Hæstiréttur íslands
Mál nr. 696/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
- Gagnsök
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar frávísun gagnsakar sóknaraðila á hendur varnaraðila Sparisjóði Höfðhverfinga ses. og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að því leyti til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili höfðaði gagnsök 26. apríl 2017 gegn varnaraðilanum Sparisjóði Höfðhverfinga ses. og Sparisjóði Austurlands hf. og Reiknistofu bankanna hf. til réttargæslu, en mál varnaraðila Sparisjóðs Höfðhverfinga ses. gegn sóknaraðila og varnaraðilanum Sparisjóði Austurlands hf. hafði verið þingfest 28. mars sama ár. Í gagnsök gerir sóknaraðili þá kröfu að viðurkennt verði að hann sé réttur eigandi aðallega að 381.841 hlut, en til vara 375.655 hlutum, í Reiknistofu bankanna hf. sem hann keypti af Sparisjóði Austurlands með kaupsamningi 18. apríl 2016. Með greinargerð sem lögð var fram í héraðsdómi 13. júní 2017 krafðist varnaraðili Sparisjóður Höfðhverfinga ses. sýknu af kröfum sóknaraðila.
Með hinum kærða úrskurði var bæði aðalsök og gagnsök vísað frá dómi. Í úrskurði héraðsdóms var hvorki að finna umfjöllun um gagnsök sóknaraðila né var í forsendum hans vísað til ástæðna fyrir því að gagnsökinni væri vísað frá dómi. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er heimild til að hafa uppi gagnkröfu með gagnsök í einkamáli háð því að sú krafa sé annað hvort samkynja kröfu í aðalsök eða þær eigi báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Krafa sóknaraðila um viðurkenningu á eignarhaldi á hlutum í Reiknistofu bankanna hf. er samkynja og á rætur að rekja til sama atviks og aðalkrafan í skilningi þessa lagaákvæðis. Með því að gagnsök sóknaraðila fullnægir skilyrðum 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 og er ekki haldin neinum þeim annmörkum að varði frávísun án kröfu er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er tekur til gagnsakar sóknaraðila og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að því leyti til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar frávísun á gagnsök sóknaraðila, Mentis ehf., gegn varnaraðilanum Sparisjóði Höfðhverfinga ses. og Sparisjóði Austurlands hf. og Reiknistofu bankanna hf. til réttargæslu og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að því leyti til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2017.
Mál þetta var þingfest 28. mars sl. og tekið til úrskurðar 6. október sl. um frávísunarkröfu gagnstefnanda, Mentis ehf., Hverafold 31, Reykjavík. Aðalstefnandi er Sparisjóður Höfðhverfinga ses., Túngötu 3, Grenivík. Ásamt Mentis ehf. er Sparisjóði Austurlands, Egilsbraut 25, Neskaupsstað stefnt til varnar. Þá er Reiknistofu bankanna hf., Katrínartúni 2, Reykjavík, stefnt til réttargæslu í gagnsök.
Í þessum þætt málsins krefst gagnstefnandi þess að málinu verði vísað frá dómi og honum úrskurðaður málskostnaður. Aðalstefnandi krefst þess að frávísunarkröfu gagnstefnanda verði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaður vegna þessa þáttar málsins. Stefndi hefur ekki látið þennan þátt málsins til sín taka að öðru leyti en því að hann hefur áréttað kröfu sína um málskostnað. Réttargæslustefndi hefur engar kröfur uppi í málinu.
Í málinu hefur aðalstefnandi uppi svohljóðandi dómkröfu: „Stefnandi gerir þá kröfu á hendur stefndu Mentis ehf. og Sparisjóði Austurlands hf., að viðurkennt verði að stefnandi eigi forkaupsrétt að 381.841 hlut í í stefnda Reiknistofu bankanna hf., sem skráðir eru á nafn stefnda Sparisjóðs Austurlands hf. í hlutaskrá stefnda Reiknistofu bankanna hf., á verðinu kr. 4.148.869,- (krónur fjórarmilljónireitthundraðfjörtíuogáttaþúsundáttahundruðsextíuogníu) vegna kaupa stefnda Mentis ehf. á hlutunum af stefnda Sparisjóði Austurlands hf. samkvæmt kaupsamning [sic!] um framangreint hlutafé, dags. 18. apríl 2016.“
Tildrög málsins eru þau að með samningi 18. apríl 2016 seldi stefndi gagnstefnanda 381.841 hlut í réttargæslustefnda og var kaupverðið 4.148.869 krónur. Í 3. gr. samningsins sagði m.a. að seljandi skyldi afhenda kaupanda hið selda fimm dögum eftir að 30 daga forkaupsréttarfrestur samkvæmt gr. 2.8 í samþykktum réttargæslustefnda rynni út. Ágreiningslaust er að aðalstefnandi naut forkaupsréttar sem einn hluthafa í réttargæslustefnda samkvæmt samþykktum hans. Hins vegar heldur gagnstefnandi því fram, gegn andmælum aðalstefnanda, að sá síðarnefndi hafi ekki neytt forkaupsréttar innan 30 daga tímafrests samkvæmt samþykktum réttargæslustefnda, en einnig hafi hann ekki beint tilkynningu um nýtingu forkaupsréttarins til aðila sem var bær til að veita henni viðtöku. Snýst ágreiningur aðila þannig um það hvort aðalstefnandi hafi nýtt sér forkaupsrétt sinn eða hvort hann hafi fallið niður við lok áðurgreinds frests.
Frávísunarkrafa gagnstefnanda er því byggð að aðalstefnandi krefjist einungis viðurkenningar á því að hann „eigi forkaupsrétt“ að umræddum hlutum í réttargæslustefnda. Hins vegar sé þess ekki krafist að tilteknum hlutum verði afsalað til hans. Gagnstefnandi telur þessa tilhögun kröfugerðar aðalstefnanda vera í andstöðu við dómaframkvæmd. Þá bendir hann á að ef krafan yrði tekin til greina gæti aðalstefnandi allt að einu ekki krafist afhendingar hlutanna, svo sem markmið hans sé með málsókninni. Skorti aðalstefnanda því lögvarða hagsmuni af kröfu sinni að því leyti sem hún sé ekki til þess fallin að leiða ágreining aðila til lykta. Einnig telur gagnstefnandi að hagsmunir aðalstefnanda að þessu leyti séu vanreifaðir og vísar í því sambandi til d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Aðalstefnandi vísar til þess að honum sé heimilt að hafa uppi viðurkenningarkröfu samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Fyrir hendi sé raunverulegur ágreiningur aðila og sé ljóst að réttarstaða aðila muni breytast verði fallist á kröfu aðalstefnanda. Þá muni réttargæslustefndi ekki skrá eigendaskipti að fyrrgreindum hlutum nema að fengnum dómi í málinu, en aðalstefnandi hafi innt af hendi geymslugreiðslu vegna nýtingar forkaupsréttar síns. Kröfugerð aðalstefnanda sé skýr um að viðurkennt verði að hann hafi nýtt forkaupsrétt sinn með lögmætum hætti.
Niðurstaða
Í máli þessu er ekki ágreiningur um að forkaupsréttur aðalstefnanda hafi orðið virkur við tilkynningu um kaup gagnstefnanda á hlutum stefnda í réttargæslustefnda samkvæmt fyrrgreindum samningi 18. apríl 2016. Hins vegar er um það deilt hvort aðalstefnandi hafi nýtt sér forkaupsrétt sinn með lögmætum hætti þannig að hann sé nú í reynd eigandi umræddra hluta. Þrátt fyrir þetta krefst aðalstefnandi þess að viðurkennt verði að hann „eigi forkaupsrétt“ að þeim hlutum sem stefndi seldi gagnstefnanda með áðurgreindum samningi. Er þess hvorki krafist að viðurkennt verði að aðalstefnandi sé þegar eigandi að téðum hlutum, með vísan til þess að hann hafi neytt forkaupsréttar með lögmætum hætti, né að hlutunum verði afsalað til hans með aðfararhæfum dómi á sama grundvelli.
Augljóst er að 30 daga frestur samkvæmt samþykktum réttargæslustefnda er nú löngu liðinn vegna þess kaupsamnings sem gerður var 18. apríl 2016. Samræmist kröfugerð aðalstefnanda um að viðurkennt verði að hann „eigi forkaupsrétt“ að umræddum hlutum því hvorki málsástæðum hans um að hann hafi þegar nýtt sér forkaupsrétt sinn né yfirlýstu markmiði málssóknar hans um að leyst verði úr því hvort hann hafi í reynd gengið inn í kaup gagnstefnanda við stefnda með gildum hætti. Er krafa aðalstefnanda því svo óljós, og einnig í svo miklu ósamræmi við málatilbúnað að hans að öðru leyti, að ekki verður komist hjá því að vísa málinu í heild sjálfkrafa frá dómi, sbr. d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi úrskurðaður til að greiða gagnaðalstefnanda 200.000 krónur í málskostnað, en stefnda 150.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og þess að annað samkynja mál er rekið fyrir dóminum.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Aðalstefnandi, Sparisjóður Höfðhverfinga ses., greiði gagnstefnanda, Mentis ehf., 200.000 krónur í málskostnað, og stefnda, Sparisjóði Austurlands hf., 150.000 krónur í málskostnað.