Hæstiréttur íslands

Mál nr. 521/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Vitni


                                     

Mánudaginn 13. október 2008.

Nr. 521/2008.

B

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

dánarbúi A

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Dánarbú. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að tekin skyldi skýrsla af sóknaraðila fyrir héraðsdómi vegna skipta á dánarbúi eiginkonu hans. Jafnframt var sóknaraðila gert að hafa með sér við skýrslutökuna yfirlit yfir fjárvörslureikning sinn hjá tilgreindri bankastofnun á nánar tilgreindu tímabili en deilt var um hvort að inneign fyrrnefnds reiknings væri séreign sóknaraðila eða hjúskapareign. Í dómi Hæstaréttar sagði að um skýrslugjöf sóknaraðila færi eftir þeim ákvæðum sem á hverjum tíma giltu um skýrslugjöf fyrir héraðsdómi. Samkvæmt því færi nú um hana eftir ákvæðum VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eftir því sem átt gæti við. Sóknaraðili bæri fyrir sig ákvæði a.liðar 1. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Ákvæði þetta tæki samkvæmt beinu orðalagi sínu ekki til þess tilviks að aðili dómsmáls væri dánarbú maka þess sem undan skýrslugjöf vildi skorast. Gæti sóknaraðili þegar af þeirri ástæðu ekki hafnað því að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli ákvæða 52. gr. laga nr. 91/1991.  Þá yrði ekki séð af fyrirliggjandi gögnum að skorið væri úr um með óyggjandi hætti hvort að umrædd inneign væri séreign sóknaraðila eða hjúskapareign. Var því fallist á með varnaraðila að sóknaraðili gæti ekki skorast undan vitnaskyldu með því að fullyrða einhliða að upplýsingarnar vörðuðu eign sem væri séreign hans. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að tekin skyldi skýrsla af sóknaraðila fyrir héraðsdómi vegna skipta á dánarbúi eiginkonu hans. Jafnframt var sóknaraðila gert að hafa með sér við skýrslutökuna yfirlit yfir fjárvörslureikning sinn hjá Kaupþingi í Luxembourg á nánar tilgreindu tímabili. Kæruheimild er 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfu varnaraðila hafnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

A mun hafa látist [...] 2004. Yfir standa opinber skipti á dánarbúi hennar. Jafnframt dánarbússkiptunum fara fram skipti til fjárslita milli dánarbúsins og eftirlifandi maka hinnar látnu, sóknaraðila þessa máls. Erfingja greinir á um hvort ákveðnar eignir teljist séreignir eða hjúskapareignir sóknaraðila. Á árinu 2001 mun tiltekin upphæð hafa verið greidd inn á fjárvörslureikning sóknaraðila hjá Kaupþingi í Luxembourg og á árinu 2003 meiri fjármunir millifærðir á þann reikning. Sóknaraðili hafnaði með bréfi 29. apríl 2008 að veita skiptastjóra nánari upplýsingar um reikning þennan, en skiptastjóri varnaraðila telur að ekki sé unnt að taka afstöðu til hvað teljist séreign sóknaraðila og hvað hjúskapareign hans og til eignastöðu búsins í heild fyrr en þessar upplýsingar liggi fyrir. Með beiðni sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. júní 2008 óskaði skiptastjóri af þessu tilefni eftir að tekin yrði vitnaskýrsla af sóknaraðila fyrir dóminum og að honum yrði við vitnaleiðsluna gert að hafa með sér yfirlit yfir umræddan reikning á tilteknu tímabili. Með hinum kærða úrskurð var orðið við þeirri kröfu.

II

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 er þeim sem geta kallað til arfs eða gjafar úr búi og þeim sem hafa eignir þess í umráðum sínum skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni þess látna eða búsins sem hann krefst. Verði einhver þeirra sem getur í 1. mgr. ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar eða gögn má skiptastjóri samkvæmt 2. mgr. fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að hlutaðeignandi verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni. Skal farið eftir reglum „um meðferð einkamála í héraði“ um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem við getur átt.

Þegar frumvarp að núgildandi skiptalögum var til umfjöllunar á Alþingi voru í gildi lög nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Í greinargerð með frumvarpinu var vitnað til ákvæða þeirra laga um vitni. Samtímis því sem lög nr. 20/1991 öðluðust gildi 1. júlí 1992 tóku gildi ný lög um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þrátt fyrir framangreinda tilvísun í greinargerð til ákvæða eldri laga um meðferð einkamála í héraði eru engin rök til annars en að skilja ákvæði 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 svo að með þeim sé kveðið á um að fara skuli um skýrslugjöfina eftir þeim ákvæðum sem á hverjum tíma gilda um skýrslugjöf fyrir héraðsdómi. Samkvæmt því fer nú um hana eftir ákvæðum VIII. kafla laga nr. 91/1991, eftir því sem við getur átt. Sóknaraðili ber fyrir sig ákvæði a. liðar 1. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því ákvæði getur sá sem er eða verið hefur maki aðila dómsmáls skorast undan að gefa vitnaskýrslu. Ákvæði þetta tekur samkvæmt beinu orðalagi sínu ekki til þess tilviks að aðili dómsmáls sé dánarbú maka þess sem undan skýrslugjöf vill skorast. Sóknaraðili getur því þegar af þeirri ástæðu ekki hafnað því að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli ákvæða 52. gr. laga nr.  91/1991.

Sóknaraðili telur sig hafa lagt fram gögn við skiptameðferðina er sýni að inneign á umræddum reikningi sé séreign sín og falli því utan skiptanna. Við skiptin er uppi ágreiningur um hvort umrædd inneign sé séreign sóknaraðila eða hjúskapareign hans. Ekki verður séð að fyrirliggjandi gögn skeri úr um það með óyggjandi hætti. Verður því að fallast á með varnaraðila að sóknaraðili geti ekki skorast undan vitnaskyldu með því að fullyrða einhliða að upplýsingarnar varði eign sem er séreign hans. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.    

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, B, greiði varnaraðila, dánarbúi A, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

                                     Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2008.

Með beiðni móttekinni 24. júní 2008 hefur sóknaraðili, dánarbú A, farið þess á leit með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. að tekin verði vitnaskýrsla fyrir dóminum af varnaraðila, B. Þá er þess krafist, í samræmi við 5. mgr. 51. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 að varnaraðila verði gert að hafa með sér yfirlit yfir fjárvörslureikning hans hjá Kaupþingi í Luxembourg frá stofnun hans og fram til þess dags er vitnaskýrsla skal gefin, eða svo nálægt þeim degi sem mögulegt er.

Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að umbeðin skýrslutaka fari fram.

Málið var tekið til úrskurðar þann 26. ágúst 2008 að loknum munnlegum málflutningi.

Í beiðni sóknaraðila kemur fram að við skipti á dánarbúinu hafi komið upp ágreiningur varðandi það hvort ákveðnar eignir teljist séreignir eftirlifandi maka A, varnaraðila máls þessa, eða hjúskapareignir hans. Fram hafi komið að á árinu 2001 hafi verið greiddar kr. 10.000.000,- af reikningi varnaraðila inn á fjárvörslureikning hans hjá Kaupþingi í Luxembourg. Á árinu 2003 hafi meiri fjármunir verið millifærðir á þann reikning.

Varnaraðili hafi ekki viljað upplýsa nánar um þennan reikning hjá Kaupþingi í Luxembourg eins og óskað hafi verið eftir. Umboð varnaraðila vegna gagnaöflunar skiptastjóra, dags. 25. janúar 2008, sé takmarkað við reikninga á Íslandi. Með bréfi varnaraðila dags. 29. apríl 2008 hafi því endanlega verið hafnað að veita umræddar upplýsingar þar sem fjárvarsla varnaraðila hjá Kaupþing í Luxembourg falli utan skipta dánarbúsins og innborganir í hana andvirði séreignar.

Byggir sóknaraðili á því að ekki sé unnt að taka afstöðu til þess, né heldur eignastöðu búsins í heild, fyrr en þessar upplýsingar liggi fyrir. Til að meta allt framangreint sé skiptastjóra nauðsynlegt að fá upplýsingar um nefndan reikning, bæði innistæður og hreyfingar á reikningnum frá og með stofnun hans á árinu 2001 til dagsins í dag.   

Varnaraðili byggir mótmæli sín á því að honum sé óskylt að gefa upplýsingar um séreignir sínar og fjárvarsla varnaraðila hjá Kaupþing í Luxembourg falli þannig utan skipta dánarbúsins. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 52. skiptalaga fari um vitnaskyldu eftir lögum um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. þeirra laga geti maki eða fyrrverandi maki skorast undan að gefa vitnaskýrslu. Eigi slíkt ekki undir mat dómara.    

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skiptalaga nr. 20/1991 er þeim sem kalla til arfs eða gjafar úr búi og þeim sem hafa eignir þess í umráðum sínum skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni þess látna eða búsins sem hann krefst. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur skiptastjóri farið þess á leit að sá sem ekki verður við kröfu hans um upplýsingar eða gögn verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni. Skal þá farið eftir reglum um meðferð einkamála í héraði þ.á.m. um skyldu til vitnisburðar.

Í greinargerð með 52. gr. skiptalaga kemur fram varðandi 2. mgr. að viðkomandi skuli gefa skýrslu um málefnið eftir almennum reglum um vitni í lögum nr. 85/1936, sem eru hin eldri lög er giltu um meðferð einkamála í héraði. Samkvæmt 1. tl. 125. gr. þeirra laga var þeim sem var eða hafði verið maki aðila heimilt að skorast undan að gefa skýrslu að öllu leyti eða nokkru. Samkvæmt b-lið 2. tl. sömu greinar gilti þessi undanþáguréttur samkvæmt 1. tl. ekki ef vitnið var krafið um þær upplýsingar er þar greinir, þ.á.m. um athafnir sínar eða venslamanna varðandi þau fjármál þeirra er á venslunum byggðust.

Í núgildandi lögum um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991 kemur fram í a-lið 1. tl. 52. gr. að sá sem er eða hafi verið maki aðila geti skorast undan því að gefa vitnaskýrslu að öllu leyti eða einhverju. Í núgildandi ákvæði er ekki að finna frávik frá undanþáguréttinum líkt og var í b-lið 2. tl. 125. gr. eldri einkamálaga.  

Ljóst er að ákvæði 2. mgr. 52. gr. skiptalaga myndi engan veginn getað þjónað tilgangi sínum ef þeir sem farið væri fram á að gæfu vitnaskýrslu á grundvelli ákvæðisins gætu skorast undan því að gefa vitnaskýrslu á grundvelli ákvæða laga um meðferð einkamála. Myndi slíkt gera skiptastjóra mjög erfitt og í sumum tilfellum ómögulegt að afla nauðsynlegra upplýsinga.

Með vísan til þess sem að ofan er rakið er það niðurstaða dómsins að með þeirri breytingu sem gerð var varðandi vitnaskyldu með núgildandi lögum um meðferð einkamála, hafi það ekki verið tilgangur löggjafans að takmarka möguleika skiptastjóra á að afla nauðsynlegra upplýsinga í samræmi við 52. gr. skiptalaga. Ber því að taka kröfu sóknaraðila til greina líkt og í úrskurðarorði greinir.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

          Úrskurðarorð:

Umbeðin skýrslutaka af varnaraðila, B, skal fara fram. Varnaraðili skal við skýrslutökuna hafa með sér yfirlit yfir fjárvörslureikning sinn hjá Kaupþingi í Luxembourg frá stofnun hans og fram til þess dags er vitnaskýrsla verður gefin, eða svo nálægt þeim degi sem mögulegt er.