Hæstiréttur íslands

Mál nr. 676/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 28. janúar 2011.

Nr. 676/2010.

Baldur Friðfinnsson og

Álfheiður Þorsteinsdóttir

(Þórður Bogason hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Halldór Jónsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B og Á gegn A hf. var vísað frá dómi að kröfu A hf. Í málinu kröfðust B og Á að viðurkenndur yrði með dómi réttur þeirra til skaðabóta úr hendi A hf. vegna rýrnunar sem varð á fjármunum þeirra er voru í fjárvörslu og eignastýringu hjá K hf. og síðar A hf. er rekja mætti til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi A hf. og starfsmanna hans. Í málinu var talið að B og Á hefðu m.a. ekki gert grein fyrir því tjóni sem þau töldu sig hafa orðið fyrir eða í hverju hin meintu brot höfðu verið fólgin né hvenær þau voru framin. Var bótagrundvöllur talinn vanreifaður og óljós og B og Á ekki talin hafa leitt líkur að því að þau hefðu orðið fyrir bótaskyldu tjóni þannig að nægði til höfðunar viðurkenningarmáls á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Baldur Friðfinnsson og Álfheiður Þorsteinsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Arion banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2010.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 3. nóvember sl. var höfðað 19. mars 2010.    Stefnendur eru Baldur Friðfinnsson Bæ 2, Búðardal og Álfheiður Þorsteinsdóttir, Bæ 2, Búðardal.

Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnendur krefjast þess að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnenda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna rýrnunar sem varð á fjármunum stefnenda sem voru í fjárvörslu og eignastýringu hjá Kaupþingi banka hf. og síðar stefnda og rekja má til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og starfsmanns hans í formi óheimilla kaupa á óskráðum skuldabréfum og vanrækslu, bæði við innheimtu skuldabréfanna og eftirlit, auk trúnaðarbrota gagnvart stefnendum.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram ef til flutnings málsins kemur, að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti, en ella samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá er gerð krafa um að stefnendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Hinn 3. nóvember sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi og að honum verði úrskurðaður málskostnaður. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms.

Málavextir

Atvik máls þessa eru þau að 28. febrúar 2001 gerðu stefnendur tvo vörslusamninga við Kaupþing hf. Árið 2003 gerðu stefnendur samning við Kaupþing búnaðarbanka hf. um eignastýringu. Hinn 17. ágúst 2001 undirrituðu stefnendur yfirlýsingu vegna kaupa á óskráðum skuldabréfum. Í þeirri yfirlýsingu fólst yfirlýsing stefnanda um sérfræðiþekkingu á viðskiptum með óskráð verðbréf.

Eignastýringarsamningurinn sem stefnendur undirrituðu kveður á um að hann sé fjárvörslusamningur, sem feli í sér þjónustu bankans gegn endurgjaldi frá viðskiptavini. Þjónustan feli í sér að taka við fjármunum viðskiptavinar og ávaxta þá með fjárfestingum samkvæmt fyrirfram ákveðinni fjárfestingastefnu. Sú fjárfestingastefna sem samningurinn upphaflega kvað á um í tilviki stefnenda var svokölluð stefna B. Í henni felst að bankanum er heimilt að fjárfesta fyrir allt að 25% af fjármunum stefnanda í hlutabréfum eða verðbréfasjóðum sem fjárfesta einkum í hlutabréfum. Að öðru leyti skal fjárfesta í skuldabréfum og víxlum eða verðbréfasjóðum sem fjárfesta einkum í skuldabréfum, eða ráðstafa fjármunum inn á innlánsreikninga. Árið 2005 var fjárfestingastefnunni breytt í leið E, sem heimilar að fjárfesta fyrir allt að 100% í hlutabréfum eða verðbréfasjóðum sem fjárfesta einkum í hlutabréfum. Að öðru leyti sé fjárfest í skuldabréfum, víxlum eða verðbréfasjóðum/fjárfestingasjóðum sem fjárfesti einkum í skuldabréfum.

Samkvæmt þessu telja stefnendur að sú áhætta sem fólgin var í fjárfestingastefnu samningsins hafi upphaflega verið mjög takmörkuð en hafi hins vegar aukist smám saman.

Hinn 8. janúar 2005 undirrituðu stefnendur viðauka við eignastýringar­samninginn, sem veitti viðkomandi banka heimild til að fjárfesta í óskráðum skuldabréfum á grundvelli eignastýringarsamningsins fyrir allt að 50% af fjárfestingum. Stefnendur halda því fram að blekkingum hafi verið beitt við frágang þessa skjals, en umræddur starfsmaður hafi tjáð stefnendum að aðeins væri um framlengingu á gildandi samningi að ræða með sömu takmörkuðu áhættunni. Stefnendur benda á að bankanum hafi verið óheimilt að fjárfesta á grundvelli vörslusamninganna nema hafa um það skýr fyrirmæli.

Með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi 6. október 2008 og fólu meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, voru Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Tóku lögin gildi á miðnætti þann 7. október 2008.

Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun, á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, í samræmi við 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 21. október 2008, var Nýi Kaupþing banki hf., nú Arion banki hf., stefndi í máli þessu, stofnaður og til hans ráðstafað eignum og skuldum Kaupþings banka hf. Samkvæmt 5. lið framangreindrar ákvörðunar tók stefndi við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Kaupþings banka hf. á Íslandi.

Stefnendur halda því fram að skömmu eftir að stefndi yfirtók samningana við stefnendur, eða um áramótin 2008/2009 hafi þau fengið sent yfirlit yfir verðbréfaeign sína frá stefnda sem hafi gefið til kynna að eignir þeirra hjá stefnda næmu verulegum fjárhæðum. Hvorki hafi þar verið tilgreint hvort um væri að ræða skráð eða óskráð verðbréf né hvort umrædd skuldabréf væru í skilum eða ekki.

Í lok nóvember 2009 kveða stefnendur hafa birst fréttir um það í fjölmiðlum að starfsmanni stefnda hefði verið vikið frá störfum og hann kærður til lögreglu vegna gruns um fjárdrátt og/eða önnur auðgunarbrot. Sögunni hafi fylgt að vitað hefði verið um brot starfsmannsins í langan tíma en bankanum hafi tekist að halda málinu leyndu fram að þessu. Stuttu eftir þennan fréttaflutning, eða um mánaðamótin nóvember/desember 2009, hafi stefnendur verið boðaðir í skyndingu á fund hjá stefnda. Á fundinum hafi þeim verið kynnt að starfsmaðurinn sem í hlut ætti væri sá starfsmaður sem hefði annast stýringu á eignum þeirra samkvæmt nefndum samningum. Upp hefði komist að starfsmaðurinn hefði brotið gróflega gegn umsaminni fjárfestingarstefnu eignastýringarsamningsins með stórfelldum kaupum á skuldabréfum af óskráðum félögum. Umrædd félög væru ógjaldfær og sömuleiðis þeir aðilar sem tóku sjálfskuldarábyrgð á greiðslu bréfanna á sínar herðar. Umrædd skuldabréf væru því verðlaus, þau hefðu verið í vanskilum í langan tíma og engin tilraun verið gerð á þeim tíma til að innheimta þau. Þar sem allir fjármunir stefnenda væru nú bundnir í þessum skuldabréfum væri ljóst að þau væru búinn að tapa öllum þeim fjármunum sem þau hefðu falið bankanum að fjárfesta. Á fundinum hafi stefnendum verið afhent yfirlit frá endurskoðunarfyrirtækinu Pricewaterhouse Coopers sem bankinn hafi látið útbúa. Á því komi fram að eignir stefnenda bundnar í þessum nú verðlausu skuldabréfum hafi, hinn 30. júní 2009, numið samtals 107.173.947 krónum.

Upplýst hafi verið á fundinum að umræddur starfsmaður bankans hafi um langan tíma stundað viðskipti við aðila á þann hátt að ekki samræmdist umsaminni fjárfestingarstefnu og blekkt viðskiptavini hans með því að telja þeim trú um að viðskiptin væru annars eðlis en þau í raun og veru voru. Af hálfu bankans hafi verið viðurkennt að eftirlit með því hvort starfsmenn hans fylgdu umsaminni fjárfestingarstefnu hafi verið lítið sem ekkert. Því hafi farið sem fór. Einnig hafi verið viðurkennt af hálfu bankans að háttsemi starfsmannsins hlyti að falla undir það að vera bæði saknæm og ólögmæt og jafnframt bótaskyld. Hins vegar hafi komið fram hjá stefnda að þrátt fyrir að stefndi hafi í október 2008 yfirtekið þá vörslu- og eignastýringarsamninga sem liggi til grundvallar viðskiptunum myndi nýi bankinn, Arion banki hf., ekki taka ábyrgð á því tjóni sem þó væri viðurkennt að hefði átt sér stað. Skýringin væri sú að stjórn bankans hafi, þvert gegn ráðleggingum starfsmanna bankans, bæði á lögfræðisviði hans og á sviði einkabankaþjónustu, ákveðið að kröfur viðskiptamanna vegna þessa ættu heima í gamla bankanum, Kaupþingi banka hf., en ekki hinum nýja banka. Ekki hafi fengist uppgefið á hverju stjórnin byggði afstöðu sína. Hafi allri ábyrgð og bótaskyldu vegna málsins því verið vísað til gamla bankans og stefnanda bent á að lýsa kröfu sinni í þrotabú hans til að afstýra réttarspjöllum. Er stefnendur voru upplýstir um atvik málsins hafi verið rúmar þrjár vikur eftir af sex mánaða kröfulýsingarfresti Kaupþings banka hf. Stefndi hafi hafnað því að staðfesta fundargerð stefnanda frá fundinum en hafi þó staðfest sitthvað um efni hans.

Stefnendur hafi ákveðið að fara að ráðum stefnda og lýsa kröfu sinni til slitastjórnar gamla bankans með þeim fyrirvara að hann teldi stefnda bera ábyrgð á málinu, en kröfunni væri lýst til að forðast möguleg réttarspjöll. Hinn 15. desember 2009 hafi stefnendur sent stefnda bréf þar sem fram komi að stefnendur telji stefnda bera ábyrgð á tjóni sínu og skori á hann að viðurkenna bótaskyldu í málinu. Bréfinu hafi verið svarað 9. mars 2010 og hafi bótaskyldu verið hafnað. Þar sem stefndi hafi á fundi með stefnendum vísað frá sér ábyrgð á málinu og ekki sinnt því að svara formlegri áskorun stefnenda um viðurkenningu á bótaskyldu sé stefnendum nauðugur einn kostur að höfða mál þetta til viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnanda og lagarök  

Stefnendur byggja á því að þau sætti sig ekki við þá afstöðu stefnda að stefndi beri ekki ábyrgð á því tjóni sem þau hafi orðið fyrir í viðskiptum við stefnda. Stefnendur telji að þau hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri fulla og ótakmarkaða ábyrgð á og krefjist viðurkenningar á því. Kröfu sína byggi stefnendur  á eftirgreindum málsástæðum.

a. Stefnendur urðu fyrir tjóni sem er bótaskylt.

Stefnendur telji engan vafa leika á því að þau hafi orðið fyrir tjóni sem sé skaðabótaskylt. Um það sé í raun ekki ágreiningur milli aðila. Ágreiningurinn snúist einungis um það hver beri umrædda skaðabótaábyrgð. Á fundi sem stefnendur hafi verið boðuð til af hálfu stefnda í byrjun desember 2009 hafi komið mjög skýrt fram hjá starfsmönnum stefnda sem sátu fundinn að ekki væri um það deilt að háttsemi starfsmannsins væri bæði saknæm og ólögmæt og skaðabótaskyld þótt því væri hafnað að stefndi bæri skaðabótaábyrgð á tjóninu. Stefnendur séu sammála því að umrædd háttsemi hafi verið bæði saknæm og ólögmæt og því skaðabótaskyld.

Það liggi fyrir, og sé óumdeilt milli aðila, að stefndi og/eða umræddur starfsmaður stefnda hafi fjárfest fyrir þá fjármuni sem stefnendur létu bankanum í té í trássi við fyrir fram umsamda fjárfestingarstefnu og fyrirmæli stefnenda og hafi þannig brotið gróflega gegn samningi milli aðila og gegn skyldum sínum. Hefði starfsmaðurinn fjárfest í verðbréfum sem stranglega hafi verið bannað að festa fjármuni í, svo sem umfangsmiklum kaupum á skuldabréfum af óskráðum félögum. Hefði starfsmaðurinn fylgt umsaminni fjárfestingastefnu sé ljóst að fjármunir stefnenda hefðu ekki glatast með þeim hætti sem raun varð á, með gjaldþroti óskráðra félaga. Að auki hafi þau óskráðu skuldabréf sem keypt voru fyrir fjármuni stefnanda verið látin vera óáreitt í vanskilum í langan tíma, hugsanlega árum saman, auk þess sem starfsmaðurinn hafi beitt blekkingum til að ná sér í heimildir eftir á til að fjárfesta í óskráðum skuldabréfum. Sú háttsemi að fjárfesta á skjön við samninga og fyrirmæli stefnanda sé að mati stefnanda ólögmæt. Einnig hafi sú háttsemi verið ólögmæt út frá því sjónarmiði að starfsmaðurinn hafi farið langt út fyrir það stöðuumboð sem hann hafði sem starfsmaður stefnda og hafi því bæði brotið gegn opinberum lögum og reglum um skilyrði fyrir fjárfestingum í óskráðum verðbréfum, m.a. með því að fá viðskiptavini bankans, eins og stefnendur, til að fallast ranglega á að þau byggju yfir sérfræðiþekkingu á viðskiptum með óskráð verðbréf. Þá hafi starfsmaðurinn ítrekað sagt bæði stefnanda og vinnuveitanda sínum ósatt um þessar fjárfestingar og talið stefnanda trú um að umræddar fjárfestingar, sem hafi verið ólögmætar og stefnanda verið ókunnugt um, væru bestu fjárfestingar sem kostur væri á í viðskiptasambandinu. Sem dæmi bæru bréfin yfir 20% ávöxtun, en sú staðreynd sem starfsmaðurinn hafi leynt þau var að sú ávöxtun hafi í raun ekki verið annað en uppsafnaðir og ógreiddir dráttarvextir þar sem umrædd skuldabréf, sem starfsmaðurinn hafði eytt fjármunum stefnenda til kaupa á, hafi verið í vanskilum og hafi lengi verið áður en upp komst um athæfið. Stefnendur telji hafið yfir allan vafa að þessi háttsemi starfsmannsins hafi verið ólögmæt. Þá liggi fyrir að innri endurskoðun og allt innra eftirlit stefnda með því hvort starfsmenn hans fylgdu umsaminni fjárfestingastefnu við viðskiptavini hafi brugðist og hafi í raun ekkert verið þrátt fyrir lagafyrirmæli um slíkt.

Stefnendur telji jafnframt yfir vafa hafið að háttsemi starfsmannsins hafi verið saknæm. Eins og komið hafi fram bæði í fréttum, sem og hjá stefnda sjálfum, muni háttsemi starfsmannsins hafa viðgengist lengi áður en honum var vikið frá störfum. Starfsmaðurinn muni sífellt hafa þurft að ýta á undan sér þeim vanda sem hann hafði komið sér í og ljóst að þegar einn viðskiptavinur leysti út fé sitt úr eignastýringu þurfti að koma hinum verðlausu eignum yfir á annan viðskiptavin svo ekki kæmist upp um athæfið. Það geti því ekki hafa dulist starfsmanninum að athæfi hans væri ólögmætt. Ásetningur hans í málinu, og þar með saknæmi, sé því yfir allan vafa hafið. Eins sé viðurkennt af stefnda að eftirlit bankans með því að starfsmenn bankans í eignastýringu fylgdu fyrir fram umsaminni fjárfestingarstefnu hafi brostið fullkomlega og tilviljun ráðið því að upp komst um athæfi starfsmannsins. Saknæmi sé því einnig hjá bankanum í málinu, að minnsta kosti stórkostlegt gáleysi, við eftirfylgni og innra eftirlit.

Eins og  rakið sé að framan telji stefnendur engan vafa leika á því að þeir hafi orðið fyrir tjóni sem sé bótaskylt, enda um að ræða saknæma og ólögmæta háttsemi í málinu sem sé skaðabótaskyld.

b. Stefndi er ábyrgur fyrir tjóni stefnenda á grundvelli almennra reglna.

Stefnendur byggi kröfu sína um ábyrgð stefnda í fyrsta lagi á því að þau hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi af hálfu stefnda. Ekki stoði stefnda að bera því við að gamli Kaupþing banki hf. beri ábyrgðina, enda hafi stefndi yfirtekið, og hafi verið gert að yfirtaka, réttindi og skyldur vegna allra eignastýringarsamninga sem voru í Kaupþingi banka hf. Stefnendur bendi á að samkvæmt auglýsingu um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, hinn 9. október 2008, hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., víkja félagsstjórn hans í heild sinni frá störfum og skipa skilanefnd fyrir bankann. Samhliða þessum gerningi hafi verið stofnað nýtt félag, Nýi Kaupþing banki hf., kt. 581008-0150, sem nú heiti Arion banki hf. og sé stefndi í málinu og hafi þeirri starfsemi sem mál þetta lúti að verið rennt inn í það félag. Gerningar þessir hafi verið gerðir með vísan til 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Samkvæmt nefndum lögum, nr. 125/2008, hafi Alþingi veitt Fjármálaeftirlitinu fullkomið vald til að ráða skipan mála er varða þær fjármálastofnanir sem ástæða þótti til að taka yfir, m.a. ákvörðunarvald stjórnar og hluthafafundar fjármálafyrirtækis. Einnig hafi Fjármálaeftirlitið fengið fullkomið vald til að ákveða skiptingu eigna og skulda milli gömlu og nýju bankanna, sbr. 5. gr. laganna, sbr. ákvæði VI til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002, sem gildi til a.m.k. 1. júlí 2010. Í ákvæðinu komi fram að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta meðal annars með samruna við annað fyrirtæki. Jafnframt hafi Fjármálaeftirlitinu verið heimilað að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt væri í slíkum tilfellum. Samkvæmt ákvæðinu séu það ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem ráði því hvaða eignir, skuldir, réttindi og skyldur fluttust yfir til hinna nýju banka en mat á því sé ekki undir stjórnum fjármálafyrirtækjanna sjálfra komið.

Fjármálaeftirlitið hafi nýtt framangreindar valdheimildir sínar til að taka yfir og ákveða skiptingu eigna og skulda, réttinda og skyldna milli gömlu og nýju bankanna. Eins og nefnt sé að framan hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. með ákvörðun, hinn 9. október 2008. Hinn 14. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið síðan birt svokallaðar forsendur fyrir skiptingu efnahagsreiknings Landsbanka Íslands, Kaupþings hf. og Glitnis hf. í samræmi við lög nr. 125/2008. Fram komi í þessum forsendum að markmið þeirra sé að samræma vinnubrögð við yfirfærslu eigna og skulda í nýja banka. Við yfirfærslu eigna skuli hafa til hliðsjónar að flytja allar eignir sem tengist innlendri starfsemi gamla bankans yfir í hinn nýja, en að erlend dótturfélög og erlend útibú bankans verði eftir í gamla bankanum nema í þeim tilfellum sem meginstarfsemi þeirra fari fram á Íslandi. Í samræmi við þessar forsendur hafi Fjármálaeftirlitið hafið að skipta bönkunum í innlenda og erlenda starfsemi þeirra.

Hinn 21. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið birt ákvörðun sína um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til stefnda, Nýja Kaupþings banka hf., (nú Arion banka). Samkvæmt fyrstu þremur töluliðum ákvörðunarinnar hafi öllum eignum Kaupþings banka hf. hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum, verið skipt yfir til Nýja Kaupþings banka hf., að undanskildum eignum sem taldar hafi verið upp í viðauka. Þá hafi verið ákveðið að nýi bankinn tæki við öllum tryggingarréttindum gamla bankans og yfirtæki allar óefnislegar eignir og réttindi hans, að teknu tilliti til sérstakra fyrirvara. Í 4. tl. ákvörðunarinnar hafi verið lagt fyrir opinbera aðila og einkaaðila að skrá og yfirfæra réttindi og/eða eignarheimildir Nýja Kaupþings banka hf.

Í 5. tl. ákvörðunarinnar komi síðan eftirfarandi fram:

„Nýi Kaupþing banki hf. tekur frá og með 22. október 2009 kl. 9.00 við starfsemi sem Kaupþing banki hf. hefur haft með höndum og tengist hinum framseldu eignum, þ.m.t. aðild Kaupþings banka hf. að hvers konar greiðslukerfum. Jafnframt tekur Nýi Kaupþing banki hf. frá og með því tímamarki við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Kaupþings banka hf. á Íslandi.“

Eins og að framan sé nefnt sé þessi yfirfærslugerningur gerður á grundvelli sérstakrar lagaheimildar. Vert sé að taka fram að þessi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi ekki sætt neinum breytingum síðan hún var birt.

Eins og að framan sé rakið hafi stefnendur gert samninga við Kaupþing banka hf. um vörslu og eignastýringu fyrir allmörgum árum. Þeir samningar séu enn í fullu gildi. Eins og rakið sé að framan hafi Fjármálaeftirlitið tekið Kaupþing banka hf. yfir að öllu leyti og með framangreindri ákvörðun sinni hafi stofnunin, með vísan til lagaheimildar, fært öll réttindi og allar skyldur gamla bankans samkvæmt vörslu- og eignastýringarsamningunum yfir til stefnda í október 2008, án nokkurra fyrirvara. Tímamark þetta sé nokkru áður en hin saknæma og ólögmæta háttsemi komst upp og starfsmanninum var vikið frá störfum. Orðalag ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins verði ekki skilið öðruvísi en svo að stefndi hafi yfirtekið allar skyldur sem fylgi samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini bankans. Í því felist að stefndi beri ábyrgð á bótakröfum vegna þessara samninga um vörslu og eignastýringu sem færðir hafi verið til hans, sem og öðrum skyldum sem kunni að reyna á vegna umræddrar þjónustustarfsemi sem Fjármálaeftirlitið hafi fært undir stefnda. Rétt sé að árétta í þessu sambandi að stefndi hafi ekki sjálfdæmi um það hvaða réttindi og skyldur bankinn yfirtók frá gamla bankanum heldur beri í þeim efnum að miða við efni ákvarðana Fjármálaeftirlitsins sem teknar hafi verið á grundvelli laga nr. 125/2008.

Stefnendur telji það renna styrkum stoðum undir málatilbúnað þennan að í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 125/2008, sé rætt um þá heimild sem veitt skyldi Fjármálaeftirlitinu til að skipta upp fjármálastofnunum. Þar sé heimildin rökstudd með því að það sé mikilvægt að Fjármálaeftirlitið geti gripið inn í starfsemi fjármálafyrirtækis með þessum hætti, ef alvarlegar aðstæður komi upp, með það að markmiði að reyna að finna grundvöll til áframhaldandi reksturs fyrirtækisins, sameina fyrirtækið eða einstakar rekstrareiningar þess öðru fyrirtæki eða vinna að öðrum nauðsynlegum aðgerðum til þess að takmarka tjón sem hlotist gæti af því að starfsemi viðkomandi fari í þrot. Með hliðsjón af því hversu nauðsynlegt það þætti að geta gripið til aðgerða án tafar gerði frumvarpið ráð fyrir að ekki þyrfti að afla samþykkis Samkeppniseftirlitsins fyrir samrunanum, eins og það sé orðað. Þessi ummæli frumvarpsins telji stefnendur styrkja verulega það sjónarmið þeirra um að skaðabótaskylda stefnda sé fyrir hendi, enda hafi Kaupþingi banka hf. verið skipt upp og hluti starfseminnar sameinaður nýju félagi í samræmi við það sem hefðbundið sé við uppskiptingu félags. Þessar lýsingar frumvarpsins mæli eindregið gegn þeim sérlega fráleitu röksemdum stefnda, að skaðabótaábyrgð vegna þeirrar starfsemi sem rennt hafi verið inn í stefnda með skiptingu hins gamla félags og sameiningu við hið nýja, í samræmi við hefðbundna uppskiptingu og samruna félaga, hafi með einhverjum hætti orðið eftir í þeim hluta starfseminnar sem ákveðið var að skyldi ekki renna inn í stefnda.

Stefnendur byggi á því að ef líta megi svo á að Kaupþingi banka hf. hafi, eins og framangreind orð lagafrumvarpsins bendi eindregið til, verið skipt upp með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í samræmi við almennar reglur sem gildi í félagarétti, sbr. t.d. ákvæði um skiptingu hlutafélaga í lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, þá beri stefndi ábyrgð í málinu hvernig sem á það sé litið. Stefndi hafi við skiptinguna og samrunann yfirtekið öll réttindi og skyldur vegna eignastýringasamninga frá Kaupþingi banka hf., sem þýði bókstaflega yfirtöku á öllum réttindum og skyldum eins og tíðkanlegt sé, þar á meðal hvers kyns ábyrgð sem fylgi og fylgja kunni hinum yfirteknu réttindum og skyldum. Einnig megi byggja ábyrgðina á reglu 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga. Þar sé sérstakt ákvæði sem kveði á um það að fái kröfuhafi í félagi, sem tekið hafi þátt í skiptingu, ekki fullnustu beri hvert þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast hafi fyrir skiptingu.

 Þar sem ljóst sé að stefnendur muni ekki fá fullnustu kröfu sinnar frá gamla bankanum, sem nú sé gjaldþrota og í slitameðferð, beri nýja félagið óskipta ábyrgð gagnvart þeim vegna þeirrar starfsemi sem hafi runnið inn í stefnda. Því sé stefnendum heimilt að beina kröfu sinni að stefnda en verið geti að stefndi eigi þá endurkröfurétt á gamla bankann. Það endurkröfumál varði stefnanda hins vegar ekki um á nokkurn hátt.

Með vísan til framangreindra raka telji stefnendur hafið yfir vafa að bótaábyrgð í tengslum við þá samninga um vörslu og eignastýringu, sem stefnda hafi verið gert að yfirtaka með öllum réttindum og skyldum þar að lútandi, hvíli hjá stefnda. Ekki standi nokkur rök til annars, enda hafi réttindi og skyldur er þessari starfsemi tengdust verið færð á grundvelli lagaheimildar til hins nýja félags án nokkurra fyrirvara. Ljóst sé að stefndi hafi brotið gróflega gegn þeim trúnaðarskyldum sem í samningssambandi hans og stefnanda fólst, bæði vegna skorts á eftirliti, sbr. einkum 16. gr. laga nr. 161/2002 um innri endurskoðun fjármálafyrirtækja, sjónarmið um ríka sérfræðiábyrgð fjármálafyrirtækja, sem og með vísan til almennra sjónarmiða laga um neytendavernd. Aðstöðumunur stefnda og stefnenda sé gífurlegur auk þess sem varsla fjármuna leggi lögum samkvæmt auknar skyldur á herðar stefnda. Með vísan til þessa telji stefnendur að viðurkenna beri með dómi skaðabótaskyldu stefnda gagnvart stefnendum.

c. Ábyrgð á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar.

Stefnendur byggi kröfu sína í öðru lagi á því að stefndi beri ábyrgð á tjóni þeirra á grundvelli þeirrar ólögfestu reglu að vinnuveitandi beri ábyrgð á skaðaverkum starfsmanns síns, hinni svonefndu vinnuveitendaábyrgð. Hafið sé yfir vafa að sú háttsemi sem viðhöfð hafi verið í tengslum við eignastýringu hafi brotið gegn bæði starfsskyldum viðkomandi starfsmanns sem og þeim samningi sem í gildi hafi verið milli stefnenda og stefnda. Háttsemin hafi því óumdeilanlega verið bæði saknæm og ólögmæt. Verði ekki talið að stefndi beri sjálfur beina skaðabótaábyrgð í málinu byggi stefnendur á því að stefndi beri engu að síður ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar.

Óumdeilt sé að umræddur starfsmaður hafi verið starfsmaður stefnda um árabil sem launþegi, allt þar til honum hafi verið vikið frá störfum um mitt ár 2009, og hafi hann allan þann tíma lotið húsbóndavaldi stefnda. Ekki sé heldur deilt um að sú háttsemi sem starfsmaður stefnda sýndi af sér hafi verið saknæm, enda engum vafa undirorpið að umræddur starfsmaður hafi verið sér meðvitaður um að háttsemi hans væri brot gegn starfsskyldum hans og gegn þeim samningi sem honum hafi borið að vinna eftir. Því hafi verið um beinan ásetning að ræða enda hafi starfsmanninum ekki getað dulist hvaða afleiðingar þessi háttsemi hans myndi hafa og hafði þegar haft sé í huga að honum var vikið frá störfum. Háttsemi starfsmannsins hafi einnig óumdeilanlega verið fólgin í starfsskyldum hans og hafi starfsmaðurinn brotið gegn starfsskyldum sínum. Ekki sé heldur deilt um það að tjóninu hafi starfsmaðurinn valdið í vinnutíma sínum. Með vísan til þessara raka telji stefnendur að ekki þurfi að deila um það að stefndi hafi verið vinnuveitandi umrædds starfsmanns og að stefndi beri sem vinnuveitandi starfsmannsins ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglunnar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanns síns. Eins telji stefnendur að stefndi beri ábyrgð á skaðaverkum starfsmanna vegna aðilaskipta að fyrirtæki sem óneitanlega hafi orðið.

d. Heimild til að höfða viðurkenningarmál.

Heimild sína til að höfða mál til viðurkenningar styðja stefnendur við 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 þar sem segi að hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands geti hann leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Stefnendur telji hafið yfir vafa að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um skaðabótaskyldu stefnda með dómi enda hafi stefndi hafnað því að hann beri skaðabótaábyrgð í málinu. Því byggi stefnendur á því að þeim sé heimilt að höfða viðurkenningarmál þetta.

e. Málskostnaður.

Stefnendur krefjist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti. Krafist sé málskostnaðar í samræmi við 129. sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að viðbættum virðisaukaskatti.

Um lagarök vísa stefnendur til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008 og til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. m.a. 16. og 19. gr. um innri endurskoðun fjármálafyrirtækja og góðar viðskiptavenjur. Þá vísa stefnendur til ákvæða laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Um heimild til að höfða viðurkenningarmál vísa stefnendur til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um málskostnað er vísað til 129. sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda til stuðnings frávísunarkröfu

Frávísunarkröfu sína kveðst stefndi í fyrsta lagi byggja á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda séu vanreifuð og uppfylli ekki kröfur laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um skýran og glöggan málatilbúnað, sér í lagi d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Þannig sé ekki ljóst hvort aðalkrafa stefnenda byggi á því að stefndi hafi yfirtekið hugsanlega skaðabótaábyrgð Kaupþings banka hf. gagnvart stefnendum eða hvort byggt sé á því að stefndi hafi gengist í sjálfstæða ábyrgð gagnvart stefnendum. Þá sé ekki getið tímabils meintrar bótaskyldrar háttsemi en þó virðist ljóst að það hafi verið áður en stefndi var stofnaður. Samkvæmt 80. gr. laga um meðferð einkamála, beri stefnanda að leggja grunn að málsókn sinni með stefnu svo stefndi geti áttað sig á málatilbúnaði stefnanda, haldið uppi vörnum í greinargerð og byggt varnir sínar á þeim grundvelli sem markaður sé í stefnu.

Ljóst sé að það skipti verulegu máli, hvað varnir stefnda áhræri, hvort byggt sé á því að stefndi beri sjálfstæða ábyrgð eða hvort um yfirtekna ábyrgð sé að ræða og sé stefnda gert mjög erfitt um vik að halda uppi vörnum með nægilegum hætti vegna þessarar vanreifunar. Að sama skapi sé erfitt að fella dóm á kröfur stefnenda af sömu sökum. Í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars geti stefnendur ekki bætt úr þessum efnisannmarka síðar undir rekstri málsins, þar sem stefndi hafi þá þegar lagt fram greinargerð sína. Af þessari ástæðu beri að vísa málinu frá dómi. 

Í öðru lagi sé á því byggt að ekki sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um að stefnendur hafi sannanlega orðið fyrir fjártjóni vegna háttsemi stefnda til að hafa megi uppi viðurkenningarkröfu í máli þessu. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hafi í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Framangreint megi á engan hátt ráða af málatilbúnaði stefnenda. Kröfur stefnenda séu óljósar og óskýrar og þannig úr garði gerðar að þau hafi ekki að svo stöddu lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um þær. Því verði ekki komist hjá því að vísa máli þessu frá dómi í heild sinni.

Í stefnu sé því haldið fram að enginn vafi leiki á því að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni sem sé skaðabótaskylt. Haldið sé fram að á fundi með stefnda hafi komið skýrt fram hjá starfsmönnum stefnda að háttsemi tiltekins starfsmanns stefnda hafi verið saknæm, ólögmæt og skaðabótaskyld. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda sem þvert á móti hafi hafnað áskorun um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda bréfleiðis þann 9. mars 2010.  Hvergi hafi komið fram gögn af hálfu stefnenda þar sem skaðabótaskylda stefnda sé viðurkennd enda væri málshöfðun þá væntanlega óþörf.

Mjög óskýrt sé í stefnu hvert hið meinta tjón stefnenda er. Öll gögn, rök og umfjöllun skorti til stuðnings þeirri kröfugerð sem stefnendur hafi uppi. Vísað sé almennt í ætlaða háttsemi tiltekins starfsmanns og fullyrt að hann hafi fjárfest í trássi við fyrir fram umsamda fjárfestingarstefnu. Þá hafi starfsmaðurinn fjárfest í verðbréfum sem bannað hafi verið að festa fjármuni stefnanda í án þess þó að tiltekið sé hvaða fjárfestingar sé átt við, á hvaða tímabili fyrrgreindar fjárfestingar hafi átt sér stað og með hvaða hætti þær hafi verið óheimilar og ólögmætar. Verði að telja málatilbúnað stefnenda verulega vanreifaðan að þessu leyti.

Stefndi mótmæli staðhæfingum um að tiltekinn starfsmaður hafi blekkt stefnendur ítrekað til að rita undir skjöl, náð sér í heimildir eftir á til að fjárfesta í óskráðum skuldabréfum og ítrekað sagt ósatt um fjárfestingar. Engin gögn hafi verið lögð fram sem styðji slíkar fullyrðingar eða það að stefndi eða starfsmenn hans hafi farið út fyrir fjárfestingarstefnu samkvæmt samningi. Líkt og fyrr sé greint frá hafi stefnendur aukið áhættustig fjárfestinga sinna ítrekað á tímabilinu frá 2001 til 2005 og hafi heimilað kaup á óskráðum skuldabréfum þrátt fyrir þá augljósu áhættu sem í því felist. Þvert á móti hafi stefnendur lýst því yfir með handrituðum texta í yfirlýsingu frá árinu 2001 vegna kaupa á óskráðum skuldabréfum að þau hefðu reynslu til nokkurra ára á kaupum á óskráðum skuldabréfum. Í yfirlýsingunni komi skýrt fram og sé feitletrað til ítrekunar að engar áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um útgefendur óskráðra verðbréfa. Viðskipti með óskráð verðbréf séu því mun áhættusamari en þegar um verðbréf sé að ræða sem skráð séu á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá staðfesti stefnendur að þau hafi kynnt sér eðli þeirra fjárfestingarkosta sem þau hefði valið sér (fjárfestingar í óskráðum skuldabréfum) og aflað sér sérfræðiráðgjafar þriðja aðila um eðli þeirra og áhættuna sem þeim fylgi. Þá hafi hinn tiltekni starfsmaður ekki verið dæmdur fyrir meint brot sín og ekki hafi verið sýnt fram á með hvaða hætti hin meintu brot starfsmannsins tengist hinu meinta tjóni stefnenda né að hinn tiltekni starfsmaður hafi haft með höndum fjárfestingar stefnenda sem leitt hafi til hins meinta tjóns, enda algerlega óljóst í stefnu á hvaða tímabili hið meinta tjón hafi orðið.

Þá sé því mótmælt að háttsemi stefnda hafi á einhvern hátt orðið til þess að fjármunir stefnenda hafi glatast með „ ...gjaldþroti óskráðra félaga“. Ekki hafi verið sýnt fram á að fjármunir stefnenda hafi glatast með fjárfestingum í óskráðum skuldabréfum og engin gögn hafi verið lögð fram um gjaldþrot þeirra félaga sem fjárfest var í. Stefnendur geri enga grein fyrir því tjóni sem þau telji sig hafa orðið fyrir vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda né í hverju slík háttsemi sé fólgin. Því sé óljóst í hverju hið meinta tjón stefnanda felist.

Auk þessa sé meintri vanrækslu stefnda við innheimtu skuldabréfanna og eftirlit auk trúnaðarbrota gagnvart stefnanda mótmælt með öllu. Enga umfjöllun sé að finna í stefnu um það í hverju hin meinta vanræksla við innheimtu fólst né hver hin meintu trúnaðarbrot voru. Þá sé því mótmælt af hálfu stefnda að viðurkennt hafi verið af stefnda „ ...að eftirlit bankans með því að starfsmenn bankans í eignastýringu fylgdu fyrirfram umsaminni fjárfestingarstefnu hafi brostið fullkomlega“, enda slíkar fullyrðingar engum gögnum studdar. Verði að telja málatilbúnað stefnenda verulega vanreifaðan að þessu leyti.

Krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, leysi stefnanda máls ekki undan þeirri skyldu að gera grein fyrir því að skilyrði til ákvörðunar skaðabótaskyldu séu uppfyllt og að sýna fram á tjón. Engin umfjöllun sé um þessi atriði í stefnu. Ekki sé heldur reifað ætlað fjártjón stefnenda, eða tilgreint nánar í hverju það hafi falist. Sé málatilbúnaður stefnenda verulega vanreifaður að þessu leyti. 

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi stefnda sé því mótmælt að stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns. Fjárfestingar þær sem stefnendur hafi óskað eftir hafi í eðli sínu verið áhættusamar. Jafnvel þótt öruggari fjárfestingarkostir hefðu fundist megi allt eins gera ráð fyrir að þeir hefðu einnig lækkað í þeim efnahagslegu hamförum sem gengið hafi yfir hagkerfi heimsins. Þannig sé nánast sama hvar borið sé niður; allt hafi lækkað, hlutabréf, fasteignir og aðrar fjárfestingar, hérlendis sem erlendis.

Komist dómurinn að því að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni og að slíkt tjón sé bótaskylt mótmæli stefndi því að það sé á ábyrgð stefnda. Krafan um orsakatengsl felist ekki aðeins í því að tiltekin háttsemi þurfi að hafa leitt til tjóns heldur sé einnig gerð sú krafa að orsakatengsl þurfi að vera milli háttsemi og alls þess tjóns sem tjónþoli verði fyrir.

Að mati stefnda hafi stefnendur ekki gert viðhlítandi grein fyrir bótagrundvelli sínum né heldur sýnt fram á orsakasamband milli hins ætlaða tjóns síns og ætlaðs saknæms og ólögmæts atferlis sem stefndi beri ábyrgð á. Allt eins megi búast við að stefnendur hefðu tapað öllum fjárfestingum sínum hefði starfsmaður Kaupþings banka hf. fjárfest fyrir hans hönd í hlutabréfum í stað óskráðra skuldabréfa. Sé við það mat litið til þess ófyrirséða hruns sem varð á fjármálamörkuðum og í íslensku efnahagslífi.

Frávísunarkrafa málsins sé reist á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður og óljós að það varði frávísun máls þessa frá dómi sbr. d-e lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála leysi stefnendur ekki undan þeirri skyldu að gera grein fyrir því að skilyrði skaðabótaskyldu sé uppfyllt og að þeim beri að sýna fram á tjón. Engri slíkri um­fjöllun sé fyrir að fara í stefnu eða ætlað tjón reifað. Með kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, án þess að gerð sé grein fyrir tjóni, sé í raun krafist lögfræðilegs álits en slíkt sé ekki heimilt samkvæmt 1. mgr. 25. gr. framangreindra laga.

Niðurstaða

Stefnendur lýsa því í stefnu að þau hafi verið í viðskiptum við Kaupþing hf. og síðar Kaupþing banka hf., nú Arion banka hf. frá árinu 2001. Snerust þessi viðskipti um fjárvörslu bankans á fjármunum stefnenda  og eignastýringu, sem felst í því að bankinn tekur við fjármunum viðskiptamanns til fjárfestingar í veðbréfum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptavinar.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu í stefnu laut eignastýringarsamningur stefnenda frá árinu 2003 fjárfestingarstefnu B. Síðar, eða árið 2005, völdu stefnendur fjárfestingarstefnu E sem telst vera áhættumesta fjárfestingarstefnan. Með viðauka við eignastýringarsamning sem gerður var 8. janúar. janúar 2005 veittu stefnendur bankanum umboð til að fjárfesta í óskráðum skuldabréfum fyrir sína hönd.

Stefnendur lýsa því einnig í stefnu að í lok nóvember 2009 hafi starfsmanni stefnda verið vikið frá störfum og hann kærður til lögreglu vegna gruns um fjárdrátt og/eða önnur auðgunarbrot. Hafi honum verið tilkynnt á fundi hjá stefnda að þessi tiltekni starfsmaður hefði annast stýringu á eignum stefnenda fyrir hönd bankans. Þá hafi þeim verið afhent yfirlit endurskoðunarfyrirtækis þar sem fram komi að eignir þeirra væru bundnar í verðlausum skuldabréfum.

Dómkrafa stefnenda byggist á því að umræddur starfsmaður hafi með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni bakað þeim tjón með því að fjárfesta í trássi við umsamda fjárfestingastefnu og fyrirmæli stefnenda og brotið þannig gegn samningi aðila og skyldum sínum. Þá er á því byggt af hálfu stefnenda að skort hafi á eftirlit bankans með fjárfestingum starfsmannsins, innheimta skuldabréfanna hafi verið vanrækt, auk þess sem framin hafi verið trúnaðarbrot.

Stefnendur byggja á því að enginn vafi leiki á því að þau hafi orðið fyrir tjóni sem sé skaðabótaskylt og sé enginn ágreiningur um það milli aðila. Þessu er hins vegar mótmælt af hálfu stefnda og mótmælir stefndi því að hann beri ábyrgð á meintu tjóni stefnenda.

Stefndi krefst frávísunar málsins og byggir þá kröfu sína á því að málatilbúnaður stefnenda sé vanreifaður og uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Þá er einnig á því byggt að stefnendur hafi ekki leitt nægar líkur að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni til þess að þau geti höfðað viðurkenningarmál á grundvelli 2. mgr. 25. gr. lag nr. 91/1991.

Dómkrafa stefnenda lýtur að því að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnenda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna rýrnunar sem varð á fjármunum stefnanda sem voru í fjárvörslu og eignastýringu hjá Kaupþingi banka hf. og síðar stefnda og rekja má til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og starfsmanns hans í formi óheimilla kaupa á óskráðum skuldabréfum og vanrækslu, bæði við innheimtu skuldabréfanna og eftirlit auk trúnaðarbrota gagnvart stefnanda.

Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 segir að hafi sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands þá geti hann leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Í greinargerð með ákvæðinu er vikið að því að til þess að höfða slíkt viðurkennigarmál sé það áskilið að stefnandi þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr um slíkt. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar Íslands verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.

Fram er komið að umrædd viðskipti fóru fram allt frá árinu 2001. Stefnendur gera enga grein fyrir því tjóni sem þau telja sig hafa orðið fyrir í sóknargögnum. Engin grein er gerð fyrir þeim fjárfestingum sem þau telja að hafi brotið í bága við samninga þeirra og stefnda. Þá er engin grein gerð fyrir því í hverju hin meintu brot hafi verið fólgin. Ekki er gerð grein fyrir því hvenær á umræddu tímabili þessi meintu brot voru framin en ljóst er að áhættutaka stefnenda í fjárfestingum var mismikil á þessu 8 ára tímabili. Þá reifa stefnendur ekki tengsl athafna eða athafnaleysis umrædds starfsmanns við meint tjón stefnenda eða útskýra hvernig vanræksla og eftirlitsleysi stefnda tengist meintu tjóni þeirra. Bótagrundvöllur er vanreifaður og óljós og hafa stefnendur ekki leitt líkur að því að þau hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni þannig að nægi til höfðunar viðurkenningarmáls á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu ber því, þegar af þeim sökum, að taka til greina kröfu stefnda um frávísun málsins.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnendum að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 130.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnendur, Baldur Friðfinnsson og Álfheiður Þorsteinsdóttir, greiði stefnda, Arion banka hf., 130.000 krónur í málskostnað.