Hæstiréttur íslands
Mál nr. 26/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2008. |
|
Nr. 26/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(enginn) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. janúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kröfu varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Fallist er á að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur fangelsi samkvæmt 106. gr. og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til gagna málsins verður og fallist á það mat sóknaraðila að rannsóknarnauðsyn standi til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eru því fyrir hendi og verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, f. [dags.] 1984, litháískum ríkisborgara, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. janúar nk. kl. 16.00.
Í greinargerð kemur fram að aðfaranótt föstudagsins 11. janúar sl. um kl. 01.41 hafi fjórir lögreglumenn, óeinkennisklæddir og á vegum fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, haft afskipti af þremur aðilum vegna gruns um fíkniefnamisferli fyrir utan veitingastaðinn Y við [...] í Reykjavík.
Þegar lögreglumennirnir hafi verið að ræða við ofangreinda þrjá aðila, hafi þeir séð hvar tvær fólksbifreiðar stöðvuðu við vettvanginn og út úr annarri bifreiðinni hafi stigið kona að nafni A, sem gengið hafi að lögreglumönnunum. Hafi henni verið kynnt að um lögregluaðgerð væri að ræða og hún beðin um að trufla ekki störf lögreglu. Í sömu andrá hafi fimm karlmenn veist að lögreglumönnunum með höggum og spörkum. Þrátt fyrir að mönnunum hafi verið sýnd lögregluskilríki og þeim gerð grein fyrir því að um lögreglumenn væri að ræða, hafi þeir haldið árás sinni áfram.
Í átökunum hafi lögreglumenn beitt kylfum og varnarúða og þeim tekist að endingu að yfirbuga árásarmennina. Hafi þrír þeirra verið handteknir á vettvangi, en tveir komist undan, þar á meðal kærði sem hafi verið handtekinn síðar sama dag á heimili sínu að Z í Reykjavík. Hafi kærði í kjölfarið verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, til dagsins í dag kl. 16.00.
Eftir átökin hafi tveir lögreglumenn verið fluttir með sjúkrabíl á slysadeild, annar meðvitundarlaus með heilahristing og tognun í hálsi eftir höfuðhögg, en hinn með ýmsa yfirborðsáverka í andliti. Hinir tveir lögreglumennirnir hafi farið sjálfir á slysadeild og reynst með áverka í andliti.
Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að umræddir sakborningar hafi veist að lögreglu algjörlega að tilefnislausu með fólskulegum hætti, vitandi að um lögreglumenn væri að ræða. Á hinn bóginn beri mikið á milli í frásögnum vitna og brotaþola annars vegar og sakborninga hins vegar. Þá sé töluvert ósamræmi í framburðum sakborninga, sem allir kannist þó við að hafa verið á vettvangi og að til átaka hafi komið. Það liggi því fyrir lögreglu nú að taka frekari skýrslur af vitnum, brotaþolum og sakborningum í því augnamiði að fá gleggri mynd af málavöxtum.
Þá hafi vaknað grunsemdir hjá lögreglu um að árásin hafi verið fyrir fram skipulögð og lögreglumönnunum hafi verið veitt eftirför í umrætt sinn, en fyrr um nóttina hafi umræddir lögreglumenn haft afskipti af erlendum mönnum vegna fíkniefnagruns. Vegna þessa standi til að rannsaka síma sakborninga og yfirfara upptökur úr öryggismyndavélakerfi lögreglunnar og sé sú rannsókn á frumstigi
Í ljósi ofangreinds sé það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt, enda sé kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing sé lögð við og að ætla megi, gangi kærði frjáls ferða sinna, að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á vitni eða aðra sakborninga.
Það sé því afar brýnt að lögregla fái svigrúm til að ljúka rannsókn málsins, en kærði sé sterklega grunaður um brot gegn 106. gr. og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eigi yfir höfði sér fangelsisrefsingu verði hann sekur fundinn.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði er grunaður um brot gegn 106. gr og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa í félagi við fjóra aðra veist að lögreglu með fólskulegum hætti. Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn málsins bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og fallist er á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni eða aðra sakborninga, gangi hann laus. Er því uppfyllt skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. janúar 2008 kl. 16.00.