 050268-5359, starfsmaður stefnda, skýrði svo frá fyrir dómi að verkáætlun hafi þurft að liggja fyrir til þess að styrkur fengist vegna verkefnisins frá Iðn­tæknistofnun.  Hann kvað tilboð stefnanda hafa þótt hátt en það hafi þó verið sam­þykkt.  Að hans mati var öll sú vinna sem Haukur innti af höndum innan ramma verk­áætl­unarinnar.  Hann kvað aldrei hafa verið rætt um að kominn væri nýr verkþáttur inn í málið og kvað hann Hauk hafa viðurkennt á fundi að hann hafi ekki látið vita af því.  Adolf kvað Hauk hafa unnið að öflun tilboða í fullu samráði við sig og þá kvað hann þá hafa haft mikið samband á þessum tíma.  Hann mótmælti ekki að Haukur hefði innt þá vinnu af höndum sem hann tilgreinir en hann stóð í þeirri trú að hann væri bundinn af verðtilboði sínu.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort stefnandi eigi kröfur á hendur stefnda um­fram þann verkkostnað sem í verklýsingu greinir, en óumdeilt er að aðilar gerðu með sér samning á grundvelli þessarar verklýsingar.  Samkvæmt verklýsingunni mat stefn­andi kostnað við verkið kr. 540.000, en stefnandi heldur því fram að sá kostn­aður eigi einungis við um 1. verkþátt, en af sérstökum ástæðum hafi tveir verkþættir bæst við.  Stefndi segir stefnanda hafa upplýst í tölvupósti að kostnaður við verkið hafi numið kr. 450.000 án virðisaukaskatts og er óumdeilt að stefndi greiddi stefnanda þessa fjárhæð með virðisaukaskatti 13. desember s.l.  Ekki er um það deilt að stefnandi innti af höndum þá vinnu sem hann hefur tilgreint.

Samkvæmt verklýsingunni fólst ráðgjöf stefnanda í því meðal annars að afla upp­lýs­inga um þau upplýsingakerfi sem til sölu væru á íslenskum markaði.  Skyldi koma fram lýsing á kerfunum, verð og tillögum um innleiðingu kerfisins og tímaáætlun.  Þá var ákvæði þess efnis að stefndi yrði aðstoðaður við að meta tilboðin og velja kerfi.  Þegar ákvörðun lægi fyrir skyldi framkvæmdaáætlun endurskoðuð og tekin ákvörðun um framhald verkefnisins, þ.e. hvort óskað væri eftir frekari aðstoð við verk­efna­stjórnun við innleiðingu kerfisins.  Þá var sérstaklega tekið fram að nauðsynlegt væri að hafa samráð við alla aðila ef forsendur verkefnisins breyttust.

Haukur Alfreðsson hefur fyrir dómi viðurkennt að hann hefði átt að upplýsa betur um það hver aukakostnaður yrði og þá hefur starfsmaður stefnda borið að aldrei hafi verið rætt um að komið væri að nýjum verkþætti og kvaðst hann hafa staðið í þeirri trú að öll sú vinna sem Haukur innti af höndum væri innan ramma verkáætlunarinnar.

Samkvæmt reikningum þeim, sem stefnandi telur að falli utan ramma verk­áætl­un­arinnar, fólst vinna stefnanda í þarfagreiningu fyrir netþjóna og vistun á tölvukerfi.  Samkvæmt verkáætlun var að því stefnt að vinna stefnanda leiddi til þess að fyrir lægi ákvörðun um nýtt upplýsingakerfi ásamt tilboði, framkvæmdaáætlun fyrir aðlögun og inn­leiðingu ásamt áætluðum kostnaði við hana.  Stefndi leitaði til stefnanda sem sér­fræðings í tölvuvæðingu fyrirtækja.  Má því ætla að það hafi staðið stefnanda nær að hlutast til um skýrara form samnings aðila.  Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sýnt nægi­lega fram á að þessir verkþættir falli utan samningsins.  Eins og fram hefur komið þótti tilboð stefnanda hátt en gengið var að því og að mati stefnda var öll sú vinna sem innt var af höndum innan ramma verkáætlunarinnar.  Telja verður nægilega sannað að stefnda hafi ekki verið gerð grein fyrir því að forsendur verkefnisins hefðu breyst.  Á stefnandi því ekki kröfu á hendur stefnda umfram þá fjárhæð sem í verk­lýs­ingu greinir.  Á hinn bóginn verður ekki fallist á að stefnandi verði talinn bundinn af óljósri tilgreiningu um kostnað í tölvubréfi, m.a. sökum þess að fjárhæðum ber þar ekki saman.  Er það því niðurstaða dómsins að stefnda beri að standa stefnanda skil á kr. 540.000 að viðbættum virðisaukaskatti, eða samtals kr. 672.300.  Þar sem stefndi greiddi stefnanda kr. 560.250 13. desember s.l. verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kr. 112.050 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga eins og í dóms­orði greinir.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, X-18 hf., The Fashion Group, greiði stefnanda, Fyrirtak, ráð­gjaf­ar­þjón­ustu ehf., kr. 112.050 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af kr. 672.300 frá 2. júní 2000 til 13. desember sama ár, en af kr. 112.050 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.