Hæstiréttur íslands
Mál nr. 273/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 22. janúar 2004. |
|
Nr. 273/2003. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa haft í vörslum sínum á annað þúsund ljósmynda, sem sýndu börn á ýmsum aldri á kynferðislegan og klámfenginn hátt og voru margar myndanna mjög grófar. Taldist brot hans því stórfellt. Var X gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 2003, að fengnu áfrýjunarleyfi, í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds. Krefst ákæruvaldið þess að staðfest verði sakfelling ákærða og upptaka á geisladiski og tölvukassa af gerðinni ACE, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til ítarlegri rannsóknar og dómsmeðferðar að nýju. Til vara krefst hann sýknu.
Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði á því að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Bendir hann í þeim efnum einkum á þrjú atriði. Í fyrsta lagi hafi enginn tölvusérfræðingur verið fenginn að rannsókninni, í öðru lagi hafi rannsóknin ekki beinst að hugsanlegri sök sonar ákærða og í þriðja lagi hafi fingraför á geisladiski, sem fjallað er um í málinu, ekki verið könnuð. Þessi krafa ákærða er haldlaus og verður ekki á hana fallist.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi eru ljósmyndir, sem sakarefnið í málinu snýst um, 1240 að tölu. Tölvumöppurnar, sem meiri hluti þeirra var á, eru fjölmargar. Bera gögn málsins með sér að skrárnar hafi verið stofnaðar á mismunandi tíma og skoðaðar á löngu tímabili. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.
Samkvæmt áðurgildandi fyrsta málslið 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000, varðaði það sektum að hafa í vörslum sínum ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti, sem sýna börn á kynferðislega eða klámfenginn hátt. Með 2. gr. laga nr. 14/2002, sem tóku gildi 27. febrúar 2002, var ákvæðinu breytt á þann veg að sé brot stórfellt getur refsing fyrir það varðað fangelsi allt að tveimur árum. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að markmiðið sé að auka vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun. Bann við því að hafa slíkt efni í vörslum sínum sé talið geta dregið úr eða jafnvel fyrirbyggt kynferðislega misnotkun barna í tengslum við gerð slíks efnis. Að þessu virtu og alvarleika þessara brota sé nauðsynlegt að þau geti varðað þyngri refsingum. Þá sé einnig litið til þess að gera megi ráð fyrir auknum varnaðaráhrifum samfara því að leggja fangelsisrefsingu við broti. Samkvæmt því sé lagt til að fangelsisrefsing verði dæmd þegar brot sé stórfellt en mat á því ráðist einkum af grófleika og magni efnis. Ákærði hafði í vörslum sínum á annað þúsund ljósmynda, sem sýna börn á ýmsum aldri, á kynferðislegan og klámfenginn hátt og eru margar myndanna mjög grófar. Telst brot hans því stórfellt. Við ákvörðun refsingar verður einnig að líta til áðurgreinds marksmiðs núgildandi ákvæðis 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga að vernda skuli börn gegn þeirri svívirðilegu kynferðislegu misnotkun sem felst í töku, sýningu og skoðun klámfenginna mynda af þeim. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði, sem er rúmlega fimmtugur, ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi og ber einnig að taka tillit til þess við ákvörðun refsingar hans. Er hún hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en þar sem ákærði hefur ekki fyrr sætt refsingu þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um upptöku með þeirri leiðréttingu að upptöku skal beita með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2003.
Málið er höfðað með ákæruskjali, dags. 19. desember 2002, á hendur: X, kt. [ ] [ ]
“fyrir kynferðisbrot með því að hafa árið 2002 haft í vörslu sinni á tveimur hörðum diskum í tölvu sinni og á einum geisladiski, 1.240 ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en ákærði hafði afmáð 1.181 ljósmynd af hörðum diskum er lögreglan haldlagði tölvuna og geisladiskinn á heimili hans þriðjudaginn 24. september 2002.
Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39, 2000.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum geisladiski og tölvukassa af gerðinni ACE samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.”
Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greiðist úr ríkissjóði.
Málavextir.
Miðvikudaginn 18. september 2002 mætti A á lögreglustöðina í Reykjavík og gaf skýrslu um vitneskju sína um klámmyndir af börnum í tölvu föður síns, ákærða í málinu. Kvaðst hann hafa búið tímabundið á heimili ákærða og eiginkonu hans að [ . . . ]. Aðrir búi ekki á heimilinu. A, sem nú er 26 ára, kvaðst fyrir 3 árum hafa fyrir tilviljun rekist á barnaklám í tölvu ákærða. Um hafi verið að ræða myndir með mjög grófu barnaklámi. Aðspurður hafi ákærði sagst hafa fengið myndirnar sendar í gegnum Internetið og gleymt að eyða þeim. Kvaðst A myndu tilkynna það lögreglu ef hann sæi slíkar myndir aftur í vörslu hans. Fyrir um mánuði hafi A verið að skoða myndaforrit í tölvunni og þá tekið eftir nektarmyndum af unglingum og börnum í tugum talið. Á einni myndinni hafi staðið „lolitaslife.com“ þannig að ætla mætti að ákærði hafi fengið myndirnar í gegnum Internetið.
Þann 24. september 2002 var tekin lögregluskýrsla af ákærða vegna þessa máls og neitaði ákærði þar sakargiftum. Kvað hann ekkert barnaklám vera í sinni vörslu. Í kjölfar skýrslutökunnar fór fram húsleit á heimilinu og beindist leitin að tölvugögnum hans. Lagt var hald á tölvukassa ACE með tveimur hörðum diskum og einu geisladrifi, 63 disklingum og 25 geisladiskum. Viðstaddur húsleitina var auk ákærða lögmaður hans.
Samkvæmt skýrslu Ágústs Evalds Ólafssonar rannsóknarlögreglumanns, dags. 8. október 2002, hafði hann lokið skoðun á innihaldi tveggja harðra diska, 25 geisladiska og 63 disklinga sem haldlagðir voru. Á hörðu diskunum hafi reynst vera talsvert magn af barnaklámi, þ.e. nektarmyndum af börnum og unglingum, svo og myndum sem sýni samfarir við börn og unglinga. Öllum ljósmyndunum, samtals 1181, hafði verið eytt en unnt hafi verið að endurheimta þær. Einnig hafi verið að finna ljósmyndir með sams konar efni á einum af geisladiskunum. Allt efni, sem lögreglumaðurinn taldi varða sakarefnið, var afritað á sérstakan geisladisk en um var að ræða 1240 afritaðar ljósmyndir, 122 afritaðar textaskrár um kynmök við börn og unglinga.
Ákærði kvaðst fyrir dóminum hafa átt umrædda tölvu um árabil. Hann hafi hins vegar endurnýjað harða diskinn árið 2000 eða 2001. Ákærði kvaðst hvorki kannast við þær ljósmyndir sem hér um ræðir og fundust í tölvunni, né heldur geisladiskinn sem ákæra lýtur að. Hann upplýsir að hann, eiginkona hans og sonur hans A hefðu haft aðgang að tölvunni á þessum tíma en eiginkona hans búi ekki yfir tölvukunnáttu. A hafi búið hjá þeim hjónum á árinu 2001 í einhverja daga. Þá hafi hann búið á heimilinu frá lokum júlí 2002 til 24. september s.á. Á þeim tíma hafi hann haft aðgang að tölvunni og aðgangsorð að Internetinu auk þess að hafa lykil að íbúðinni.
Ákærði kannast ekki við það sem fram kemur í lögregluskýrslu að A hafi rekist á barnaklám í tölvunni fyrir nokkrum árum og orðaskipti þeirra feðga í því sambandi. Þá neitaði hann því að eiginkona hans hefði rætt við hann um að A hefði fundið slíkt efni í tölvunni fyrr en eftir að lögregla hafði haft afskipti af málinu.
Ákærði er spurður um framburð hans samkvæmt lögregluskýrslu um að geisladiskur sem ákæra lýtur að hafi verið í umslagi merktu „[X] 2 Ymisl“ og kvaðst ákærði þar kannast við umslagið en ekki diskinn. Hafi hann talið að aðeins væri einn geisladiskur í umslaginu. Fyrir dómi ítrekaði hann að hann vissi ekkert hvaðan diskurinn kæmi og kvaðst hann aldrei hafa séð hann áður.
Aðspurður um hvort hann hefði einhverja skýringu á því af hverju A væri að bera hann slíkum sökum kvaðst hann ekki hafa hana. Bar hann að samskipti hans við A hefðu stundum verið stirð en einnig hlýleg. Foreldar ákærða hafi annast A að mestu og hafi A ekki verið sáttur við ákærða vegna þess. Þá hafi A ekki verið sáttur við samband ákærða og núverandi eiginkonu hans. Ákærða er bent á að þann 5. september 2002 hafi verið farið inn í mikinn fjölda mynda samkvæmt skrá. Ákærði segir að þann dag hafi faðir sinn látist og kvaðst ákærði ekki hafa farið að skoða klámmyndir þann dag.
Ákærði kvaðst hafa heimilað húsleit í íbúð sinni að aflokinni skýrslugjöf hjá lögreglu og vísað lögreglu á tölvuna og tölvugögn. Lögreglumenn hafi tekið diska og sett í poka og hafi hann gert athugasemdir um að munirnir væru ekki skráðir. Aðspurður um haldlagningarskýrslu á rannsóknargögnum III 1.2. og 2. og hefur ákærði ekkert við þá skýrslu að athuga.
Aðspurður um framburð hjá lögreglu þess efnis að geisladrif tölvunnar hefði verið ónýtt í að minnsta kosti í tvö ár og hann því ekki getað skoðað geisladiska svaraði ákærði því til að geisladrifið hefði verið meira og minna bilað en hann hefði þó getað notað það stutta stund í einu þar til fyrir um 4-5 mánuðum fyrir húsleitina.
Vitnið, A, sem er sonur ákærða, skýrði svo frá að hann hafi búið á heimilinu frá því um verslunarmannahelgi til miðs september 2002. Á þeim tíma hafi hann tvívegis farið í tölvuna og þá rekist myndir af barnaklámi í einhverju ljósmyndaforriti í aðalvali hennar. Hann hafi skoðað myndirnar lauslega og geti því ekki sagt til um það hvort um margar myndir hafi verið að ræða. Hafi hann rætt þetta lítillega við eiginkonu ákærða rúmlega viku eftir þetta og hafi hún rætt þetta við ákærða áður en lögregla gerði húsleit.
Vitnið kvaðst hafa haft lykilorð tölvunnar til að fara á Internetið og líta á póstinn sinn en hann kvaðst ekki vera mikill tölvumaður. Hann kvaðst einu sinni áður hafa rekist á grófar barnaklámmyndir í tölvunni og taldi að það hefði verið um vorið 2000, eða áður en hann flutti til Noregs. Þá hafi hann sagt ákærða af þessu og sagst myndu tilkynna það lögreglu eða lemja hann. Hafi ákærði sagst hafa fengið þetta sent í tölvupósti og gleymt að eyða því.
Aðspurður kvaðst vitnið ekki mikið hafa búið hjá föður sínum en komið einstaka sinnum í heimsókn. Hann hafi bæði verið búsettur úti á landi og í Noregi í hálft ár árið 2000. Vitnið kvaðst ekki hafa haft með höndum barnaklámsefni hvorki á Internetinu né á geisladiskum. Hann kvaðst hafa haldið að geisladrifið hafi verið bilað. Aðspurður kvaðst hann ekki bera kala til föður síns en taldi hann hafa vanrækt uppeldisskyldur sínar gagnvart honum en vitnið kvaðst hafa alist upp hjá afa sínum og ömmu.
Vitnið, C eiginkona ákærða, kom fyrir dóminn og kvaðst sáralitla þekkingu hafa á tölvum og aðeins notað hana til að fara í einn leik. Hún hafi aldrei orðið vitni að klámefni á tölvunni. Þá kvað hún geisladrif tölvunnar hafa verið bilað um nokkurn tíma frá því húsleit var gerð þ.e. í um hálft ár. Vitnið kvað A hafa sagt sér tveimur dögum fyrir húsleitina að hann hefði rekist á barnaklám í tölvunni. Hún hafi samdægurs talað við ákærða en hún hafi verð reið og sár þrátt fyrir að hún tryði því ekki að ákærði hafi verið með slíkt efni á tölvunni. Kvaðst hún oft hafa verið vakandi á nóttunni og komið að honum í tölvunni og aldrei séð hann með slíkt tölvuefni þrátt fyrir að hún kæmi óvænt að honum. Hún hafi hins vegar komið að A í tölvunni tveimur dögum áður en hann hafi skýrt henni frá því að hann hafi fundið barnaklámið í tölvunni og þá hafi hann stokkið frá tölvunni og stungið einhverju í vasann. Hafi hún sagt að hann þyrfti ekki að vera svona stessaður vegna hennar. Hún kvaðst hafa verið með manni sínum daginn sem faðir hans dó, eða 5. september 2001, en það hafi verið mikil áhrif á hann. Ákærði hafi komið heim snemma morguns og farið að sofa en þau hafi frétt um andlát föðurins skömmu eftir hádegið.
Vitnið, Erlendur Jónsson rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa farið á heimili ákærða ásamt öðrum lögreglumanni, ákærða og lögmanni hans. Hafi ákærði vísað þeim á tölvuna í herbergi við hlið eldhúss og sýnt fullan samstarfsvilja við verkið. Umrædd tölvugögn hafi verið á skrifborðinu. Hafi þau verið talin og sett í poka og skráð á lögreglustöðinni. Ákærða hafi síðan verið afhent að skoðun lokinni öll gögn nema þau sem ákæra lýtur að. Vitnið kvað þann geisladisk, sem hafði að geyma barnaklám, hafa verið í umslagi sem var merkt ákærða ásamt öðrum tölvudisk sem hafi verið afhentur ákærða að skoðun lokinni.
Vitnið, Sveinn Kristján Rúnarson, rannsóknarlögreglumaður, bar á sama hátt um aðdraganda og framkvæmd húsleitar á heimili ákærða og fram kom hjá vitninu A. Vitnið kvaðst hins vegar ekkert getað borið um það, hvar geisladiskurinn sem klámefni fannst á, hafi verið geymdur.
Vitnið, Ágúst Eðvald Ólafsson rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá að hann hafi rannsakað umrædd tölvugögn. Hann hafi sérhæft sig í tölvumálum og farið á námskeið er lýtur að barnaklámi á Internetinu. Vitnið kvaðst hafa tekið hörðu diska tölvunnar og hafi þeir verið skoðaðir og efni þeirra afritað á rannsóknartölvu með sérstökum ritvarnarbúnaði. Síðan hafi verið leitað að klámefni með sérstöku viðurkenndu forriti sem hjálpi til við að flokka efnið. Vitnið er sérstaklega spurt um skrá þar sem myndefnið er tekið saman eftir og flokkað eftir því hvenær skráin er stofnuð, hvenær mynd er búin til eða búin til út frá annarri og hvenær skjal er síðast opnað. Af þessari skrá væri ekki unnt að fullyrða að skjal væri óyggjandi stofnað á þeim tíma sem þar segir. Ekki væri sjálfgefið að það kæmi fram ný dagsetning þegar gögn væru tekin af Internetinu. Sama megi segja um dagsetningar um hvenær skjal væri skoðað síðast. Segja megi að ef skrá væri afrituð af geisladiski inn á tölvuna þá fylgdi gögnunum sú dagsetning sem væri á geisladiskinum. Væri efnið hins vegar vistað á tölvunni af Internetinu kæmi fram dagsetning þegar sú aðgerð ætti sér stað.
Til þess að utanaðkomandi aðili gæti sent efni inn á tölvu í gegnum Internetið þyrfti hann fyrst að brjótast inn í hana með því að komast yfir aðgangsorð og í gegnum vefþjón viðkomandi. Efni því sem var í tölvunni hafði verið eytt en ekki væri unnt að segja til um hvenær það hafi verið gert. Stýrikerfi tölvunnar virki hins vegar þannig að slíkt efni geymdist þar til stýrikerfið þyrfti að nýta það pláss að nýju sem gögnin voru vistuð á. Þar sem það hafði ekki verið gert hafi vitnið náð að endurheimta efnið með sérstökum búnaði. Vitnið sýnir í réttinum geisladisk sem ljósmyndir fundust á og er hann ómerktur. Vitnið kvað myndefnið í tölvunni hafa verið geymt í nokkuð mörgum möppum sem báru ýmis heiti. Aðspurður taldi vitnið það harla ólíklegt að þessi fjöldi mynda sem væru vistaðar í möppu, sem búnar væru til handvirkt, hefðu getað dulist þeim sem notaði tölvuna.
Aðspurður um dagsetningar á yfirlitsskjali sem sýni að gagnaskrár hafi verið skoðaðar um 170 sinnum þann 5. september 2002 og yfir 600 skrár opnaðar þann 19. janúar 2002 og kvað vitnið það framkvæmanlegt að ná slíku magni gagna af Internetinu í einu. Hins vegar væri fljótlegra að flytja þau af geisladiski. Ekki væri hægt að segja til um það hvort gögnin hefðu verið skoðaðar eftir það enda kæmi það ekki fram ef þau væru skoðuð af geisladiski.
Vitnið, B, kvaðst hafa verið staddur á heimili ákærða þegar húsleit fór fram. Kvaðst vitnið hafa sest inn í stofu og beðið. Kvaðst vitnið helst minnast þess að lögmaður ákærða hafi gert athugasemdir við að hinir haldlögðu hlutir væru ekki skráðir á staðnum en lögregla hafi sagt að það yrði gert á stöðinni. Þá kvaðst hann ekki geta sagt til um það hvort diskarnir hefðu verið taldir ofan í pokann.
Niðurstaða.
Við rannsókn lögreglu á tölvu og tölvubúnaði sem haldlögð voru við húsleit á heimili ákærða 24. september 2002 kom í ljós að á tölvu ákærða svo og á geisladiski var að finna m.a. klámmyndir af börnum, þ.e. nektarmyndir af börnum og unglingum, svo og myndir sem sýna samfarir við börn og unglinga. Myndum í tölvunni hafði verið eytt en unnt var að endurheimta þær. Tildrög húsleitar voru þau að sonur ákærða, A, hafði tilkynnt lögreglu 18. september 2002 um að hann hefði rekist á klámmyndir af börnum í tölvunni. Kvaðst A fyrir nokkrum árum hafa rekist á barnaklám í tölvunni og þá aðvarað föður sinn um að hann myndi tilkynna það lögreglu ef hann sæi slíkt aftur.
Ákærði hefur viðurkennt að eiga tölvuna en kannast ekkert við það myndefni sem ákært er yfir. Þá kannast hann heldur ekki við geisladisk með barnaklámi sem fannst í hans vörslu.
Hér fyrir dómi lýsti vitnið A því að hann hafi rekist á myndirnar í ljósmyndaforriti á aðalvali tölvunnar. Kvaðst hann hafa sagt eiginkonu ákærða frá fundinum nokkrum dögum síðar. Hafi hún rætt málið við ákærða áður en húsleit fór fram. Eiginkona ákærða hefur staðfest framburð vitnisins og kvaðst hafa samdægurs skýrt ákærða frá samtalinu við A enda hafi hún verið sár og reið þrátt fyrir að hún tryði ekki ásökunum hans. Kann þetta að skýra að ljósmyndunum hafði verið eytt þegar húsleit var gerð hjá ákærða. Ákærði neitaði fyrir dóminum að þetta samtal hefði átt sér stað fyrr en eftir að lögregla kom að málinu. Þykir þetta styrkja trúverðugleika framburðar vitsins A.
Óumdeilt er að mikið magn ljósmynda sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt fundust annars vegar í tölvu ákærða og hins vegar á ómerktum geisladiski. Geisladiskurinn var í umslagi merktu ákærða ásamt öðrum geisladiski sem samkvæmt framburði lögreglumanna voru teknir við húsleit á heimili ákærða. Samkvæmt vætti Ágústs Evalds Ólafssonar rannsóknarlögreglumanns var myndefnið geymt í mörgum möppum sem stofnaðar höfðu verið í tölvunni og báru ýmis heiti. Taldi hann harla ólíklegt að slíkur fjöldi hefði getað dulist þeim sem notaði tölvuna. Í ljósi þessa er framburður ákærða um að hann hafi verið ókunnugt um klámefnið á tölvunni mjög ótrúverðugur. Sama á við um tilvist geisladisksins. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að sonur ákærða hafi haft ástæðu til að koma fyrir í tölvunni og í umslagi þeim gögnum sem hér um ræðir en að honum frátöldum er engum öðrum til að dreifa en ákærða sjálfum sem hefðu getað framkvæmt það. Þá þykir ekki líklegt að hann hefði eytt ljósmyndunum í kjölfar þess að kæra atvikið til lögreglu.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir það hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði haft í sinni vörslu það klámefni sem hér um ræðir og fannst við húsleit hjá honum. Verður ákærði því, þrátt fyrir neitun hans, fundinn sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir í málinu og telst varða við 4. mgr. 210. gr. almennar hegningarlaga.
Ákærði hefur samkvæmt sakarvottorði ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefur á mat refsingar í málinu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt og komi 34 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þess.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 6. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma ákærða til þess að þola upptöku á umræddum geisladiski og tölvukassa af gerðinni ACE.
Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Péturs Gunnlaugssonar héraðsdómslögmanns, 75.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari málið.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, greiði 300.000 krónur í sekt og komi 34 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði sæti upptöku á geisladiski og tölvukassa af gerðinni ACE.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Péturs Gunnlaugssonar héraðsdómslögmanns, 75.000 krónur.