Hæstiréttur íslands
Mál nr. 555/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Innstæða
- Forgangskrafa
|
|
Mánudaginn 14. október 2013. |
|
Nr. 555/2013.
|
Glitnir hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Eksportfinans ASA (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Innstæða. Forgangskrafa.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfum E var skipað í réttindaröð við slitin sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málsatvik voru þau að G hf. og dótturfélag hans í Noregi veittu þremur norskum fyrirtækjum lán til skipasmíða. Síðar urðu kröfuhafaskipti að lánunum með því að E keypti kröfur af G hf. á hendur skuldurunum. Samhliða aðilaskiptum að lánssamningunum gerðu E og G hf. meðal annars með sér sérstakan umboðssamning sem fól í sér að G hf. kæmi fram fyrir hönd E gagnvart skuldurunum og hefði milligöngu um greiðslur afborgana og vaxta samkvæmt samningunum. Þegar Fjármálaeftirlitið vék stjórn G hf. til hliðar í október 2008 og skipaði yfir hann skilanefnd átti E þar innstæðu vegna fyrrgreinds samningssambands. Ágreiningur aðila sneri að því hvort innstæða E hjá G hf. teldist innlán í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, og þar með hvort krafa E nyti forgangs við slit, eða hvort féð væri undanskilið tryggingarvernd laganna og yrði þar með skipað í réttindaröð sem almennri kröfu við slitin. Fyrir Hæstarétti sneri ágreiningur aðila að því annars vegar hvort krafa E á hendur G hf. væri í formi verðbréfs og hins vegar hvort E teldist aðildarfyrirtæki í merkingu 9. g. laga nr. 98/1999, en hvoru tveggja hefði þau réttaráhrif í för með sér að krafa E væri þar með undanskilin tryggingarvernd laga nr. 98/1999, sbr. síðari málslið 3. mgr. 9. gr. laganna og 6. mgr. sömu greinar. Því var hafnað að svo væri og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013, þar sem kröfur varnaraðila annars vegar að fjárhæð 3.256.101.703 krónur og hins vegar að fjárhæð 6.144.166.167 krónur, voru samþykktar í réttindaröð sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. þeirra laga. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að kröfur varnaraðila njóti stöðu í réttindaröð sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Exportfinans ASA, 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 11. nóvember 2011, með bréfi slitastjórnar Glitnis hf., var þingfest 9. janúar 2012 og tekið til úrskurðar 12. júní 2013.
Sóknaraðili, Eksportfinans ASA, Dronning Mauds gate 15, Ósló, Noregi, krefst þess að krafa hans, nr. CL20091119-1539 í kröfuskrá varnaraðila, að lýstri fjárhæð 24.977.748 Bandaríkjadalir, sem er samþykkt í kröfuskrá að fjárhæð 3.256.101.703 krónur, verði samþykkt sem forgangskrafa, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðili krefst þess jafnframt að krafa hans, nr. CL20091205-8675 í kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 318.103.348 norskar krónur, sem er samþykkt í kröfuskrá að fjárhæð 6.144.166.167 krónur, verði samþykkt sem forgangskrafa, samkvæmt 112. grein laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. greinar laga nr. 161/2002, við slitameðferð varnaraðila.
Að auki krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila sem taki tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt.
Varnaraðili, slitabú Glitnis hf., kt. [...], Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess að krafa sóknaraðila, nr. CL20091119-1539 í kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 24.977.748 Bandaríkjadalir, sem er samþykkt í kröfuskrá að fjárhæð 3.256.101.703 krónur, verði hafnað sem forgangskröfu, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð varnaraðila. Staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að samþykkja kröfu sóknaraðila, að fjárhæð 3.256.101.703 krónur, sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili krefst þess jafnframt að krafa sóknaraðila, nr. CL20091119-8675 í kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 318.103.348 norskar krónur, sem samþykkt er í kröfuskrá að fjárhæð 6.144.166.167 krónur, verði hafnað sem forgangskröfu, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð varnaraðila. Staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, að samþykkja kröfu sóknaraðila að fjárhæð 6.144.166.167 krónur, sem almenna kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Að auki krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir
Málsaðilar
Sóknaraðili er hlutafélag með starfsleyfi sem lánastofnun samkvæmt norskum lögum um fjármálastarfsemi. Við sögu þessa máls koma, auk hans, íslenski bankinn Glitnir, sem hét Íslandsbanki þegar atvik málsins hefjast. Á þeim tíma átti sá banki dótturfyrirtæki í Noregi, Kredittbanken ASA. Stjórn Íslandsbanka ákvað, 11. mars 2006, að gefa bankanum nafnið Glitnir og það nafn fengu einnig dótturfélög og skrifstofur í fimm löndum. Til hægðarauka verður ætíð vísað til bankans fyrir fall hans sem Glitnis og dótturfélagsins í Noregi sem Glitnis ASA.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samþykkta sóknaraðila, sem er stærsta lánastofnun Noregs, er einungis bönkum og norska ríkissjóðnum heimilt að eiga í honum hlutafé. Auk norska ríkisins eru 26 bankar hluthafar, þeir stærstu meðal annars DNB Bank ASA, Nordea Bank Norway AS og Danske Bank A/S.
Lán Glitnis til norskra skipasmíðastöðva
Norska fyrirtækið Island Offshore VIII KS, Glitnir ASA og Glitnir gerðu með sér fjölmyntalánssamning (e. multicurrency loan facility agreement), 21. mars 2005, þar sem bankarnir veittu Island Offshore VIII KS sambankalán (e. syndicated loan) að fjárhæð NOK 285.000.000, til skipasmíða. Samkvæmt samningnum gegndi Glitnir ASA hlutverki umboðsbanka (e. agent) og bar að taka við afborgunum og vaxtagreiðslum frá lántaka auk annarra verkefna sem er nánar lýst í lánssamningnum.
Norska fyrirtækið Uksnøy Petrel AS, Glitnir ASA og Glitnir gerðu með sér, 21. apríl 2005, fjölmyntalánssamning, þar sem Uksnøy Petrel AS var veitt lán að fjárhæð NOK 160.000.000. Norska fyrirtækið Island Offshore Shipholding LP, Glitnir ASA og Glitnir gerðu með sér sambærilegan fjölmyntalánssamning, 6. september 2005, þar sem Island Offshore Shipholding LP var veitt lán að fjárhæð USD 16.500.000. Glitnir gegndi hlutverki umboðsbanka samkvæmt báðum þessum samningum.
Meginefni samninganna er það sama. Lántökum var til dæmis heimilt að myntbreyta skuldinni, afborganir átti að greiða af höfuðstól á sex mánaða fresti og lántakar höfðu bæði rétt og skyldu til þess að greiða lánið upp, í heild eða hluta, fyrir gjalddaga, við ákveðnar aðstæður, til dæmis ef þeir seldu þau skip sem þeir höfðu í smíðum eða skipin eyðilegðust.
Um hlutverk umboðsbanka gagnvart lántaka og lánveitendum segir í gr. 15.2 allra lánssamninganna að umboðsbankinn skuli tafarlaust miðla til lánveitanda öllum greiðslum sem berast frá lántökum (...the Agent shall promptly and with same day value distribute to the Banks all sums received by it hereunder on behalf of the Banks.)
Markaðssamningur
Sóknaraðili og Glitnir gerðu, 1. desember 2005, með sér markaðssamning (e. Market Agreement) og hófu samstarf um lánveitingar eða framsal krafna Glitnis til sóknaraðila, sbr. 1. gr. samningsins, fyrir allt að 100 milljónir evra. Í ljósi takmarkaðra heimilda sóknaraðila til lánveitinga var samið sérstakt minnisblað um þær tegundir lána sem féllu undir markaðssamninginn. Lán sem uppfylltu skilyrðin (e. eligible loans) voru lán til norskra útflutningsfyrirtækja, lán til dótturfyrirtækja norskra fyrirtækja utan Noregs og lán til fyrirtækja utan Noregs sem fluttu inn lausafé eða þjónustu frá Noregi. Í hnotskurn voru þessi lán ætluð aðilum og verkefnum sem tengdust norskum útflutningsiðnaði í samræmi við samþykktir sóknaraðila, sbr. 3. gr. markaðssamningsins og minnisblaðsins í viðauka 1 við hann.
Í þessu fólst að Glitnir seldi sóknaraðila kröfur sem sá fyrrnefndi átti á hendur lántökum, sem uppfylltu þessi skilyrði, gegn tryggingu Glitnis fyrir skaðlausri greiðslu viðkomandi lántaka og sóknaraðili varð kröfuhafi gagnvart lántaka samkvæmt viðkomandi lánssamningi.
Umboðssamningur
Í fimmta viðauka við markaðssamninginn var umboðssamningur (Agency Agreement). Á grundvelli hans og ákvæða viðkomandi lánssamninga kom Glitnir eða Glitnir ASA fram gagnvart skuldara sem umboðsbanki (e. agent bank). Samkvæmt 2. gr. umboðssamningsins skyldi Glitnir með tilhlýðilegri varfærni sinna skyldum sínum samkvæmt lánssamningunum og taka við greiðslum afborgana og vaxta frá lántökum á grundvelli þeirra. Hann átti síðan að færa til eignar (e. credit) sóknaraðila allar afborganir og vaxtagreiðslur sem mælt var fyrir um í lánssamningum aðila (...administer and arrange all transfer of funds expressed therein) í samræmi við sérstaka endurgreiðsluáætlun milli málsaðila (e. full repayment schedule). Afborganir og vaxtagreiðslur Glitnis vegna þessara lána áttu að greiðast inn á almenna reikninga sóknaraðila hjá Citibank í London, New York, Tokyo og Osló, sbr. 4. gr. umboðssamningsins.
Samkvæmt 5. gr. umboðssamningsins bar Glitni að upplýsa sóknaraðila tafarlaust um allar tilkynningar frá lántökum (...promptly advise EKSPORTFINANS of any notice received by it from the Borrower...). Samkvæmt gr. 6 (ii) samningsins bar Glitni að kappkosta að upplýsa sóknaraðila um allar aðstæður sem gætu haft áhrif á hagsmuni hans.
Ábyrgð Glitnis
Lán sem voru framseld sóknaraðila á grundvelli markaðssamningsins voru tryggð með ábyrgð frá Glitni, sbr. 10. gr. samningsins og fjórða viðauka með staðlaðri ábyrgðaryfirlýsingu (e. Global Guarantee). Glitnir ábyrgðist sem eigin skuld gjaldfallnar greiðslur og greiðslur á gjalddaga til sóknaraðila af lánum samkvæmt skilmálum lánssamninganna, það er höfuðstól þeirra, lánsvexti og dráttarvexti og allar aðrar fjárhagslegar skuldbindingar viðkomandi lántaka.
Í ábyrgðaryfirlýsingunni er jafnframt tiltekið að kröfur á grundvelli hennar skulu vera greiddar að kröfu sóknaraðila og að henni framkominni hafi Glitnir rétt til að i) greiða ábyrgðarskuldbindinguna með eingreiðslu (e. lump sum) eða ii) greiða kröfurnar með því að uppfylla skyldur viðkomandi lántaka samkvæmt lánssamningi.
Ábyrgð Glitnis skyldi gilda þar til sex mánuðum eftir lokagjalddaga hvers láns um sig eða þar til lánin hefðu verið greidd upp að fullu. Í ábyrgðarskjalinu segir: „This guarantee remains in full force and effect until the date occurring 6 months after final maturity of the respective Loans, but under no circumstances after the respective Loans together with interest, default interest and expenses has been paid in full...“
Sóknaraðili kaupir kröfur af Glitni
Á grundvelli markaðssamningsins og umboðssamningsins sem og heimildar í 16 gr. lánssamninganna gerðu sóknaraðili og Glitnir fimm framsalssamninga vegna fjögurra lána til þriggja lántaka. Glitnir framseldi sóknaraðila, 19. desember 2005, eftirfarandi kröfur gegn greiðslu:
- Kröfu að fjárhæð USD 8.280.073 á hendur Uksnøy Petrel AS vegna lánssamnings dags. 21. apríl 2005 milli Glitnis, Glitnis ASA og félagsins.
- Kröfu að fjárhæð USD 3.362.212 á hendur Uksnøy Petrel AS vegna lánssamnings dags. 21. apríl 2005 milli Glitnis, Glitnis ASA og félagsins.
- Kröfu að fjárhæð USD 16.500.000 á hendur Island Offshore Shipholding LP vegna lánssamnings dags. 6. september 2005 milli Glitnis, Glitnis ASA og félagsins.
- Kröfu að fjárhæð NOK 230.000.000 á hendur Island Offshore VIII KS vegna lánssamnings, 21. mars 2005, milli Glitnis, Glitnis ASA og félagsins. Síðar, 9. janúar 2006, var gerður nýr lánssamningur vegna endurfjármögnunar þessa láns.
Upphaflegir lánveitendur, Glitnir og Glitnir ASA, framseldu sóknaraðila réttindi sín og skyldur til samræmis við framselda lánsfjárhæð, í fjórum tilvikum einungis hluta lánananna og voru greiðslur lántaka til sóknaraðila í samræmi við það hlutfall. Í einu tilviki, vegna lánsins til Island Offshore Shipholding LP, framseldi Glitnir sóknaraðila alla lánsfjárhæðina.
Sóknaraðili var lánveitandi frá upphafi vegna láns, 9. janúar 2006, til Island Offshore VIII KS vegna sérstaks eðlis þess samnings. Í skrám 1A til 1E með lánssamningnum er sóknaraðili tilgreindur sem lánveitandi (e. participating bank), og Glitnir sem fulltrúi hans (e. representative) og ábyrgðaraðili (e. guarantor).
Með bréfi, 21. desember 2005, tilkynnti Glitnir Uksnøy Petrel AS framsal kröfu til sóknaraðila vegna lánssamningsins. Island Offshore Shipholding LP var tilkynnt um framsal krafna vegna lánssamningsins með bréfi Glitnis, 2. janúar 2006.
Lántakar gera lánin upp
Með heimild í 8. gr. lánssamningsins greiddi Uksnøy Petrel AS skuldir sínar vegna framangreindra lánssamninga að fullu 4. mars 2008. Sama gerði Island Offshore Shipholding LP, 30. júní 2008. Óumdeilt er að þessar greiðslur bárust inn á reikning hjá Glitni, sbr. tölvuskeyti frá fjármálastjóra bankans, 21. ágúst 2009.
Samkvæmt fram lögðum gögnum keypti sóknaraðili NOK 230.000.000 kröfu Glitnis á hendur Island Offshore VIII KS, 19. desember 2005. Hún var hluti láns til Island Offshore VIII KS samkvæmt lánssamningi, 21. mars 2005, að heildarfjárhæð NOK 285.000.000.
Lánssamningurinn, 21. mars 2005, var gerður upp (endurfjármagnaður) með öðrum lánssamningi, 9. janúar 2006, að fjárhæð NOK 405.000.000. Í viðauka við lánssamninginn, 9. janúar 2006, kemur fram að heildarkrafa sóknaraðila vegna lánsins nam NOK 330.000.000. Það voru NOK 45.000.000 vegna A-hluta lánsins, NOK 85.000.000 vegna B-hluta lánsins og 100.000.000 vegna C-hluta lánsins, samtals NOK 230.000.000. Sóknaraðili keypti kröfu samkvæmt D-hluta lánsins af Glitni, 12. janúar 2006, að fjárhæð NOK 100.000.000. Samkvæmt þessu nam krafa sóknaraðila á hendur Island Offshore VIII KS, NOK 330.000.000, 12. janúar 2006.
Samkvæmt lánssamningnum átti A-hluti lánsins að fjármagna skipið „Island Scout“, B-hluti skipið „Island Pride“, C-hluti skipið „Island Trader“ og D-hluti skipið „Island Spirit“.
A-hluti lánsins var fyrirframgreiddur í heild sinni 20. apríl 2006, B-hluti 20. júlí 2007 og C-hluti 26. september 2007. Ástæða þess að lánin voru greidd fyrir gjalddaga var í öllum tilfellum sú að lántaki seldi umrædd skip og bar þess vegna samkvæmt gr. 8.3, sbr. gr. 12.6, í lánssamningnum, 9. janúar 2006, að endurgreiða viðkomandi hluta lánsins.
Skuld Glitnis við sóknaraðila nam, 26. september 2007, NOK 230.000.000 vegna fyrirframgreiðslu lántaka. Eftirstöðvar lánssamningsins, 9. janúar 2006, voru greiddar (endurfjármagnaðar), 31. október 2007, með gerð lánssamnings milli Glitnis, Glitnis ASA og Island Offshore VIII KS að fjárhæð NOK 1.276.661.335. Sóknaraðila var ekki greint frá endurfjármögnuninni, 31. október 2007, og tók þar af leiðandi ekki þátt í lánveitingunni.
Samkvæmt þessu skuldaði Glitnir sóknaraðila NOK 330.000.000 frá og með 31. október 2007.
Glitnir ASA greiddi þessar fjárhæðir, uppgreiðslu lánanna, inn á uppgjörsreikning Glitnis og þar með inn á almenna sjóði hans. Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. markaðssamningsins og 2. gr. umboðssamningsins, voru fjármunir sóknaraðila ekki færðir áfram á reikninga sóknaraðila í öðrum bönkum. Ágreiningslaust er að Glitnir sinnti ekki þeirri skyldu sinni samkvæmt umboðssamningnum að tilkynna sóknaraðila um þessa uppgreiðslu lánanna en hélt þess í stað áfram að greiða sóknaraðila afborganir og vexti á grundvelli lánssamninganna í samræmi við endurgreiðsluáætlanir og tilkynningar sóknaraðila fram til október 2008 er Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf.
Þar sem sóknaraðila bárust greiðslur í samræmi við greiðsluáætlun, eins og lánin hefðu ekki verið gerð upp, hafði hann ekki neina ástæðu til að ætla að lánin hefðu verið gerð upp fyrir gjalddaga. Sóknaraðili frétti fyrst af fyrirframgreiðslum lántakanna þegar hann hafði samband við þá er fréttir bárust af vandræðum Glitnis í október 2008.
Með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið, 7. október 2008, yfir vald hluthafafundar Glitnis, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Héraðsdómur Reykjavíkur veitti bankanum heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði 24. nóvember sama ár. Með gildistöku laga nr. 44/2009, 22. apríl 2009, hófst slitameðferð Glitnis. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði, 12. maí sama ár, slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Samkvæmt lögum nr. 44/2009 gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórnin gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár.
Sóknaraðili lýsti kröfum sínum, 22. október 2009, og krafðist þess að höfuðstóll krafna hans yrði viðurkenndur sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem og vextir af þeim fram til 22. apríl 2009. Slitastjórn samþykkti kröfur sóknaraðila með breytingum, sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en hafnaði því að þær nytu forgangs, samkvæmt 112. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Sóknaraðili féllst á afstöðu slitastjórnar til fjárhæðar krafnanna ásamt vöxtum og er fjárhæð þeirra því óumdeild. Sóknaraðili mótmælti aftur á móti afstöðu slitastjórnar og krafðist viðurkenningar krafna sinna sem forgangskrafna. Fyrir slitastjórn var eftir það reynt án árangurs að jafna ágreininginn. Slitastjórn beindi ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi, 11. nóvember 2011, með vísan til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili telur engin rök standa til annars en að krafa hans verði að fullu tekin til greina. Hann vísar fyrst til þess að samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gildi, við slit fjármálafyrirtækis, sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skuli kröfur um innstæður, samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, jafnframt teljast til krafna sem njóti rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 sé með innstæðu átt við innstæðu sem sé tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Skuld samkvæmt verðbréfi geti ekki talist innstæða, sbr. 2. ml. 3. mgr. 9. gr. sömu laga.
Framangreind skilgreining byggist á 1. tölulið 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innstæðutryggingar. Þar segi um hugtakið innlán að það sé innstæða sem sé komin til vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og skuli endurgreiða. Á ensku hljóði ákvæðið orðrétt: „deposit shall mean any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution.“
Af skilgreiningu laganna leiði að skuld viðskiptabanka (eða sparisjóðs) þurfi að uppfylla þrjú hugtaksskilyrði svo að hún teljist innstæða, (i) skuldin þurfi að vera komin til vegna innláns eða millifærslu, (ii) innlánið eða millifærslan þurfi að vera liður í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og (iii) viðskiptabankanum verði að vera skylt að endurgreiða inneignina samkvæmt skilmálum sem gildi samkvæmt lögum eða samningum aðila.
Gögn málsins beri með sér að innstæða sóknaraðila uppfylli öll þessi skilyrði. Hún sé innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Sóknaraðili færir eftirtalin rök fyrir málsástæðu sinni:
(i) Innstæða vegna millifærslu eða innláns
A. Innlán
Af athugasemdum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningu á hugtakinu innlán/innstæða sé ljóst að tilvitnuðu orðalagi hafi verið ætluð víðtæk tilvísun og hún sé hugsuð frá sjónarhóli innstæðueiganda. Það sé innstæðueigandinn sem eigi kröfu (credit balance) sem í reikningum banka myndi skuld. Síðan segi:
The idea of „credit balance“ is relatively clear: In particular it is used for current accounts but it is supplemented by the idea of „funds left in accounts“ which is intended to indicate saving books or accounts or any other instrument in which funds generally remain for longer than in current accounts.
Framangreind tilvísun hafi í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 1. apríl 2011, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 301/2011, verið talin fela í sér að undir hugtakið innstæðu „geti fallið sparnaðarbækur, sparnaðarreikningar eða hvers konar geymslustaðir þar sem fjármunir séu geymdir til lengri tíma en á hlaupareikningum“. Í dóminum hafi einnig staðið að þess væri ekki krafist að skuldin væri nafngreind. Það samræmist tilvitnuðum athugasemdum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Sóknaraðili bendir á að Glitni hafi borist fjármunir, 20. apríl 2006, 27. júlí 2007, 27. september 2007 og 31. október 2007, vegna Island Offshore og 4. mars 2008 vegna Uksnøy Petrel AS og 30. júní sama ár vegna láns til Island Offshore Shipholding LP. Þegar lántakar hafi greitt lánin upp hafi myndast innstæða á reikningi hjá Glitni og skuld við sóknaraðila á móti í efnahagsreikningi bankans. Að baki þeirri skuld liggi ekki útgáfa verðbréfa (fjármálagerninga) eða lánssamningur. Sú skuld sé innstæða eða „credit balance“ í eigu sóknaraðila og í vörslum varnaraðila sem sé komin til vegna millifærslu framangreindra lántaka.
B. Millifærsla
Verði ekki fallist á að innstæður sóknaraðila séu innlán í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, byggir sóknaraðili á því að þær séu, hvað sem öðru líði, millifærslur í skilningi ákvæðisins. Hugtakið millifærsla sé hvorki skilgreint í lögunum né í tilskipun 94/19/EB. Til hliðsjónar megi annars vegar hafa skilgreiningu sem fylgdi athugasemdum með frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 39/1996, en þar sagði orðrétt: „Til innstæðu teljast innlán og millifærslur. Dæmi um hið síðarnefnda er þegar greitt er í einum banka inn á reikning í öðrum banka. Svo kann að fara að fyrrnefndi bankinn geti ekki staðið skil á greiðslunni til hins síðarnefnda og kemur þá til kasta tryggingarsjóðsins.“
Hins vegar megi hafa til hliðsjónar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1781/2006, um upplýsingar greiðanda sem fylgja skuli við millifærslu, sem innleidd hafi verið á Íslandi með reglugerð nr. 386/2009. Í 7. tölulið 2. gr. reglugerðar nr. 1781/2006 sé millifærsla fjármuna skilgreind sem „hvers konar millifærsla sem greiðslumiðlun innir af hendi fyrir hönd greiðanda með rafrænum hætti í því skyni að viðtakandi greiðslu geti gengið að fjármununum hjá greiðslumiðlun, án tillits til þess hvort greiðandi og viðtakandi greiðslu eru einn og sami aðili“. Hugtakið „greiðslumiðlun“ sé skilgreint í 5. tl. 2. gr. sömu reglugerðar sem „einstaklingur eða lögaðili með starfsemi sem felst m.a. í því að veita þjónustu við að millifæra fjármuni“.
Það sé óumdeilt að umræddir fjármunir hafi verið lagðir inn hjá Glitni 20. apríl 2006, 27. júlí 2007, 27. september 2007, 31. október 2007, 4. mars 2008, og 30. júní 2008 og Glitni hafi borið að færa þá áfram á bankareikninga sóknaraðila. Glitni hafi þegar verið tilkynnt hvert skyldi greiða þessa fjármuni, sbr. 2. og 4. gr. umboðssamningsins. Því séu innstæður sóknaraðila í öllu falli til komnar vegna millifærslu og njóti sem slíkar forgangs við slit varnaraðila.
(ii) Hefðbundin almenn bankastarfsemi
Fjármálafyrirtæki geti einungis stundað þá starfsemi sem starfsleyfi þeirra tiltaki eða þeim sé sérstaklega heimilað samkvæmt lögum. Í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sé upptalning á því hvaða starfsemi bönkum sé heimilt að sinna og afmarki þannig hvað geti talist hefðbundin og almenn bankastarfsemi.
Innstæða sóknaraðila og millifærsla falli innan marka hefðbundinna bankaviðskipta. Móttaka innlána, kröfukaup og þar af leiðandi kröfusala, veiting ábyrgða og greiðslumiðlun (nú greiðsluþjónusta) sé kjarnastarfsemi í viðskiptabankaþjónustu. Ákvæði 1. töluliðar, c-liðar, 2. og 4. töluliðar 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki staðfesti þetta.
(iii) Skylda til endurgreiðslu
Glitni hafi verið skylt að greiða/afhenda sóknaraðila umrædda fjármuni samkvæmt lögum og samningi. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar sé skuldskeyting ekki heimil nema með samþykki kröfuhafa. Sóknaraðili hafi ekki veitt slíkt samþykki hvorki fyrir fram né eftir á. Í markaðssamningum sé ekki gert ráð fyrir að sóknaraðili veitti Glitni lán.
Með hliðsjón af þessu tekur sóknaraðili fram að honum hafi verið óheimilt að lána Glitni fjármuni, samkvæmt ákvæðum samþykkta sinna og framlagðra samninga við Glitni. Samkvæmt 11. gr. markaðssamningsins hafi Glitni borið að fylgjast með greiðslum lántaka og tryggja að greiðslur yrðu færðar (e. credited) á sóknaraðila. Samkvæmt 2. gr. umboðssamningsins hafi Glitni borið, með tilhlýðilegri varfærni, að sinna skyldum sínum í tengslum við viðkomandi lánssamninga og framkvæma og sjá um greiðslur fjár og reikningsfærslur eins og mælt sé fyrir í þeim samningum. Glitni hafi einnig borið að tilkynna sóknaraðila um greiðslur til hans samkvæmt lánssamningunum. Glitni hafi verið kunnugt um bankareikninga sóknaraðila sbr 4. gr. umboðssamningsins, enda hafi Glitnir greitt áfram af umræddum lánum eins og þau væru enn útistandandi.
Þessu til viðbótar sé sóknaraðili ekki aðildarfyrirtæki í skilningi 3. gr. sbr. 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Af framangreindu leiði að kröfur sóknaraðila njóti forgangs, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit bankans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Með vísan til alls framangreinds telur sóknaraðili öll rök standa til þess að kröfur hans verði að fullu teknar til greina.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, sérstaklega ákvæða þeirra laga sem vísað er til í greinargerð sem og reglugerðar nr. 386/2009. Þá vísar hann til laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, einkum 3. gr. laganna. Kröfu sína um málskostnað byggir hann á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili áréttar að ágreiningur málsaðila varði einungis það hvort kröfur sóknaraðila séu tryggðar innstæður eða millifærslur samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutrygginar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og njóti þar með forgangs við slit varnaraðila, samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008 og 6. gr. laga nr. 44/2009.
Varnaraðili tekur fram að á þeim tíma er viðskipti málsaðila áttu sér stað, nutu innstæður ekki forgangs samkvæmt lögum og hafi sóknaraðili því ekki mátt búast við því að njóta annarrar stöðu en almennur kröfuhafi, kæmi til gjaldþrots bankans.
Varnaraðili hafnar því að kröfur sóknaraðila geti notið rétthæðar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og hafnar öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. Kröfur hans falli ekki undir hugtökin innstæða eða millifærsla í skilningi laga nr. 98/1999, kröfur lánastofnana geti ekki notið forgangs sem tryggðar innstæður og viðskipti málsaðila hafi öll einkenni verðbréfa en ekki innláns. Varnaraðili færir eftirfarandi rök fyrir málsástæðum sínum:
Kröfur sóknaraðila falla ekki undir hugtökin innstæða eða millifærsla í skilningi laga nr. 98/1999
Varnaraðili byggir á því að kröfur sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði hugtaksins innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Kröfur sóknaraðila eigi rætur að rekja til lánssamninga eða verðbréfa og séu því undanþegnar tryggingavernd laganna. Af þeim sökum geti kröfur sóknaraðila einungis notið rétthæðar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gildi við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Þó skuli kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 jafnframt teljast til krafna sem njóti rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með innstæðu samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 sé samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins átt við innstæðu sem sé komin til vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Þá segi í ákvæðinu að skuldabréf, víxlar eða aðrar kröfur, gefnar út af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa, teljist ekki innstæða.
Skilgreining hugtaksins innstæða byggist á 1. tölulið 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innstæðutryggingar (tilskipunin), þar sem hugtakið innlán sé skilgreint sem innstæða sem sé komin til vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun beri að endurgreiða með skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum, svo og kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa. Í 2. gr. tilskipunarinnar segi að innlán af hálfu annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning teljist ekki til innlána sem megi endurgreiða í gegnum tryggingarkerfi. Samkvæmt viðauka 1 við tilskipunina megi undanskilja tryggingavernd samkvæmt 2. mgr. 7. gr. innlán frá fjármálastofnun, sbr. 6. mgr. 1. gr. tilskipunar 89/646/EBE. Sú tilskipun fjalli um þær lánastofnanir sem veiti lán í eigin nafni til almennings. Í 21. gr. laga nr. 98/1999 segi að lögin séu sett meðal annars til að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunarinnar. Því verðí að skýra ákvæði laganna með hliðsjón af henni.
Næst víkur varnaraðili að skilyrðum 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og því hvað krafa þurfi að uppfylla til þess að teljast tryggð innstæða í skilningi ákvæðisins og njóta þar með forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.
a) Innlán
Ákvæði 3. mgr. 9. gr. innstæðulaga geri í fyrsta lagi að skilyrði að tryggð innstæða sé komin til vegna innláns. Af greinargerð framkvæmdastjórnarinnar við frumvarp tilskipunarinnar komi m.a. fram: Hugmyndin um „innstæðu“ er fremur skýr. Hún er sérstaklega notuð um hlaupareikninga en við bætist að um er að ræða „fjármuni sem lagðir eru inn á reikning“, sem miðast við bankabækur eða sparifjárreikninga eða aðra fjármálagerninga sem gerðir eru til að varðveita fjármuni í lengri tíma en tíðkast um hlaupareikninga.
Sé litið nánar á hvernig viðskipti málsaðila stofnuðust og framkvæmd þeirra upp frá því, sjáist að þeir fjármunir sem lántakar greiddu inn á reikning Glitnis ASA, sem síðar voru greiddir inn á uppgjörsreikning Glitnis, hafi ekki verið fjármunir í eigu sóknaraðila. Með öðrum orðum hafi þessir fjármunir ekki orðið að innstæðu sóknaraðila sem Glitni bar að millifæra án tafar á grundvelli skilmála viðkomandi lánssamninga. Varnaraðili áréttar að engin bein tenging hafi verið á milli greiðslna lántaka til Glitnis og greiðslna hans á afborgunum og vaxtagreiðslum til sóknaraðila. Glitnir hafi greitt sóknaraðila þessar greiðslur samkvæmt sérstakri endurgreiðsluáætlun á milli samningsaðila og að undangenginni sérstakri tilkynningu sóknaraðila um gjalddaga, sem voru í janúar- og júlímánuði ár hvert. Sóknaraðili átti ekki greiðslukröfu á hendur Glitni vegna þessara fjármuna sem lántakar viðkomandi lánssamninga greiddu og voru í vörslu varnaraðila. Greiðslur Glitnis til sóknaraðila hafi verið óháðar því hvort viðkomandi lánssamningar væru í vanskilum eða höfðu verið greiddir upp að fullu.
Það megineinkenni innstæðna, að banki taki við peningum frá viðskiptavini í því skyni að endurlána féð eða nýta til fjárfestingar, sé almennt viðurkennt. Annað einkenni innstæðna sé að innlánsstofnun sé skylt að greiða viðskiptavini innstæðuna að hluta eða að öllu leyti, að kröfu viðskiptamanns, t.d. í formi ávísunar, útborgunar í peningum eða samkvæmt millifærslubeiðni. Ekkert af þessu liggi fyrir. Framangreind atriði greini meðal annars innstæðu frá lánveitingu en í slíkum tilvikum sé bæði gjalddagi ákveðinn fyrir fram og greiðslustaður hjá viðkomandi kröfuhafa (lánastofnun).
Að mati varnaraðila hljóti sú staðreynd að skipta máli að enginn sérstakur innlánsreikningur hafi verið stofnaður fyrir sóknaraðila í hans nafni hjá Glitni í tengslum við þessi viðskipti. Þá hafi Glitnir ekki gefið sóknaraðila út nein sérstök skilríki fyrir því að hafa tekið við innláni. Hér vísar varnaraðili meðal annars til greinargerðar framkvæmdastjórnarinnar við frumvarp tilskipunarinnar, þar sem segi að hugmyndin um „innstæðu“ sé fremur skýr. Hún sé sérstaklega notuð um hlaupareikninga en við bætist að um sé að ræða „fjármuni sem lagðir eru inn á reikning“, sem miðast við bankabækur eða sparifjárreikninga eða aðra fjármálagerninga sem séu gerðir til að varðveita fjármuni í lengri tíma en tíðkast um hlaupareikninga. Þannig hafi í dómaframkvæmd verið litið til þess að með innstæðu sé vísað til krafna á banka í formi veltu- eða sparifjárreikninga, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 175/2011. Þar sem þær greiðslur, sem sóknaraðili krefjist nú að teljist innstæður, hafi verið greiddar af þriðja aðila inn á reikning í Glitni ASA og síðar inn á uppgjörsreikning Glitnis vegna lánsviðskipta, beri að hafna kröfum sóknaraðila.
Þá vísar varnaraðili til þess að af athugasemdum með frumvarpi framkvæmdastjórnarinnar til tilskipunarinnar, sé augljóst að skilgreiningin á gildissviði tilskipunarinnar sem sé sett fram í 1. gr., sé aðallega miðuð við hlaupareikninga og sparifjárreikninga, en ekki við lánastarfsemi eða fjárfestingar annarra lánastofnana. Fjármálafyrirtæki á borð við sóknaraðila geti þannig ekki talist venjulegir viðskiptavinir gagnvart öðru fjármálafyrirtæki og þurfi heldur ekki á þeirri vernd að halda, sem kveðið er á um í tilskipuninni. Undanþága innlána frá lánastofnunum í eigin þágu og fyrir eigin reikning bendi til þess að áherslur tilskipunarinnar miðist við smærri aðila, og þá staðreynd að lánastofnanir séu í betri aðstöðu en aðrir innstæðueigendur til að meta líkurnar á neikvæðri stöðu banka og þar af leiðandi hugsanlegum vanskilum þeirra.
Varnaraðili mótmælir sem rangri og ósannaðri þeirri staðhæfingu sóknaraðila að þeir fjármunir sem bárust Glitni frá lántakendum, hafi myndað innstæðu á reikningi Glitnis og skuld á móti í efnahagsreikningi hans. Að baki þeim fjármunum sem greiddir voru inn á uppgjörsreikning Glitnis, hafi réttilega legið skuld en hún hafi hins vegar komið til vegna lánssamninga. Þessir fjármunir hafi þess vegna ekki verið innstæða í eigu sóknaraðila sem var komin til vegna millifærslu lántaka. Því hafi ekki verið nein bein tenging milli millifærslu lántakenda viðkomandi lánssamninga og því fari fjarri að umræddir fjármunir teljist af þeirri ástæðu innstæður sóknaraðila sem er í vörslu varnaraðila. Innstæðurnar hafi komið til vegna millifærslu þriðja aðila en Glitni hafi hins vegar ekki borið að greiða umrædda fjármuni áfram til sóknaraðila.
Varnaraðili telur því ljóst, bæði af fyrirliggjandi gögnum sem og eðli krafna sóknaraðila, að kröfurnar falli ekki undir skilgreiningu hugtaksins innstæða samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Þegar af þeirri ástæðu geti krafan ekki notið forgangsréttar við slitameðferð varnaraðila.
b) Millifærsla
Varnaraðili hafnar þeirri túlkun sóknaraðila að inneign hans sé millifærsla í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og bendir á að með millifærslu sé átt við þá aðstöðu þegar fjármunir séu í svokölluðu „transit“, þ.e. á því tímabili þegar fjármunir séu færðir á milli reikninga. Áður hafi verið rakin megineinkenni innstæðna og það sem greini þær frá lánveitingu en í tilviki lánveitinga sé bæði gjalddagi fyrir fram ákveðinn og greiðslustaður hjá viðkomandi lánastofnun. Varnaraðili bendir á að í gögnum málsins sé ekki nein millifærslubeiðni frá sóknaraðila heldur einungis tilkynningar sóknaraðila um gjalddaga á vaxtagreiðslum og endurgreiðsluáætlanir á afborgunum, atriði er einkenni vel flesta lánssamninga.
Á Glitni hafi ekki hvílt nein samningsbundin skylda til að ,,millifæra“ þá fjármuni sem hann fékk frá lántakendum til sóknaraðila í skilningi 3. mgr. 9. gr. innstæðulaga. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. markaðssamningsins, hafi hlutverki Glitnis sem umboðsbanka þeirra lánssamninga sem framseldir voru sóknaraðila, meðal annars verið lýst þannig að honum bæri að fylgjast með vaxtagreiðslum og lánsafborgunum lántaka og tryggja að hlutdeild í láni yrði færð á sóknaraðila. Þetta hlutverk sé síðan skilgreint nánar í 2. gr. umboðssamningsins, þar sem fram kom að Glitnir hafi átt að framkvæma og sjá um greiðslur fjár og reikningafærslur eins og mælt var fyrir í viðkomandi lánssamningum. Hlutverk Glitnis sem umboðsbanka hafi fyrst og fremst falist í því að tilkynna sóknaraðila um greiðslur lántaka annars vegar og sjá um að greiða afborganir/vaxtagreiðslur vegna þeirra til sóknaraðila á grundvelli útreikninga hans. Glitni hafi borið að upplýsa sóknaraðila um fulla endurgreiðsluáætlun afborgana í samræmi við samninginn. Hefðu þetta verið einfaldar millifærslur, eins og sóknaraðili haldi fram, hefði ekki verið þörf á slíku. Þá hefði heldur ekki verið þörf á sérstökum tilkynningum frá sóknaraðila varðandi gjalddaga og fjárhæð vaxtagreiðslna.
Sóknaraðili vísar til athugasemda með frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 39/1996, er breyttu lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði. Þau tilvik sem þar sé vísað til sem dæmi um millifærslur í skilningi ákvæðisins, eigi ekki við um kröfur sóknaraðila. Glitnir hafi ekki fengið fjármuni frá sóknaraðila í sína vörslu sem átti síðan að millifæra inn á innlánsreikning sóknaraðila að hans kröfu. Fyrirmæli um ráðstöfun þessara fjármuna sem innstæðu á einum innlánsreikningi yfir í innstæðu á öðrum innlánsreikningi í eigu sóknaraðila hafi ekki legið fyrir.
Tilvísun sóknaraðila í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1781/2006 um upplýsingar greiðanda sem fylgja skulu við millifærslu fjármuna, sem innleidd var í innlendan rétt með reglugerð nr. 386/2998, hafi ekki fordæmisgildi við mat á því hvort kröfur sóknaraðila séu komnar til vegna millifærslna enda ekki fjallað um þetta álitaefni í henni. Tilvísun til „millifærslu“ í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 verði að túlka til samræmis við tilskipun 94/19/EB, en frumtexti tilskipunarinnar vísi til „tímabundinna aðstæðna vegna hefðbundinna bankaviðskipta“ (e. ,,temporary situations deriving from normal banking transactions“). Því geti tilvísun til millifærslna bara átt við þau tilvik þegar fjármunir séu fluttir frá einum innstæðureikningi yfir á annan. Með öðrum orðum eigi þetta við þegar fjármunir séu „á milli bankareikninga“, og njóti þeir þá sömu verndar og hefðu fjármunirnir komist á „áfangastað“. Þessi skilningur sé staðfestur í frumvarpi til nýrra laga um innstæðutryggingar sem lagt var fram á löggjafarþingi 2010-2011.
Sóknaraðili byggi á því að Glitni hafi þegar verið tilkynnt hvert skyldi greiða þá fjármuni sem um ræðir og vísi til 2. og 4. gr. umboðssamningsins því til stuðnings. Sóknaraðili minnist hins vegar ekki á að í 3. gr. umboðssamningsins, sé tiltekið að við móttöku á hverju skuldbindingarbréfi frá sóknaraðila vegna framseldra lána, hafi Glitni borið að upplýsa sóknaraðila um fulla endurgreiðsluáætlun (e. repayment schedule) og vaxtagreiðslu af láninu. Í framhaldi af þessu ákvæði, sé tilgreint í 4. gr. hvaða reikninga sóknaraðila Glitnir átti að nota fyrir greiðslur vegna viðkomandi framsalssamninga. Út frá ákvæðum umboðssamningsins megi ekki með neinu móti lesa að umþrætta fjármuni hafi átt að „færa áfram“ á bankareikninga sóknaraðila.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili því hafið yfir allan vafa að viðskipti aðila falli utan hugtaksins innstæða, enda hafi engir fjármunir runnið til Glitnis, hvorki í formi innláns né millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
c) Hefðbundin almenn bankastarfsemi
Skilgreiningin í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og tilskipunarinnar vísi til hefðbundinnar almennrar bankastarfsemi. Orðalagið vísi þannig til hefðbundinna viðtöku innlána í starfsemi banka en nái hins vegar ekki til sérhæfðra lána eða fjármögnunar sem sé framkvæmd með samningum við aðrar lánastofnanir. Hefðbundin bankastarfsemi byggist á því að taka við innlánum frá þeim sem vilji leggja peninga til hliðar. Fjármunir liggi á hefðbundnum sparireikningum til skemmri eða lengri tíma og séu síðan lánaðir áfram á hærri vöxtum. Í tilviki málsaðila hafi farið fram raunverulegar samningsviðræður um þá skilmála sem um þau gilda, andstætt því sem gildi um hefðbundnar innstæður, sem séu háðar fyrir fram ákveðnum skilmálum um vexti og öðrum stöðluðum skilmálum að öðru leyti sem ekki sé samið um í hverju tilviki fyrir sig.
Tryggingavernd laga nr. 98/1999 hafi verið talin ná til allra sparireikninga sem innlánsstofnanir bjóði upp á, allt frá óbundnum, óverðtryggðum reikningum til bundinna, verðtryggðra reikninga. Kröfur útgefnar af lánastofnun, t.d. verðbréf eigi rætur að rekja til slíkra löggerninga og geti þannig aldrei talist til innstæðna í þessu sambandi eins og nánar verði vikið að.
Það sé eðli bankastarfsemi að bankar fjármagni sig að jafnaði til skamms tíma en láni og veiti aðra fyrirgreiðslu til langs tíma. Sá grundvallarmunur sé á almennum innstæðueigendum og mótaðilum banka, við fjármögnun af því tagi sem þetta mál taki til, að í síðara tilvikinu hafi samningsaðili sérstaka þekkingu á þessum viðskiptum og sé því betur í stakk búinn til að meta áhættu af viðskiptunum í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga. Í því sambandi verði einnig að líta til fjárhæðar endurgreiðslu, sbr. 10. gr. laga nr. 98/1999 og 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar, sem sé einungis smávægilegt brot af innlánum fjármálafyrirtækja í bönkum.
Sóknaraðili vísi til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og telji upptalningu þar afmarka hvað geti talist hefðbundin almenn bankastarfsemi í skilningi laga nr. 98/1999. Enda þótt starfsleyfi Glitnis hafi á þessum tíma heimilað honum að taka við innstæðum, þýði það ekki að hugtakið nái yfir þau viðskipti sem þetta mál taki til. Af þessu leiðir að samkvæmt almennri merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 998/1999 geti viðskipti málsaðila ekki talist innstæður eða millfærsla í skilningi laganna.
d) Skylda til endurgreiðslu
Sóknaraðili vísi í greinargerð sinni til 11. gr. markaðssamningsins þar sem segi að einstök hlutverk Glitnis sem umboðsbanka séu innifalin í almennum umboðsbankasamningi, sbr. viðauka 5. Því beri að líta til þess sem þar standi við mat á því hvort Glitni hafi verið skylt að greiða/afhenda sóknaraðila greiðslur lántaka til Glitnis. Samkvæmt 2. gr. umboðssamningsins hafi Glitni borið að tilkynna sóknaraðila um greiðslur lántaka og greiða fjármuni samkvæmt viðkomandi lánssamningum. Með vísan til þessa sem og þess að Glitnir ábyrgðist skuldir af lánssamningunum sem sínar eigin skuldir, sbr. viðauka 4 við markaðssamninginn, sé ljóst að Glitni hafi ekki verið skylt að endurgreiða þá fjármuni sem voru greiddir fyrir fram og sóknaraðili rekur kröfu sína til.
Sóknaraðili haldi því fram að honum hafi verið óheimilt að lána Glitni fjármuni samkvæmt ákvæðum samþykkta hans og samninga aðila sem liggi fyrir í gögnum málsins. Í samþykktum sóknaraðila sé hvergi bann við lánveitingum til banka eða annarra lánastofnana. Í 2. gr. samþykkta segi að markmið sóknaraðila sé að stunda fjármögnunarstarfsemi (e. financing operations), eins og það er skilgreint í norsku lögunum um fjármálaþjónustu en innan þess falla meðal annars lánveitingar. Eina skilyrðið sem samþykktir sóknaraðila setja fyrir lánveitingum sé, að tryggingar séu veittar af annað hvort norskum eða erlendum bönkum með hátt lánshæfi (e. creditworthiness), sbr. 17. gr.
Þá geti sóknaraðili þess ekki að hann hafi, ásamt öðrum bönkum og lánastofnunum, tekið þátt í veitingu peningamarkaðsláns til Glitnis samtals að fjárhæð EUR 225.000.000. Þar af hafi sóknaraðili lánað EUR 10.000.000. Þetta hafi verið lánalína (e. revolving credit facility), þ.e. að afborganir voru ekki ákveðnar fyrir fram heldur gátu breyst eftir ákvæðum samningsins um lengingu lánsins. Sóknaraðili hafi lýst kröfu þess efnis við slit varnaraðila og krefjist þess að hún njóti rétthæðar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, þar sem hún sé skuld á grundvelli lánssamnings. Sóknaraðili hafi jafnframt lýst sambærilegri kröfu fyrir breskum dómstólum. Þetta staðfesti sóknaraðili í frétt sem birtist á vefsíðu hans, 22. október 2008, þar sem segi m.a.: In addition Eksportfinans participates in an international loan syndicate directly to Glitni HF on Island. The loan is declared in default by the syndicate. Eksportfinans´ claim under this loan is NOK 85 million.
Hér beri einnig að líta til markaðssamningsins, nánar tiltekið inngangs og markmiðs hans, sem kveði á um samstarf um stofnun nýrra lána eða framsals lána. Kröfur sóknaraðila í þessu máli taki einmitt til þessara tveggja markmiða samningsins. Í skilgreiningum í 2. gr. samningsins sé tekið fram að „lán“ tákni hvert einstakt lán eða öll lánin sem til er stofnað milli Glitnis og sóknaraðila og einstakra lántaka, hvers og eins. Þá tákna „lánsvextir“, vexti sem sóknaraðili fékk á hvert lán en „vextir“ núverandi vexti hvers láns. Þannig sé ljóst að gert hafi verið ráð fyrir því í samstarfi sóknaraðila og Glitnis að stofnað yrði til nýrra lána þeirra á milli sem og því að lán yrðu framseld.
e) Bókhaldsleg meðferð viðskiptanna hjá málsaðilum
Viðskipti sóknaraðila og Glitnis hafi verið meðhöndluð sem skammtímalán (e. term loans) í bókum Glitnis og meðhöndluð sem slík í kerfum bankans og á grundvelli verklagsreglna um meðferð peningamarkaðslána. Þannig hafi þau verið færð undir lántöku samkvæmt túlkun varnaraðila á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum IFRS/IAS. Það sé í samræmi við túlkun Fjármálaeftirlitsins á því hvernig lánastofnunum beri að færa peningamarkaðslán til bókar samkvæmt slíkum stöðlum. Í samræmi við það hafi við útreikning á bindiskyldu og skýrsluskil til Seðlabanka Íslands á grundvelli reglna nr. 373/2008 ekki verið tekið tillit til umræddra lána frá sóknaraðila. Þá liggi enn fremur fyrir að ekki hafi verið greitt af þessum lánum til Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þyki fullljóst af skilmálum lánanna að þau sé ekki innlán komin til vegna innstæðu eða millifærslu í skilningi 3. mgr. 9. gr. innstæðulaga.
Af ársskýrslu sóknaraðila fyrir árið 2008 sé ljóst að skuld Glitnis sé flokkuð sem ógreitt lán eða virðisrýrð (e. impaired) krafa frá lánastofnun (e. credit institution). Einnig sé ljóst að viðskiptin hafi ekki verið færð undir handbært fé og bankainnstæður enda ekki heimilt að færa niður og afskrifa slíka liði í efnahagsyfirliti. Þá sé krafa sóknaraðila á hendur Glitni í árshlutareikningi sóknaraðila fyrir árið 2008, felld undir „Lán og útistandandi skuldir frá lánastofnunum“ (e. loans and receivables from credit institutions) í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla IFRS. Þá bendir varnaraðili á að í tölvupósti starfsmanns sóknaraðila, 26. september 2008, taki starfsmaður Glitnis fram að lán sóknaraðila til Glitnis sé skráð sem lán í bókum sóknaraðila.
f) Enginn sérgreindur reikningur
Varnaraðili byggir á því að rökrétt sé að álykta sem svo að innstæða geti einungis tekið til sérgreindra eða nafngreindra fjármuna viðkomandi aðila á reikningi í þeirra nafni. Í því sambandi vísar hann til þess að fjármálafyrirtækjum sé skylt að skrá innlánsreikninga á nafn viðskiptamanns ásamt heimilisfangi og kennitölu, sbr. 113. gr. laga nr. 161/2002. Því hefði slíkur innlánsreikningur átt að vera til í nafni sóknaraðila hefði inneignin verið innstæða.
g) Skjalagerð
Í þeim skjölum sem liggi til grundvallar viðskiptum málsaðila sé enska orðið „deposit“ (í. innlán) hvergi notað heldur notist samningsaðilar við hugtakið „loan agreement“ (í. lánssamningur), „term loan“ (í. skammtímalán), „currency lending“ (í. gjaldeyrislánveiting) og „currency borrowing“ (í. gjaldeyrislántaka) svo dæmi séu tekin. Í þeim samningum sem liggi viðskiptunum til grundvallar séu ítarlegir skilmálar um lánveitingar. Þessir samningar geti ekki með neinu móti talist fela í sér greiðslur í formi innláns sem sé komið til vegna innstæðu eða millifærslu í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Þá hafi sóknaraðili ekki heldur lagt fram nein gögn sem sýni að hann hafi lagt inn fjármuni til Glitnis til ávöxtunar eða geymslu. Orðanotkun í fyrirliggjandi skjölum, gefi þannig óyggjandi vísbendingu um hvers eðlis viðskipti málsaðila voru.
Kröfur lánastofnana geta ekki notið forgangs sem tryggðar innstæður
Jafnvel þótt kröfur sóknaraðila teldust ekki vera komnar til fyrir lánveitingar heldur sem innlán, verði að skilja ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 svo að einungis tryggðar innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 njóti forgangs við slit til jafns við kröfur samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Vísar varnaraðili hér til þeirrar undantekningar í 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, þar sem segi að undanskilin tryggingu samkvæmt 1. mgr. séu innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja. Um umfang umræddar undantekningar vísast m.a. til athugasemda við frumvarp til laga nr. 98/1999 vegna ákvæðisins í 6. mgr. 9. gr., þar sem staðfest er að hugtakið „aðildarfyrirtæki“, nái ekki einungis til viðskiptabanka eða sparisjóða heldur einnig til annarra lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins segi skýrt að um útvíkkun á þessari undanþágu sé að ræða.
Ákvæði 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 verði enn fremur að túlka í samræmi við 2. gr. tilskipunarinnar, sem veiti ekki valkvæða undanþágu eins og getið sé um í viðauka 1 við tilskipunina. Samkvæmt orðanna hljóðan sé undanþága 2. gr. tilskipunarinnar skyldubundin og aðildarríkjum því ekki heimilt að veita slíkum kröfum tryggingavernd. Þannig segi orðrétt í inngangsorðum tilskipunarinnar að rétt sé að innlán sem lánastofnanir stofna í eigin þágu og fyrir eigin reikning séu undanskilin tryggingu. Þá segi í athugasemdum framkvæmdastjórnarinnar við 2. gr. tilskipunarinnar, að upptalningin í viðauka 1, sé takmörkuð og aðildarríki megi einungis undanskilja tryggingavernd þá aðila sem þar séu taldir upp en aðrar takmarkanir myndu hins vegar brjóta gegn tilskipuninni.
Varnaraðili bendir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 184/2010, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að einungis tryggðar innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 falli undir gildissvið nýrra ákvæða um forgang innstæðueigenda. Þá vísar hann til þess að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.
Þeir fjármunir sem kröfur sóknaraðila taki til, hafi ekki verið færðir á innlánsreikninga, og það samrýmist þeirri skoðun varnaraðila að það séu lán, en ekki innlán. Slík lán séu undanskilin endurgreiðslu í tryggingakerfinu samkvæmt 2. gr. tilskipunarinnar, þar sem lánastofnanir séu óumdeilt betur settar en aðrir innstæðueigendur við mat á neikvæðri stöðu banka. Þá áréttar varnaraðili að innlánatryggingarkerfin tryggi aðeins innlán hvers innstæðueiganda upp að 20.000 evrum verði innlánin ótiltæk, eins og 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar kveði á um, sbr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Það sýni að markmið tilskipunarinnar sé ekki að vernda fjármálastofnanir, þar sem 20.000 evrur dygðu líklega skammt í þeim tilgangi.
Skilgreining 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og 1. gr. tilskipunarinnar sé miðuð við hlaupareikninga og sparifjárreikninga, ekki við lánastarfsemi eða fjárfestingar lánastofnana. Enda þótt skilgreininguna eigi að túlka rúmt samkvæmt athugasemdum framkvæmdastjórnarinnar, sé hún háð sérstökum takmörkunum samkvæmt 2. gr. og 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar. Undanþágan í 2. gr. tilskipunarinnar, nái til innlána lánastofnana og breyti engu þar um þótt sóknaraðili hafi ekki heimild til að taka við innlánum. Undanþága innlána frá lánastofnunum í eigin þágu og fyrir eigin reikning bendi til þess að áherslur tilskipunarinnar miðist við smærri aðila. Varnaraðili vísar í þessu sambandi til athugasemda framkvæmdastjórnarinnar, þar sem segi orðrétt: Some deposits are excluded from the guarantee. First of all, interbank deposits: the main justification for this is that banks are supposed to know the crisis bank´s situation better than other persons in a business relationship with it.
Varnaraðili vísar til þess að viðskiptin séu alls eðlisólík innlánum í hefðbundinni bankastarfsemi. Fjármögnun á peningamarkaði eigi lítið ef nokkuð sammerkt með innlánum viðskiptamanna bankanna og fátt sameiginlegt með þeirri neytendavernd sem stefnt sé að með tilskipuninni. Þá sjáist greinilega á þeim samningum sem Glitnir og sóknaraðili gerðu og framkvæmd þeirra að litið hafi verið á viðskiptin sem lánaviðskipti. Þegar einnig sé litið til þess að hér hafi tvær fjármálastofnanir átt viðskipti á millibankamarkaði um lán með fyrir fram ákveðnum gjalddögum og sérstaklega umsömdum vöxtum, verði að leggja til grundvallar að um peningamarkaðslán/innlán hafi verið að ræða sem falli ekki undir ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
Varnaraðili vísar til almennra athugasemda með frumvarpi er varð að lögum nr. 39/1996, þar sem sagði m.a. um tilskipunina og heimild stjórnvalda til að undanskilja tryggingu: Því er gert ráð fyrir að gildissvið tryggingarinnar hér á landi verði óbreytt frá því sem verið hefur að undanskildum innstæðum í eigum viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem verða skilyrðislaust að vera undanþegnir tryggingunni. Þar segi jafnframt um 16. gr. frumvarpsins að í 3. mgr. (sem breytti ákvæði 77. gr. laga nr. 43/1993) væru taldar upp innstæður sem samkvæmt tilskipuninni skyldu ávallt vera undanþegnar tryggingu. Þar væru í fyrsta lagi innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning. Þá hafi sérstaklega verið tekið fram að innstæðutryggingum væri fyrst og fremst ætlað að bæta tjón almennra innstæðueigenda en ekki annarra lánastofnana sem ættu að búa yfir nægjanlegri þekkingu á fjárhagsstöðu annarra slíkra stofnana til að vita hvar þeim væri óhætt að leggja inn fé sitt. Loks segi að íslensk stjórnvöld væru bundin af ákvæðum tilskipunarinnar hvað þessa undantekningu varðar.
Varnaraðili byggir þannig á því að þótt fjármunir sóknaraðila kunni að teljast „innlán“ í skilningi laga nr. 98/1999, sbr. 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, séu þeir samkvæmt 2. gr., sbr. 3. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar, sjálfkrafa og almennt undanþegnir endurgreiðslu samkvæmt tilskipuninni enda ljóst að sóknaraðili hafi starfsleyfi sem „lánastofnun“ í merkingu 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana. Þá sé ljóst að þau innlán sem undanskilja megi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar eigi ekki við hér enda sé þar kveðið á um innlán frá fjármálastofnunum, sbr. 6. mgr. 1. gr. tilskipunar 89/646/EBE, sem séu þær lánastofnanir sem veiti lán í eigin nafni til almennings.
Með vísan til þess sem að framan hafi verið rakið, eigi einkenni sóknaraðila sjálfs að leiða til þess að því verði hafnað að kröfur hans njóti forgangsstöðu enda staðreyndin sú að innstæður lánastofnana, vilji svo ólíklega til að fallist verði á að kröfur sóknaraðila falli undir hugtakið í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, séu hvorki tryggðar samkvæmt innstæðulögum né tilskipuninni.
Viðskipti málsaðila hafa öll einkenni verðbréfa en ekki innláns
Verði ekki fallist á afstöðu varnaraðila á þeim grunni sem hér hafi verið rakinn, byggir hann á því að þau viðskipti sem séu grundvöllur þeirra krafna sem deilt er um í þessu máli, teljist til krafna sem séu gefnar út af viðskiptabanka í formi verðbréfa í merkingu síðari málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og falli þannig utan hugtaksins innstæða.
Í lögum nr. 98/1999 sé hugtakið „verðbréf“ ekki skilgreint og því sé nauðsynlegt að líta til skilgreininga í 2. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, sem í gildi voru við setningu laga nr. 98/1999. Þar komi fram að verðbréf séu hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum. Lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hafi komið í stað fyrrgreindra laga. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 33/2003, er staðfest að skilgreining laganna sé efnislega hin sama og í lögum nr. 13/1996 og þar sérstaklega tekið fram eftirfarandi: Fyrsta atriði skilgreiningarinnar er að um sé að ræða „hvers konar framseljanleg kröfuréttindi“. Hún er því ekki bundin við ákveðið form skuldbindingar, heldur nægir að skuldbinding sé hæf til framsals og gildir einu hvort slík framsöl þurfi að fara fram skriflega eða með öðrum hætti. Í gildandi lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti sé sú skilgreining á hugtakinu verðbréf í 2. tölulið 1. mgr. 2. gr., að þau séu þau framseljanlegu verðbréf sem hægt sé að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði. Þannig sé átt við verðbréf sem séu í vörslu, umsjón eða umsýslu aðildarfyrirtækis og beri að endurgreiða eða standa skil á þeim samkvæmt skilmálum er gildi um samskipti aðildarfyrirtækis og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum.
Fyrir liggi að hluti þeirra krafna sóknaraðila, sem Glitnir átti upprunalega, voru framseldir sóknaraðila á grundvelli framsalssamninga. Þessar kröfur sóknaraðila séu því óumdeilt framseljanleg kröfuréttindi. Aðalatriðið sé að framsal þeirra hafi ekki verið takmarkað. Tilgangur og efni viðskipta aðila geti jafnframt talist sambærilegur öðrum tegundum gerninga sem falli undir undantekninguna í lögum nr. 98/1999, t.d. skuldabréf, sem feli á sambærilegan hátt í sér að banka eru lánaðir fjármunir á tilteknum umsömdum kjörum, oft með skilgreindum endurgreiðsludögum. Kröfur sóknaraðila geti þannig talist sértryggð skuldabréf, enda liggi fyrir skrifleg, einhliða skuldaviðurkenning sem njóti fullrar ábyrgðar útgefanda.
Sóknaraðili leggi jafnframt áherslu á að hann hafi hvorki átt reikning hjá Glitni né hafi tekið við reikningsyfirliti eða yfirliti yfir innstæður hans í vörslu Glitnis. Sóknaraðili hafi ekki heldur notið reiknings- eða greiðsluþjónustu, heldur byggist krafa hans á framseljanlegum kröfuréttindum sem falli utan hugtaksins innstæða. Að því marki sem dómurinn telji á annað borð heimilt að beita lagaákvæðum um forgang innstæðna, sé ljóst að kröfur sóknaraðila geti ekki notið góðs af slíkum forgangi.
Sönnunarreglur
Varnaraðili byggir á því að sönnunarbyrðin um að kröfur sóknaraðila teljist innstæður í skilningi laga nr. 98/1999 hvíli á sóknaraðila. Varnaraðili vísar til meginreglu að baki ákvæðis 117. gr. laga nr. 21/1991, það er um form og efni kröfulýsingar og sönnunargagna sem kröfur séu studdar við. Þá byggir varnaraðili jafnframt á þeirri almennu sönnunarreglu íslensks réttar að sá, sem byggja vill einhver nánar tiltekin réttindi á samningi, verði að sanna, að samningur hafi verið gerður með því efni, sem samrýmst geti kröfu hans. Í því sambandi bendir varnaraðili á að hvergi í þeim samningum sem liggi viðskiptunum til grundvallar, sé tekið fram að sóknaraðili eigi innstæðu hjá Glitni eða hafi lagt inn á reikning hjá honum fjármuni til geymslu eða ávöxtunar.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili meðal annars til laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti sem og brottfallinna laga nr. 33/2003 og nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, tilskipunar 89/646/EBE um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um stofnun og rekstur lánastofnana og meginreglna samningaréttar um túlkun samninga.
Niðurstaða
Glitnir og Glitnir ASA, dótturfyrirtæki hans, veittu þremur norskum fyrirtækjum lán til skipasmíða. Í lánssamningunum er skylda til fyrirframgreiðslu við ákveðnar aðstæður þar á meðal væru skipin seld áður en lánstíminn væri á enda runninn.
Hinn 19. desember 2005 keypti sóknaraðili, norsk lánastofnun, kröfur Glitnis á hendur lántökunum og greiddi Glitni fyrir þær. Við framsal hverrar kröfu varð sóknaraðili nýr kröfuhafi gagnvart sérhverjum lántaka, sem fékk skriflega tilkynningu um framsalið. Til undirbúnings þessum viðskiptum gerðu Glitnir og sóknaraðili markaðssamning, 1. desember 2005. Í fimmta viðauka við markaðssamninginn var umboðssamningur. Á grundvelli hans og ákvæða viðkomandi lánssamninga komu Glitnir eða Glitnir ASA fram gagnvart skuldara sem umboðsbanki. Í því fólst að Glitnir tók áfram við greiðslum afborgana og vaxta frá lántökum á grundvelli lánssamninganna en bar að greiða sóknaraðila afborganir og vaxtagreiðslur í samræmi við sérstaka endurgreiðsluáætlun milli málsaðila og bar að tilkynna sóknaraðila um greiðslu hlutdeildar hans vegna þeirra.
Í fjórða viðauka við markaðssamninginn var ábyrgðaryfirlýsing. Samkvæmt henni ábyrgðist Glitnir sem eigin skuld gjaldfallnar greiðslur og greiðslur á gjalddaga til sóknaraðila af lánum samkvæmt skilmálum lánssamninganna, það er höfuðstól þeirra, lánsvexti og dráttarvexti og allar aðrar fjárhagslegar skuldbindingar viðkomandi lántaka. Ábyrgðin skyldi gilda þar til liðnir voru sex mánuðir frá lokagjalddaga hvers láns um sig eða þar til lánin hefðu verið greidd upp að fullu.
Þar sem lántakarnir seldu skipin áður en lánstíminn var runninn út bar þeim að gera lánin upp og lögðu lokagreiðslur inn á reikning Glitnis 20. apríl 2006, 27. júlí 2007, 27. september 2007, 31. október 2007, 4. mars 2008 og 30. júní 2008. Glitnir tilkynnti sóknaraðila þetta ekki og hélt áfram að greiða honum samkvæmt endurgreiðsluáætluninni. Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Glitnis hafði sóknaraðili samband við lántakana og komst að því að þeir höfðu gert lánin upp við umboðsbankann. Sóknaraðili lýsti því kröfu í bú hans.
Ágreiningur sóknar- og varnaraðila lýtur eingöngu að því hvort kröfur sóknaraðila teljist innstæður í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og njóti, eða njóti ekki, sem slíkar forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Með lögum nr. 79/2012 var lögum nr. 98/1999 breytt. Meðal annars var 6. mgr. 9. gr. breytt þannig að undanskildar tryggingu voru innstæður í eigu fjármálafyrirtækja. Þar sem lögskipti sóknaraðila og Glitnis banka hf. fóru fram frá desember 2005 til október 2008 verður lögunum beitt eins og þau voru fyrir breytinguna.
Í 3. gr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er innstæða sögð innstæða sem er komin til vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
Vegna hugtaksskilyrðisins um endurgreiðslu samkvæmt lögum eða samningum deila málsaðilar um það hvort flæði greiðslna frá lántökum á reikninga Glitnis og þaðan yfir á reikninga sóknaraðila hafi átt að vera samtengt og samfellt. Þar sem öll lánin voru að fullu uppgerð áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans og lántakarnir því löngu hættir að greiða Glitni afborganir á sex mánaða fresti hefur þessi málsástæða um samfellu í greiðslu fjármuna til og frá Glitni fyrst og fremst gildi við mat á því hvort sú skylda hafi hvílt á Glitni sem umboðsbanka að millifæra uppgreiðslur lánanna í heilu lagi inn á reikninga sóknaraðila þegar þær bárust Glitni eða hvort honum hafi verið heimilt, þrátt fyrir uppgreiðslu lánanna, að halda áfram að greiða sóknaraðila samkvæmt endurgreiðsluáætluninni, reglubundna afborgun hvers láns á sex mánaða fresti.
Sóknaraðili átti fé á reikningum Glitnis
Það er óumdeilt að sóknaraðili átti inneign hjá Glitni þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans, 7. október 2008. Inneignin var ekki komin til vegna þess að sóknaraðili hefði lagt fé inn á reikninga hjá Glitni heldur höfðu lántakar gert lán sín við sóknaraðila upp með því að leggja fjármuni inn á reikninga hjá Glitni.
Nægjanlega þykir í ljós leitt að sóknaraðili veitti Glitni ekki lán eins og varnaraðili hélt fram í greinargerð sinni.
Innstæða í rýmri eða þrengri merkingu
Með lögum nr. 98/1999 voru tilskipanir 97/9/EB og 94/19/EB leiddar í íslensk lög. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið segir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggjast. Af þeim sökum leitaði Hæstiréttur álits EFTA-dómstólsins á því hvort peningamarkaðslán teldust innstæða í skilningi tilskipunar 94/19/EB um innlánstryggingakerfi þegar rétturinn hafði til meðferðar mál nr. 169/2011 (Aresbank). Í áliti sínu gerði dómstóllinn greinarmun á þrengri skilgreiningu innstæðuhugtaksins (functional definition), sem taki til tryggðra innstæðna samkvæmt tilskipuninni, og rýmri skilgreiningu þess (technical definition), sem taki einnig til innstæðna sem ekki njóti tryggingaverndar. Hæstiréttur byggir í dómi sínum í máli nr. 169/2011 á því að rétt sé við beitingu laga nr. 98/1999 að beita sambærilegri tvískiptri skilgreiningu hugtaksins.
Innlán
Það var ekki tilgangur sóknaraðila með viðskiptunum að lána Glitni fé. Að mati dómsins er ekkert komið fram sem styður þá málsástæðu að inneign sóknaraðila á reikningum Glitnis geti talist innlán í þeirri merkingu sem það orð hefur í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
Millifærsla
Hugtakið millifærsla í hefðbundinni almennri bankastarfsemi er hvorki skilgreint í tilskipun 94/19/EB né lögum nr. 98/1999. Að mati dómsins tekur hugtakið millifærsla til þeirrar stöðu sem fjármunir sóknaraðila í sjóðum Glitnis voru. Þeir höfðu verið millifærðir af reikningum lántakanna í sjóði Glitnis og biðu þess þar að vera millifærðir í sjóði sóknaraðila, þrátt fyrir að þeir væru ekki á sérgreindum reikningi. Að mati dómsins getur hugtakið ekki haft svo þrönga merkingu að það taki eingöngu til þess þegar fjármunir eru í svokölluðu „transit“, þ.e. á því tímabili þegar fjármunir séu færðir á milli reikninga eins og varnaraðili heldur fram. Dómurinn telur það jafnframt ekki skilyrði að fyrir liggi millifærslubeiðni frá sóknaraðila til þess að fjármunirnir falli undir hugtakið. Féð er millifærsla vegna þeirrar skyldu sem hvíldi á Glitni að færa fjármunina af sínum reikningum á reikninga sóknaraðila samkvæmt endurgreiðsluáætluninni.
Hefðbundin almenn bankastarfsemi
Í þessum viðskiptum var það hlutverk Glitnis sem umboðsbanka að taka við greiðslum lántaka og greiða þær sóknaraðila. Starfsheimildum viðskiptabanka er lýst í 20. gr. laga nr. 161/2002. Ekki verður annað séð en sú greiðslumiðlun eða greiðsluþjónusta sem Glitnir veitti sóknaraðila sé hluti af hefðbundinni almennri bankastarfsemi samkvæmt því ákvæði.
Bar að endurgreiða samkvæmt samningi
Málsaðilar hafa ólíka afstöðu til þess hvað megi lesa úr markaðssamningnum og viðaukum hans, svo og lánssamningunum sem sóknaraðili yfirtók, um skyldur Glitnis þegar þar var komið að lántakarnir höfðu greitt honum lán sín að fullu. Sóknaraðili telur 11. gr. markaðssamningsins og 2. og 5. gr. umboðssamningsins hafa lagt þá ótvíræðu skyldu á Glitni að greiða sóknaraðila allar fjárhæðir um leið og þær bárust bankanum. Samkvæmt þessum ákvæðum hafi átt að vera óslitið flæði greiðslna frá lántakendum til Glitnis og frá honum til sóknaraðila. Jafnframt hafi greiðslur til Glitnis og tilkynningar hans til sóknaraðila ávallt átt að fylgjast að. Sóknaraðili telur orðalag ábyrgðaryfirlýsingar Glitnis einnig styðja þennan skilning hans.
Varnaraðili telur á hinn bóginn að ekki verði lesið úr samningunum að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli greiðslna lántakanna til hans og greiðslna hans til sóknaraðila. Honum hafi því ekki borið að greiða sóknaraðila uppgjör lánanna í heilu lagi heldur hafi hann átt að greiða samkvæmt endurgreiðsluáætlun og halda áfram að greiða af hverju láni á sex mánaða fresti eins og hann gerði. Í grundvallarskjalinu, markaðssamingnum, sé einungis tekið fram í 11. gr. að Glitni beri að fylgjast með endurgreiðslum og afborgunum lántaka og tryggja að lánsvextir yrðu færðir á reikninga sóknaraðila. Í 6. gr. þess samnings hafi einungis verið tekið fram að þegar lántakar gerðu lánin upp fyrir gjalddaga bæri Glitni að bæta sóknaraðila tjón eða kostnað vegna lántöku, samnings eða nýtingar á fé. Í hvorugu ákvæðinu sé gert ráð fyrir beinni tengingu milli greiðslna lántakanna til Glitnis og síðan greiðslu hans sem umboðsbanka samkvæmt endurgreiðsluáætluninni. Hann hafi tekið við greiðslum frá lántökum samkvæmt fyrirmælum lánssamninganna en endurgreitt sóknaraðila samkvæmt sérstakri endurgreiðsluáætlun þeirra í milli en milli þessara tveggja greiðsluferla sé ekki órjúfanleg samfella.
Að mati dómsins verða þeir samningar sem lágu til grundvallar réttarsambandi sóknaraðila og Glitnis ekki skildir á annan hátt en þann að órúfanleg tengsl hafi verið á milli greiðslna lántakanna til Glitnis og endurgreiðslna hans til sóknaraðila. Þetta þykir verða lesið úr 11. gr. markaðssamningsins þar sem segir að Glitni beri að fylgjast með greiðslum lántaka og tryggja að greiðslur yrðu færðar (e. credited) á sóknaraðila, 2. gr. umboðssamningsins en samkvæmt henni bar Glitni, með tilhlýðilegri varfærni, að sinna skyldum sínum vegna viðkomandi lánssamninga og framkvæma og sjá um greiðslur fjár og reikningsfærslur eins og mælt er fyrir í þeim samningum, svo og úr gr. 15.2 allra lánssamninganna þar sem tekið er fram að umboðsbankinn skuli tafarlaust miðla til lánveitanda öllum greiðslum sem berast frá lántökum (the Agent shall promptly and with same day value distribute to the Banks all sums received by it hereunder on behalf of the Banks.)
Að mati dómsins bar Glitni því, sem umboðsbanka, að millifæra uppgjör hvers láns um sig í heilu lagi til sóknaraðila um leið og hver og einn lántaki gerði lán sitt upp og greiddi allar eftirstöðvar inn á reikninga Glitnis í stað þess að halda áfram að greiða sóknaraðila samkvæmt endurgreiðsluáætluninni. Hér verður að líta til þess að sóknaraðili hafði greitt Glitni lánin að fullu þegar sóknaraðili fékk þau framseld. Glitnir átti því ekki jafnframt rétt til að liggja með uppgjörið frá lántökunum enda fékk hann þóknun fyrir þá þjónustu sem hann veitti.
Það þykir þó ekki skipta máli fyrir úrlausn um rétthæð kröfu sóknaraðila hvort Glitni bar að endurgreiða sóknaraðila hverja uppgreiðslu láns þegar hún barst honum eða hvort hann gat haldið áfram að greiða sóknaraðila samkvæmt endurgreiðsluáætluninni. Að mati dómsins félli inneign sóknaraðila undir hugtakið innstæða í rýmri merkingu á grundvelli endurgreiðsluáætlunarinnar einnar og sér.
Þar sem skuld Glitnis við sóknaraðila er að mati dómsins millifærsla sem er liður í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og bankanum var skylt að endurgreiða samkvæmt skilmálum sem giltu samkvæmt samningum aðila er það fé, sem sóknaraðili átti hjá Glitni banka hf. í október 2008, innstæða í rýmri merkingu innstæðuhugtaks tilskipunar 94/19/EB.
Innstæða í þrengri merkingu
Þá þarf að meta hvort fjármunirnir séu jafnframt innstæða í þrengri merkingu hugtaksins, það er hvort krafa sóknaraðila sé undanskilin tryggingavernd samkvæmt ákvæðum laga nr. 98/1999 og geti af þeim sökum ekki notið forgangsstöðu við slitameðferð varnaraðila. Aðeins tvennt getur staðið því í vegi. Annars vegar að til grundvallar kröfu sóknaraðila í bú varnaraðila liggi verðbréf samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1991 og hins vegar að sóknaraðili verði skilgreindur sem aðildarfyrirtæki í skilningi 6. mgr. 9. gr. laganna.
Verðbréf
Varnaraðili byggir á því að kröfur sóknaraðila falli undir hugtakið verðbréf í skilningi 2. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og það ákvæði hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012 og af þeim sökum njóti innstæða sóknaraðila ekki tryggingaverndar. Nánar tiltekið byggir hann á því að kröfur sóknaraðila geti talist sértryggð skuldabréf, þar sem fyrir liggi skrifleg, einhliða skuldaviðurkenning sem njóti fullrar ábyrgðar útgefanda.
Í 2. gr. laga nr. 13/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, sem í gildi voru við setningu laga nr. 98/1999, kemur fram að verðbréf séu hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum. Í gildandi lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er hugtakið verðbréf skilgreint í 2. tölulið 1. mgr. 2. gr. þannig að það séu þau framseljanlegu verðbréf sem hægt sé að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði.
Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga nr. 108/2007 er með viðskiptum á fjármagnsmarkaði átt við viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði, á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) eða viðskipti fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis með leyfi til verðbréfaviðskipta. Ekki þykir þörf á að rekja nánari skilgreiningu þessara hugtaka.
Áður er komið fram að þeir lánssamningar sem Glitnir framseldi sóknaraðila gegn greiðslu liggja ekki til grundvallar réttarsambandi sóknar- og varnaraðila heldur markaðssamningur og umboðssamningur. Sú inneign, sem sóknaraðili átti á reikningum Glitnis og Glitni bar á grundvelli þessara samninga að endurgreiða sóknaraðila, er að mati dómsins hvorki framseljanleg á skipulegum verðbréfamarkaði, á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) né unnt að eiga viðskipti með hana fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis með leyfi til verðbréfaviðskipta.
Krafa sóknaraðila er því ekki undanþegin tryggingavernd af þeim sökum að hún grundvallist á verðbréfi.
Aðildarfyrirtæki
Samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eru innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja að hinum íslenska tryggingarsjóði innstæðueigenda undanskilin tryggingavernd. Þetta mál er milli tveggja lögaðila. Enda þótt annar þeirra sé erlendur ber að leysa úr ágreiningi þeirra eftir íslenskum lögum. Af þeim sökum er ekki hægt að vísa 2. gr. tilskipunar 94/19/EB sem undanskilur tryggingavernd innlán lánastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu í eigin þágu og fyrir eigin reikning.
Um það er ekki deilt að lög nr. 98/1999 útiloka lánastofnanir í skilningi 2. gr. tilskipunar 94/19/EB ekki frá tryggingavernd íslenska tryggingarsjóðsins eins og tilskipunin gerir. Krafa sóknaraðila fellur ekki heldur utan tryggingaverndar af þeim sökum að hann sé lánastofnun.
Þar sem því hefur verið hafnað að krafa sóknaraðila grundvallist á verðbréfum í skilningi 2. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, svo og að hún sé í eigu aðildarfyrirtækis í skilningi 6. mgr. 9. gr. sömu laga er fallist á að hún sé innstæða sem njóti tryggingaverndar laganna. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 með áorðnum breytingum nýtur krafa sóknaraðila því forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 2.750.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til kostnaðar vegna þýðingar skjala og skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Eksportfinans, Ósló, Noregi, í slitabú varnaraðila, Glitnis hf., nr. CL20091119-1539 í kröfuskrá varnaraðila, að lýstri fjárhæð 24.977.748 Bandaríkjadalir, sem er samþykkt í kröfuskrá að fjárhæð 3.256.101.703 krónur, er samþykkt sem forgangskrafa, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð varnaraðila.
Krafa sóknaraðila, nr. CL20091205-8675 í kröfuskrá varnaraðila, að lýstri fjárhæð 318.103.348 norskar krónur, sem er samþykkt í kröfuskrá að fjárhæð 6.144.166.167 krónur, er samþykkt sem forgangskrafa, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð varnaraðila.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 2.750.000 kr. í málskostnað.