Hæstiréttur íslands
Mál nr. 243/2001
Lykilorð
- Farmflutningur
- Skaðabætur
- Takmörkun ábyrgðar
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Vanreifun
- Vextir
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 7. mars 2002. |
|
Nr. 243/2001. |
Marín Eiðsdóttir(Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Hf. Eimskipafélagi Íslands og (Einar Baldvin Axelsson hrl.) Alþjóðlegri miðlun ehf. (Baldvin Hafsteinsson hrl.) og Hf. Eimskipafélag Íslands gegn Marín Eiðsdóttur |
Farmflutningur. Skaðabætur. Takmörkun ábyrgðar. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Vanreifun. Vextir. Málskostnaður.
M flutti bát sinn með skipi E frá Reykjavík til Ísafjarðar í júní 1999 og skemmdist báturinn í flutningunum. M krafði E og vátryggingamiðlunina A um skaðabætur vegna kostnaðar við viðgerð á bátnum og aflatjóns. Krafa M á hendur A þótti verulega vanreifuð og var ekki talin fullnægja ákvæðum 80. gr. laga um meðferð einkamála, einkum e-lið. Var kröfum M á hendur A vísað frá héraðsdómi. Krafa M á hendur E var reist á því að starfsmenn E hefðu með stórfelldu gáleysi valdið tjóni á bátnum við flutning hans. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að frágangur bátsins á þilfari skips E hefði hvorki verið viðunandi né vandvirkur. Var E talinn bera bótaábyrgð á tjóni M á grundvelli 1. mgr. 68. gr. siglingalaga. Ekki var talið að tjónið yrði rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis E og því hefði E ekki fyrirgert rétti til að takmarka bótaábyrgð sína samkvæmt 70. gr. Var E gert að greiða M bætur miðað við takmörkunarfjárhæð 2. mgr. greinarinnar. E gagnáfrýjaði málinu til breytingar á vaxtaákvörðun héraðsdóms og vísaði til flutningsskilmála í farmbréfi. Ekkert var talið fram komið sem gæfi tilefni til að víkja umræddum skilmálum til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga, líkt og haldið hafði verið fram af hálfu M. Þótti rétt að túlka ákvæðið svo að miða skyldi upphafstíma vaxta við dómsuppkvaðningu héraðsdóms. Þá var ekki talið að ákvæði 2. mgr. 70. gr. siglingalaga um takmörkunarfjárhæð stæði því í vegi að E yrði látið greiða málskostnað. Var önnur túlkun talin leiða til þess að M yrði svipt rétti til að fá dæmdan kostnað við að sækja réttmæta kröfu fyrir dómstólum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2001 og krefst þess að gagnáfrýjandi og stefndi verði in solidum dæmdir til að greiða sér 7.640.161 krónu ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá 18. maí 2000 til 30. júní 2001, en frá þeim tíma til greiðsludags samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Auk þess krefst hann málskostnaðar úr þeirra hendi í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en aðaláfrýjandi hefur fengið gjafsókn á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 17. september 2001 og krefst þess aðallega að sér verði aðeins gert að greiða aðaláfrýjanda 600.480 krónur, en til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar. Jafnframt krefst hann þess í báðum tilvikum að sér verði aðeins gert að greiða vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá uppsögudegi dóms Hæstaréttar til greiðsludags, en til vara frá þingfestingardegi málsins í héraði. Þá krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fram í Hæstarétti.
I.
Í stefnu í héraði er auk gagnáfrýjanda stefnt „Baldvini Hafsteinssyni, ... f.h. Alþjóðlegrar miðlunar ehf., ... v/Smára Ríkharðssonar, ... umboðsm. Cox Forsäkring at Lloyd´s, en Baldvin er formaður stjórnar Alþjóðlegrar miðlunar h.f., til greiðslu, in solidum, skaðabóta auk vaxta og kostnaðar.“ Í stefnu segir að aðaláfrýjandi hafi verið með bát sinn tryggðan hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. og er vísað til staðfestingar á vátryggingu, sem það fyrirtæki gaf út til hennar, en þar kemur fram að vátryggjandi sé „100% Cox Forsäkring at Lloyd´s“. Síðar í stefnunni segir að til grundvallar réttarstöðu aðaláfrýjanda og stefnda liggi vátryggingarsamningur, þar sem hið stefnda félag komi fram fyrir vátryggjandann „c/o Smári Ríkharðsson, sem hafði m.a. milligöngu um greinda tryggingu sem vátryggingarmiðlari, ...“. Í málsástæðukafla stefnunnar segir að á því sé byggt gagnvart stefnda, að félaginu beri að bæta aðaláfrýjanda tjón hans á grundvelli vátryggingarsamnings aðila. Á því sé byggt að Cox Forsäkring at Lloyd´s sem vátryggingartaki, er stefndi beri alfarið ábyrgð á, eigi að bæta stefnanda tjón hans.
Samkvæmt framansögðu er torvelt að ráða í það af stefnu málsins, hverjum í raun er verið að stefna auk gagnáfrýjanda. Framlögð gögn af hálfu aðaláfrýjanda varðandi ætlaða aðild stefnda eru mjög af skornum skammti og ekki gerð viðhlítandi grein fyrir tengslum hans við sakarefnið. Ekkert er lagt fram um hið stefnda einkahlutafélag eða grein gerð fyrir þætti Smára Ríkharðssonar, sem ítrekað er nefndur í stefnunni. Þá gerir aðaláfrýjandi kröfu um að gagnáfrýjandi og stefndi verið dæmdir in solidum til greiðslu stefnufjárhæðar án þess að fyrir liggi eða grein sé fyrir því gerð, að þeir beri óskipta skyldu, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að öllu þessu virtu verður að telja að málið sé verulega vanreifað af hálfu aðaláfrýjanda að því er þennan þátt varðar og fullnægi þessi málatilbúnaður ekki ákvæðum 80. gr. laganna, einkum e. lið. Samkvæmt því ber ex officio að vísa kröfum aðaláfrýjanda á hendur stefnda frá héraðsdómi.
II.
Krafa aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda er reist á því að starfsmenn hins síðarnefnda, er hann beri ábyrgð á, hafi með stórfelldu gáleysi valdið tjóni á báti aðaláfrýjanda við flutning hans með ms. Bakkafossi frá Reykjavík til Ísafjarðar 7. 8. júní 1999. Er krafa hans annars vegar um kostnað við viðgerð á bátnum, sem styðst við matsgerð dómkvadds manns, og nemur sá liður 2.396.625 krónum. Hins vegar er gerð krafa vegna aflatjóns þar sem sóknardagar hafi ekki nýst, og nemur sá kröfuliður 5.243.536 krónum.
Það var mat héraðsdóms, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum, að frágangur báts aðaláfrýjanda á þilfari ms. Bakkafoss hafi hvorki verið viðunandi né vandvirkur þar sem hann sat á byrðingi með kjölinn á lofti. Var gagnáfrýjandi talinn bera bótaábyrgð á tjóni aðaláfrýjanda á grundvelli 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Við áfrýjun málsins unir gagnáfrýjandi þessari niðurstöðu. Samkvæmt því ber að dæma bætur eftir ákvæðum 70. gr. laganna, en í 1. mgr. hennar segir að bætur samkvæmt 68. gr. skuli ákveða eftir því verðgildi, sem vara myndi hafa haft ósködduð við afhendingu á réttum stað og tíma. Í 2. mgr. 70. gr. er mælt fyrir um takmörkun bótafjárhæðar með tilteknum hætti, en samkvæmt 6. mgr. greinarinnar getur farmflytjandi ekki borið þessa takmörkun fyrir sig ef það sannast að hann hafi sjálfur valdið tjóninu eða skaðanum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og honum mátti vera ljóst að tjón myndi sennilega hljótast af. Var það niðurstaða héraðsdómsins að tjónið yrði ekki rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis af þessu tagi og hefði gagnáfrýjandi því ekki fyrirgert rétti til að takmarka bótaábyrgð sína samkvæmt 70. gr. siglingalaga.
Gagnáfrýjandi reisir kröfugerð sína fyrir Hæstarétti á þessari niðurstöðu héraðsdóms. Aðaláfrýjandi krefst þess hins vegar að hnekkt verði þeirri niðurstöðu dómsins að gagnáfrýjandi geti takmarkað ábyrgð sína enda megi rekja tjónið til stórfellds gáleysis af hans hálfu.
Ekki hafa verið lögð fram gögn af hálfu aðaláfrýjanda, sem hnekkja framangreindu áliti héraðsdóms. Þykir að svo komnu verða við það að miða og ber samkvæmt því að staðfesta niðurstöðu dómsins um bótafjárhæð, sem gagnáfrýjandi hefur fallist á og aðaláfrýjandi hefur ekki vefengt tölulega.
Gagnáfrýjandi hefur áfrýjað málinu til breytingar á vaxtaákvörðun héraðsdóms, og vísar hann til flutningsskilmála í farmbréfi, en þar kemur fram í 10. gr. að ekki skuli koma til vaxta af neinni kröfu á hendur farmflytjanda fyrr en frá dómsuppsögu. Jafnframt heldur hann því fram að ekki sé heimilt að bæta vöxtum við takmörkunarfjárhæð samkvæmt 2. mgr. 70. gr. siglingalaga. Af hálfu aðaláfrýjanda er þessum skilningi mótmælt og jafnframt á því byggt að ákvæði 10. gr. farmbréfsins beri að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Farmbréf vegna umrædds flutnings er grundvöllur réttarsambands aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda. Ákvæði 10. gr. skilmála þess um vexti er ótvírætt og er ekkert fram komið, sem gefur tilefni til að víkja því til hliðar. Er samkvæmt þessu rétt að upphafstími vaxta miðist við dómsuppkvaðningu héraðsdóms, en eðlilegt þykir að dæmdir verði dráttarvextir frá þeim tíma, eins og nánar segir í dómsorði.
Gagnáfrýjandi hefur einnig áfrýjað héraðsdómi til ógildingar á ákvæði hans um málskostnað þar sem ekki sé unnt að bæta honum við takmörkunarfjárhæð 2. mgr. 70. gr. siglingalaga. Verður ekki fallist á þá túlkun ákvæðisins, sem leiða myndi til þess að aðaláfrýjandi yrði sviptur rétti til að fá dæmdan kostnað við að sækja réttmæta kröfu fyrir dómstólum. Verður málskostnaðarákvörðun héraðsdóms á hendur gagnáfrýjanda því staðfest, þó þannig að fjárhæðin greiðist í ríkissjóð.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti og milli aðaláfrýjanda og stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda og um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfum aðaláfrýjanda, Marínar Eiðsdóttur, á hendur stefnda, Alþjóðlegri miðlun ehf., er vísað frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjandi, Hf. Eimskipafélag Íslands, greiði aðaláfrýjanda 600.480 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29 mars 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði 368.524 krónur í ríkissjóð vegna málskostnaðar aðaláfrýjanda í héraði, en málskostnaður milli þeirra fyrir Hæstarétti fellur niður.
Málskostnaður milli aðaláfrýjanda og stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2001.
I
Mál þetta sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 6. mars 2001 er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Marín Eiðsdóttur, kt. 061162-3219, Hafnargötu 19, Sandgerði, á hendur Hf. Eimskipafélagi Íslands, kt. 510169-1829, Pósthússtræti 2, Reykjavík, og Alþjóðlegri miðlun ehf., kt. 710395-2339, Tryggvagötu 8, Reykjavík, v/Smára Ríkharðssonar, kt. 010464-3669, Búlandi 34, Reykjavík, umboðsmanns Cox Forsäkring at Lloyd´s, með stefnu áritaðri um birtingu 11. maí 2000.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að hin stefndu félög verði dæmd til þess að greiða stefnanda, in solidum 7.640.161,25 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga (sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989 um breytingar á þeim lögum) frá 8. júní 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá þingfestingardegi þessa máls hinn 18. maí 2000 til greiðsludags.
Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 18. maí 2001 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, allt eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi Hf. Eimskipafélag Íslands gerir þá kröfu aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og því tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara er gerð sú krafa að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi Alþjóðleg miðlun ehf. gerir þá kröfu aðallega að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að stefnukröfur verði verulega lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, ásamt dráttarvöxtum og virðisaukaskatti.
II
Stefnandi á trébátinn m/b Auðunn Lárus GK-28, skipaskrárnúmer 5947, sbr. mælibréf og skráningarskírteini dags. 10. maí 1999.
Samkvæmt bréfi Fiskistofu dags. 19. apríl 1999 var staðfest að ofangreindur bátur stefnanda myndi stunda veiðar í sóknardagakerfi með handfærum eingöngu jafnframt sem staðfest var að leyfilegir sóknardagar á fiskveiðiárinu 1998/1999 væru 23.
Bátur stefnanda var með gilt haffærisskírteini til 1. janúar 2000 útgefið hinn 6. apríl 1999.
Stefnandi hafði leyfi til að veiða í atvinnuskyni á sóknardögum fiskveiðiárið 1. september 1998 - 31. ágúst 1999 - handfæri samkvæmt sbr. leyfisbréf útgefið af Fiskistofu, dags. 16. apríl 1999 "vegna m.s. (5947) Auðunn Lárus GK-28."
Framangreindur bátur stefnanda var tryggður hjá Cox Forsäkring at Lloyd´s en stefndi Alþjóðleg miðlun ehf. (AM) sá um tryggingamiðlun.
Stefnandi flutti bát sinn með skipi stefnda Hf. Eimskipafélags Íslands (EÍ), Bakkafossi, frá Reykjavík til Ísafjarðar 8. júní 1999. Hafnarstarfsmenn stefnda EÍ sáu um að hífa bátinn upp úr sjó beint á gámapallinn. Stefnandi var hvorki viðstödd þegar hífing fór fram né þegar báturinn var sjóbúinn. Báturinn varð fyrir tjóni er hann skemmdist í flutningnum. Stefnandi tilkynnti umboðsmanni stefnda EÍ um skemmdirnar en bátnum var komið fyrir á hafnarbakkanum á Ísafirði eftir losun úr Bakkafossi. Báturinn var síðan fluttur aftur til Reykjavíkur og honum komið fyrir á geymslusvæði stefnda EÍ þar sem hann er enn. Þegar tjónið varð átti stefnandi eftir að veiða 18 daga af þeim 23 sem hann átti rétt til á því fiskveiðiári.
Lögregluskýrsla var gerð um málið á Ísafirði þann 10. júní 1999 og þar segir að á vettvangi hafi mátt sjá “m/b Auðunn Lárus GK 028 sknr. 5947 standa á 40 feta flatsa AMZU 416081-8 á gámasvæði EÍ. Að framan hafi verið hlaðið brettum undir bátinn og að aftan stóð hann á þar til gerðum búkkum. Kjölur bátsins var allur á lofti. Bakborðs- og stjórnborðsmegin höfðu fyrsta og annað umfar frá kili gengið inn og rifnað beggja megin undan búkkunum einnig mátti sjá skemmdir við hæl bátsins. Báturinn hafði verið hertur niður með borðastrekkurum.” Lögregla tók jafnframt ljósmyndir af bátnum sem liggja frammi í málinu. Þann 16. júní 1999 skoðaði starfsmaður Siglingastofnunar Íslands bátinn í Sundahöfn og segir í skýrslu hans að báturinn virðist hafa setið á síðum með kjöl á lofti og kjölur svo strekktur niður svo víða sé los á samskeytum byrðings, kjalarbanda stefnis og innviða. Þá segir að neðstu borð aftast báðum megin séu brotin og los á byrðingi með afturstefni en síður miðskips hafi gengið inn. Að síðustu er mælt fyrir um að athuga skuli festingu banda við kjöl en að ekki sé hægt að ljúka skoðun fyrr en búið sé að hreinsa innan úr bátnum þegar viðgerð hefst og megi þá reikna með að fleira komi í ljós.
Lögmaður stefnanda sendi bréf dagsett 6. júlí 1999 til stefnda AM þar sem óskað var eftir að félagið greiddi stefnanda bætur vegna tjónsins. Af hálfu stefnanda var óskað eftir því við sjávarútvegsráðuneytið með bréfi dagsettu 1. september s.á. að ónýttir sóknardagar á fiskveiðiárinu 1998-1999 yrðu fluttir yfir á næsta fiskveiðiár. Erindið var framsent Fiskistofu sem hafnaði því í bréfi dagsettu 14. september s.á. Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunarinnar er dagsett 13. desember s.á. og þann 11. febrúar 2000 var hún staðfest með úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins.
Stefnandi fór fram á dómkvaðningu matsmanns í matsbeiðni dagsettri 6. desember s.á. og var Einar Haraldsson, skipasmiður, dómkvaddur til að vera matsmaður þann 7. janúar 2000. Matsgerð er dagsett 16. febrúar s.á.
Með bréfi dagsettu 15. febrúar 2000 hafnaði Cox Forsäkring at Lloyd´s bótaskyldu á tjóni stefnanda.
III
Stefnandi sundurliðar stefnukröfur sínar þannig:
a. Tjón vegna skemmda á bát skv. matsgjörð.
Niðurstaða matsgerðar Einars Haraldssonar, dags. 16. febrúar 2000, byggir á
tímavinnu með efni (einingagjaldi) þannig:
|
a) Tímavinna smiða |
kr. 2.080 |
|
b) Verkfæragjald |
" 100 |
|
c) Vélavinna innigjald 2.500 pr. sólarhring |
" 1.150 |
|
d) Allur efniskostnaður |
________ |
|
Samtals p. tíma/einingu (án virðisaukaskatts) |
kr. 3.500 |
Í hinni sundurliðuðu matsgerð er við það miðað að það taki 470-550 tíma að gera við skemmdir á bát stefnanda.
Stefnukröfur taka mið af 550 tímum þannig:
|
550 tímar x 3.500 |
kr.1.925.000 |
|
VSK 24,5% |
kr. 471,625 |
|
Samtals |
kr. 2.396.625 |
b. Tjón vegna ónýtta sóknardaga.
Samkvæmt yfirliti Fiskistofu var skráður afli Auðuns Lárusar GK-28 í fjórum veiðiferðum:
þorskur 4.500 kg.
og ufsi 1.569 kg.
Meðalafli pr. dag:
þorskur 4.500/4 = 1.125 kg.
ufsi 1.569/4 = 392,25 kg.
Samkvæmt yfirliti um meðalverð á Fiskmarkaði Suðurnesja hf. frá 1. janúar 1999-31. desember 1999 var meðalverð á þorski 102,09 kr. pr. kg og ufsa 38,84 kr. pr. kg.
Verðmæti afla pr. dag/pr. veiðiferð er því:
|
þorskur 1,125 kg. x 102,09 |
kr.114.851,25 |
|
ufsi 392,25 kg. x 38,84 |
kr. 15.235,00 |
|
Samtals |
kr.130.086,25 |
Aflaverðmæti v/ónýttra sóknardaga:
|
98/9918 dagar x 130.086,25 |
kr. 2.341.552,50 |
|
99/00232 dagar x 130.086,25 |
kr. 2.991.983,75 |
|
Samtals |
kr. 5.243.536,25 |
Stefnukröfur - samantekt:
|
a) Bótakrafa skv. mati |
kr. 1.396.625,00 |
|
b) Aflatjón skv. ofansögðu |
kr. 5.243.536,25 |
|
Samtals |
kr. 7.640.161,25 |
Stefnandi byggir á því að hin stefndu félög beri solidaríska ábyrgð á tjóni stefnanda, þ.e. stefndi EÍ á grundvelli sakar starfsmanna félagsins, sem félagið beri alfarið ábyrgð á, og hins vegar Cox Forsäkring sem vátryggingartaki, sem stefndi AM beri alfarið ábyrgð á.
Á því er byggt af hálfu stefnanda gagnvart stefnda EÍ, að starfsmenn félagsins hafi með stórfelldu gáleysi valdið stefnanda gífurlegu tjóni sem EÍ beri fébótaábyrgð á gagnvart stefnanda, m.a. með handvömm við sjóbúnað báts stefnanda um borð í m.s. Bakkafossi.
Af hálfu starfsmanna EÍ hafi sjóbúnaður báts stefnanda verið þannig að trébrettin gengu inn í síður bátsins, þ.e. bæði vegna þess að nælonborðar voru strengdir með strekkjurum jafnframt sem brettin hafi gengið inn í síður bátsins á sjálfri siglingunni frá Reykjavík til Ísafjarðar.
Grundvallarmistök starfsmanna EÍ við sjóbúnað bátsins hafi verið þau að láta bátinn ekki sitja á kilinum á flekanum/pallinum en látið þess í stað megin þunga bátsins hvíla á trébrettum sem sett hafi verið undir síður bátsins skv. framansögðu. Beri stefndi EÍ ábyrgð á tjóni stefnanda skv. íslenskum skaðabótareglum, sbr. og 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Á því sé einnig byggt að stefndi EÍ geti ekki borið fyrir sig ábyrgðartakmarkanir skv. 2. mgr. 70. gr. siglingalaga, þar sem starfsmenn stefnda EÍ hafi valdið stefnanda tjóni með stórfelldu gáleysi við sjóbúnað báts stefnanda, sem þeim mátti vera ljóst að tjón mundi sennilegast hljótast af, sbr. 6. mgr. 70. gr. laganna.
Á því sé byggt gagnvart stefnda AM að félaginu beri að bæta stefnanda tjón hans samkvæmt framansögðu á grundvelli vátryggingarsamnings aðila.
Cox Forsäkring, sem vátryggingartaki, sem AM beri alfarið ábyrgð á, eigi að bæta stefnanda tjón hans á grundvelli vátryggingarsamnings.
Um lagarök vísar stefnandi m.a. til meginreglna samninga- og kröfuréttar, um efndir fjárskuldbindinga sbr. lög nr. 7/1936 með síðari breytingum og til grunnreglna skaðabótaréttarins. Þá vísast til ákvæða siglingalaga nr. 34/1985 einkum 21., 68., 70., 101. og 110. gr.
Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Stefndi Hf. Eimskipafélag Íslands mótmælir alfarið öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Hann mótmælir því að hann sjálfur eða menn, sem hann beri ábyrgð á, hafi sýnt af sér gáleysi eða á nokkurn hátt brotið gegn skyldum sínum sem farmflytjandi, ákvæðum farmsamnings aðila, ákvæðum siglingalaga nr. 34/1985 eða öðrum réttarreglum.
Stefndi vísi til flutningsskilmála í farmskírteini vegna flutningsins, siglingalaga nr. 34/1985, almennra reglna flutningaréttar og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi kveður skilyrði 1. mgr. 68. gr. siglingalaga ekki fyrir hendi. Hafnarstarfsmenn stefnda hafi sjóbúið bátinn á gámapallinn á eðlilegan og vandvirkan hátt. Með því hafi stefndi séð til þess með eðlilegri árvekni að skipið væri hæft til móttöku, flutnings og varðveislu farmsins. Venja standi til að flytja svona trébát á gámapalli og festa hann niður á pallinn með strekkiböndum. Strekkibönd séu sett á miðjan bátinn sem og á enda hans ef hægt sé, til þess að koma í veg fyrir að hann hreyfist á pallinum meðan á sjóferð stendur. Báturinn hafi auk þess verið skorðaður af með trébrettum eða plönkum með áföstum hjólbörðum sem hafi lagst að síðum bátsins. Með þessum búnaði hafi verið reynt að skorða bátinn svo hann hreyfðist sem minnst meðan á sjóferð stæði. Miðist þessi sjóbúningur við að báturinn sé í góðu ástandi. Sjóbúningurinn hafi verið vandvirkur og eðlilegur og hefði átt að vera nægjanlegur fyrir siglingaleiðina frá Reykjavík til Ísafjarðar um miðjan júní í góðu veðri.
Stefndi byggi á því að báturinn hafi verið í mjög lélegu ástandi og alls ekki hæfur til þess að þola umræddan sjóflutning með gámaskipi, hvernig sem sjóbúningi hans væri háttað sem sjáist á framlögðum myndum. Um hafi verið að ræða rúmlega 21 árs gamlan bát, sem ekki sé að sjá að hafi verið endurnýjaður, ef frá er talin borðhækkun árið 1999. Tjónið hafi því fyrst og fremst stafað af eigin ágalla bátsins, en samkvæmt m lið 2. mgr. 68. gr. siglingalaga beri stefndi ekki ábyrgð á tjóni sem hljótist af eigin ágalla vörunnar.
Auk þess byggi stefndi á því að sýkna beri hann í máli þessu á grundvelli i og o liða í 2. mgr. 68. gr. siglingalaga, enda ljóst að tjónið stafaði af athafnaleysi stefnanda og/eða ófullnægjandi eða ónákvæmri merkingu. Hvorki hafi komið fyrirmæli frá stefnanda um hvernig sjóbúa ætti bátinn né um annað í sambandi við flutning hans og ekki hafi verið að finna upplýsingar eða merkingar á bátnum um þessi atriði. Auk þess hefði stefnandi ekki upplýst að báturinn væri í slæmu ástandi. Af þeim sökum hefði stefndi mátt gera ráð fyrir að í lagi væri að sjóbúa bátinn á venjulegan hátt.
Varakröfu sína byggi stefndi á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir þessu fjártjóni en engin gögn hafi verið lögð fram um að viðkomandi viðgerð hafi farið fram á bátnum og að stefnandi hafi greitt umkrafða fjárhæð vegna hennar.
Þá mótmæli stefndi kröfu stefnanda vegna ónýttra sóknardaga samtals að fjárhæð kr. 5.243.536,25 og útreikningi sem hún sé byggð á. Krafan sé svo vanreifuð að dómur verði ekki lagður á hana en slík krafa eigi að öllu jöfnu að sæta frávísun frá dómi "ex officio". Ósannað sé að umræddir sóknardagar hefðu skilað stefnanda þeim hagnaði sem hann haldi fram. Hafi stefnandi ekki tekið tillit til kostnaðar sem hann hefði haft af veiðunum og flutningi aflans á markað. Auk þess sé ósannað að afli bátsins hefði orðið sá sami á viðkomandi tíma og í fyrri veiðiferðum og að meðalverð hefði fengist fyrir hann á fiskmarkaði. Stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir umfangi tjóns síns og beri hallann af þessum sönnunarskorti.
Óumdeilt sé að um kröfu vegna afleidds tjóns sé að ræða. Slíkt afleitt tjón beri ekki að bæta ef um bótaábyrgð sé að ræða eftir 1. mgr. 68. gr. siglingalaga, sbr. 1. mgr. 70. gr. sömu laga og því beri að sýkna stefnda af þessum kröfulið. Auk þess komi skýrt fram í 8. gr. farmsamnings aðila, að farmflytjandi skuli ekki undir neinum kringumstæðum eða á neinn hátt vera ábyrgur fyrir óbeinu eða afleiddu tapi, skemmdum eða fyrir ágóðatapi. Sé stefnandi bundinn af þessu ákvæði.
Engin rök séu fyrir því að taka til greina kröfu stefnanda um aflaverðmæti vegna fiskveiðiársins 99/00 þar sem fyrir liggi að stefnandi hafði enga heimild til þess að veiða á því ári. Auk þess gilti haffærisskírteini bátsins til 1. janúar 2000 og sé með öllu ósannað að þetta skírteini hefði verið framlengt.
Þá krefst stefndi þess að honum verði ekki undir neinum kringumstæðum gert að greiða hærri fjárhæð en sem nemur lögákveðinni takmörkunarfjárhæð samkvæmt 2. mgr. 70. gr. siglingalaga enda svo um samið í 7. gr. farmsamnings aðila.
Um hafi verið að ræða eitt stykki, sem vegur 3.000 brúttó kg og þann 10. júní 1999, þegar varan var afhent, hafi gengi SDR verið skráð kr. 100,08.
(1) miðað við hvert stykki eða flutningseiningu:
1 x 667 SDR = 667 x 100,08 = kr. 66.753
(2) miðað við hvert brúttókíló vöru:
3.000 x 2 SDR = 6.000 x 100.08 = kr. 600.480
Samkvæmt því geti bætur samkvæmt 70. gr. siglingalaga ekki verið hærri en kr. 600.480.
Enn fremur krefst stefndi þess að framangreind fjárhæð verði lækkuð á grundvelli 4. mgr. 68. gr. siglingalaga, þar sem í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi verið meðvaldur að tjóninu vegna yfirsjónar eða vanrækslu, sem fólgin var í því að afhenda bát til flutnings sem verið hafi í slæmu ástandi, án þess að vara við því og/eða gefa fyrirmæli um hvernig sjóbúa ætti bátinn.
Stefndi vísi til þess að takmörkun á rétti til ábyrgðartakmörkunar samkvæmt 6. mgr. 70. gr. siglingalaga eigi eingöngu við um aðgerðir farmflytjanda sjálfs, þ.e. æðstu stjórnenda, stjórnar og forstjóra, en ekki aðgerðir starfsmanna hans. Um undantekningarreglu sé að ræða sem beri að skýra þröngt og eftir orðanna hljóðan. Um starfsmenn farmflytjanda gildi sérregla í 3. mgr. 72. gr. siglingalaga hvað þetta varði. Hafi stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að æðstu stjórnendur stefnda hafi séð um sjóbúning og flutning bátsins.
Þá byggi stefndi á því að ákvæðið geri ekki ráð fyrir venjulegu gáleysi, heldur verði að vera um stórfellt gáleysi að ræða og þar að auki það skilyrði að farmflytjandi sjálfur hafi mátt gera sér ljóst að tjón hlytist sennilega af. Markmiðið með þessu stranga skilyrði greinarinnar sé að ekki reyni á ákvæðið nema í algerum undantekningartilvikum og mótmæli stefndi því alfarið að þessum ströngu skilyrðum gáleysismatsins sé fullnægt í máli þessu.
Kröfum stefnanda um vexti fyrir tímabilið áður en dómur er kveðinn upp sé alfarið mótmælt þar sem aðilar hafi sérstaklega samið um að stefndi skyldi ekki greiða vexti fyrr en frá uppkvaðningu dóms, sbr. 10. gr. farmsamnings aðila.
Um vexti sé að finna almenn ákvæði í vaxtalögum nr. 25/1987 en samkvæmt 3. gr. þeirra séu lögin frávíkjanleg. Í 1-3. mgr. 70. gr. siglingalaga sé mælt fyrir um fjárhæð skaðabóta eftir 68. gr. laganna. Þar sé annars vegar mælt fyrir um hvaða verðgildi beri að leggja til grundvallar við ákvörðun bótafjárhæðar (1. mgr.) og hins vegar þá hámarksfjárhæð sem bætur geti verið (2. mgr.). Í þessum ákvæðum sé hins vegar ekki mælt fyrir um að vextir skuli bætast við bætur. Samkvæmt því sé engin heimild til þess að leggja vexti ofan á skaðabætur eftir 68. gr. siglingalaga þar sem lagaheimild skorti til slíks. Auk þess liggi fyrir að stefnandi krafði stefnda fyrst um bætur vegna tjónsins og lagði fram gögn vegna þess við þingfestingu máls þessa. Af þeim sökum komi ekki til greina að dæma vexti ofan á kröfufjárhæðina eins og krafa sé gerð um í stefnu.
Stefndi Alþjóðleg miðlun ehf. kveðst byggja sýknukröfu sína á því að félagið sé ekki réttur aðili til varna í máli þessu. Stefndi, sem sé vátryggingarmiðlun, hefði á árinu 1997 að beiðni Landssambands íslenskra smábátaeigenda haft forgöngu um að miðla húftryggingum fyrir félagsmenn þess til COX Försäkring í Stokkhólmi. Sem miðlari hafi stefndi hins vegar annast það að innheimta iðgjöld fyrir húftryggingar félagsmanna í Landssambandinu og skila þeim áfram til vátryggjandans COX. Jafnframt hefði stefndi sem vátryggingarmiðlari og með heimild vátryggjandans COX gefið út staðfestingar til vátryggðra um að þeir væru vátryggðir hjá COX ásamt upplýsingum um gildistíma vátryggingar, iðgjald, skilmála o.fl. Ekki sé á nokkurn hátt hægt að líta á staðfestingu af þessu tagi sem sjálfstæða yfirlýsingu miðlarans um persónulega ábyrgð hans. Stefndi mótmæli staðhæfingum stefnanda um að stefndi verði skilgreindur sem tryggingafélag eða að stofnast hafi vátryggingarsamningur milli hans og stefnanda.
Til að tryggja aðskilnað vátryggjanda og miðlara svo og til að sjáflstæði miðlara gagnvart vátryggingarfélögum sé tryggt, líti Fjármálaeftirlið svo á að það samræmist ekki starfi miðlara að annast bótauppgjör fyrir einstök vátryggingafélög, sbr. 81. gr. 1. 60/1994. Af þessum sökum hafi fyrirtækið Tryggingarráðgjöf ehf. annast uppgjör tjóna. Réttara hefði því verið að stefna því félagi f.h. vátryggjanda eða vátryggjanda sjálfum þ.e. COX Försäkring A/S en ekki stefnda.
Það sé því um aðildarskort að ræða af hálfu stefnda sem skv. 2. mgr. 16 gr. eml. eigi að leiða til sýknu.
Þá bendi stefndi á að af málatilbúnaði stefnanda sé ekki unnt að ráða á hverju hann byggi kröfugerð sína á hendur stefnda. Þannig virðist ekki ljóst hvort hann byggi kröfugerð sína á grundvelli skilmála húftryggingarinnar eða á einhverjum öðrum grundvelli. Tjón stefnanda, þó að um bátstjón sé að ræða, verði ekki rakið til notkunar tryggingarandlagsins sem báts heldur sé hér um farmtjón að ræða. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á né reynt að færa sönnur á að slíkt tjón heyri undir þá skilmála sem um húftrygginguna gilda.
Stefndi vísi sérstaklega til þess að um flutninginn hefðu átt að gilda svokallaðir "C" skilmálar, þar sem vátryggt sé gegn nefndum áhættuflokkum en farmtjón sé ekki talið upp meðal þeirra.
Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir því, hvert það tjón hans sé og að þær vátryggingar, sem hann hafi keypt, taki til tjónsatburðarins. Ekkert slíkt liggi fyrir í máli þessu og því beri að sýkna stefnda.
Stefndi kveðst vísa til ákvæða 62. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga um að tryggingarfélag beri ekki ábyrgð á tjóni, sem eingöngu verði rakið til slits, elli eða fúa, þegar um bát sé að ræða, né á farmtjóni, sem rekja megi til ónógs umbúnaðar eða eðlis vörunnar sjálfrar, svo sem innri skemmda, rýrnunar o.s.frv. Bátur stefnanda hafi verið illa farinn af elli, sliti eða fúa að hann hafi ekki þolað umbúnaðinn. Þá verði krafa allt að einu ekki gerð á vátryggjanda vegna slíks sbr. grein 4.3 í skilmálum “C” þegar litið sé til ástands bátsins.
Varakröfu sína byggi stefndi á því að stefnandi eigi ekki rétt til hærri bóta en nemi því tjóni sem hann hafi orðið fyrir. Við dómkvaðningu matsmanns hafi verið gerð sérstök athugasemd við það að ekki væri í matsbeiðninni farið fram á að samfara viðgerðarkostnaði yrði metið hvert væri raunverulegt verðmæti bátsins bæði fyrir og eftir tjónsatburð. Stefnandi hefði ekki talið ástæðu til að breyta matsbeiðni sinni til samræmis við þessar ábendingar.
Samkvæmt framlögðum upplýsingum frá Skipasölunni ehf. komi fram að söluverðmæti bátsins hafi ekki numið hærri fjárhæð en kr. 3 - 400,000 fyrir tjón.
V
Í máli þessu deila stefnandi og stefndi Eimskipafélag Íslands hf. (EÍ) um það hvort starfsmenn félagsins hafi með stórfelldu gáleysi valdið stefnanda tjóni sem félagið beri skaðabótaábyrgð á og jafnframt hvort félagið geti borið fyrir sig ábyrgðartakmarkanir skv. 2. mgr. 70. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Ágreiningur stefnanda og stefnda Alþjóðlegrar miðlunar ehf. (AM) snýst aðallega um það hvort einkahlutafélaginu beri að bæta stefnanda tjón hans á grundvelli vátryggingarsamnings en félagið ber við aðildarskorti.
Stefndu kveða bát stefnanda hafi verið fúinn og benda á framlagðar myndir því til sönnunar. Vitnið Sigurjón M. Ólafsson, sambýlismaður stefnanda, kom fyrir dóminn og kvað ný borð hafa verið sett í bátinn fyrir fáum árum og að ekki hefði verið um fúa að ræða í honum. Dómkvaddur matsmaður og höfundur framlagðrar matsgerðar, Einar Haraldsson, skipasmiður, bar fyrir dóminum að ekki hefði verið sjáanlegur fúi í kringum skemmdirnar í bátnum við skoðun hans 27. janúar 2000. Það er niðurstaða dómsins eftir skoðun fram lagðra mynda og með hliðsjón af fyrrgreindum vitnisburðum að ósannað sé að mb. Auðunn Lárus hafi verið fúinn þegar hann var fluttur vestur til Ísafjarðar. Verður því ekki á þá málsástæðu fallist að tjón stefnanda verði rakið til lélegs ástands báts stefnanda.
Í ljósi þessa verður ekki fallist á það með stefnda EÍ að það hafi verið yfirsjón eða vanræksla stefnanda að upplýsa ekki um sjóbúning bátsins enda verður að líta svo á að starfsmenn stefnda EÍ, sem sáu um sjóbúninginn, séu sérfræðingar á því sviði og eigi að vita hvernig ganga skuli frá ólíkum farmeiningum til flutnings.
Óumdeilt er að þegar bátur stefnanda, sem er 3000 kg trébátur skv. farmskírteini, smíðaður 1978, var fluttur frá Reykjavík til Ísafjarðar á þilfari Bakkafoss, skips stefnda EÍ, hafi hafnarstarfsmenn félagsins híft bátinn upp úr sjó beint á gámapall í samræmi við farmbréf. Sjóbúningi bátsins er lýst hér að framan. Það er mat dómsins að gögn málsins sýni að frágangur bátsins á fletinu var hvorki viðunandi né vandvirkur þar sem hann sat á byrðingi með kjölinn á lofti. Telja verður að þessi vanbúnaður hafi orsakað skemmdirnar á bol bátsins. Samkvæmt framangreindu ber stefndi EÍ bótaábyrgð á tjóni stefnanda þegar bátur hans skemmdist við framngreindan flutning, sbr. 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985, enda hefur stefndi ekki leitt nægileg rök að því að tjónið stafi af atvikum sem greind eru í 2. mgr. sömu greinar. Í 1. mgr. 70. gr. laganna segir síðan að bætur samkvæmt 68. gr. skuli ákveða eftir því verðgildi sem varan myndi hafa haft ósködduð við afhendingu á réttum stað og tíma.
Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. siglingalaga geta bætur ekki orðið hærri enn 667 SDR fyrir hvert stykki eða flutningseiningur eða 2 SDR fyrir hvert brúttókíló vöru sem glatast. Skal miða við þá fjárhæð, sem hæst getur orðið samkvæmt þessu. Samkvæmt 6. mgr. 70. gr. laganna getur farmflytjandi ekki borið fyrir sig ábyrgðartakmörkun samkvæmt þeirri grein ef það sannast að hann hafi sjálfur valdið tjóninu eða skaðanum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og honum mátt vera ljóst að tjón myndi sennilega hljótast af.
Þótt fallist sé á það með stefnanda að sjóbúningur báts hans umrætt sinn hafi ekki verið nægilega tryggilegur eins og að framan er rakið, verður þó ekki talið leitt í ljós að tjón stefnanda verði rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis af því tagi sem lýst er í 6. mgr. 70. gr. siglingalaga. Stefndi EÍ hefur því ekki fyrirgert rétti sínum til að takmarka bótaábyrgð sína samkvæmt 70. gr. Í ljósi þessarar niðurstöðu þarf ekki að fjalla um það hér hvernig skýra beri hugtakið “farmflytjandi sjálfur” í 6. mgr. 70. gr. siglingalaga.
Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem viðgerðarkostnaður er metinn á bilinu 1.645.000 til 1.925.000 án virðisaukaskatts. Verður að leggja matsgerðina til grundvallar mati á tjóni stefnanda þar sem henni hefur ekki verið hnekkt með tækum sönnunargögnum. Eins og áður er komið fram vegur bátur stefnanda 3000 kg samkvæmt farmskírteini. Samkvæmt því er það niðurstaða útreiknings eftir 2. mgr. 70. gr. siglingalaganna sú að bætur stefnanda teljast rétt ákveðnar kr. 600.480.
Sýknukrafa stefnda Alþjóðlegrar miðlunar ehf. er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti. Við skoðun á fram lögðu skjali sem ber yfirskriftina “staðfesting á vátryggingu”, sem stefnandi lagði fram við þingfestingu, kemur fram hver er vátryggingartaki, hvert hið vátryggða er og síðan er vátryggjandi sagður vera “100% Cox Forsäkring at Lloyd´s”. Í fram lögðu bréfi Tryggingaráðgjafar ehf., löggiltrar vátryggingamiðlunar, til lögmanns stefnanda dagsettu 15. febrúar 2000 er bótaskyldu á umþrættu tjóni hafnað fyrir hönd Cox Forsäkring en þar er vísað á Alþjóðlega miðlun ehf. ef um framhald málsins verði að ræða gagnvart Cox Forsäkring. Að þessu virtu þykir ekki leika vafi á því að Alþjóðlegri miðlun ehf. sé ranglega stefnt sem vátryggjanda í þessu máli enda er ekkert komið fram um að um samningssamband sé að ræða milli félagsins og stefnanda. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir því verða að sýkna stefnda Alþjóðlega miðlun ehf. af öllum kröfum stefnanda.
Með hliðsjón af ofanrituðu er það niðurstaða dómsins að stefndi Hf. Eimskipafélag Íslands greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 600.480 með dráttarvöxtum eins og krafist er í stefnu.
Stefndi Alþjóðleg miðlun ehf. skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi Hf. Eimskipafélag Íslands greiði stefnanda kr. 368.524 í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 368.524 greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Sigmundar Hannessonar hrl., kr. 250.000.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Alþjóðlegrar miðlunar ehf. fellur niður.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, og meðdómsmennirnir Pálmi Hlöðversson, stýrimaður og kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík, og Páll Ægir Pétursson, skipstjóri, kváðu upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Alþjóðleg miðlun ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi, Hf. Eimskipafélag Íslands, greiði stefnanda Marín Eiðsdóttur, kr. 600.480 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júní 1999 til 18. maí 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Alþjóðlegrar miðlunar ehf. fellur niður.
Stefndi Hf. Eimskipafélag Íslands greiði stefnanda kr. 368.524 í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar Sigmundar Hannesson hrl., kr. 250.000.