Hæstiréttur íslands
Mál nr. 41/2007
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Lausafjárkaup
- Flutningssamningur
|
|
Fimmtudaginn 13. september 2007. |
|
Nr. 41/2007. |
NCM Eurocollect Limited(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Jónum Transport hf. (Lilja Jónasdóttir hrl.) Laufeyju Stefánsdóttur og Hilmari Binder (Tómas Jónsson hrl.) |
Skaðabótamál. Lausafjárkaup. Flutningssamningur.
N Ltd. veitti franska fyrirtækinu S tryggingu fyrir efndum Í ehf. á skuldbindingum þess gagnvart S. S taldi Í ehf. ekki hafa greitt fyrir þrjár vörusendingar árið 2003 og leysti N Ltd. kröfuna til sín. Í ehf. var úrskurðað gjaldþrota 25. október 2002 eða nokkru áður en reikningar vegna vörusendinganna voru gefnir út. J hf. annaðist flutning sendinganna til Íslands. Afhenti félagið L og H vörurnar en þau höfðu verið fyrirsvarsmenn Í ehf. N Ltd. taldi að J hf. hefði verið óheimilt að afhenda öðrum vörurnar en skráðum viðtakanda og krafði J hf. um bætur fyrir það fjártjón sem af þessu hlaust. Þá krafði N Ltd. L og H einnig um bætur og vísaði til þess að þau hefðu ekki haft heimild til að taka við vörunum í stað Í ehf. Í héraðsdómi, sem var staðfestur í Hæstarétti, var talið að N Ltd. hefði ekki sýnt fram á að Í ehf. hefði verið það fyrirtæki á vegum L og H, sem S hefði verið í viðskiptum við. Lægi því ekki fyrir að J hf. hefði afhent röngum aðila vörurnar og var félagið því sýknað af kröfu N Ltd. Af sömu ástæðu voru L og H einnig sýknuð af kröfum N Ltd.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2007. Hann krefst þess að stefndu greiði sér 28.260 evrur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.505 evrum frá 3. mars 2003 til 27. mars 2003, af 24.631 evru frá þeim degi til 23. maí 2003 en af 28.260 evrum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi, Jónar Transport hf., krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndu, Laufey Stefánsdóttir og Hilmar Binder, krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, NCM Eurocollect Limited, greiði stefnda, Jónum Transport hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi greiði stefndu, Laufeyju Stefánsdóttur og Hilmari Binder, sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2006.
Mál þetta sem dómtekið var 18. október sl. er höfðað með stefnu birtri 24. nóvember og 1. desember 2004.
Stefnandi er NCM Eurocollect Limited, 3 Harbour Drive, Capital Waterside, Cardiff, Bretlandi.
Stefndu eru Jónar Transport hf., Holtavegi, Holtabakka, Reykjavík og Laufey Stefánsdóttir, Reykási 1, Reykjavík og Hilmar F. Binder, sama stað.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu greiði stefnanda in solidum skaðabætur að fjárhæð 28.260 evrur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 5.505 evrum frá 3. mars 2003 til 27. mars 2004, en af 24.631 evru frá þeim degi til 23. maí 2003 en af 28.260 evrum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi, Jónar Transport hf., krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfu stefnanda.
Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndu Laufey Stefánsdóttir og Hilmar F. Binder krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Stefndu krefjast málskostnaðar.
Stefndu, Laufey Stefánsdóttir og Hilmar F. Binder, kröfðust frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins hinn 17. mars 2006.
MÁLSATVIK
Stefnandi rekur innheimtu- og tryggingarstarfsemi og veitir m.a. svokallaðar greiðslutryggingar þar sem trygging er veitt fyrir efndum skuldara gagnvart vátryggingartaka. Stefnandi kveðst hafa veitt franska fyrirtækinu Sinéquanone Reauven's II SA ábyrgð á efndum íslenska fyrirtækisins Íseta ehf. í viðskiptum þeirra í milli en franska fyrirtækið hafi byrjað viðskipti sín við Íseta ehf. í nóvember 2000.
Skv. stefnanda hafi Laufey og Hilmar stofnað, átt og stjórnað Íseta ehf. Hafi þau pantað vörur, í nafni Íseta, hjá hinu franska fyrirtæki snemma árs 2003 og hafi þær borist til Íslands í mars og apríl 2003.
Stefndu, Hilmar og Laufey, kveðast hafa verið tveir af fimm hluthöfum fyrirtækisins. Þau hafi átt saman 40% hlut í félaginu. Fyrirtækið hafi hætt rekstri í janúar 2002, þá hafi orðið samstarfsslit með eigendum félagsins en umsamið hafi verið að Hilmar og Laufey mættu nýta sér viðskiptasambönd þess. Þau hafi í febrúar sama ár hafið rekstur í nafni annars félags, HL & Co. umboðssala ehf. og undir því nafni leitað viðskipta við franska fyrirtækið Sinéquanone í febrúar 2002. Öll samskipti stefndu við Sinéquanone hafi verið í nafni HL & Co. umboðssölu ehf. og allar greiðslur fyrir vörur sem stefndu pöntuðu borist frá því fyrirtæki. Því hafi Sinéquanone mátt vera ljóst að það var HL & Co. sem var að kaupa af þeim vörurnar en ekki Íseta ehf.
Stefnandi kveður vörusendingu hafa verið senda í safnsendingu á sameiginlegt farmbréf í nafni stefnda, Jóna Transports hf., með Icelandair frá Liege í Belgíu til Keflavíkur. Hinn 13. febrúar 2003 hafi farmskjöl verið afhent til stefnda Jóna Transports hf. Jafnframt hafi farið fram sending vara í safnsendingu á sameiginlegu farmbréfi í nafni Jóna Transports hf. með Bláfugli f. h. Cargolux frá Luxemborg til Keflavíkur.
Stefndi, Jónar Transport hf., kveðst hafa annast vörusendingar fyrir ýmis félög í eigu stefndu Laufeyjar og Hilmars, þ.á m. í nafni Íseta ehf. allt frá stofnun þess félags árið 1998, þ.m.t. vörusendingar vegna viðskipta Íseta ehf. og Sinéquanone Reuvens frá árinu 2000.
Stefnandi kveður uppgefið nafn viðtakanda og heimilisfang á útgefnum reikningum og flugfylgibréfum allra þriggja sendinganna hafa verið Íseta ehf., Fákafeni 9, Reykjavík. Á þessum tíma hafi lögheimili Íseta hins vegar verið að Akralind 2, Kópavogi. Samkvæmt flugfylgibréfum hafi viðtakandi verið Íseta ehf., Fákafeni 9, Reykjavík. Umrædd flugfylgibréf hafi verið óframseljanleg ("non-negotiable").
Stefnandi kveður Íseta ehf. hafa verið úrskurðað gjaldþrota 25. október 2002, eða allnokkru áður en framangreindar pantanir voru gerðar. Þar sem uppgefið heimilisfang Íseta skv. pöntun til franska fyrirtækisins hafi verið Fákafen 9, Reykjavík hafi tilkynning um komu sendingarinnar af hálfu Jóna Transports hf. verið send þangað. Á þessum tíma hafi einkahlutafélagið Park Reykjavík ehf., kt. 450402-2650 verið starfrækt að Fákafeni 9, Reykjavík, af stefndu Laufeyju og Hilmari sem hafi einnig verið stofnendur og stjórnarmenn þess félags.
Við tollafgreiðslu og afhendingu varanna hafi stefndu Jónar Transport breytt nafni á viðtakanda varanna, að beiðni stefndu, Laufeyjar og Hilmars, þar sem Park Reykjavík ehf. hafi verið nefndur viðtakandi varanna, í stað Íseta. Hafi vörurnar verið leystar úr tolli og afhentar stefndu af Jónum Transporti hf. án greiðslu til sendanda varanna, Sinéquanone Reauven's II SA. Þetta framsal á flugfylgibréfinu hafi verið gert án vitundar og vilja Sinéquanone Reauven's II SA í Frakklandi. Af hálfu stefndu hafi hvorki verið send ósk til hins franska viðsemjanda Íseta um að mega framselja flugfylgibréfið né tilkynning um að Park Reykjavík ehf. hefði leyst vöruna út og hygðist greiða fyrir hana.
Stefndu, Jónar Transport hf., segja viðtekna venju í slíkum innflutningi að vörur séu tollafgreiddar á nafn annars félags en þess sem sé skráður viðtakandi skv. farmbréfum. Hafi meðstefndu, Laufey og Hilmar, oft leyst út vörur hjá stefnda, Jónum Transporti hf., með þeim hætti. Vörur skv. flugfarmbréfum hafi verið afhentar Laufeyju og Hilmari sem forsvarsmönnum viðtakanda, Íseta ehf. Starfsmönnum Jóna Transports hafi ekki verið kunnugt um að Íseta ehf. hefði verið úrskurðað gjaldþrota þegar vörurnar voru afhentar forsvarsmönnum félagsins. Ekkert hafi komið fram af hálfu sendanda um að stefnda, Jónum Transporti hf., væri óheimilt að afhenda forsvarsmönnum Íseta ehf. vörurnar. Hvergi hafi verið ákvæði þess efnis að viðtakandi skyldi greiða þær við afhendingu.
Stefndu, Laufey og Hilmar, kveðast einnig hafa átt og rekið fyrirtækið Park Reykjavík, sem hafði aðsetur að Fákafeni 5, Reykjavík. Það fyrirtæki hafi séð um að leysa úr tolli vörurnar sem Sinéquanone sendi HL og Co. umboðssölu ehf. í febrúar og mars 2003. Þetta hafi verið gert með samþykki franska fyrirtækisins enda staðið til að Park Reykjavík gengi inn í vörukaupin en frá því hafi verið horfið. Hins vegar megi til sanns vegar færa að það fyrirtæki hafi tekið á sig greiðsluskyldu gagnvart Sinéquanone með því að taka við vörunum.
Stefnandi kveður að vegna vanskila á greiðslu reikninganna af hálfu Íseta ehf. hafi stefnandi leyst reikningskröfurnar til sín í samræmi við tryggingarsamninginn. Við lögfræðilega innheimtu krafnanna hafi komið í ljós hvers kyns var, að stefndu, Laufey og Hilmar, höfðu fengið vöruna afhenta úr tolli út á nafn Park Reykjavík ehf. fyrir tilstilli stefnda, Jóna Transports ehf. Eftirgrennslan á stöðu Park Reykjavík ehf. leiddi í ljós að það félag var úrskurðað gjaldþrota hinn 16. júní 2004.
Þrátt fyrir greiðsluáskorun kveður stefnandi hvorki stefndu né Park Reykjavík ehf. greitt andvirði vöru þeirra sem leystar voru út og sé því stefnandi tilknúinn til að höfða mál þetta til heimtu skaðabóta úr hendi stefndu, in solidum.
Stefndu, Hilmar og Laufey, kveðast aldrei hafa átt nein viðskipti við Sinéquanone í eigin nafni og aldrei átt nein samskipti við stefnanda fyrr en bréfaskriftir hófust fyrir tilstilli lögmanns stefnanda vegna máls þessa.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNANDA
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda, Jónum Transporti hf., á því að flugfarmfylgibréf eða flugfylgibréf (Air waybill), eins og þau séu nefnd í núgildandi lögum um loftferðir, séu ekki viðskiptabréf. Þau gangi almennt ekki kaupum og sölum meðan á flutningi standi og séu ekki framseljanleg svo sem gjarnan hafi verið með farmskírteini í sjóflutningum. Almennt séu flugfylgibréf óframseljanleg og beri því einungis tvö af þremur einkennum farmskírteina, þ.e. að vera kvittun fyrir móttöku farms til flutnings og sönnun flutningssamnings, en ekki ígildi farms. Í sérstökum tilvikum séu til framseljanleg flugfylgibréf og sé þessa eiginleika þeirra þá sérstaklega getið á skjölunum sjálfum. Því sé ekki til að dreifa í þessu tilviki. Sé beinlínis tekið fram að flugfylgibréfið sé ekki framseljanlegt.
Samkvæmt reikningi, útgefnum af Sinéquanone Reauven's II SA í Frakklandi, hafi Íseta ehf. verið viðtakandi þeirra vara sem pantaðar hafi verið og sendar hafi verið til Íslands. Íseta ehf. hafi hins vegar verið gjaldþrota og ekki lengur í rekstri þegar vörurnar hafi verið pantaðar í nafni þess. Flugfylgibréf sendinganna þriggja hafi í öllum tilvikum verið gefið út á viðtakandann, Íseta ehf., Fákafeni 9 Reykjavík, hvorki á stefndu, Hilmar og Laufeyju, né Park Reykjavík ehf.
Samkvæmt 96. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, sem í gildi var er atvik máls þessa gerðust, sé flugfarmbréf/fylgibréf talin gild sönnun fyrir gerð flutningssamnings, viðtöku varnings og flutningsskilmálum, enda séu eigi leiddar sönnur að öðru.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. s.l. falli réttur sendanda niður um leið og réttur viðtakanda hefjist skv. 98. gr. Þó falli réttur sendanda ekki niður í þeim tilvikum sem réttur viðtakandi neiti að taka við farmi eða komi ekki að sækja hann. Þrátt fyrir óskoraðan rétt sendanda varanna til þeirra hafi vörusendingarnar þrjár verið afhentar stefndu, Laufeyju og Hilmari, í stað þess að endursenda vörurnar til sendanda þegar fyrir lá að réttur viðtakandi var gjaldþrota. Með því að afhenda vörurnar án heimildar til annars aðila en skráðs viðtakanda á flugfylgibréfinu hafi starfsmenn Jóna Transports hf. valdið stefnanda fjártjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Beri Jónar Transport hf. fébótaábyrgð á því fjártjóni stefnanda.
Kröfur sínar gagnvart stefndu, Laufeyju og Hilmari, reisir stefnandi á því að Íseta ehf. hafi orðið gjaldþrota hinn 25. október 2002 og ekki verið lengur í rekstri þegar vörurnar hafi verið pantaðar af stefndu, Laufey og Hilmari, í nafni þess. Telja megi víst að stefndu hafi pantað vörurnar með þeirri fyrirætlan að leysa þær út við komu til Íslands, í eigin nafni eða undir merkjum Park Reykjavík ehf., sem þau hafi átt og verið hafi í verulegum fjárhagsvandræðum. Hafi greinilega verið ásetningur þeirra að svíkja út vörurnar enda hefðu þau enga heimild til þess að taka við vörunni, í stað Íseta ehf., og hafi aldrei boðið fram greiðslu til sendanda. Sé háttsemi stefndu saknæm og ólögmæt.
Að því er snerti stefndu, Jóna Transport hf., er vísað til meginreglna kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga og reglna um skaðabætur innan samninga. Er og vísað til X. kafla laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, sbr. 1. um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, nr. 41/1949 með síðari breytingum.
Að því er snertir stefndu, Laufeyju og Hilmar, er vísað til almennu sakarreglunnar og meginreglna um skaðabætur utan samninga.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sundurliðun kröfugerðar:
Krafa stefnanda byggir tölulega á 3 reikningum vegna vörukaupa Íseta ehf.
|
Nr. Útgáfudagur |
Gjalddagi |
Fjárhæð |
|
1 03.02.2003 |
03.03.2003 |
5.504,66 EUR |
|
2 27.02.2003 |
27.03.2003 |
19.125,68 EUR |
|
3 09.04.2003 |
23.05.2003 |
3.629,43 EUR |
|
|
Samtals: |
28.260 EUR |
Krafist er dráttarvaxta frá gjalddögum til greiðsludags.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA JÓNA TRANSPORTS HF.
Stefndi, Jónar Transport hf., vísar því alfarið á bug að hafa afhent vörur skv. flugfarmbréfi til rangs viðtakanda.
Skv. 3. mgr. 97. gr. laga um loftferðir 60/1998 falli réttur sendanda niður um leið og réttur viðtakanda hefjist. Gagnvart starfsmönnum stefnda, Jóna Transports hf., hafi meðstefndu í máli þessu, Laufey og Hilmar, verið fulltrúar viðtakanda. Starfsmönnum stefnda hafi því í samræmi við þá skyldu sem á þá sé lögð skv. 2. mgr. 98. gr. s.l. borið að afhenda meðstefndu vörurnar. Skv. 2. mgr. 98. gr. laga um loftferðir geti viðtakandi krafist þess að flytjandi láti af hendi við hann flugfarmbréf gegn greiðslu þess sem ógoldið er og gegn efndum á flutningsskilmálum þeim sem í flugfarmbréfi greinir.
Óumdeilt sé að viðtakanda var ekki skylt að greiða vöruna við afhendingu og ekki verið um neinar vanefndir skv. flutningsskilmálum að ræða. Jafnframt sé óumdeilt að meðstefndu, Laufey og Hilmar, voru forráðamenn þess félags sem var viðtakandi vörusendinganna skv. flugfarmbréfunum. Það hefði því verið brot af hálfu starfsmanna stefnda, Jóna Transports hf., á ákvæðum loftferðalaga að afhenda forsvarsmönnum Íseta ehf. ekki vörurnar.
Laufey og Hilmar séu í forsvari fyrir fjölmörg einkahlutafélög og hafi þau margsinnis leyst út vörur í nafni þessara félaga, þ. á m. Íseta ehf. hjá stefnda, Jónum Transporti hf. Það að bú Íseta ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þegar Laufey og Hilmar komu að sækja vörurnar breyti engu um skaðabótaábyrgð stefnda, Jóna Transports hf., enda hafi það gerst áður en vörurnar voru pantaðar og áður en stefnandi ábyrgðist efndir gagnvart Sinéquanone. Starfsmenn stefnda, Jóna Transports hf., hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að það félag sem var skráður viðtakandi hafi verið starfandi. Bæði sendandi og starfsmenn Jóna Transports hf. hafi verið í góðri trú um að skráður viðtakandi, Íseta ehf., hefði lögmætt tilkall til þess að fá vöruna afhenta skv. 2. mgr. 98. gr. loftferðalaga. Á þeim tíma hafi ekki verið til að dreifa öðrum forsvarsmönnum Íseta ehf. en Laufeyju og Hilmari. Á stefnda, Jónum Transporti hf., hvíli engin sú skylda að ganga úr skugga um að skráðir viðtakendur vöru séu gjaldþrota. Mun meiri ástæða sé til að gera þá kröfu til sendanda að hann kanni gjaldfærni viðskiptavina sinna, en Íseta ehf. hafi þegar verið úrskurðað gjaldþrota þegar félagið pantaði vörurnar hjá sendanda. Geti sendandi ekki komið ábyrgð, á því að selja gjaldþrota fyrirtæki vörur og fá þær ekki greiddar, yfir á stefnda, Jóna Transport hf. og þaðan af síður stefnandi.
Skv. 90. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 séu samningsaðilar bundnir af verslunarvenjum sem þeir þekktu eða máttu þekkja og séu vel þekktar í alþjóðlegum viðskiptum og sé yfirleitt fylgt af aðilum í sambærilegum viðskiptasamböndum. Teljist verslunarvenjan þá hluti af samningi aðila. Algengt sé í alþjóðlegum kaupum að vörur séu tollafgreiddar til annars aðila en skráðs viðtakanda ef um sé að ræða félög eða fyrirtæki í eigu sama aðila. Hafi tollafgreiðsla strangt til tekið ekki með afhendingu vörunnar að gera og því verði engu að síður að gera þá kröfu að varan sé afhent skráðum viðtakanda skv. flugfarmbréfi.
Tjón sendanda megi rekja til þess að hann átti í viðskiptum við gjaldþrota félag. Engu hefði breytt þótt vörurnar hefðu verið tollafgreiddar til Íseta ehf. í stað Park Reykjavík ehf. Skv. 94. gr. laga um lausafjárkaup gildi sú regla um alþjóðleg kaup að vanefndir samningsaðila teljist verulegar ef þær leiði til slíks tjóns fyrir gagnaðila að hann teljist af þeirra völdum mun verr settur en hann mátti með réttu vænta skv. samningnum, nema því aðeins að sá aðili sem vanefnir hafi ekki getað séð það fyrir, og ekki heldur skynsamur maður í sömu stöðu og við sömu aðstæður. Sendandi vörunnar hafi ekki getað vænst annarrar niðurstöðu en þeirrar sem varð þar eð hann sendi vörurnar til gjaldþrota fyrirtækis.
Stefndi, Jónar Transport hf., hafi uppfyllt skyldur sínar skv. flugfarmbréfi og ákvæðum X. kafla laga um loftferðir, sbr. lög um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa nr. 41/1949, er félagið afhenti forsvarsmönnum Íseta ehf. þær vörur sem því var falið að koma til Íseta ehf. skv. flugfarmbréfi.
MÁLSÁSTÆÐUR STEFNDU, LAUFEYJAR OG HILMARS.
Stefndu krefjast sýknu á grundvelli aðildarskorts. Stefndu hafi aldrei átt nein viðskipti við stefnanda eða réttarsamband sem gæti skapað bótaskyldu utan samninga. Því sé mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða fengið hugsanlega bótakröfu Sinéquanone framselda. Engin gögn séu lögð fram um þetta í málinu og aðild málsins því ósönnuð. Þetta leiði til þess að sýkna beri stefndu, Laufeyju og Hilmar, á grundvelli aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Sýknukrafa stefndu, Laufeyjar og Hilmars, byggi einnig á því að þau hafi hvorki valdið tjóni né hagað sér með saknæmum eða ólögmætum hætti í viðskiptum við franska fyrirtækið Sinéquanone. HL & Co. ehf. hafi átt viðskipti við franska fyrirtækið í meira en eitt ár en rekstrarerfiðleikar fyrirtækisins á árinu 2003 og greiðslufall gagnvart franska fyrirtækinu hafi átt sér eðlilegar skýringar. Stefndu beri ekki ábyrgð á skuldbindingum fyrirtækisins umfram hlutafjáreign sína í félaginu, sbr. 1. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
Eftir að Íseta ehf. hafi hætt rekstri í janúar 2002 hafi stefndu, Laufey og Hilmar, aldrei pantað vörur hjá Sinéquanone í nafni þess fyrirtækis eða notað nafn þess. Nafnið Iseta Fashion hafi verið notað í eitt skipti sem vörumerki en ekki sem nafn á fyrirtæki eða aðila sem skuldbindur sig í viðskiptum. Franska fyrirtækið hafi vitað eða mátt vita hver var móttakandi varanna. Stefnandi geti ekki öðlast betri rétt en Sinéquanone hafði gegn HL & Co. ehf.
Af þeirri staðreynd, að umrædd viðskipti hafi alls ekki verið gerð í nafni Íseta ehf., leiði að hafi stefnandi greitt Sinéquanone bætur vegna meints tjóns í viðskiptum við Íseta ehf., þá hafi það verið umfram skyldu. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni af þessari ástæðu sé á því byggt að stefnandi hafi átt á því mesta sök sjálfur og geti stefndu ekki borið á því neina ábyrgð.
NIÐURSTAÐA
Í máli þessu er óumdeilt að vörur voru sendar af franska fyrirtækinu Sinéquanone með tveimur sendingum hingað til lands. Stefnandi heldur því fram að þar sem farmskjöl hafi verið stíluð á Íseta ehf. hafi ekki verið heimilt að afhenda neinum öðrum vörurnar en þeim sem væri skráður viðtakandi, þ.e. Íseta ehf.
Stefndi, Jónar Transport hf., heldur því fram að það sé viðtekin venja í slíkum innflutningi að vörur séu afgreiddar á nafn annars félags en þess sem sé skráður viðtakandi skv. farmbréfum.
Stefndu, Laufey og Hilmar, halda því fram að öll samskipti þeirra við franska fyrirtækið Sinéquanone hafi verið í nafni HL og Co. umboðssölu ehf. Allar greiðslur fyrir þær vörur sem stefndu pöntuðu frá Sinéquanone hafi borist frá HL og Co. umboðssölu ehf. og því hafi franska fyrirtækinu mátt vera fullkomlega ljóst að það var það fyrirtæki sem var að kaupa af þeim vörurnar en ekki Íseta ehf.
Á framlögðum reikningum er greiðandi þeirra sagður Íseta Fashion, Fákafeni 9, 108 Reykjavík, Íslandi. Á flugfylgibréfum er viðtakandi einnig sagður Íseta Fashion, Fákafeni 9, 108 Reykjavík, Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins var heimilisfang Íseta ehf. hins vegar að Akralind 2, Kópavogi.
Í máli þessu er ágreiningur milli stefnanda og stefndu, Laufeyjar og Hilmars, um hvaða fyrirtæki það var sem var í viðskiptum við franska fyrirtækið Sinéquanone. Þar sem bæði reikningar þeir sem lagðir eru fram í málinu sem og flugfylgibréf eru gefin út á nafn Íseta Fashion, en ekki Íseta ehf., er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að Íseta ehf. hafi verið eini rétti viðtakandi varanna. Í tölvupósti sem stefndi, Hilmar, sendi til Sinéquanone hinn 12. febrúar 2002 kemur fram að sendandi hans var Hilmar Binder, HL og Co, ehf. Nafn Íseta ehf. kemur þar hvergi fram. Í bréfi sem fylgdi tölvuskeyti þessu kemur jafnframt fram að rekstur fyrirtækisins fari fram undir nafni HL og Co. ehf. Í málinu hafa eldri reikningar verið lagðir fram. Eru þeir allir greiddir af HL og Co. en ekki Íseta ehf.
Undir rekstri málsins hafa margvísleg skjöl verið lögð fram af hálfu aðila. Ekki hefur þó verið lögð fram nein staðfesting á því hver var raunverulegur pöntunaraðili þeirra vara sem mál þetta snýst um. Stefnandi byggir alfarið á því að Íseta ehf. hafi verið sá aðili sem franska fyrirtækið Sinéquanone átti í viðskiptum við. Ekkert liggur fyrir um það í málinu, að þær vörur sem mál þetta snýst um hafi verið pantaðar af Íseta ehf. Stefnandi ber hallann af sönnunarskorti um þetta.
Þar sem stefnanda hefur með vísan til þess sem hér að ofan er rakið ekki tekist að sýna fram á að stefndi, Jónar Transport hf., hafi afhent röngum aðila vörurnar, og þar sem hvergi í flugfarmbréfunum með vörusendingunum var ákvæði þess efnis að viðtakandi skyldi greiða þær við afhendingu (eða CAD), ber að sýkna stefnda, Jóna Transport hf., af öllum kröfum stefnanda.
Stefnanda hefur, með vísan til þess sem að ofan er rakið, ekki tekist að sýna fram á að stefndu, Laufey og Hilmar, hafi valdið honum tjóni eða að þau hafi hagað sér með saknæmum og ólögmætum hætti í viðskiptum við franska fyrirtækið Sinéquanone. Jafnframt er ósannað að, stefndu Laufey og Hilmar, hafi átt nokkur viðskipti við stefnanda eða Sinéquanone í eigin nafni. Ber því að sýkna stefndu, Laufeyju og Hilmar, af öllum kröfum stefnanda.
Stefnandi greiði stefnda, Jónum Transporti hf. 400.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefndu, Laufeyju Stefánsdóttur og Hilmari F. Binder, 400.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, Jónar Transport hf., Laufey Stefánsdóttir og Hilmar F. Binder, eru sýkn af kröfum stefnanda.
Stefnandi greiði stefnda, Jónum Transporti hf., 400.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefndu, Laufeyju Stefánsdóttur og Hilmari F. Binder, 400.000 krónur í málskostnað.