Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/2016

X, Y og Z (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)
gegn
Reykjavíkurborg (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni X, Y og Z um flýtimeðferð máls sem þau hyggjast höfða gegn R og Í. Vísað var til þess að afstaða R til þeirra úrræða sem X nýtur samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra fæli ekki í sér breytingu á núverandi aðstæðum X, heldur yrði þvert á móti ráðið af gögnum málsins að þær hafi verið við lýði um árabil. Var því ekki talið fullnægt skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um brýna þörf á skjótri úrlausn fyrirhugaðs máls.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2016 og bárust kærumálsgögn sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2016, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð máls sem þau hyggjast höfða gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar. 

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í stefnu til héraðsdóms, sem fylgdi með bréfi sóknaraðila til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur til útgáfu vegna beiðni um flýtimeðferð máls þess er hér um ræðir, gera þau þá kröfu að ákvörðun varnaraðilans Reykjavíkurborgar í bréfi 3. desember 2012, um að synja sóknaraðilanum X „um húsnæðisúrræði og fullnægjandi umönnun“, verði ógilt. Jafnframt krefst sóknaraðilinn X miskabóta úr hendi varnaraðila og þá gera sóknaraðilarnir Y og Z fjárkröfur á hendur varnaraðilum.

 Sóknaraðilinn X sótti 20. nóvember 2012 um sértækt húsnæðisúrræði hjá varnaraðilanum Reykjavíkurborg og var það mat hans að hún væri í þörf fyrir slíkt úrræði. Var fallist á beiðni hennar þar að lútandi með bréfi 13. júní 2013 og hún sett á biðlista eftir því. Vegna kröfu sóknaraðilans um fullnægjandi umönnun liggur jafnframt fyrir sú afstaða fyrrgreinds varnaraðila að hún eigi samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra rétt á hámarksþjónustu í formi liðveislu í 30 klukkustundir á mánuði, frekari liðveislu í 110 klukkustundir á mánuði, dagþjónustu alla virka daga frá klukkan 8.30 til klukkan 16 og skammtímavistun í 14 daga á mánuði. Varnaraðilinn hefur á hinn bóginn hafnað kröfu hennar um sólarhringsþjónustu. Var þar um stjórnvaldsákvörðun að ræða, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991.

Meðal þeirra skilyrða fyrir flýtimeðferð máls samkvæmt síðari málslið málsgreinarinnar er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn máls. Sem fyrr greinir hefur varnaraðilinn Reykjavíkurborg fallist á að sóknaraðilinn X skuli njóta viðeigandi úrræða samkvæmt lögum nr. 59/1992. Felur sú afstaða varnaraðilans ekki í sér breytingu á núverandi aðstæðum hennar, heldur verður þvert á móti ráðið af gögnum málsins að þær hafi verið við lýði um árabil. Af þeim sökum er ekki brýn þörf á skjótri úrlausn fyrirhugaðs máls sóknaraðila þannig að fullnægt sé umræddu skilyrði lagagreinarinnar. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest. 

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2016.

I

Með beiðni, dagsettri 22. janúar sl. en móttekinni 26. sama mánaðar, fór Páll Rúnar M. Kristjánsson hrl. þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðendur hans, X, Y og Z, öll búsett að [...], Reykjavík, hyggjast höfða á hendur Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu sætti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í bréfinu er þess krafist að úrskurður verði kveðinn upp verði ekki fallist á beiðnina, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Að kröfu dómara voru frekari gögn afhent dómnum 27. janúar sl.

Samkvæmt meðfylgjandi stefnu eru kröfur stefnenda svohljóðandi:

„Allir stefnendur krefjast þess að ákvörðun stefnda Reykjavíkurborgar, samkvæmt bréfi dagsettu 3. desember 2015, um að synja stefnanda X um húsnæðisúrræði og fullnægjandi umönnun verði ógilt.

Stefnandi X krefst þess að stefndu Reykjavíkurborg og íslenska ríkið verði dæmd til að greiða henni in solidum kr. 10.000.000 ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 6. apríl 2011 til þingfestingardags, en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi Y krefst þess að stefndu Reykjavíkurborg og íslenska ríkið verði dæmd til að greiða henni in solidum kr. 31.649.150 ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 24.204.050 krónum frá 10. október 2015 til 21. nóvember 2015 en frá þeim degi af 24.697.400 krónum til þingfestingardags, en frá þeim degi af 31.640.150 krónum til greiðsludags.

Stefnandi Z krefst þess að stefndu Reykjavíkurborg og íslenska ríkið verði dæmd til að greiða henni in solidum 31.649.150 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 24.204.050 krónum frá 10. október 2015 til 21. nóvember 2015 en frá þeim degi af 24.697.400 krónum til þingfestingardags, en frá þeim degi af 31.640.150 krónum til greiðsludags.“

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar í öllum tilvikum.

Í fyrrnefndu bréfi lögmanns stefnenda segir að mál þetta sé þess eðlis að stuðla beri að skjótri meðferð þess. Stefnandi, X, sé [...] ára gömul og búi við mikla fötlun, bæði andlega og líkamlega. Hún búi hjá móður sinni og fósturföður, meðstefnendum í máli þessu, en bæði hafi þau að verulegu leyti sinnt umönnun hennar. X hafi farið fram á það við stefnda, Reykjavíkurborg, að henni yrði veitt húsnæðisúrræði og nauðsynleg umönnum vegna fötlunar sinnar í samræmi við skyldur stefnda samkvæmt ákvæðum laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland sé aðili að. Með ákvörðun Reykjavíkurborgar 3. desember 2015 hafi þeirri beiðni verið hafnað.

Stefnendur, Y og Z, vísa til þess að vegna vanrækslu stefnda, Reykjavíkurborgar, á lögbundnum skyldum sínum hafi þau þurft að annast X og þannig axla ábyrgð á skyldum Reykjavíkurborg gagnvart henni. Geri þau kröfu til þess að Reykjavíkurborg greiði þeim fyrir vinnu þeirra. Þá kemur fram að umönnun X hafi haft verulega neikvæð áhrif á heilsu Y, og beri henni nú að láta af þeirri umönnun samkvæmt læknisráði. Telja stefnendur að uppfyllt séu öll skilyrði fyrir flýtimeðferð málsins og vísa í því efni til 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991.

II

Aðalkrafa stefnenda lýtur að bréfi Reykjavíkurborgar frá 3. desember 2015, sem ber yfirskriftina „Svar við erindi [X]“. Bréfið mun vera svar við bréfi lögmanns stefnenda til Reykjavíkurborgar, dagsett 21. október 2015, þar sem settar eru fram kröfur allra stefnenda. Síðarnefnda bréfið fylgir ekki gögnum málsins.

Í áðurnefndu svarbréfi Reykjavíkurborgar kemur fram að stefndi telji sig að öllu leyti hafa uppfyllt skyldur sínar til umönnunar stefnanda, X. Þannig hafi Reykjavíkurborg veitt hámarks liðveislu samkvæmt 24. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, veitt frekari liðveislu samkvæmt 25. gr. sömu laga, veitt hámarks dagþjónustu samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna, svo og hámarkstíma skammtímavistunar samkvæmt 5. tölul. 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Hafi X í öllum tilvikum verið metin til hámarksfjölda klukkustunda hvað alla framangreinda þjónustuþætti varði, og sé það mat í samræmi við tilvitnuð lög um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, og reglur Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu. Samkvæmt því, svo og með vísan til þess að í síðastgreindum reglum um stuðningsþjónustu Reykjavíkurborgar er ekki að finna heimild til að veita stuðningsþjónustu að næturlagi, hafnar Reykjavíkurborg kröfu stefnanda, X, um þjónustu allan sólarhringinn.

Þá tekur stefndi, Reykjavíkurborg, fram að sú ákvörðun sem tekin var 13. júní 2013 um að samþykkja umsókn stefnanda, X, um sértækt húsnæðisúrræði hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kjölfarið hafi X verið sett á biðlista eftir slíku úrræði. Á hinn bóginn telur Reykjavíkurborg að þótt sveitarfélagið hafi ekki veitt X sértækt húsnæðisúrræði innan ákveðins tímafrests, heldur forgangsraði umsækjendum með hliðsjón af þjónustuþörf þeirra og framboði slíks úrræðis, feli það ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Vísar Reykjavíkurborg í þessu efni til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 59/1992, með síðari breytingum, þar sem fram kemur að sveitarfélög skuli bjóða fötluðu fólki upp á húsnæðisúrræði í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Í því ljósi hafnar Reykjavíkurborg því alfarið að biðtími X sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 1. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 59/1992.

III

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra  það þröngri lögskýringu.

Þegar litið er til svarbréfs Reykjavíkurborgar 3. desember 2015 er ljóst að hvergi er þar að finna ákvörðun sveitarfélagsins um synjun um húsnæðisúrræði til handa stefnanda, X. Þvert á móti er þar ítrekað að beiðni hennar í þá veru hafi verið samþykkt og sé í ferli, þ.e. umsókn hennar sé á biðlista. Jafnframt er þar með skýrum hætti greint frá þeirri þjónustu sem X nýtur nú og ástæðum þess að ekki er unnt að verða við beiðni hennar um frekari þjónustu. Ágreiningur aðila snýst því í raun ekki um stjórnvaldsákvörðun, heldur um verklagsreglur innan stjórnsýslunnar og málshraða á afgreiðslu umsóknar um húsnæðisúrræði og umfang þess þjónustustigs sem Reykjavíkurborg hefur nú þegar samþykkt að veita stefnanda, X. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki fyrir hendi skilyrði til að verða við beiðni stefnenda um að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhugðu dómsmáli X, Y og Z gegn Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu og synjað um útgáfu stefnu í málinu.