Hæstiréttur íslands
Mál nr. 106/1998
Lykilorð
- Skuldamál
- Frávísun frá héraðsdómi
- Vanreifun
|
|
Fimmtudaginn 21. janúar 1999. |
|
Nr. 106/1998: |
Sigurbjörn Bárðarson (Ásgeir Magnússon hrl.) gegn Þórarni Jónassyni (Jón Örn Ingólfsson hrl.) og gagnsök |
Skuldamál. Frávísun máls frá héraðsdómi. Vanreifun.
S og Þ fluttu í sameiningu nokkur hross flugleiðis á sýningu sem haldin var í Bandaríkjunum. Var tilgangur fararinnar meðal annars að selja hrossin á sýningunni eða í kjölfar hennar. Þ greiddi reikning flugfélagsins, sem hljóðaði á hann, eftir að félagið hafði fengið dóm fyrir kröfunni. Þ stefndi að því búnu S til greiðslu hluta reikningsins. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi lögðu báðir aðilar fram gögn um fjárhagsleg samskipti sín í tengslum við útflutninginn í tilefni af vörnum S sem voru reistar á því að hann hefði greitt sinn hluta reikningsins með viðskiptum sínum við Þ að öðru leyti. Lækkaði Þ kröfu sína vegna þessa. Talið að með því að fjalla um heildaruppgjör vegna útflutningsins í málinu í stað þess að takmarka sakarefnið við greiðslu á tilteknum reikningi eins og Þ hafði gert í héraðsdómsstefnu, væri um að ræða svo umfangsmikla breytingu á málinu, að henni yrði ekki komið við undir rekstri þess. Auk þess skorti mjög á að grein væri gerð fyrir umræddum viðskiptum með tæmandi hætti. Vegna þessa var málinu vísað án kröfu frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 1998. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 23. júní 1998. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 845.336 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 30.411 krónum frá 15. október 1993 til 5. janúar 1994, af 41.211 krónum frá þeim degi til 12. desember sama árs, af 68.211 krónum frá þeim degi til 26. október 1995, af 93.711 krónum frá þeim degi til 5. júlí 1996, af 693.711 krónum frá þeim degi til 24. ágúst sama árs, en af 845.336 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Í gögnum málsins kemur fram að um haustið 1992 hafi aðilarnir, sem báðir höfðu þá um árabil lagt stund á útflutning hrossa, ákveðið ásamt þeim Sveini Hjörleifssyni og Daníel Jónssyni að senda átta hross frá Íslandi á sýningu í Los Angeles í Bandaríkjunum. Hafi hvor aðilanna lagt til þrjú hross, en Sveinn og Daníel eitt hvor. Hafi ætlunin verið að selja hrossin ytra, annaðhvort á sýningunni eða í kjölfar hennar, enda óheimilt að flytja þau aftur til landsins. Gagnáfrýjandi mun áður hafa staðið með þessum hætti að sölu hrossa í Bandaríkjunum. Aðaláfrýjandi ber því við að gagnáfrýjandi hafi fullyrt að auðvelt yrði að selja hrossin ytra, auk þess að hann hefði þar öruggan kaupanda að þeim gegn lágmarksverði. Þessu mótmælir gagnáfrýjandi.
Gagnáfrýjandi heldur því fram að staðið hafi til að aðilarnir stofnuðu hlutafélag, sem hafi átt að nefna The Icelandic Horse Ltd., til að annast útflutninginn. Ekki hafi orðið af því, en í reynd hafi orðið til sameignarfélag aðilanna um þessa starfsemi, þótt skriflegur samningur hafi ekki verið gerður þar um eða félagið skráð. Þessu neitar aðaláfrýjandi, sem heldur því fram að hver áðurnefndra fjórmenninga hafi fyrir sitt leyti átt að standa straum af kostnaði vegna þátttöku sinnar í sýningu og útflutningi hrossanna. Aðaláfrýjandi mótmælir jafnframt staðhæfingu gagnáfrýjanda um að þeir hafi sammælst á síðari stigum um að greiða kostnað hinna þátttakendanna tveggja, aðaláfrýjandi vegna Daníels en gagnáfrýjandi vegna Sveins.
Af framlögðum gögnum má ráða að gagnáfrýjandi hafi undirbúið útflutning hrossanna með því meðal annars að útvega vottorð dýralæknis og upprunavottorð frá Félagi hrossabænda, auk þess að semja við Flugleiðir hf. um flutning hrossanna og láta flytja þau til flugvallar hér á landi. Flugleiðir hf. gáfu út 1. október 1992 flugfarmbréf á nafni The Icelandic Horse Ltd. vegna flutnings hrossanna á ákvörðunarstað. Reikningur fyrir þetta, að fjárhæð alls 1.582.000 krónur, var gefinn út af Flugleiðum hf. 14. október 1992 á nafn gagnáfrýjanda. Eftir komu til Bandaríkjanna munu hrossin hafa verið um sinn í sóttkví. Aðilarnir fóru utan ásamt Sveini Hjörleifssyni, Daníel Jónssyni og öðrum fylgdarmönnum síðla í október 1992. Á sýningunni, sem var haldin í kjölfarið, tókst ekki að selja hrossin. Munu aðilarnir hafa þá brugðið á það ráð að fela bandarískri konu að hafa umsjón með hrossunum og leitast við að koma þeim í verð. Héldu aðilarnir síðan aftur til Íslands.
Í málinu liggur fyrir yfirlit, sem gagnáfrýjandi mun hafa gert skömmu eftir heimkomu aðilanna yfir hlut aðaláfrýjanda í áföllnum kostnaði af útflutningi hrossanna og utanferðinni. Í yfirlitinu var miðað við að aðaláfrýjandi ætti að bera kostnað af flutningi þriggja hrossa frá Íslandi til Bandaríkjanna, 591.000 krónur, kostnað af þjónustu dýralækna og sóttkví ytra vegna þriggja hrossa, 144.000 krónur, kostnað af vottorðum dýralæknis hér á landi og upprunavottorðum vegna þriggja hrossa, 16.959 krónur, flugfargjöld vegna tveggja farþega innan Bandaríkjanna, 38.100 krónur, 2/9 hluta af greiðslu til Prentsmiðjunnar Odda hf., 8.000 krónur, fjórðung ferðakostnaðar dóttur gagnáfrýjanda, 7.290 krónur, 3/8 hluta af greiðslu til nafngreinds manns ytra, 10.800 krónur, og loks óskilgreindan kostnað, 4.276 krónur, eða samtals 820.425 krónur. Aðaláfrýjandi hefur lagt fram ljósrit af tékka að fjárhæð 176.000 krónur, útgefnum af honum til gagnáfrýjanda og innleystum í banka 18. nóvember 1992. Með þessu kveðst aðaláfrýjandi hafa greitt gagnáfrýjanda hlutdeild sína í kostnaði af vottorðum, þjónustu dýralækna og sóttkví.
Óumdeilt er í málinu að aðilarnir hafi síðla árs 1992 fengið í nafni The Icelandic Horse Ltd. styrk að fjárhæð 500.000 krónur úr opinberum sjóði í tengslum við útflutning sinn. Í desember 1992 stofnuðu þeir bankareikning í nafni sama félags og mun styrkurinn hafa verið lagður inn á hann. Aðilunum mun báðum hafa verið heimilt að ráðstafa fé af reikningnum þar til honum var lokað að ósk aðaláfrýjanda í maí 1993. Ekki liggur fyrir að annað fé hafi runnið inn á þennan reikning en fyrrnefndur styrkur.
Samkvæmt gögnum málsins var seldur í Búnaðarbanka Íslands víxill að fjárhæð 250.000 krónur, útgefinn af aðaláfrýjanda 26. janúar 1993 og samþykktur til greiðslu af gagnáfrýjanda 10. apríl sama árs. Víxil þennan greiddi aðaláfrýjandi 5. október 1993 með 272.964,20 krónum. Aðaláfrýjandi kveður gagnáfrýjanda hafa varið andvirði víxilsins til að greiða kostnað, sem hafi fallið til í Bandaríkjunum vegna hrossanna.
Í mars 1993 mun hafa tekist að selja í Bandaríkjunum tvö af hrossum gagnáfrýjanda, eitt hrossa aðaláfrýjanda og hross Sveins Hjörleifssonar. Fyrir hross aðaláfrýjanda fékkst jafnvirði 683.025 króna, en af þeirri fjárhæð greiddust 68.302 krónur í sölulaun. Óumdeilt er að gagnáfrýjandi fékk í hendur söluverðið að frádregnum sölulaunum. Eftir þetta mun langur tími hafa liðið þar til önnur hross aðaláfrýjanda og hross Daníels Jónssonar seldust ytra, en söluverðið fór ekki um hendur gagnáfrýjanda og liggja ekki fyrir upplýsingar um það.
Í málinu hefur verið lagt fram bréf innheimtustjóra Flugleiða hf. til aðaláfrýjanda 1. október 1993, þar sem vitnað var til þess að sá síðarnefndi hafi ásamt gagnáfrýjanda tekið þátt í samningaviðræðum um greiðslu áðurnefnds reiknings félagsins frá 14. október 1992. Sagði í bréfinu að gagnáfrýjandi hafi greitt sinn hluta skuldarinnar, en aðaláfrýjandi ekki staðið við fyrirheit um greiðslu fyrir sitt leyti. Var aðaláfrýjanda gefinn kostur á að greiða innan viku skuldina, sem var sögð nema 992.748 krónum. Aðaláfrýjandi greiddi Flugleiðum hf. 136.400 krónur inn á skuldina 5. október 1993. Hann kveðst hafa gert þetta í þágu Daníels Jónssonar af greiðasemi við hann vegna hlutdeildar hans í kostnaði af flutningi hrossanna. Flugleiðum hf. bárust ekki frekari greiðslur frá aðaláfrýjanda og beindu áfram kröfu sinni að gagnáfrýjanda, þar á meðal með málsókn. Gagnáfrýjandi kveðst hafa greitt það, sem stóð eftir af skuldinni við Flugleiðir hf. eftir greiðslu aðaláfrýjanda, á tímabilinu frá 15. október 1993 til 24. ágúst 1996. Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda greiddi hann félaginu alls 1.663.300 krónur auk málskostnaðar að fjárhæð 151.625 krónur.
II.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu var mál þetta höfðað af gagnáfrýjanda til að heimta úr hendi aðaláfrýjanda helming þess, sem gagnáfrýjandi kveðst hafa orðið að greiða Flugleiðum hf. vegna kostnaðar af flutningi fyrrnefndra hrossa til Bandaríkjanna, ásamt hluta aðaláfrýjanda í dráttarvöxtum, svo og allan málskostnað, sem gagnáfrýjandi hafi greitt félaginu. Að teknu tilliti til þeirrar fjárhæðar, sem aðaláfrýjandi greiddi Flugleiðum hf. 5. október 1993, er krafan sögð í stefnu nema 984.104 krónum. Útreikningur á þeirri fjárhæð er hins vegar ekki skýrður þar frekar með viðhlítandi hætti. Í atvikalýsingu í stefnunni er aðallega greint frá aðdragandanum að samstarfi aðilanna, ráðagerðum um stofnun félags þeirra og viðskiptum við Flugleiðir hf. Þar er hins vegar ekki lýst svo neinu nemi öðrum atvikum, sem greint er frá hér að framan, og er meðal annars látið hjá líða að rekja fjárhagsleg samskipti aðilanna varðandi annað en viðskiptin við Flugleiðir hf. Í stefnunni er því haldið fram að aðaláfrýjandi hafi verið ábyrgur fyrir greiðslu skuldarinnar við Flugleiðir hf. Í því sambandi er staðhæft að ábyrgð aðaláfrýjanda verði annars vegar rakin til þess að í raun hafi orðið til sameignarfélag aðilanna, sem þeir beri báðir ábyrgð á, og hins vegar að munnlegt samkomulag hafi verið milli þeirra um að hvor þeirra bæri ábyrgð á flutningi fjögurra hrossa til Bandaríkjanna, þannig að aðaláfrýjanda hafi borið að greiða helming flutningskostnaðar. Varðandi fyrrnefndu staðhæfinguna er ekki skýrt frekar í stefnunni eða málatilbúnaði gagnáfrýjanda að öðru leyti hvernig því víki við að hann geti krafið aðaláfrýjanda um greiðslu á helmingi reiknings, sem varðar starfsemi ætlaðs sameignarfélags þeirra, án nokkurs tillits til efnahags þess eða fjárhagslegrar stöðu hvors þeirra um sig gagnvart því. Þá er heldur ekki leitast við að skýra út aðild að málinu með tilliti til þess að óskráðu sameignarfélagi aðilanna kunni að hafa borið að greiða umræddan reikning. Af þessum sökum voru þegar við höfðun málsins verulegir gallar á reifun þess.
Í greinargerð aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi var greint frá helstu atriðunum í fjárhagslegum samskiptum aðilanna, sem lutu að öðru en viðskiptum við Flugleiðir hf. Með vísan til þeirra atriða krafðist aðaláfrýjandi sýknu, því hann taldi sig hafa greitt sinn hlut í kostnaði af flutningi hrossanna til Bandaríkjanna með fyrrnefndri greiðslu til Flugleiða hf. og greiðslu á víxli samþykktum af gagnáfrýjanda, svo og með því að gagnáfrýjandi hafi fengið í hendur andvirði eins af hrossum aðaláfrýjanda, sem hafi verið selt ytra. Vegna þessarar málsvarnar lagði gagnáfrýjandi fram í héraði gögn, sem hann nefndi “bókhald vegna ráðstöfunar á innborgunum Sigurbjörns Bárðarsonar á kostnað í Bandaríkjunum.” Í þessum gögnum voru yfirlit með sundurliðunum á kostnaði, sem var flokkaður sem ýmiss kostnaður, greiðslur til prentsmiðju, ferðakostnaður, kostnaður af sóttkví, kostnaður af umsjón og eftirliti með hrossunum í Bandaríkjunum, kostnaður vegna dýralækninga og fjármagnskostnaður. Þessi útgjöld ásamt þóknun fyrir sölu á hrossi aðaláfrýjanda voru þar talin nema alls 985.257 krónum. Á móti voru taldar innborganir frá aðaláfrýjanda, annars vegar söluverð umrædds hross, 683.025 krónur, og hins vegar greiðsla á víxli, 240.000 krónur, eða samtals 923.025 krónur. Samkvæmt þessu hallaði á aðaláfrýjanda um 62.232 krónur vegna viðskipta aðilanna án tillits til þeirrar skuldar, sem var stofnað til við Flugleiðir hf. Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir af hálfu gagnáfrýjanda að hann félli frá kostnaðarlið í umræddu yfirliti vegna fjármagnskostnaðar, að fjárhæð 25.000 krónur, og viðurkenndi jafnframt innborgun á 176.000 krónum frá aðaláfrýjanda með fyrrgreindum tékka í nóvember 1992. Með því að breyta niðurstöðu samkvæmt áðurnefndu yfirliti þessu til samræmis taldi gagnáfrýjandi að aðaláfrýjandi ætti hjá sér 138.768 krónur vegna viðskipta þeirra, þegar undanskilin væri greiðsla gagnáfrýjanda á flutningskostnaði til Flugleiða hf. Lækkaði gagnáfrýjandi því upphaflegu kröfu sína, sem var eins og áður segir 984.104 krónur, um þá fjárhæð. Endanleg krafa hans í héraði var þannig um greiðslu á 845.336 krónum, sem er sama fjárhæð og hann krefst fyrir Hæstarétti.
Með þeim aðgerðum gagnáfrýjanda undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi, sem hér að framan er lýst, hefur hann gerbreytt þeim grundvelli, sem hann lagði að málinu í stefnu sinni. Málið snýr þannig í raun ekki lengur að þeim eina tiltekna reikningi frá Flugleiðum hf., sem gagnáfrýjandi miðaði málatilbúnað sinn við í öndverðu, heldur heildaruppgjöri á viðskiptum aðilanna. Svo umfangsmikilli breytingu máls verður ekki komið við undir rekstri þess. Að auki skortir mjög á að gagnáfrýjandi hafi gert viðhlítandi grein fyrir heildaruppgjöri milli aðilanna í framlögðum sönnunargögnum, skriflegum málflutningsgögnum og munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti. Yfirlit það, sem gagnáfrýjandi vill reisa heildaruppgjör á, er bersýnilega ekki tæmandi um viðskipti aðilanna, enda er þar meðal annars í engu getið um styrk, sem þeir fengu til starfsemi sinnar og áður er getið. Fylgiskjölum með yfirlitinu er jafnframt í mörgum atriðum áfátt. Væri því hvað sem öðru líður ófært gegn mótmælum aðaláfrýjanda að leggja yfirlit gagnáfrýjanda til grundvallar dómi.
Samkvæmt öllu því, sem að framan greinir, eru svo stórfelldir annmarkar á málatilbúnaði gagnáfrýjanda að ekki verður komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjandi, Þórarinn Jónasson, greiði aðaláfrýjanda, Sigurbirni Bárðarsyni, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.