Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfarargerð
- Ábyrgð
- Ógilding samnings
|
|
Mánudaginn 21. janúar 2013. |
|
Nr. 4/2013. |
Landsbankinn hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn Einari Magnússyni (Ásgeir Jónsson hrl.) |
Kærumál. Aðfarargerð. Ábyrgð. Ógilding samnings.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi aðfarargerð sýslumanns sem gerð var að beiðni L hf. hjá E vegna ábyrgðaryfirlýsingar sem E hafði undirritað vegna láns B hjá L hf. Úrskurður héraðsdóms var staðfestur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að greiðslugeta B hafði ekki verið metin þegar E ábyrgðist greiðslu lánsins. E hafði því hvorki við það tækifæri, né þegar veðtrygging lánsins var síðar afnumin, verið kynnt slíkt greiðslumat. Þar sem L hf. hefði borið að framkvæma slíkt greiðslumat samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, auk þess sem slíkt hefði verið í samræmi við vönduð vinnubrögð fjármálastofnunar, var aðfarargerðin felld úr gildi með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2013. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2012 þar sem felld var úr gildi aðfarargerð sýslumannsins í Keflavík nr. 034-2012-00981sem fram fór 7. júní 2012. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað kröfu varnaraðila um að fyrrgreind aðfarargerð verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Lán það sem varnaraðili gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir og um ræðir í málinu var að fjárhæð 20.000.000 krónur. Auk sjálfskuldarábyrgðar varnaraðila og Hafliða Kristjánssonar var lánið tryggt með fimmta veðrétti í fasteigninni Heiðarhorn 10 í Reykjanesbæ, eign aðalskuldarans Bjarna Kristjánssonar. Veðskuldabréfið var gefið út 9. júlí 2003 og þann dag undirritaði varnaraðili ábyrgðaryfirlýsingu sína. Samkvæmt þinglýsingarvottorði fyrrgreindrar eignar frá 30. júní 2003, sem er meðal gagna málsins, hvíldu á fyrstu þremur veðréttum hennar verðtryggðar skuldir frá árinu 1997 sem upphaflega voru samtals að fjárhæð 9.674.000 krónur og á fjórða veðrétti gengistryggt lán upphaflega að fjárhæð 152.000 svissneskir frankar. Fram kemur í gegnum málsins að veðskuldabréfið 9. júlí 2003 fór í vanskil 1. júní 2011.
Sjálfskuldarábyrgðar varnaraðila virðist hafa verið aflað þar sem sóknaraðili mat fjárhag aðalskuldara ekki nægilega traustan og veðrými fasteignarinnar ekki duga til tryggingar endurgreiðslu lánsins. Lánsfjárhæðin sem sjálfskuldarábyrgðin tók til nam tuttugufaldri þeirri viðmiðunarfjárhæð sem fram kemur í 3. mgr. 3. gr. samkomulags frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þar kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. samkomulagsins sé fjármálafyrirtækjum skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en 1.000.000 krónum. Ágreiningslaust er að greiðslugeta aðalskuldara var ekki metin í tengslum við lánveitinguna í júlí 2003. Varnaraðili bar fyrir dómi að hefði forveri sóknaraðili kynnt honum neikvæða niðurstöðu slíks greiðslumats hefði hann skoðað málið nánar. Er samkvæmt þessu fallist á með héraðsdómi að forvera sóknaraðila hafi borið að láta fara fram greiðslumat í samræmi við samkomulagið 1. nóvember 2001 og upplýsa varnaraðila um skuldastöðu aðalskuldara og takmarkað veðrými fasteignarinnar.
Varnaraðili og Hafliði Kristjánsson undirrituðu svofellda yfirlýsingu um veðbandslausn 25. júní 2004: „Samkvæmt veðskuldabréfi dags. 9. júlí 2003 að upphæð kr. 20.000.000,- var Sparisjóðnum í Keflavík veðsett fasteignin Heiðarhorn 10, Keflavík. Sparisjóðurinn í Keflavík heimilar aflýsingu á ofangreindu veðskuldabréfi með samþykki sjálfskuldarábyrgðarmanna.“ Málsástæður varnaraðila eru öðrum þræði á því reistar að ætlunin hafi verið að færa umrætt veðskuldabréf af Heiðarhorni 10 yfir á fasteignina Háteig 23 í Reykjanesbæ, sem aðalskuldari fékk sem hluta greiðslu kaupverðs er hann seldi fyrrgreindu fasteignina tæpu ári eftir að til veðskuldarinnar stofnaðist, en sóknaraðili hafi látið það undir höfuð leggjast þrátt fyrir gefin loforð í þeim efnum.
Þegar sóknaraðili leysti Heiðarhorn 10 úr veðböndum samkvæmt framansögðu stóð ekkert eftir til tryggingar skuld Bjarna Kristjánssonar við sóknaraðila nema sjálfskuldarábyrgð varnaraðila og Hafliða Kristjánssonar. Sóknaraðili var eigandi þess veðréttar sem yfirlýsingin tók til og þurfti hann samkvæmt almennum reglum veðréttar ekki að afla samþykkis varnaraðila og Hafliða Kristjánssonar fyrir veðbandslausninni, nema samkomulag hafi verið um annað. Það að samþykkis sjálfskuldarábyrgðarmannanna var aflað fyrir veðbandslausninni telur varnaraðili benda til að samhliða veðbandslausninni hafi ætlunin verið að flytja veðskuldabréfið yfir á Háteigi 23, enda hafi sjálfskuldarábyrgð hans verið varaábyrgð fyrir veðtryggingunni. Fyrir liggur að umræddur veðréttur var ekki færður yfir á Háteig 23 og ekki er um það deilt að þegar veðbandslausnin var veitt mat forveri sóknaraðila ekki greiðslugetu aðalskuldarans fremur en hið fyrra sinni. Til þessa var þó enn brýnni ástæða en ella fyrst kröfuhafinn lét veðflutninginn hjá líða og jók þannig til muna á þá áhættu sem varnaraðili hafði undirgengist með því að takast sjálfskuldarábyrgðina á herðar.
II
Sóknaraðila bar eins og áður er rakið í samræmi við fortakslausa reglu 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins 1. nóvember 2001 að meta greiðslugetu aðalskuldarans Bjarna Kristjánssonar í tengslum við ábyrgðaryfirlýsinguna 9. júlí 2003. Þá hefði það og verið í samræmi við vönduð vinnubrögð sóknaraðila sem fjármálastofnunar í lögskiptum sínum við varnaraðila sem er einstaklingur að láta slíkt greiðslumat einnig fara fram í tengslum við veðbandslausnina 25. júní 2004. Það er því á áhættu sóknaraðila að látið var hjá líða bæði skiptin að meta greiðslugetu útgefanda veðskuldabréfsins og eftir atvikum gera varnaraðila sem ábyrgðarmanni grein fyrir því ef niðurstaða mats benti til að aðalskuldarinn gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Sóknaraðili verður því að bera hallann af þeim ákvörðun að skuldabréfalánið og veðbandslausnin voru veitt án þess að viðhöfð væru áður þau vönduðu vinnubrögð sem samkomulagið 1. nóvember 2001 gerði ráð fyrir. Að öðrum kosti er vandséð að ná hefði mátt fram því meginmarkmiði samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga gerðu sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á herðar með því að gangast í slíka ábyrgð. Samkvæmt þessu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fallist á með varnaraðila að ósanngjarnt sé af sóknaraðila að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindri sjálfskuldarábyrgð varnaraðila, enda hefur varnaraðili hvorki sýnt tómlæti um gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði né þykir menntun hans sem tannlæknir og reynsla af rekstri hafa þýðingu í þessu sambandi. Af þessu leiðir að staðfest verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um að fella úr gildi aðfarargerðina sem fram fór hjá varnaraðila 7. júní 2012.
Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landsbankinn hf., greiði varnaraðila, Einari Magnússyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2012.
Með bréfi, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 2. ágúst 2012, krafðist sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um fjárnámsgerð sýslumannsins í Keflavík sem fram fór 7. júní 2012. Málið var þingfest 4. september 2012 og tekið til úrskurðar 13. nóvember sl. Sóknaraðili er Einar Magnússon, Háholti 8, Reykjanesbæ, en varnaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að ógilt verði aðfarargerð nr. 034-2012-00981 sem fram fór hjá sýslumanninum í Keflavík þann 7. júní 2012. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að framangreind fjárnámsgerð sýslumannsins í Keflavík verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I.
Ágreiningur málsins varðar fjárnám sem sýslumaðurinn í Keflavík gerði þann 7. júní 2012 í eign sóknaraðila að kröfu varnaraðila. Heimildarskjal fjárnáms er skuldabréf þar sem sóknaraðili er sjálfskuldarábyrgðaraðili.
Nánar eru málavextir þeir að þann 9. júlí 2003 gaf Bjarni Kristinsson, fóstursonur sóknaraðila, út veðskuldabréf þar sem hann viðurkenndi að skulda Sparisjóðnum í Keflavík 20.000.000 króna með veði í eign Bjarna að Heiðarhorni 10, Reykjanesbæ. Skilmálar veðskuldabréfsins voru þeir að lánið skyldi greiðast á 25 árum með 300 afborgunum á eins mánaðarfresti. Lánið var vísitölutryggt og bar auk þess fasta vexti. Í skilmálum skuldabréfsins kemur fram að heimilt sé að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana. Ennfremur segir í skilmálum að fyrir gjaldfallinni fjárhæð megi gera aðför samkvæmt 7. tl. 1. mgr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Sóknaraðili og Hafliði Kristinsson, bróðir aðalskuldara, tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu með undirritun á skuldabréfið. Þeir rituðu ennfremur undir eftirfarandi texta á skuldabréfinu: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni skuldabréfsins og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001“. Þá lýstu sóknaraðili og Hafliði því yfir á fylgiskjali með skuldabréfinu, með því að haka við og setja upphafsstafi sína í þar til gerðan reit, að þeir óskuðu ekki eftir að greiðslugeta aðalskuldara yrði metin. Í fylgiskjalinu kemur jafnframt fram að sjálfskuldarábyrgðarmenn hafi kynnt sér bækling sparisjóðanna um sjálfskuldarábyrgðir.
Samkvæmt gögnum málsins seldi aðalskuldari Bjarni húseign sína Heiðarhorn 10, Reykjanesbæ þann 24. júní 2004 á 30.000.000 króna og var kaupverð greitt með húseign að Háteigi 23, Reykjanesbæ, að andvirði 20.300.000 krónur, greiðslu peninga að fjárhæð 500.000 krónur og með fasteignaveðbréfi að fjárhæð 9.200.000 krónur. Af þessu tilefni heimilaði Sparisjóður Keflavíkur aflýsingu á umþrættu veðskuldabréfi með samþykki sjálfskuldarábyrgðarmanna, sóknaraðila og Hafliða. Var veðbandslausn gefin út 25. júní 2004 og henni þinglýst sama dag. Engin fasteignatrygging kom í stað fyrri tryggingar. Fyrir liggur að Bjarni greiddi 5.000.000 króna inn á skuldabréfið við þessi eignaskipti.
Fram kemur í gögnum málsins að skuldabréfið var í vanskilum frá 1. júní 2011. Greiðsluáskorun var send 22. febrúar 2012 og birt fyrir sóknaraðila þann 1. mars 2012. Sóknaraðili var boðaður til fjárnáms hjá sýslumanni í Keflavík 7. júní 2012 og lauk gerðinni með fjárnámi í eign sóknaraðila Háholti 8, Reykjanesbæ.
Fjármálaeftirlitið tók á grundvelli VI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 161/ 2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, þá ákvörðun þann 22. apríl 2010 að ráðstafa eignum og skuldum Sparisjóðs Keflavíkur til Spkef sparisjóðs. Þann 5. mars 2011 tók Fjármálaeftirlitið á grundvelli sömu ákvæða þá ákvörðun að NBI hf. tæki í einu lagi frá og með mánudeginum 7. mars 2011 við rekstri, eignum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs samkvæmt samningi milli íslenska ríkisins og NBI hf. um yfirtöku NBI hf. á Spkef sparisjóði, dags. 5. mars 2011. Á aðalfundi NBI hf. var nafni félagsins breytt í Landsbankinn hf.
II.
Sóknaraðili gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Í máli hans kom m.a. fram að hann mundi ekki sérstaklega eftir því hvar hann hefði skrifað undir sjálfskuldarábyrgðina, hvort það hefði verið í sparisjóðnum eða annars staðar. Hann minntist þess ekki að honum hefði verið kynnt sérstaklega að greiðslumat ætti að fara fram ef lánsfjárhæð væri hærri en 1.000.000 króna. Hann kvaðst ekkert hafa vitað um fjárhagsstöðu aðalskuldara en haldið að allt væri í lagi með hana. Hann hafi áður gengist í ábyrgð fyrir aðalskuldara og hafi hann þá verið traustsins verður. Ekki hafi verið haft samband við hann af hálfu Sparisjóðs Keflavíkur þegar hann hafi undirritað veðbandslausnina. Sóknaraðili kvaðst hafa rekið tannlæknastofu í 40 ár og hafi aðalskuldari rekið tannsmíðaverkstæði á sama stað en hætt því fyrir árið 2000 að hann minnti.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að til hafi staðið að færa hið umdeilda veðskuldabréf yfir á fasteignina Háteig 23, Reykjanesbæ, sbr. framlagt tölvubréf þar að lútandi. Það sé trúverðugt miðað við skulda- og eignastöðu aðalskuldarans og einnig vegna þess hversu langt hafi verið eftir af lánstímanum. Sóknaraðili hafi ennfremur staðið í þeirri trú, er hann samþykkti veðbandslausnina, að fasteignin Háteigur 23 yrði veðsett fyrir láninu. Forsendur hans fyrir ábyrgðinni hafi brostið þar sem það hafi ekki verið gert.
Ljóst sé að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi í upphafi ekki metið verðtryggingu í 5. veðrétti fasteignarinnar að Heiðarhorni 10 og ábyrgð aðalskuldarans á greiðslu lánsins sem fullnægjandi tryggingu fyrir 20.000.000 króna láni, ella hefði ekki verið krafist sjálfskuldarábyrgðar sóknaraðila og Hafliða Kristjánssonar. Við þessar aðstæður hafi varnaraðila borið að upplýsa sóknaraðila um stöðu aðalskuldara og láta fara fram greiðslumat. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til 3. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, dags. 1. nóvember 2001. Með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga beri að víkja sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila til hliðar.
Greiðsluáskorun varnaraðila á hendur sóknaraðila sé dagsett 22. febrúar 2012. Í greiðsluáskoruninni komi fram að gjaldfelldur höfuðstóll sé 20.000.000 króna, dráttarvextir 22 krónur og annar kostnaður 28. 229 krónur. Í aðfararbeiðni, sem dagsett sé 24. apríl 2012, sé gjaldfallinn höfuðstóll lánsins hins vegar sagður 21.016.325 krónur, áfallnir dráttarvextir 2.179.325 krónur, innheimtuþóknun 603.860 krónur eða samtals, með öðrum kostnaði, 24.006.456 krónur. Greiðsluáskorun hafi því ekki farið fram fyrir þeirri kröfu sem aðfarar hafi verið krafist fyrir, sbr. 7. gr. og 2. mgr. 10. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Aðfarargerðin sé því ógild af þessari ástæðu.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 36. gr. laga nr. 7/1936 og til almennra reglna um brostnar forsendur í kröfu- og samningarétti. Þá vísar sóknaraðili til laga um neytendalán nr. 30/1993, aðallega 5., 6., 7. og 1. mgr. 17. gr. laganna. Einnig vísar sóknaraðili til 1. gr. 7. gr., 2. mgr. 10. gr., 92. gr. og 93. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Kröfu sína um málskostnað styður sóknaraðili við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.
III.
Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að til hafi staðið að færa veðið yfir á Háteig 23, Reykjanesbæ. Engin gögn styðji þá fullyrðingu. Það sé sérstaklega ótrúverðugt í ljósi þess að fjármálastofnanir aflétti almennt ekki veðum fyrr en önnur veð hafi komið í staðinn, eigi veðflutningur á annað borð að eiga sér stað. Ennfremur sé ótrúverðugt að aðalskuldari hafi reynt í tvö ár að veita veð í eigninni en hafi verið dreginn á asnaeyrunum eins og hann haldi fram í tölvupósti. Þá mótmælir varnaraðili því að sjálfskuldarábyrgð sé varaábyrgð en fasteignaveð aðaltrygging. Tryggingarnar séu jafnstæðar og hafi varnaraðila verið í sjálfsvald sett að ganga fyrst að ábyrgðarmönnum hefðu báðar tryggingarnar verið til staðar.
Veðandlag skuldabréfsins hafi verið selt á almennum markaði með kaupsamningi 24. júní 2004 og hafi ekki annað komið fram í málinu en bæði kaupandi og seljandi hafi verið sáttir við kaupverðið. Staða sóknaraðila hafi því ekki versnað við söluna.
Varnaraðili mótmælir því að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu. Vöntun á greiðslumati nægi ekki ein og sér til þess að umrædd sjálfskuldarábyrgð teljist ólögmæt. Fleiri þættir þurfa að koma til. Tilgangur greiðslumats á útgefanda láns sé að ábyrgðarmenn taki upplýsta ákvörðun um greiðslugetu skuldara áður en skrifað sé undir skuldaskjöl. Sóknaraðili hafi ekki óskað eftir því að greiðslugeta aðalskuldara yrði metin og með undirritun sinni á skuldabréfið hafi hann staðfest að hann hefði kynnt sér efni upplýsingabæklings sparisjóðanna um sjálfskuldarábyrgðir. Í ljósi þess að sóknaraðili hafi óskað sérstaklega eftir því að ekki yrði framkvæmt greiðslumat verði að telja afar ólíklegt að frumforsenda hans fyrir veitingu ábyrgðarinnar hafi verið undirritun á greiðslumatið. Því sé vöntun á greiðslumati ekki ófrávíkjanlegt formskilyrði fyrir því að gildandi samningur stofnist milli ábyrgðarmanns og banka. Það geti því ekki talist ósanngjarnt né brot á góðri viðskiptavenju af hálfu varnaraðila að bera slíkan samning fyrir sig.
Í öðru lagi hafi samkomulag um notkun ábyrgðar á skuldum einstaklinga hvorki lagagildi né feli það í sér ófrávíkjanlegar formreglur sem sjálfkrafa hafi þær afleiðingar að ógilda beri ábyrgðaryfirlýsingu, hafi samkomulaginu ekki verið fylgt til hlítar. Byggir varnaraðili á því að meta þurfi aðstæður við lánveitingu, samning aðila og önnur atriði sem geti varpað ljósi á það hvort ógilda beri veðsetninguna og þá í samræmi við 36. gr. laga nr. 7/1936.
Í þriðja lagi hvíli sönnunarbyrði um að skuldbinding sóknaraðila sé fallin úr gildi á sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að ósanngjarnt sé af hálfu varnaraðila að bera fyrir sig ábyrgð hans samkvæmt skuldabréfinu. Undirritun sóknaraðila á skuldabréfið hafi verið loforð sem skuldbindi hann að lögum til að efna ábyrgðarskuldbindingu sína. Þegar framangreint sé metið heildstætt sé ekki unnt að fallast á að sóknaraðili hafi sýnt fram á að fyrir hendi séu forsendur til að víkja til hliðar ábyrgðarskuldbindingu hans á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.
Þessu til viðbótar telur varnaraðili kröfur sóknaraðila um ógildingu framangreindrar ábyrgðarskuldbindingar fallna niður vegna tómlætis af hans hálfu. Sóknaraðili hafi ritað undir áðurnefnda ábyrgðarskuldbindingu þann 9. júlí 2003. Hann hafi ekki ritað varnaraðila eða forvera hans bréf þar sem gerðar séu athugasemdir við ábyrgðina. Þá hafi hann ekki séð ástæðu til að mæta til sjálfrar fjárnámsgerðarinnar. Fyrst séu gerðar athugasemdir við ábyrgðina með bréfi til Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2012 eða rúmum 9 árum eftir að sóknaraðili hafi gengist í umrædda ábyrgð.
Þá geti töluleg ónákvæmi í greiðsluáskorun ekki leitt til þess að aðfarargerð verði dæmd ógild, enda réttar tölur í sjálfri aðfararbeiðninni. Í greiðsluáskoruninni komi skýrlega fram um hvaða skuldabréf sé að ræða, hver sé aðalskuldari og hverjir séu ábyrgðarmenn og að það hafi verið í vanskilum frá 1. júní 2011. Sóknaraðili hafi verið boðaður til fjárnámsgerðarinnar en kosið að mæta ekki.
Að mati varnaraðila verði einnig að líta til þess að sóknaraðili sé háskólamenntaður og hafi rekið eigin tannlæknastofu í rúm 40 ár og því margreyndur í atvinnurekstri. Hann hafi verið stjúpfaðir aðalskuldara, a.m.k. frá því að aðalskuldari var fimm ára. Honum hafi því átt að vera ljós fjárhagsstaða aðalskuldara og að hugsanlegt væri að fasteignaveðið dygði ekki eitt og sér til uppgreiðslu lánsins.
Varnaraðili vísar til laga nr. 90/1989 og laga nr. 91/1991 en um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991.
IV.
Í málinu leitar sóknaraðili eftir því að fá fellt úr gildi fjárnám sem gert var að kröfu varnaraðila í fasteign sóknaraðila að Háholti 8, Reykjanesbæ, þann 7. júní 2012. Studdist aðfararbeiðni varnaraðila við skuldabréf sem útgefið var af Bjarna Kristinssyni, fóstursyni sóknaraðila, en með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila og Hafliða Kristinssonar, bróður sóknaraðila. Reisir sóknaraðili ógildingarkröfu sína m.a. á því að varnaraðili hafi ekki gætt ákvæðis 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem undirritað var 1. nóvember 2001 en að samkomulagi þessu stóðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda.
Í 1. gr. samkomulagsins segir að aðilar að samkomulagi þessu séu sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu séu settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings sé sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.
Samkomulagið tekur til sjálfskuldarábyrgðar þegar einstaklingur, ábyrgðarmaður, gengst í ábyrgð fyrir annan einstakling og ábyrgist að greiða skuld hans komi til greiðslufalls hjá greiðanda, sbr. 2. gr. samkomulagsins. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Í 3. mgr. 3. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé fjármálafyrirtækjum skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en einni milljón króna. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skal tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skal ábyrgðarmaður staðfesta það skriflega.
Varnaraðili verður talinn bundinn af efni þessa samkomulags.
Óumdeilt er að varnaraðili mat ekki greiðslugetu aðalskuldara þegar lánið var veitt. Sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila virðist hafa verið fengin vegna þess að veðrými á fasteign aðalskuldara var ekki nægjanlegt. Varnaraðila átti á þessari stundu að vera ljóst að fjárhagur aðalskuldara var ekki traustur. Við þær aðstæður bar varnaraðila að upplýsa sóknaraðila um skuldastöðu aðalskuldara og að veðrými á fasteigninni væri takmarkað og láta fara fram greiðslumat í samræmi við áðurnefnt ákvæði samkomulagsins. Það lét varnaraðili hins vegar undir höfuð leggjast og einnig síðar er hið veðsetta var leyst úr veðböndum en þá var ljóst að ekkert stóð eftir til tryggingar nema ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanna, sóknaraðila og Hafliðar Kristinssonar.
Með vísan til framangreinds verður fallist á með sóknaraðila að víkja beri til hliðar umræddri sjálfskuldarábyrgð sem hann gekkst undir 9. júlí 2003 með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, enda þykir sóknaraðili ekki hafa fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis. Menntun sóknaraðila eða reynsla hans af rekstri þykir ekki skipta máli í þessu sambandi.
Eftir þessari niðurstöðu verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Aðfarargerð nr. 034-2012-00981, sem fram fór hjá sýslumanninum í Keflavík 7. júní 2012, er felld úr gildi.
Varnaraðili, Landsbankinn hf., greiði sóknaraðila, Einari Magnússyni, 750.000 krónur í málskostnað.