Hæstiréttur íslands
Mál nr. 158/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 7. maí 2001. |
|
Nr. 158/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Sigurður G. Gíslason fulltrúi) gegn X (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2001.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [ . . . ] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málin hans þó ekki lengur en til miðvikudagsins 13. júní 2001 klukkan 16.
Af hálfu kærða er þess krafist þess að kröfunni verði hafnað. Þá gerir skipaður verjandi kærða kröfu um málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
Kærði var handtekinn 16. apríl síðastliðinn við komu til Keflavíkurflugvallar frá útlöndum. Fundust í fórum hans 2.779 töflur, er svara prófunum lögreglu sem fíkniefnið MDMA, auk 9,23 g af samskonar efni í duftkenndu formi. Hefur sýnishorn efnisins verið sent rannsóknastofu í lyfjafræði til rannsóknar en svar ekki borist. Kærði hefur játað að hafa verið með efnið meðferðis við komu til landsins en jafnframt haldið því fram að hann hafi ekki staðið einn að innflutningi þess. Hafi tveir nafngreindir ferðafélaga hans einnig átt þar hlut að máli, einkum þó annar þeirra, en sá hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 17. apríl síðastliðnum, eins og kærði, en var látinn laus í gær. Báðir mennirnir hafa hins vegar staðfastlega neitað sök.
Kærði hefur játað að hafa flutt til landsins mikið magn efnisins MDMA en það er talið eitt hættulegasta fíkniefni sem fram hefur komið. Er kærði þannig undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem getur að lögum varðað allt að 10 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt því og þar sem telja verður brotið þess eðlis að ætla megi áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt tilliti til almannahagsmuna þykir samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 rétt að taka kröfu lögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett.
Í tilefni af kröfu skipaðs verjanda kærða um um málskostnað skal tekið fram að eigi eru efni til að kveða sérstaklega á um þóknun verjanda vegna þess þáttar málsins sem hér er til úrlausnar.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. júní 2001 kl. 16.