Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Dómsatkvæði

 

Föstudaginn 21. maí 2004.

Nr. 181/2004.

Ólafur H. Ingason

(sjálfur)

gegn

Emma ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Ó, varamaður í stjórn E ehf., kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni stjórnar félagsins um að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ó hafði ekki sótt þing í héraði þegar beiðnin var tekin fyrir. Brast því heimild til kæru málsins og var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. maí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2004, þar sem fallist var á beiðni stjórnar Emma ehf. um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu sóknaraðila er ekki vísað til kæruheimildar, en skilja verður málatilbúnað hans á þá leið að hann krefjist þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili, sem er varamaður í stjórn varnaraðila, kveðst kæra úrskurð héraðsdóms fyrir sína hönd og Magdalenu Kristinsdóttur, er eigi helmingshlut í félaginu. Reisir hann kröfu sína á því að ekki hafi verið farið að samþykktum félagsins þegar ákvörðun var tekin um að óska þess að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði þegar beiðni varnaraðila um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir 14. apríl 2004. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.

Í nokkrum dómum Hæstaréttar, meðal annars dómi í máli nr. 427/1992, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2028, voru ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. skýrð með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann veg að heimild brysti til kæru máls sem þessa þegar þannig stæði á. Ber samkvæmt því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2004.

                Emmi ehf., kt. 471292-2309, Lækjargötu 6a, Reykjavík, hefur óskað þess með bréfi dagsettu 7. apríl sl.  að bú félagsins verði tekið til gjaldþrotaskipta. 

                Í beiðni segir að félagið sé ógjaldfært, að það geti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína.  Ekki er ástæða til að rekja nánar málavaxtalýsingu í beiðni félagsins.  Verður bú þess tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Bú Emmi ehf., kt. 471292-2309, er tekið til gjaldþrotaskipta.