Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Framlagning skjals
  • Vitni
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. apríl 2009.

Nr. 146/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Framlagning skjala. Vitni. Frávísun frá Hæstarétti að hluta.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu ákæruvaldsins um að heimilt yrði að leggja fram vottorð tilgreinds sálfræðings, og að heimilt yrði að leiða hana sem vitni í málinu til að staðfesta vottorðið. Féllst héraðsdómur á framangreindar kröfur eftir upphaf aðalmeðferðar málsins. Heimild skorti til að kæra úrskurð héraðsdóms að því leyti sem laut að framlagningu vottorðsins, samkvæmt 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 og var þeirri kröfu því vísað frá Hæstarétti. Hins vegar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að ákæruvaldinu yrði heimilt að leiða tilgreint vitni í málinu til staðfestingar á vottorðinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2009, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um  að heimilt væri að leggja fram vottorð Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings, 6. mars 2009, og að heimilt yrði að leiða hana sem vitni í málinu til að staðfesta vottorðið. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreindum kröfum sóknaraðila hafnað.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eftir upphaf aðalmeðferðar málsins fyrir héraðsdómi óskaði sóknaraðili eftir því að leiða sem vitni Þóru Sigfríði Einarsdóttur sálfræðing, sem hafi haft meintan brotaþola, A, til meðferðar frá því að ætluð brot voru tekin til rannsóknar. Einnig óskaði sóknaraðili eftir að fá að leggja fram vottorð sálfræðingsins um meðferð hennar á meintum brotaþola. Var þessu andmælt af varnaraðila, sem einnig óskaði eftir fresti í stuttan tíma þannig að hann gæti frekar tjáð sig um röksemdir fyrir afstöðu sinni. Var málinu frestað til 9. mars 2009 í þessu skyni. Var á báðar þessar óskir fallist í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 verður úrskurður héraðsdóms að því er lýtur að framlagningu vottorðsins ekki kærður til Hæstaréttar. Verður því að vísa þessari kröfu málsins frá Hæstarétti. Að öðru leyti er kæruheimild í c. lið 2. mgr. þessarar greinar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er varnaraðili ákærður fyrir kynferðisbrot gegn A. Í málinu leitar ætlaður brotaþoli einnig dóms um skaðabótakröfu á hendur ákærða vegna afleiðinga meintra brota. Er fallist á með héraðsdómi að sóknaraðila verði heimilað að leiða tilgreint vitni til staðfestingar á framangreindu vottorði. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um þetta atriði.

Dómsorð:

Vísað er frá Hæstarétti kröfu varnaraðila, X, um að hafnað verði framlagningu vottorðs, Þóru Sigfríðar Einarsdóttur, 6. mars 2009.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að Þóra Sigríður Einarsdóttur verði leidd sem vitni til að staðfesta vottorðið.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2009.

Mál þetta var höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara hinn 28. janúar sl. á hendur X, með lögheimili í [...] fyrir kynferðisbrot gegn A frá fyrstu mánuðum ársins 2006 til aprílmánaðar 2008, þegar pilturinn var á aldrinum 13 til 15 ára, með því að hafa í mörg skipti haft munnmök við piltinn og í 4-5 skipti fengið A til að hafa við sig endaþarmsmök. Ákærði tældi piltinn til kynmakanna með því að notfæra sér þroskaskerðingu hans, reynsluleysi hans af kynlífi og tölvufíkn, en ákærði greiddi fyrir kynmökin með tölvuleikjum eða peningum. Brotin áttu sér oftast stað í bifreið ákærða í nágrenni við Hrafnistu í Hafnarfirði eða í bílskúr við heimili A að Y í Reykjavík, en í eitt skipti í bílskúr við dvalarstað ákærða að Z  í Reykjavík.

Þetta er talið varða við 1. og 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr., laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007, en til vara við 4. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 14/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er krafist bóta að fjárhæð 4.373.500 krónur auk ýtrustu vaxta samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá september 2005 þar til einn mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt í samræmi við 9. gr. sömu laga.

Mál þetta var þingfest 5. mars sl. og vegna búsetu ákærða erlendis óskuðu sakflytjendur eftir því að aðalmeðferð þess færi fram í beinu framhaldi af þingfestingunni og féllst dómurinn á það. Með tölvupósti hinn 25. febrúar sl. hafði sækjandi sent dóminum og verjanda lista yfir þau vitni sem sækjandi hygðist leiða við aðalmeðferð málsins. Daginn fyrir þingfestingu og aðalmeðferð, undir lok dags, sendi sækjandi dómara og verjanda á ný tölvupóst þar sem tekið var fram að til viðbótar þeim vitnum sem á listanum væru myndi sækjandi óska eftir því að Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur, sem haft hefði brotaþola til meðferðar eftir hið meinta brot, kæmi fyrir dóminn og bæri vitni. Kom fram að ekki hefðu fyrr legið fyrir upplýsingar um að sálfræðingurinn hefði komið að málinu. Í svarbréfi  verjandi samdægurs mótmælti hann því að vitnið yrði leitt.

Við aðalmeðferðina daginn eftir krafðist sækjandi þess að Þóra Sigfríður yrði leidd sem vitni og ítrekaði verjandi þá mótmæli sín vegna þessa. Jafnframt fór hann fram á að veittur yrði stuttur frestur til undirbúnings þinghalds þar sem sakflytjendur myndu tjá sig munnlega um ágreininginn. Vegna þessa boðaði sækjandi að hann myndi óska eftir því að sálfræðingurinn myndi útbúa vottorð vegna málsins og að það yrði þá lagt fram í næsta þinghaldi. Mótmælti verjandi þá jafnframt framlagningu vottorðsins. Þessi ágreiningur um það hvort ákæruvaldinu sé heimilt að leggja fram vottorð sálfræðingsins og leiða hana sem vitni við aðalmeðferð málsins er hér til meðferðar.

Niðurstaða

Í umræddu vottorði Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings er því lýst að brotaþoli hafi sótt 15 viðtöl til hennar í framhaldi af ósk Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að hann fengi sérfræðilega greiningu og meðferð vegna gruns um að hann hefði sætt kynferðislegu ofbeldi af hendi ákærða. Lýsir hún þar niðurstöðum sjálfsmatskvarða og greinir frá því að viðtölin hafi leitt í ljós fjölmörg vandamál hjá brotaþola sem þekkt séu meðal barna sem sætti hafi kynferðislegu ofbeldi í langan tíma.

Löng dómaframkvæmd er fyrir því í kynferðisbrotamálum að lögð séu fram vottorð sálfræðinga og annarra sérfræðinga sem haft hafa brotaþola til meðferðar vegna andlegra afleiðinga meintra kynferðisbrota. Hafa viðkomandi sérfræðingar þá og í flestum tilvikum verið leiddir sem vitni varðandi það sem fram kemur í vottorðinu. Hafa gögn þessi verið talin nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í því að upplýsa um afleiðingar hins meinta brots fyrir brotaþola og jafnvel til þeirra litið við mat á sök eða sakleysi ákærða. Eru og fjölmörg dæmi þess að slík vottorð hafi verið lögð fram undir rekstri máls, allt til aðalmeðferðar þess, auk þess sem dæmi er um að framlagning slíks vottorðs hafi verið heimiluð fyrir Hæstarétti án þess að það hafi áður verið lagt fram í héraði.

Ekki verður séð að við setningu nýrra laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 hafi verið ætlun löggjafans að breyta einhverju hvað þetta varðar frá áður gildandi löggjöf og réttarframkvæmd á þessu sviði. Eftir sem áður er byggt á þeirri meginreglu að sönnunarmat dómara sé frjálst og að gert sé ráð fyrir að einnig verði hvað það varðar að horfa til óbeinna sönnunargagna, sbr. ákv. 1. og 2. mgr. 109. gr. laganna. Þá er í hinum nýju lögum sem fyrr á því byggt að leggja skuli megináherslu á að leiða hið sanna í ljós í hverju máli og að sækjandi og dómari hafi ríkar skyldur í því efni. Kemur þannig skýrt fram í 2. mgr. 171. gr. að ekki skipti máli hvenær sönnunargögn koma fram undir rekstri máls og skv. 168. gr. getur það jafnvel gerst eftir að mál hefur verið dómtekið. Loks verður ekki séð af athugasemdum með 1. mgr. 116. gr. sömu laga, þrátt fyrir orðalagsbreytingu frá samsvarandi ákvæði laga nr. 19/1991, að ætlun löggjafans hafi verið að breyta í einhverju þeirri framkvæmd sem að framan hefur verið lýst varðandi skýrslugjöf þeirra sérfræðinga fyrir dómi sem komið hafa að meðferð viðkomandi brotaþola.

Að því virtu sem hér hefur verið rakið verður fallist á kröfur ákæruvaldsins, annars vegar um að sækjanda teljist heimilt að leggja fram vottorð Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings, dags. 6. mars 2009, og hins vegar um að heimilt verði að leiða hana sem vitni fyrir dóminn til að staðfesta vottorðið.

Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu ákæruvalds, annars vegar um að sækjanda teljist heimilt að leggja fram vottorð Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings, dags. 6. mars 2009, og hins vegar um að heimilt verði að leiða hana sem vitni fyrir dóminn til að staðfesta vottorðið.