Hæstiréttur íslands
Mál nr. 576/2013
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Uppgjör
- Fyrirvari
- Endurupptaka bótaákvörðunar
|
|
Fimmtudaginn 20. febrúar 2014. |
|
Nr. 576/2013.
|
Mímir Guðvarðarson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. og Einari Rúnarssyni (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Skaðabótamál. Uppgjör. Fyrirvari. Endurupptaka bótaákvörðunar.
M lenti í umferðarslysi og í kjölfarið var fengið álit um líkamstjón M vegna afleiðinga þess. Á grundvelli álitsins fór fram uppgjör skaðabóta en af hálfu M var ritað undir uppgjörið með almennum fyrirvara við mat á miska og varanlegri örorku. M höfðaði síðar mál gegn meðal annars T hf. og E og krafðist frekari skaðabóta. Krafan var reist á nýju áliti sem laut að áhrifum umferðarslyssins á heilsu M. Af hálfu M var ekki byggt á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, heldur á því að gerður hefði verið sérstakur fyrirvari við bótauppgjörið. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skýra yrði fyrirvarann svo að M hefði með honum áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði vegna síðari breytinga meiri en talið var í matinu sem áður hafði verið lagt til grundvallar uppgjöri skaðabóta. Fyrirvarinn yrði ekki skýrður svo að M hefði áskilið sér rétt til endurupptöku bótaákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að álit það sem M hafði aflað eftir uppgjör skaðabóta fæli í sér endurskoðun á því mati sem áður hafði verið framkvæmt en tæki hvorki til síðar fram kominna breytinga á metnum einkennum M né til mats á einkennum sem síðar hefðu komið fram þótt þau ættu sér orsök í slysinu. Þótti M því ekki hafa fært sönnur á að hann ætti rétt til endurskoðunar á bótauppgjöri vegna umferðarslyssins. T hf. og E voru því sýknuð af kröfum M.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 21. júní 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 7. ágúst sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 30. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér sameiginlega 2.601.595 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum af 658.623 krónum frá 12. nóvember 2003 til 12. febrúar 2004, af 2.601.595 krónum frá þeim degi til 4. maí 2012 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málinu hefur ekki verið áfrýjað gagnvart Bjarti Guðjónssyni, sem stefnt var til vara í héraði.
I
Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 12. nóvember 2003 er bifreið í eigu stefnda Einars var ekið á hann þegar hann hjólaði eftir gangbraut yfir nyrðri akbraut Miklubrautar við Lönguhlíð. Er atvikum að slysinu lýst í hinum áfrýjaða dómi. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafði veitt eiganda bifreiðarinnar ábyrgðartryggingu og er ekki ágreiningur um bótaskyldu stefndu á því tjóni, sem áfrýjandi ætti réttilega að fá bætt.
Áfrýjandi og stefndi Tryggingamiðstöðin hf. leituðu sameiginlega eftir því 28. febrúar 2007 við Guðjón Baldursson lækni og Ingvar Sveinbjörnsson lögmann að þeir létu í ljós álit á afleiðingum slyssins fyrir áfrýjanda og hvenær ekki hefði verið að vænta frekari bata af þeim meiðslum er hann hlaut í slysinu. Þeir skiluðu áliti 7. júní 2007 og töldu þar að batahvörf hefðu verið 12. febrúar 2004, þremur mánuðum frá slysdegi. Þeir töldu varanlegan miska vegna slyssins vera 5 stig og varanlega örorku 5%. Í áliti, sem þeir nefna matsgerð, svara þeir spurningum um afleiðingar slyssins. Þar sagði meðal annars: ,,Matsmenn álíta að Mímir hafi í þessu slysi hlotið tognunaráverka á [vinstra] hné og háls og að staðfest orsakasamhengi sé milli slyssins og líkamstjónsins. ... Við mat á varanlegum miska er miðað við tognunaráverka á [vinstra] hné og vægan tognunaráverka á háls og telst varanlegur miski hæfilega metinn 5 [stig] og er matið að hluta grundvallað á töflum örorkunefndar um miskastig. ... Í ljósi þess að um er að ræða stoðkerfiseinkenni telja matsmenn rétt að meta Mími lítils háttar varanlega örorku sem telst réttilega metin 5%.“ Að fenginni þessari niðurstöðu fór fram uppgjör skaðabóta á grundvelli hennar 20. júlí 2007. Af hálfu áfrýjanda var ritað undir uppgjörið með svofelldum fyrirvara: ,,Gerður er fyrirvari við mat á miska og varanlegri örorku.“
Áfrýjandi leitaði á árinu 2010 til Sigurjóns Sigurðssonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, vegna afleiðinga slyssins og í framhaldi af því var hann til skoðunar hjá Marinó Pétri Hafstein, sérfræðingi í taugalækningum. Í vottorði hins fyrrnefnda 6. janúar 2011 kom fram það álit að rétt væri að endurmeta afleiðingar slyssins þar sem einkenni áfrýjanda væru ,,töluvert mikið meiri“ en fram kæmi í fyrri vottorðum og mati. Í vottorði Marinós Péturs Hafstein 24. maí 2011 var látið í ljós það álit að áfrýjandi hefði einkenni um slæma tognun í hálsi, herðum og niður eftir öllu baki sérstaklega mjóbaki, en hann teldi sér ekki fært að meta hvort þessar tognanir væru afleiðingar umferðarslyssins 12. nóvember 2003. Áfrýjandi óskaði einhliða eftir því 30. nóvember 2011 við Björn Daníelsson lögmann og Stefán Dalberg lækni að þeir svöruðu tilgreindum spurningum um afleiðingar umferðarslyssins fyrir hann. Þess var meðal annars óskað að því væri svarað hvort heilsufar áfrýjanda hefði ,,versnað frá því mat fór fram á áverkunum í júní 2007 og var ófyrirséð að svo skyldi verða.“ Þá var spurt hver væri ,,varanlegur miski tjónþolans samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga vegna afleiðinga slyssins.“ Loks var spurt hver ,,væri varanleg örorka tjónþola vegna þeirra áverka sem tjónþolinn hlaut í slysinu.“ Í áliti þeirra Björns og Stefáns 4. apríl 2012 kom meðal annars fram, ,,að einkenni tjónþola í hálsi og vinstra hné hafi ekki versnað svo máli skiptir“ frá því að fyrra mat var gert. Þá töldu þeir að ekki væri nægilega fram komið að unnt væri að ,,tengja einkenni í baki beint við tjónsatburðinn skv. fyrirliggjandi gögnum.“ Um mat á varanlegum miska sagði: ,,Matsmenn miða við að varanlegur miski tjónþola vegna afleiðinga umferðarslyssins 12. nóvember 2003 sé rétt metinn samtals sem 12 stig ... Nánar tiltekið er miski vegna tognunareinkenna í hálsi metinn til 8 stiga og miski vegna tognunareinkenna í vinstra hné metinn til 4 stiga.“ Um mat á varanlegri örorku sagði: ,,Matsmenn miða við að tjónþoli hafi orðið fyrir varanlegri örorku vegna afleiðinga umferðarslyssins 12. nóvember 2003. Er hún talin vera rétt metin sem 12%.“
II
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 3. júlí 2012 og krafðist frekari skaðabóta vegna líkamstjóns þess sem hann hafi hlotið í umferðarslysinu og reisti þá kröfu á grundvelli áðurnefndrar niðurstöðu Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg en gerði í héraði einnig kröfu um miskabætur, sem hann taldi eiga stoð í 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Frá þeirri kröfu hefur hann fallið fyrir Hæstarétti. Í héraðsdómsstefnu kemur fram, sem áréttað var með málflutningsyfirlýsingu fyrir Hæstarétti, að krafa um endurskoðun á skaðabótauppgjöri sé ekki reist á 11. gr. skaðabótalaga, heldur á því að gerður hafi verið sérstakur fyrirvari við bótauppgjörið, sem valdi því að áfrýjandi sé ekki háður þeim skilyrðum, sem mælt er fyrir um í 11. gr.
Áður er lýst þeim fyrirvara, sem áfrýjandi gerði við uppgjör skaðabóta til hans 20. júlí 2007. Fyrirvarinn laut að mati á miska og varanlegri örorku. Engin gögn liggja fyrir um hvernig skýra eigi fyrirvarann, hvorki bréf þar sem gerð er grein fyrir hvers vegna hann hafi verið gerður né aðrar yfirlýsingar. Verður fyrirvarinn skýrður svo að áfrýjandi hafi með honum áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði meiri en talið var í áliti þeirra Guðjóns Baldurssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar vegna síðari breytinga. Eðli máls samkvæmt verður fyrirvarinn á hinn bóginn ekki skýrður svo að áfrýjandi hafi áskilið sér rétt til endurupptöku bótaákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt. Verður að gera þá kröfu að slíkir fyrirvarar og þeir sem lúta að tilteknum forsendum mats séu ótvíræðir, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 18. janúar 2007 í máli nr. 300/2006.
Í áliti Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg 4. apríl 2012 var beinlínis tekið fram að einkenni áfrýjanda í hálsi og vinstra hné hefðu ekki versnað svo máli skipti frá því að Guðjón Baldursson og Ingvar Sveinbjörnsson lögðu mat á afleiðingar slyssins á árinu 2007. Þá töldu þeir Björn og Stefán að ekki væri unnt að leggja til grundvallar að síðar fram komin einkenni áfrýjanda í baki yrðu tengd ,,beint við tjónsatburðinn“. Álit þeirra á varanlegum miska og varanlegri örorku felur því í sér endurskoðun á því mati sem gert var á árinu 2007 en tekur hvorki til síðar fram kominna breytinga á metnum einkennum áfrýjanda né til mats á einkennum sem síðar hafi komið fram þótt þau ættu sér orsök í slysinu.
Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi ekki fært sönnur á að hann eigi rétt til endurskoðunar á því bótauppgjöri, sem fram fór 20. júlí 2007, vegna fyrirvarans eða af öðrum ástæðum.
Þar sem áfrýjandi hefur þannig ekki öðlast kröfu um frekari bætur á hendur stefndu vegna slyssins þarf ekki að huga að því hvort sú krafa hafi fallið niður fyrir fyrningu. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefndu, Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og Einars Rúnarssonar.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms og ákvörðun um gjafsóknarkostnað skal vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 12. mars sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Mími Guðvarðarsyni, Flókagötu 35, Reykjavík á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 34, Reykjavík og Einari Rúnarssyni, Einarsnesi 50, Reykjavík, með stefnu birtri 3. júlí 2012. Í varaaðild er stefnt, Bjarti Guðjónssyni, áður Framnesvegi 56, Reykjavík, nú með óþekktu heimilisfangi í Noregi.
Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Einar Rúnarsson, verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 3.601.595 krónur, ásamt 4.5% ársvöxtum frá 12. nóvember 2003 af 1.658.623 kr. til 12. febrúar 2004, af 3.601.595 kr. frá þeim degi til 4. maí 2012, en frá þeim degi með dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, til greiðsludags.
Verði ekki orðið við ofangreindum dómkröfum gerir stefnandi í varaaðild þær dómkröfur að stefndi, Bjartur Guðjónsson, verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.601.595 krónur ásamt 4.5% ársvöxtum 12. nóvember 2003 af 1.658.623 kr., til 12. febrúar 2004, af 3.601.595 kr. frá þeim degi til 4. maí 2012, en frá þeim degi með dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, til greiðsludags.
Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu eins og að mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málavextir
Að kvöldi 12. nóvember 2003 slasaðist stefnandi í umferðarslysi. Var hann á reiðhjóli og hjólaði norður Lönguhlíð eftir gangbraut að vestanverðu. Á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar hjólaði hann yfir Miklubrautina á gangbraut og þegar hann var kominn inn á nyrðri akreinina varð hann fyrir bifreiðinni JF 516. Þeirri bifreið var ekið norður Lönguhlíð og hugðist ökumaðurinn beygja inn á Miklubrautina og aka til vesturs. Umferðarljós eru á þessum gatnamótum. Allir, ökumaður bifreiðarinnar, varastefndi, Bjartur og hjólreiðamaðurinn, stefnandi, munu hafa farið yfir gatnamótin á grænu ljósi. Undirgöng undir Miklubrautina eru á þeim stað sem stefnandi fór yfir götuna.
Stefnandi var fluttur á slysadeild og í sjúkraskrá segir að stefnandi hafi fengið milda áverka og verið lagður inn yfir nótt og útskrifast daginn eftir. Stefnandi gekkst ekki undir neina aðgerð á sjúkrahúsinu í kjölfar umferðarslyssins. Hinn 2. mars 2004 lenti stefnandi í óhappi í íshokkíleik. Fór hann þá á slysadeild og var í kjölfarið stungið í liðinn og blóðvökvi tæmdur þaðan og stefnandi settur í gips.
Þáverandi lögmaður stefnanda, og stefndi, TM, sammæltust um að fela þeim Ingvari Sveinbjörnssyni hrl. og Guðjóni Baldurssyni lækni að meta afleiðingar líkamstjóns sem tjónþoli varð fyrir vegna umferðarslyssins 12. nóvember 2003 og skyldi matið fara fram í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum. Niðurstaða matsmanna var að varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga væri 5% og varanleg örorka skv. 5. gr. laganna 5%. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka væri einnig 5%.
Hinn 20. júlí 2007 var gengið frá uppgjöri skaðabóta undirritaði lögmaður stefnanda skaðabótakvittunina með fyrirvara um mat á miska og varanlegri örorku.
Hinn 30. nóvember 2011 bað lögmaður stefnanda þá Björn Daníelsson lögfræðing og Stefán Dalberg lækni að meta afleiðingar umferðarslyssins 12. nóvember 2003. Matsgerð þeirra er frá 4. apríl 2012. Töldu þeir að varanlegur miski stefnanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri 12% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. sömu laga 12%.
Stefndi hafnaði matsgerð Björns og Stefáns og taldi að seinni matsgerðin hnekkti ekki fyrra mati þeirra Ingvars og Björns frá 7. júní 2007. Að fenginni þessari niðurstöðu stefndi stefnandi máli þessu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Endanlegur höfuðstóll dómkröfunnar er 3.601.595 kr. og sé hún sundurliðuð á dskj. 28. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar í aðalaðild á bótakafla umferðarlaga, einkum 88. gr. laganna, sbr. 90 gr., 91. og 95. gr., sbr. og 97. gr. laganna, en bótaskylda sé óumdeild. Um sé að ræða viðbótarbætur og byggir stefnandi í því efni á, að tekið hafi verið við greiddum bótum sem innágreiðslu með fyrirvara um réttmæti á mati á miska og varanlegri örorku, skv. þeirri matsgerð er uppgjörið hafi byggst á.
Frekari rökstuðningur: Stefnandi byggir dómkröfur sínar á, að greiddar bætur hafi verið mótteknar með fyrirvara. Samkvæmt því sérfræðimati sem stefnandi hafi aflað sér sjálfstætt hjá hlutlausum matsmönnum hafi bæði miski og varanleg örorka hækkað um 7%, en því mati hafi ekki verið hnekkt.
Stefnandi byggir dómkröfur og málsástæður sínar enn fremur á þeim lagarökum, að ein af meginreglum kröfuréttarins sé, að það skuli vera kröfuhafinn sem gefur út kvittun fyrir greiðslum skuldara til kröfuhafa, en ekki öfugt. Í þessu máli hafi það hins vegar verið skuldarinn, sem samið hafi kvittunina og gert það að skilyrði greiðslu skuldarinnar (skaðabótanna) til kröfuhafa, að þáverandi lögmaður stefnanda hafi skrifað undir án fyrirvara, sbr. það að um lokakvittun sé að ræða. Hér sé því einungis um að ræða einhvers konar greiðsluviðurkenningu kröfuhafa til skuldara, samkvæmt meginreglum kröfuréttarins. Byggir stefnandi og á, að samkvæmt efni skaðabótakvittunarinnar, eins og hún heiti, sé ekki um endanlega greiðslu að ræða, samkvæmt reglum kröfuréttarins, þar sem í kvittuninni sé fyrirvari um niðurstöðu þeirrar matsgerðar sem uppgjörið byggist á. Byggir stefnandi á að áverkar eftir slysið hafi í verulegum atriðum orðið meiri, en gengið hafi verið út frá við uppgjörið, samkvæmt því sérfræðimati sem nú liggi fyrir, þar sem bæði miski og varanleg örorka séu 12% en ekki 5%. Sé því um verulega hækkun að ræða. Þá byggir stefnandi einnig á, að ein af meginreglum kröfuréttar sé að kröfuhafi eigi rétt á að fá fullar efndir kröfu sinnar, nema sérstakar ástæður standi því í vegi, sem skuldari hafi sönnunarbyrði fyrir. Sé um þessa málsástæðu og vísað til IV. kafla í meirihluta ákvæðis Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 600/2011.
Byggir stefnandi og á að samkvæmt kvittuninni sé beinlínis verið að semja um, að reglur kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur, eigi að gilda varðandi uppgjörið. Hvergi í vátryggingasamningalögum sé tekið fram, að lög séu ekki frávíkjanleg varðandi efni samninga um ábyrgðartryggingar, þriðja manni í hag.
Um sérfræðimat og kröfubréf frá 4.apríl 2012: Stefnandi byggir á, að hann hafi sótt sérfræðimatið sem hann byggir á kröfur sínar, samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 37/1999, sem hafi verið breyting á þágildandi 10. gr. skaðabótalaga. Í greinargerð með 9. gr. laga nr. 37/1999 segi svo m.a.: „Aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og/eða miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf skv. 2. og 3. gr. laganna til þess að ljúka megi bótauppgjöri. Sérfræðilegt mat, sem annar málsaðila aflar, geti tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta borið undir örorkunefnd.“
Byggir stefnandi á, að þegar hann hafi aflað sérfræðimatsins, hafi hann verið búin að afla frekari læknisfræðilegra upplýsinga um áverka sína og afleiðingar umferðarslyssins en legið hefðu fyrir, er áverkar hans eftir slysið hafi verið metnir í hið fyrra skipti. Þá hafi sérfræðimatinu ekki verið hnekkt, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 375/2010.
Matsgerð Ingvars Sveinbjörnssonar og Guðjóns Baldurssonar frá árinu 2007: Stefnandi byggir á, að matsgerð þessi sé ekki gerð samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og sé því ólögmæt og að engu hafandi. Gera verði þá kröfu til sérfræðimatsmanna að þeir fari að lögum.
Byggir stefnandi á, að í matsgerð þeirra Ingvars og Guðjóns segi, að matið á miskanum sé að hluta til byggt á töflum örorkunefndar um miskastig. Í matsgerðinni sé ekki að finna nánari útfærslu á þessari staðhæfingu. Greinilegt sé að áverkar stefnanda séu ekki skýrlega tilgreindir og ekki færðir undir miskatöflur, þ.e. þá liði miskataflanna sem áverkarnir tilheyri, eins og hins vegar sé gert í sérfræðimatsgerð þeirra Björns Daníelssonar og Stefáns Dalbergs.
Byggir stefnandi á, að samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga, beri að færa áverka undir miskatöflur, en það komi skýrt fram í greinargerð með lögunum.
Af ofangreindum ástæðum byggir stefnandi á, að stefndu geti ekki byggt neitun um greiðslu frekari bóta á matsgerð þeirra Ingvars Sveinbjörnssonar og Guðjóns Baldurssonar. Miskatöflurnar séu ákveðnar réttarreglur, sem fara beri eftir við mat á miska og gera verði þá lágmarkskröfu, að í matsgerð komi fram, hvernig áverkar séu færðir undir þessar réttarreglur, þ.e. við hvaða liði í miskatöflum áverkarnir eigi.
Varanlega örorka: Stefnandi byggir á, að það hafi verið tilgangur skaðabótalaga frá upphafi, að allir sem líkamlega skerðingu hlytu af bótaskyldum verknaði, ættu rétt á lágmarksbótum fyrir varanlega örorku. Sé um það vísað til 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, fyrir þá breytingu sem gerð hafi verið á upphaflegu lögunum með lögum nr. 37/1999, en þá hafi greinin hljóðað svo: „Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. Bætur skulu ákveðnar sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska eftir reglum 1. -4. málsl. 1. mgr. 4. gr.“
Nú hljóðar 8. greinin svo skv. þeim breytingum sem gerðar hafi verið með lögum nr. 37/1999: „Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli örorkustigs skv. 5. gr. Bætur skulu ákveðnar eftir reglum 5.7. gr.“
Í greinargerð með 7. grein laga nr. 37/1999, sem fjalli um þessa breytingu á 8. gr. skbl. segi m.a: „Deilur hafa verið um gildandi fyrirkomulag á ákvörðun bóta til barna og tjónþola sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa litlar vinnutekjur. Bent hefur verið á mikla mismunun milli tjónþola eftir því hvort um bótaákvörðun fer samkvæmt reglum 5.7. gr. eða ákvæði 8. gr. Oft er vafasamt í hvorn dilkinn skuli draga einstaka tjónþola.“
Í greinargerð með 6. gr. laga nr. 37/1999, sem fjallar um breytingar á 7. gr. skbl. segi m.a. svo um 3. mgr. 7. gr: „Lagt er til að í 3. mgr. 7. gr. laganna verði tekin upp lágmarkslaunaviðmiðun, sem miðist við 1.200.000 kr. á ári eða 100.000 kr. á mánuði allt að 67 ára aldri. Lágmarkslaunaviðmiðunin lækki um 100.000 kr. fyrir hvert aldursár umfram 66 þar til 400.000 kr. viðmiðunarlaunum er náð, en lækki ekki eftir það. Framangreindar fjárhæðir miðast við verðlag 1. júlí 1993.“
Stefnandi byggir á að hér sé ekki um að ræða efnislega breytingu á 8. gr. upphaflegu skaðbótalaganna, öðruvísi en svo að bætur fyrir varanlega örorku séu ekki lengur miðaðar við miska, heldur ákveðin lágmarkslaun sem hækka samkvæmt lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, eins og bætur fyrir miska og þjáningabætur. Þá byggir stefnandi á að þær fylkingar sem falli undir 8. gr. upphaflegu skaðabótalaganna hefðu í upphafi verið þrjár, húsmæður, námsmenn og aðrir sem ekki nýttu vinnugetu sína þannig, að þeir hefðu tekjur. Byggir stefnandi á, að engin rök nái til þess að fella stefnanda ekki undir 8. gr. skaðabótalaga, en með því væri brotið bæði gegn jafnræðis- og eignarverndarákvæðum stjórnarskrár. Sé í þessu efni, varðandi brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár einnig vísað til dóms Hæstaréttar Íslands, frá 4. júní 1998 í málinu nr. 317/1997, sem hafi verið til hliðsjónar varðandi tilurð núgildandi 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og fram komi í greinargerð með lögum nr. 37/1999.
Stefnandi byggir auk þess á, að hann hafi, er hann hafi byrjað að vinna fyrir sér með líkamlegum störfum, fljótlega fundið til þeirra einkenna sem hann hafi orðið fyrir í því slysi sem mál þetta sé sprottið af. Áverkinn hafi því haft alvarlega afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda varðandi tekjumöguleika til framtíðar.
Fyrning: Í svarbréfi hins stefnda félags, frá 24.4.2012, beri félagið fyrir sig, að krafa stefnanda sé fyrnd, samkvæmt 99. gr. umferðarlaga þar sem 4 ár hafi liðið frá móttöku bótanna á sínum tíma og til þess tíma, er stefnandi geri reka að því að krefja um frekari bætur. Stefnandi mótmælir að svo sé, í fyrsta lagi, þar sem greitt hafi verið inn á bótakröfu stefnanda, 20. júlí 2007, en þar með hafi bótaskylda verið viðurkennd. Um leið hafi stefnandi gert fyrirvara um að um lokagreiðslu væri að ræða, þar sem tekið hafi verið við bótum með fyrirvara um réttmæti mats á varanlegum miska og varanlegri örorku og þar með fyrirvara um efndir skuldarans á kröfunni. Stefnandi byggir á, að vegna þessa hafi hann verið í rétti, hvenær sem væri innan 10 ára frá slysadegi, að krefja um viðbótarbætur, stæðu efnisleg rök til þess. Þannig hafi verið litið á mál eins og þetta hingað til, en í 99. gr. umferðarlaga sé einnig tekið fram að kröfur skv. bótakafla umferðarlaga fyrnist í síðasta lagi eftir 10 ár frá tjónsatburð. Þannig hafi bótakrafa stefnanda 10 ára líftíma.
Í öðru lagi byggir stefnandi á reglum kröfuréttar um upphafstíma fyrningarfrests, sem sé skv. 99. gr. og meginreglum kröfuréttar, þegar kröfuhafi fái vitneskju um kröfu sína og eigi þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Það hafi í fyrsta lagi verið þegar stefnandi hafi farið til Sigurjóns Sigurðssonar, bæklunarlæknis árið 2010 og síðan til Marínós P. Hafstein, taugalæknis og látið síðan meta áverkana á nýjan leik, samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga og stefnandi fái vitneskju um kröfuna. Byggir stefnandi í þessu efni á þeim sjónarmiðum sem fram komi í dómum Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 615/2007, frá 12. júní 2008, nr. 661/2007 frá 23.október 2008, nr. 259/2008 frá 19. febrúar 2009 og nr. 536/2008 frá 7.apríl 2009, sbr. og Hrd. 1996, bls. 1152. Þá byggir stefnandi á, að hið stefnda félag hafi verið bundið við þann fyrirvara sem stefnandi hafi gert við uppgjörið árið 2007, en það hafi ekki komið fram fyrr en árin 2011 og 2012, að fyrirvarinn hefði átt rétt á sér. Í þessu efni verði einnig að horfa til ungs aldurs stefnanda árið 2007 og að hann hafi fyrst er hann hafi farið að beita sér við líkamlega vinnu, orðið þess var að þau einkenni sem hann hafi fengið í umferðarslysinu árið 2003 háðu honum verulega.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á að samkvæmt bæði 99. gr. umferðarlaga og þeim fyrningarlögum sem í gildi hafi verið er slysið varð, lögum nr. 14/1905, hafi krafa stefnanda orðið til á slysadegi, hinn 12. nóvember 2003 og þar með haft líftíma til 12. nóvember. 2013. Greitt hafi verið inn á kröfuna hinn 20. júlí 2007, en innan 4 ára frá þeim tíma hafi stefnandi hafist handa varðandi þá kröfu sem gerð sé í þessu máli, en þegar í september 2010 hafi stefnandi farið til Sigurjóns Sigurðssonar, bæklunarlæknis og í apríl 2011 til Marínós P. Hafstein taugalæknis. Fyrsta bréf lögmanns stefnanda til TM sé frá 29. maí 2011. Byggir stefnandi á að hið stefnda tryggingafélag hafi með atferli sínu viðurkennt tilvist kröfuréttar stefnanda, samanber þau sjónarmið sem fram komi í 14. gr. laga nr. 150/2007, sbr. og 1. mgr. 9. gr. sömu laga, þar sem félagið hafði í bréfum sínum til lögmanns stefnanda, hinn 4. júlí 2011, ekki uppi mótmæli gegn tilvist kröfunnar á annan hátt en þann, að ekki væri líklegt að mat á áverkunum yrði hærra, en þegar hefði verið metið og að bakáverkar hefðu ekki orsakasamband við slysið í nóvember 2003.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á, að nýr 4 ára fyrningarfrestur hafi ekki getað byrjað að líða, hinn 20. júlí 2007 (31. desember 2007), þar sem krafa stefnanda hafi þá ekki getað fallið niður þegar 4 ár hafi verið liðin frá slysadegi eða hinn 12. nóvember 2007 eða sé miðað við stöðugleikatímapunkt í mati þeirra Ingvars og Guðjóns, hinn 12. febrúar 2008 (31. desember 2008), þar sem krafan hafði 10 ára líftíma. Þá hafi bætur til stefnanda, sem greiddar hafi verið hinn 20. júlí 2007, verið teknar með fyrirvara, sem falið hafi í sér að endurupptaka bótaákvörðunar hafi verið stefnanda heimil á 10 ára líftíma kröfunnar, sbr. áður. Enda hafi hið stefnda tryggingafélag ekki sett fyrirvaranum nokkur mörk eða gert mótfyrirvara. Byggir stefnandi þessa málsástæðu sína að hluta til á þeim sjónarmiðum, sem rakin séu í greinargerð með 11. gr. skaðabótalaga, enda þótt ekki sé í máli þessu byggt á að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því að uppgjör fór fram í júlí 2007. Byggt sé á að þrátt fyrir það verði að horfa til þess að um verulega hækkun sé að ræða á miska og varanlegri örorku, þ.e. úr 5% í 12%. Einnig verði í þessu sambandi að taka á þeirri málsástæðu stefnanda, að matsgerð þeirra Ingvars Sveinbjörnssonar og Guðjóns Baldurssonar sé markleysa.
Að síðustu byggir stefnandi á að sá sem beri fyrir sig fyrningu hafi alla sönnunarbyrði í því efni.
Helstu málsástæður í varaaðild: Stefnandi gerir í varaaðild skaðabótakröfur á hendur Bjarti Guðjónssyni, sem ökumanni bifreiðarinnar JF 516, er slysið varð, til greiðslu þeirra dómkrafna sem að ofan greinir, þ.e. sömu dómkröfur og í aðalaðild. Dómkröfur í varaaðild séu tölulega byggðar upp á sama hátt og í aðalkröfu. Verði stefndu í aðalsök sýknaðir, byggir stefnandi á málsástæðum í varaaðild og einnig ef stefndu í aðalaðild verða sýknaðir að hluta. t.d. af skaðabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Byggir hann á að þá standi eftir að stefndi, Bjartur, sé ábyrgur fyrir þeim bótaþætti. Byggir stefnandi á, í þessum þætti málsins, að stefndi, Bjartur, eigi sök á líkamstjóni stefnanda skv. hinni ólögfestu sakarreglu skaðabótaréttar.
Byggir stefnandi á, að stefndi, Bjartur, hafi með athæfi sínu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, en hann hafi brotið gegn grundvallarreglum umferðarlaga um varúðarskyldu ökumanna, svo sem 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga og 5. gr. laganna, sem og 2. mgr. 15. gr. laganna. Þá vísar stefnandi sérstaklega til 26. gr. umferðarlaga í heild sinni, sem og til 36. gr. sömu laga. Stefndi, Bjartur, hafi fyrir lögreglu viðurkennt að hafa ekið á stefnanda, þar sem hann hafi verið á hjóli sínu að hjóla yfir gangbraut samkvæmt heimild með grænu ljósi. Ljóst sé því t.d. að hann hafi ekki virt stöðvunarskylduna, áður en hann hafi ekið út aðreinina að Miklubrautinni.
Byggir stefnandi á að það græna ljós sem logað hafi á umferðarljósi við gatnamótin gegnt ökumanni bifreiðarinnar JF 516 hafi einungis heimilað ökumanni að aka yfir gatnamótin, þ.e. eftir Lönguhlíð (þ.e. yfir Miklubraut eftir Lönguhlíð). Aðrar umferðarreglur hafi gilt varðandi akstur á hliðarakrein, til að aka norður eða vestur Miklubraut, en þar hafi verið fyrir gangbraut fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur (stöðvunarskylda), enda viðurkenni ökumaðurinn að hafa séð vegfarendur þar á ferð. Þá viðurkenni ökumaður að hafa ekið á 60 km/hraða og greinilegt sé á lögregluskýrslu að hraðinn hafi verið mikill, samanber framburð stefnanda. Byggir stefnandi á að akstur stefnda, Bjarts, hafi verið stórkostlegt gáleysi, en jafna megi akstri hans yfir gangbraut, þar sem hafi verið gangandi vegfarendur, við að aka yfir gatnamót á rauðu ljósi. Þannig varði brot hans á umferðarlögum við a lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi byggir einnig á, að brot stefnda, Bjarts, varði við 2. mgr. 26. gr. sem ólögmæt meingerð, þar sem verulegt gáleysi hans hafi valdið stefnanda líkamsspjöllum, verði ekki talið að um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða, en brot stefnda, Bjarts, á ofangreindum umferðarlögum varði örugglega refsingu samkvæmt 100. gr. umferðarlaga.
Þannig beri stefndi, Bjartur, skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda, samkvæmt almennu skaðabótareglunni og sé skylt að bæta líkamstjón stefnanda. Geti hann ekki skorast undan ábyrgð, þó hann hafi valdið tjóninu með akstri bifreiðar, sem í þessu tilviki hafi einungis verið hættulegt tæki, sem hann hafi ekki stjórnað með nægilegri varúð. Kröfur á hendur varastefnda byggi stefnandi því ekki á því bótahagræði, sem felist i 88. gr. umferðarlaga, heldur einungis á almennu skaðabótareglunni.
Byggir stefnandi á, að samkvæmt málsforræðisreglu laga um meðferð einkamála sé honum frjálst að byggja kröfu sina á þeim lagareglum, sem honum séu hagstæðastar. Byggir stefnandi jafnframt á, að ekki sé í XIII. kafla umferðarlaga kveðið á um, að tjónþoli vegna umferðarslyss, verði að byggja bótakröfu sína á 88. gr. umferðarlaga og þeirri hlutlægu bótareglu, sem í þeirri lagagrein felist. Í umferðarlögum sé skýrlega kveðið á um, að það sé eigandi bifreiðar, sem beri ábyrgð á akstri hennar, þó að ökumaður bifreiðarinnar valdi tjóninu, sbr. efni 88. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Þá sé í 99. gr. umferðarlaga tekið fram, að allar kröfur á hendur þeim, sem ábyrgð beri samkvæmt XIII. kafla og tryggingafélagi fyrnist á 4 árum, frá því að tjónþoli hafi átt þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Byggir stefnandi á að 99. gr. umferðarlaga eigi ekki við um skaðabótaábyrgð ökumanns samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Byggir stefnandi á, að til þess að svo verði talið, hefði þurft að taka það fram með skýrum hætti í XIII. kafla umferðarlaga.
Þá byggir stefnandi á, að í 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga sé að finna þá reglu, að hver sá sem beri sök á tjóni, sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, beri fébótaábyrgð samkvæmt almennum skaðabótareglum. Ákvæði þetta sé sett ex tuto til þess að ekki fari milli mála, að bótaákvæði umferðarlaga skerði ekki að neinu leyti þann rétt, er tjónþoli kunni að eiga samkvæmt almennu skaðabótareglunni á hendur ökumönnum ökutækja og öðrum aðilum.
Þá byggir stefnandi kröfur sínar á varastefndu einnig á jafnræðisreglunni, en réttur hans til skaðabóta geti ekki verið lakari en ef hann hefði til dæmis slasast í vinnuslysi, þar sem vinnuveitandi hafi borið sök vegna gáleysis starfsmanna sinna. Eigi þessi sjónarmið ekki síst við í varaaðild þessa máls, þar sem stefnandi byggir kröfur sínar ekki á þeirri hlutlægu ábyrgð, sem felist í 88. gr. umferðarlaga, heldur á hinni ólögfestu sakarreglu (almennu skaðabótareglunni). Jafnframt byggir stefnandi á, að ekki megi svipta hann þeim rétti að krefja þá, sem valdið hafi honum tjóni með saknæmum hætti, um bætur fyrir líkamstjón sitt. Til þess þurfi skýrar reglur í settum lögum og vísar stefnandi því til grundvallar til jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár, samanber 72. gr. stjórnarskrár, og einnig til meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Gerir stefnandi kröfu til að skýrlega verði tekið á þessari málsástæðu, þar sem um stjórnarskrárvarinn rétt sé að ræða.
Þá vísar stefnandi í varaaðild til þeirra tölulega útlistana og málsástæðna sem settar séu fyrir dómkröfum stefnanda hér að ofan, en dómkröfurnar séu tölulega eins uppsettar og eins að uppbyggingu. Einnig sé byggt á málsástæðum í aðalaðild eftir því sem við á.
Málsástæður og lagarök stefnda
Kröfur stefnanda eru fyrndar. Í fyrsta lagi byggja stefndu sýknukröfu sína á að dómkröfur stefnanda séu fyrndar. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar kröfur á hendur þeim, sem ábyrgð beri, og á hendur vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi hafi fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Hæstiréttur hafi í dómum sínum miðað fyrningarfrest við það tímamark þegar heilsufar tjónþola hafi orðið stöðugt (stöðugleikapunktur) eða þegar tjónþola hafi verið vísað til sérfræðings, sbr. Hrd. 661/2010 og Hrd. 615/2007.
Stefnandi hafi, sem fyrr segir, orðið fyrir umferðarslysi 12. nóvember 2003. Samkvæmt matsgerð Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. og Guðjóns Baldurssonar, hafi matsmenn álitið að eftir 12. febrúar 2004 hafi ekki orðið neinar breytingar á heilsufari stefnanda og taldist sú dagsetning því vera stöðugleikapunktur. Með því sé átt við að á þessum tímapunkti sé heilsufar stefnanda orðið stöðugt og að hann nái ekki frekari bata. Með hliðsjón af þessu sé því aðallega haldið fram að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða í árslok 2004 og fyrningarfresti hafi lokið í árslok 2008. Kröfur stefnanda hafi verið settar fram innan fyrningarfrestsins og gerðar upp á árinu 2007. Allar kröfur sem stefnandi setji fram eftir árið 2008 séu því fyrndar.
Verði ekki fallist á að fyrningarfrestur byrji að líða frá árslokum 2004 sé því haldið fram að fresturinn teljist frá árslokum 2007 og honum hafi lokið 2011. Þessu til stuðnings sé vísað til læknisvottorðs Sigurjóns Sigurðssonar frá 6. janúar 2007, en þar komi fram að langur tími sé frá því að áverkinn átti sér stað og að ekki sé hægt að vænta frekari bata. Því sé, að mati læknisins, tímabært að meta afleiðingar slyssins. Í framhaldi hafi farið fram mat samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga og varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda metin. Í matsgerð þeirra Björns Daníelssonar og Stefáns Dalbergs, komi fram að batahvörfum stefnanda vegna afleiðinga umferðarslyssins 12. nóvember 2003 sé fyrir löngu náð. Enn fremur hafi matsmenn miðað við að einkenni stefnanda í hálsi og vinstra hné hafi ekki versnað svo máli skipti frá því að örorkumat Ingvars Sveinbjörnssonar og Guðjóns Baldurssonar hafi farið fram hinn 7. júní 2007. Það hafi því verið á árinu 2007 sem stefnanda hafi verið í síðasta lagi kunnugt um allar afleiðingar tjónsins. Þá hafi verið framkvæmt mat samkvæmt skaðabótalögum og tjónið gert upp, sbr. skaðabótakvittun frá 20. júlí 2007. Fyrningarfresturinn hafi þá byrjað að telja frá árslokum 2007 og hafi honum lokið í árslok 2011. Kröfur stefnanda hafi því verið fallnar niður fyrir fyrningu þegar mál þetta hafi verið höfðað.
Skaðabótakvittunin hafi verið lokagreiðsla tjónsins. Eins og fram komi á skaðabótakvittuninni frá 20. júlí 2007, hafi hún falið í sér fullnaðar- og lokagreiðslu stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar á tjóni stefnanda og sé því lýst yfir með undirritun lögmanns stefnanda á kvittunina að þar með séu allar kröfur vegna málsins að fullu greiddar. Á skaðabótakvittuninni komi fram að lögmaður stefnanda hafi gert fyrirvara um mat á miska og varanlegri örorku. Fyrirvarinn sé augljóslega gerður með hliðsjón af 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en þar sé kveðið á um að þegar fyrir liggi sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða þá læknisfræðilegum þætti skv. 2. og 3. gr. sem meta þurfi til þess að uppgjör bóta samkvæmt skaðabótalögunum geti farið fram, geti hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd. Stefnandi hafi kosið að nýta sér ekki fyrirvarann og hafi matsgerðin ekki verið borin undir örorkunefnd. Síðan hafi liðið heil fjögur almanaksár og frekari kröfur því fyrndar ekki seinna en í árslok 2011.
Matsgerðirnar frá 2007 og 2012. Í málinu liggi fyrir tvær matsgerðir, önnur frá 7. júní 2007, unnin af Ingvari Sveinbjörnssyni hrl. og Guðjóni Baldurssyni lækni, og hin frá 4. apríl 2012, unnin af Birni Daníelssyni hdl. og Stefáni Dalberg lækni. Um mat á varanlegri örorku í seinni matsgerðinni segir svo: „Matsmenn miða við að einkenni tjónþola á hálsi og vinstra hné hafi ekki versnað svo máli skipti frá því örorkumat Ingvars Sveinbjörnssonar og Guðjóns Baldurssonar fór fram þann 7. júní 2007. Er þá m.a. borin saman hreyfiskerðing í fyrrnefndri matsgerð við læknisskoðun á matsfundi sem og læknisskoðun í læknisvottorði Sigurjóns Sigurðssonar, dags. 15. janúar 2007.“
Ljóst sé því að um er að ræða endurmat á sömu áverkum og einkennum og í fyrra mati. Ekki verði annað séð en skoðun á hálsi og lýsing einkenna sé með svipuðum hætti og hafi verið á matsfundi árið 2007. Samt sem áður hafi Björn og Stefán komist að því að varanlegur miski og varanleg örorka skuli vera 12% en Ingvar og Guðjón mátu miskann og örorkuna til 5 stiga. Það sé afstaða stefndu að seinni matsgerðin hnekki í engu þeirri fyrri og hafna stefndu þessari matsgerð. Þessu til viðbótar skuli eftirfarandi áréttað. Stefnandi hafi nánast frá slysdegi stundað áreynsluíþróttir af miklu kappi. Stefnandi hafi laskast illa á vinstra hné í íshokkíleik rúmum þremur mánuðum eftir umferðarslysið. Hann hafi auk þess stundað körfubolta og hnefaleika. Báðar íþróttirnar krefjast mikillar hreyfigetu og snerpu. Þá hafi hann keppt og unnið til verðlauna í fitness, sem er ein tegund vaxtaræktar. Eins og fyrirliggjandi ljósmynd af stefnanda sýni þurfi mikla þjálfum og áreynslu til að koma líkamanum í það form sem þar sé sýnt. Í læknisvottorði Sigurjóns Sigurðssonar, dags. 6. janúar 2011, komi fram að ástand stefnanda hafi versnað eftir fyrra matið og hafi læknirinn talið töluverðan mun á líðan hans þá frá því hann hafi gefið út læknisvottorð 15. febrúar 2007. Því hafi læknirinn talið réttlátt að endurmeta afleiðingar slyssins. Það virðist nokkuð ljóst að þeir læknar og matsmenn sem hafi meðhöndlað stefnanda hafi ekki haft undir höndum öll gögn um sjúkrasögu hans og lífsstíl. Til að mynda komi hnéáverkinn 2004 lítið við sögu og vart sé minnst á þær áreynsluíþróttir sem stefnandi hafi stundað af kappi. Stefndu telja að rekja megi versnandi líðan stefnanda fyrst og fremst til hans eigin lífstíls og ástundunar eftir umferðarslysið.
Ákvæði 11. gr. skaðabótalaga um endurupptöku er ekki fullnægt. Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaganna sé, að kröfu tjónþola, heimilt að taka að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endurupptöku sé að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður hafi verið talið.
Eins og áður sé fram komið liggja fyrir tvær matsgerðir í málinu og sé í báðum tilvikum verið að meta sömu áverka og einkenni. Seinni matsgerðin geri ekki á nokkurn hátt grein fyrir ófyrirsjáanlegum breytingum sem sé annað skilyrði endurmats enda miði matsmenn við að batahvörfum á einkennum tjónþola sé fyrir löngu náð. Þá sé eftirfarandi fullyrt í seinni matsgerðinni: „Matsmenn miða við að einkenni tjónþola í hálsi og vinstra hné hafi ekki versnað svo máli skipti frá því að örorkumat Ingvars Sveinbjörnssonar og Guðjóns Baldurssonar fór fram þann 7. júní 2007“. Þá sé í máli þessu á engan hátt sannað að afleiðingar slyssins hefðu í verulegum atriðum orðið alvarlegri en gera hafi mátt ráð fyrir, þegar samið hafi verið um fullnaðarbætur við stefnda, Tryggingamiðstöðina, sbr. t.d Hrd. 1995 bls. 2288. Seinna skilyrði endurupptöku, um að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður hafi verið talið, sé ekki heldur til staðar. Hækkun á varanlegum miska og varanlegri örorku um 7 stig teljist ekki veruleg hækkun, sbr. t.d. Hrd. 2003, bls. 2127.
Lækkun bótakröfunnar: Ekki er tölulegur ágreiningur varðandi endanlega kröfurgerð stefanda. Stefndu hafna allir bótakröfu byggðri á 26. gr. skaðabótalaga. Hvorki stefndi, Tryggingamiðstöðin, né stefndi, Einar, hafi verið tjónvaldar en skilyrði bótaskyldu nefndrar lagagreinar sé að tjónvaldur hafi valdið líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Þá sé skilyrðum bótaskyldu varastefnda, Bjarts, heldur ekki fullnægt þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Hefði svo verið hefði væntanlega verið gefin út ákæra á hendur varastefnda fyrir brot á umferðarlögum en ekkert slíkt hafi gerst.
Sýknukrafa varastefnda. Auk þeirra málsástæðna og lagaraka sem stefndu hafi fært fyrir sýknukröfu sinni byggir varastefndi sýknukröfu sína sérstaklega á eftirfarandi málsástæðum.
Í fyrsta lagi sé byggt á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varnir byggðar á aðildarskorti leiði til sýknu ef fallist er á þær, sbr. tilvitnaða lagagrein. Í XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 sé tæmandi upptalning á þeim sem borið geta ábyrgð og greiðsluskyldu bóta vegna tjóns sem hlýst af notkun bifreiðar. Í 88. gr. umferðarlaga segi að sá sem ábyrgð beri á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skuli bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Í 90. gr. laganna sé kveðið á um að skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis beri ábyrgð á því og sé fébótaskyldur skv. 88. og 89. gr. Samkvæmt 95. gr. laganna sé vátryggingafélag greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna. Það sé því sá sem ábyrgð beri á skráningarskyldu ökutæki, í þessu tilviki stefndi, Einar, og vátryggingafélagið, stefndi Tryggingamiðstöðin hf., sem beri ábyrgð á því tjóni sem hafi hlotist af bifreið stefnda, Einars, en ekki ökumaður bifreiðarinnar.
Í öðru lagi sé sýknukrafa varastefnda byggð á því að lögmaður stefnanda hafi með undirritun á skaðabótakvittun frá 20. júlí 2007 afsalað til stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., öllum endurgreiðslum eða kröfum á hendur þriðja aðila vegna tjónsins. Þar með hafi stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., eignast allan rétt stefnanda til að krefja varastefnda um endurgreiðslu greiddra bóta, sbr. 2. mgr. 95. gr. umferðarlaga. Stefnandi hafi undirritað skaðabótakvittun fyrir lokagreiðslu og um leið afsalað sér öllum rétti gagnvart þriðja aðila. Stefnandi geti því engar kröfur gert á hendur varastefnda. Enginn fyrirvara hafi verið gerður á skaðabótakvittuninni varðandi þetta atriði.
Niðurstaða
Eins og að framan greinir lenti stefnandi í slysi 12. nóvember 2003. Málsaðilar komu sér saman um að leita til Guðjóns Baldurssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. til að meta afleiðingar líkamstjóns þess er stefnandi varð fyrir vegna nefnds slyss og skyldi matið fara fram í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum. Matsgerð þeirra er frá 7. júní 2007. Í kjölfarið, eða hinn 20. júlí 2007, fékk stefnandi greiddar bætur, en fyrirvari var gerður af hálfu stefnanda um mat á varanlegum miska og varanlegri örorku og skiptir hér engu máli hvor aðilinn hafi samið kvittunina.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar kröfur á hendur þeim sem ábyrgð beri, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Fyrirvari á kvittuninni breytir ekki þessum lögbundna fyrningarfresti. Samkvæmt matsgerð Guðjóns Baldurssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. var heilsufar stefnanda orðið stöðugt í febrúar 2004.
Stefnandi heldur því fram að hann eigi rétt á hærri bótum og aflaði stefnandi sér því einhliða matsgerðar þeirra Stefáns Dalbergs læknis og Björns Daníelssonar lögfræðings og er matsgerð þeirra dags 4. apríl 2012. Þar kemur fram að „batahvörfum á einkennum tjónþola vegna afleiðinga umferðarslyssins 12. nóvember 2003 sé fyrir löngu náð...“ Þá segir einnig í matsgerð þeirra Stefáns Dalbergs og Björns Daníelssonar að þeir miði við „að einkenni tjónþola í hálsi og vinstra hné hafi ekki versnað svo máli skiptir frá því að örorkumat Ingvars Sveinbjörnssonar og Guðjóns Baldurssonar fór fram þann 7. júlí 2007“ en meta varanlega miska 12 stig og varanlegu örorkuna 12%. Matsgerð þessi hnekkir ekki fyrri matsgerð þeirra Ingvars og Guðjóns frá 7. júní 2007, auk þess sem hennar er aflað einhliða af hálfu stefnanda.
Með vísan til þess sem að framan greinir mátti stefnanda vera ljóst þegar á árinu 2004 að hann ætti rétt til bóta vegna slyssins 12. nóvember 2003, enda var bótaskylda viðurkennd. Við móttöku bótanna var gerður fyrirvari um mat á varanlegum miska og varanlegri örorku. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi rétt til frekari bóta en hann hefur þegar þegið úr hendi stefnda, Tryggingarmiðstöðvarinnar hf. Allar kröfur eftir árslok 2008 eru fyrndar, samanber 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ber því að sýkna alla stefndu í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðherra, dagsettu 25. júní 2012. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þ. Skorra Steingrímssonar, hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, án tillits til virðisaukaskatts.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndu, Tryggingamiðstöðin, Einar Rúnarsson og Bjartur Guðjónsson, eru sýknaðir af kröfum, Mímis Guðvarðarsonar.
Málskostnaður fellur niður
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þ. Skorra Steingrímssonar hdl., 600.000 krónur.