Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2016

Viti ehf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)
gegn
LS Retail Holding ehf. (Viðar Lúðvíksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Sakarefni
  • Gerðardómur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Ágreiningur aðila snerist um sölu á dótturfélagi LSRH sem samþykkt var á hluthafafundi félagsins með atkvæðum ALMC hf. en gegn mótmælum V ehf. Sá síðarnefndi var eigandi 6,9% hlutafjár félagsins og taldi að dótturfélagið hafi verið selt á undirverði. Í máli þessu var krafist staðfestingar á kyrrsetningu á fjármunum á reikningum LSRH. LSRH krafðist frávísunar málsins og taldi að V ehf. hefði með hluthafasamkomulagi og kaupréttarsamningi samið um að ágreiningur sem þessi ætti ekki undir almenna dómstóla heldur gerðardóm. Með vísan til þeirra röksemda sem komu fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 247/2016 var talið að ágreiningur vegna tiltekinna krafna V ehf. ætti undir gerðardóm og var þeim því vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila og fleirum var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili fallið frá kröfum á hendur Brynjari Þór Hreinssyni, Birnu Hlín Káradóttur og Gísla Val Guðjónssyni. Þá tefldi sóknaraðili, auk þeirra málsástæðna sem afstaða var tekin til í hinum kærða úrskurði, fram í greinargerð til Hæstaréttar nýjum málsástæðum, sem ekki fá komist að hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

Mælt er fyrir um það í 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma að hafi mál verið höfðað fyrir almennum dómstólum um ágreiningsefni, sem á undir gerðardóm samkvæmt gildum gerðarsamningi, skuli ekki vísa því frá dómi nema krafa komi fram um það. Varnaraðili krafðist þess í greinargerð til héraðsdóms að máli þessu yrði vísað frá dómi. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur. 

Sóknaraðili, Viti ehf., greiði varnaraðila, LS Retail Holding ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2016.

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 8. febrúar sl. er höfðað af Vita ehf., Fornubúðum 12 í Hafnarfirði, með stefnu birtri 30. júní, 17. og 19. september sl., á hendur LS Retail Holding ehf., Borgartúni 25 í Reykjavík, Brynjari Þór Hreinssyni, Kjalarlandi 12 í Reykjavík, Birnu Hlín Káradóttur, Þinghólsbraut 49 í Kópavogi og Gísla Val Guðjónssyni, Lálandi 22 í Reykjavík.

 

                Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

                1. Að staðfest verði með dómi kyrrsetningargerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. K-18/2015, sem gerð var þann 7. september 2015, í innistæðu á bankareikningi stefnda, LS Retail Holding ehf. nr. 0515-38-711909, fyrir 5.023.200 evrum og 28.510.835 krónum, til tryggingar eftirfarandi kröfum stefnanda:

                1.1. kröfu stefnanda á hendur stefnda LS Retail Holding ehf., í héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015 um að stefnda, LS Retail Holding ehf., verði dæmt skylt að innleysa 6,9% hlut stefnanda í LS Retail Holding ehf. miðað við að innlausnarfjárhæðin nemi andvirði hlutar stefnanda þann 27. apríl 2015 áður en hluthafafundur tók ákvörðun um sölu LS Retail ehf. til Anchorage Capital,

                1.2. að frágengnum öðrum kröfum stefnanda í héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015, kröfu stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda, LS Retail Holding ehf. að fjárhæð 5.023.200 evrur, vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna ólögmætrar riftunar á 6,9% hlutaeign stefnanda í stefnda og afmáningar hlutarins af hlutaskrá stefnda. Þess er krafist að skaðabæturnar beri vexti skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2015 til 29. september 2015 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags,

                1.3. málskostnaðarkrafa 28.510.835 krónur.

                2. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði óskipt (in solidum) dæmt skylt að færa 6,9% hlutafjáreign stefnanda í LS Retail Holding ehf. inn á hlutaskrá stefnda, LS Retail Holding ehf., í samræmi við hlutaskrá félagsins dagsetta 6. desember 2013, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 1.000.000 kr. frá dómsuppkvaðningu þar til 6,9% hlutur hefur verið færður inn á hlutaskrána.

                3. Að frágengnum öðrum kröfum stefnanda í héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015 krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda, LS Retail Holding ehf., að fjárhæð 5.023.200 evrur vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna ólögmætrar riftunar á 6,9% hlutaeign stefnanda í stefnda og afmáningar hlutarins af hlutaskrá stefnda. Þess er krafist að skaðabæturnar beri vexti skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2015 til 14. september 2015 en dráttarvexti skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

                4. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.

                5. Loks krefst stefnandi þess að mál þetta verði sameinað héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015 sem stefnandi hefur höfðað, með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

                Stefndu krefjast frávísunar málsins frá dómi og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda og er í greinargerð þeirra einvörðungu fjallað um þær kröfur svo sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Málið var tekið til úrskurðar um þær kröfur að loknum munnlegum málflutningi þann 8. febrúar sl.

 

Málsatvik

Þann 6. desember 2013 keypti Aðalsteinn Valdimarsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, 6,9% hlut í stefnda LS Retail Holding ehf. en eigandi alls hlutafjár í félaginu á þeim tíma var Straumur Burðarás (nú ALMC hf.), sem eftir kaupin hefur verið eigandi allra annarra hlutabréfa í félaginu. Kaup Aðalsteins á hlut í félaginu byggðust á kaupréttarsamningi sem hann hafði gert við félagið en með viðauka við þann samning var honum heimilað að framselja hlut sinn í félaginu til stefnanda sem hann gerði sama dag og kaupin voru gerð. Ákvæði í kaupréttarsamningnum, sem var gerður 21. júní 2010, kváðu á um skuldbindingu kaupréttarhafa til að gerast aðilar að hluthafasamkomulagi og undirritaði fyrirsvarsmaður stefnanda það samkomulag 6. desember 2013. Með yfirlýsingu sem stefnandi undirritaði samhliða framsali hlutabréfanna til sín tókst hann á hendur réttindi og skyldur samkvæmt framangreindum samningum. Stefnandi er skráður hluthafi í félaginu samkvæmt hlutaskrá þann 6. desember 2013.

                Með bréfi lögmanns stefndu þann 26. ágúst sl., tveimur dögum fyrir boðaðan aðalfund LS Retail Holding, er lýst yfir riftun á kaupum Aðalsteins Valdimarssonar á 6,9% hlut í félaginu og þeim samningum sem þau kaup byggja á, eins og segir í bréfinu. Jafnframt segir í bréfinu að í þessu felist að hlutur stefnanda muni ganga til hins stefnda félags með færslu og breytingu á skráðu eignarhaldi í hlutaskrá félagsins. Gekk það eftir og hefur stefnandi nú verður færður af hlutaskrá félagsins. Jafnframt er því lýst yfir í bréfinu að kaupverð hlutabréfanna verði endurgreitt. Stefnandi hefur neitað að taka við þeirri greiðslu.

                Í framangreindu bréfi lögmanns stefndu er nánar lýst forsendum ákvörðunarinnar. Þar kemur fram að tilefni yfirlýsingarinnar hafi verið að stefndu telji stefnanda hafa brotið gegn ákvæðum kaupréttarsamningsins og hluthafasamkomulagsins, m.a. með málshöfðun á hendur stefndu og fleiri aðilum. Stefnandi mótmælti framangreindri yfirlýsingu samdægurs og í kjölfar hennar krafðist lögmaður hans kyrrsetningar á fjármunum LS Retail Holding ehf. sem Sýslumaðurinn í Reykjavík varð við þann 7. september sl. og krafist er staðfestingar á í þessu máli. Með kyrrsetningargerðinni, sem er mál K-17/2015, voru kyrrsettar 5.120.520 evrur og 28.510.835 krónur inn á bankareikningi hins stefnda félags nr. 0515-38-711909.

                Aðdragandi þeirra atvika sem lýst er að framan er ágreiningur forsvarsmanns stefnanda við ALMC hf., eiganda 93,1% hlutar í hinu stefnda félagi um sölu á dótturfélagi þess, LS Retail ehf., en á hluthafafundi LS Retail Holding þann 27. apríl sl. var samþykkt að selja dótturfélagið með atkvæðum ALMC hf. en gegn eindregnum mótmælum stefnanda. Af því tilefni höfðaði stefnandi mál gegn ALMC hf., LS Retail Holding, stjórnarmönnum beggja félaga og tveimur félögum til viðbótar sem byggt er á að hafi verið kaupandi og heimilaður framsalshafi samkvæmt umdeildum kaupsamningi.

 

                Málsástæður og lagarök aðila

                Stefndu krefjast frávísunar málsins frá dómi. Byggja þau frávísunarkröfuna á því að ágreiningur málsins eigi undir gerðardóm en ekki almenna dómstóla. Stefnandi sé bundinn, bæði af ákvæðum kaupréttarsamningsins og hluthafasamkomulagsins, sbr. yfirlýsingar hans þar að lútandi. Ákvæði um að gerðardómur leysi úr ágreiningi varðandi efni samninganna er að finna í 11. gr. kaupréttarsamningsins og 9. gr. hluthafasamkomulagsins. Stefndu byggja á því að dómkröfur stefnanda lúti að atriðum og ágreiningsefnum sem þegin hafi verið undan lögsögu almennra dómstóla með framangreindum samningsákvæðum. Engu breyti í þessu sambandi þó að málshöfðun stefnanda sé öðrum þræði til staðfestingar á kyrrsetningu Sýslumannsins í Reykjavík. Málið heyrir allt að einu undir lögsögu gerðardóms en ekki almennra dómstóla. Aðilar að kyrrsetningargerðum og kyrrsetningarmálum njóti forræðis yfir því hvort höfða þurfi mál til staðfestingar kyrrsetningu samkvæmt ákvæðum laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þeim sé því einnig, eðli máls samkvæmt, heimilt að gera það sem minna er og fela gerðardómi ákvörðunarvald um staðfestingu kyrrsetningar, svo sem aðilar hafi samið um samkvæmt framangreindum samningum. Gagnstæð niðurstaða biði upp á hættu á misnotkun á kyrrsetningarúrræðinu. Þá geti stefnandi heldur ekki vikið sér undan framangreindum gerðardómsákvæðum með því að auka við hóp meðstefndu. Stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að stefna þeim einstaklingum sem stefnt er í málinu enda augljóst að dómkröfur stefnanda snerta þá ekki með nokkrum hætti.

                Hvað sem öðru líði beri að vísa frá dómi þeim dómkröfum sem ekki lúta að staðfestingu fyrirliggjandi kyrrsetningargerðar með vísan til framangreindra gerðardómsákvæða.

                Stefndu byggja frávísunarkröfu sína einnig á því að kröfugerðin sé í ósamræmi við ákvæði réttarfarslaga; kröfurnar séu óskýrar, óljósar og auk þess innbyrðis ósamrýmanlegar og þar af leiðandi ekki dómtækar. Dómkrafa stefnanda í lið 1.1 hafi ekki að geyma neina fjárkröfu eða fjárhæð. Krafa þessi sé ódómtæk enda verði hún ekki tekin upp í dómsorð auk þess sem hún geti ekki leitt til málaloka um sakarefnið, sbr. ákvæði 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Dómkrafa stefnanda í lið 1.2 og 3. lið sé óljós og óskiljanleg og geti auk þess aldrei leitt til málaloka um sakarefnið, sbr. einnig 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 og ekki sé hægt að taka hana upp í dómsorði vegna þess að orðin „að frágengnum öðrum kröfum stefnanda í héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015…“ sé óskiljanleg og tilvísun til krafna í öðru máli sé sömuleiðis óskiljanleg. Kröfur málsins eigi að geta staðið sjálfstæðar og megi ekki fela í sér óljósa tilvísun til krafna eða niðurstöðu í öðru dómsmáli. sbr. m.a. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 hér að lútandi. Þá sé efnislega krafan í 3. lið ósamrýmanleg öðrum kröfum stefnanda og þeim kröfum sem hann hafði uppi í kyrrsetningarbeiðni sinni. Kyrrsetningarbeiðni sé rökstudd með vísan til skaðabótakröfunnar sem er varakrafan í máli E-2785/2015. Ósamræmi þetta í málatilbúnaði stefnanda sé óútskýrt og verði ekki lagfært á síðari stigum. Óútskýrt sé hvernig hafa megi uppi þessa kröfu samhliða öðrum kröfum og hvernig hún samrýmist kröfugerð stefnanda að öðru leyti í kyrrsetningarbeiðninni.

Þá hafi stefnandi ekki fært fram neinar skýringar á því hvers vegna krafan um færslu í hlutaskrá sé sett fram sem „in solidum“ krafa eða hvaða heimildir séu fyrir slíkri kröfugerð. Þá sé óljóst hvaða merkingu orðin „í samræmi við hlutaskrá félagsins dagsetta 6. desember 2013“ hafi í kröfugerðinni, en slík skírskotun til annarra atvika eða staðreynda geri dómkröfuna ódómtæka þar sem krafan verði ekki lögð til grundvallar óbreytt í dómsorði, auk þess sem skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild til varnar í málinu séu ekki uppfyllt.

                Enn fremur byggja stefndu á því að málatilbúnaður stefnanda sé að öðru leyti vanreifaður, m.a. hvað varðar samninga á milli aðila og aðild til varnar, og sönnunargögnum áfátt. Skilyrði kröfusamlags séu ekki fyrir hendi, auk þess sem í stefnu sé ekki getið um fyrirsvarsmenn stefnanda svo sem skylt sé, sbr. b-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

                Stefnandi mótmælir öllum kröfum stefndu og krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið.

                Stefnandi byggir á því að mál þetta varði hvorki kaupréttarsamning né hluthafasamkomulag og því eigi ákvæði þeirra samninga um gerðardóm ekki við.

                Þá verði kyrrsetningarmál ekki rekið fyrir gerðardómi og lögbundin skylda sé til að sameina staðfestingarmál máli um kröfur sem kyrrsetningunni er ætlað að tryggja, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990. Stefnandi hafi þegar höfðað mál á hendur stefndu og því sé kröfugerð í þessu máli hagað með hliðsjón af því. Í máli þessu séu hafðar uppi tvær nýjar kröfur, að kröfum í hinum fyrri málum frágengnum. Framsetning sé skýr og orðalag í samræmi við málvenju.

                Stefnandi mótmælir því að skilyrði kröfusamlags og samaðildar til varnar séu ekki fyrir hendi og kveður kröfugerð sína í fullu samræmi við 80. gr. laga nr. 91/1991.

 

      Niðurstaða málsins

                Í máli þessu er krafist staðfestingar á kyrrsetningu á 5.023.200 evrum og 28.510.835 krónum á reikningum stefnda sem fram fór hjá Sýslumanninum í Reykjavík þann 7. september sl. í máli K-17/2015 (ranglega nefnt K-18/2015 í stefnu) og segir í stefnu að hún sé gerð til tryggingar, annars vegar á kröfu um innlausnarskyldu stefnda LS Retail Holding ehf. á 6,9% hlut í stefnanda í félaginu og hins vegar til tryggingar kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 5.023.200 evrur á hendur félaginu. Lýtur 1. kröfuliðurinn að kröfu um staðfestingu kyrrsetningarinnar vegna þessara krafna.

                Stefnandi hefur þegar höfðað mál um innlausnarskyldu stefnda, en sú krafa er þrautavarakrafa í máli stefnanda gegn stefndu og fleiri aðilum með málsnúmerið E-2785/2015 og gerir hann því kröfu um að mál þetta verði sameinað því máli, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990. Með úrskurði réttarins, sem kveðinn var upp fyrr í dag, var máli E-2785/2015 vísað frá héraðsdómi, þar á meðal framangreindri kröfu um innlausnarskyldu stefnda LS Retail Holding ehf. Svo sem nánar greinir í forsendum úrskurðarins er sú niðurstaða byggð á því að ágreiningur málsins, að því er varðar LS Retail Holding ehf. og ALMC hf., hafi með samningum við framangreind félög, verið færður undan lögsögu almennra dómstóla til gerðardóms. Leiðir af sjálfu sér að kröfu um sameinginu þessara tveggja mála er hafnað.

                Í þessu máli eru hafðar uppi tvær kröfur til viðbótar kröfum í fyrrnefndu héraðsdómsmáli, þ.e. krafa í lið 2 um skyldu stefndu til að færa stefnanda inn á hlutaskrá hins stefnda félags og hins vegar bótakrafan á hendur stefnda LS Retail Holding ehf. í lið 3. Verður fyrst vikið að þeirri málsástæðu stefndu að vísa beri þessum kröfum frá dómi á grundvelli samningsbundinnar skyldu til að leita úrslausar gerðardóms um þær.

                Í atvikalýsingu hefur verið rakinn aðdragandi þess að stefnandi var færður af hlutaskrá félagsins. Svo sem þar kemur fram er sú ákvörðun stefnda LS Retail Holding að lýsa yfir riftun kaupa á hlutabréfum Aðalsteins Valdimarssonar, byggð á því að stefndu telja stefnanda og forsvarsmann hans hafa brotið gegn ákvæðum kaupréttarsamnings og hlutahafasamkomulagsins. Kjarni ágreinings aðila er, svo sem lýst er í úrskurði dómsins í máli E-2785/2015, sú ákvörðun hluthafafundar stefnda, LS Retail Holding ehf., að selja dótturfélag sitt LS Retail ehf. á verði sem stefnandi telur vera langt undir markaðsverði. Að mati stefnanda sé með því gengið gegn hagsmunum stefnanda sem hluthafa og vísar hann í því efni til ýmissa ákvæða laga nr. 138/1994. Hefur hann af þeim sökum gripið til margvíslegra ráðstafana meðal annars höfðað mál til ógildingar framangreindrar ákvörðunar. Málshöfðunina telja stefndu fela eina og sér í sér brot á umræddum kaupréttarsamningi og vísa í því sambandi m.a. til greinar 3.1 í viðauka við hann. Í nefndri grein viðaukans er m.a. fjallað um skyldur forsvarsmanns stefnanda til að aðstoða við sölu dótturfélagsins og um heimild til að ógilda kaup hans á grundvelli kaupréttarsamningsins verði hann talinn hafa brotið gegn starfsskyldum sínum.

                Í lokamálslið 11. gr. kaupréttarsamningsins er að finna ákvæði um að stefnandi afsali sér með óafturkræfum hætti rétt til að leita til almennra dómstóla og hlíta lögsögu gerðardóms varðandi deilumál sem afmörkuð eru í greininni. Um það hvaða deilumál skuli heyra undir gerðardóminn segir að það séu deilur „vegna samnings þessa, túlkunar hans, einstakra greina eða annarra mála er varða samskipti aðila samnings þessa varðandi eign þeirra á hlutabréfum eða kauprétti…“ Kröfurnar í máli þessi lúta annars vegar að skyldu stefndu til að færa stefnanda inn á hlutaskrá og þar með afhenda honum á ný hlut sinn í félaginu. Þá er bótakrafa stefnanda byggð á því að yfirlýsing stefnda LS Retail Holding, um riftun á hlutabréfakaupum hans, hafi valdið honum tjóni. Er að mati dómsins vafalaust að framangreindar kröfur snúast um ágreining um eignarhald á hlutabréfum og samskipti aðila sem tengjast eignarhaldinu, sem samkvæmt tilvitnuðum orðum í 11. gr. kaupréttarsamningsins heyrir undir úrlausn gerðardóms. Með vísan til þessarar niðurstöðu og að öðru leyti með þeim rökstuðningi sem rakinn er í forsendum úrskurðar í máli E-2785/2015 að því er varðar skuldbindingargildi gerðardómssamningsins, verður báðum kröfum á hendur stefnda LS Retail Holding ehf. vísað frá dómi.

                Krafan um að hlutabréfaeign stefnanda verði færð á ný inn á hlutaskrá félagsins er beint að stefndu óskipt („in soldium“) en auk félagsins eru stefndu þrír einstaklingar sem skipa stjórn þess. Fallist er á það með stefndu að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að beina kröfunni að einstökum stjórnarmönnum. Skyldan til að verða við kröfunni, ef á hana væri fallist, hvílir á félaginu sjálfu en ekki tilteknum einstaklingum, sem eftir atvikum kynnu að hafa vikið úr stjórn félagsins þegar krafan yrði hugsanlega tekin til greina. Verður kröfunni því einnig vísað frá á hendur hinum stefndu stjórnarmönnum.

                Staðan sem er nú uppi er því sú að þær kröfur sem kyrrsetningunni er ætlað að tryggja, hefur verið vísað frá dómi þar sem niðurstaða dómsins er sú að úrlausn ágreinings um þær heyrir undir gerðardóm. Kemur þá til úrlausnar hvort af því leiði að einnig beri vísa frá kröfu um staðfestingu kyrrsetningarinnar.

                Í VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er fjallað um mál til staðfestingar kyrrsetningu. Svo sem segir 1. mgr. 36. gr. skal, innan tiltekinna tímamarka, höfða mál með útgáfu réttarstefnu til héraðsdóms til staðfestingar kyrrsetningar nema gerðarþoli hafi lýst yfir við gerðina að hann uni við hana án málshöfðunar. Hafi mál ekki áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda skal í einu lagi höfða mál um hana og til staðfestingar gerðinni, sbr. 2. mgr. 36. gr., en hafi mál áður verið höfðað skal staðfestingarmálið sameinað því máli, eftir atvikum með endurupptöku þess ef með þarf, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Af tilvitnuðum ákvæðum má sjá að kröfugerð stefnanda, að fenginni úrlausn dómsins um frávísun efnislegra krafna hans í þessu máli og máli E-2785/2015, er ekki í samræmi við þessar reglur, þar sem einvörðungu stendur eftir krafa um staðfestingu á kyrrsetningargerðinni. Sá annarmarki veldur þó ekki einn og sér frávísun frá dómi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 541/2005 frá 1. júní 2006.

                Stefndu byggja kröfu um frávísun þessa kröfuliðar á því að aðilar máls hafi forræði yfir því hvort höfða þurfi mál til staðfestingar á kyrrsetningu samkvæmt lögum nr. 31/1990 og þeim sé því heimilt að fela gerðardómi ákvörðunarvald um það atriði og það hafi þeir gert með áðurnefndum gerðardómssamningi. Á þetta er ekki fallist. Í lögum nr. 31/1990 er að finna lögbundna leið til að viðhalda kyrrsetningargerð. Öfugt við það sem almennt gildir í einkamálaréttarfari hafa aðilar máls ekki fullt forræði á því hvenær mál er höfðað og með hvaða hætti það er gert. Af ákvæðum 39. gr. má ráða að afleiðingar þess að höfða ekki staðfestingarmál fyrir héraðsdómi eru þær að kyrrsetningagerð fellur úr gildi. Málsmeðferð fyrir gerðardómi um gildi kyrrsetningar eða staðfestingu gerðardóms á kyrrsetningu verður ekki jafnað til staðfestingar dómstóls um gildi gerðarinnar. Verður krafa um staðfestingu á kyrrsetningu því ekki hafnað á framangreindum grundvelli.

                Þá byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því að ekki sé samræmi milli þess hvernig skaðabótakrafan, sem kyrrsetningunni er ætlað að tryggja, er lýst annars, vegar í stefnu og hins vegar í kyrrsetningarbeiðni. Hvað sem líður meintu ósamræmi þá heyrir það til efnislegrar úrlausnar málsins að taka afstöðu til þess hvort skilyrði kyrrsetningar séu fyrir hendi en varðar ekki frávísun málsins frá dómi. Sömuleiðis er það efnislegt úrlausnaratriði um gildi kyrrsetningarinnar að taka afstöðu til þess hvort stefnanda sé fært að krefjast kyrrsetningar til tryggingar innlausnarkröfu miðað við verðmæti félagsins á tilteknum degi en án tilgreindrar fjárhæðar. Báðar þessar kröfur eru skýrar. Í stefnu er gerð grein fyrir því að stefnandi telur kyrrsetta fjármuni í evrum nema innlausnarverðinu miðað við verðmæti félagsins á tilgreindum tíma og skaðabótakrafan, sem stefnandi hugðist hafa uppi í sameinuðu máli gegn stefndu o.fl., að öðrum kröfum þess máls frágengnum, er sömu fjárhæðar og fjárhæðin studd sömu gögnum. Stefnandi hefur forræði á sönnunarfærslu varðandi ætlað tjón sitt og verður máli ekki víað frá dómi þótt sönnunargildi framlagðra gagna sé dregið í efa. Af þessum sökum er ekki tilefni til að vísa frá dómi þeim kröfuliðum í stefndu sem lúta að staðfestingu kyrrsetningar, jafnvel þótt niðurstaða dómsins sé sú að ágreining um úrlausn þeirra réttinda, sem kyrrsetningarkrafan beinist að, verði að leysa úr fyrir gerðardómi. Eftir atvikum kann endanleg úrlausn þessa máls að bíða niðurstöðu þess úrlausnaraðila. Með sömu rökum verður kröfu um staðfestingu kyrrsetningar vegna málskostnaðar heldur ekki vísað frá dómi.

                Samkvæmt framangreindu er niðurstaða málsins sú að vísa beri frá dómi kröfuliðum 2, 3 og 5 en frávísunarkröfu varðandi aðra kröfuliði er hafnað. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan úrskurð.

 

Úrskurðarorð:

                Kröfuliðum 2, 3 og 5 er vísað frá dómi. Frávísun annarra krafna er hafnað.