Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Lögvarðir hagsmunir
- Vistun barns
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Föstudaginn 17. febrúar 2012. |
|
Nr. 83/2012.
|
Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar (Haukur Örn Birgisson hrl.) gegn A (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Lögvarðir hagsmunir. Vistun barns. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
B kærði úrskurð héraðsdóms þar sem synjað var kröfu hans um staðfestingu ákvörðunar sem B hafði tekið um vistun barna A utan heimilis hennar auk þess sem héraðsdómur synjaði kröfu um áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis. Kröfum málsaðila sem lutu að fyrri hluta ákvörðunar B var vísað frá héraðsdómi þar sem sá tími var liðinn við uppkvaðningu úrskurðarins sem ákvörðunin tók til. Úrskurður um að synja kröfu B eftir þetta tímamark var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gréta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjaness 1. febrúar 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2012, þar sem felldur var úr gildi úrskurður sóknaraðila 28. nóvember 2011 um að synir varnaraðila, B, C og D, skyldu vistaðir á heimili á vegum sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 28. nóvember 2011 að telja og hafnað kröfu sóknaraðila um að drengirnir skyldu vistaðir utan heimilis varnaraðila í fjóra mánuði frá og með þeim degi er úrskurður dómara yrði kveðinn upp. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, að staðfestur verði áðurgreindur úrskurður sóknaraðila 28 nóvember 2011 og að drengirnir verði vistaðir utan heimilis varnaraðila í fjóra mánuði frá og með þeim degi er dómur Hæstaréttar er kveðinn upp.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 31. janúar 2012 var liðinn sá tveggja mánaða tími sem kveðið var á um í úrskurði sóknaraðila 28. nóvember 2011 að gilda skyldi um vistun sona varnaraðila á heimili á vegum sóknaraðila. Aðilar höfðu því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn héraðsdóms um gildi úrskurðar sóknaraðila að þessu leyti og verður þeim hluta í kröfum þeirra sem að þessu lýtur því vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu sóknaraðila um vistun sona varnaraðila utan heimilis sóknaraðila í fjóra mánuði frá dómsuppsögu. Þá verða staðfest ákvæði úrskurðarins um málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Sóknaraðila verður gert að greiða málskostnað í ríkissjóð sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti með þeirri fjárhæð sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfum málsaðila sem lúta að þeim hluta úrskurðar sóknaraðila, barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, 28. nóvember 2011 sem kvað á um að synir varnaraðila, A, þeir B, C og D, skyldu vistaðir á heimili á vegum sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá 28. nóvember 2011 að telja.
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti.
Sóknaraðili greiði málskostnað fyrir Hæstarétti 300.000 krónur í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2012.
Mál þetta var þingfest 23. desember 2011 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. janúar sl. Sóknaraðili er A, [...], [...], en varnaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ.
Sóknaraðili krefst þess í kæru, sem barst dóminum 21. desember sl., að úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar dagsettur 28. nóvember 2011, um að B, C og D, skuli vera vistaðir á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar í allt að tvo mánuði frá og með 28. nóvember að telja, auk þess að óska eftir framlengingu á vistun í fjóra mánuði frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp skv. 28. gr. bvl., verði felldur úr gildi með úrskurði héraðsdóms. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti úrskurð varnaraðila frá 28. nóvember 2011 um að heimilt sé að vista drengina B, kt. [...], C, kt. [...], og D, kt. [...], utan heimilis sóknaraðila í allt að tvo mánuði, sbr. a. lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2002. Þá krefst varnaraðili þess að úrskurðað verði að drengirnir B, C og D verði vistaðir utan heimilis sóknaraðila í fjóra mánuði frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002.
Af hálfu varnaraðila er ekki krafist kærumálskostnaðar.
I.
Með úrskurði varnaraðila, dagsettum 28 nóvember 2011, var ákveðið að synir sóknaraðila, B, C, og D, skyldu vistaðar utan heimilis sóknaraðila í allt að tvo mánuði samkvæmt a. lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2002. Voru bræðurnir vistaðir á bænum [...] í [...], en þar höfðu þeir áður verið vistaðir. Þennan úrskurð hefur sóknaraðili kært.
II.
Af hálfu sóknaraðila er helstu málavöxtum lýst svo að sóknaraðili sé einstæð móðir þriggja drengja á aldrinum 10-12 ára. Drengirnir hafi verið í tímabundnu fóstri í [...] en komið aftur til móður í júlí 2011. Þann 15. nóvember sl. hafi lögregla komið að heimili sóknaraðila og handtekið hana vegna meints gruns um að hún hefði misnotað drengina sína þrjá kynferðislega. Drengirnir hafi allir verið heima þegar lögreglu bar að garði.
Þann 18. nóvember sl. hafi varnaraðili tekið ákvörðum um neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem falið hafi í sér að drengirnir yrðu kyrrsettir tímabundið í [...]. Eina ástæða þessara aðgerða hafi verið sú að lögreglurannsókn væri í gangi á meintum brotum sóknaraðila.
Þann 21. nóvember sl. hafi verið tekið viðtal í Barnahúsi við drengina þrjá. Enginn þeirra hafi kannast við að móðir þeirra hefði gert nokkuð sem orkað gæti tvímælis eða vakið minnsta grun um kynferðislega misnotkun. Af þessum sökum hafi sóknaraðili farið fram á það við varnaraðila að ákvörðunin um kyrrsetninguna yrði afturkölluð en þeirri beiðni hafi verið hafnað með tölvupósti varnaraðila, dags. 22. nóvember sl. Þann 23. nóvember sl. hafi lögregla hætt rannsókn málsins með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008.
Þann 28. nóvember sl. hafi varnaraðili síðan kveðið upp hinn kærða úrskurð. Þann 15. desember sl. hafi sóknaraðili ásamt lögmanni sínum átt fund með Maríu Gunnarsdóttur, forstöðumanni barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, og lýst sig viljuga til að þiggja öll úrræði sem í boði væru til að styðja hana sem móður en jafnframt lýst því yfir að hún teldi að úrræðin nýttust betur ef þau væru notuð á meðan drengirnir væru hjá henni. Fram hafi komið á fundinum að drengirnir kæmu til móður sinnar þann 22. desember og yrðu þar fram yfir jól og áramót.
Í hinum kærða úrskurði sé fjallað nokkuð ítarlega um foreldrahæfnismat E, sálfræðings, sem framkvæmt var á haustmánuðum 2011, og var gert á grundvelli tveggja heimsókna sálfræðings til sóknaraðila og þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu. Í úrskurðinum virðist sem allt það neikvæða sem fram kom í foreldrahæfnismatinu sé sérstaklega dregið fram en það sem jákvætt er í matinu sé látið liggja milli hluta að mestu. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að rekja þá jákvæðu hluti sem fram komu í foreldrahæfnismati E.
Í matinu komi fram að sóknaraðili hafi verið afar samvinnufús, hún hafi svarað spurningum af einlægni og hreinskilni. Telji sóknaraðili það skipta máli og það sýni að hún sé tilbúin til þess að gera það sem nauðsynlegt er til þess að halda börnum sínum hjá sér.
Í prófaniðurstöðu úr MMPI-persónuleikaprófinu komi m.a. fram að sóknaraðili hafi ekki verið að verja sig eða fegra í prófinu. Þá sé í matinu að finna lýsingu matsmanns á viðtali við F sálfræðing sem hitt hafi börn sóknaraðila í nokkur skipti að beiðni barnaverndaryfirvalda. Í máli hans hafi komið fram að drengjunum líði vel, þeir vilji ekki vera meira á flakki, þeir vilji vera hjá móður sinni og þeim finnist gott að vera í baklandinu og telji sig fá þar mikinn stuðning.
Í niðurstöðum E séu ýmis atriði sem séu jákvæð fyrir sóknaraðila. Hann bendi m.a. á að niðurstaða í spurningalista sem metur tengsl foreldra og barna sýni að sóknaraðili vilji drengjunum vel.
Í hinum kærða úrskurði sé tekin sú ákvörðun að drengirnir skuli vistaðir í 2 mánuði utan heimilis og að krafist verði 4ra mánaða vistun því til viðbótar fyrir dómi. Á meðan fái sóknaraðili stuðning o.fl. úrræði sem barnaverndaryfirvöld hafa yfir að ráða. Sóknaraðili telji þessa niðurstöðu með öllu óásættanlega þegar gögn málsins séu metin. Beri þar fyrst og fremst að nefna umrætt foreldrahæfnimat E. E sé sérfræðingur á þessu sviði og hann hafi tekið viðtöl við sóknaraðila, rætt við alla þá aðila sem komið hafa að málefnum barnanna, þ. á m. drengina sjálfa og aðila frá skóla, og skoðað öll þau gögn sem til staðar voru. Á þeim grundvelli hafi hann gefið upplýst álit um að, eins og sakir stæðu, væri ekki ástæða til þess að vista börn sóknaraðila utan heimilis, heldur ætti að veita henni stuðning, bæði sóknaraðila sjálfum og börnum hennar, til þess að hún gæti betur tekist á við foreldrahlutverkið.
Til þess að yfirvöldum sé stætt á að fara gegn svo skýru og skilmerkilegu mati sérfræðings, sem þau kvöddu til málsins að eigin frumkvæði, þurfi starfsmenn barnaverndar að hafa raunverulegar ástæður fyrir svo íþyngjandi aðgerðum sem um ræðir. Ekkert hafi breyst í aðstæðum sóknaraðila frá 15. nóvember sl. sem geti leitt til þess að vista skuli börn hennar utan heimilis. Barnavernd sé nauðsyn á að rökstyðja með ítarlegum hætti hvað breyst hafi frá 15. nóvember 2011 til 28. nóvember s. á. sem leiði til þess að ekki skuli farið eftir tillögum í foreldrahæfnimatinu.
Í úrskurðinum sé einnig fjallað um lögreglurannsókn á meintu kynferðisbroti sóknaraðila gagnvart börnum sínum. Sé því ranglega haldið fram í úrskurðinum að rannsókn málsins standi enn yfir. Hið rétta sé að rannsókn var hætt 5 dögum áður en úrskurðurinn var kveðinn upp eins og áður segir. Ástæða rannsóknar hafi verið tilkynning föðurmóður barnanna um atvik sem sóknaraðili eigi að hafa sagt henni frá. Tekin hafi verið skýrsla af öllum börnum hennar þar sem skýrlega komi fram að umrætt atvik hafi ekki átt sér stað. Þá hafi verið gerð húsleit og tölvur rannsakaðar án þess að nokkuð saknæmt kæmi í ljós. Staðan hafi því verið sú að ekkert benti til þess að sóknaraðili hafi nokkuð gert gagnvart börnum sínum, annað en framburður aðila sem ekki var vitni að meintum atburðum. Sé því ljóst að forsendur úrskurðarins bresta algerlega hvað þetta mikilvæga atriði varðar.
Niðurfelling lögreglumálsins hefði einnig átt að vera tilefni fyrir varnaraðila að afturkalla þá neyðarráðstöfun að kyrrsetja börn sóknaraðila utan heimilis á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga enda hafi lögreglurannsóknin verið eina ástæða aðgerðarinnar samkvæmt orðalagi ákvörðunarinnar sjálfrar. Engin lagaskilyrði hafi lengur verið fyrir neyðarráðstöfuninni þar sem lagaheimildir til hennar verði að túlka þröngt. Í framhaldinu hafi verið úrskurðað um vistun barna utan heimilis í allt að tvo mánuði. Sóknaraðili telji að í þessu tilviki sé ekki heimilt að gera kröfu um vistun utan heimilis á öðrum grundvelli en þeim sem neyðarráðstöfun byggði á. Sé hinn kærði úrskurður því ólögmætur.
Sóknaraðili byggir enn fremur á því óheimilt sé að beita úrræði samkvæmt 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga þar sem unnt sé að beita vægara úrræði í málinu. Vísar sóknaraðili hér til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest er í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig sé vísað til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem fram komi að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á hvers vegna ekki sé hægt að beita vægari úrræðum sem barnaverndarlög bjóða. Megi þar nefna til dæmis ákvæði 26. gr. laganna um eftirlit með heimili, fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun. Einnig megi nefna ákvæði 25. gr. laganna um vistun utan heimilis með samþykki foreldra til skemmri tíma.
Sóknaraðili byggir að auki á því að úrskurðurinn brjóti í bága við markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem tilgreint er í 2. gr. En markmið laganna sé m.a. að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Verði með engu móti fallist á að úrskurður um vistun drengjanna utan heimilis í 2 mánuði leiði til styrkingar fjölskyldunnar. Um sé að ræða afar íþyngjandi úrræði og séu verulegar líkur á því að afleiðingar slíkrar aðgerðar geti haft alvarleg og varanleg áhrif á andlega líðan drengjanna. Þá verði ekki séð að úrræðið sé til þess fallið að styrkja fjölskylduna heldur þvert á móti til þess að stía henni í sundur og brjóta hana niður.
Ljóst er að barnaverndaryfirvöldum hafi verið í lófa lagið að veita heimilinu aukinn stuðning. Sá stuðningur hefði m.a. getað falist í aðstoð inni á heimilinu eins og matsmaður leggur til en slíkur stuðningur hafi ekki verið reyndur síðan drengirnir komu til baka til móður sinnar í sumar.
Sóknaraðili byggir jafnframt á því að barnaverndarnefnd hafi ekki fylgt rannsóknarreglunni sem sé meginregla í stjórnsýslurétti, reglan sé m.a. lögfest í 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu máli skorti verulega á að fullnægjandi rannsókn hafi farið fram. Meðal annars byggi úrskurðurinn á því að lögreglurannsókn hafi enn verið í gangi sem sé alrangt eins og vikið var að hér að framan. Yfirvöldum hafi verið í lófa lagið að afla upplýsinga um raunverulega stöðu lögreglumálsins fyrst ætlunin var að byggja á þeirri staðreynd að málið væri í rannsókn. Leiði þetta til sömu niðurstöðu og annað, þ.e. að fella beri úrskurðinn úr gildi.
Aukinheldur byggir sóknaraðili kröfu sína á því að úrskurður barnaverndarnefndar brjóti í bága við þá mikilvægu meginreglu barnaverndarlaga nr. 80/200 sem lögfest er í 4. gr. laganna. Reglan feli í sér að við úrlausn barnaverndarmála beri að beita þeim ráðstöfunum sem eru barni fyrir bestu, þá skuli hagsmunir barna ætíð vera í fyrirrúmi. Ljóst sé að drengirnir eru á afar viðkvæmum aldri og þurfa festu í líf sitt. Þeir vilji vera hjá móður sinni og móðir vilji hafa þá hjá sér. Þá sé til staðar reynsla og þekking í sveitarfélaginu á málefnum fjölskyldunnar og á því hvaða stuðningur gæti nýst þeim.
Með vísan til alls framangreinds beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi. Teljist ekki skilyrði fyrir vistun utan heimilis í allt að 2 mánuði sé ljóst að forsendur eru brostnar fyrir þeim hluta úrskurðarins sem kveður á um að krefjast skuli fyrir dómi vistunar í 4 mánuði í viðbót og bæri því að fella úrskurðinn úr gildi í heild sinni.
III.
Í greinargerð varnaraðila er málavöxtum gerð ítarleg skil. Þar kemur m.a. fram að málefni drengjanna hafi verið til meðferðar hjá varnaraðila frá árinu 2001. Fyrsta tilkynning hafi borist til varnaraðila í september 2001 og varðað þunglyndi móður auk þess sem tilkynnandi taldi umhirðu, umhverfi og eftirliti með börnunum verulega ábótavant. Þá hafi einnig verið grunur um að B hefði sætt líkamlegu ofbeldi á heimili sínu. Niðurstaða könnunar máls hafi verið á þá leið að vafi væri á að um misbresti í aðbúnað barnanna væri um að ræða og líkamlegt ofbeldi var ekki staðfest. Ekki var talin ástæða til að aðhafast frekar í málinu. Í upphafi árs 2002 hafi borist erindi frá leikskólanum [...] þar sem fram kom að samskipti við móður gengju vel og að B uni sér vel. Í maí 2005 hafi varnaraðila borist annað erindi frá [...] vegna ofbeldis sóknaraðila gegn D. Við læknisskoðun hafi komið í ljós bitfar á upphandlegg D. Sóknaraðili hafi staðfest að hafa bitið D og að það hafi ekki verið í fyrsta skiptið. Hún hafi gert þetta í uppeldislegum tilgangi þar sem D hafði bitið C bróður sinn og vildi hún með þessu leyfa honum að finna hversu sárt það væri. Sóknaraðili sagðist hafa trú á þessari aðferð og nota hana þegar allt annað þryti. Auk þess hafi komið fram í könnun máls að sóknaraðili ætti það til að rassskella drengina og setja krydd og sápu í munn þeirra. Á þessum tíma hafi sóknaraðili hafnað tilboði um uppeldisráðgjöf og tilsjón þar sem hún taldi sig meðal annars vera að beita eðlilegum og almennum uppeldisaðferðum. Málið hafi verið tilkynnt til varnaraðila í júní 2005. Í kjölfarið hafi verið gerð áætlun um meðferð máls þar sem sóknaraðili samþykkti að gangast undir foreldrishæfnismat, fá tilsjón inn á heimilið, fara í sálfræðiviðtöl og á uppeldisnámskeið, fá heimilishjálp og stuðningsfjölskylda fyrir drengina. Áætlanir hafi ekki staðist að öllu leyti þar sem sóknaraðili var ekki til samstarfs um foreldrahæfnimat. Bæði skóli og leikskóli hafi haft áhyggjur af líðan drengjanna á þessum tíma og í kjölfarið hafi verið gert þroskamat á D þar sem lagt var til að gera einstaklingsáætlun til að reyna markvisst að þjálfa tjáningu, málskilning og stærðfræðihugtök hjá D.
Á árunum 2006-2008 hafi áætlanir um meðferð máls verið í gildi þar sem úrræðum skv. 24. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 var beitt. Drengirnir hafi t.d. farið árlega í sumardvöl frá árinu 2006. Einnig hafi verið áhyggjur af líðan drengjanna og heimilisaðstæðum þeirra. Óþrifnaðar hafi verið mikill á heimilinu auk þess sem talið var að B tæki of mikla ábyrgð á heimilinu miðað við þroska og aldur. Einnig hafi verið áhyggjur af heilsufari sóknaraðila. Í ágúst 2008 hafi B farið í tímabundið fóstur í eitt ár að beiðni sóknaraðila. Ári síðar hafi sóknaraðili samþykkt að vista B í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs. Ástæða fyrir því að sóknaraðili óskaði eftir fóstri hafi meðal annars verið að hún átti erfitt með að ráða við uppeldishlutverkið gagnvart B og treysti sér ekki til að hafa hann heima. Þá hafi komið fram í skýrslu sálfræðings að töluverð einkenni vanlíðunar væru hjá B ásamt einkennum um athyglisbrest og ofvirkni. Einnig hafi komið fram að B þyrfti mikla námsaðstoð og leiðbeiningar í félagslegum samskiptum auk þess sem hann þyrfti á mikilli ástúð og umhyggju að halda.
Haustið 2009 hafi sóknaraðili verið með tilsjón á heimilinu þar sem henni var ráðlagt með umgengni og þrif. Að mati tilsjónaraðilans hafi D og C borið töluverða ábyrgð á heimilisstörfum miðað við aldur þeirra og þroska. Sóknaraðili hafi átt erfitt með að taka við leiðbeiningum og notað veikindi til að réttlæta hegðun sína. Í október sama ár hafi sóknaraðili samþykkt tímabundið fóstur í allt að 20 mánuði fyrir C og D. Í nóvember hafi borist tilkynning frá föðurömmu bræðranna um að hún hefði komið að þeim þar sem D var að [...] C og hefðu bræðurnir gefið þá skýringu að mamma þeirra hefði sagt að þegar fólk elskar hvort annað geri það svona. Í kjölfarið hafi D og C farið í rannsóknarviðtal í Barnahúsi og þar hefði ekkert komið fram sem benti til þess að þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða ofbeldi.
Í janúar 2010 hafi D og C farið í tímabundið fóstur til sömu fósturforeldra og B var hjá. Sóknaraðili hafi samþykkt að drengirnir færu í varanlegt fóstur að þeim tíma liðnum. Sóknaraðili hafi fengið ýmis konar stuðning til að styrkja sjálfan sig s.s. styrk fyrir einkaþjálfun og líkamsrækt. Hún hafi einnig fengið félagslega heimaþjónustu til þess að aðstoða sig við að skipuleggja og koma reglu á heimilið. Sóknaraðili hafi einnig ætlað í [...] en ekkert varð úr því. Í október 2010 hafi verið gerð athugun á vitsmunaþroska þeirra C og D að beiðni [...]skóla. Í skýrslu sálfræðings í tengslum við þá athugun hafi verið ráðlagt að drengjunum yrði veittur náms- og félagslegur stuðningur auk þess sem þörf væri á að þjálfa hjá þeim sjálfsaga og sjálfsstjórn en veita jafnframt ástúð.
Í byrjun árs 2011 hafi félagsráðgjafi haft áhyggjur af andlegri og líkamlegri heilsu sóknaraðila og hafi hún því fengið persónulegan ráðgjafa. Markmiðið hafi verið að aðstoða sóknaraðila við að ná betri heilsu og virkja hana félagslega. Að mati ráðgjafans hafi sóknaraðili ekki verið tilbúin til að breyta miklu í sínu lífi.
Í maí 2011 hafi sóknaraðili afturkallað samþykki sitt fyrir fósturvistun drengjanna. Nokkru áður hafði hún tjáð félagsráðgjafa að hún ætti erfitt með að vera mikið ein, eins yrði hún fyrir miklum tekjumissi með því að hafa drengina í fóstri. Sóknaraðili taldi sig ekki hafa fengið viðeigandi leiðbeiningar þegar hún undirritaði yfirlýsingu varðandi fóstur og ekki gert sér grein fyrir hvað varanlegt fóstur þýddi. Einnig hafi hún haldið því fram að félagsráðgjafi í barnavernd hefði falsað undirskrif sína varðandi fósturvistun á drengjunum. Drengjunum hafi verið skipaður talsmaður skv. 46. gr. bvl. 80/2002 til að fá fram viðhorf þeirra til þeirra aðstæðna sem upp voru komnar.
Í kjölfar framangreinds hafi verið skoðað hvort tilefni væri til að vista drengina utan heimilis. Að teknu tilliti til meðalhófs hafi varnaraðila þó ekki þótt vera nægjanlegar forsendur til slíks án samþykkis sóknaraðila. Þess í stað hafi drengirnir því farið heim til sóknaraðila í júlí 2011. Gerð hafi verið áætlun um meðferð máls til fjögurra mánaða þar sem lögð var áhersla á að drengirnir færu í [...], sem er eftirskólaúrræði á vegum varnaraðila. Einnig hafi verið lögð áhersla á að þeir færu til stuðningsforeldra og að sóknaraðili myndi koma drengjunum í tómstundir eða íþróttir. Enn fremur hafi verið lagt til að sóknaraðili færi í foreldrahæfnimat og að drengirnir fengju aðstoð með heimanám á heimili tilsjónaraðila. Sóknaraðili hafi ekki viljað fá tilsjón inn á heimilið þar sem hún taldi sig ekki hafa þörf á að bæta sig í uppeldishlutverkinu og hún hafi ekki viljað að drengirnir færu í tómstundir. Sóknaraðili hafi gengist undir foreldrahæfnimat. Í október og nóvember 2011 hafi verið aflað upplýsinga frá [...]skóla um stöðu og líðan drengjanna þar sem meta þurfti stöðuna með tillit til áframhaldandi vinnslu málsins. Fram hafi komið í erindum frá skólanum að líðan D og C hefði farið versnandi síðan við upphaf skólaárs og að þeir væru báðir eftir á í lestri og heimalestri ekki sinnt. Einnig hefði komið fram að D og C kvörtuðu oft undan verkjum í maga og hefðu þörf fyrir umhyggju og athygli frá starfsmönnum skólans. Þá hefði komið fram að samskipti skólans við sóknaraðila hefðu verið fátíð og að hún ætti það til að gleyma að láta skólaritara vita ef drengirnir væru fjarverandi.
Í lok nóvember 2011 hafi varnaraðila borist skýrsla frá starfsmanni [...] þar sem fram hafi komið að hegðun D hafi breyst, hann sé reiðari og þyngri í skapi og sýni mótþróa gagnvart heimalærdómi og segi ósatt þegar hann er spurður hvort hann hafi lokið við heimavinnuna. Varðandi C þá þótti starfsmanni [...] hann hafa breyst minna í hegðun en D, vera samviskusamari með heimanámið og með lítinn mótþróa. Aftur á móti væri eins og hann væri mataður af setningum um hann og móður sína. Starfsmaðurinn hafi einnig haft áhyggjur af B en hann hefði breyst mikið á því tímabili er hann kom fyrst í [...] tæpum þremur mánuðum áður. Fyrst hafi hann reynst kurteis, ljúfur og rólegur en með tímanum hrakaði hegðun hans, hann varð uppstökkur og óöruggari með sjálfan sig auk þess sem hann nennti lítið að sinna heimanámi.
Þann 4. nóvember 2011 hafi varnaraðila borist tilkynning þar sem áhyggjur voru af kynferðislegri misnotkun á drengjunum af hálfu sóknaraðila. Í kjölfarið hafi varnaraðili sent Lögreglustjóranum á Suðurnesjum beiðni um lögreglurannsókn vegna málsins. Drengirnir hafi farið í viðtal í Barnahúsi en ekki hafi komið neitt fram sem benti til þess að þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Á myndum sem lögreglan tók þegar hún gerði húsleit á heimili sóknaraðila sjáist vel að mikil óreiða sé í íbúðinni, mikið af rusli og óhrein föt á gólfum út um alla íbúð.
Þann 18. nóvember 2011 hafi þess verið farið á leit við sóknaraðila að hún samþykkti að bræðurnir yrðu vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði og að vistunin yrði endurskoðuð þegar niðurstöður úr lögreglurannsókn lægju fyrir. Móðir hefi ekki samþykkt það. Varnaraðili hafi því ákveðið að grípa til neyðarráðstöfunar skv. 31. grein bvl. nr. 80/2002 og kyrrsetja bræðurna á [...]. Þann 21. s. m. hafi borist bréf frá lögmanni sóknaraðila þar sem gerð var krafa um afturköllun ákvörðunar um neyðarráðstöfunina. Varnaraðili hafi ekki orðið við þeirri kröfu. Ákveðið hafi verið að leggja málið fyrir fund varnaraðila þann 28. nóvember 2011 og hafi málinu lokið með úrskurði sama dag. Greinargerðir sóknar- og varnaraðila hafi legið fyrir á fundinum og hafi bókun varnaraðila verið send lögmanni sóknaraðila þann 1. desember 2011.
Krafa varnaraðila er reist á a-lið 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2002, sbr. l. nr. 80/2011. Það sé mat varnaraðila að nauðsynlegt sé að vistun drengjanna standi lengur en í tvo mánuði eins og greinir í úrskurði varnaraðila þann 28. nóvember sl. Af þeim sökum sé gerð sú krafa að drengirnir verði vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms. Í kröfum varnaraðila felist um leið mótmæli við kröfu sóknaraðila og sé málsástæðum sóknaraðila mótmælt. Þá sé málsatvikalýsingu sóknaraðila einnig mótmælt svo lengi sem hún samræmist ekki málavaxtalýsingu varnaraðila eins og hún er sett fram í kaflanum hér að framan og fylgiskjölum með greinargerð þessari.
Á því sé byggt af hálfu sóknaraðila að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og að ekki hafi verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn krafðist hverju sinni. Mál drengjanna hafi lengi verið til meðferðar hjá varnaraðila og hafi önnur úrræði verið reynd til hins ítrasta. Nú sé hins vegar svo komið að vægari úrræði en vistun utan heimilis duga ekki til og því nauðsynlegt að vistun standi lengur en þá tvo mánuði sem varnaraðili hafi úrskurðað um. Þá hafi öðrum meginreglum stjórnsýsluréttarins verið fylgt við meðferð málsins. Gætt hafi verið að andmælarétti og málinu verið hraðað eins og frekast er unnt. Einnig hafi verið gætt að rannsóknarskyldu, enda hafi varnaraðili aflað upplýsinga um hagi drengjanna, tengsl þeirra við sóknaraðila og fósturfjölskyldu, aðbúnað, líðan, skólagöngu og fleira.
Sóknaraðili eigi við fjölþættan vanda að stríða sem hún hafi ekki náð tökum á með viðeigandi hætti né viljað nýta sér alla þá fjölbreyttu aðstoð sem henni hafi staðið til boða í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að hafa nýtt sér hluta af þeim úrræðum sem henni hafi staðið til boða hafi ekki tekist að koma aðstæðum á heimilinu í viðunandi horf. Árangurinn hafi verið afar lítill og fjölmörg atriði bendi til þess að sóknaraðili hafi ekki nægilega góðan skilning á þörfum drengja sinna og að hún geti ekki annast þá á viðunandi hátt. Af þeim sökum sé vistun utan heimilis nauðsynleg á meðan sóknaraðili tekst á við sín vandamál og finnur þeim lausn.
Drengirnir hafa verið undanfarið á fósturheimili að [...]. Talsmaður sem ræddi við drengina hafði eftir þeim í skýrslu sinni að líðan þeirra hafi verið góð hjá fósturforeldrum og að þeir hafi myndað góð tengsl við fósturfjölskylduna auk þess að hafa fengið viðeigandi stuðning frá henni, m.a. varðandi nám. Drengirnir sögðust einnig hafa átt í erfiðleikum þegar þeir voru hjá sóknaraðila í [...], m.a. ekki gengið vel í náminu og mátt þola einelti. Drengirnir lýsa þar einnig heimilisaðstæðum hjá sóknaraðila. Þannig hafi þeir stundum hvorki fengið morgunmat né hádegismat, engan kaffitíma og stundum hafi sóknaraðili eldað fyrir þá kvöldmat, ef hún átti pening eða nennti því. Af skýrslu talsmanns og fleiri gögnum sem fylgja greinargerð þessari megi ráða að líðan drengjanna batni til muna þegar vistun þeirra var færð frá sóknaraðila til fósturfjölskyldu. Sömu sögu segi faðir drengjanna sem hafi lýst áhyggjum sínum af veru drengjanna hjá sóknaraðila en segi þá aftur á móti una sér vel í [...]. Vistun drengjanna utan heimilis sóknaraðila hafi því bersýnilega haft jákvæð áhrif á drengina.
Samkvæmt foreldrahæfnimati E kom fram að drengirnir beri ýmis merki um vanrækslu og verji aðstæður sínar á óeðlilegan hátt, sérstaklega í sambandi við tiltekt og matseld á heimilinu og varðandi veikindi móður þeirra. Í niðurstöðum matsins komi fram að drengirnir búi við tilfinningalega misnotkun og vanrækslu sem lýsi sér í skorti á innsæi í þarfir drengjanna auk þess að umhverfi þeirra sé ófrjótt, áreitissnautt og líklegt sé að mataræði sé fábrotið. Af þeim sökum sé það óforsvaranleg að drengirnir búi við slíkar aðstæður. Einnig hafa ásakanir um kynferðislega misnotkun gefið tilefni til að skoða nánar aðbúnað þeirra á heimili sóknaraðila. Ekki sé talið að hagsmunum drengjanna sé best borgið með því að láta reyna á frekari stuðningsúrræði með þá á heimili sóknaraðila að svo stöddu. Það sé mat varnaraðila að nauðsynlegt sé að sóknaraðili nái fram róttækum breytingum á lífi sínu og viðhorfi til uppeldis áður en drengirnir fari aftur til hennar. Þannig séu meiri líkur á að hún geti veitt drengjunum þann stuðning og atlæti sem þeir þurfa til að þroskast og dafna eðlilega.
Í ákvörðun varnaraðila um vistun drengjanna utan heimilis felist jafnframt ályktun um hvar hagsmunum og velferð þeirra sé best borgið. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að það þjóni hagsmunum þeirra best að vistast utan heimils um takmarkaðan tíma, enda ljóst að ekki sé unnt að vinna á vandanum á heimili þeirra. Drengirnir þurfi á stuðningi að halda sem þeir hafa ekki notið hjá sóknaraðila. Sá stuðningur verði ekki veittur á aðeins tveimur mánuðum og því nauðsynlegt að vista þá utan heimilis í lengri tíma eins og krafist sé. Að mati sóknaraðila sé lágmarkstími til að þetta úrræði gagnist drengjunum fjórir mánuðir frá úrskurðardegi, enda hafi vandi sóknaraðila varað í mörg ár og mál drengjanna verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum í langan tíma. Með tilliti til meðalhófs sé ekki farið fram á lengri vistunartíma.
Að öllu framangreindu virtu telji varnaraðili fullljóst að sóknaraðili sé í dag óhæf til að bera ábyrgð á og sinna uppeldisskyldum gagnvart drengjum sínum. Af þessum sökum geri varnaraðili þá kröfu að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að [drengirnir] skuli vistað utan heimilis sóknaraðila í fjóra mánuði frá úrskurðardegi mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðili styður kröfur sínar við reglur barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 27. gr. og 28. gr. þeirra laga.
IV.
Með vísan til ákvæða 2. mgr. 63. gr. a, laga nr. 80/2002 um barnavernd, ákvað dómari að gefa sonum sóknaraðila kost á að tjá sig um málið og fól dómari Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi að ræða við drengina. Sálfræðingurinn ræddi við drengina þann 12. janúar sl. og skráði skýrslu um þau samtöl, dagsetta 14. þ.m. og var skýrslan lögð fram við aðalmeðferð málsins 18. þ.m. Sálfræðingurinn staðfesti skýrsluna við aðalmeðferðina. Í samantekt sálfræðingsins segir: „Rætt var einu sinni einslega við þrjá bræður á aldrinum 10 til 12 ára um líðan þeirra og afstöðu vegna kröfu móður þeirra um að þeir flytjist til hennar aftur án tafar. Drengirnir kvarta ekki yfir aðbúnaði eða umönnun á heimilinu þar sem þeir eru vistaðir en sakna návistar móður sinnar. Þeir lýsa allir löngun sinni, missterkri, til að flytjast aftur til hennar og njóta nánari samvista við hana en verið hefur um hríð.“
V.
Eins og að framan er rakið hafa málefni drengjanna verið til meðferðar hjá varnaraðila frá árinu 2001. Í ágúst 2008 fór B í tímabundið fóstur í eitt ár að beiðni sóknaraðila. Ári síðar samþykkti sóknaraðili að vista B í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs. Í október 2009 samþykkti sóknaraðili tímabundið fóstur í allt að 20 mánuði fyrir C og D. Í janúar 2010 fóru D og C í tímabundið fóstur til sömu fósturforeldra og B var hjá. Sóknaraðili samþykkti að drengirnir færu í varanlegt fóstur að þeim tíma liðnum. Í maí 2011 afturkallaði sóknaraðili samþykki sitt fyrir fósturvistun drengjanna. Í kjölfar framangreinds var skoðað af varnaraðila hvort tilefni væri til að vista drengina utan heimilis. Að teknu tilliti til meðalhófs þótti varnaraðila þó ekki vera nægjanlegar forsendur til slíks án samþykkis sóknaraðila. Þess í stað fóru drengirnir því heim til sóknaraðila í júlí 2011. Gerð var áætlun um meðferð máls til fjögurra mánaða þar sem lögð var áhersla á að drengirnir færu í [...], sem er eftirskólaúrræði á vegum varnaraðila. Einnig var lögð áhersla á að þeir færu til stuðningsforeldra og að sóknaraðili myndi koma drengjunum í tómstundir eða íþróttir. Enn fremur var lagt til að sóknaraðili færi í foreldrahæfnimat og að drengirnir fengju aðstoð með heimanám á heimili tilsjónaraðila. Fram hefur komið að sóknaraðili vildi ekki fá tilsjón inn á heimilið þar sem hún taldi sig ekki hafa þörf á að bæta sig í uppeldishlutverkinu og þá hafi hún ekki viljað að drengirnir færu í tómstundir. Sóknaraðili hafi fallist á að gangast undir foreldrahæfnismat. Í október og nóvember 2011 hafi verið aflað upplýsinga frá [...]skóla um stöðu og líðan drengjanna þar sem meta þyrfti stöðuna með tillit til áframhaldandi vinnslu málsins. Fram hafi komið í erindum frá skólanum að líðan D og C hefði farið versnandi síðan við upphaf skólaárs og að þeir væru báðir eftir á í lestri og heimalestri ekki sinnt. Einnig hefði komið fram að D og C kvörtuðu oft undan verkjum í maga og hefðu þörf fyrir umhyggju og athygli frá starfsmönnum skólans. Þá hefði komið fram að samskipti skólans við sóknaraðila hefðu verið fátíð og að hún ætti það til að gleyma að láta skólaritara vita ef drengirnir væru fjarverandi.
Í lok nóvember 2011 hafi varnaraðila borist skýrsla frá starfsmanni [...] þar sem fram hafi komið að hegðun D hafi breyst, hann sé reiðari og þyngri í skapi og sýni mótþróa gagnvart heimalærdómi og segi ósatt þegar hann er spurður hvort hann hafi lokið við heimavinnuna. Varðandi C þá þótti starfsmanni [...] hann hafa breyst minna í hegðun en D, vera samviskusamari með heimanámið og með lítinn mótþróa. Aftur á móti væri eins og hann væri mataður af setningum um hann og móður sína. Starfsmaðurinn hafi einnig haft áhyggjur af B en hann hefði breyst mikið á því tímabili er hann kom fyrst í [...] tæpum þremur mánuðum áður. Fyrst hafi hann reynst kurteis, ljúfur og rólegur en með tímanum hrakaði hegðun hans, hann varð uppstökkur og óöruggari með sjálfan sig auk þess sem hann nennti lítið að sinna heimanámi.
Þann 4. nóvember 2011 barst varnaraðila tilkynning þar sem áhyggjur voru af kynferðislegri misnotkun á drengjunum af hálfu sóknaraðila. Í kjölfarið sendi varnaraðili Lögreglustjóranum á Suðurnesjum beiðni um lögreglurannsókn vegna málsins. Drengirnir fóru í viðtal í Barnahúsi en ekki kom neitt fram sem benti til þess að þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Með bréfi dagsettu 23. nóvember 2011 tilkynnti lögreglustjórinn á Suðurnesjum að rannsókn málsins hefði verið hætt þar sem ekki þætti grundvöllur til að halda henni áfram. Í úrskurði varnaraðila er gengið út frá því að lögreglurannsókn standi enn yfir.
Þann 18. nóvember 2011 var þess verið farið á leit við sóknaraðila að hún samþykkti að bræðurnir yrðu vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði og að vistunin yrði endurskoðuð þegar niðurstöður úr lögreglurannsókn lægju fyrir. Sóknaraðili samþykkti það ekki. Varnaraðili kveðst þá hafa ákveðið að grípa til neyðarráðstöfunar skv. 31. grein bvl. nr. 80/2002 og kyrrsetja bræðurna á [...]. Þann 21. s. m. barst bréf frá lögmanni sóknaraðila þar sem gerð var krafa um afturköllun ákvörðunar um neyðarráðstöfunina. Varnaraðili varð ekki orðið við þeirri kröfu, en ákvað að leggja málið fyrir fund varnaraðila þann 28. nóvember 2011 og lauk málinu með úrskurði sama dag.
Eins og fyrr getur var E sálfræðingi falið af vararaðila að gera foreldrahæfnismat á sóknaraðila. Í niðurstöðum hans segir eftirfarandi: „Það er skoðun matsmanns að drengirnir búi við tilfinningalega misnotkun og vanrækslu. Þar má nefna:
1. Misbrestur við að bera kennsl á eða taka tillit til einstaklingseðlis barnsins og sálfræðileg takmörk þess.
a. Barnið er notað til að uppfylla sálfræðilegar þarfir foreldranna.
b. Vanhæfni við að skilja á milli raunveruleika barnsins og vilja og skoðunum hinna fullorðnu.
2. Misbrestur í að efla félagslega aðlögunarhæfni barnsins.
3. Ófrjótt umhverfi, áreitissnautt, greinilega mikið verið í tölvu og mikið horft á sjónvarp. Fábrotin afþreying litlar kröfur, örvun lítil.
4. Líklega er mataræði fábrotið, mikið um gos og snakk. Líklegt að A kaupi drengina og skilyrði mikið í samskiptum við þá“.
Í matinu fjallar matsmaður síðan ítarlega um sóknaraðila, uppvöxt hennar og vanköntum sem uppalandi. Þykir ekki ástæða til að rekja það. Síðan segir:
„Það er skoðun matsmanns að ef ekki verða gerðar róttækar breytingar á uppeldishögum drengjanna muni vandamál þeirra vaxa mjög mikið á næstu árum. Þar má helst nefna eftirfarandi áhættuþætti: depurð, þunglyndi, kvíði, námsvandi, en umfram allt eru þeir í þeirri áhættu að taka upp þau viðhorf sem móðir hefur til lífsins, þ.e. að veikindi og örorka sé eðlilegur lífstíll en ekki eðlileg samfélagsleg virkni og atvinnuþátttaka.
Drengirnir hafa áður verið teknir af heimilinu og komið fyrir í fóstri. Þeim fóstursamningi var rift vegna þess að móðir dró samþykki sitt til baka á þeirri forsendu að hún taldi sig vera fullfæra um að annast syni sína. Áður hafði verið reyndur stuðningur, m.a. tilsjón inn á heimilið og nú er ýmis stuðningur beint við drengina en ekki inn á heimilinu. Vegna þess að A telur sig ráða við hlutverkið nú er nauðsynlegt að reyna á ný að setja stuðning inn á heimilið og sjá hvort samstarfsvilji A er raunverulegur. Um það þarf að gera formlegan og mjög skýran samning. Ef í ljós kemur eftir 4-6 mánuði að A er ekki til samvinnu varðandi að mæta þörfum drengjanna er æskilegt að barnaverndaryfirvöld hugsi aðrar og alvarlegri úrræði til að koma til móts við þarfir og hagsmuni drengjanna.
Undirritaður mælir með því að barnaverndaryfirvöld stuðli m.a. að eftirtöldum breytingum á uppeldisaðstæðum sona A með gerð samkomulags:
- Tilsjón verði inn á heimilinu, mikil í fyrstu og svo dregið úr henni. Áhersla tilsjónar verði að skilgreina ábyrgð drengjanna inn á heimilinu og stuðla að markvissu og betra uppeldi þeirra. Unnið verði samkv. markmiðslista með áherslu á virkni og örvun og almennra gilda. Mið verði tekið af Uppeldisnámsefninu Að alast upp aftur og Hvað mikið er nóg. (matsmaður telur SOS ekki henta A). Tilsjónin byggi á vinsamlegri framkomu, einföldum tillögum og aðgerðum sem taka mið af takmörkunum og þekkingarskorti A. Einfalt fræðsluefni og kerfisbundið skipulag. Árangursmat sé skýrt og upplýst á mánaðarlegum fundum.
- Að A fari í virka sálfræðilega meðferð á Heilsugæslu [...]. Markmið meðferðar verði að vinna gegn félagsfælni hennar og auka virkni. A býr yfir hæfileikum sem hún er ekki að nota í dag.
- Að drengirnir fari til sömu stuðningsfjölskyldu áfram og viðhaldi þeim tengslum sem þar eru.
-Fundir verði mánaðarlega með kennurum drengjanna, móður, stuðningsaðilum og barnaverndarstarfsmanni þar sem rætt er hvernig gengur hvað betur megi fara.
- Að drengirnir fari í skipulagða íþrótta-eða tómstundaiðkan.“
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er það markmið laganna að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. sömu laga segi að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Í 7. mgr. sömu lagagreinar segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Eins og áður getur var það mat varnaraðila að teknu tilliti til meðalhófs í maí 2011, er sóknaraðili afturkallaði samþykki sitt fyrir vistun drengjanna utan heimilis, að ekki væru nægjanlegar forsendur til áframhaldandi vistunar án samþykkis sóknaraðila. Fóru drengirnir til sóknaraðila í kjölfar þessa og var þá gerð áætlun af hálfu varnaraðila um aðstoð við heimili drengjanna og framangreint foreldrahæfnismat gert á sóknaraðila. Inn í það ferli kom síðan rannsóknin á ætluðu kynferðisbroti gagnvart drengjunum sem síðar var felld niður. Byggðist neyðarráðstöfun varnaraðila samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga á þeirri rannsókn. Úrskurður barnaverndarnefndar var kveðinn upp eftir að framangreind rannsókn var felld niður en í úrskurðinum var gengið út frá því að rannsóknin stæði enn yfir. Enda þótt úrskurður barnaverndarnefndar sé reistur á fleiri ástæðum en rannsókn hins ætlaða kynferðisbrots, sem sóknaraðili telji sýna að lögmæltum markmiðum, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga verði ekki náð með öðru og vægara móti en vistun drengjanna utan heimilis, verður engu að síður að telja að lögreglurannsóknin hafi vegið þungt við ákvörðun nefndarinnar.
Þegar litið er til hins ítarlega foreldrishæfnismats E sálfræðings og tillagna hans, til annarra ganga málsins og skýrslu Þorgeirs Magnússonar sálfræðings, er það mat dómsins að þrátt fyrir vankanta sóknaraðila sem uppalanda eins og rakið er í málinu hafi varnaraðila borið að láta á það reyna hvort ekki mætti ná lögmæltum markmiðum barnaverndarlaga með öðru og vægara móti en því að vista drengina utan heimilis án samþykkis sóknaraðila svo sem raun varð á. Er það því mat dómsins að ekki hafi verið lagaskilyrði til að kveða á um vistun drengjanna svo sem í hinum kærða úrskurði greinir. Hinn kærði úrskurður kvað á um vistun drengjanna í tvo mánuð frá 28. nóvember 2011 að telja. Ber samkvæmt framansögðu að fella úrskurðinn úr gildi. Með vísan til framangreindra raka ber einnig að hafna kröfu varnaraðila um að drengirnir B, C og D verði vistaðir utan heimilis sóknaraðila í fjóra mánuði frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sóknaraðila var veitt gjafsókn í máli þessu með gjafsóknarleyfi dagsettu 17. janúar 2012. Skal allur gjafsóknarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 407.875 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Undirritaður dómari tók við máli þessu 9. þessa mánaðar. Vegna veikinda dróst uppkvaðning úrskurðar fram yfir lögboðinn frest samkvæmt 6. mgr. 63. gr. barnaverndarlaga.
Úrskurð þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar dagsettur 28. nóvember 2011 um að B, C og D, skuli vera vistaðir á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar í allt að tvo mánuði frá og með 28. nóvember að telja er felldur úr gildi.
Kröfu varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, um að drengirnir B, C og D verði vistaðir utan heimilis sóknaraðila í fjóra mánuði frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, 407.875 krónur, greiðist úr ríkissjóði.