Hæstiréttur íslands

Mál nr. 321/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Miskabætur


Þriðjudaginn 19

 

Þriðjudaginn 19. desember 2006.

Nr. 321/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Hilmari Helga Sigfússyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.

H var sakfelldur fyrir hættulega líkamsárás með því að hafa slegið X með tveggja kg álstöng í höfuðið og tvisvar með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og hlaut skurð á vinstri augabrún, rispu á enni og tognun á vinstra hné. Var refsing H, með vísan til 1. og 3. töluliðar 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess að hann hafði áður gerst sekur um brot þar sem ofbeldi var beitt, hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Vegna ungs aldurs H þótti rétt að fresta skilorðsbundið fullnustu sex mánaða af refsingunni. Þá var H dæmdur til greiðslu miskabóta og lögmannskostnaðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. maí 2006. Hann krefst þess að refsing ákærða verði þyngd. Þá krefst hann þess að ákærði greiði X 299.881 krónu í skaðabætur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Málavöxtum er rétt lýst í héraðsdómi. Þar er meðal annars rakið að hluta læknisvottorð 6. október 2005 þar sem fjallað er um áverka sem X hlaut umrætt sinn. Hins vegar hefur láðst að geta lýsingar í vottorðinu á áverkum í andliti X, en samkvæmt henni var hann með bólgu á vinstri augabrún og um þriggja cm langan skurð, sem saumaður hafði verið með fjórum sporum, auk grunnrar rispu á enni. Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu ákærða að brotaþoli hafi gefið tilefni til árásarinnar.

Ákærði var dæmdur 22. desember 2000 í Héraðsdómi Reykjavíkur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir rán í félagi við annan pilt. Hann var 18 ára er hann framdi brotið. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2001 var hann sakfelldur fyrir tilraun til þjófnaðar sem hann framdi fyrir uppsögu fyrra dómsins. Var sá dómur jafnframt dæmdur með og honum gerð sjö mánaða fangelsisrefsing, skilorðbundin í tvö ár. Stóðst hann skilorðið. Sakaferli ákærða er að öðru leyti rétt lýst í héraðsdómi.

Ákærði er sakfelldur fyrir hættulega líkamsárás með því að hafa slegið brotaþola með tveggja kg álstöng í höfuðið og tvisvar með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og hlaut skurð á vinstri augabrún, rispu á enni og tognun á vinstra hné. Er refsing ákærða með vísan til 1. og 3. töluliðar 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess að hann hefur áður gerst sekur um brot, þar sem ofbeldi var beitt, hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði, en vegna ungs aldurs ákærða er rétt að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð.

Tjónþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem eru ákveðnar 200.000 krónur. Ákærði hefur ekki andmælt niðurstöðu  héraðsdóms um lögmannsþóknun að fjárhæð 49.881 króna og verður hún þegar af þeirri ástæðu staðfest. Ákærði verður því dæmdur til að greiða tjónþola 249.881 krónu með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

       Ákærði, Hilmar Helgi Sigfússon, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

          Ákærði greiði X 249.881 krónu með vöxtum af 200.000 krónum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2005 til 28. nóvember sama ár, en dráttarvexti af 249.881 krónu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

         Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 241.850 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

                                     

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2006.

             Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 7. febrúar 2006, á hendur ákærða Hilmari Helga Sigfússyni, kt. 040581-3089, Háaleitisbraut 153, Reykjavík, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 11. september 2005, á bifreiðastæði við [...], ráðist að X slegið hann með járnstöng í höfuðið og tvisvar með krepptum hnefa í andlitið og féll X í götuna í tvígang við hnefahöggin. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að X hlaut skurð á vinstra augabrún, rispu á enni og tognun á vinstra hné.

             Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             X krefst bóta að fjárhæð kr. 299.881 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá tjónsdegi til greiðsludags.“

I.

             Samkvæmt lögregluskýrslu barst lögreglumönnum þeim er fóru á vettvang tilkynning um það þann 11. september 2005 kl. 00:22 að verið væri að ganga í skrokk á manni við [...] og var tveimur lögreglubifreiðum ekið með forgangi á vettvang. Samkvæmt skýrslunni veittu lögreglumenn á þeirri bifreið sem fyrst kom á vettvang þremur mönnum athygli á óupplýstu bifreiðastæði. Bentu mennirnir lögreglumönnunum á meintan árásarmann, ákærða, og sögðu hann hafa verið að berja mann X á bifreiðastæðinu. Var nefndur X með áverka á höfði sem blæddi úr.

Ákærði var handtekinn á vettvangi en hann var mjög æstur samkvæmt lögregluskýrslu og hafði frammi hótanir við lögreglumenn. Á vettvangi er haft eftir ákærða í lögregluskýrslu: „Þessi maður réðst á mig og þá buffaði ég hann“. Samkvæmt lögregluskýrslu var X með fulla meðvitund en í töluverðu uppnámi.

Lögreglumenn ræddu við vitnin þrjú, A, B og C á vettvangi en B og C kváðust hafa verið inni í íbúð B við [...] þegar þeir skyndilega heyrðu mann kalla á hjálp. Hafi þeir þá farið út og séð hvar X hafi legið í götunni og ákærði staðið yfir honum og verið að beita hann ofbeldi. Hafi þeir beðið Hilmar að láta manninn í friði en hann þá gert sig líklegan til að veitast að þeim. Hafi A þá komið þeim til aðstoðar og ákærði þá slakað á. A sagðist hafa verið inni í íbúð sinni að [...] og skyndilega heyrt mann kalla eftir hjálp og því hlaupið út. Hafi hann þá séð hvar X hafi legið í götunni og ákærði verið að beita hann ofbeldi. Hafi A þá sagt við ákærða að láta X í friði.

Eftir að X var fluttur á slysadeild til aðhlynningar bar hann svo um málsatvik við lögreglumenn að hann hafi verið að koma akandi að heimili sínu við [...]. Þegar hann hafi verið að stíga út úr bifreiðinni og gert sig líklegan til að ganga inn til sín hafi maður sem hann hafi aldrei séð áður stigið í veg fyrir hann og meinað honum að halda áfram. Kvað X manninn hafa haldið á stálröri úr vinnupalli. Hafi X spurt manninn hvort hann meinaði honum að halda áfram og maðurinn þá brugðist illa við og ráðist á sig og barið í höfuðið með rörinu og síðan bæði kýlt hann og sparkað í hann þar sem hann hafi legið í götunni. Hafi maðurinn enn fremur gert tilraun til að skella höfði hans í götuna en X náð að rífa sig lausan. Í þann mund hafi vitnin birst og maðurinn hætt.

Á vettvangi fannst umræddur rörbútur sem var álstoð úr vinnupalli sem mældist 255 sm. á lengd og 2 kg. Ekkert blóð var greinanlegt á stoðinni samkvæmt skýrslu lögreglu.

Lögreglumenn skoðuðu bifreið X þann 11. september 2005 kl. 11:30 og voru þá samkvæmt skýrslu greinilegar strokur í óhreinindum á afturhöggvara bifreiðarinnar, en engar skemmdir á lakki eða dældir sjáanlegar. Ætluðu lögreglumennirnir að strokurnar væru nýjar og voru sambærilegar strokur eða ákomur ekki sjáanlegar annars staðar á bifreiðinni sem var talsvert óhrein. Eldri rispur og ákomur hafi verið merkjanlegar á nokkrum stöðum á bifreiðinni en óhreinindi þakið þær ákomur. Töldu lögreglumennirnir ekki unnt að fullyrða eftir hvað strokurnar á afturhöggvaranum voru  en á einum stað hafi mátt sjá dauft far eins og eftir fataefni.

II.

Ákærði var færður til skýrslutöku í framhaldi vistunar í fangageymslu lögreglunnar í [...] þann 11. september 2005. Tók ákærði þá fram að hann hefði verið ofurölvi á leið úr samkvæmi í [...] þegar atvikið átti sér stað og minni hans því brotakennt. Mundi kærði eftir því að hafa staðið yfir manni sem legið hafi í götunni og öskrað á hann. Enn fremur að sig rámaði í handtökuna og að hann hafi verið mjög æstur. Sagðist ákærði ekki muna eftir því að hafa gengið í skrokk á manninum, þ.e. að hafa sparkað í hann, kýlt eða barið með járnstöng. Hafi kærða rámað í það að hafa orðið fyrir bíl á stæðinu og fallið við það í götuna og taldi líklegt að hann hefði veist að ökumanni bílsins í framhaldi þess. Taldi ákærði ólíklegt að hann hefði ráðist að manninum að ástæðulausu en taldi líklegast að hann hafi farið að munnhöggvast við manninn eftir að hafa orðið fyrir bílnum og misst stjórn á skapi sínu. Mundi ákærði eftir því að hafa verið að munnhöggvast við þrjá menn er hann var á leið burtu.

Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 28. október 2005 og kvað þá lítið hafa rifjast upp fyrir honum en að hann minnti þó að hann hefði verið að rífast við einhvern mann vegna þess að sá hefði ekið utan í hann. Ákærði mundi ekki eftir því að hafa ráðist á manninn eða veist að honum með einhvers konar járnstöng. Kannaðist ákærði ekki við að hafa handleikið ætlað barefli þegar honum var sýnd af því ljósmynd og rak ekki minni í að hafa séð það á vettvangi.

Ákærði bar á sama veg fyrir dómi og hann gerði í lögregluskýrslu. Kom fram í skýrslu hans fyrir dómi að hann hefði verið ofurölvi og rámaði aðeins í tvö atvik, það að keyrt hefði verið utan í hann og að hann hafi átt orðaskipti við einhvern mann í kjölfarið en þó mundi hann ekki eftir að til átaka hefði komið. Þá bar ákærði einnig að hann myndi eftir að hafa verið í lögreglubifreið. Ákærði bar þá að hann hafi haft sár á höfði og áverka á olnboga auk þess að hafa haft áverka á hægra hné eftir atvikið. Ákærði mundi ekki eftir járnstöng á vettvangi.

X lýsti málsatvikum þannig þegar hann lagði fram kæru vegna líkamsárásar þann 15. september 2005 að hann hefði verið að aka bifreið sinni inn á bifreiðastæði við [...] laust eftir miðnætti 11. september s.á. Eftir að hann hafi stigið út úr bifreiðinni og staðið við skottlok hennar hafi skyndilega birst ungur maður sem hafi haldið á einhvers konar járnstöng. Hafi maðurinn verið mjög æstur og byrjað að ýta við sér. Hafi X þá spurt manninn hvað honum gengi til en maðurinn þá reiðst og barið X einu sinni í höfuðið. Höggið hafi hafnað á vinstri augnabrún með þeim afleiðingum að sprungið hafi fyrir og X vankast. Áður en X hafi getað borið hönd fyrir höfuð sér hafi maðurinn slegið hann eitt hnefahögg í andlitið þannig að hann hafi fallið við. Hann hafi náð að standa fljótlega upp aftur en maðurinn þá slegið hann aftur niður í jörðina. Hann hafi hins vegar ekki áttað sig á hvar höggin lentu á andliti sínu. Kvaðst X þá hafa kallað á hjálp en maðurinn þá gengið að honum og gripið báðum höndum um brjóstmál hans, lyft honum upp og hótað að ganga frá honum hætti hann ekki að kalla á hjálp. Maðurinn hafi þá dregið X að steyptum kantsteini sem þar hafi verið skammt frá og taldi X manninn myndu hafa barið höfði hans við kantsteininn hefðu þrír menn ekki komið aðvífandi til aðstoðar. Bar X að hann teldi manninn ekki hafa veitt sér önnur högg né sparkað í hann.

Hvað varðaði framburð ákærða um að ákærði hefði orðið fyrir bíl á vettvangi sem hafi verið tilefni árásar ákærða á X bar hann í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði ekki séð manninn fyrr en hann hafi skyndilega birst þar sem hann hafi staðið fyrir aftan bifreið sína og aldrei orðið var við að högg kæmi á bílinn. Hvað varðaði kám, strokur og þrykk á bifreið X sem komu í ljós við skoðun lögreglu á vettvangi taldi X að umræddar strokur hefðu ekki getað komið við það að ákærði yrði fyrir bílnum heldur þegar ákærði hafi fyrst veist að mætta þar sem hann hafi staðið við afturenda bifreiðarinnar.

Fyrir dómi bar brotaþoli X í aðalatriðum á sama veg og rakið hefur verið í lögregluskýrslu. Bar hann að ákærði hefði slegið hann með járnstöng og brotaþoli lent í jörðinni þrisvar sinnum og kallað á hjálp allan tímann. Bar X að hann hafi ekki orðið var við mannaferðir á bifreiðastæðinu umrætt sinn eða að bifreiðin hefði farið utan í eitthvað á vettvangi og hafði því engar skýringar á ákomum á bifreiðinni. Bar brotaþoli að ekkert tilefni hefði verið að árásinni en mundi ekki hvaða orð ákærði hafði við hann þegar hann kom að brotaþola við skott bílsins. Brotaþoli bar að hann hefði enga vörn getað veitt sjálfum sér og að árásinni hefði ekki linnt fyrr en þrír menn komu aðvífandi.

Vitnið C bar svo fyrir lögreglu 15. september 2005 og í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi verið staddur heima hjá tengdasyni sínum B og þeir setið að spjalli í íbúð hans að [...]. Hafi þeir þá heyrt einhvern hávaða fyrir utan íbúðina og þeir farið út á svalir og heyrt kallað á hjálp. Hafi vitnið farið ásamt B niður á bílastæðið sem hafi verið fremur illa upplýst. Þeir hafi gengið á hávaðann. Í lögregluskýrslu kemur fram af hálfu vitnisins að þar hafi verið „einhver strákur“ að lúskra á fullorðnum manni sem hafi legið milli bifreiða og hafi blætt úr honum. Fyrir dómi bar vitnið að ákærði hefði verið að veitast að brotaþola. Sagði vitnið strákinn hafa staðið yfir manninum hálf boginn og hann því ekki séð hvað strákurinn hafi verið að gera en þó talið að það hlyti að vera að strákurinn hafi verið að berja manninn þar sem maðurinn hafi veinað mikið. Sagði vitnið strákinn hafa sparkað í manninn sem lá, sem þá hafi veinað mikið og kallað á hjálp. Hann hafi þó ekki séð hvar spörkin lentu. Hafi vitnið og B kallað til stráksins að hætta athæfinu og strákurinn gert það og snúið sér að þeim. Hafi vitninu þá fundist sem strákurinn hafi ætlað að ráðast á sig og B en vitnið kallað á hann að koma sér í burtu. Síðan hafi komið að maður sem búi einnig í húsinu og hafi hann hringt í lögreglu sem hafi komið á staðinn skömmu síðar og handtekið árásarmanninn. Sagði vitnið að skammt frá þar sem maðurinn hafi legið á stæðinu hafi verið nokkuð langur rörbútur en vitnið hafi ekki séð árásarmanninn með þennan rörbút í höndunum og gæti því ekki sagt til um hvort sá sem á stæðinu lá hefði verið laminn með honum. Sagði vitnið strákinn hafa verið með hótanir gagnvart sér og B. Vitnið kvaðst ekki hafa séð upptök átakanna né vitað af hverju þau hafi byrjað. Þá hafi hann þekkt hvorugan, árásarmanninn né þann sem fyrir árásinni hafi orðið. Brotaþoli hafi verið með áverka, blætt hafi úr höfði hans og hann verið ringlaður.

Vitnið B gaf skýrslu hjá lögreglu þann 16. september og bar þá sem og fyrir dómi að hann hafi heyrt hávaða úti á planinu, eins og járn félli á malbikið, við íbúð sína að [...]. Hafi hann þá farið út á svalirnar til að kanna hverju sætti og þá heyrt niðurbælt hróp en planið hafi verið óupplýst og hann því ekki getað greint hvað hafi verið um að vera. Vitnið hafi farið inn í íbúðina aftur, en farið út á svalirnar á ný til að reyna að átta sig á því hvað væri að gerast og þá greinilega heyrt einhvern hrópa á hjálp. Vitnið hafi þá farið út á planið ásamt tengdaföður sínum en þegar þeir hafi komið út á planið hafi vitnið séð mann í dökkum stuttermabol bogra yfir manni sem hafi legið í jörðinni milli tveggja bíla. Bar vitnið að sá maður hefði að minnsta kosti augljóslega ekki verið að hjálpa þeim sem lá í jörðinni. Hafi árásarmaðurinn haldið með annarri hendi í hár þess sem legið hafi á jörðinni og verið að hóta honum einhverju og verið mjög æstur. Hafi vitnið hrópað á árásarmanninn og sagt honum að hætta sem hann hafi orðið við. Hafi árásarmaðurinn snúið sér að vitninu og tengdaföður hans og vitnið óttast að árásarmaðurinn myndi ráðast á þá. Vitnið hafi þá farið að aðstoða manninn sem lá í jörðinni og þá séð járnstöng liggja við eða á manninum en hann sá þó ákærða ekki beita stönginni. Umrædd stöng hafi verið álstoð úr stillans sem vitnið bar kennsl á fyrir dómi af vettvangsmynd lögreglu. Nágranni vitnisins hafi komið út á planið skömmu eftir sér og hafi nágranninn hringt eftir lögregluaðstoð. Vitnið kvaðst ekki hafa séð árásarmanninn kýla eða sparka í manninn sem legið hafi í jörðinni en maðurinn sem orðið hafi fyrir árásinni hafi verið blóðugur í framan og virst vankaður og haft orð á því að hann hefði aldrei séð árásarmanninn áður. Hafi sá sem fyrir árásinni varð enn fremur verið afar óttasleginn.

Vitnið A gaf skýrslu á lögreglustöð 19. september 2005 og fyrir dómi og bar að laust eftir miðnætti aðfaranótt 11. september s.á. hafi hann heyrt hljóð sem hafi borist inn um opinn eldhúsglugga, eins og eitthvað rör eða málmhlutur félli á malbikað plan fyrir utan. Sagðist vitnið hafa litið út en ekki orðið neins var, enda planið óupplýst. Skömmu seinna hafi vitnið heyrt hljóðið aftur og litið þá út og séð hreyfingar úti og heyrt einhvern greinilega kalla á hjálp lágum rómi. Vitnið bar hins vegar að hann hafi ekki séð nein samskipti milli ákærða og brotaþola. Hafi vitnið þá kallað eftir lögregluaðstoð áður en hann hafi farið út á planið til að kanna hvað um væri að vera, enda ekki farið á milli mála að einhver hafi verið í nauðum staddur. Þegar vitnið hafi komið út á planið hafi tveir menn verið komnir þangað í sömu erindagjörðum og vitnið þá séð mann liggja í jörðinni og annan yfir honum. Hann hafi þó ekki séð átök milli mannanna og ekki séð þann sem stóð veitast að hinum. Vitnið bar að rétt hjá mönnunum hafi legið rör þegar hann kom að sem leit út fyrir að koma frá vinnupalli. Hins vegar taldi hann greinilegt að eitthvað mikið hefði gengið á þar sem brotaþoli hafi legið á jörðinni skelfingu lostinn og talað um að maðurinn hefði ráðist að sér að ástæðulausu. Þá hafi vitnið síðar séð að það blæddi úr höfði mannsins sem varð fyrir árásinni. Vitnið hafi svo fylgst með því þegar lögregla handtók árásarmanninn.

III.

Í málinu liggur fyrir vottorð D læknis þann 6. október 2005 varðandi áverka X. Í vottorðinu segir eftirfarandi:

„Við skoðun er ekki að sjá bólgu á hnénu, enginn vökvi er í lið. Smávægileg eymsli yfir liðbandi á utanverðu hné og finnur fyrir eymslum eða verk þar þegar snúningur kemur á hnéð. Ekki merki um áverka á krossbönd eða liðþófa. Talinn hafa fengið tognun á hnéð og útskrifaður með teygjusokk. Áætlað að saumar verði fjarlægðir eftir tæpa viku í heimahéraði.  Ekki áætluð nein endurkoma hjá okkur og ekki leitað til deildarinnar aftur vegna þessa áverka svo séð verði af okkar gögnum.“

IV.

Ákærði neitar sök en hann hefur borið fyrir dómi og hjá lögreglu að hann hafi verið mjög ölvaður greint sinn og muni nærri ekkert eftir atvikum þeim sem ákæran varðar. Brotaþoli hefur staðfastlega borið bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi ráðist að honum og barið hann meðal annars með stöng. Hafa vitni borið um að stöng úr vinnupöllum hafi legið við mennina þegar þeir komu þar að og eitt vitnanna bar kennsl á stöngina af mynd lögreglu í skjölum málsins sem álstöng 255 sm að lengd og 2 kg að þyngd. Þá hafa vitni borið að hafa heyrt hávaða á umræddu bílaplani og séð ákærða standa yfir brotaþola þegar þeir komu þar að og ákærði verið vankaður og blóðugur. Þykir framburður brotaþola fá stuðning í staðföstum framburði vitna hjá lögreglu og hér fyrir dómi og verður að telja fram komna lögfulla sönnun fyrir því að ákærði hafi ráðist að brotaþola umrætt sinn og veitt honum þá áverka sem brotþoli varð þá fyrir.

Þykir brot ákærða réttilega heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, með því að hafa veist að  tilefnislausu að brotaþola X með háttsemi sem teljast verður sérstaklega hættulega með tilliti til þess að ákærði beitti álstöng við árásina og beindi höggum að höfði brotaþola.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærða veitt ákærufrestun árið 1997 vegna brots á 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Árið 1998 var gerð sátt vegna brots ákærða á 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og hann sviptur ökurétti í 12 mánuði. Þann 5. febrúar 1999 hlaut ákærði dóm fyrir brot á 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 4. gr. og 1. og 2. mgr. 10. gr. umferðarlaga og hlaut refsingu að fjárhæð 130.000 krónur fyrir brotið. Ákærði gekkst undir lögreglustjórasátt fyrir brot á 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga þess efnis að hann greiddi 50.000 króna sekt og var hann sviptur ökurétti í 10 mánuði frá 27. apríl 2004. Með dómi frá 9. febrúar 2001 sem dæmdur var með dómi frá 22. desember 2000 var ákærða ákveðin refsing 7 mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun þann 16. maí 2001 vegna brota á umferðarlögum þess efnis að hann greiddi 100.000 krónur í sekt og var hann enn fremur sviptur ökurétti. Að lokum gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt þann 1. nóvember 2004 vegna brots á umferðarlögum um greiðslu 15.000 króna og var hann þá enn fremur sviptur ökurétti. Hefur sakaferill ákærða því ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi, en þó þannig að fresta skuli fullnustu tveggja mánaða refsingarinnar og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Gerð er krafa af hálfu brotaþola um greiðslu ákærða á miskabótum að fjárhæð 299.881 krónur. Fallist er á að ákærði hafi valdið brotaþola X miskatjóni og á hann því rétt til miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem þykja með tilliti til eðlis árásarinnar og afleiðinga hæfilega ákveðnar 50.000 krónur með vöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 eins og nánar greinir í dómsorði. Verður ákærði enn fremur dæmdur til að greiða brotaþola kostnað hans af því að halda kröfunni uppi, 49.881 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en þeirri kröfu þykir í hóf stillt. Skal ákærði því greiða brotaþola alls 99.881 krónur.

Þá er ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., að meðtöldum virðisaukaskatti, 150.000 krónur.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Hilmar Helgi Sigfússon, skal sæta 3 mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu 2 mánaða refsingarinnar og fellur sá hluti refsingarinnar niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði X, kr. 50.000 krónur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. september 2005, og með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 17. nóvember 2005 til greiðsludags og lögmannskostnað að fjárhæð 49.881 krónur.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns  Hilmars Ingimundarsonar hrl., 150.000 krónur.