Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/2001
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Sönnun
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 17. maí 2001. |
|
Nr. 88/2001. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Þorsteini Kristni Björnssyni (Jón Kr. Sólnes hrl.) |
Ölvunarakstur. Sönnun. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
Þ var ákærður fyrir ölvunarakstur. Hafði lögreglumaður á frívakt séð til Þ við akstur og gert lögreglu viðvart sem handtók hann nokkru síðar. Samkvæmt blóð- og þvagsýni, sem tekin voru um einni og hálfri klukkustund eftir handtökuna, var Þ talsvert ölvaður. Bar hann því hins vegar við að hann hefði fyrst neytt áfengis eftir að akstri lauk. Þ var sýknaður í héraði. Hæstiréttur ómerkti hins vegar héraðsdóm og lagði fyrir héraðsdómara að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný, enda voru taldar slíkar líkur á að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum væri rangt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2001 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur, dæmdur til refsingar og sviptur ökurétti.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að sér verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.
I.
Sýslumaðurinn á Akureyri höfðaði mál þetta með ákæru 7. desember 2000, þar sem ákærða, sem búsettur er í Dalvíkurbyggð, var gefið að sök að hafa ekið að kvöldi föstudagsins 5. maí sama árs bifreiðinni KR 946 undir áhrifum áfengis áleiðis til Dalvíkur uns hann stöðvaði hana við sumarbústaðinn Höfða skammt sunnan bæjarins, þar sem hann hafi verið handtekinn af lögreglunni. Var þetta talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og þess krafist að ákærði sætti refsingu og sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. laganna.
Í frumskýrslu lögreglunnar um atvik málsins, sem gerð var af Sævari Frey Ingasyni aðstoðarvarðstjóra, greindi frá því að kl. 21.00 að kvöldi 5. maí 2000 hafi Felix Jósafatsson lögregluvarðstjóri haft símsamband við Sævar og sagst vera á leið norður Ólafsfjarðarveg, þjóðveg nr. 82. Hafi hann ekið þar á eftir rauðri pallbifreið með fyrrnefndu skráningarnúmeri og talið aksturslag ökumannsins grunsamlegt, en sá hafi ekið á 50 til 60 km hraða á klukkustund. Felix hafi ekið fram úr bifreiðinni og þekkt ökumanninn sem ákærða, en hann hafi verið einn í henni og ekki virst vera eins og hann ætti að sér að vera. Sævar hafi því farið af stað á móti þeim, en þegar hann hafi verið staddur sunnan Ásgarðs við Dalvík hafi Felix hringt á ný og sagt ákærða hafa beygt af þjóðveginum upp að fyrrnefndum sumarbústað. Hafi Sævar þá verið um 700 m frá bústaðnum. Þegar hann hafi komið þangað hafi pallbifreiðin staðið mannlaus utan við bústaðinn, en ákærði staðið í dyrum hans og í fyrstu sagst ekki hafa ekið henni. Aðspurður hafi ákærði sagst vera einn á staðnum. Hafi hann gefið öndunarsýni og honum síðan verið kynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur. Hann hafi þá sagst hafa komið að bústaðnum á bifreiðinni um hálfri klukkustund fyrr, horft þar á sjónvarp og fengið sér bjór. Hafi Sævar ekki séð merki um bjórneyslu í bústaðnum og ekkert áfengi verið í bifreiðinni, en vél hennar verið heit. Hann hafi farið með ákærða á lögreglustöðina á Dalvík og tekið þar skýrslu af honum, en með því að læknir í bænum hafi verið vant við látinn hafi orðið að fara með ákærða til Akureyrar til að taka sýni af blóði hans og þvagi. Í lok skýrslunnar lét Sævar þess getið að við handtöku hafi ákærði borið greinileg merki um áfengisneyslu og verið mjög þreytulegur. Í málinu liggur fyrir sérstök skýrsla um handtöku ákærða, þar sem fram kemur að hún hafi farið fram að Höfða kl. 21.18 umrætt kvöld. Þá hefur einnig verið lögð fram skýrsla, sem Sævar byrjaði að taka af ákærða kl. 21.36 sama kvöld og sá síðarnefndi undirritaði kl. 22.00. Í henni kvaðst ákærði hafa verið á leið til Dalvíkur frá Stykkishólmi, en þaðan hafi hann lagt af stað um kl. 15.00. Hann hafi ekki fundið til áfengisáhrifa við aksturinn, enda hafið drykkju eftir að akstri lauk og þá neytt bjórs. Fyrir liggur vottorð læknis um að blóðsýni hafi verið tekið úr ákærða kl. 22.48 þetta kvöld og þvagsýni tíu mínútum síðar. Samkvæmt vottorði lyfjafræðistofnunar 17. maí 2000 reyndist vínandi í blóði ákærða hafa verið 1,56, en í þvagi 2,16.
Rannsóknarlögreglan á Akureyri tók skýrslu af Sævari Frey Ingasyni 25. september 2000 og Felix Jósafatssyni 27. sama mánaðar. Sævar lýsti þar atvikum í öllum meginatriðum á sama veg og í áðurnefndri frumskýrslu sinni 5. maí sama árs, en lét þess jafnframt getið að frá því að Felix hafi hringt í sig seinna skiptið og sagt ákærða vera að aka að sumarbústaðnum hafi tekið sig um eina mínútu að aka þangað. Í skýrslu Felix kom fram að hann hafi ekki verið á vakt að kvöldi 5. maí 2000 og verið á leið norður Ólafsfjarðarveg í einkabifreið. Þar hafi orðið á vegi hans rauð pallbifreið, sem hann hafi vitað að væri í eigu Dalvíkurbyggðar. Henni hafi verið ekið óeðlilega hægt, um 50 til 60 km á klukkustund, og ökumaðurinn ekki virst hafa fulla stjórn á henni. Skammt sunnan við Fagraskóg hafi Felix ekið fram úr pallbifreiðinni og séð undir stýri ákærða, sem hafi litið þreytulega út. Fljótlega eftir það hafi Felix haft símsamband við Sævar og beðið hann um að koma á móti til að athuga ástand ákærða. Eftir þetta hafi Felix ekið nokkuð á undan ákærða og fylgst með honum, en syðst á Dalvík hafi hann tekið eftir því að ákærði væri ekki lengur í sjónmáli. Hann hafi snúið við og ekið til baka, en þá séð ákærða aka að Höfða, sem sé rétt austan við svonefnda Árgerðisbrú. Felix hafi hringt aftur í Sævar, sem hafi verið við Ásgarð skammt norðan brúarinnar, og sagt hvert ákærði hefði ekið. Sævar hafi verið að aka yfir brúna þegar Felix sá ákærða koma að sumarbústaðnum. Felix hafi síðan fylgst með þegar Sævar ók að bústaðnum, en ákærði hafi þá rétt verið kominn þar inn. Þeir Sævar og ákærði hafi skömmu síðar gengið þaðan út að lögreglubifreiðinni, en sá síðarnefndi hafi aðeins verið inni í bústaðnum í eina mínútu eða tvær.
Ákærði kom fyrir rannsóknarlögreglu til skýrslugjafar 28. september 2000. Þar kvaðst hann hafa ekið frá Stykkishólmi áleiðis til Dalvíkur 5. maí sama árs. Þegar hann hafi nálgast Dalvík hafi hann ákveðið að koma við á Höfða, „en hann sé í félagi með öðrum sem stundum séu þar.“ Þangað hafi hann komið milli kl. 20.00 og 20.30. Það hafi verið gestir heima hjá honum og hann því ákveðið að staldra við í bústaðnum um stund, horfa á myndbönd og fá sér bjór og sterkt áfengi, sem hann hafi haft meðferðis í bifreiðinni. Eftir að hafa drukkið af sterka áfenginu hafi hann gengið frá því, sem eftir var, og fengið sér bjór. Nokkru eftir að hann hafi komið að Höfða hafi hann orðið var við að bifreið væri ekið í átt að húsinu. Þegar að var gáð hafi Sævar Freyr Ingason reynst vera þar á ferð í lögreglubifreið. Ákærði hafi þá farið út til að ræða við Sævar, sem hafi spurt hvort hann hafi neytt áfengis. Hann hafi sagt svo vera og Sævar þá beðið hann um að koma að lögreglubifreiðinni til að blása í öndunarmæli. Það hafi hann gert og Sævar óskað síðan eftir að hann kæmi á lögreglustöð. Þar hafi skýrsla verið tekin af ákærða og hann eftir það fluttur til Akureyrar til töku blóðsýnis og þvagsýnis. Aðspurður í tilefni af áðurgreindum framburði lögreglumannanna sagðist ákærði telja þá báða hafa ruglast í tímasetningum, því hann hafi verið að Höfða „um tíma“ áður en Sævar kom þangað. Hafi aksturslag sitt heldur ekki verið einkennilegt, enda aki hann alltaf hægt. Ítrekaði ákærði að hann hafi byrjað að neyta áfengis eftir að hann kom að Höfða og tók fram „að er hann drekki áfengi, drekki hann hratt og mikið í einu og gjarnan óblandað.“
Ákærði kom fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra þegar málið var þingfest 8. janúar 2001 og neitaði þar sök. Við aðalmeðferð málsins 5. febrúar sama árs greindi ákærði í meginatriðum efnislega á sama veg frá atvikum og í lögregluskýrslu 28. september 2000, en skýrði mun nánar frá nokkrum atriðum, sem ekki er ástæða til að rekja hér frekar. Þó er þess að geta að ákærði tók fram fyrir dómi að hann hafi ef til vill ofætlað í lögregluskýrslunni þann tíma, sem hann hafi staldrað við að Höfða áður en Sævar Freyr Ingason kom þangað, en hann myndi giska á að þetta hafi verið 5 til 15 mínútur. Ákærði skýrði einnig frá því að á leið sinni norður Ólafsfjarðarveg umrætt sinn hafi hann orðið var við bifreið fyrir aftan sig, en á sama tíma verið að stilla útvarpstæki í bifreiðinni, sem hann ók. Hann hafi því vikið til að hleypa bifreiðinni fram úr sér.
Fyrir dómi skýrði Felix Jósafatsson frá því að hann hafi fyrst orðið var við bifreiðina, sem ákærði ók, nokkru sunnan við Fagraskóg, en farið fram úr henni þar rétt norðan við. Hann hafi veitt því eftirtekt hversu hægt bifreiðinni hafi verið ekið og hún oft verið úti í kanti vegarins eða jafnvel á honum miðjum. Þegar hann hafi ekið fram úr henni hafi hann þekkt þar undir stýri ákærða, þreytulegan og syfjaðan. Því hafi hann hringt í Sævar Frey Ingason og beðið hann um að koma á móti til að athuga með ákærða, en eftir það hafi hann fylgst með pallbifreiðinni „dálítið á eftir mér svona áleiðis til Dalvíkur og þegar ég var rétt að verða kominn til Dalvíkur þá fór ég að undrast það að Sævar skyldi ekki koma og ég sneri við því bíllinn var nú svona spölkorn á eftir mér og ég missti sjónar af honum“. Sagðist Felix þá hafa ekið suður Svarfaðardalsveg þann vestari og séð þaðan yfir til Höfða þegar pallbifreiðin hafi verið á leið þangað af Ólafsfjarðarvegi. Hann hafi hringt í Sævar, sem þá hafi verið við Ásgarð, og fylgst síðan með för Sævars yfir Árgerðisbrúna á meðan þeir ræddust við í símanum. Hann hafi séð ákærða fara út úr pallbifreiðinni við Höfða og hafi Sævar verið kominn þangað í mesta lagi tveimur eða þremur mínútum síðar. Að öðru leyti var framburður Felix fyrir dómi efnislega á sama veg og í fyrrgreindri lögregluskýrslu um þau atriði, sem hér geta skipt máli. Gegnir því sama um skýrslu, sem Sævar gaf fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.
Af hálfu ákæruvalds var við upphaf aðalmeðferðar málsins í héraði lögð fram álitsgerð lyfjafræðistofnunar 1. febrúar 2001, sem aflað var í tilefni af þeirri frásögn ákærða að hann hafi fyrst byrjað að neyta áfengis umrætt sinn eftir að akstri hans lauk. Í álitsgerðinni sagði meðal annars: „Bendir hlutfall etanóls í blóði og þvagi til þess að viðkomandi einstaklingur hafi ekki neytt áfengis svo nokkru nemi í að minnsta kosti 1-2 klst. áður en sýnin voru tekin ... Ekki er hægt að segja með nákvæmni um etanólþéttni í viðkomandi ökumanni kl. 21.00 en miðað við hið mikla áfengismagn í blóði og þvagi má ætla að hann hafi verið undir áhrifum áfengis kl. 21.00 þetta umrædda kvöld.“
II.
Í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms er vísað til þess að engin haldbær gögn hafi komið fram um að aksturslag ákærða umrætt sinn hafi sérstaklega bent til ölvunar hans. Ekki liggi ljóst fyrir hversu langur tími hafi liðið frá því að akstri hans lauk við Höfða þar til lögreglumaður kom á vettvang, en þar skilji mjög á milli skýrslu ákærða og framburðar Felix Jósafatssonar. Ekki hafi verið kannað í sumarbústaðnum hvort ákærði hafi neytt þar áfengis. Sé ekki unnt að útiloka að svo hafi verið, en ljóst sé að hann hafi haft tíma til nokkurra athafna þar áður en lögreglan kom og meðal annars kveikt þar á sjónvarpstæki. Af álitsgerð lyfjafræðistofnunar verði ekki með vissu ráðið að áfengi í blóði ákærða hafi verið yfir leyfilegum mörkum þegar hann lauk akstri. Af þessum ástæðum taldi héraðsdómari að ekki yrði „talin fram komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærða í máli þessu“ og sýknaði hann af kröfum ákæruvalds.
Eins og áður segir hefur ákærði greint frá því að hann hafi ekið 5. maí 2000 frá Stykkishólmi um sex klukkustundum áður en Felix Jósafatsson kveðst hafa veitt aksturslagi hans athygli á Ólafsfjarðarvegi, en frá þeim stað má ætla að ákærði hefði þurft að aka í 15 til 20 mínútur til að komast til heimilis síns á Dalvík. Í stað þess að halda þangað ók ákærði af þjóðveginum skammt sunnan þéttbýlis á Dalvík að sumarbústað, sem tilheyrði honum ekki og var mannlaus. Fyrrgreind skýring ákærða á erindi sínu þangað er með nokkrum ólíkindum, en til þess er jafnframt að líta að enn hefði hann átt eftir að komast til síns heima frá sumarbústaðnum, þar sem hann segist fyrst hafa neytt áfengis og þá í svo ríkum mæli að nægt hafi til þess talsverða vínandamagns í blóði hans, sem raun ber vitni. Þótt í fáeinum atriðum hafi verið munur á frásögn Felix af rás atburða fyrir dómi annars vegar og í lögregluskýrslu hins vegar, fær það því ekki breytt að framburður hans fyrr og síðar og vitnisburður Sævars Freys Ingasonar er í öllum aðalatriðum samhljóða um aðdragandann að handtöku ákærða, þar á meðal um að aðeins hafi liðið frá einni mínútu til þriggja eftir að hann kom akandi að Höfða þangað til Sævar kom þar á vettvang. Verður ekki séð tilefni til að draga í efa sönnunargildi framburðar þessara vitna. Er fjarstæðukennt að ákærði gæti á þeim tíma, sem hér um ræðir, hafa opnað sumarhúsið, kveikt þar á sjónvarpstæki og neytt nægilegs áfengis til þess að vínandamagn í blóði hans hafi mælst 1,56 úr sýni, sem tekið var hálfri annarri klukkustund eftir handtöku hans. Þótt í fyrrgreindri álitsgerð lyfjafræðistofnunar sé ekki tekið ákveðnar til orða en svo að ætla megi að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis á tilteknum tíma, þegar hann var enn við akstur bifreiðarinnar, kemur þar og fram að hlutfall vínanda í sýnum af blóði og þvagi bendi til að hann hafi ekki neytt áfengis „svo nokkru nemi í að minnsta kosti 1-2 klst. áður en sýnin voru tekin“. Þegar alls þessa er gætt eru slíkar líkur á að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum sé rangt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn áfrýjaða dóm með vísan til ákvæðis 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Verður lagt fyrir héraðsdóm að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella síðan efnisdóm á málið.
Vegna þessara úrslita málsins verður ekki komist hjá að leggja allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur. Lagt er fyrir héraðsdómara að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella að því búnu efnisdóm á málið á nýjan leik.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Þorsteins Kristins Björnssonar, á báðum dómstigum, Jóns Kr. Sólness hæstaréttarlögmanns, samtals 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. febrúar 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. febrúar s.l., er höfðað hér fyrir dómi með ákæru sýslumannsins á Akureyri, dagsettri 7. desember 2000, á hendur Þorsteini Kristni Björnssyni, kt. 311252-2329, Dalbraut 4, Dalvíkurbyggð: „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudagskvöldið 5. maí 2000, ekið bifreiðinni KR-946 undir áhrifum áfengis frá Stykkishólmi áleiðis til Dalvíkur uns hann stöðvar bifreiðina við sumarbústaðinn Höfða, sem stendur skammt sunnan við Dalvík, þar sem hann er handtekinn af lögreglu.
Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. og 26. gr. laga nr. 44, 1993.”
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa og þá er af hans hálfu krafist hæfilegra málsvarnarlauna til handa skipuðum verjanda hans Jóni Kr. Sólnes hrl.
Atvik máls þessa eru þau, að föstudaginn 5. maí 2000 kl. 21:00 var Felix Jósafatsson lögregluvarðstjóri á leiðinni norður þjóðveg 82, Ólafsfjarðarveg, er hann í nánd við bæinn Fagraskóg ók fram úr bifreið og taldi sig þekkja ökumann sem var Þorsteinn Kristinn Björnsson, ákærði í máli þessu, og var hann einn í bifreiðinni. Taldi Felix að ákærði væri ekki eins og hann ætti að sér að vera og taldi hann m.a. vera þreytulegan. Hringdi hann í Sævar Frey Ingason aðstoðarvarðstjóra í lögreglunni á Dalvík, sem var á vakt í greint sinn. Í framhaldi af þessu fór Sævar Freyr Ingason að sumarbústaðnum Höfða, skammt sunnan Dalvíkur, að tilvísan lögreglumannsins Felix Jósafatssonar, og handtók ákærða þar og fór með hann í upphafi á lögreglustöðina á Dalvík, en þar sem vakthafandi læknir á Dalvík reyndist upptekinn var farið með ákærða á lögreglustöðina á Akureyri þar sem tekið var úr honum blóð- og þvagsýni.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðarinnar en viðurkenndi áfengisneyslu eftir að akstri lauk. Skýrir ákærði svo frá að hann hafi lagt af stað í bifreiðinni frá Stykkishólmi um kl. 15:00 þennan sama dag og ekið áleiðis til Dalvíkur. Kveðst hann hafa ekið að bústaðnum Höfða svo sem að framan greinir og farið þar inn og neytt þar bæði áfengis úr fleyg svo og bjórs. Ennfremur kveðst hann hafa kveikt á sjónvarpi til að horfa á myndbandsspólu. Telur hann sig hafa dvalið í bústaðnum nokkra hríð áður en lögreglan kom og handtók hann.
Vitnið Felix Jósafatsson skýrir svo frá að hann hafi ekið fram úr ákærða í nánd við bæinn Fagraskóg og sérstaklega veitt því athygli kvað hann ók hægt. Hann hafi síðan fylgst með ákærða í baksýnisspegli eftir að hann hafði ekið fram úr honum og hafi ákærði ekið bifreið sinni á um 50 km hraða. Hann kveðst ekki hafa séð neitt annað grunsamlegt við akstur ákærða. Er hann nálgaðist Dalvík hafi ákærði horfið úr baksýnisspeglinum og hann því snúið við og þá séð að ákærði ók að framangreindum bústað og kveðst hann þá hafa gert Sævari Frey lögreglumann aðvart um það í síma. Kveðst hann hafa séð Sævar Frey aka að sumarbústaðnum, en þá hafi Þorsteinn verið rétt kominn í húsið. Kveður hann ákærða hafa verið mjög stutta stund í sumarbústaðnum eða þann tíma sem tekið hafi Sævar Frey að aka frá Árgerðisbrúnni að sumarbústaðnum, í mesta lagi 1 eða 2 mínútur.
Vitnið Sævar Freyr lögreglumaður kveðst hafa ekið að sumarbústaðnum eins og að framan greinir og hafi ákærði þá staðið í dyrum bústaðarins og bifreið hans hafi staðið þarna hjá. Kveður hann ákærða hafa sagt sér að hann hafi komið um hálfri klukkustund áður í bústaðinn á bifreiðinni og byrjað að drekka bjór og farið að horfa á sjónvarpið. Kveður vitnið áfengislykt hafa verið af ákærða og hann hafi borið merki ölvunar. Vitnið kveðst ekki hafa farið inn í sumarbústaðinn, en ákærði hafi farið inn til að slökkva á sjónvarpinu áður en lagt var af stað á lögreglustöðina.
Samkvæmt vottorði læknis var blóðsýni tekið úr ákærða kl. 22:48 en þvagsýni kl. 22:58. við rannsókn rannsóknarstofu í lyfjafræði reyndist alkóhólmagn í blóði vera 1,56 en alkóhólmagn í þvagi 2,16.
Í málinu hefur verið lagt fram „álit” Kristínar Magnúsdóttur, deildarstjóra á lyfjafræðistofnun Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Í álitinu segir „Bendir hlutfall ethanols í blóði og þvagi til þess að viðkomandi einstaklingur hafi ekki neytt áfengis svo nokkru nemi í a.m.k. 1-2 klukkustundir áður en sýnin voru tekin kl. 22:48 (blóðsýni) og kl. 22:58 (þvagsýni). Ekki er hægt að segja með nákvæmni um ethanolþéttni í viðkomandi ökumanni kl. 21:00, en miðað við hið mikla áfengismagn í blóði og þvagi má ætla að hann hafi verið undir áhrifum áfengis kl. 21:00 þetta umrædda kvöld.”
Kristín Magnúsdóttir hefur ekki verið kvödd fyrir dóminn til að staðfesta álit þetta og gefa nánari umsögn um það.
Af því sem að framan er rakið er ljóst að engin haldbær gögn hafa komið fram um að akstursmáti ákærða í greint sinn hafi sérstaklega bent til ölvunar hans. Þá liggur ekki ljóst fyrir hversu langur tími leið þar til akstri lauk við sumarbústaðinn Höfða og þar til lögreglumaður kom á vettvang og skilur þar mjög á milli framburðar ákærða og vitnisins Felix. Engin könnun fór fram í sumarbústaðnum í því skyni að kanna hvort áfengisneysla hefði þar átt sér stað af hálfu ákærða. Er ekki hægt að útiloka að svo hafi verið, en ljóst er að ákærði hafði a.m.k. tíma til nokkurra athafna í sumarbústaðnum áður en lögreglan kom, m.a. hafði hann kveikt á sjónvarpstæki. Af framangreindu áliti Kristínar Magnúsdóttur verður ekki með vissu ráðið að áfengismagn í blóði ákærða hafi verið yfir leyfilegum mörkum er akstri hans lauk.
Að öllu framangreindu virtu verður eigi talin fram komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærða í máli þessu, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19, 1991, og verður ákærði því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allan málskostnað ber að greiða úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda Jóns Kr. Sólnes hrl. sem þykja hæfilega ákveðin kr. 50.000-.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Þorsteinn Kristinn Björnsson, skal vera sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Kr. Sólnes hrl. kr. 50.000.