Hæstiréttur íslands

Mál nr. 242/1999


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Bókhald


___

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 14. október 1999.

Nr. 242/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Orra Árnasyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Bókhald.

O starfaði sem barþjónn á veitingahúsi og var skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri hlutafélagsins V sem annaðist rekstur hússins. V skilaði ekki virðisaukaskatti auk þess sem bókhald félagsins var í ólestri. Nokkru eftir að O lét af störfum á veitingahúsinu var bú V tekið til gjaldþrotaskipta. O var ákærður fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Sannað þótti í málinu að kjör O sem stjórnarmanns og ráðning hans sem framkvæmdastjóra hefðu verið til málamynda og hefði O í raun ekki haft með höndum fjármálastjórn fyrir V. Hefði verulegur hluti brotanna verið framinn eftir að hann lét af raunverulegum störfum sínum hjá V.

Talið var að O hefði af stórkostlegu gáleysi brotið gegn þeim skyldum sem hann hefði tekist á hendur með því að taka við stjórnarformennsku og framkvæmdastjórn fyrir V. Talið var að O bæri refsiábyrgð á fyrrgreindum brotum, þótt við ákvörðun refsingar mætti taka tillit til þess að brotin voru framin af gáleysi frekar en ásetningi. Var O dæmdur til greiðslu sektar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst sýknu og að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

I.

Sakargiftir í málinu eru vegna brota, sem framin voru í rekstri Vökva hf. síðustu mánuði ársins 1993 og á öllu árinu 1994. Var félagið stofnað 15. september 1993, en gögnum um stofnun þess ekki skilað til hlutafélagaskrár fyrr en 28. október sama árs. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 17. maí 1995. Frá síðari hluta árs 1993 og fram í byrjun árs 1995 rak félagið veitingastað, er bar nafnið „Tveir vinir og annar í fríi“. Fyrir og eftir þetta tímabil var sami veitingastaður rekinn í nafni tveggja annarra hlutafélaga, en bú þeirra voru einnig tekin til gjaldþrotaskipta, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi.

Fyrir stofnun Vökva hf. kveðst ákærði hafa starfað um nokkurt skeið við afgreiðslu á bar á veitingastaðnum. Starfsvið sitt hafi síðan breyst smám saman, þannig að fleiri verkefni færðust á hans herðar. Þegar meðákærða í héraði og eiginmaður hennar, sem hafi verið raunverulegir eigendur félagsins, fóru í leyfi til útlanda í lok árs 1993, hafi hann séð um rekstur veitingastaðarins fyrir þau. Hafi hann á þeim tíma haft símasamband við raunverulegu eigendurna eftir þörfum um reksturinn, þar á meðal um hvaða reikninga mætti greiða. Segist ákærði hafa hætt störfum á veitingastaðnum í byrjun janúar 1994 þegar þau komu heim úr leyfi. Hafi hann ekkert starfað þar eftir þann tíma.

Samkvæmt áðurnefndri tilkynningu til hlutafélagaskrár var ákærði einn þriggja stofnenda félagsins og formaður stjórnar þess. Var hann jafnframt framkvæmdastjóri og eini prókúruhafinn. Ákærði gerði engar ráðstafanir til að fá þessu breytt þegar hann lét af störfum hjá félaginu. Heldur ákærði fram að stjórnarseta sín, eignaraðild og framkvæmdastjórn hafi einungis verið til málamynda. Með þessu hafi hann leyft raunverulegu eigendunum að nota nafn sitt þar eð fjárhag þeirra hafi verið svo komið, að þau gátu ekki komið fram í eigin nafni við atvinnurekstur.

Í héraðsdómi segir, að ekki hafi verið hnekkt þeirri staðhæfingu ákærða að kjör hans sem stjórnarmanns og ráðning í stöðu framkvæmdastjóra hafi verið til málamynda. Situr við það mat héraðsdómarans, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og lögunum var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994. Verður samkvæmt því miðað við að ákvarðanir um fjárhagsleg málefni félagsins hafi verið teknar af öðrum en ákærða.

II.

Meðal málsgagna eru tvær virðisaukaskattsskýrslur vegna rekstrar Vökva hf. Eru þær annars vegar fyrir greiðslutímabilið nóvember til desember 1993 og hins vegar janúar til febrúar 1994. Skatturinn var ekki greiddur og virðisaukaskattskýrslum ekki skilað vegna rekstrar félagsins eftir það.

Þá liggur fyrir skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins 22. nóvember 1995 um rannsókn á bókhaldi, tekjuskráningu, launagreiðslum og skattskilum Vökva hf. og kæra sama embættis til ríkislögreglustjóra 22. október 1997. Þar kemur meðal annars fram að einungis takmörkuð bókhaldsgögn hafi verið afhent við rannsókn málsins og að engin skýring hafi fengist á því hvar verulegur hluti gagna um reksturinn væri niður kominn. Þá hafi ekkert bókhald verið fært á þeim tíma, sem ákæra tekur til.

Fyrir dómi hefur ákærði skýrt svo frá, að á meðan hann starfaði á veitingastaðnum hafi hann ásamt öðrum starfsmönnum átt aðgang að skrifstofuherbergi, þar sem gögn vegna starfseminnar hafi verið geymd. Hann hafi jafnframt verið í aðstöðu til að fylgjast með því hvaða tekjum reksturinn skilaði.

Er atvik málsins gerðust voru í gildi lög nr. 32/1978 um hlutafélög. Í IX. kafla laganna var að finna ákvæði um félagsstjórn og framkvæmdastjóra, sbr. einkum 52. gr. Sambærileg ákvæði eru nú í 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. fyrstnefndu laganna fór stjórn félags með málefni þess og skyldi hún sjá um að starfsemi þess væri jafnan í réttu og góðu horfi. Væri framkvæmdastjóri ráðinn fóru hann og stjórnin með það hlutverk. Í 3. mgr. sömu greinar var kveðið á um skyldu félagsstjórnar til að annast að nægilegt eftirlit væri haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Væri framkvæmdastjóri ráðinn skyldi hann meðal annars sjá um að bókhald þess yrði fært í samræmi við lög og venjur.

Ákærði var allan þann tíma, er ákæra tekur til, skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Vökva hf. Sem fyrr segir hlutaðist hann ekki til um að breyting yrði gerð þar á eftir að hann hvarf frá störfum í janúar 1994. Þótt á því verði byggt að tilkynning um stöðu hans í félaginu hafi verið til málamynda, breytti það engu um að hann var í lögskiptum við aðra en raunverulega eigendur félagsins fyrirsvarsmaður þess og bar þannig þær skyldur, sem mælt var fyrir um í tilvitnuðum ákvæðum þágildandi laga um hlutafélög. Hann bar því refsiábyrgð vegna þeirra brota, sem ákært er fyrir, og framin voru í starfsemi félagsins. Með aðgerðarleysi sínu vanrækti ákærði af stórkostlegu gáleysi þær skyldur varðandi bókhald félagsins, sem hvíldu á honum lögum samkvæmt sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Vökva hf. Með sama hætti hefur ákærði með stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskattskýrslum yrði skilað og skatturinn greiddur.

III.

Með háttsemi sinni hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, svo sem lögunum var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ákvæðinu með áorðnum breytingum þó ekki beitt við ákvörðun refsingar, heldur 1. mgr. 40. gr. fyrstnefndu laganna eins og hún hljóðaði er brotin voru framin. Við ákvörðun refsingar verður meðal annars litið til þess, ákærða til hagsbóta, að brot hans fólust í stórkostlegu gáleysi frekar en ásetningi, enda brotin í reynd flest framin eftir að hann lét af störfum hjá Vökva hf. Þá verður ekki talið að skilyrði séu uppfyllt til að beita fangelsisrefsingu auk sektar, sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, eins og greinin hljóðaði er atvik málsins gerðust. Verður ákærða því aðeins gerð sekt fyrir brot, sem um er getið í fyrri lið ákærunnar.

Ákærði hefur jafnframt brotið gegn 36. gr., sbr. 1., 2. og 5. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, svo sem þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 39/1995, að því leyti sem verknaður hans var í andstöðu við ákvæði I. og II. kafla áðurgildandi laga nr. 51/1968 um bókhald, sbr. lög nr. 47/1978, og 262. gr. almennra hegningarlaga á þeim tíma, sem brotin voru framin. Eru þá ekki skilyrði til að sakfella ákærða sérstaklega fyrir brot gegn ákvæðum laga nr. 144/1994 um ársreikninga vegna vanrækslu um að gera ársreikning fyrir félagið. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 51/1968 skyldi refsað fyrir brot gegn lögunum samkvæmt ákvæðum í almennum hegningarlögum, sbr. 262. gr. þeirra laga. Við ákvörðun refsingar verður ákærða til hags litið til sömu ástæðna og áður eru raktar varðandi fyrri lið ákæru. Verður honum samkvæmt því gert að greiða sekt fyrir brot samkvæmt síðari lið ákæru.

Við ákvörðun sektar verður að líta til þess verulega dráttar, sem varð á rannsókn málsins í höndum skattyfirvalda. Að því gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 45 daga fangelsi í stað hennar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Með vísan til 169. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999, verður ákærða gert að greiða þriðjung sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Orri Árnason, greiði 300.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 45 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði þriðjung sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, þar með talinn þriðjung málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem alls eru ákveðin 100.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. apríl 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 15. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í Dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-4/1999: Ákæruvaldið gegn Orra Árnasyni og Ragnhildi Jóhannsdóttur, sem dómtekið var 25. mars síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi.

Málið höfðaði Ríkislögreglustjórinn með ákæru útgefinni 29. desember 1998 á hendur ákærðu, Orra Árnasyni, kt. 070269-2959, Hamraborg 28, Kópavogi og Ragnhildi Jóhannsdóttur, kt. 170937-4229, Meistaravöllum 17, Reykjavík,

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Orra sem framkvæmdastjóra og stjórnarformanni og ákærðu Ragnhildi sem stjórnarmanni í hlutafélaginu Vökva, kt. 681093-2229, sem úrskurðað var gjaldþrota 17. maí 1995, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Kópavogi skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni hlutafélagsins á árunum 1993 og 1994 samtals að fjárhæð kr. 2.635.958 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1993

Nóvember – desember

kr. 248.050

kr. 248.050

Árið 1994

Janúar – febrúar

kr. 319.535

Mars – apríl

kr. 413.675

Maí – júní

kr. 413.675

Júlí – ágúst

kr. 413.675

September – október

kr. 413.675

Nóvember – desember

kr. 413.675

kr. 2.387.908

Samtals:

kr. 2.635.958

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.

II. Brot gegn lögum um bókhald og lögum um ársreikninga.

Ákærðu er einnig gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að halda lögboðið bókhald og að gera ársreikninga vegna rekstrar Vökva hf. á árunum 1993 og 1994.

Telst þetta varða við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 25. gr. laga nr. 51, 1968 um bókhald, sjá nú 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145, 1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37, 1995 um breytingu á þeim lögum, sbr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 1. tölul. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr. laga nr. 144, 1994 um ársreikninga, sbr. 3. gr. laga nr. 37, 1995 um breytingu á þeim lögum, sbr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.”

Ákærði Orri heldur uppi vörnum í málinu og krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds. Ákærða Ragnhildur játaði skýlaust alla þá háttsemi, sem henni er gefin að sök í ákæru og krefst vægustu refsingar, sem lög frekast heimila.

Málavextir.

Á hluthafafundi í Prentsmiðju Björns Jónssonar, sem haldinn var 1. ágúst 1992 að Laugavegi 45 í Reykjavík, var ákveðið að breyta nafni félagsins í Járnkallinn hf. Kári Waage, kt. 040459-5109, var kjörinn stjórnarformaður og ráðinn framkvæmdastjóri félagsins, en tilgangur þess var meðal annars rekstur veitingastaðarins ,,Tveir vinir og annar í fríi” að Laugavegi 45. Með bréfi til Hlutafélagaskrár 14. júní 1993 var tilkynnt um stjórnarskipti í félaginu og tók þá sonur ákærðu Ragnhildar, Jónas Sigurjónsson, kt. 250165-4989, við stjórnarformennsku og stöðu framkvæmdastjóra af Kára.

Járnkallinn hf. hætti rekstri 15. september 1993 við stofnun hlutafélagsins Vökva, sem yfirtók rekstur veitingastaðarins ,,Tveir vinir og annar í fríi” frá sama tíma. Samkvæmt gögnum málsins voru stofnendur Vökva og stjórnarmenn í hlutafélaginu mæðginin Jónas Sigurjónsson (varamaður í stjórn) og ákærða Ragnhildur, hvort með 31,25% hlutafjár og ákærði Orri með 37,5% hlutafjár. Segir í tilkynningu til Hlutafélagaskrár, sem þau undirrituðu öll eigin hendi, að 400.000 króna hlutafé hafi þegar verið greitt. Samkvæmt tilkynningunni var ákærði Orri kjörinn stjórnarformaður Vökva og jafnframt ráðinn framkvæmdastjóri félagsins, með prókúruumboð. Félagið var skráð til heimilis á lögheimili ákærða Orra að Hamraborg 28, Kópavogi.

Vökvi hf. hætti rekstri snemma árs 1995 og yfirtók einkahlutafélagið Kópur, kt. 550293-2269, rekstur veitingastaðarins ,,Tveir vinir og annar í fríi” frá sama tíma. Skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Kóps var Kristján Már Hauksson, kt. 060966-4789.

Bú Kóps ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 1997 og lauk skiptum í þrotabúinu 30. desember sama ár án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur að fjárhæð rúmlega fimm milljónir króna. Var þá lokið skiptum í þrotabúum Járnkallsins hf. og Vökva hf., sem einnig reyndust eignalaus; hið fyrra með lýstar kröfur að fjárhæð tæplega ellefu milljónir króna og hið síðara með lýstar kröfur að fjárhæð ríflega fimm milljónir króna. Kröfur í þrotabúin voru að stærstum hluta vegna ógreidds virðisauka­skatts og opinberra gjalda.

Við skýrslugjöf hjá skiptastjóra í þrotabúi Járnkallsins hf. kvaðst Jónas Sigurjónsson hafa unnið eins og hver annar launþegi á veitingastaðnum ,,Tveir vinir og annar í fríi” og ekki hafa haft nein afskipti af rekstri hlutafélagsins, en verið skráður stjórnarformaður þess að beiðni fósturföður síns, Gunnlaugs Vignis Gunnlaugssonar og í raun verið notaður sem leppur Gunnlaugs og móður sinnar, ákærðu Ragnhildar, í rekstri veitingastaðarins.

Við skýrslugjöf hjá skiptastjóra í þrotabúi Kóps ehf. lýsti Kristján Már Hauksson því með svipuðum hætti hvernig hann hefði lánað nafn sitt í stjórn félagsins í þágu raunverulegs eiganda, Gunnlaugs Vignis Gunnlaugssonar, sem verið hefði persónulega gjaldþrota. Kristján Már kvaðst ekkert hafa haft með fjármál veitingastaðarins að gera, en hann hefði unnið þar sem óbreyttur starfsmaður og þegið laun sem slíkur.

Ákærði Orri bar með líkum hætti við skýrslugjöf hjá skiptastjóra í þrotabúi Vökva hf. 15. ágúst 1995. Hann kvaðst hafa verið blekktur til að gerast fyrirsvarsmaður félagsins, en hefði lítið skipt sér af rekstri þess og aðeins gegnt störfum stjórnarformanns og framkvæmdastjóra til málamynda. Raunverulegir eigendur og rekstraraðilar hefðu verið meðákærða Ragnhildur og Gunnlaugur Vignir eiginmaður hennar og hefðu þau fjarstýrt veitingastaðnum ,,Tveir vinir og annar í fríi” í gegnum hann, en hjónin hefðu ekki mátt hafa prókúru vegna fyrri vanskila.

Ákærða Ragnhildur gaf skýrslu hjá skiptastjóra 27. nóvember 1995. Hún kvaðst hafa stjórnað og borið ábyrgð á rekstri Vökva hf. allt frá stofnun félagsins í september 1993. Ákærða kvað meðákærða Orra hafa verið með prókúru fyrirtækisins, en hún hefði gefið honum fyrirmæli um útskrift tékka af reikningi félagsins.

Ákærða Ragnhildur viðurkenndi við rannsókn og meðferð málsins að hafa borið ábyrgð á daglegum rekstri hlutafélagsins Vökva á því tímabili, sem ákæra tekur til. Hún kvað meðákærða Orra í upphafi hafa átt að taka að sér framkvæmdastjórn í félaginu, en þegar til hefði komið hefði hann ekki ráðið við þau verkefni, enda verið sjúklingur á greindum tíma. Ákærða hefði því annast daglega fjármálastjórn og tekið allar ákvarðanir varðandi rekstur veitingastaðarins ,,Tveir vinir og annar í fríi”, þar á meðal hvaða reikningar og gjöld skyldu greidd og hver ekki. Jafnframt hefði ákærða borið ábyrgð á bókhaldi hlutafélagsins, gerð ársreikninga og skattskilum. Meðákærði Orri hefði aldrei tekið neinar ákvarðanir um rekstur eða fjármálastjórn félagsins. Formlegir stjórnarfundir hefðu ekki verið haldnir og stjórn félagsins verið með þeim hætti að hún hefði sjálf séð um alla þætti rekstrarins. Ákærða kvaðst ekki minnast þess að hafa nokkru sinni rætt við meðákærða Orra um stöðu félagsins, vanskil á virðisaukaskatti og bókhaldsóreiðu. Hann hefði hins vegar sem prókúruhafi verið í þeirri aðstöðu að hafa getað fylgst með stöðu tékkheftisins og haft aðgang að bókhaldsgögnum á skrifstofu veitingastaðarins ,,Tveir vinir og annar í fríi”. Ákærða kvaðst ekki muna hvort skráð hlutafé í Vökva hf. hefði verið reitt fram af hálfu stofnenda félagsins.

Ákærðu voru sýnd staðfest ljósrit tveggja virðisaukaskattsskýrslna, fyrir tímabilin nóvember-desember 1993 og janúar-febrúar 1994. Hún kvaðst hafa borið ábyrgð á gerð nefndra skýrslna og sagði þær byggðar á bókhaldsgögnum viðkomandi tímabila. Ákærða kvað öðrum skýrslum ekki hafa verið skilað á því tímabili, sem ákæra tekur til, en taldi áætlanir rannsóknaraðila um vanframtalda virðisaukaskattskylda veltu og vangoldinn skilaskyldan virðisaukaskatt að fjárhæð krónur 2.635.958 vera hóflegar og fjárhæðir vart ofáætlaðar vegna greiðslutímabilanna mars-desember 1994. Ákærða kvaðst hafa ráðstafað hinum innheimta skilaskylda virðisaukaskatti í rekstur félagsins.

Ákærða kunni ekki skýringu á því af hverju bókhald hefði ekki verið fært og ársreikningar ekki gerðir vegna rekstrar Vökva hf. á árunum 1993 og 1994 og kvað mögulegt að einhver bókhaldsgögn hefðu týnst.

Ákærði Orri skýrði svo frá við rannsókn og meðferð málsins að hann hefði verið að vinna sem barþjónn á veitingastaðnum ,,Tveir vinir og annar í fríi” við stofnun hlutafélagsins Vökva. Fyrir sakir fákunnáttu hefði hann fallist á beiðni meðákærðu Ragnhildar og eiginmanns hennar um að vera skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins, en hann hefði aldrei lagt fé til stofnunar þess og þau hjónin fullyrt að um formsatriði væri að ræða til að halda veitingastaðnum gangandi og að hann þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af rekstrinum. Ákærði staðhæfði að hann hefði aldrei haft neitt með stjórn hlutafélagsins að gera og aldrei borið ábyrgð á daglegum rekstri veitingastaðarins. Hann hefði þó stöku sinnum séð um áfengisinnkaup, bókað hljómsveitir og tekið á móti fólki þegar ákærða og eiginmaður hennar voru ekki við. Þá hefði hann verið í fyrirsvari fyrir hjónin í desember 1993 er þau hefðu farið í frí til Flórida, en verið ,,í beintengdu sambandi við þau” varðandi alla ákvarðanatöku um rekstur veitingastaðarins.

Ákærði kvaðst ekki vera í stakk búinn til að tjá sig um ætluð brot á lögum um bókhald og lögum um ársreikninga og ekkert geta upplýst um ætluð vanskil á virðisaukaskatti. Ákærði vísaði til raunverulegra stjórnenda hlutafélagsins í því sambandi. Hann kvaðst þó hafa verið þess fullviss á þeim tíma er hann vann á veitingastaðnum ,,Tveir vinir og annar í fríi” að vanframtalin virðisaukaskattskyld velta hefði verið mun meiri en rannsóknargögn málsins gæfu til kynna. Ákærði kvaðst hafa látið af störfum á veitingastaðnum um áramót 1993/1994. 

Vitnið Kári Waage bar fyrir dómi að hann hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Járnkallsins hf., en ákærða Ragnhildur hefði engu að síður verið aðalstjórnandi félagsins ásamt eiginmanni sínum Gunnlaugi Vigni Gunnlaugssyni. Vitnið hefði hins vegar unnið á veitingastaðnum ,,Tveir vinir og annar í fríi” og einkum séð um ,,músíkhliðina” á rekstri staðarins. Vitnið kvaðst ekki hafa annast greiðslu reikninga, skil á vörslusköttum eða haft með höndum bókhald félagsins og gerð ársreikninga. Þau mál hefðu alfarið hvílt á herðum ákærðu og eiginmanns hennar.

Vitnið Kristján Már Hauksson bar fyrir dómi að hann hefði verið ráðinn af Kópi ehf. sem barþjónn á veitingastaðnum ,,Tveir vinir og annar í fríi”, en sökum einfeldni sinnar hefði hann fljótlega verið orðinn skráður framkvæmdastjóri staðarins og stjórnarformaður félagsins þrátt fyrir að hann hefði ekkert með rekstrarábyrgð eða stjórnun félagsins að gera.

Ekki náðist til Jónasar Sigurjónssonar og Gunnlaugur Vignir Gunnlaugsson var á sjúkrahúsi á aðalmeðferðardegi, en ráðgert hafði verið að þeir bæru vitni í málinu.

Niðurstöður:

Í málinu liggja ekki fyrir bókhaldsgögn vegna rekstrar hlutafélagsins Vökva á tímabilinu mars-desember 1994 og fá gögn vegna tímabilanna nóvember-desember 1993 og janúar-febrúar 1994. Aðeins tveimur virðisaukaskattsskýrslum var skilað, eins og áður er fram komið. Skattframtölum, ársreikningum eða öðrum skýrslum er skattframtölum skulu fylgja hefur ekki verið skilað vegna rekstraráranna 1993 og 1994. Við rannsókn málsins var því ekki unnt að byggja niðurstöður varðandi raunverulegar tekjur og gjöld Vökva hf. nema að óverulegu leyti á gögnum félagsins. Starfsemi Vökva hf. fólst í rekstri vínveitingastaðarins ,,Tveir vinir og annar í fríi” og voru því innkaup félagsins á áfengi og tóbaki hjá ÁTVR lögð til grundvallar útreikningum á raunverulegri veltu félagsins, sérstaklega á greiðslutímabilunum mars-desember 1994 en þá var virðisaukaskattsskýrslum ekki skilað. Jafnframt var tekið tillit til framburðar ákærðu Ragn­hildar um áfengissölu og veitta afslætti til hópa, litið til rýrnunar á aðkeyptum vörum og ekki tekið inn í útreikningana tekjur af sölu gosdrykkja, matvöru og vegna greidds aðgangseyris. Þykir því eigi óvarlegt að leggja forsendur og niðurstöður rannsóknaraðila til grundvallar við úrlausn málsins, en ákæru hefur ekki verið mótmælt tölulega af hálfu ákærðu.

Með afdráttarlausri játningu ákærðu Ragnhildar fyrir dómi, sem er í samræmi við rannsóknargögn málsins, er sannað að hún hafi sem stjórnarmaður í hlutafélaginu Vökva framið þau brot, sem lýst er í I. og II. kafla ákæru og þar eru rétt færð til refsiákvæða.

Af framburði ákærðu Ragnhildar er ljóst að hún hafi á því tímabili sem ákæra tekur til verið hinn eiginlegi stjórnandi Vökva hf., haft með höndum bókhald og skattskil félagsins og annast daglega fjármálastjórn og ákvarðanatöku varðandi rekstur veitingastaðarins ,,Tveir vinir og annar í fríi”. Meðákærði Orri var á sama tíma stjórnarformaður og skráður framkvæmdastjóri félagsins og hafði með höndum prókúruumboð. Bar ákærði því samkvæmt stöðu sinni einnig ábyrgð á stjórn og rekstri félagsins og bar að fylgjast með að bókhald væri fært, ársreikningar væru gerðir og staðin væru lögmælt skil á innheimtum skilaskyldum virðisaukaskatti. Breytir engu í þeim efnum þótt kjör ákærða sem stjórnarformanns og ráðning í stöðu framkvæmdastjóra hafi verið til málamynda, eins og ákærði heldur fram, en þeim framburði hans hefur ekki verið hnekkt fyrir dómi. Þá leysir það ákærða ekki undan refsingu þótt hann hafi látið af störfum hjá félaginu um áramót 1993/1994 eins og lagt verður til grundvallar í málinu, enda gegndi hann stöðu stjórnarformanns fram yfir næstu áramót þar á eftir. Eigi stoðar það heldur að bera fyrir sig fákunáttu og reynsluleysi í fyrirtækjarekstri, enda bar ákærða sem stjórnarmanni í félaginu að afla sér vitneskju um reksturinn og kynna sér ákvæði hlutafélagalaga um félagsstjórn og framkvæmdastjóra, sbr. einkum 52. gr. þágildandi laga nr. 32/1978, sbr. nú 68. gr. laga nr. 2/1995. Ber því einnig að sakfella ákærða Orra fyrir þau brot, sem lýst er í I. og II. kafla ákæru.

Refsingar:   

Brot ákærðu eru framin fyrir gildistöku laga nr. 42/1995 um breyting á refsiákvæðum nokkurra skattalaga, gildistöku laga nr. 145/1994 um bókhald, með síðari breytingum, gildistöku laga nr. 144/1994 um ársreikninga, með síðari breytingum og gildistöku laga nr. 39/1995 er fólu í sér breytingu á 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsinga ber engu að síður að styðjast við lögin svo breytt, þó þannig að ákærðu verður ekki gerð þyngri refsing en lög stóðu til á þeim tíma er brotin voru framin, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

Við ákvörðun refsinga ber auk framanritaðs að líta til sakaferils ákærðu og þess að langt er um liðið frá því ákærðu frömdu brotin. Þá verður einnig virt, að ákærða Ragnhildur gekkst greiðlega við brotum sínum og telja verður að ákærði Orri hafi skýrt hreinskilnislega frá málsatvikum að svo miklu leyti, sem honum voru þau ljós. Á hinn bóginn ber að líta til þess að sakir eru miklar og að ekki hafa verið gerð skil á umræddum virðisaukaskatti í ríkissjóð. Þá ber að horfa til brotavilja ákærðu Ragnhildar, sem var einbeittur, þess að hún hafði persónulegan ávinning af brotunum og þess að hún gerði ákærða Orra að lepp hlutafélagsins Vökva og veitingastaðarins, sem félagið rak. Má virða síðastgreint atriði til mildunar á refsingu ákærða Orra, en vanþekking hans á lögum er varða hlutafélög og rekstur fyrirtækja afsaka ekki það athafna­leysi, sem hann er sakfelldur fyrir, sbr. 3. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt framanröktu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða Orra hæfilega ákveðin fangelsi 2 mánuði og 500.000 króna sekt í ríkissjóð og refsing ákærðu Ragnhildar fangelsi 3 mánuði og 1.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Fullnustu dæmdra fangelsisrefsinga skal þó fresta og þær niður falla að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Greiði ákærðu á hinn bóginn ekki hvort fyrir sig dæmdar fjársektir innan 4 vikna frá dómsbirtingu skulu þau sæta vara­refsingu er nemi 60 daga fangelsi fyrir ákærða Orra og 90 daga fangelsi fyrir ákærðu Ragnhildi.

Samkvæmt 165. gr. og 1. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða Orra til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlendar Gíslasonar héraðsdómslögmanns, krónur 125.000 og ákærðu Ragnhildi til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, krónur 75.000. Þá greiði ákærði Orri einn 25.000 króna saksóknarlaun er renni í ríkissjóð, en sækjandi máls, Helgi Magnús Gunnarsson, er opinber starfsmaður í þjónustu ríkisins. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.

Dómsorð:

Ákærði Orri Árnason sæti fangelsi 2 mánuði.

Ákærða Ragnhildur Jóhannsdóttir sæti fangelsi 3 mánuði.

Fresta skal fullnustu greindra refsinga og þær falla niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Orri greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella fangelsi 60 daga.

Ákærða Ragnhildur greiði 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella fangelsi 90 daga.

Ákærði Orri greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlendar Gíslasonar héraðsdómslögmanns, krónur 125.000, og 25.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð.

Ákærða Ragnhildur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, krónur 75.000.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.