Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Aðild
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Þriðjudaginn 5

 

Þriðjudaginn 5. febrúar 2002.

Nr. 45/2002.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsvist. Aðild. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Héraðsdómari vísaði frá kröfum X varðandi tilhögun gæsluvarðhaldsvistar. Hæstiréttur ómerkti úrskurð héraðsdóms með vísan til þess að af gögnum málsins yrði ekki ráðið að héraðsdómari hefði boðað ákæruvaldið til að sækja þing, svo sem rétt hefði verið, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 1270, og 1997, bls. 3239. Þar sem þessa hafði ekki verið gætt taldi Hæstiréttur ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar á ný.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2002, þar sem vísað var frá dómi kröfu varnaraðila varðandi tilhögun gæsluvarðhaldsvistar, sem hann sætir. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Samkvæmt gögnum málsins sætir varnaraðili gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vegna gruns um fíkniefnabrot. Þegar málið var tekið fyrir í héraði krafðist varnaraðili þess með vísan til 75. gr., sbr. 4. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, að héraðsdómari kvæði upp úrskurð um að óheimilt væri meðan hann sætti gæsluvarðhaldi að framkvæma líkamsleit á honum eða leita í klefa hans í fangelsinu á Litla-Hrauni nema sérstök og rökstudd ástæða væri til og að honum væri afhent skrifleg ákvörðun þess efnis, þar sem gerð væri grein fyrir ástæðum leitarinnar. Þá krafðist varnaraðili þess að héraðsdómari kvæði upp úrskurð um að hann ætti rétt á því án sérstakra takmarkana að ræða við verjanda sinn símleiðis í einrúmi.

Samkvæmt gögnum málsins voru forstöðumaður fangelsisins að Litla-Hrauni og starfsmaður Fangelsismálastofnunar staddir á dómþingi þegar málið var tekið fyrir. Af gögnunum verður hins vegar ekki ráðið að héraðsdómari hafi boðað sóknaraðila til að sækja þing, svo sem rétt hefði verið, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 1270, og 1997, bls. 3239. Þar sem þessa var ekki gætt verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar á ný.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2002.

Árið 2002, fimmtudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Jóni Finnbjörnssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi:

Verjandi kærða, X, krefst úrskurðar með vísan til 75. gr. laga nr. 19/1991. Krefst hann þess að úrskurðað verði:

1.  Að óheimilt sé að framkvæma líkamsleit á gæsluvarðhaldsfanganum X eða leita í klefa hans á Litla-Hrauni nema sérstök og rökstudd ástæða sé til og honum afhent skrifleg ákvörðun þar að lútandi þar sem grein er gerð fyrir ástæðum leitar. Jafnframt sé óheimilt að láta hann sæta á annan hátt vanvirðandi meðferð. Leitarbann þetta standi meðan á gæsluvarðhaldi hans stendur.

2.  Að X eigi rétt á því án sérstakra takmarkana að ræða við verjanda sinn símleiðis í einrúmi.

Krafa þessi barst dóminum 23. þessa mánaðar og var tekin fyrir í þinghaldi nú. Um heimild til að bera þetta erindi undir dóm vísar verjandi kærða til 75. gr. laga nr. 19/1991.

Kærði sætir nú gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði héraðsdóms. Eru ekki í gildi neinar takmarkanir samkvæmt 108. gr. laga nr. 19/1991 gagnvart honum.

Því var lýst yfir fyrir dómi af hálfu forstöðumanns Fangelsisins að Litla-Hrauni, þar sem kærði er vistaður, að ekki væri í gildi sérstök takmörkun á aðgangi kærða að síma. Lýsti hann almennum reglum sem gilda í fangelsinu og þeirri takmörkuðu aðstöðu sem til staðar er til að gefa föngum færi á að tala einslega í síma. Kvað hann ekki takmörkun á aðgangi kærða að þeim úrræðum. Þá væri ekki tak­mörk­un á heimildum verjanda til funda með kærða í fangelsinu.

Niðurstaða.

Fyrri hluti kröfugerðar verður ekki skilinn sem annað en beiðni um yfirlýsingu eða álit um réttarstöðu kærða, sem leiðir af almennum reglum laga. Ekki verður í þessum úrskurði unnt að meta hvort kærði hafi þurft að sæta frekara harðræði í gæsluvarðhaldinu en heimilt er. Verður slíks álits ekki aflað með dómsúrlausn sam­kvæmt reglu 75. gr. laga nr. 19/1991.

Ekki er fram komið að ágreiningur sé í raun um aðgang kærða að síma til að ræða við verjanda sinn. Þá er ekki sýnilegt að takmarkanir séu á heimild verjandans til að ræða beint við skjólstæðing sinn í einrúmi í fangelsinu.

Að þessu virtu verður erindi þessu vísað frá dómi.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Framangreindu erindi X er vísað frá dómi.