Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2002


Lykilorð

  • Félag
  • Samkeppni


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. maí 2003.

Nr. 457/2002.

Landssamband íslenskra akstursíþróttafélaga

(Lárus L. Blöndal hrl.)

gegn

Gunnari Egilssyni

(Garðar Briem hrl.)

 

Félög. Samkeppni.

G, sem var eigandi sérsmíðaðrar torfærubifreiðar og félagi í einu af aðildarfélögum Landssambands íslenskra akstursíþróttafélaga, LÍA, var settur í keppnisbann eftir að hann tók þátt í torfærukeppni utan vébanda sambandsins. Var ástæða keppnisbannsins tilgreind þátttaka G í fyrrnefndri keppni sem væri ólögleg samkvæmt reglum LÍA og alþjóðlega bílasambandsins, FIA, sem sambandið starfaði eftir. Talið var að þeir, sem skipuleggja vildu aksturs keppnir utan vébanda LÍA, hafi mátt ganga út frá því að þýðingarlaust væri að beina umsóknum til sambandsins þar sem það hafi áður gefið út yfirlýsingu sem yrði ekki skilin á annan hátt en að LÍA væri eini aðilinn hérlendis sem skipuleggja mætti aksturskeppnir og að aðrar keppnir væru óheimilar án tillits til þeirra reglna sem giltu um öryggismál og eftirlit. Samkvæmt reglum alþjóðlega bílasambandsins á þeim tíma sem G var settur í keppnisbann var óheimilt að beita þeim til að leggja hömlur á keppnismót eða þátttöku keppenda nema þess væri þörf vegna öryggis eða annarra efnislegra ástæðna, sem þar voru raktar. Hafi LÍA því verið óheimilt að setja G í keppnisbann vegna þátttöku í fyrrnefndri keppni án þess að ganga úr skugga um að keppnin hafi verið andstæð reglum FIA eða öðrum reglum LÍA varðandi öryggismál og skylda þætti, en það hafi sambandið ekki gert. Var því fallist á kröfu G um að LÍA hafi verið óheimilt að banna honum keppni í torfærukeppnum á sínum vegum. Aftur á móti var LÍA sýknað af kröfu G um greiðslu skaða- og miskabóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. október 2002. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt 3. gr. félagslaga áfrýjanda er tilgangur sambandsins að koma á sem víðtækustum samtökum akstursíþróttamanna og félaga og klúbba, sem láta sig varða akstur og umferð, gæta hagsmuna þeirra og bæta aðstöðu þeirra til að ná markmiðum sínum. Aðild að sambandinu geta, samkvæmt 4. gr. félagslaganna, átt öll þau félög, sem hafa akstursíþróttir og sérmeðferð á ökutækjum og varðveislu þeirra og á annan hátt hagsmuni ökumanna og eigenda ökutækja á stefnuskrá sinni. Áfrýjandi er aðili að alþjóðlega bílasambandinu (Fédération Internationale de l’Automobile, FIA) en alþjóðasambandið viðurkennir eitt landssamband í hverju landi sem aðildarfélag. Alþjóðasambandið hefur gefið út svonefnda „alþjóðlega akstursíþróttalögbók“ (International Sporting Code). Hefur alþjóðasambandið samkvæmt 1. gr. „akstursíþróttalögbókarinnar“ tekið sér vald „til að semja og framfylgja reglum til hvatningar og eftirlits með akstursíþróttum“ og telur sig „hið eina alþjóðlega akstursíþróttayfirvald“ sem slíkt vald hafi. Er alþjóðlega „akstursíþróttalögbókin“ samkvæmt 2. gr. sinni gefin út af FIA til að framfylgja því valdi á sanngjarnan hátt þannig að jafnræðis sé gætt. Hefur bókin að geyma helstu reglur um keppni í akstursíþróttum. Er samkvæmt 3. gr. bókarinnar ætlast til þess að hvert landssamband framfylgi reglum hennar við skipulag akstursíþrótta á sínu svæði. Hefur áfrýjandi skipulagt keppni í akstursíþróttum hér á landi á þeim grunni um alllangt árabil og munu svonefndar torfærukeppnir hafa verið haldnar samkvæmt reglum áfrýjanda hér á landi síðan 1978.

Stefndi er eigandi sérsmíðaðrar torfærubifreiðar, sem hann notar eingöngu í torfærukeppni. Hann er félagi í Félagi íslenskra torfæruökumanna, sem er eitt aðildarfélaga áfrýjanda. Hann mun hafa tekið þátt í torfærukeppnum um níu til tíu ára skeið þegar atburðir þeir sem um er deilt í máli þessu áttu sér stað.

II.

Í maímánuði 1999 gaf dóms- og kirkjumálaráðuneytið út reglugerð nr. 386/1999 um akstursíþróttir og aksturskeppni á grundvelli heimildar í 34. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Var áfrýjanda með reglugerðinni á ýmsan hátt veitt sérstök staða. Þannig skyldi samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar einungis veita leyfi til aksturskeppni skipalagsbundnum samtökum, er hefðu akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og hlotið hefðu til þess viðurkenningu ráðuneytisins, en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar taldist áfrýjandi og félög innan vébanda hans uppfylla skilyrði 1. mgr. Þá skyldi aksturskeppni samkvæmt 3. gr. og 4. gr. reglugerðarinnar fara fram undir yfirstjórn fulltrúa frá stjórn áfrýjanda og samkvæmt keppnisreglum áfrýjanda. Ákvæði um sérstöðu áfrýjanda voru í fleiri greinum reglugerðarinnar. Þann 18. apríl 2000 gaf ráðuneytið út nýja reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni nr. 257/2000. Öðlaðist hún gildi daginn eftir og féll fyrrnefnda reglugerðin þá jafnframt úr gildi. Í nýju reglugerðinni voru felld niður öll sérákvæði er vörðuðu áfrýjanda og naut hann samkvæmt henni engrar sérstöðu varðandi heimild til að skipuleggja aksturskeppnir og ekki var honum falið hlutverk varðandi stjórn slíkra keppna eða setningu reglna, sem um þær skyldu gilda.

III.

Meðal gagna málsins er tilkynning framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varðandi FIA, sem birtist í stjórnartíðindum Evrópusambandsins 13. júní 2001. Þar kemur fram að FIA hafi tilkynnt framkvæmdastjórninni um reglur sínar árið 1994 og í framhaldi af því hafi FIA tilkynnt um samninga varðandi rétt til að sýna tilteknar aksturskeppnir í fjölmiðlum. Loks hafi FIA á árinu 1997 tilkynnt framkvæmdastjórninni fyrirkomulag fjárhagsmálefna í tengslum við svonefnda „Formula One“ heimsmeistarakeppni í kappakstri. Á árunum 1997 og 1998 hafi framkvæmdastjórninni borist þrjár kvartanir vegna þessara tilkynninga FIA. Þetta hafi orðið til þess að framkvæmdastjórnin hafi í júnímánuði 1999 gefið út yfirlýsingu um að hún hefði tekið rökstudda ákvörðun varðandi ætluð brot FIA á samkeppnisreglum Evrópusambandsins. Hafi FIA og tiltekinn handhafi fjölmiðlaréttar svarað þeirri yfirlýsingu skriflega í ársbyrjun 2000. Í júnímánuði 2000 hafi framkvæmdastjórnin síðan tilkynnt þá bráðabirgðaniðurstöðu að hún teldi að FIA væri að misnota vald sitt yfir reglum akstursíþrótta til að hindra að skipulagðar yrðu aksturskeppnir í samkeppni við þær keppnir sem FIA skipulegði eða styddi, en af þeim hefði FIA fjárhagslegan ávinning. Þá kynni FIA á tímabili að hafa misnotað sér markaðsráðandi stöðu sína. Hefðu FIA og fyrrgreindur fjölmiðlarétthafi í framhaldi þessarar tilkynningar fallist á að gera grundvallarbreytingar á sumum aðriðum varðandi reglur sínar og fjármál, sem meðal annars hefðu það að markmiði að aðskilja fjárhagsmálefni frá málefnum varðandi keppnisreglur og að tryggja hverjum þeim aðgang að akstursíþróttum sem fullnægði almennum reglum meðal annars varðandi öryggi.

 Af þessu tilefni var meðal annars breytt ýmsum reglum fyrrnefndar „alþjóðlegrar akstursíþróttalögbókar“ (International Sporting Code). Meðal þessara breytinga er viðbót við 2. gr. hennar, en efni greinarinnar var rakið í I. kafla hér að framan. Í viðbótinni var kveðið á um að reglum bókarinnar verði aldrei beitt til þess að koma í veg fyrir eða leggja hömlur á keppnismót eða þátttöku keppenda nema FIA telji þess þörf til að tryggja örugga, sanngjarna eða skipulega framkvæmd akstursíþróttamóta. Þá var bætt við 47. gr reglnanna varðandi skírteini (licence) ákvæði um að í öllum tilvikum skuli umsækjandi um slíkt keppnisskírteini eiga rétt á því ef hann fullnægi reglum bókarinnar og öðrum keppnis- og tæknireglum. Þá var hliðstæðu ákvæði bætt við 63. gr., sem fjallar um útgáfu leyfis til að halda akstursíþróttakeppni, þannig að slíkt leyfi skyldi kræft hverjum þeim sem fullnægði reglum bókarinnar og öðrum almennum reglum. Einnig var bætt inn ákvæði í ýmsar greinar bókarinnar um að höfnun á útgáfu skírteinis eða leyfis eða afturköllun slíkra heimilda skyldi jafnan rökstudd. Samkvæmt fyrrgreindri tilkynningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er svo að sjá að þessar breytingar á reglum „alþjóða akstursíþróttalögbókarinnar“ hafi verið gerðar í tveimur áföngum í júní og október 2000, en óljóst er hverju var breytt í hvorum áfanga. Fyrir Hæstarétti lýstu aðilar því yfir að þeir væru sammála um að gengið skyldi út frá því að þær hefðu allar öðlast gildi í júní 2000.

IV.

Á árinu 1999 virðist hafa komið upp ágreiningur innan raða aðildarfélaga áfrýjanda. Stofnuðu fjögur aðildarfélög nýtt samband, Torfærusamband Íslands, en sögðu sig þó ekki úr Landssambandinu á þeim tíma.

 Þann 3. maí 2000 undirritaði Ólafur Guðmundsson, forseti áfrýjanda, tilkynningu frá stjórn félagsins. Er hún svohljóðandi: „Til allra keppenda og skipuleggjenda í akstursíþróttum á Íslandi. Efni: Ólöglegar keppnir og keppnisbann. Eins og flestir vita, þá hefur dómsmálaráðherra breytt reglugerð um akstursíþróttir á Íslandi þannig, að nú getur hver sem er haldið og skipulagt akstursíþróttakeppnir hérlendis. Þessi ákvörðun ráðherra gengur þvert á það fyrirkomulag sem viðgengst í heiminum hvað varðar þessa íþróttagrein, þar sem í öðrum löndum eru það einungis aðilar að alþjóðasamtökunum FIA og FIM sem mega halda slík mót. FIM er alþjóða mótorhjólasambandið og sem stendur er ekkert aðildarfélag að FIM á Íslandi. Samkvæmt samningi FIA og FIM skipta þau stjórnuninni milli sín miðað við þrjú hjól og minna hjá FIM og fjögur hjól og meira hjá FIA miðað við viðkomandi keppnistæki. L.Í.A. er aðili að FIA og samkvæmt alþjóðareglum „International Sporting Code“ [er] FIA eini aðilinn hérlendis sem má skipuleggja aksturskeppnir á bílum, þ.e. 4 hjól eða meira. Með aðild sinni að FIA er L.Í.A. skylt að fara eftir International Sporting Code hvað varðar allar þær greinar sem undir þessa skilgreiningu falla. Það innifelur t.d. Rally, Torfæru, Rally-Kross, Kvartmílu og Go-Kart. L.Í.A. hefur ráðfært sig við forseta alþjóða kartnefndar FIA, CIK og forseta FIA. Það er ljóst, að stjórn L.Í.A. er skylt að lýsa allar keppnir sem fram fara utan reglna og eftirlits L.Í.A. ólöglegar og alla sem skipuleggja eða taka þátt í slíkum keppnum í keppnisbann (suspension). Þetta er samkvæmt International Sporting Code, kafla III greinum 53-59, sem og grein 118. Fyrir viðkomandi keppendur þýðir þetta, að þátttaka í öllum keppnum í FIA greinum á vegum L.Í.A. verður ekki leyfð, þannig að keppnisskírteini L.Í.A. verður ekki gefið út á viðkomandi. Þeir geta því ekki keppt erlendis, né heldur erlendir aðilar tekið þátt í keppnum hérlendis utan L.Í.A. Hér með lýsir stjórn L.Í.A. allar keppnir á bílum, sem fara fram utan L.Í.A. ólöglegar og verða tilkynningar þess efnis sendar FIA og öðrum hlutaðeigandi.“

 Í skýrslu fyrir héraðsdómi sagði Ólafur að þessi tilkynning hafi verið send öllum keppnishöldurum, verið birt á netinu og legið frammi á fundum. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvaðst stefndi ekki hafa séð þessa tilkynningu fyrr en eftir að mál þetta var höfðað. Fyrir liggur að Ólafur og stefndi áttu fund í maímánuði 2000. Kveðst Ólafur ekki muna betur en að hann hafi þá sýnt stefnda tilkynninguna en á fundinum hafi þeir rætt um skyldu F.Í.A. til að framfylgja „International Sporting Code“. Stefndi taldi í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að fundurinn hafi verið haldinn í tengslum við tilraunir áfrýjanda til að fá keppendur í akstursíþróttum til að undirrita skuldbindingu um að þeir muni aðeins taka þátt í keppnum á vegum áfrýjanda, en stefndi kvaðst hafa hafnað að skrifa undir slíka skuldbindingu.

Meðal gagna málsins er ódagsett umsókn stefnda þar sem hann sótti um endurnýjun á keppnisskírteini fyrir torfærukeppnir. Er á umsóknareyðublaðinu tekið fram að umsóknin sé bundin reglum LÍA og FIA. Var stefnda í framhaldi af því veitt umbeðið skírteini, sem mun hafa átt að gilda fyrir keppnistímabilið árið 2000, og er óumdeilt að í skírteini hans hafi verið ákvæði þess efnis að handhafi þess væri bundinn reglum „Interntational Sporting Code“ og reglum áfrýjanda.

Þann 24. júní 2000 tók stefndi þátt í móti í torfæruakstri við Jósefsdal, sem haldið var á vegum áfrýjanda. Daginn eftir var haldin torfærukeppni á sama stað og tók stefndi einnig þátt í henni. Ekki ber gögnum málsins saman um hvort hún var haldin af fyrrnefndu Torfærusambandi Íslands eða Jeppakúbbi Reykjavíkur, en hann var eitt þeirra fjögurra aðildarfélaga áfrýjanda, sem staðið höfðu að stofnun Torfærusambandsins árið áður. Var sú keppni haldin utan vébanda áfrýjanda. Vitnið Björgvin Ólafsson, framkvæmastjóri Torfærusambandsins og stjórnarmaður í Bílaklúbbi Akureyrar, sem var eitt aðildarfélaga þess, bar fyrir héraðsdómi að hann hafi setið í dómnefnd og farið yfir pappíra allra keppenda og séð til þess að öll tilskilin leyfi hafi verið til staðar. Hann kvað mótið hafa farið fram „samkvæmt öllum lögum og reglum um torfærukeppnir“ og hafi fyrirkomulag þess verið svipað og gengur og gerist í slíkum keppnum. Kvað hann ekki hafa verið sótt um leyfi til áfrýjanda til að halda keppnina. Ólafur Guðmundsson kvað áfrýjanda hvergi hafa komið nærri þessari keppni og kvað sér ekki kunnugt um hvaða reglur hafi verið notaðar. Hann kvað Jeppaklúbb Reykjavíkur hafa haldið keppnir á vegum L.Í.A. á hverju ári frá 1990 eða 1991 og til ársins 1999. Stefndi skýrði svo frá að hann teldi að í keppninni hafi verið farið eftir reglum „akstursíþróttalögbókarinnar“ og öðrum þeim reglum sem til voru, enda hafi skipuleggjendur keppninnar verið þaulvanir að standa að slíku keppnishaldi.

 Með bréfi áfrýjanda 7. júlí 2000 var stefnda tilkynnt að hann hafi verið settur í keppnisbann „í öllum akstursíþróttum á vegum L.Í.A. og aðildarfélaga F.I.A. (suspension) frá og með dagsetningu“ tilkynningarinnar og þar til annað yrði ákveðið af stjórn áfrýjanda. Var ástæða keppnisbannsins tilgreind þátttaka stefnda í fyrrnefndri keppni 25. júní 2000 sem hafi verið ólögleg samkvæmt reglum áfrýjanda og „International Sporting Code“. Var stefnda af þessu tilefni boðið að mæta á næsta stjórnarfundi áfrýjanda. Sá fundur var haldinn 19. sama mánaðar. Kom stefndi á þann fund ásamt lögmanni sínum. Í fundargerð kemur fram að stefndi hafi mótmælt keppnisbanninu, sem hann teldi óréttlátt og óréttmætt, enda ætti hann rétt á að keppa þar sem honum litist. Er bókað að stjórn áfrýjanda muni fljótlega taka afstöðu til málsins. Var stefnda tilkynnt með bréfi daginn eftir að niðurstaða stjórnar áfrýjanda hafi verið sú að breyta ekki að svo komnu máli fyrri ákvörðun um að svipta stefnda keppnisleyfi og gildi sú ákvörðun þar til annað verði ákveðið.

Þann 21. júlí 2000 sótti stefndi um þátttöku í keppni í torfæruakstri sem fyrir dyrum stóð að halda á vegum áfrýjanda við Jósepsdal. Taldi hann bæði sig og bíl sinn uppfylla öll skilyrði til þátttöku og hafi fyrrgreind leyfissvipting verið marklaus geðþóttaákvörðun stjórnar áfrýjanda. Framkvæmdastjóri keppninnar hafnaði umsókninni samdægurs og kvað ástæðuna fyrrgreinda sviptingu keppnisskírteinis stefnda af hálfu áfrýjanda.

Höfðaði stefndi mál þetta 16. janúar 2001 og krafðist þess að framangreint keppnisbann yrði dæmt ólögmætt og áfrýjandi yrði dæmdur til að greiða sér bætur fyrir fjártjón sem og miskabætur.

V.

Fyrir Hæstarétti hélt áfrýjandi því fram að með framangreindri tilkynningu 3. maí 2000, hafi hann einungis verið að árétta þá kröfu sína að öll mót í akstursíþróttum færu fram samkvæmt reglum „alþjóða akstursíþróttalögbókarinnar“ og undir eftirliti áfrýjanda, en í tilkynningunni hafi á hinn bóginn ekki falist nein takmörkun á því hverjir gætu skipulagt eða haldið slík mót og fælist ekki í henni að slíkir skipuleggjendur yrðu að vera innan vébanda áfrýjanda. Hafi afstaða áfrýjanda á þessum tíma verið sú að hann hafi talið sér skylt að veita hverjum þeim, sem eftir því hefði leitað, keppnisleyfi ef almennum reglum um öryggi og aðra slíka þætti væri fullnægt. Skipuleggjendur keppninnar við Jósepsdal 25. júní 2000 hafi ekki leitað eftir slíku leyfi. Þar af leiðandi hafi áfrýjandi ekki verið í neinni aðstöðu til að meta það hvort reglum sínum og alþjóðareglum „aksturslögbókarinnar“ hafi verið fullnægt. Honum hafi því samkvæmt reglum bókarinnar borið að svipta þátttakendur í keppninni keppnisskírteinum sínum.

Stefndi hélt því fram að áfrýjandi hafi hvorki byggt á þessum skilningi á yfirlýsingu sinni frá 3. maí fyrir héraðsdómi né í greinargerð sinni til Hæstaréttar. Hann hafi talið það óumdeilt í málinu að í yfirlýsingunni hafi falist að áfrýjandi teldi sig eina aðilann hérlendis, sem heimilt væri að skipuleggja mót í akstursíþróttum. Væri raunar enginn vafi á því að það væri efni tilkynningarinnar enda sé það beinlínis tekið fram í texta hennar. Þar af leiðandi hafi það verið þýðingarlaust fyrir skipuleggjendur torfærukeppninnar við Jósepsdal 25. júní 2000 að sækja um leyfi áfrýjanda til að halda keppnina.

Fallast verður á það með stefnda að þegar texti yfirlýsingarinnar er virtur í heild sinni verði hann ekki skilinn á annan hátt en þann að í honum hafi falist að áfrýjandi teldi sig vera eina aðilann hérlendis sem skipuleggja mætti aksturskeppni á bílum og að með henni hafi hann lýst allar slíkar keppnir, sem aðrir stæðu að, óheimilar án tillits til þeirra reglna, sem giltu um keppnina varðandi öryggismál og eftirlit, sem og því að keppendur í slíkum keppnum yrðu sviptir keppnisskírteinum sínum. Að gefinni þessari yfirlýsingu áfrýjanda máttu þeir, sem skipuleggja vildu aksturskeppnir utan vébanda áfrýjanda, réttilega ganga út frá því að þýðingarlaust væri að beina umsóknum um keppnisleyfi til hans. Þegar áfrýjandi lýsti stefnda í keppnisbann 7. júlí 2000 höfðu samkvæmt því sem rakið var í III. kafla hér að framan orðið þær breytingar á reglum „alþjóða akstursíþróttalögbókarinnar“, sem áfrýjandi byggir á að hann starfi eftir, að óheimilt var að beita reglunum til að leggja hömlur á keppnismót eða þátttöku keppenda nema þess væri talin þörf vegna öryggis eða annarra efnislegra ástæðna, sem þar eru raktar. Þá voru samkvæmt breytingunum öllum réttkræf keppnisskírteini ef þeir og ökutæki þeirra uppfylltu almennar reglur um öryggi og slík atriði. Þegar þetta er virt verður að telja að áfrýjanda hafi á þessum tíma verið óheimilt að setja stefnda í keppnisbann vegna þátttöku í fyrrnefndri keppni án þess að ganga úr skugga um að keppnin hafi verið andstæð reglum „alþjóða akstursíþróttalögbókarinnar“ eða öðrum reglum áfrýjanda varðandi öryggismál og skylda þætti. Eins og að framan er rakið kannaði áfrýjandi það ekki og verður því talið að honum hafi ekki verið heimilt að lýsa stefnda í keppnisbann með yfirlýsingu sinni 7. júlí 2000.

Varðandi tjón það, sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir vegna keppnisbanns áfrýjanda, hefur hann ekki lagt fram önnur gögn en samning þann við Ölgerðina Egil Skallagrímsson ehf., sem nefndur er í hinum áfrýjaða dómi. Þannig hefur hann engin gögn lagt fram um hreinar tekjur sínar af þátttöku í keppnum á vegum áfrýjanda fram að því að framangreindu keppnisbanni var lýst yfir. Verður að fallast á það með áfrýjanda að ósannað sé að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna keppnisbannsins. Þá skortir kröfu stefnda um miskabætur lagastoð. Verður áfrýjandi því sýknaður af fjárkröfum stefnda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostað verður staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjanda, Landssambandi íslenskra akstursíþróttafélaga, var óheimilt að banna stefnda, Gunnari Egilssyni, keppni í torfærukeppnum á vegum áfrýjanda með yfirlýsingu sinni 7. júlí 2000.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2002.

Mál þetta sem dómtekið var 13. júní sl. er höfðað með stefnu birtri 16. janúar 2001.

Stefnandi er Gunnar Egilsson, Lóurima 12, Selfossi.

Stefndi er Landsamband íslenskra akstursíþróttafélaga (LÍA), Engjavegi 6, Reykjavík.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

I. að keppnisbann stefnanda skv. yfirlýsingu dags. 7. júlí 2000 hvað varðar þátttöku í torfærukeppnum á vegum stefnda verði dæmt ólögmætt.

II. að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð 2.450.000 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá birtingardegi stefnu til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

III. að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað.

Með úrskurði 4. júlí 2001 var synjað um frávísun málsins.

MÁLSATVIK

Stefnandi er félagi í aðildarfélagi stefnda FÍTÖ (Félagi íslenskra torfæruökumanna). Hann hefur keppt á nánast öllum torfæruakstursmótum sem haldin hafa verið á Íslandi síðastliðin 9 ár. Þann 24. júní 2000 tók stefnandi þátt í keppni á vegum stefnda í Jósefsdal en daginn eftir tók hann þátt í keppni sem haldin var á vegum Torfærusambands Íslands á sama stað. Með bréfi dagsettu 7. júlí 2000 var stefnanda tilkynnt að stefndi hefði sett hann í keppnisbann og hann þannig verið útlilokaður frá allri keppni á vegum stefnda sem reyndar hafa vægi til Íslands- og heimsmeistaratitils. Hafði hann þá þegar hafið stigasöfnun til þessara titla með þátttöku í mótum. Stefnandi mótmælti banninu sem óréttmætu gagnvart sér. Sat hann fund með stjórn stefnda ásamt lögmanni sínum og fékkst ákvörðun stefnda í engu breytt.

Í bréfinu frá 7. júlí eru tilgreindar ástæður stefnda fyrir keppnisbanninu. Segir þar að stefnandi hafi tekið þátt í ólöglegri keppni og beita verði hann viðeigandi refsingu skv. reglum alþjóðasamtaka sem stefndi er aðili að og í þessi tilviki væri refsingin keppnisbann. Í niðurlagi bréfsins er stefnda boðið að mæta á stjórnarfund stefnda æski hann þess. Á stjórnarfundi sem haldinn var þann 19. júlí 2000 og stefnandi sat með lögmanni sínum voru sjónarmið reifuð en afstaða til mótmæla birtist í bréfi sem stjórnin sendi stefnanda þann 20 júlí 2000 en þar segir að stjórn stefnda teldi ekki að svo komnu máli efni til að breyta ákvörðun þeirri sem tilkynnt var stefnanda með bréfinu 7. júlí.

Stefndi sendi þátttökuumsókn til keppni í næsta móti sumarsins sem halda skyldi í Jósefsdal 22. júlí 2000 og kom hann á framfæri í umsókninni til mótshaldara sjónarmiðum sínum hvað varðar sviptingu keppnisskírteinis. Afstaða mótshalda reyndist neikvæð og kynnti stefnandi í framhaldinu sjónarmið sín fyrir sýslumanni Árnessýslu sem lögreglustjóra umdæmis þess sem keppnin var haldin í án árangurs. Allar tilraunir stefnanda til að fá afstöðu stefnda breytt hafa engan árangur borið.

Stefndi hafði staðið fyrir keppnishaldi undanfarin ár og hafði einkaleyfi hans til keppnishalds torfæruaksturskeppna verið staðfest með reglum um akstursíþróttir og aksturskeppni nr. 386/1999 en í 1. mgr. 2. gr. þeirra sagði að leyfi til aksturíþrótta skyldi einungis veita skipulagsbundnum samtökum er hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og hlotið hafa til þess viðurkenningu dómsmálaráðuneytisins. Í 2. mgr. 2. gr. sagði að Landssamband íslenskra akstursíþróttafélaga, þ.e. stefndi og félög innan vébanda þess, teldust uppfylla skilyrði 1. mgr. Þá sagði í 3. gr reglnanna, að aksturskeppni skuli fara fram undir yfirstjórn fulltrúa frá stjórn L.Í.A. Loks sagði í 4. gr. reglnanna að aksturskeppni skyldi fara fram í samræmi við keppnisreglur sem L.Í.A. setji.

Með reglugerð nr. 257/2000 um akstursíþróttir og aksturskeppni, útgefinni 18. apríl þ.á., varð sú breyting á að skv. 2. gr. skal leyfi til aksturskeppni einungis veitt skipulagsbundnum samtökum er hafi akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og að keppni skuli fara fram undir yfirstjórn fulltrúa sem lögreglustjóri samþykki. Þá segir í 3 gr. að aksturskeppni skuli fara fram í samræmi við keppnisreglur viðkomandi samtaka sem leggja skuli fyrir lögreglustjóra. Þá segir í ákvæðinu að ákveða megi að ökumanni sé eigi heimil þátttaka í keppni ef hann hafi brotið keppnisreglur eða gerst sekur um alvarleg eða íterkuð brot á umferðarlögum. Með reglugerð þessari féll niður einkaréttur stefnda á því að standa fyrir keppnishaldi hér á landi.

Af hálfu stefnda kemur fram að vegna hinnar nýju reglugerðar nr. 257/2000, ágreinings sem upp var kominn milli stefnda og nokkurra félaga í akstursíþróttum og aðildar stefnda að Alþjóða bílasambandinu (FIA), hafi stefndi verið neyddur til að gefa út tilkynningu þann 3. maí 2000, þar sem fram komi aðallega að akstursíþróttakeppni sem fari fram utan reglna stefnda og eftirlits stefnda, sé í andstöðu við íslenskar reglur stefnda í akstursíþróttum og í andstöðu við hina alþjóðlegu lögbók í akstursíþróttum. Með tilkynningu þessari hafi því enn fremur komið á framfæri, að stefndi myndi ekki gefa út keppnisskírteini fyrir þá keppendur sem tækju þátt í slíkri keppni.

Stirt samband hafi verið á milli stefnda annars vegar og nokkurra aðila innan akstursíþróttarinnar hins vegar, þ.á.m. stefnanda. Vegna þessa, auk umræðu um klofning innan akstursíþróttahreyfingarinnar, reglugerðarbreytingarinnar o.fl., hafi Ólafur Kr. Guðmundsson, forseti stefnda, átt fund með stefnanda í fyrri hluta maí mánaðar 2000. Á fundinum hafi komið fram sá vilji stefnanda að vera óskuldbundinn stefnda, þ.e. að að fá að taka þátt í þeim keppnum sem eru ólögmætar skv. reglum stefnda, en jafnframt að halda keppnisskírteini sínu sem útgefið er af stefnda og taka líka þátt í keppnum á vegum stefnda. Þegar þessi fundur fór fram var ekki búið að gefa út keppnisskírteini til stefnanda vegna ársins 2000. Á fundinum hafi Ólafur farið rækilega yfir lög og reglur stefnda og alþjóðlegu lögbókarinnar hvað þetta varði og stefnanda gerð grein fyrir því að samkvæmt reglum stefnda og alþjóðlegu lögbókarinnar, yrði stefndi að lýsa því yfir, að öll akstursíþróttamót sem haldin væru utan sambandsins og utan lögsögu stefnda væru ólögleg og að allir þeir sem tækju þátt í slíkum mótum, fengju ekki útgefin keppnisskírteini frá stefnda eða myndu eiga yfir höfði sér missi þegar útgefinna keppnisskírteina.

Í framhaldi af þessum fundi stefnanda og Ólafs hafi stefnandi sótt um keppnisskírteini hjá stefnda og fengið keppnisskírteini gefið út þann 19. maí 2000.

Þann 25. júní 2000, hafi stefnandi tekið þátt í keppni sem ekki hafi verið undir lögsögu eða eftirliti stefnda og hafi verið í andstöðu við reglur stefnda og í framhaldi af því var stefnandi sviptur keppnisskírteini sínu.

Stefndi tekur fram að hann hafi lýst því yfir munnlega og ítrekar það í greinargerð sinni, að stefnandi geti fengið keppnisskírteini sitt að nýju, svo framarlega sem hann gangist undir lög og reglur stefnda.

MÁLSÁSTÆÐUR

Af hálfu stefnanda segir að er einkaleyfi til keppnishalds hefði verið gefið frjálst hafi Torfærusamband Íslands (TSÍ) verið stofnað og það hafið að standa fyrir löglegri keppni í torfæruakstri. Hafi þetta verið ógn gagnvart þeim sjónvarpréttarsamningum sem stefndi hafði staðið að og skuldbundinn vegna og telur stefnandi mál sem tengjast sjónvarpséttarsamningnum vera kjarna þeirrar sviptingar keppnisréttar sem hann hafi þurft að þola. Stefndi hafi þannig refsað félaga eins aðilarfélags sem hefði leyft sér að taka þátt í keppni sem keppinauturinn stóð fyrir, öðrum til varnaðar, í þeirri von að honum tækist að viðhalda þeirri einokunaraðstöðu sem hann hefði notið fyrir tilkomu hinnar nýju reglugerðar.

Stefnandi sé löglegur félagi eins aðildarfélags stefnda og hann hafi haft heimild til þess að nota bifreið sína til þátttöku í keppni sem haldin hefði verið ­á vegum hans eins og aðrir félagar, að því tilskildu að hann og ökutæki hans stæðust þær kröfur sem fram komi í tilvísaðri reglugerð og þær kröfur sem settar séu af einstökum mótshöldurum enda væri jafnræðis keppenda gætt. Stefnandi telur sig hafa uppfyllt öll skilyrði hvað varðar hann sjálfan og keppnistæki hans og verði að telja að sú háttsemi stefnda að svipta stefnanda keppnisskírteini sínu þegar liðið var á keppnistímabilið, með þeim hætti sem gert var, hafi verið brot á réttindum hans sem félaga í aðildarfélagi stefnda og andstætt reglugerð nr. 257/2000 og ógilda beri slíka ákvörðun með dómi. Hlutverk reglugerðarinnar hafi verið að auka frelsi í sambandi við akstursíþróttir, til keppnishalds o.fl. og keppisbann stefnanda sé andstætt því. Þá hafi keppnisbannið verið til þess fallið að valda stefnanda verulegu tjóni bæði fjárhagslegu og ófjárhagslegu.

Stefnandi telur sig hafa heimild til þess að taka þátt í öllum löglegum mótum sem uppfylla skilyrði nefndrar reglugerðar standist hann öll skilyrði sjálfur og það sé misskilningur hjá stefnda að honum komi við hvar stefnandi stundar íþrótt sína á sínu keppnistæki utan móta hjá honum.

Í nefndu bréfi stefnda til stefnanda, dags. 7. júlí 2000, sé að finna röksemdir stefnda fyrir keppnisbanni. Sú eina röksemd sem þar komi fram sé að stefnandi hafi tekið þátt í keppni sem hafi verið ólögleg og því beri að beita refsingum. Samráð hafi verið haft við forseta alþjóða kartnefndar en bréfinu fylgi engin gögn sem sýni um hverskonar samráð hafi verið að ræða eða hvernig afstaða þess aðila hafi verið kynnt. Þá sé vísað til International Sporting Code, kafla III, greinar 58. til 59., og 118. gr. Önnur rök séu ekki færð fyrir sviptingunni. Stefnandi telur að hér sé um hártoganir og rangtúlkanir á lagabókstaf að ræða enda sé hin raunverulega ástæða keppnisbannsins augljós en ekki nefnd. Ef hinn tilvísaði lagabókstafur sé skoðaður komi í ljós að keppnisbannið standist einfaldlega ekki.

Rökin séu þessi.

1 Stefnandi hafi ekkert lagt fram sem sýni fram á að keppnisreglur í keppni þeirri sem stefndi tók þátt í þann 25. júní 2000 hafi verið frábrugðnar keppnisreglum lögbókar stefnanda.

2 Sá aðili sem stóð fyrir keppninni þann 25. júní 2000 hafi verið akstursíþróttasamtök með löglega heimild til keppnishalds og aðili að LÍA.

3 Ekkert liggi fyrir að keppni á vegum TSÍ þann 25. júní 2000 hafi verið bönnuð með positífri aðgerð, á sannanlegan hátt, af til þess bærum aðila, áður en hún hófst og það bann kunngjört á áberandi hátt öllum sem það snerti og eigi því ákvæði 59. og 118. gr. reglnanna ekki við. Sönnunarbyrði um að bann hafi verið í gildi hljóti að hvíla á þeim sem haldi slíku fram.

4 Ágreiningi hafi ekki verið vísað til FÍA eins og 118. gr. geri ráð fyrir.

5 Hvergi í lögunum sé með berum orðum lagt bann við þátttöku félaga aðildarfélags í mótum sem önnur akstursíþróttafélög standa að.

Stefnandi heldur því fram að jafnvel þótt lesa mætti með skýrum hætti úr lögunum að félaga aðildarfélags væri bannað að taka þátt í mótum hjá öðrum akstursíþróttafélögum stæðist slíkt bann einfaldlega ekki með tilvísan til fyrrnefndrar reglugerðar nr. 257/2000, nútímafrelsissjónarmiða í atvinnustarfsemi, frelsissjónarmiða hvað varðar þátttöku manna í félögum og jafnræði þeirra á milli.

Við túlkun á því hvort reglur skv. framansögðu hafi verið brotnar beri að horfa til þess hvernig reglur þessar hafa verið túlkaðar í gegnum tíðina af stjórnarmönnum stefnda og þeim sem starfað hafa í þágu hans. Telur stefnandi að framkvæmd þeirra hafi verið þannig að túlka beri lögin rýmkandi skýringu. Verði því að telja að sé staðið frammi fyrir því að taka ákvörðun sem miðar að því að skerða rétt einstaks félagsmanns og baka honum um leið verulegt fjártjón eins og í því tilfelli, sem hér um ræði, hljóti að verða skýra reglurnar rúmt honum í hag í ljósi framkvæmdarinnar og um þurfi að vera brot á skýrum lagabókstaf svo að unnt sé að réttlæta sviptingu keppnisréttar.

Þá beri að líta til þess að það hljóti að vera grundvallarregla að sama regla gildi um alla félagsmenn hvað þetta varði. Staðreyndin sé sú að nokkrir félagar aðildarfélaga stefnda hafa tekið þátt í akstursíþróttamótum sem haldin hafa verið af félögum sem eru aðildarfélög stefnda, á eigin vegum, án þess að hafa þurft að sæta keppnisbanni vegna þess.

Þá beri að horfa til samkeppnissjónarmiða og samkeppnislaga. Skv. þeim reglum sem gildi í samkeppni standist það ekki að útiloka aðila frá þátttöku af þeirri ástæðu að hann hafi tekið þátt í einhverju sem aðrir hafi staðið fyrir. Það sé alvarlegt brot á þeim reglum sem gildi í samkeppni að refsa þeim sem vilji taka þátt í sem flestum mótum með keppnisbanni, í þeim tilgangi að viðhalda einokun. Allar reglur sem lúti að því að takmarka frelsi manna með þessum hætti hljóti að teljast ógildar og verða að víkja fyrir reglum samkeppnislaga. Þó ekki sé hér um að ræða venjulega atvinnustarfsemi á vegum stefnanda verði að horfa til þess að þátttaka í keppni hafi fært honum talsverðan fjárhagslegan ávinning í formi auglýsinga og peningaverðlauna á undanförnum árum.

Stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni, bæði fjárhagslegu og ófjárhagslegu. Fjárhagstjón felist í því að hann hafi verið útilokaður frá þátttöku í fimm mótum á árinu 2000. Hafi hann gert samning við Ölgerð Egils Skallagrímsson h.f. og átt skv. honum að fá 150.000 krónur fyrir hvert mót, þ.e.a.s. vegna auglýsinga á þaki og fram- og afturhluta bifreiðarinnar og ef hann ynni Íslandsmeistaratitil hafi hann átt kost að fá  200.000 krónur í verðlaunafé, sem reyndar séu líkur á að hann hefði fengið vegna góðrar frammistöðu á þeim mótum sem hann hafði tekið þátt í á árinu, bæði á vegum stefnda fyrir sviptingu keppnisskírteinis og öðrum mótum. Hafi hann náð fyrsta sæti á móti í torfærukeppni í Swindon í Englandi haustið 2000. Að auki hafi stefnandi getað aflað sér tekna með auglýsingum á hliðum bifreiðarinnar fyrir um 100.000 krónur á hverju móti.

Í kröfugerð er gert ráð fyrir missi tekna vegna þátttöku á árinu 2000 sem reiknast þannig.

Auglýsingasamningur 5 mót x 150.000                                   750.000

Verðlaunafé                                                                                           200.000

Auglýsingar á hliðum bifreiðar 5x 100.000                                              500.000

 1.450.000

Þá eigi stefndi rétt á miskabótum þar sem hann hafi verið útilokaður á árinu 2000 með ólögmætum hætti frá þátttöku í keppni, sem hann hafi átt fullkomlega rétt til að taka þátt í, og hann borinn þungum sökum, sem sé óréttmætt af hálfu stefnda. Stefnandi sé metnaðarfullur íþróttamaður og verði að telja að hann hafi af tilefnislausu verið útilokaður frá keppni í íþrótt sinni. Verði að telja bætur fyrir ófjárhagslegt tjón kr. 1.000.000 vegna þessa.

Heildarkrafa stefnanda reiknist því 1.450.000 krónur + 1.000.000 króna, eða samtals 2.450.000 krónur.

Málið snúist um fjármál og fjártjón vegna útilokunar frá íþróttakeppni vegna þátttöku í einni sambærilegri keppni. Málið snúist um hvort íþróttasamtökum sé heimilt að lýsa löglega íþróttakeppni skv. reglugerð ólöglega og hvort slíkar athafnir sem til þess eru ætlaðar að gera áhrifamátt útgefinnar reglugerðar dómsmálaráðuneytis að engu, standist.

Svipting keppnisskírteinis feli í sér ólögmætar takmarkanir á persónu- og athafnafrelsi einstaklings, sem eigi að geta ráðið því sjálfur hvar og hvenær hann stundar íþrótt sína, þ.e.a.s. í hvaða keppni hann taki þátt.

Í þessu tilviki sé ekki verið að fjalla um brot á keppnisreglum í tiltekinni keppni eða þess háttar, sem falli undir úrskurðarvald dómara keppninnar og áfrýjunarstig, heldur sé hér um að ræða mál sem sé mun alvarlegra og snúist um fjárkröfu og unnt sé af þeirri ástæðu að bera undir úrskurðarvald almennra dómstóla.

Vísað er m.a. til reglugerðar nr. 257 frá 18. apríl 2000, skaðabótalaga, samkeppnislaga, almennra reglna um þátttöku í félögum og jafnrétti.

 

Af hálfu stefnda segir að það sé ekki á valdi hans, að banna stefnanda þátttöku í akstursíþróttum sem fari fram eða kunni að fara fram, sem ekki séu undir lögsögu stefnda. Stefnanda sé frjálst að taka þátt í öllum slíkum mótum sem honum sýnist og hafi hann tekið þátt í keppni af þeim toga. Slík keppni geti verið fullkomlega lögleg skv. íslenskum umferðarlögum og reglugerð nr. 257/2000 en hins vegar sé jafnljóst, að slík keppni stangist á við lög stefnda og alþjóðlegu lögbókina sem stefndi sé bundinn við. Afleiðingar af þátttöku í keppni, eins og þeirri sem stefnandi tók þátt í þann 25. júní 2000, séu þær að viðkomandi missi keppnisskírteini sitt hjá stefnda og fái ekki að taka þátt í keppni sem sé undir eftirliti og reglum stefnda.

Reglur þessar séu alþjóðlegar að stofni til og gildi alls staðar í heiminum þar sem landsfélög, eins og stefndi sé viðurkennt af FIA. Yfirstjórn FIA í akstursíþróttum á bílum sé viðurkennd um allan heim, m.a. af Evrópusambandínu, Sameinuðu þjóð-unum og Alþjóða Ólympíunefndinni. Sama fyrirkomulag gildi t.d. hjá öllum hinum Norðurlandaþjóðunum.

Á árinu 2000 hafi stefndi haldið svokallað "Heimsbikarmót L.Í.A." í torfæru, þar sem keppt hafi verið í nokkur skipti. Stefnandi hafi ekki tekið þátt í fyrstu torfærukeppni ársins 2000, hvorki hjá LÍA né hjá sínu félagi, Félagi íslenskra torfæruökumann ( FÍTÖ).

Fyrsta heimsbikarmótskeppnin hafi verið haldin í Swindon á Englandi í júní mánuði 2000. Stefnanda hafi verið boðið að taka þátt í þeirri keppni sem hann þáði og reyndar hafi hann sigrað í þeirri keppni.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi viljandi brotið reglur stefnda, sömu reglur og stefnandi hefði skuldbundið sig til að hlýta þegar hann sótti um keppnisskírteini og fékk, sbr. 47. gr. alþjóðlegu akstursíþrótta lögbókarinnar.

 Keppni sú sem fram fór þann 25. júní 2000 í Jósefsdal, hafi ekki verið á vegum stefnda og ekki í samræmi við framangreinda lögbók stefnda. Keppnin var í andstöðu við alþjóðlegar akstursíþróttareglur, þ.e. þær reglur sem stefndi hefur skyldu til að framfylgja með aðild sinni að FIA.

Í kafla III. í lögbókinni, bls. 3.1.8, sé m.a. fjallað um ólögmæta keppni og þar komi skýrt fram, í 58 og 59. gr., að hver sú keppni sem er ekki í samræmi við lögbókina og í andstöðu við reglur stefnda sé ólögmæt og hafi þátttaka í slíkri keppni þær afleiðingar að keppandi sé sviptur keppnisskírteini sínu og útilokaður frá keppni um lengri eða skemmri tíma, sbr. og til hliðsjónar 118. gr. lögbókarinnar.

Í VIII. kafla  lögbókarinnar sé fjallað um keppnisaðila og ökumenn og um réttindi þeirra og skyldur megi finna reglu í þeim kafla svo og víðar í lögbókinni.

Það sé því ljóst af framansögðu, að stefnandi hafi brotið reglur stefnda, reglur sem kveði skýrt á um að slík brot varði sviptingu keppnisskírteinis. Svipting keppnisskírteinisins hafi því verið lögmæt og þegar af þeirri ástæðu sé skaðabótaskylda stefnda ekki fyrir hendi.

Bótakröfu stefnanda er mótmælt sérstaklega, tjón hans sé ósannað og krafa hans um miskabætur órökstudd og hafi enga lagastoð.

Stefnandi hefði verið þátttakandi í akstursíþróttum um langt árabil og þekkt eða átt að þekkja lög og reglur stefnda. Stefnandi hefði þar fyrir utan átt langan fund með forsvarsmanni stefnda þar sem farið hafi verið yfir allar reglur sem þetta varðaði og brýnt fyrir stefnanda að fara að lögum stefnda. Stefnandi hafi engu að síður tekið þá ákvörðun að hafa reglur stefnda að engu og brjóta þau skilyrði sem sett hefðu verið við umsókn og útgáfu keppnisskírteinis hans. Stefnandi hafi því sjálfur og einn tekið þá ákvörðun að geta ekki staðið við samning þann sem hann gerði við Ölgerð Egils Skallagrímssonar og er ekki við stefnanda að sakast um það.

Stefndi vísar til almennra sjónarmiða um þátttöku einstaklinga í frjálsum félögum, vald félagsstjórna vegna brota, þá vísar stefnandi til alþjóðlegu akstursíþrótta lögbókarinnar eftir því sem við eigi, laga fyrir stefnda, skaðabótalaga og 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi kröfu um málskostnað.

NIÐURSTAÐA

Fram kemur í gögnum málsins að stefnandi var ekki sammála þeirri túlkun forsvarsmanna stefnda að honum væri sem handhafa keppnisskírteinis frá stefnda óheimil þátttaka í mótum sem haldin væru á vegum annarra en stefnda. Var þessi afstaða hans ljós er hann fékk útgefið keppnisskírteini fyrir árið 2000. Verður ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi samþykkt þennan skilning stefnda er hann sótti um skírteinið. Eftir að einkaréttur stefnda til keppnishalds í akstursíþróttum var afnumin með reglugerð nr. 257/2000 samrýmdust ákvæði félagslaga stefnda ekki reglugerðinni með því að ákvæðin voru til þess fallin að halda við einokun stefnda á framkvæmd móta auk þess að skerða frelsi stefnanda til þess að stunda íþrótt sína og skerti möguleika hans á að hafa af því tekjur.

Fram kom hjá formanni stefnda að það að keppnin 25. júní var ekki haldin á vegum stefnda hafi verið nægjanleg ástæða til þess að lýsa keppni þessa ólöglega. Er ekki fram komið að fram hafi farið sjálfstæð athugun á því á vegum stefnda hvort reglur LÍA og þar með reglur samkvæmt Internartional Sporting Code hefðu verið brotnar við framkvæmd keppni í Jósefsdal 25. júní 2000 en keppnisskírteini stefnanda var innkallað í framhaldi af þátttöku hans í keppninni og ástæðan sögð sú að stefnandi hefði tekið þátt í ólöglegri keppni og þannig brotið gegn félagslögum.

Er keppnin 25. júní fór fram hafði framangreind reglugerð nr. 257/2000 um akstursíþróttir og aksturskeppni öðlast gildi. Við gildistöku hennar féll einkaréttur stefnda á keppnishaldi niður og það var ekki lengur skilyrði að lögum að við keppni væri alfarið farið að reglum stefnda um akstursíþróttir. Er ekki sýnt fram á það hér að við keppni þessa hafi verið brotið gegn ákvæðum reglugerðarinnar.

Eins og að framan greinir er ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi undirgengist það að hlíta túlkun forsvarsmanna stefnanda á því hverjar reglur giltu innan LÍA um þátttöku meðlima einstakra aðildarfélaga í keppni sem ekki var á vegum stefnda og einnig er það álit dómsins að eftir gildistöku reglugerðar nr. 257/2000 hafi skilyrði félagslaga um þátttöku meðlima í aðildarfélögum stefnda verið ólögmætt. Þá er ekki sýnt fram á að nefnd keppni hafi verið í andstöðu við reglugerð nr. 257/2000. Þykir því ekki sýnt fram á að skilyrði til þess að svipta stefnanda keppniskírteini hafi verið uppfyllt og verður á það fallist með stefnanda að keppnisbann það sem honum var gert hafi verið ólögmætt.

Stefnandi krefur um bætur vegna tjóns er hann hafi orðið fyrir vegna tapaðra tekna af auglýsingum vegna keppnisbanns þess sem honum var gert að sæta. Fallast má á það með stefnanda að hann hafi misst nokkurs í tekjum af auglýsingum og þykir mega ætla að tjóna hans hafi numið 750.000 krónum. Auk þess þykir hið ólögmæta keppnisbann hafa fólgna í sér meingerð gagnvart stefnanda og hæfilegar bætur þess vegna metnar 200.000 krónur. Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 950.000 krónur í bætur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Keppnisbann stefnanda Gunnars Egilssonar skv. yfirlýsingu dags. 7. júlí 2000 hvað varðar þátttöku í torfærukeppnum á vegum stefnda Landsambands íslenskra akstursíþróttafélaga er ólögmætt.

Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá dómsuppsögudegi  til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.