Hæstiréttur íslands

Mál nr. 506/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Samlagsaðild
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 14

 

Föstudaginn 14. janúar 2005.

Nr. 506/2004.

Sigurjón Sighvatsson

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Byggingafélagi Búða ehf.

(enginn)

Hótel Búðum ehf. og

(Ólafur Haraldsson hrl.)

þrotabúi Viktors H. Sveinssonar

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gagnaöflun. Samlagsaðild. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.

 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun á kröfum S á hendur þrotabúi V á þeim grunni að ekki hafi verið fyrir hendi lagaheimild til málshöfðunar á hendur honum. Þá var einnig staðfest niðurstaða héraðsdómara um að samlagsaðild væri með öðrum varnaraðilum og að málið hafi verið höfðað innan málshöfðunarfrests. Talið var að S hefði í stefnu mátt gera gleggri grein fyrir því tjóni sem skaðabótakröfu hans var ætlað að bæta. Eins og málið var vaxið hafi þó ekki verið næg efni til að telja annmarka á reifun S fyrir kröfugerð sinni svo verulegan að ekki mætti bæta úr honum við meðferð málsins, eða að vörn væri svo áfátt vegna skorts á matsgerð að vísa bæri nú málinu frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 30. nóvember 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili Hótel Búðir ehf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili þrotabú Viktors H. Sveinssonar krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili Byggingafélag Búða ehf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Málavextir, málsástæður og lagarök aðila eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hefur sóknaraðili höfðað mál þetta til riftunar á þeirri ráðstöfun Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf. að flytja lóðarleigurétt undir hótelrekstur að Búðum til varnaraðilans Byggingafélagsins Búða ehf., auk þess sem krafist er skaðabóta in solidum úr hendi varnaraðila að fjárhæð 60.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að vísa frá héraðsdómi kröfum á hendur varnaraðilanum þrotabúi Viktors H. Sveinssonar á þeim grunni að ekki hafi verið fyrir hendi lagaheimild til að höfða mál á hendur honum. Á sama hátt er staðfest niðurstaða héraðsdómara um að samlagsaðild sé með öðrum varnaraðilum, sbr. 19. gr. laga nr. 91/1991, og að málið hafi verið höfðað innan málshöfðunarfrests.

Héraðsdómari vísaði frá dómi skaðabótakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum, en ákvað eigi að síður að taka skyldi til efnismeðferðar kröfu sóknaraðila um riftun á umræddum gerningi. Var frávísunin reist á þeim grunni að þar sem sóknaraðili hafi ekki tryggt sér viðhlítandi sönnun fyrir andvirði lóðarréttinda að Búðum, sem honum hafi verið í lófa lagið, eftir atvikum með matsgerð dómkvadds manns. Því bresti skilyrði til að ákveða endurgreiðslu eða skaðabætur að álitum. Engu breyti í því sambandi áskilnaður sóknaraðila um frekari gagnaöflun, enda verði málatilbúnaður að vera skýr að þessu leyti í stefnu þannig að varnaraðilar geti brugðist við af sinni hálfu í greinargerð.

Fallast má á það með varnaraðilum að sóknaraðili hefði í stefnu mátt gera gleggri grein fyrir því tjóni sem skaðabótakröfu hans er ætlað að bæta. Hins vegar er grundvöllur málatilbúnaðar hans ljós í aðalatriðum og í stefnu rökstyður hann fjárhæð skaðabótakröfu sinnar sérstaklega, eins og rakið er í hinum kærða úrskurði. Í því sambandi vísar hann til gagna og atvika sem hann telur varpa ljósi á réttmæti fjárhæðar skaðabótakröfu sinnar, jafnframt því sem hann beinir áskorunum til varnaraðila um að upplýsa tilgreind atriði. Verður ekki talið að sóknaraðila hafi borið skylda fyrir höfðun málsins til að leita eftir mati dómkvadds manns um andvirði umræddra lóðarréttinda, fyrr en ljóst var að varnaraðilar féllust ekki á rökstuðning hans um fjárhæð bótakröfunnar, enda áskildi sóknaraðili sér þess vegna sérstaklega rétt til frekari framlagningar gagna og til að afla mats dómkvaddra manna til sönnunar um verðmæti þeirra lóðarréttinda er riftunin lýtur að. Eins og mál þetta er vaxið eru ekki næg efni til að telja annmarka á reifun sóknaraðila fyrir kröfugerð sinni svo verulegan að ekki megi bæta úr honum við meðferð málsins eða að vörn verði svo áfátt vegna skorts á matsgerð að vísa beri nú málinu frá héraðsdómi.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Samkvæmt því er lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilum, öðrum en  þrotabúi Viktors H. Sveinssonar sem vísað er frá héraðsdómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila þrotabúi Viktors H. Sveinssonar málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Rétt er að hver aðila beri að öðru leyti sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um frávísun frá héraðsdómi á kröfum sóknaraðila, Sigurjóns Sighvatssonar, á hendur varnaraðila, þrotabúi Viktors H. Sveinssonar. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið að öðru leyti til efnismeðferðar.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi Viktors H. Sveinssonar, samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 30. nóvember 2004.

             Mál þetta var höfðað 3. og 6. júní 2004 og tekið til úrskurðar 24. nóvember sama ár. Stefnandi er Sigurjón Sighvatsson, 155 N. Anita Avenue, Kaliforníu í Bandaríkjum Norður-Ameríku, en stefndu eru Byggingafélag Búða ehf., Hótel Búðir ehf. og þrotabú Viktors H. Sveinssonar, allir til heimilis að Búðum í Snæfellsbæ.

             Stefnandi hefur höfðað málið til riftunar á þeirri ráðstöfun Fasteignarfélagsins Kaupstaðar ehf. að flytja lóðarleigurétt undir hótelrekstur að Búðum til stefnda Byggingafélags Búða ehf., auk þess sem krafist er endurgreiðslu eða skaðabóta úr hendi stefndu in solidum að fjárhæð 60.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 14. október 2002 til greiðsludags. Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda.

             Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar aðalkrafa allra stefndu um að málinu verði vísað frá dómi. Auk þess gera stefndu kröfu um að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

             Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu í þessum þætti málsins.

I.

             Með samningi 17. maí 2000 leigði landbúnaðarráðherra Fasteignafélaginu Kaupstað ehf. lóð úr landi Búða í Snæfellsbæ. Með samningnum fylgdi uppdráttur frá 28. janúar 1999 þar sem sýnd var stærð og lega lóðarinnar. Samningurinn var til 25 ára með forleigurétti, en leiga fyrir hvert almanaksár nam 4% af fasteignarmati lóðarinnar, þó aldrei lægri fjárhæð 25.000 krónur miðað við byggingarvísitölu við upphaf leigutíma. Leigusamningur þessi leysti af hólmi eldri leigusamning frá 3. júlí 1975 við Búðir hf. Á lóðinni stóð hótelbygging í eigu og rekstri stefnda Byggingafélags Búða ehf. (áður Hótel Búðir hf. og Hótel Búðir ehf.)

             Hinn 14. apríl 2000 var stofnað Fasteignafélagið Kaupstaður ehf. og var Viktor H. Sveinsson eini stjórnarmaður félagsins frá því það var stofnað þar til bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 11. júlí 2002. Hlutafé í félaginu var 500.000 krónur, sem skiptist þannig að Viktor H. Sveinsson lagði fram 300.000 krónur en Ingvar Þórðarson 200.000 krónur. Svo sem áður greinir var félagið leigutaki samkvæmt fyrrgreindum lóðarleigusamningi. Stefnandi hefur höfðað mál þetta til hagsbóta fyrir þrotabú félagsins með heimild skiptastjóra þess á grundvelli 1. mgr. 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

             Í viljayfirlýsingu frá 12. október 2000, sem undirrituð er af stefnanda, Viktori H. Sveinssyni og Þorsteini Jónssyni, kemur fram að aðilar muni eiga í jöfnum hlutum allar fasteignir á Búðum, auk innanstokksmuna og fylgihluta, sem tilheyrðu hótelrekstrinum. Einnig er tekið fram að í sameiginlegri eigu þeirra skuli vera viðskiptaáætlanir, leyfi og samningar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Búðum. Þá segir að sömu aðilar muni jafnframt eiga að jöfnu fasteign á Tröllaendum í Flatey á Breiðafirði, ásamt viðskiptaáætlun um uppbyggingu hótels, safns og sumarbústaðahverfis.

Í umræddri viljayfirlýsingunni kemur fram að fyrirhugað sé að aðilar hefji hótel- og veitingarekstur á Búðum og í Flatey ásamt annarri uppbyggingu ferðaþjónustu, auk endursölu á herbergjum og bústöðum. Jafnframt segir að aðilar gangist við skuldum stefnda Byggingafélags Búða ehf. að fjárhæð um 42.000.000 króna, auk þess sem gert er ráð fyrir því að allur rekstur, eignir og skuldir á Búðum og í Flatey verði yfirfærðar á Fasteignafélagið Kaupstað ehf. eigi síðar en 1. nóvember 2000. Enn fremur segir að stefnandi og Þorsteinn Jónsson muni útvega endurfjármögnun lausaskulda Búða sem nemi um 15.000.000 króna, en stefnandi muni fara fyrir hópnum við heildarfjármögnun. Þá kemur fram að Fasteignafélagið Kaupstaður ehf. muni greiða til fyrri hluthafa í félaginu, Ingvars Þórðarsonar, 15.000.000 króna með skuldabréfi til 5 ára, sem tryggt verði með ábyrgð eigenda félagsins. Loks segir í niðurlagi viljayfirlýsingarinnar að samningar um nánari útfærslu á framangreindum atriðum verði undirritaðir fyrir 1. desember 2000.

Samhliða viljayfirlýsingunni gerðu þremenningarnir með sér samkomulag um að gangast í sjálfskuldarábyrgð in solidum fyrir átta skuldabréfum samtals að fjárhæð 16.000.000 króna útgefnum af Fasteignafélaginu Kaupstað ehf. til Ingvars Þórðarsonar. Voru bréfin til fimm ára með árlegri afborgun og hvert að fjárhæð 2.000.000 króna. Í samkomulaginu segir að stefnandi og Viktor hafi áritað bréfin um ábyrgð sína, en tekið er fram að Þorsteinn gangist einnig undir ábyrgð fyrir greiðslu bréfanna.

Stefnandi heldur því fram að Viktor H. Sveinsson hafi ekki staðið við að flytja eignir tengdar fyrirhuguðum rekstri yfir á Fasteignafélagið Kaupstað ehf. og því hafi ekki verið gerður endanlegur samningur fyrir 1. desember 2000 milli þremenninganna, eins og gert var ráð fyrir í viljayfirlýsingu þeirra. Af hálfu stefndu Byggingafélags Búða ehf. og Hótel Búða ehf. er því á hinn bóginn haldið fram að stefnandi og Þorsteinn hafi ekki staðið við viljayfirlýsinguna fyrir sitt leyti.

Hinn 21. febrúar 2001 brann hótelbyggingin að Búðum. Vátryggingartaki var stefnda Byggingafélag Búða ehf. og voru brunabætur greiddar því félagi. Í kjölfarið var hafist handa við að reisa nýtt hótel að Búðum.

Með bréfi 15. maí 2001 til landbúnaðarráðuneytisins, sem Viktor H. Sveinsson ritaði fyrir hönd stefnda Byggingafélags Búða ehf. og Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf., var þess farið á leit að lóðarleigusamningur frá 17. maí 2000 yrði færður yfir á nafn stefnda Byggingafélags Búða ehf. Fram kom í þessu erindi að áætlanir um að nýtt félag tæki við rekstrinum hefðu breyst og því væri rétt að leigutaki yrði það félag sem staðið hefði að rekstrinum undanfarin 15 ár og væri jafnframt skráð fyrir þeim fasteignum sem enn stæðu að Búðum. Eftir að hafa borið erindið undir jarðanefnd og sveitarstjórn samþykkti ráðuneytið með bréfi 3. júlí 2001 að stefndi Byggingafélag Búða ehf. yrði leigutaki að lóð undir hótelið í stað Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf. Bréf þetta áritaði síðan Viktor H. Sveinsson fyrir hönd Byggingafélags Búða ehf. og Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf. og var skjalið móttekið til þinglýsingar 13. september 2001 og innfært í þinglýsingabók 14. sama mánaðar.

Hinn 1. maí 2002 afsalaði Viktor H. Sveinsson fyrir hönd stefnda Byggingafélags Búða ehf. nýbyggingu hótels að Búðum, ásamt öllum tilheyrandi réttindum samkvæmt lóðarleigusamningi til stefnda Hótels Búða ehf. (áður Reykjavíkurvegur 45 ehf. og Fasteignafélagið Fálkaborg ehf.). Það félag var stofnað 30. ágúst 2000 og meðal stofnenda var stefnda Byggingafélag Búða ehf. Samkvæmt afsalinu var kaupverðið greitt með yfirtöku áhvílandi skulda upphaflega að fjárhæð 39.341.976 krónur og skuldabréfi fyrir eftirstöðvum kaupverðs að fjárhæð 53.514.880 krónur. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 31. maí 2002 og innfært í þinglýsingabók 2. júní sama ár. Aðdragandi afsalsins var kaupsamningu aðila frá 12. júlí 2001, en samkvæmt honum var kaupverðið 153.000.000 krónur, þar af 44.985.120 krónur yfirteknar veðskuldir. Kaupsamningurinn var móttekinn til þinglýsingar 19. desember 2001 og innfærður í þinglýsingabók 20. sama mánaðar.

Hinn 19. september 2002 var gert samkomulag milli seljanda og kaupanda um uppgjör og afhendingu samkvæmt kaupsamningnum frá 12. júlí 2001. Þar kom fram að hvorugur aðila hefði getað staðið við skyldur sínar og því væru þeir sammála um að breyta umsömdu afhendingarstigi hótelsins samkvæmt meðfylgjandi ástandslýsingu. Einnig hefði seljandi ekki aflétt áhvílandi veðskuldum kaupandi óviðkomandi. Af þessu sökum veitti seljandi afslátt að fjárhæð 22.000.000 króna og því nam kaupverðið 131.000.000 króna í stað 153.000.000 króna. Í samkomulaginu er síðan að finna nánari sundurliðun á því hvernig stefndi Hótel Búðir ehf. hefði staðið skil á 53.514.880 krónur af kaupverðinu, sem greiða átti með skuldabréfi.

Hinn 11. júlí 2002 var bú Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu stefnanda var lýst kröfu í búið samtals að fjárhæð 17.961.802 krónur. Var krafan reist á fjórum skuldabréfum útgefnum 20. október 2000 af félaginu með ábyrgð stefnanda, en hann hafði leyst bréfin til sín. Samkvæmt fundargerð frá skiptafundi í búinu 1. nóvember 2002 námu lýstar kröfur samtals 42.531.542 krónur. Ekki var tekin afstaða til lýstra krafna. Þá var fært til bókar að ekki lægi annað fyrir en að félagið væri eignarlaust. Þó hefði athygli skiptastjóra verið vakin á því að félagið hefði verið leigutaki af lóð undir hótel að Búðum, en sá samningur hefði verið framseldur stefnda Hótel Búðum ehf. án þess að nokkuð endurgjald hefði komið fyrir. Af þessu tilefni taldi skiptastjóri rétt að kanna málið nánar og var skiptum því ekki lokið.

Með bréfi 24. febrúar 2003 heimilaði skiptastjóri þrotabús Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf. stefnanda að höfða riftunarmál vegna framsals félagsins á lóðarleigusamningi 17. maí 2000 til stefnda Byggingafélags Búða ehf. Heimildin var þó bundin því skilyrði að málshöfðunin yrði þrotabúinu að kostnaðarlausu og að ávinningur, ef einhver yrði, rynni til þrotabúsins. Stefnandi höfðaði mál í nafni þrotabúsins 11. apríl 2003 á hendur stefndu en því máli var vísað frá dómi með úrskurði réttarins 8. desember 2003 þar sem stefnandi höfðaði ekki málið í eigin nafni í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 23. janúar 2004 í máli nr. 489/2003. Stefnandi höfðaði svo mál þetta í eign nafni 3. og 6. júní 2004, svo sem áður er getið.    

II.

Stefnda Hótel Búðir ehf. reisir kröfu um frávísun málsins á því að ekki sé samlagsaðild með stefnda og öðrum þeim sem málið hefur verið höfðað gegn þar sem kröfur í málinu eigi ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, eins og áskilið sé í 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 19/1991. Í því sambandi bendir stefnda á að kröfur stefnanda verði raktar til tveggja mismunandi samninga, annars vegar samnings um framsal lóðaleiguréttinda að Búðum frá Fasteignafélaginu Kaupstað ehf. til stefnda Byggingarfélags Búða ehf. og hins vegar samnings um framsal sömu réttinda frá stefnda Byggingarfélagi Búða ehf. til stefnda Hótels Búða ehf. Þá verði kröfur stefnanda heldur ekki raktar til sömu atvika eða aðstæðna.  

Stefnda þrotabú Viktors H. Sveinssonar reisir frávísunarkröfu sína á því að ekki standi heimild til að höfða dómsmál á hendur þrotabúinu, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þess í stað hafi stefnanda borið að lýsa kröfu sinni í búið, sbr. 1. mgr. 117. gr. sömu laga. Telur stefndi að eðlisrök leiði til þessarar niðurstöðu, enda mætti ella gera ráð fyrir að örðugt yrði að úthluta úr þrotabúi ef vænta mætti síðbúinna krafna, sem ekki hefði verið lýst í búið.

Þá halda stefndu Byggingafélag Búða ehf. og þrotabú Viktors H. Sveinssonar því fram að kröfugerð stefnanda sé vanreifuð þar sem stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings stefnufjárhæð. Þannig njóti ekki við matsgerðar eða nánari útreikninga á fjárhæð kröfunnar. Af hálfu stefnda Hótels Búða ehf. var því einnig hreyft við munnlegan flutning málsins um frávísunarkröfu stefndu að málatilbúnaður stefnanda væri ekki nægjanlega glöggur svo unnt væri að leggja dóm á málið.

Loks var því haldið fram af hálfu stefnda Byggingafélags Búða ehf. við munnlegan flutning í þessum þætti málsins að vísa bæri málinu frá þar sem það hefði verið höfðað að liðnum sex mánaða fresti til málshöfðunar, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. nr. 21/1991. Af hálfu stefnanda var þessari frávísunarástæðu andmælt sem of seint fram kominni.

III.

             Stefnandi heldur því fram að kröfur í málinu eigi rót að rekja til sömu atvika og aðstöðu og því sé öllum hlutaðeigandi stefnt í málinu. Kröfur á hendur stefnda Byggingafélagi Búða ehf. séu öðrum þræði endurgjaldskröfur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, en jafnframt séu kröfur á hendur félaginu byggðar á sakarreglunni. Kröfur á hendur stefndu Hótel Búðum ehf. og þrotabúi Viktors Sveinssonar séu hins vegar sakaðabótakröfur reistar á almennu sakarreglunni. Dómkröfurnar séu samrættar og verði allar raktar til þess að fasteignaréttindi að Búðum hafi verið flutt frá Fasteignafélaginu Kaupstað ehf. til stefnda Byggingafélags Búða ehf. og þaðan til stefnda Hótels Búða ehf., allt með vitund og vilja forsvarsmanna allra félaganna, gert í því skyni að skjóta eignum undan við fullnustugerðir skuldheimtumanna. Telur stefnandi óhjákvæmilegt að sækja stefndu sameiginlega í málinu og að réttarfarsreglur standi ekki í vegi fyrir slíkri málssókn.

             Um stefnufjárhæðina tekur stefnandi fram að hún miðist við tjón sem stefnandi og þar með kröfuhafar í búið hafi orðið fyrir vegna ráðstöfunar á fasteignaréttindum að Búðum og jafnfram auðgunar viðtakenda. Sömu sjónarmið eigi við um ákvörðun fjárhæðar endurgreiðslukröfu og skaðabóta og því sé ástæðulaust að gera greinarmun þar á. Hin leigða lóð sé um 10.000 fermetrar að stærð, við sjó á afar friðsælum og fallegum stað, sem dragi til sín fólk úr öllum áttum. Þá tekur stefnandi mið af því að greiða þurfti Ingvari Þórðarsyni 16.000.000 króna fyrir hans hlut í Fasteignafélaginu Kaupstað ehf., en sá hlutur hafi verið 200.000 krónur af 500.000 króna hlutafé. Þar sem engar aðrar eignir voru í félaginu hafi lóðarréttindin verið metin á 40.000.000 króna gagnvart Ingvari, sem hafði ekki fjármuni til að taka þátt í frekari fjárfestingum og því um þvinguð kaup að ræða gagnvart honum. Stefnandi miðar við að verðmæti lóðarinnar hafi verið 60.000.000 króna þegar viljayfirlýsingin frá 12. október 2000 var gerð. Við það mat ráði mestu að leigusamningur um lóðina var til 25 ára með forleigurétti. Komi fram mótmæli við kröfufjárhæðinni áskilur stefnandi sér rétt til að leggja fram sönnunargögn um verðmætið, þar á meðal mat dómkvaddra manna.

IV.

             Með úrskurði dómsins 16. desember 2002 var bú Viktors H. Sveinssonar tekið til gjaldþrotaskipta, en stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur þrotabúinu. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, verður dómsmál ekki höfðað gegn þrotabúi nema til þess standi sérstök lagaheimild. Að öðrum kosti verður sá sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi að lýsa henni fyrir skiptastóra, sbr. 1. mgr. 117. gr. sömu laga. Á það verður ekki fallist með stefnanda að óskipt skylda hvíli á stefndu og því reynir ekki á hvort nauðsyn hafi borið til vegna samaðildar að höfða málið á hendur þrotabúi Viktors H. Sveinssonar. Samkvæmt þessu er ekki fyrir hendi lagaheimild til að höfða mál þetta á hendur þrotabúinu og verður því kröfum á hendur því vísað frá dómi.

             Stefnandi byggir málsókn sína á hendur stefndu Byggingafélagi Búða ehf. og Hótel Búðum ehf. meðal annars á því að fyrirsvarsmenn félaganna hafi sameiginlega átt aðild að ólögmætu undanskoti á lóðarleiguréttindum að Búðum þannig að þau standi ekki til fullnustu fyrir kröfuhafa við skipti á þrotabúi Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf. Að þessu gættu verður talið að stefnda Hótel Búðir eigi samlagsaðild með öðrum sem stefnt hefur verið í málinu, sbr. 19. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 19/1991. Verður því ekki fallist á þessa frávísunarástæðu stefnda Hótels Búða ehf.

             Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 skal höfða dómsmál til að koma fram riftun á grundvelli XX. kafla laganna áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.

             Með bréfi lögmanns stefnanda 10. október 2002 var athygli skiptastjóra þrotabús Fasteignafélagsins Kaupstaðar ehf. vakin á því að lóðarleiguréttindum að Búðum hefði verið ráðstafað frá félaginu án þess að endurgjald kæmi fyrir. Var því haldið fram að ráðstöfunin væri riftanleg eftir ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991. Með þessu erindi bárust skiptastjóra nauðsynlegar upplýsingar til þess að geta haft uppi riftunarkröfu. Fresti til að lýsa kröfum í þrotbú Fasteignafélagsins Kaupstaður ehf. lauk hins vegar ekki fyrr en 14. október 2002 og verður því sex mánaða frestur miðaður við það tímamark, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Sá frestur var því ekki liðinn þegar stefnandi höfðaði fyrra mál á hendur stefndu 11. apríl 2003. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði réttarins, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 23. janúar 2004. Tók þá að líða nýr sex mánaða frestur til að höfða nýtt mál í sama skyni, sbr. dóm Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 257/2003. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta 3. og 6. júní 2004 til riftunar á sömu ráðstöfun og fyrra málið tók til, en þá var nýr sex mánaðar frestur til málshöfðunar ekki liðinn. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þá frávísunarástæðu Byggingafélags Búða ehf. að málið hafi verið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991.

             Í einkamálréttarfari gildir sú meginregla að málsaðilar hafa á forræði sínu hvernig þeir standa að málatilbúnaði. Þannig ráða aðilar ágreiningsefni máls og þar með hvaða atriði þarf að sanna, auk þess sem aðilar sjálfir afla sönnunargagna og ráða hvernig staðið verður að sönnunarfærslu. Hvað telst síðan sannað ræðst af meginreglunni um frjálst sönnunarmat dómara, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1991. Þessar meginreglur verður þó að virða í ljósi áskilnaðar um að stefnandi máls leggi skýran grundvöll að málatilbúnaði sínum. Af því leiðir að stefnandi verður að leggja fram þau gögn sem hann reisir málatilbúnað sinn á og tiltæk eru eða unnt að afla án teljandi vandkvæða.

             Stefnandi gerir þá kröfu að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða  60.000.000 króna og er því haldið fram að sú fjárhæð svari að álitum til andvirðis lóðarleiguréttinda sem ráðstafað var frá Fasteignafélaginu Kaupstað ehf. fyrir skipti á búi félagsins. Í málinu nýtur ekki við matsgerðar um verðmæti umræddra lóðarleiguréttinda. Þá verður andvirði þeirra réttinda ekki ákveðið með hliðsjón af greiðslu til Ingvars Þórðarsonar fyrir hlut hans í félaginu. Gegn andmælum stefndu þykir stefnandi því ekki hafa tryggt sér viðhlítandi sönnun fyrir andvirði lóðarleiguréttinda að Búðum, sem honum hefði verið í lófa lagið, eftir atvikum með matsgerð dómkvadds manns. Brestur því skilyrði til að ákveða endurgreiðslu eða skaðabætur að álitum og verður því ekki lagður efnisdómur á þá kröfu, sbr. meðal annars til hliðsjónar dómur Hæstaréttar frá 19. október 2000 í máli nr. 240/2000. Þá breytir engu áskilnaður stefnanda um frekari gagnaöflun, enda bar málatilbúnaður að vera skýr að þessu leyti í stefnu þannig að stefndu gætu brugðist við af sinni hálfu í greinargerð.

             Samkvæmt framansögðu verður vísað frá dómi kröfu stefnanda á hendur stefndu um greiðslu 60.000.000 króna. Eftir stendur þá riftunarkrafa stefnanda á hendur stefnda Byggingafélagi Búða ehf.     

             Eftir þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðin svo sem í úrskurðarorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið mið af því að sami lögmaður fór með málið fyrir hönd stefndu Byggingafélags Búða ehf. og þrotabús Viktors H. Sveinssonar.

             Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Sigurjóns Sighvatssonar, um að stefndu Byggingafélagi Búða ehf., Hótel Búðum ehf. og þrotabúi Viktors H. Sveinssonar verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 60.000.000 króna til hagsbóta fyrir Fasteignafélagið Kaupstað ehf. auk dráttarvaxta.

             Stefnandi greiði stefnda Hótel Búðum ehf. 100.000 krónur í málskostnað og Byggingafélagi Búða ehf. og þrotabúi Viktors H. Sveinssonar 75.000 krónur hvoru.