Hæstiréttur íslands
Mál nr. 557/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
- Aðild
- Ómerking úrskurðar héraðsdóms
|
|
Mánudaginn 20. október 2008. |
|
Nr. 557/2008. |
A(Óskar Sigurðsson hrl.) gegn B (enginn) |
Kærumál. Nauðungarvistun. Aðild. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.
Með úrskurði héraðsdóms var hafnað beiðni A um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi. Hæstiréttur ómerkti þann úrskurð þar sem réttum varnaraðila, dóttir A, sem beiðst hafði nauðungarvistunarinnar, hafði ekki verið gefinn kostur á að láta málið til sín taka.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. október 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 3. október 2008 um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi, sem varnaraðili, dóttir hennar, leitaði eftir 2. sama mánaðar. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun um nauðungarvistun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Sá, sem leitar eftir því að maður verði vistaður nauðugur á sjúkrahúsi með stoð í ákvæðum III. kafla lögræðislaga, telst málsaðili þegar hlutaðeigandi maður neytir réttar síns samkvæmt 30. gr. laganna til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla, sbr. dóma Hæstaréttar 5. maí 1998 í máli nr. 175/1998, 18. janúar 1999 í máli nr. 21/1999 og 5. mars 2001 í máli nr. 76/2001. Héraðsdómari gaf aldrei varnaraðila, sem leitaði eftir nauðungarvistun sóknaraðila, kost á að láta málið til sín taka. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar á ný.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður sóknaraðila, A, greiðist úr ríkissjóði, þar meðal talin þóknun skipaðs talsmanns hennar, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. október 2008.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. október sl. sem framsendi málið samdægur til Héraðsdóms Suðurlands. Í kjölfarið var gagna aflað frá dómsmálaráðuneytinu skv. 3. mgr. 31. gr. laga nr. 71/1997. Var málið tekið til úrskurðar í dag.
Dóttir A, B lagði inn beiðni, dagsetta 2. október sl. til dómsmálaráðuneytisins um nauðungarvistun A. Tilgreindar ástæður vistunar voru ekki tilgreindar en vísað til samtala við Einar Jónsson og Hjalta Kristjánsson lækna. Í læknisvottorði, Andrésar Magnússonar dagsettu 3. október sl., segir að löng saga sé um geðhvarfasjúkdóm. Hún eigi margar innlagnir á geðdeild og tíðar innlagnir að undanförnu. Nú sé orðið mjög erfitt ástand heima fyrir, A sé orðin mjög ör, hún vaki, hringi mikið, sé æst og reið, sé óróleg og jaðri við ranghugmyndir. Í niðurstöðum vottorðsins segir að alvarlegur geðsjúkdómur sé orsök beiðninnar. Þá segir að veruleg vandkvæði hafi stafað af örlyndisástandi A og sé hún nú komin í þrot. Telur Andrés nauðungarvistun óhjákvæmilega skv. 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga.
Í læknisvottorði dagsettu 7. október 2008 rituðu af Guðrúnu Gestsdóttur, geðlækni á deild 32C á Landsspítalanum segir að A sé 51 árs gömul kona með langa sögu um geðhvarfasjúkdóm. Hún eigi að baki fjölda innlagna á deild 32C. Hún hafi oftar en ekki lagst inn í örlyndisfasa og þá oft með ranghugmyndir. Hafi gengið illa að ná jafnvægi á lyfjum þar sem hún hafi ekki verið til nægrar samvinnu um lyfjatöku og veikist þegar hún hætti lyfjainntöku. Aðdragandi komu nú sé eins og svo oft áður að hún sé farin að missa svefn, samkvæmt læknum í Vestmannaeyjum. Hún sé að áreita fyrrum barnsföður sinn með símtölum en hún hafi ekki verið í sambandi við hann til fjölda ára. Hún sé með tilvísanahugmyndir úr sjónvarpi og fleiri ranghugmyndir í þeim dúr. Segir ennfremur að byrjað hafi verið að hafa samband við bráðamóttöku geðdeildar þann 18. ágúst vegna A. Hún hafi þá þegar verið farin að merkja örlyndis. Reynt sé að fá hana til samstarfs með lyfin en það gangi illa og sé hún komin með ranghugmyndir ofan í sín veikindi. Því sé tekið á það ráð að lokum að leggja hana nauðuga inn á deild. A sé afar ósátt en sjúkdómsinnsæi sé oftar en ekki skert í slíkum fösum. Við komu hafi hún verið ör, talaði samhengislaust, verið með ranghugmyndir og erfiðlega hafi gengið að fá frá henni heillega sögu. Að lokum segir að þar sem konan sé haldin alvarlegum sjúkdóm sé hún lögð inn gegn vilja til að koma henni á tilheyrandi meðferð með lyfjum og atferli.
Guðrún Geirsdóttir staðfesti vottorð sitt fyrir dómi en hún gaf skýrslu í síma er málið var tekið fyrir fyrr í dag. Kvað hún tilgang vistunarinnar vera þann að ná A úr því ástandi sem hún nú væri komin í. Ef slíkt yrði ekki gert, myndi sjúkdómur hennar ágerast og ekki væri hægt að útiloka frekari ranghugmyndir en þegar væru hjá henni. Því væri nauðungarvistun nauðsynleg.
A var ekki gert kleyft að koma fyrir dóminn vegna sjúkdóms síns. Gaf hún skýrslu í síma. Fyrir dóminum var erfitt að ná samhengi í kröfugerð hennar eða annað sem skipti máli utan að hún krafðist þess að vera sett á ákveðin lyf auk þess að vilja kæra nafngreinda lækna. Að öðru leyti var skýrsla hennar samhengislaus, slitrótt og ómarkviss.
Talsmaður A, Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður ítrekaði kröfu sóknaraðila og kvað skilyrði 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga ekki vera uppfyllt. Komið hafi fram hjá Guðrúnu Geirsdóttur að A tæki lyfin sem henni væru gefin og þá væri hún ekki hættuleg sjálfri sér né öðrum væri hún ekki nauðungarvistuð.
Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1991 segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur á sjúkrahúsi. Undantekningar frá meginreglu laganna er hinsvegar að finna í 2. og 3. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. segir að heimilt sé þó að vista sjálfráða mann nauðugan sé það mat læknis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að sjúklingur sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur séu taldar á að svo sé eða ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í 3. mgr. sömu greinar er að auki gert að skilyrði að nauðungarvistun sé óhjákvæmileg að mati læknis. Nauðungarvistun á grundvelli ákvörðunar læknis, sbr. 2. mgr. 19. gr. má þó aldrei standa lengur en 48 klst. nema til komi samþykki dómsmálaráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997. Liggi fyrir samþykki dómsmálaráðuneytisins er heimilt að nauðungarvistun standi í allt að 21 dag en þó aldrei lengur en nauðsyn er að mati læknis. Þó má framlengja nauðungarvistun manns ef krafa hefur verið gerð fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði sínu, sbr. 2. mgr. 29. gr. lögræðislaga.
Samþykki dómsmálaráðuneytisins var veitt með bréfi til yfirlæknis deildar 32C Landspítala v/Hringbraut þann 3. október sl. Í framangreindu læknisvottorði kemur fram að A sé haldin alvarlegum geðhvarfasjúkdómi og nauðungarvistun sé óhjákvæmileg. Verður því að telja skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1991 uppfyllt og samþykki dómsmálaráðuneytisins á beiðni um nauðungarvistun A á réttum grunni reist og verður því ákvörðun dómsmálaráðuneytisins staðfest.
Með vísan til 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, skal þóknun skipaðs talsmanns A, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greidd úr ríkissjóði.
Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Samþykki dómsmálaráðuneytisins um nauðungarvistun A er staðfest.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 skulu greiddar úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.