Hæstiréttur íslands
Mál nr. 331/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur að hluta
- Kröfugerð
- Dómstóll
- Vanreifun
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2007. |
|
Nr. 331/2007. |
X(Helgi Jóhannesson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur að hluta. Kröfugerð. Dómstólar. Vanreifun.
X höfðaði mál á hendur Í og krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að ættleiðing Y á henni hefði öðlast gildi 23. mars 1988, til vara að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í vegna fjárhæðar sem svaraði til þess sem hún hefði fengið í arf eftir Y að viðbættum dráttarvöxtum, en til þrautavara að Í greiddi sér nánar tilgreindar skaðabætur. Í krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi og féllst héraðsdómur á það. Talið var að aðalkrafa X fæli í sér að dómurinn kæmi í stað dómsmálaráðherra með því að koma á því réttarástandi sem í ættleiðingarleyfi fælist en það væri ekki á valdsviði dómstóla. Bar því að vísa þeirri kröfu frá dómi. Þá var þrautavarakröfu X vísað frá dómi vegna vanreifunar. Hæstiréttur hafnaði því hins vegar að vísa varakröfu X um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Í frá dómi enda hafði X sýnt nægilega fram á að hún hefði orðið fyrir fjártjóni með því að ekki hafði orðið af ráðagerðum um ættleiðingu hennar og heimild hennar til málsóknar var ekki háð því að leitt væri nánar í ljós hvert umfang tjónsins væri. Var því lagt fyrir héraðsdómara að taka þá kröfu X til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Sóknaraðili stefndi A og B til réttargæslu fyrir héraðsdómi. Þau hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði Y ódagsetta umsókn til dóms- og kirkjumálaráðherra um leyfi til að ættleiða sóknaraðila. Þar kom meðal annars fram að hún væri dóttir eiginkonu Y, sem hafi látist 15. janúar 1988. Með þessari umsókn fylgdi yfirlýsing 23. mars 1988 frá sóknaraðila, sem þá var tvítug að aldri, um samþykki hennar fyrir ættleiðingunni. Bæði umsóknin og yfirlýsingin voru rituð á prentuð eyðublöð, en neðan við undirritun sóknaraðila á síðarnefnda skjalinu stóð eftirfarandi: „Hér með vottast, að samþykkjandi hefur staðfest samþykkisyfirlýsingu þessa í minni viðurvist og hefur honum verið kynnt efni ættleiðingar- og erfðalaga um réttaráhrif ættleiðingar.“ Neðan við þennan texta var gert ráð fyrir „undirskrift embættismanns“ ásamt tilgreiningu staðar og dagsetningar, en eyðublaðið var ekki útfyllt að þessu leyti. Fyrir liggur í málinu afrit af bréfi ráðuneytisins 12. apríl 1988 til sóknaraðila, þar sem vísað var til fram kominnar umsóknar um leyfi til ættleiðingar, en bréf þetta mun hafa verið sent í almennum pósti. Athygli sóknaraðila var þar vakin á því að nauðsynlegt væri að hún staðfesti fyrrgreinda yfirlýsingu fyrir starfsmanni ráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 10. gr. þágildandi ættleiðingarlaga nr. 15/1978, og var henni bent á að panta viðtalstíma til þessa við fyrsta tækifæri. Sóknaraðili kveður þetta bréf aldrei hafa borist sér og hafi hún talið að lokið væri öllum samskiptum við ráðuneytið vegna umsóknarinnar, sem nafngreindur lögmaður hafi sinnt af hennar hálfu og Y. Eftir að Y lést [...] 2005 hafi á hinn bóginn komið fram að leyfi til ættleiðingar hafi aldrei verið gefið út. Fram er komið að af hálfu ráðuneytisins hafi ekkert frekar verið hafst að vegna umsóknarinnar eftir að fyrrnefnt bréf var sent 12. apríl 1988.
Sóknaraðili höfðaði þetta mál gegn varnaraðila 10. janúar 2007 og krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að ættleiðing Y á henni hefði öðlast gildi 23. mars 1988. Til vara krafðist sóknaraðili viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna fjárhæðar, sem svari til þess sem hún hefði fengið í arf eftir Y að viðbættum dráttarvöxtum frá þingfestingardegi málsins. Að þessu frágengnu krafðist hún þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér 11.386.385 krónur með vöxtum eins og að framan greinir. Með hinum kærða úrskurði var málinu í heild vísað frá dómi.
II.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að vísa aðalkröfu sóknaraðila frá dómi.
Sóknaraðili skírskotar til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til að hafa uppi fyrrgreinda varakröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart sér. Ættleiðing sóknaraðila samkvæmt umsókn Y hefði myndað lögerfðarétt henni til handa eftir hann, sbr. 1. mgr. 5. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að Y hafi látið eftir sig eignir, sem hefðu getað komið til arfs eftir hann, en fyrir liggur að eftirlifandi eiginkona hans hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Með þessu hefur sóknaraðili sýnt nægilega fram á að hún hafi orðið fyrir fjártjóni með því að ekki hafi orðið af ráðagerðum um ættleiðingu hennar, en heimild hennar til málsóknar með stoð í áðurgreindu lagaákvæði er ekki háð því að leitt sé nánar í ljós hvert umfang tjónsins sé, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 13. febrúar 2003 í máli nr. 384/2002 og 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005. Þótt í varakröfu sóknaraðila sé hvorki tekið fram að þar sé leitað dóms um viðurkenningu skaðabótaskyldu fyrir fjárhæð, sem svari til þess sem sóknaraðili hefði fengið að lögerfðum eftir Y sem kjördóttir hans, né við hvaða tímamark miða ætti verðgildi eigna dánarbús hans og stöðu skuldbindinga til útreiknings hugsanlegra skaðabóta, gefur sú ónákvæmni ekki nægilegt tilefni til að vísa kröfunni frá dómi. Verður því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir héraðsdómara að taka varakröfu sóknaraðila til efnismeðferðar.
Þrautavarakrafa sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að greiða henni 11.386.385 krónur í skaðabætur er reist á áætlun fjárhæðar, sem hún virðist telja að lögarfur hennar eftir Y sem kjörbarns hans gæti hafa numið. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að vísa beri þessari kröfu frá dómi vegna vanreifunar.
Rétt er að málskostnaður í héraði í þessum þætti málsins bíði efnisdóms. Eftir úrslitum þess fyrir Hæstarétti eru ekki efni til að dæma kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um frávísun aðalkröfu og þrautavarakröfu sóknaraðila, X, á hendur varnaraðila, íslenska ríkinu. Ákvæði úrskurðarins um frávísun varakröfu sóknaraðila er fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka hana til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2007.
Mál þetta var höfðað 10. janúar 2007.
Stefnandi er X [heimilisfang].
Stefndi er íslenska ríkið. Einnig er A [heimilisfang] og B [heimilisfang] stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda: Þess er aðallega krafist að viðurkennt verði með dómi að ættleiðing Y [kennitala], á stefnanda hafi öðlast gildi frá og með 23. mars 1988. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri fébótaábyrgð er nemur þeirri fjárhæð sem stefnandi hefði fengið í arf eftir Y, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 11.386.385 ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði í heild vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Til þrautavara krefst stefndi verulegrar lækkunar á þeirri skaðabótakröfu sem fram kemur í þrautavarakröfu stefnanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Réttargæslustefndu gera þær dómkröfur að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað.
Aðalkrafa stefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um hana 29. f.m. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að við efnisdóm verði tekið verði tillit til kostnaðar við þennan þátt málsins.
Með bréfi hæstaréttarlögmanns, dags. 25. mars 1988, til dómsmálaráðuneytisins fylgdi umsókn með útfyllingu þar til gerðs eyðublaðs - Y [heimilisfang] um leyfi dómsmálaráðherra til að ættleiða X, stefnanda máls þessa. Þar kemur fram að hún hafi dvalið á heimili umsækjanda í 12 ár og að eiginkona hans, C, móðir X, hafi andast 15. janúar 1988; enn fremur að hann eigi einn dreng, A, 13 ára. Með umsókninni fylgdi samþykki stefnanda fyrir ættleiðingunni með undirritun 23. mars 1988 á þar til gerðu eyðublaði sem ber yfirskriftina: „Samþykki þess, sem ættleiða á, ef hann er 12 ára eða eldri“. Með undirrituninni var jafnfram staðfest að stefnandi hefði kynnt sér efni ættleiðingar- og erfðalaga um réttaráhrif ættleiðingar. Neðst á eyðublaði þessu er prentað: „Hér með vottast, að samþykkjandi hefur staðfest samþykkisyfirlýsingu þessa í minni viðurvist og hefur honum verið kynnt efni ættleiðingar- og erfðalaga um réttaráhrif ættleiðingar.“ Þar undir er gert ráð fyrir dagsettri „undirskrift embættismanns“ sem ekki er til staðar.
Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 12. apríl 1988, til stefnanda sem sent var henni á heimili hennar og stjúpföður hennar, Y, var henni kynnt að framangreind umsókn hefði borist ráðuneytinu. Af því tilefni var vakin athygli á því að samkvæmt ættleiðingarlögum nr. 15/1978 væri nauðsynlegt að hún staðfesti samþykkisyfirlýsingu sína til ættleiðingarinnar fyrir starfsmanni dómsmálaráðuneytisins. Var henni bent á að panta til þess viðtalstíma við fyrsta hentugt tækifæri. Í stefnu segir að erindi þetta, sem sent hafi verið í almennum pósti, hafi aldrei borist til stefnanda og ekki hafi heldur verið gerður neinn reki að hálfu stefnda til að tryggja að henni væri kunnugt um efni bréfsins.
Y lést [...] 2005 og skyldi eftir sig soninn A [kennitala]. Eftirlifandi eiginkona hans, B, sem hann hafði kvænst árið 1989, fékk 2. mars 2006 leyfi sýslumannsins í Hafnarfirði til setu í óskiptu búi eftir hann.
Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 20. september 2005, til lögmanns stefnanda er vísað til símbréfs hans til ráðuneytisins þar sem þess hafi verið farið á leit að upplýst yrði hvort stefnandi hefi verið ættleidd. Samkvæmt gögnum ráðuneytisins hafi ættleiðingarleyfi vegna hennar ekki verið gefið út.
Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 23. september 2005, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir m.a. að stefnandi hafi talið sig hafa uppfyllt skilyrði til ættleiðingarinnar og talið sig vera ættleidda dóttur Y í öll þau ár sem síðan séu liðin. Y sé nýlega dáinn og miklir hagsmunir í húfi fyrir stefnanda, bæði tilfinningalegir og fjárhagslegir. Þess er krafist að gefið verði út ættleiðingarleyfi vegna hennar og að það hafi réttaráhrif frá þeim tíma er um það var sótt. Framangreindir kröfu var hafnað með bréfi ráðuneytisins 3. október 2005. Með bréfi lögmanns stefnanda til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 8. nóvember 2005, var óskað eftir afstöðu þess til bótakröfu stefnanda sem muni nema þeirri fjárhæð sem hún hefði fengið úr dánarbúi Y hefði ættleiðingin náð fram að ganga á sínum tíma; fyrir dyrum standi uppgjör á dánarbúi Y og sé ljóst að stefnandi muni verða fyrir verulegu tjóni vegna handvammar ráðuneytisins. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendi ríkislögmanni málið til meðferðar með bréfi 15. nóvember 2005 þar sem jafnframt var tekið fram að ráðuneytið teldi að hafna bæri bótakröfunni. Í bréfi ríkislögmanns til lögmanns stefnanda, dags. 3. janúar 2006, er því lýst yfir að embætti hans sé sammála dómsmálaráðuneytinu varðandi afstöðu til bótakröfu stefnanda.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. þær óskráðu reglur um sama efni sem tilgreind lög séu reist á. Vísað er til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, þeirrar víðtæku skyldu sem hvíli á stjórnvöldum að sjá til þess að mál séu nægjanlega vel upplýst svo og þess að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Við beitingu og skýringu þeirra ákvæða stjórnsýslulaga, sem lúti að framangreindu, beri að líta til laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, Evrópuráðssamning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. auglýsingu nr. 11/1954, og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. þágildandi 66. gr. stjórnarskrárinnar.
Á því er byggt að telji dómurinn að ekki sé unnt að viðurkenna að ættleiðing Y á stefnanda hafi öðlast gildi frá og með 23. mars 1988 hljóti það að leiða af reglum skaðabótaréttar að brot gegn skýrum reglum stjórnsýsluréttarins feli í sér að stefndi beri fébótaábyrgð gagnvart stefnanda.
Stefnandi kveðst byggja varakröfu sína á þann hátt að viðurkennt verði með dómi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að stefndi beri fébótaábyrgð er nemi þeirri fjárhæð sem stefnandi hefði fengið úr dánarbúi Y. Dómkrafan sé sett fram með þessum hætti þar sem óljóst sé hver sú fjárhæð sé sem stefnandi hefði fengið úr dánarbúinu.
Þrautavarakrafa stefnanda tekur mið af þeim opinberu upplýsingum sem stefnandi kveðst hafa aflað sér um fjárhag dánarbúsins. Tekið sé m.a. mið af skatta- og útsvarsskrá Reykjanesumdæmis vegna ársins 2005, fasteignamati vegna [...], auglýsingum um nýtt fasteignamat, dags. 23. desember 2004 og 21. desember 2005, kaupsamningi vegna [...], dags. 3. mars 2006, og mati á dánarbúi Y, dags. 29. desember 2006. Fundið er út að áætluð eign til skipta sé að virði 68.318.308 krónur, hjúskapareign Y 34.159.154 krónur, arfshlutur barna 22.772.769 krónur og þrautavarakrafa því 11.386.385 krónur.
Frávísunarrök stefnda:
A) Um aðalkröfu stefnanda.
Stefnandi eigi ekki aðild að kröfunni því að Y hafi sótt um að ættleiða stefnanda þó svo að samþykki hennar væri áskilið. Dómstólar hafi ekki vald til að dæma sakarefnið, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins. Í kröfugerðinni felist í raun krafa um að dómstóll gefi út ættleiðingarleyfi eða komi á því réttarástandi frá 23. mars 1988. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi þurft að stefna þeim aðilum, sem hann stefndi til réttargæslu, beint til að þola dóm. Að mati stefnda er ekki fullnægt skilyrðum 25. gr. laga nr. 91/1991 og að auki sé krafan óskýr og vanreifuð og ekki í samræmi við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
B) Um varakröfu stefnanda.
Krafan byggi á óljósum atriðum og útilokað sé að hún geti endurspeglað dómsorð í málinu. Engin leið sé fyrir stefnda að finna út úr því hvað stefnandi hefði fengið í arf. Ekki sé fullnægt skilyrðum 25. gr. laga nr. 91/1991 og að auki sé krafan óskýr og vanreifuð og ekki í samræmi við d- og e- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
C) Umþrautavarakröfu stefnanda.
Ekki liggi fyrir fullnægjandi gögn og upplýsingar til að styðja það mat sem liggi fyrir í málinu og er því mótmælt sem óljósu, ósönnuðu og of háu. Stefndi telur kröfuna vera óskýra og vanreifaða og ekki í samræmi við d-, e- og g- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Ættleiðingarlög nr. 15/1978 giltu á þeim tíma sem um ræðir í málinu eða allt til þess er lög nr. 130/1999 leystu þau af hólmi. Í 1. gr. þeirra sagði að dómsmálaráðherra veitti leyfi til ættleiðingar. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skyldi samþykki til ættleiðingar gefið skriflega og viðkomandi staðfesta yfirlýsingu fyrir starfsmanni dómsmálaráðuneytisins eða öðrum opinberum starfsmanni eða stofnun sem dómsmálaráðuneytið löggilti til þess. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skyldi rita á samþykkisyfirlýsingu vottorð starfsmanns dómsmálaráðuneytisins eða annars opinbers starfsmanns eða starfsmanns stofnunar, sbr. 1. mgr., þess efnis að viðkomandi hefði fengið fræðslu um lagaáhrif ættleiðingar og samþykkisyfirlýsingar.
Ljóst er og viðurkennt af stefnanda að leyfi til handa Y til að ættleiða stefnanda var ekki gefið út enda lá ekki fyrir samþykki hennar sem fullnægði áskilnaði 10. gr. ættleiðingarlaga. Engu að síður er aðalkrafa stefnanda sú að viðurkennt verði með dómi að ættleiðing Y á stefnanda hafi öðlast gildi frá og með 23. mars 1988 er hún undirritaði samþykkisyfirlýsingu til ættleiðingarinnar eins og fyrr greinir. Slík viðurkenning felur í sér að dómurinn komi í stað dómsmálaráðherra með því að koma á því réttarástandi sem í ættleiðingarleyfi felst en það er ekki á valdsviði dómstóla. Ber því að vísa aðalkröfu stefnanda frá dómi sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Til þess að unnt sé að viðurkenna með dómi fébóta- (skaðabóta-) ábyrgð þarf ekki einungis að liggja fyrir sönnun um skaðabótaskyldan verknað eða athafnaleysi eins og háttar um varakröfu stefnanda heldur þarf að sýna með óyggjandi hætti fram á tjón sem til þessa verði rakið. Svo er ekki í þessu tilviki. Engin skattframtöl hafa verið lögð fram og ekki heldur gögn sem sýni ótvírætt tilheyrslu og verðmæti eigna. Fallist er á að krafan byggi á óljósum atriðum og að ekki sé tæk niðurstaða að hún verði tekin upp sem dómsorð. Samkvæmt þessu og með vísun til 25. gr. og d- og e- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 ber að vísa varakröfu stefnanda frá dómi.
Forsendur, sem fengnar eru til útreiknings þrautavarakröfu stefnanda, eru mjög óljósar. Til marks um það er mat sem Sigurgeir Tryggvason vann fyrir stefnanda einhliða í tengslum við málarekstur þennan en matsgerð er dagsett 29. desember 2006. Þar segir m.a.: „Í tilfelli Y er þekkt að dánarbúið átti í það minnsta tvær fasteignir, annars vegar einbýlishús að [...] í Garðabæ og hins vegar einbýlishús á Spáni sem keypt var í byrjun árs 2001 þó svo að eignin kynni að hafa verið skráð undir félagi í eigu Y. Einnig er vitað að meðal eigna í búinu voru hlutabréf í Kaupþingi banka og Hlutabréfasjóði Búnaðarbankans auk óskráðra hlutabréfa, sbr. leyfi til setu í óskiptu búi.“ Fallist er á það með stefnda að krafa þessi sé óskýr og vanreifuð. Hún er ekki í samræmi við d- og e- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og ber því að vísa henni frá dómi. Að auki skal fram tekið ex officio: Ekki verður séð að komið gæti til þess að fallist yrði á þrautavarakröfu stefnanda eftir að sýknað hefði verið af varakröfunni þar sem í þeirri niðurstöðu fælist að ekki væri sýnt fram á að grundvöllur fébótaábyrgðar væri fyrir hendi, sbr. einnig það, sem segir í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að leita má viðurkenningardóms þótt þess í stað væri unnt að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Í þessu tilliti skiptir rökræn innbyrðis röðun krafnanna því meginmáli. Einnig af þessari ástæðu verður talið að vísa beri málinu frá dómi.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða úrskurðarins sú að vísa beri málinu í heild frá dómi og tekur það einnig til þeirra málskostnaðarkrafna sem fram hafa verið settar af hálfu réttargæslustefndu.
Eftir atvikum er ákveðið að málskostnaður skuli falla niður.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.