Hæstiréttur íslands
Mál nr. 573/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Áfrýjunarfjárhæð
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2003. |
|
Nr. 573/2002. |
Karl Pálsson(Jón Hjaltason hrl.) gegn Ferðamálasjóði (Jónatan Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám.Áfrýjunarfjárhæð. Kæruheimild. Fávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumanns um að stöðva fjárnámsgerð, sem K krafðist að næði fram að ganga hjá F. Var málinu vísað frá Hæstarétti þar sem höfuðstóll kröfunnar, sem leita átti fullnustu á hjá F, var undir áfrýjunarfjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2002, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 31. júlí sama árs um að stöðva fjárnámsgerð, sem sóknaraðili krafðist að næði fram að ganga hjá varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Hann krefst þess að framangreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að halda fjárnámsgerðinni áfram. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 13. desember 2002. Hann krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Sóknaraðili leitaði fjárnámsins, sem deilt er um heimild fyrir í málinu, með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 14. júní 2002. Samkvæmt beiðninni var höfuðstóll kröfunnar, sem leita átti fullnustu á hjá varnaraðila, 400.000 krónur. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994, verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. fyrrnefndu laganna og 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, svo sem slegið var föstu meðal annars í dómum Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1101 og dómasafni 1999, bls. 4662. Þegar sóknaraðili lýsti yfir kæru í málinu var áfrýjunarfjárhæð samkvæmt fyrstnefnda lagaákvæðinu 400.680 krónur. Brestur þannig skilyrði til kæru í málinu og verður að vísa því sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2002.
Sóknaraðili er Karl Pálsson, kt. 280368-5719, Austurströnd 6, Seltjarnarnesi.
Varnaraðili er Ferðamálasjóður, kt. 630179-0689, Hverfisgötu 6, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að sýslumaðurinn í Reykjavík haldi áfram og ljúki aðfarargerð nr. 011-2002-11531 á hendur varnaraðila, sem stöðvuð var samkvæmt ákvörðun sýslumanns 31. júlí 2002. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila og að því verði hafnað að gerð verði aðför hjá varnaraðila á grundvelli dóms Hæstaréttar í málinu nr. 16/2002. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað eftir mati dómsins.
Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að sóknaraðili var einn þriggja áfrýjenda í Hæstaréttarmáli nr. 16/2002, gegn varnaraðila, sem dæmt var 6. júní sl. Niðurstaða málsins var sú að eftirstöðvar skuldabréfakröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila og hinum tveimur aðilunum voru færðar niður í samtals 4.207.907 krónur miðað við stöðu þeirra 5. maí 1998. Hæstiréttur dæmdi jafnframt varnaraðila til að greiða hverjum áfrýjanda fyrir sig, þ.á m. sóknaraðila, 400.000 krónur í málskostnað. Með símskeyti varnaraðila til sóknaraðila, dags. 7. júní 2002, var lýst yfir skuldajöfnuði með eftirstöðvum kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gagnvart dæmdum málskostnaði í framangreindu Hæstaréttarmáli. Sóknaraðili sætti sig ekki við skuldajöfnuðinn og krafðist aðfarar hjá varnaraðila. Við fyrirtöku í því aðfararmáli, nr. 011-2002-11531, 31. júlí sl., mótmælti varnaraðili aðförinni á þeim grundvelli að krafan væri að fullu greidd með skuldajöfnuði og ákvað sýslumaður að stöðva gerðina með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili mótmælti stöðvun gerðarinnar og hefur vísað málinu til úrlausnar héraðsdóms og krafist þess að gerðin nái fram að ganga.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að heimildin fyrir aðför liggi ljós fyrir, dómsorð Hæstaréttar Íslands. Þar sé ljóst skilið á milli málskostnaðar í málinu annarsvegar og dómsniðurstöðunnar á efniskröfu málsins hins vegar, sem hafi verið færð niður í samtals 4.207.907 kr. miðað við stöðu skuldabréfanna 5. maí 1998. En þá hafi varnaraðili átt eftir að gera sér mat úr fasteignunum, sem hann hafi leigt út fyrstu tvö árin eftir uppboðið og síðan selt hóteleignina fyrir 22.000.000 kr.
Ljóst liggi því fyrir að krafa varnaraðila sé ekki aðfararhæf samkvæmt Hæstaréttardóminum og ekki hæf til skuldajafnaðar samkvæmt 40. gr. aðfararlaga. Málskostnaðarákvörðun Hæstaréttardómsins sé eina umbunin, sem sóknaraðili fái sjálfur fyrir að vinna málið í Hæstarétti eftir 4 ára málaferli ýmist í héraði eða fyrir Hæstarétti.
Hér megi einnig líta á aðildina. Samkvæmt Hæstaréttardóminum sé hverjum aðila um sig persónulega tildæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, en ekki þeim öllum saman, eins og þeir stóðu að málinu gegn varnaraðila. Þetta undirstriki enn betur að hver um sig eigi sitt og hér geti engin skuldajöfnuður átt sér stað.
Sóknaraðili byggir á því að við óvissa kröfu verði ekki skuldajafnað óaðfararhæfri kröfu samkvæmt 40. gr. aðfararlaga. Málskostnaðarkröfur geti í þessu máli ekki talist sambærilegar við höfuðstól kröfu, sem hafi verið færð niður með sama Hæstaréttardómi í 4.207.907 kr. og séu eftirstöðvar skuldabréfa 5. maí 1998. Kröfur þessar séu hvorki samkynja né sambærilegar né milli sömu aðila.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að hann eigi kröfu á hendur sóknaraðila sem numið hafi 4.207.907 kr. við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í framangreindu máli þann 6. júní sl. auk dráttarvaxta frá þeim tíma. Krafa varnaraðila sé dæmd krafa eins og skýrt komi fram í dómi Hæstaréttar og sé hún því aðfararhæf. Engar greiðslur hafi borist inn á kröfuna frá uppkvaðningu dómsins. Hafi skuldajöfnuður því verið heimill við aðför þar sem almennum skilyrðum um skuldajöfnuð hafi verið fullnægt auk þeirra skilyrða sem fram komi í 40. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Þótt litið yrði svo á að krafa varnaraðila sé ekki aðfararhæf þá hafi skuldajöfnuður samt sem áður verið heimill þar sem hann hafi átt sér stað áður en aðfararbeiðni barst sýslumanni og hafi skilyrði 40. gr. aðfararlaga ekki átt við á þeim tíma þegar skuldajöfnuður átti sér stað.
Því er mótmælt að skuldajöfnuður hafi ekki verið lögmætur sökum rangrar aðildar. Sóknaraðili hafi verið kröfuhafi að málskostnaðarkröfu þeirri sem skuldajafnað hafi verið gagnvart og jafnframt skuldari að kröfu þeirri sem skuldajafnað hafi verið með. Með vísan til framanritaðs beri að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu.
Niðurstaða
Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 16/2002, uppkveðnum 6. júní sl., á varnaraðili kröfu á hendur sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 4.207.907 krónur miðað við 5. maí 1998. Í því máli var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað. Með símskeyti dags. 7. júní 2002 lýsti varnaraðili yfir skuldajöfnuði með dómkröfu sinni á hendur sóknaraðila gagnvart dæmdum málskostnaði í málinu. Sóknaraðili hefur mótmælt skuldajöfnuði og krafist aðfarar hjá varnaraðila. Ágreiningur um framkvæmd þeirrar aðfarargerðar er til úrlausnar fyrir dóminum samkvæmt 14. kafla laga um aðför nr. 90/1989. Ágreiningsefnið er um það hvort uppfyllt séu skilyrði skuldajafnaðar.
Kröfur þær sem aðilar eiga hvor á annan samkvæmt framansögðu eru kröfur um greiðslu peninga og því sambærilegar. Um er að ræða gagnkvæmar og aðfararhæfar kröfur samkvæmt dómi sem eru hæfar til að mætast hvað greiðslutíma varðar. Eru því uppfyllt öll almenn skilyrði þess að skuldajöfnuður geti átt sér stað. Verður fallist á það með varnaraðila að til skuldajafnaðar hafi stofnast með yfirlýsingunni 7. júní 2002. Með því að skuldajöfnuður hafði þannig átt sér stað áður en til aðfarar kom reynir ekki sérstaklega á ákvæði 40. gr. aðfararlaga um skuldajöfnuð.
Samkvæmt framansögðu var sýslumanni rétt að stöðva framangreinda aðfarargerð nr. 011-2002-11531 og verður því ákvörðun hans þar um staðfest með vísan til 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 og er með þeim hætti fallist á kröfu varnaraðila í málinu, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að stöðva aðfarargerð nr. 011-2002-11531 hinn 31. júlí 2002.
Málskostnaður fellur niður.