Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Vinnusamningur
|
|
Föstudaginn 2. apríl 2004. |
|
Nr. 77/2004. |
Þrotabú MD flugfélagsins ehf. (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Leena Albedin Angelica Andersson Tove Eliasson Agneta Eriksson Gudrun Feuerbach Gernandt Fredrik Hedlöf Sabina Henson Irina Kiiski Lina Lundvall Paciello Sharon McLoughlin Charlotte Mehrens Jenny Olovsson Astrid Pijak Tommi Pirttinen Anna Sporrong Åsa Viktorsson Ingela Wirne Kenth Sandberg og Marit Lindén (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Vinnusamningur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfur L og 18 annarra flugliða voru viðurkenndar sem forgangskröfur í þrotabú MD ehf. samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu var deilt um hvort varnaraðilar hefðu verið starfsmenn Cosmos Aviation Ltd. eða MD flugfélagsins ehf. Í Hæstarétti var tekið fram að í málinu lægju fyrir ráðningarsamningar allfestra varnaraðila við Cosmos Aviation Ltd. Yrði ekki betur séð en að launagreiðslur hafi farið fram í samræmi við efnisákvæði þeirra. Þá hafi Cosmos Aviation Ltd. greitt L o.fl. laun í sínu nafni auk þess að halda eftir opinberum gjöldum til skila í Svíþjóð. Yrði því að telja að L o.fl. hafi verið starfsmenn Cosmos Aviation Ltd. en ekki MD flugfélagsins ehf. Var kröfum L o.fl. sem lýst var í þrotabúið því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar og 24. mars 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2003, þar sem kröfur varnaraðila voru viðurkenndar sem forgangskröfur í þrotabú sóknaraðila samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess „að ákvörðum skiptastjóra um að hafna launakröfum varnaraðila“ í þrotabú sóknaraðila verði staðfest. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði, auk kærumálskostnaðar. Þar sem varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti kemur krafa þeirra um málskostnað í héraði ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti.
I.
Bú MD flugfélagsins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 27. mars 2003. Var frestdagur 21. sama mánaðar. Voru lok kröfulýsingarfrests 9. júní 2003. Samkvæmt gögnum málsins mun félagið hafa stundað leiguflug frá nokkrum starfsstöðvum erlendis, meðal annars frá Stokkhólmi. Lýstu varnaraðilar launakröfum í bú félagsins, en þeir munu hafa gengt störfum flugliða í farþegarými flugvéla félagsins, sem gerðar voru út frá starfstöð þess á Arlandaflugvelli. Samkvæmt kröfuskrá skiptastjóra 23. júní 2003 var kröfum varnaraðila hafnað þar sem þeir teldust ekki hafa verið starfsmenn hins gjaldþrota félags. Á skiptafundi í búinu 12. ágúst sama árs var kröfuskrá lögð fram og bókað að fyrir fundinum lægi bréf lögmanns varnaraðila þar sem afstöðu skiptastjóra væri mótmælt. Var ákveðið að boða til sérstaks fundar til að freista þess að leysa úr ágreiningnum. Með bréfi lögmanns varnaraðila til skiptastjóra 26. ágúst 2003 voru mótmæli þeirra áréttuð. Annar fundur var haldinn í þrotabúinu 3. september sama árs, en ekki tókst að jafna ágreining um afstöðu skiptastjóra til krafna varnaraðila. Var ágreiningum vísað til héraðsdóms sama dag samkvæmt til 171. gr. laga nr. 21/1991.
II.
Ágreiningur aðila snýst um hvort varnaraðilar hafi verið starfsmenn MD flugfélagsins ehf. eða starfað í þágu Cosmos Aviaton Ltd., sem sé áhafnaleigufélag á Jersey.
Meðal gagna málsins er umsóknareyðublað í nafni MD flugfélagsins ehf. fyrir flugmenn. Staðfesti fyrrverandi framkvæmdastjóri flugfélagsins í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hliðstætt umsóknareyðublað hefði verið á netinu fyrir flugliða við störf í farþegarými. Kvað hann umsækjendur hafa fyllt út eyðublöðin og komið í viðtöl hjá starfsmanni flugfélagsins, enda væri félagið ábyrgt fyrir að velja starfsfólk um borð vegna öryggiskrafna í flugi. Viðstaddur þessi viðtöl hafi einnig verið fulltrúi Cosmos Aviation Ltd. Hafi þeir umsækjendur, sem hæfir töldust, síðan verið ráðnir til starfa hjá síðarnefnda félaginu, sem annist svokallaða áhafnaleigu.
Meðal gagna málsins fyrir Hæstarétti eru samningar flestra varnaraðila við Cosmos Aviation Ltd., en ekki verður séð að samningar varnaraðilanna Leena Albedin og Anna Sporrong séu þar á meðal. Þá eru samningarnir ekki undirritaðir af hálfu varnaraðilanna Marit Lindén, Lina Lundvall Paciello, Sharon McLoughlin og Tommi Pirttinen. Af gögnum málsins sést að sú fyrstnefnda neitaði að undirrita þann samning, sem fyrir hana var lagður, en ekki eru í málinu skýringar á því af hvaða ástæðum hin þrjú gerðu það ekki. Samningarnir eru að miklu leyti samhljóða. Eru varnaraðilar í samningunum nefndir verktakar (Contractor). Í 1. gr. samninganna er tekið fram að Cosmos Aviation Ltd. starfi við þjónustu tengda flugi, fyrst og fremst við að útvega hæft starfslið fyrir þriðja aðila í flugrekstri. Hafi félagið verið beðið að ráða hæft fólk, sem staðsett yrði við Arlandaflugvöll í Svíþjóð, þannig að MD flugfélagið gæti nýtt sér þjónustu þess. Í 2. gr. samninganna er tekið fram að viðkomandi starfsmaður skuli ráðinn til starfa í þágu Cosmos á tilteknu tímabili, sem framlengja megi með samþykki beggja, enda hafi hann meðal annars lokið fullnægjandi þjálfun hjá flugfélaginu. Samningstíminn er mislangur. Í 3. gr. er tekið fram að starfsmaðurinn skuli annast þau störf sem flugfélagið óski í samræmi við starfsaðstöðu flugliða í farþegarými og takmarkanir á leyfðum flugtíma hjá flugfélaginu. Skuli hann hlíða öllum fyrirmælum og reglum sem flugfélagið setji. Skuli flugfélagið 22. hvers mánaðar gefa út til bráðabirgða starfsskrá fyrir komandi mánuð og skuli flugfélagið gæta þess að starfsmenn hafi í það minnsta átta frídaga í mánuði. Þá er kveðið á um að flugfélagið skuli sjá starfsmanni fyrir ókeypis hótelgistingu á áfangastöðum utan Stokkhólms. Í 4. gr. er kveðið á um að Cosmos skuli greiða inn á reikning starfsmanns tiltekna fasta fjárhæð á mánuði, í flestum tilvikum 12.000 sænskar krónur. Að auki skyldi Cosmos inna af hendi nánar tilgreindar greiðslur til starfsmanns vegna vinnutíma eða fjarveru, sem ekki eru með sama hætti í öllum samningunum. Varðaðandi skattamál er í 8. gr. ákvæði um að ábyrgð á greiðslu tekjuskatts og annarra skattskuldbindinga, þó ekki almannatryggingagjalds, skuli vera í höndum starfsmanns, Cosmos að skaðlausu. Cosmos skyldi á hinn bóginn greiða gjald til almannatrygginga fyrir starfsmann. Í 10. gr. eru ákvæði um uppsögn samnings. Þar er meðal annars kveðið á um að komi til slita samnings Cosmos við flugfélagið geti Cosmos sagt upp samningnum við starfsmanninn með mánaðar fyrirvara. Þá er í 14. gr. kveðið á um að um samninginn gildi löggjöf Jersey og að aðilar samningsins samþykki lögsögu dómstóla þar. Meðal gagna málsins er einnig eldri samningur hliðstæðs efnis milli varnaraðilans Agneta Eriksson og Parc Aviation í Dublin.
Fyrrverandi gjaldkeri MD flugfélagsins ehf. bar í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að greiðsla til flugliða hafi farið fram með þeim hætti að þeir hafi sent MD flugfélaginu ehf. í byrjun hvers mánaðar vinnuskýrslur fyrir nýliðinn mánuð. Hafi gjaldkerinn borið vinnuskýrslurnar saman við skráða flugtíma, en að því búnu sent yfirlit um vinnutíma flugliða til nafngreinds félags í Svíþjóð, sem Cosmos Aviation Ltd. hafi haft samning við. Hafi félag þetta reiknað út greiðslur til flugliðanna, skattafrádrátt, launatengd gjöld og greiðslur í lífeyrissjóð. Þessar upplýsingar hafi hið sænska félag síðan sent Cosmos Aviation Ltd., sem hafi síðan annast allar greiðslur. Hafi MD flugfélagið ehf. aldrei séð um að greiða flugliðum laun fyrir störf þeirra. MD flugfélagið ehf. hafi hins vegar greitt Cosmos Aviation Ltd. fyrir þjónustu síðarnefnda félagsins á grundvelli reikninga, sem það félag gaf út. Er þessi frásögn að öllu sem máli skiptir í samræmi við skýrslu fyrrverandi bókara MD flugfélagsins ehf. fyrir héraðsdómi. Meðal gagna málsins eru launaseðlar Cosmos Aviation Ltd. vegna varnaraðilans Marit Lindén fyrir mánuðina október 2000 til júní 2001 að báðum mánuðum meðtöldum og kemur þar fram að staðgreiðsla skatts er dregin af launum hennar. Launaseðlar vegna annarra varnaraðila hafa ekki verið lagðir fram í málinu. Launamiðar (kontrolluppgift) vegna tekjuársins 2001 og/eða tekjuársins 2002 hafa hins vegar verið lagðir fram varðandi allflesta varnaraðila. Er launagreiðandi þar tilgreindur Cosmos Aviation Ltd. og kemur fram að skattur hefur verið dreginn af laununum.
Á kröfuskrá sóknaraðila þrotabús MD flugfélagsins ehf. er krafa frá Cosmos Aviation Ltd. að fjárhæð tæplega 5.300.000 krónur. Er hún flokkuð sem almenn krafa en til slíkra krafna tók skiptastjóri ekki afstöðu þar sem ljóst væri að ekkert myndi fást greitt upp í þær.
III.
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að varnaraðilar hafi verið starfsmenn Cosmos Aviation Ltd, eins og gögn málsins sýni ótvírætt. Ráðningarsamningar varnaraðila séu við Cosmos Aviation Ltd. Hafi MD flugfélagið ehf. keypt þjónustu af Cosmos Aviation Ltd. og greitt verktakareikninga síðarnefnda félagsins vegna hennar. Engin laun hafi verið greidd varnaraðilum af hálfu MD flugfélagsins ehf., en þeir þegið laun sín frá Cosmos Aviation Ltd. Þetta sjáist ótvírætt af þeim launaseðlum og skattgögnum, sem fram hafi verið lögð í málinu.
Varnaraðilar reisa kröfur sínar á því að þeir hafi í raun verið starfsmenn MD flugfélagsins ehf. Hafi samningur um að þeir væru ráðnir til starfa fyrir Cosmos Aviation Ltd. ekki verið skuldbindandi fyrir þá enda hafi þeir, þrátt fyrir orðalag samninganna, í raun verið ráðnir til starfa hjá MD flugfélaginu ehf. Einungis hluti þeirra hafi undirritað slíka samninga. Geti samningur því ekki bundið þá varnaraðila, sem það ekki gerðu, en að auki sýni þetta að ekki hafi verið gengið hart eftir því að frá slíkum samningum væri gengið með formlegum hætti. Sjáist af ráðningarferli flugliðanna að þeir hafi verið starfsmenn MD flugfélagsins ehf. Sótt hafi verið um starfið á eyðublöðum merktum félaginu og starfsmenn þess annast viðtöl við umsækjendur og þjálfun starfsmanna. Varnaraðilar hafi mætt til starfa í starfstöð MD flugfélagsins ehf., lotið verksstjórnarvaldi þess félags og skilað starfsskýrslum til þess í lok hvers mánaðar. Þá liggi fyrir að varnaraðilar hafi fengið greidd laun um hver mánaðamót en ekki verktakagreiðslur enda hafi staðgreiðsla skatts og launatengd gjöld verið dregin af greiðslum til þeirra. Hafi þannig allir meginþættir ráðningarsambands verið fyrir hendi milli varnaraðila og MD flugfélagsins ehf. Geti félagið ekki vikið sér undan lög- og samningsbundnum skyldum gagnvart starfsfólki sínu með því að semja við þriðja aðila um það eitt að hann taki við því hlutverki að greiða út laun. Þá hafa varnaraðilar vísað til tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 80/987/EBE og 33. gr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með áorðnum breytingum.
IV.
Eins og að framan er rakið eru meðal gagna málsins ráðningarsamningar allflestra varnaraðila við Cosmos Aviation Ltd. Verður ekki betur séð en að launagreiðslur til varnaraðila hafi farið fram í samræmi við efnisákvæði þeirra samninga. Halda varnaraðilar ekki öðru fram eða því að önnur starfskjör þeirra hafi ekki verið í samræmi við samninga þessa. Þá liggur fyrir að Cosmos Aviation Ltd. greiddi varnaraðilum laun í sínu nafni og hélt eftir opinberum gjöldum til skila í Svíþjóð. Greiddi MD flugfélagið ehf. engin laun til varnaraðila og virðist hafa haft þá milligöngu eina í þeim efnum að staðfesta gagnvart fulltrúa Cosmos Aviation Ltd. hvert vinnuframlag varnaraðila hefði verið á viðkomandi tímabili að því marki, sem slíkt var nauðsynlegt til að framfylgja ákvæði ráðningarsamnings milli Cosmos Aviation Ltd. og viðkomandi varnaraðila. Verður að þessu gættu að telja að varnaraðilar hafi verið starfsmenn Cosmos Aviation Ltd. en ekki MD flugfélagsins ehf. Á það einnig við þá varnaraðila, sem ekki undirrituðu ráðningarsamningana af sinni hálfu, enda verður ekki betur séð en að um laun þeirra og starfskjör hafi í raun farið eftir efnisákvæðum samninganna með sama hætti og varðandi aðra varnaraðila og þágu þeir laun úr hendi Cosmos Aviation Ltd. líkt og aðrir varnaraðilar. Það breytir ekki þessari niðurstöðu að starfsmaður MD flugfélagsins ehf. hafi rætt við varnaraðila þegar þeir sóttu um störf ásamt fulltrúa Cosmos Aviation Ltd. og annast þjálfun þeirra enda bar flugfélagið samkvæmt ákvæðum V. kafla laga nr. 60/1998 um loftferðir ábyrgð á því að réttilega væri skipað í áhöfn þeirra flugvéla, sem það rak. Þá verður ekki talið að framangreind tilskipun Evrópubandalagsins eða þau ákvæði laga nr. 7/1936, sem varnaraðilar vitna til í málatilbúnaði sínum, haggi þeirri niðurstöðu. Verður samkvæmt þessu hafnað kröfum varnaraðila, sem lýst var í þrotabú MD flugfélagsins ehf.
Rétt er eftir atvikum að hver aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hafnað er að viðurkenna lýstar kröfur sóknaraðila, Leena Albedin, Angelica Andersson, Tove Eliasson, Agneta Eriksson, Gudrun Feuerbach Gernandt, Fredrik Hedlöf, Sabina Henson, Irina Kiiski, Lina Lundvall Paciello, Sharon McLoughlin, Charlotte Mehrens, Jenny Olovsson, Astrid Pijak, Tommi Pirttinen, Anna Sporrong, Åsa Viktorsson, Ingela Wirne, Kenth Sandberg og Marit Lindén, við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila, þrotabúi MD flugfélagsins ehf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2004.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 20. janúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, barst dóminum með bréfi skiptastjóra þrotabús MD flugfélagsins ehf., Helga Jóhannessonar hrl., sem dagsett er 3. september 2003. Með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 vísar skiptastjóri til Héraðsdóms Reykjaness til úrlausnar á ágreiningi sem upp kom vegna launakrafna erlendra aðila sem skiptastjóri hafnaði á þeirri forsendu enginn þeirra hafi verið launþegi hjá hinu gjaldþrota félagi.
Sóknaraðilar málsins er þau Lena Albedin, Angelica Anersson, Tove Eiliasson, Agneta Eriksson, Gudrun Feuerbach Gernandt, Fredrik Hedlöf, Sabina Henson, Irina Kiiski, Lina Lundvall Paciello, Sharon Mc Loughlin, Sharon Mehrens, Jenny Olavsson, Astri Pijak, Tommi Pirttinen, Anna Sporrong, Ása Viktorsson, Ingela Wirne, Kenth Sandberg og Marit Lindén öll búsett í Svíþjóð. Heimilisföng og kennitölur koma ekki nánar fram í gögnum málsins og verður látið við það sitja.
Varnaraðili er þrotabú MD flugfélagsins ehf., kt. 650397-2159, Hamraborg 12, Kópavogi.
Sóknaraðilar krefjast þess að launakröfur þeirra sem þeir hafa lýst í þrotabú MD flugfélagsins ehf. verði að fullu viðurkenndar sem forgangskröfur í búið auk þess sem gerð er krafa um að varnaraðili verði dæmdur til þess að greiða sóknaraðilum málskostnað að mati réttarins.
Af hálfu varnaraðila eru þær kröfur gerðar að ákvörðun skiptastjóra um að hafna launakröfum sóknaraðila í þrotabúið verði staðfest og sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati réttarins.
Enginn tölulegur ágreiningur er í málinu. Ekki er heldur um það deilt að um forgangskröfur sé að ræða fáist þær viðurkenndar sem launakröfur í þrotabú MD flugfélagsins ehf.
Varnaraðili hefur hafnað kröfum sóknaraðila á þeim forsendum að þeir hafi ekki verið starfsmenn hins gjaldþrota félags heldur Cosmos Aviation en sóknaraðilar halda fram hinu gagnstæða.
Málsatvik:
Sóknaraðilar eru 19 flugliðar sem störfuðu fyrir varnaraðila og áttu inni ógreidd laun þegar bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Hafði varnaraðili starfsstöð á Arlandaflugvelli í Svíþjóð og var rætt við þá starfsmenn sem hér um ræðir þar og þeir látnir útfylla starfsmannaumsókn og koma í starfsmannaviðtöl hjá starfsmönnum varnaraðila þeim Ingþóri Stefánssyni, stöðvarstjóra MD flugfélagsins í Stokkhólmi sem sá um slík viðtöl og Sabinu Hansen sem reyndar er úr hópi sóknaraðila. Lýsa sóknaraðilar atvikum þannig að þeir hafi verið ráðnir til starfa af MD flugfélaginu ehf. en verktakasamningar útbúnir síðar á milli Cosmos Aviation Ltd. og viðkomandi starfsmanna. Hafi þessir ráðningarsamningar (verktakasamningar) verið sendir til starfsmannanna nokkru eftir að þeir voru ráðnir en fyrir liggur að einn sóknaraðila, Marit Linden neitaði að undirrita samninginn og af einhverjum ástæðum eru samningar þriggja annarra sóknaraðila ekki undirritaðir. Eru það samningar Paciello Lundvall, Lina Mc Loughlin og Astrid Prittinen. Af gögnum málsins er ljóst að einn sóknaraðila, Agneta Eriksson, undirritaði sambærilegan samning að öðru leyti en því að viðsemjandi hennar er PARC Aviation Ltd. en ekki Cosmos Aviation. Þessir samningar eiga það sammerkt að sóknaraðilar eru í þeim nefndir ,,contractor” eða verktaki og að verktakan sé þess efnis að þeir skulu vera til þjónustu reiðubúnir í þágu varnaraðila. Þannig er tekið fram í samningunum að viðsemjandi starfsmannanna hafi tekið að sér að ráða hæfa einstaklinga sem skyldu vera staðsettir á Arlanda flugvelli í Stokkhólmi fyrir MD flugfélagið ehf., Hamraborg 12, Kópavogi auk þess sem segir að um sé að ræða íslenskt flugfélag sem starfi eftir íslensku loftferðaleyfi.
Við aðalmeðferð málsins kom fram að launagreiðslur eða verktakagreiðslur fóru þannig fram að útibú MD flugfélagsins í Stokkhólmi lét höfuðstöðvum félagsins í Kópavogi í té uppýsingar um vinnuframlag viðkomandi starfsmanns. Í höfuðstöðvunum voru launin síðan reiknuð út og sá útreikningur sendur til fyrirtækis í Svíþjóð sem annaðist sundurliðun eins og skattafrádrátt og launatengd gjöld í samræmi við sænskar reglur. Í bókhaldi MD flugfélagsins voru þessar greiðslur færðar sem áhafnarkostnaður. Að þessu loknu voru þessir útreikningar sendir til Cosmos Aviation sem síðan greiddi launin eins og fyrirliggjandi launaseðlar bera með sér. Þá liggur fyrir að á þessum tíma hafði Cosmos Aviation sama tölvupóstfang og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte & Touche eins og það hét þá og samkvæmt skýrslu fyrirsvarsmanns MD flugfélagsins, Ingimars Ingimarssonar, fyrir dóminum annaðist Deloitte & Touche endurskoðun fyrir félagið. Ekki er um það deilt að tryggingargjald, orlof og skattar voru greiddir í samræmi við sænskar reglur. Varnaraðili hefur mótmælt því að launagreiðslur hafi farið fram í gegnum hið gjaldþrota félag en hið rétta sé að félagið hafi keypt þessa þjónustu af Cosmos Aviation og greitt fyrir það verktakareikninga. Engar launagreiðslur hafi átt sér stað hjá MD flugfélagi vegna sóknaraðila, heldur væntanlega hjá vinnuveitandanum Cosmos Aviation. Í skýrslu Ingimars Ingimarssonar fyrir dómi kom fram að hann hefði litið á sóknaraðila sem launþega hjá Cosmos Aviation.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að þeir hafi í raun verið starfsmenn varnaraðila og að samningur sá sem hluta þeirra var gert að undirrita um að þeir væru starfsmenn Cosmos hafi ekki verið skuldbindandi fyrir þá. Af þessari ástæðu sé varnaraðili ábyrgur fyrir launagreiðslum og beri að viðurkenna kröfur þeirra sem forgangskröfur á grundvelli 1. tl. 112. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Sóknaraðilar hafi sótt um starf hjá varnaraðila á þar til gerðum eyðublöðum sem merkt voru MD Airlines. Starfsmenn varnaraðila, Sabina Henson og Ingþór Stefánsson hafi annast starfsmannaviðtöl á skrifstofu varnaraðila í Stokkhólmi. Af hálfu sóknaraðila er það tíundað að í viðtölum við Marit Lindén sem var ráðin 13. október 2000 hafi hvorki komið fram að ráðningin væri tímabundin né að óskað væri eftir því að hún væri hjá öðrum en varnaraðila. Hún hafi síðan fengið ráðningarsamninginn sendan í lok nóvember það ár og hafnað því að undirrita hann. Telur lögmaður sóknaraðila að ráðningarviðtöl annarra hafi farið fram með svipuðum hætti. Í ljósi þess að Marit undirritaði ekki samninginn sé réttur hennar til þess að fá kröfur sínar viðurkenndar ótvíræður. Þeim starfsmönnum sem fengnir voru til þess að undirrita samning við Cosmos hafi ekki verið gerð grein fyrir réttaráhrifum þess og án þess að um slíkt hefði verið samið við ráðninguna sjálfa. Af þessum sökum sé samningurinn óskuldbindandi fyrir þá með vían til ógildingarákvæða samningalaga nr. 7/1936 einkum 33. og 36. gr. en með því að fá fólkið til þess að undirrita slíkan samning var það að afsala sér þeim réttindum sem það átti samkvæmt sænskum vinnurétti. Ekkert liggur fyrir í málinu um samning milli varnaraðila og Cosmos sem lá að baki ráðningunum og hefur fyrirspurnum sem beint hefur verið til Cosmos um rekstur þess og stjórn ekki verið svarað. Telja sóknaraðilar þetta benda til þess að ekki sé um raunverulegan rekstur að ræða heldur einungis sjónarspil og sú staðreynd að netfang fyrirtækisins hafi verið hjá Deloitte & Touche bendi til þess að verið var að beita blekkingum. Launatengd gjöld hafi verið greidd af launum, skattgreiðslum skilað og tryggingargjöld greidd. Ennfremur nutu sóknaraðilar orlofsréttinda sem launamenn, voru undir verkstjórn varnaraðila og fengu greiðslur fyrir ferðir, gistingu og dagpeninga og tilkynntu veikindi og afhentu læknisvottorð hjá varnaraðila.
Vísar lögmaður sóknaraðila til þess að sú meginregla gildi í vinnurétti að fólk ráði sig til starfa sem launafólk og njóti kjara sem slíkt en sé það ætlun aðila að hafa annan hátt þar á verði slíkur samningur að uppfylla tiltekin skilyrði og eðli réttarsambandsins að vera með allt öðrum hætti en var hjá sóknaraðilum og varnaraðila. Atvinnurekandi geti ekki skotið sér undan skyldum sínum með því að kalla samning verktakasamning í stað ráðningarsamning eða láta annan aðila koma fram sem samningsaðila fyrir sína hönd. Ráðningarsamband eins og hér sé til umfjöllunar sé í raun á milli varnaraðila og sóknaraðila.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
Varnaraðili hefur samtvinnað málsástæður sínar og málavexti og er meginþungi lagður á það að sóknaraðilar séu starfsmenn Cosmos Aviation og að varnaraðili hafi keypt þjónustu þeirra og greitt fyrir það verktakareikninga. Þá hefur hann tekið fram að hann sjái ekki neitt óeðlilegt við það að stöðvarstjóri varnaraðila í Stokkhólmi hefði hönd í bagga með því hvaða fólk það væri sem Cosmos Aviation myndi nota í þjónustu félagsins við MD flugfélagið ehf. Engin gögn eins og ráðningarsamningar eða launaseðlar bendi til þess að sóknaraðilar hafi verið starfsmenn varnaraðila.
Forsendur og niðurstaða:
Eins og fyrr greinir byggja sóknaraðilar kröfur sínar á því að þeir hafi í raun verið starfsmenn varnaraðila og að samningur sá sem þeir undirrituðu að fjórum undanskildum við Cosmos Aviation sé ekki skuldbindandi fyrir neinn þeirra. Þegar greint sé á milli launþegasambands og verktakasambands er það ekki heiti samningsins sem skiptir máli heldur eðli samningsins. Ekki komi að haldi að láta annan aðila koma fram fyrir sína hönd þegar í raun sé um að ræða ráðningarsamband eins og það sem komst á milli sóknaraðila og varnaraðila í þessu máli.
Fram hefur komið að varnaraðili byggir á því að sóknaraðilar séu starfsmenn Cosmos Aviation sem hann byggir á því að fyrirliggjandi gögn eins og t.d. ráðningarsamningar og launaseðlar bendi ekki til annars. Þannig hafi MD flugfélagið keypt þjónustuna af Cosmos Aviation og greitt fyrir hana verktakareikninga.
Eins og fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins og er ágreiningslaust þá undirrituðu 14 sóknaraðilar verktakasamning við Cosmos. Einn af hinum fimm er Marit Lindén sem neitaði að undirrita samning við Cosmos þar sem hún taldi sig hafa verið ráðna til starfa hjá MD flugfélaginu ehf. en þeir launaseðlar sem lagðir hafa verið fram varða hana eina. Einn fimmmenninganna Agneta Eriksson undirritaði ráðningarsamning við PARC Aviaton Lltd. og þrír þeirra Paciello Lundvall, Lina Mc Loughlin og Astrid Prittinen undirrituðu ekki þau verktakasamningseyðublöð sem eru í gögnum málsins þar sem gert er ráð fyrir að þau taki að sér verktöku fyrir Cosmos Aviation.
Af þessu er ljóst að varnaraðili er þeirrar skoðunar að eitt skuli yfir alla sóknaraðila ganga hvort sem þeir hafi skrifað undir verktakasamning við Cosmos eða ekki. Þykir dómara slíkur málatilbúnaður vera til þess fallinn að þyngja sönnunarbyrði hans við úrlausn á því hvort sóknaraðilar verði taldir starfsmenn MD flugfélagsins ehf. eða ekki. Koma hér fleiri atriði til skoðunar. Fyrir liggur að varnaraðili hefur ekki lagt fram nein sönnunargögn sem sýna að hann hafi greitt Cosmos verktakagreiðslur fyrir þjónustu sóknaraðila. Varnaraðili reiknaði út laun sóknaraðila og fékk aðstoð sænsks fyrirtækis til þess að reikna út skatta og launatengd gjöld af laununum og færði síðan launagreiðslurnar sem áhafnarkostnað. Bókari varnaraðila treysti sér ekki til þess að fullyrða fyrir dóminum hvort um nánari sundurliðun eins og skatta og launatengd gjöld hafi verið að ræða við færslu kostnaðarins í bókhaldi varnaraðila. Ekki nýtur neinna gagna við úr bókhaldinu. Þá er og á það að líta að varnaraðili hefur ekki mótmælt því að Cosmos Aviation hafði sama faxnúmer og endurskoðunarfyrirtæki varnaraðila Deloitte & Touche. Til þess verður einnig að líta að starfsmannaviðtöl fóru fram á skrifstofu varnaraðila í Stokkhólmi og af hans hálfu komu fram starfsmenn hans þó svo hann gangist aðeins við öðrum þeirra, Ingþóri Stefánssyni, en hinn sem er einn sóknaraðila, Sabinu Hanson, hafi hann fengið að láni hjá Cosmos Aviation. Ekki er um það deilt að sóknaraðilar voru í raun ráðnir til starfa hjá MD flugfélaginu ehf. en fengu eftir að þeir voru ráðnir send eyðublöð þar sem gert var ráð fyrir að þeir tækju að sér verktöku fyrir Cosmos Aviation sem væri í því fólgin að starfa fyrir MD flugfélagið ehf. Því hefði mátt ætla ef allt er rétt sem varnaraðili heldur fram að sóknaraðilar hefðu átt að framvísa verktakareikningum til Cosmos fyrir störf sín en ekki fá sundurliðaða launaseðla frá verktakanum fyrir störf sín hjá varnaraðila vegna launa sem reiknuð voru út af honum. Ekki hafa verið lagðir fram af hálfu varnaraðila greiddir reikningar fyrir verktöku Cosmos í hans þágu en í framburði fyrirsvarsmanns varnaraðila fyrir dóminum að hann hafi litið á sóknaraðila sem launþega hjá Cosmos. Engir tilraun hefur verið gerð af hálfu varnaraðila að fá neinn starfsmann eða fyrirsvarsmann Cosmos Aviation fyrir dóm til þess að staðfesta röksemdir varnaraðila. Að mati dómara verður varnaraðila að bera hallan af ofangreindum skorti á upplýsingum í málinu.
Þegar allt er virt sem nú hefur verið rakið telur dómari að þrátt fyrir að varnaraðili hafi lagt fram undirritaða verktakasamninga fjórtán af nítján sóknaraðilum nægi þeir ekki til þess að sanna að sóknaraðilar hafi ekki verið starfsmenn og í vinnuréttarsambandi við MD flugfélagið allan þann tíma sem þeir störfuðu hjá félaginu.
Ber því að fallast á að launakröfur sóknaraðila skuli viðurkenndar sem forgangskröfur skv. 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður falli niður.
Sveinn Sigurkarlsson kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Launakröfur sóknaraðila, sem eru, Lena Albedin, Angelica Anersson, Tove Eiliasson, Agneta Eriksson, Gudrun Feuerbach Gernandt, Fredrik Hedlöf, Sabina Henson, Irina Kiiski, Lina Lundvall Paciello, Sharon Mc Loughlin, Sharon Mehrens, Jenny Olavsson, Astri Pijak, Tommi Pirttinen, Anna Sporrong, Ása Viktorsson, Ingela Wirne, Kenth Sandberg og Marit Lindén, eru viðurkenndar sem forgangskröfur í þrotabú varnaraðila samkvæmt 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Málskostnaður fellur niður.