Hæstiréttur íslands
Mál nr. 102/2013
Lykilorð
- Hylming
|
|
Fimmtudaginn 10. október 2013. |
|
Nr. 102/2013.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Arunas Brazaitis (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Hylming.
A var ákærður fyrir fjögur hylmingarbrot og eina tilraun til sams konar brots, með því að hafa keypt eða reynt að kaupa díselolíu sem tekin hafði verið ófrjálsri hendi af nafngreindum manni. Talið var að þegar litið væri til framburðar A fyrir dómi, þess endurgjalds sem hann greiddi fyrir eldsneytið og aðstæðna við kaupin að öðru leyti yrði að telja að honum hafi hlotið að vera ljóst að eldsneytisins hafi verið aflað með auðgunarbroti, en látið sér það í léttu rúmi liggja. Var A því sakfelldur fyrir þrjú hylmingarbrot. Hins vegar var A sýknaður af einu hylmingarbroti auk tilraunar til sams konar brots. Var refsing hans ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu samkvæmt ákæruköflum I og II, en að ákærði verði sýknaður af ákærukafla III. Þá er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði felld niður eða milduð.
I
Í I. kafla ákæru eru ákærða gefin að sök þrjú hylmingarbrot framin á árinu 2011, með því að hafa keypt samtals 600 lítra af díselolíu á 100 krónur lítrann af A, sem sá síðarnefndi greiddi fyrir með viðskiptakorti, áður en ákærði og annar tilgreindur maður dældu olíunni á brúsa. Samkvæmt ákærunni gaf A ákærða þá skýringu á sölunni að hann ætti fyrirtæki sem væri að verða gjaldþrota og vildi reyna að ná sem mestu út úr fyrirtækinu áður en til þess kæmi.
Við meðferð málsins játaði ákærði málsatvikum rétt lýst en kvaðst þó ekki hafa vitað að eldsneytið hefði verið tekið ófrjálsri hendi. Fyrir dómi var ákærði spurður um hvort hann hefði aldrei grunað að umrætt viðskiptakort væri stolið og kvað hann sér og félaga hans, sem einnig keypti eldsneyti af A, hafa fundist ,,svolítið skrýtið að það væru svona lág verð en við hugsuðum ekki mikið í þetta.“ Jafnframt kvaðst ákærði hafa rætt við sama félaga um það hvers vegna A seldi eldsneytið á svo lágu verði. A hafi forðast að gefa skýr svör um þetta. Ákærði kvaðst ekki hafa heyrt þá skýringu A á lágu verði eldsneytisins að fyrirtæki hans væri að verða gjaldþrota.
Við aðalmeðferð máls þessa kvaðst fyrrgreindur A hafa gefið ákærða þá skýringu á lágu verði eldsneytisins að fyrirtæki hans væri á leið í gjaldþrot og hann ætlaði að ná sem mestu út úr því áður en svo yrði. Hann kvað ástæðu þess að hann hafi valið bensínstöð Orkunnar við Kænuna í Hafnarfirði til sölunnar vera þá að hún hafi verið nokkuð úr alfaraleið.
A var með dómi héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2012 sakfelldur fyrir þjófnað, en hann hafði stolið umræddu viðskiptakorti sem var í eigu tilgreinds félags og tekið út samtals 22.648 lítra af díselolíu með því. Á meðal úttekta hans voru þær sem mál þetta tekur til.
Þegar litið er til framburðar ákærða fyrir dómi sem áður er rakinn, endurgjalds sem hann greiddi fyrir eldsneytið og aðstæðna við kaupin að öðru leyti, er fallist á það mat héraðsdóms að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að eldsneytisins hafði verið aflað með auðgunarbroti, en látið sér það í léttu rúmi liggja. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það fær þessari niðurstöðu ekki breytt að ekki var getið í verknaðarlýsingu ákæru að eldsneytisins hafði verið aflað með þjófnaðarbroti, en þess í stað tilgreind sú skýring A á lágu verði eldsneytisins að fyrirtæki hans væri að verða gjaldþrota. Nægir til sönnunar á ásetningi ákærða að hann hafi talið verðmætin stafa frá auðgunarbroti samkvæmt tilgreindum ákvæðum XXVI. kafla almennra hegningarlaga.
II
Í II. kafla ákæru er ákærða gefin að sök tilraun til hylmingar, með því að hafa ætlað að kaupa díselolíu af fyrrgreindum A á 100 krónur lítrann, en ekkert hafi orðið af kaupunum þar sem búið var að fullnýta heimild á viðskiptakorti því sem A notaði.
Hylmingarákvæði 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga felur í sér eftirfarandi hlutdeild í auðgunarbroti, sem þegar er fullframið. Felst hylmingin í að halda ólöglega fyrir eiganda verðmæti sem aflað hefur verið með brotum er varða við ákvæði 244., 245. eða 247.-252. gr. almennra hegningarlaga, taka þátt í ávinningi af slíku broti eða stuðla að því að halda við ólöglegum afleiðingum brotsins. Hið ólögmæta ástand sem lýst er í ákvæðinu leiðir af brotum sem þegar eru fullframin, sbr. og 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem A tókst ekki sú fyrirætlun sín að taka eldsneyti ófrjálsri hendi umrætt sinn gat samkvæmt framangreindu ekki komið til eftirfarandi hlutdeildar ákærða í því broti. Ákærði verður því sýknaður af þeirri tilraun til hylmingar sem honum er gefin að sök í II. kafla ákæru.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í III. kafla ákæru. Fyrir Hæstarétti krefst ákæruvaldið þess að hann verði sýknaður af þessum sakargiftum, þar sem sakfelling héraðsdóms hafi ekki verið í samræmi við framburð ákærða fyrir héraðsdómi og hjá lögreglu. Þá hafi framburður A ekki verið skýr um þetta sakarefni. Samkvæmt þessu verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem greinir í þessum kafla ákæru.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Verður fallist á kröfu ákæruvalds um staðfestingu á héraðsdómi um ákvörðun refsingar ákærða, þar með talið skilorðsbindingu hennar. Í ljósi sýknu ákærða af háttsemi þeirri er greinir í II. og III. kafla ákæru verður honum eftir kröfu ákæruvaldsins gert að greiða 2/3 hluta sakarkostnaðar eins og hann var ákveðinn í héraði og 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talda 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, Arunas Brazaitis skal vera óraskað.
Ákærði greiði 2/3 hluta heildarsakarkostnaðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, sem nemur samtals 463.094 krónum, þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur, en 1/3 hluti heildarsakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. nóvember 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 18. september 2012, á hendur Arunas Brazaitis, kt. [...], Sogavegi 136, Reykjavík, fyrir neðangreind hylmingarbrot:
I.
Fyrir hylmingu, með því að hafa, í tvö skipti í mars og eitt skipti í apríl 2011, á sjálfsafgreiðslustöð Orkunnar við Kænuna í Hafnarfirði keypt samtals 600 lítra af dísilolíu á 100 krónur lítrann af A, sem A greiddi fyrir með greiðslukorti áður en ákærði og B dældu olíunni á brúsa, en A gaf ákærða þá skýringu fyrir sölunni að hann ætti fyrirtæki sem væri að verða gjaldþrota og vildi reyna að ná sem mestu út úr fyrirtækinu áður en það yrði gjaldþrota.
II.
Fyrir tilraun til hylmingar, með því að hafa í apríl 2011, á sjálfsafgreiðslustöð Orkunnar við Kænuna í Hafnarfirði, ætlað að kaupa dísilolíu á 100 krónur lítrann af A en A gaf ákærða þá skýringu fyrir sölunni að hann ætti fyrirtæki sem væri að verða gjaldþrota og vildi reyna að ná sem mestu út úr fyrirtækinu áður en það yrði gjaldþrota, en ekkert varð af kaupunum þar sem búið var að fullnýta úttektarheimildina á kortinu sem A ætlaði að nota.
III.
Fyrir hylmingu, með því að hafa þann 4. apríl 2011, á sjálfsafgreiðslustöð Orkunnar við Kænuna í Hafnarfirði, selt B samtals 50 lítra af dísilolíu á 130 krónur lítrann, sem A greiddi fyrir með greiðslukorti áður en ákærði og B dældu olíunni á brúsa, en A gaf ákærða þá skýringu fyrir sölunni að hann ætti fyrirtæki sem væri að verða gjaldþrota og vildi reyna að ná sem mestu út úr fyrirtækinu áður en það yrði gjaldþrota.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og játaði þá háttsemi sem lýst er í ákæru en neitaði að hafa vitað að um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða. Hann hafi verið í þeirri trú að A hafi haft heimild til að taka út þá olíu sem ákærði síðan keypti af honum. Krafðist ákærði sýknu en til vara vægustu refsingar og að málskostnaður greiddist úr ríkissjóði.
Fór aðalmeðferð fram þann 12. nóvember sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.
Málavextir.
Samkvæmt gögnum málsins er upphaf máls þessa að C og D tilkynna lögreglu að tvö greiðslukort í eigu fyrirtækis sem þeir reki, [...] ehf., hafi verið notuð til að svíkja út eldsneyti frá 29. maí 2009 til 4. apríl 2011 fyrir alls 4.600.000 krónur. Þann 21. mars 2011 hafi starfsmaður [...] uppgötvað að ekki var unnt að nota viðskiptakort vegna úttektar á eldsneyti en úttektarmörk á það kort var 800.000 krónur. Við eftirgrennslan kom í ljós að úttektir gætu tengst A og var því opnað aftur fyrir úttektarheimild á kortinu jafnframt því sem eftirlitskerfi var sett upp hjá Skeljungi auk þess sem eftirlitsmyndavélar voru settar upp hjá Orkunni við Kænuna í Hafnarfirði og á Skemmuvegi í Kópavogi en þar höfðu engar eftirlitsmyndavélar verið. Urðu fulltrúi Skeljungs og [...] vitni að notkun kortsins auk þess sem öll atvik málsins voru tekin upp á upptökubúnað og ökutækinu sem notað var við fjársvik var veitt eftirför að húsnæði þar sem olía var borin inn. Að verki voru bílstjóri og farþegi bifreiðar sem merkt var [...] og síðan fjórir aðilar sem tóku á móti eldsneytinu en yfirgáfu síðan staðinn á bifreið í eigu B. Húsleit var gerð á heimili A þar sem hann framvísaði greiðslukortinu og kvaðst hafa stolið því úr bifreið [...]. Þá fór fram húsleit að [...] í Hafnarfirði en í vinnubili við hliðina, á verkstæði B, fundust þrír brúsar af dísilolíu. Kvaðst B hafa keypt olíuna af samlöndum sínum við bensínstöð Orkunnar við Kænuna í Hafnarfirði.
Samkvæmt lögregluskýrslu sem tekin var af A kvaðst hann hafa í upphafi hringt í félaga sinn E og boðið honum olíu á góðu verði. Í fyrsta skiptið hafi hann fyllt eldsneytistankinn á jeppa E og hafi E greitt honum 5000 krónur með peningum. Það hafi svo komið upp síðar að E hafi spurt hann hvort félagar hans, einhverjir [...], mættu koma líka og fá eldsneyti hjá honum, sem A hafi samþykkt. Í byrjun hafi það verið í gegnum E en fljótlega hafi það undið upp á sig og „[...]“ farið að hringja í hann beint og biðja um meiri olíu. Fyrstu skiptin hafi félagarnir verið á fólksbíl með brúsa í skottinu en síðar hafi þeir farið að mæta á sendibíl til að fylla á fleiri brúsa. Þetta hafi alltaf verið á svipuðum tíma, um kvöldmatarleytið, á Kænunni í Hafnarfirði. Þeir hafi aldrei vitað að kortið væri stolið en undir lokin hafi þeir spurt hvernig hann gæti farið að þessu og A þá svarað að greiðslukortið væri á gamalli kennitölu á fyrirtæki sem A ætti og væri að fara í gjaldþrot. Hann vildi því reyna að ná sem mestu út á kennitöluna.
Fyrir lögreglu kvaðst ákærði hafa verið undrandi á því að A hafi selt honum olíu á svo góðu verði en hann hafi aldrei grunað að þetta væri illa fengið. Hann hafi aldrei spurt A og talið að það væri bara hans vandamál. Ákærða hafi aldrei grunað neitt misjafnt. Kvað ákærði alla geta lent í því að einhver bjóði upp á ódýrt eldsneyti. Ákærði hafi bara borgað fyrir eldsneytið og farið síðan. Hann hafi bara nýtt sér tækifærið og keypt eldsneyti af A. Ákærði kvaðst hafa verið í vinnu hjá [...] á umræddum tíma sem [...]. Hann hafi getað fengið vinnubíl lánaðan utan vinnutíma ef hann bæði sérstaklega um hann. Kvaðst ákærði hafa keypt eldsneyti í um þrjú skipti, samtals tvö hundruð lítra, og greitt A 100 krónur fyrir lítrann. Ákærði og B hafi farið saman á bensínstöðina, hitt A þar, A hafi greitt fyrir eldsneytið og þeir dælt í brúsa fyrir alla heimildina og farið síðan hvor í sína áttina. Það hafi yfirleitt bara verið heimild fyrir fjögur hundruð lítrum í hvert sinn. Þeir hafi farið tvisvar í mars og einu sinni í apríl 2011. Í þriðja skiptið hafi ekki verið heimild á kortinu en heimild hafi verið veitt í apríl og þeir þá tekið olíu.
Aðspurður hjá lögreglu hvort grunur hafi vaknað hjá ákærða um að eldsneytið hafi verið illa fengið, svaraði ákærði því þannig að það hafi vaknað einhver grunur hjá honum en hvað hafi hann átt að gera? Ákærði og B hafi grunað að A væri með falsað kort eða eitthvað en ekki pælt frekar í því. Ákærði kvaðst hafa farið með eldsneytið í bílskúr rétt hjá heimili sínu og síðan helt með könnu yfir í bifreið sína þegar hann vantaði olíu. Þá kvaðst ákærði einnig hafa farið með eldsneyti á heimili B þar sem þeir hafi selt vinum B lítrann á 130 krónur.
Í lögregluskýrslu ákærða, þann 8. apríl 2011, upplýsir hann að hann og B hafi keypt eldsneyti af A, fjögur hundruð lítra í hvert sinn, samtals 1.200 lítra og greitt samtals 120.000 krónur fyrir það.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið á bensínstöð og tekið eldsneyti og A hafi greitt fyrir það. B hafi þekkt A og A hafi hringt í hann í upphafi. Kvaðst hann hafa greitt 55.000 krónur samtals fyrir eldsneytið. Kvað hann A hafa sagt þeim að hann fengi mikinn afslátt og hann ætti fyrirtæki þar sem olíufyrirtækið gæfi A mikinn afslátt. Ákærði kvaðst aldrei hafa grunað að A væri með stolið greiðslukort. Þeim hafi þó fundist skrýtið hvað verðið væri lágt en þeir hafi ekki velt því meira fyrir sér. Spurður út í frásögn hans hjá lögreglu um að þeir hafi bara nýtt sér tækifærið en sjái að það hafi verið mistök, kvaðst hann hafa gert sér grein fyrir því að hann væri kominn í eitthvað ólöglegt þegar lögreglan hafði fyrst samband við hann. Spurður út í hvort hann hafi ekki grunað að eldsneytið væri illa fengið, hafi hann svarað lögreglu þannig að þá hafi grunað að ekki væri allt með felldu og rætt það við B, hvers vegna A seldi þeim ódýrt eldsneyti. Þeir hafi spurt A af því að þeim þótti skrýtið að fá svo ódýrt eldsneyti en A hafi ætíð svarað þeim að hann ætti fyrirtæki sem hefði góðan afslátt og ætíð gefið þeim sama svarið.
Spurður út í það hvort hann hafi selt B eldsneyti neitaði hann því, hann hafi bara átt að koma eldsneyti til hans. Ákærði kvaðst aldrei hafa átt fyrirtæki á Íslandi og ekkert vita um það hvort hægt væri að fá mikinn afslátt á eldsneyti hér á Íslandi. Ákærði kvaðst vera raffræðingur að mennt og hafa starfað við það í sínu heimalandi. Á Íslandi hafi hann unnið við uppsetningu á gluggatjöldum. Ákærði kvaðst hafa búið á Íslandi síðastliðin tíu ár. Hann hafi átt og rekið bifreið allan þann tíma. Ákærði hafi kynnst A í gegnum þessi eldsneytiskaup. Hann hafi ekki einu sinni heilsað A þegar þeir hittust á bensínstöðinni í fyrsta sinn, hann hafi bara komið til að ná í eldsneytið. B hafi hringt í ákærða og sagt honum frá ódýru eldsneyti. Ákærði kvaðst hafa þekkt B í eitt og hálft til tvö ár, þeir hafi kynnst á bar þar sem þeir hafi báðir verið dyraverðir.
Vitnið A kvaðst hafa sagt ákærða að hann væri með kort sem væri í eigu fyrirtækis sem hann ætti og væri að fara í gjaldþrot. Vitnið kvaðst örugglega hafa gefið þeim aftur sömu ástæðuna þegar þeir spurðu hann um ástæðu þess að hann seldi þeim olíu svo ódýrt. Þeir hafi örugglega spurt hvers vegna þeir gætu fengið ódýrt eldsneyti og hann því gefið þeim þessa skýringu. Ákærði hafi aldrei vitað að kortið væri stolið. Samskipti þeirra fóru yfirleitt þannig fram að hann hringdi í B, eða sendi honum SMS eða þá að B hringdi í hann. Vitnið kvaðst hafa valið til viðskiptanna bensínstöð þar sem lítil umferð var. Ákærði og B hafi alltaf dælt eldsneytinu sjálfir en hann staðið hjá og spjallað við þá á meðan. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa spurt þá hvað þeir gerðu við olíuna, hann hafi þó haft á tilfinningunni að þeir væru að kaupa fyrir fleiri eða selja til kunningja sinna. Einhvern tíma hafi annar komið með þeim. Stundum hafi þeir verið á Benz, B hafi verið á Benz en ákærði Arunas hafi verið á Volkswagen eða sendibíl. Þeir hafi einhvern tíma verið að miðla eldsneyti til þriðja manns. Aðspurður um B kvaðst hann ekki þekkja það nafn en vel gæti verið að hann hafi komið með ákærða og B. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann hafi sagt ákærða að fyrirtæki hans væri að fara í þrot eða hvort kortið væri bara á hans vegum. Kvað vitnið samskipti þeirra hafa farið fram á ensku, þeir hafi allir talað góða ensku. Vitnið kvaðst hafa heyrt að olíufélög hafi verið að veita allt að 14 króna afslátt af lítranum, en hann hafi selt ákærða lítrann á 100 krónur. Lítrinn hafi eflaust kostað miklu meira á þessum tíma.
Forsendur og niðurstöður.
Ákærði krefst sýknu af refsikröfu þar sem honum hafi ekki verið ljóst að kaup hans á eldsneyti af A hafi verið refsiverður verknaður. Ákærði hafi fengið þá skýringu að A væri að taka fé út úr fyrirtæki sem hann ætti og væri að fara á hausinn og því ætlaði hann að ná eins miklu út úr því og kostur væri. Hafi hann talið að væri eitthvað misjafnt við framferði A þá hafi það verið samningur A eða fyrirtækis hans við olíufélagið, sem væri ákærða óviðkomandi. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið þátt í skilasvikum A, en ásetningur sé skilyrði til þess að ákærði verði sakfelldur fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga. Þá sé útilokað að sakfella ákærða fyrir hylmingu í ákærulið II. Þar hafi tilraun A ekki tekist og varðandi ákærulið III þá hafi B keypt sjálfur beint af A en ekki ákærða og því verði ákærði ekki sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þá sé brot A skilasvik en ekki þjófnaður og því sé heimfærsla í ákæru ekki rétt.
Ákærði kvað, bæði fyrir lögreglu og dóminum, að A hafi gefið sér þá skýringu, þegar ákærði innti hann eftir því hvers vegna hann seldi þeim olíuna svona ódýrt, að hann ætti kennitölu eða fyrirtæki sem væri að fara í gjaldþrot og hann ætlaði að ná eins miklu og hann gæti út úr fyrirtækinu áður en það færi á hausinn. A lýsti þar með refsiverðri háttsemi fyrir ákærða, hvort sem hún var samkvæmt sannleikanum eða ekki.
Brot ákærða er í ákæru heimfært til 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við mat á því hvaða vitneskju ákærði hafði um heimildir A til að taka út fé eins og hann lýsti fyrir ákærða, er til þess að líta að upphaf að skiptum ákærða við A, sem ákært er út af, var að frumkvæði félaga ákærða B, en hann er samlandi og vinnufélagi ákærða. Ákærði hafði þá búið hér á landi í um tíu ár og átt og rekið bifreið allan þann tíma. Samkvæmt því gat ákærða ekki dulist strax í upphafi að hann var að fá ódýrt eldsneyti á mjög óvenjulegan máta. Því til staðfestu dældi ákærði fleiri hundruðum lítra af olíu á brúsa og tunnur ásamt B, sem ákærður er fyrir sömu háttsemi í máli nr. S-[...]/2012, þeir greiddu A með reiðufé og fóru síðan hvor í sína áttina. Þrátt fyrir þann grun sinn að ekki væri allt með felldu, lét ákærði sig þetta engu frekara varða. Ákærði hefur borið fyrir sig að það sé viðtekin venja í hans heimalandi að stunda svartamarkaðsbrask og hann hafi ekki haft neinar forsendur til að ætla að slíkt væri ekki stundað með löglegum hætti hér á landi. Bar hann þannig fyrir sig lögvillu. Þegar allt framangreint er virt þykir verða fullyrt að ákærði hafi haft grunsemdir um það sem fram fór hjá A og þannig haft ásetning til að hylma yfir með auðgunarbroti A og njóta góðs af sjálfur. Auk þess, þegar litið er til þess hversu verulegan afslátt hann fékk af olíunni, hefði það ekki átt að dyljast honum að atferli A var ekki eðlilegt og það jafnvel þótt hann hafi ekki í upphafi verið viss um þá háttsemi. Það verður því að meta það svo að ákærða hafi staðið ásetningur til að taka þátt í refsiverðum verknaði með því að kaupa ítrekað mikið af dísilolíu af A, ekki bara fyrir sjálfan sig, heldur einnig til að selja áfram sjálfur og hagnast af. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til 254. gr. almennra hegningarlaga.
Verður ákærði sakfelldur fyrir alla ákæruliðina en samkvæmt ákærulið II var ásetningur ákærða að kaupa olíu af A, þó svo að það hafi ekki gengið í það skiptið. Er sú háttsemi réttilega heimfærð í ákæru til refsiákvæðis.
Vitnið A sagði fyrir dóminum að ákærði B hafi einhvern tíma verið að miðla olíu til þriðja manns sem hann þekkti ekki. Kemur það heim og saman við ákærulið þrjú.
Þykir dóminum því hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði Arunas hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Verður hann sakfelldur fyrir hana.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur gengist við broti sínu þrátt fyrir að halda því fram að það hafi verið refsilaust. Þá er litið til þess að ekkert liggur fyrir um það að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Með vísan til ofangreinds skal refsingu ákærða frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sveins Andra Sveinssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem þykja hæfilega ákveðin 180.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Arunas Brazaitis, kt. [...], skal sæta fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 180.000 krónur.