Hæstiréttur íslands
Mál nr. 329/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 7. júní 2011. |
|
Nr. 329/2011. |
Verkfell ehf. (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn þrotabúi Háverks ehf. (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem mál H ehf. gegn V ehf., um riftun á gjafagerningi um vinnuvél og til endurgreiðslu á andvirði hennar, var fellt niður og H ehf. gert að greiða V ehf. 50.000 krónur í málskostnað. Málatilbúnaður H ehf. var reistur á því að félagið hefði afhent V ehf. umrædda vinnuvél. Tækið hafði verið umskráð á félag með sama heiti en aðra kennitölu. Bú þess félags hafði verið til gjaldþrotaskipta en í málinu lá fyrir að fyrirsvarsmenn þessara félaga voru feðgar. Tekið var til varna af hálfu V ehf. og krafist aðallega frávísunar en til vara sýknu. Að kröfu H ehf. var málið þá fellt niður. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð um annað en fjárhæð málskostnaðar til V ehf. úr hendi þrotabús H ehf. sem ákvaðst 150.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 28. apríl 2011, þar sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 50.000 krónur í málskostnað. Sóknaraðili var ekki viðstaddur uppsögu úrskurðarins en fékk hann sendan í pósti með póststimpli 3. maí 2011. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að málskostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar verði hrundið og að varnaraðila og lögmanni hans verði gert að greiða sóknaraðila „hærri málskostnað en ákveðinn var í héraði, með vísan til kröfugerðar í greinargerð.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili höfðaði mál þetta gegn sóknaraðila 25. janúar 2011 til þingfestingar 1. febrúar sama ár. Forsvarsmaður sóknaraðila sótti þá þing og óskaði eftir og fékk frest til greinargerðar til 15. mars sama ár. Þegar málið var tekið fyrir þennan dag mætti lögmaður fyrir hönd sóknaraðila og fékk viðbótarfrest til framlagningar greinargerðar til 5. apríl sama ár. Þann dag mætti lögmaður aftur fyrir hönd sóknaraðila og lagði fram greinargerð þar sem þess var aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að sóknaraðili yrði sýknaður af kröfu varnaraðila. Málið var næst tekið fyrir 20. sama mánaðar og þá krafðist varnaraðili þess að málið yrði fellt niður án kostnaðar. Sóknaraðili hélt fast við kröfu um málskostnað og var málið því tekið til úrskurðar og í því kveðinn upp hinn kærði úrskurður.
Fallist verður á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að haldlaus sé krafa sóknaraðila um málskostnað úr hendi lögmanns varnaraðila. Málskostnaður í héraði þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en fjárhæð málskostnaðar til sóknaraðila, Verkfells ehf., úr hendi varnaraðila, þrotabús Háverks ehf., sem ákveðst 150.000 krónur.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 28. apríl 2011.
Mál þetta var höfðað 25. janúar 2011 og tekið til úrskurðar 20. apríl sama ár. Stefnandi er þrotabú Háverks ehf., Suðurgötu 42 á Akranesi, en stefndi er Verkfell ehf., Stekjarholti 16 í sama sveitarfélagi.
Stefnandi höfðaði málið til að fá rift gjafagerningi milli stefnanda og stefnda um vinnuvélina FH-0295 og til endurgreiðslu á andvirði hennar að fjárhæð 2.518.935 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 17. september 2009 til greiðsludags. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndi tók til varna í málinu og krafðist aðallega frávísunar en til vara sýknu. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda og jafnframt að lögmanni stefnanda yrði gert að greiða málskostnað, sbr. 4. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með álagi skv. 2. mgr. sömu greinar.
Málatilbúnaður stefnanda var reistur á því að stefnandi hefði 17. september 2009 afhent stefnda vinnuvél af gerðinni JCB 426 HT, með skráningarnúmerið FH-0295. Kennitala stefnda er 420603-2660 en umrætt tæki var umskráð á félag með sama heiti og kennitöluna 690402-2380. Bú síðarnefnda félagsins hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í málinu liggur fyrir að fyrirsvarsmenn þessara félaga eru feðgar. Eftir að stefndi tók til varna og bar við aðildarskorti krafðist stefnandi þess að málið yrði fellt niður án kostnaðar.
Í samræmi við c-lið 105. gr. laga, nr. 91/1991, verður mál þetta fellt niður að kröfu stefnanda.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. sömu laga verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðarorði. Krafa á hendur lögmanni stefnanda um greiðslu málskostnaðar er haldlaus og verður hún ekki tekin til greina.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Mál þetta er fellt niður.
Stefnandi, þb. Háverks ehf., greiði stefnanda, Verkfelli ehf., 50.000 krónur í málskostnað. Kröfu um að lögmanni stefnanda verði gert að greiða málskostnað er hafnað.