Hæstiréttur íslands
Mál nr. 51/2014
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Sveitarfélög
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2014. |
|
Nr. 51/2014.
|
Gylfi Þ. Þórisson (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) gegn Reykhólahreppi (Bjarni Lárusson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Sveitarfélög. Samningur.
Sveitarfélagið R var sýknað af kröfu G um skaðabætur, sem reist var á því að samið hafi verið um ráðningu hans sem sveitarstjóra tilgreindan dag og þannig komist á ráðningarsamband milli aðila sem síðar hafi verið rift með ólögmætum hætti ellegar ráðningin ólöglega afturkölluð. Talið var að ákvæði þágildandi 2. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og og 2. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, áskildu að samningur um ráðningu framkvæmdastjóra sveitarfélags skyldi vera skriflegur, væru augljóslega sett til verndar hagsmunum, allsherjarréttar eðlis, og gætu því aðeins skuldbundið sveitarfélagið að gengið væri frá samningnum í samræmi við þau fyrirmæli. Þegar af þeirri ástæðu var fallist á með R að ekki hefði stofnast samningur milli aðila um ráðningu G svo skuldbindandi væri fyrir R.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2014. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 40.608.754 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. september 2010 til „þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt stefnda“, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi lægri fjárhæðar sér til handa. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram ákvað hreppsnefnd stefnda á fundi 9. september 2010 að ganga til samninga við áfrýjanda um ráðningu hans sem sveitarstjóra. Var oddvita og varaoddvita „falið að ganga frá samningum við hann.“ Daginn eftir hitti áfrýjandi oddvitann og varaoddvitann á fundi. Þeim ber ekki saman um hvort gengið hafi verið endanlega frá ráðningunni á fundinum, en hins vegar er óumdeilt að hvorki þá né síðar var gengið frá skriflegum samningi við áfrýjanda um ráðningu hans sem sveitarstjóra stefnda.
Krafa áfrýjanda á hendur stefnda er á því reist að í reynd hafi verið samið um ráðningu hans sem sveitarstjóra á fundinum 10. september 2010 og þannig komist á ráðningarsamband milli aðila. Byggist krafan aðallega á því að ráðningarsamningnum hafi verið rift með ólögmætum hætti, en til vara að um hafi verið að ræða ólöglega afturköllun á þeirri ákvörðun stefnda að ráða hann sem sveitarstjóra.
II
Í 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sem giltu þegar áðurnefnd atvik áttu sér stað, sagði meðal annars að sveitarstjórn réði framkvæmdastjóra til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefni sveitarfélagsins. Þá var í 2. mgr. sömu greinar svo fyrir mælt að sveitarstjórn skyldi gera skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra sveitarfélags þar sem starfskjör hans væru ákveðin. Samhljóða ákvæði eru í 1. og 2. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í athugasemdum frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 45/1998, var komist svo að orði um ákvæðið í 2. mgr. 54. gr. að talin væri ástæða til að taka skýrt fram að gerður skyldi skriflegur ráðningarsamningur við framkvæmdastjóra sem staðfestur yrði af sveitarstjórn.
Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum sveitarstjórnarlaga eru í samningi sveitarstjórnar um ráðningu framkvæmdastjóra í raun fólgnar ákvarðanir um hver skuli stýra stjórnsýslu sveitarfélagsins og hverra starfskjara hann skuli njóta. Ákvæði 2. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga sem áður er vitnað til er því augljóslega sett til verndar hagsmunum, allsherjarréttar eðlis. Af þeim sökum skuldbindur slíkur ráðningarsamningur sveitarfélagið því aðeins að gengið sé frá honum í samræmi við þau fyrirmæli. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á með stefnda að ekki hafi stofnast samningur milli aðila um ráðningu áfrýjanda sem sveitarstjóra svo að skuldbindandi hafi verið fyrir stefnda og verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans sem ákveðin er eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Gylfa Þ. Þórissonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 24. október 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., er höfðað af Gylfa Þór Þórissyni, Hagamel 25, Reykjavík, á hendur Reykhólahreppi, Maríutröð 5a, Reykhólum, með stefnu birtri 7. febrúar 2013.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 40.608.754 krónur í skaða- og miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 16. september 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa er kynnt stefnda, en dráttarvexti eftir þann dag samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að stefndi, Reykhólahreppur, auglýsti 9. ágúst 2010 eftir duglegum og áhugasömum sveitarstjóra sem gæti hafið störf sem fyrst. Í auglýsingunni segir að helstu kostir sem sveitarstjóri þurfi að hafa séu jákvæðni og færni í stjórnun og mannlegum samskiptum, áhugi og reynsla af rekstri og stjórnsýslu sveitarfélaga, áhugi á uppbyggingu samfélagsins og reynsla af markaðs- og kynningarmálum. Þá kemur þar fram að æskilegt sé að viðkomandi hafi háskólamenntun eða sambærilegra menntun sem nýtist í starfi. Stefnandi sótti um starfið og var hann ásamt nokkrum öðrum umsækjendum kallaður í viðtal vegna þess. Á fundi sveitarstjórnar 9. september 2010 var Gústaf Jökli Ólafssyni, þáverandi oddvita og Andreu Björnsdóttur þáverandi varaoddvita falið að ganga frá samningum við stefnanda. Stefnandi hitti Gústaf Jökul og Andreu, auk fleiri hreppsnefndarmanna, á fundi 10. september 2010. Í kjölfar þess fundar stóð til að tölvupóstsamskipti yrðu á milli aðila vegna gerðar skriflegs ráðningarsamnings. Helgina 11.-12. september var af hálfu stefnda haft samband við stefnanda vegna upplýsinga sem stefnda höfðu borist um að bú stefnanda væri undir gjaldþrotaskiptum. Eftir þá helgi var aftur, af hálfu stefnda, haft samband við stefnanda og honum tilkynnt, samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda, að ekki væri hægt að ganga til samninga við hann. Í stefnu er hins vegar á því byggt að stefnandi hafi 14. september 2010 fengið símtal frá varaoddvita sem hafi tjáð honum að ekki hafi náðst samstaða innan hreppsnefndar um að standa við gerðan ráðningasamning og að stefnanda hafi verið tjáð að samningnum væri rift.
Með bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 16. september 2010, segir að eftirgrennslan stefnda hafi leitt í ljós að 2. mars 2010 og 1. apríl 2010 hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda og hann úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2010. Stefnandi hafi í engu látið þessa getið í umsókn sinni og hafi þar með leynt stefnda mikilvægum atriðum sem máli skipti um hæfi og samanburð á umsækjendum. Þá segir þar að fram komi í 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 að sé gerð skilyrðislaus krafa um að framkvæmdastjóri sé fjár síns ráðandi „...en í því felist að bú hans má ekki vera undir gjaldþrotaskiptum“. Þá segir í bréfinu að sveitarfélög hafi ekki frjálsar hendur um ráðningar sveitarstjóra eða annarra starfsmanna. Almennar stjórnsýslureglur leggi þá skyldu á sveitarfélög að þegar margir sækja um stöðu verði að ráða þann umsækjanda sem talinn er hæfastur. Ráðning stefnanda, jafnvel þó að skiptum á þrotabúi hans hafi lokið fyrir skömmu, færi þannig gegn þeirri grundvallarreglu að velja hæfasta umsækjandann. „Með vísan til framanritaðs hefur umbjóðandi minn, hreppsnefnd Reykhólahrepps, falið mér að tilkynna að forsendur fyrir ráðningu umbjóðanda þíns séu brostnar og því verði ekki gengið til samninga við hann...“
Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Auk hans gáfu skýrslu Gústaf Jökull Ólafsson, hreppsnefndarmaður og fyrrverandi oddviti, Andrea Björnsdóttir oddviti og fyrrverandi varaoddviti, Eiríkur Kristjánsson varaoddviti, Hrafnkell Erlendsson, starfsmaður One System, Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir og Sveinn Ragnarsson fulltrúar í hreppsnefnd og Hlynur Þór Magnússon umsjónarmaður og ábyrgðarmaður með Reykhólavefnum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Krafa stefnanda um skaða- og miskabætur er á því byggð að komið hafi verið á fast ráðningarsamband milli hans og stefnda sem hafi verið rift með ólögmætum hætti.
Stefnandi vísar til þess að samningar séu almennt ekki formbundnir í íslenskum rétti. Þeir séu jafngildir hvort sem þeir eru munnlegir eða skriflegir. Þessi regla hafi almennt gilt um ráðningarsamninga. Ráðningarsamband geti því stofnast með óformlegum hætti. Almennar reglur samningaréttarins gildi um það hvenær ráðningarsamningar stofnist. Þegar varaoddviti stefnda hafi hringt í stefnanda 8. september 2010 og tilkynnt honum að ákvörðun hafi verið tekin um það innan hreppsnefndarinnar að velja stefnanda sem sveitarstjóra, úr hópi umsækjenda, og stefnandi samþykkt það, hafi verið komið á ráðningarsamband. Það sé meginregla að þegar búið sé að samþykkja tilboð um starf hafi samningur stofnast þótt vinnan sjálf hafi ekki hafist. Stoðir ráðningarsambandsins hafi verið styrktar enn frekar á hreppsnefndarfundi 9. september og á fundi 10. september þar sem m.a. hafi verið samið um kjör stefnanda. Í kjölfarið hafi ráðningin verið auglýst á mörgum vefmiðlum. Stefnandi hafi jafnframt farið að sinna störfum fyrir hönd stefnda.
Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að ráðningarsambandi hans við stefnda hafi verið rift með ólögmætum hætti. Litið hafi verið þannig á að riftun sé heimil þegar brotið hafi verið alvarlega gegn ákvæðum ráðningarsamnings eða þeim meginskyldum sem gilda í ráðningarsambandi. Ljóst sé að engar af þeim forsendum hafi verið fyrir hendi þegar stefndi ákvað að rifta ráðningarsamningnum. Eina ástæða þess að samningnum var rift hafi verið sú að stefndi taldi að stefnandi uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, um að vera fjár síns ráðandi. Í ákvæðinu sé gerð krafa um að framkvæmdastjóri sé fjár síns ráðandi og í því felist m.a. að bú hans megi ekki vera undir gjaldþrotaskiptum. Stefnandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 28. apríl 2010 og þeim skiptum lokið 12. ágúst 2010. Hann hafi því ekki verið lengur undir gjaldþrotaskiptum þegar hann sótti um starfið og samþykkti að taka því. Stefnandi vísar til þess að sviðstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi verið sammála framangreindri túlkun. Sú túlkun fái frekari hljómgrunn þegar beitt sé samanburðarskýringu við lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en þar segir í 6. tl. 1. mgr. 6. gr. að þegar aðili sæki um starf þurfi að hann að hafa fjárforræði ef starfi fylgja fjárreiður. Við skiptalok 12. ágúst 2010 hafi stefnandi fengið fjárforræði. Hann hafi því verið fjár síns ráðandi og því hafi sú ákvörðun stefnda að rifta samningnum með vísan til fyrrnefnds lagaákvæðis verið ólögmæt. Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af völdum riftunarinnar vegna saknæmrar háttsemi stefnda sem sé andstæð lögum og meginreglum vinnu- og samningaréttar og beri stefndi ábyrgð á þeirri háttsemi og því tjóni.
Þá byggir stefnandi á því að riftun feli í sér lok samnings og að við undirbúning og töku slíkra ákvarðana þurfi að fylgja þeim stjórnsýslureglum sem við eiga. Lögmætisregla sé einn af hornsteinum stjórnsýsluréttarins og í henni felist tvær undirstöðureglur, annars vegar lagaáskilnaðarreglan og hins vegar formreglan. Samkvæmt lagaáskilnaðarreglunni verða allar ákvarðanir stjórnvalda og sveitarfélaga að eiga sér stoð í lögum og samkvæmt lögmætisreglunni mega stjórnvaldsákvarðanir jafnframt ekki stangast á við sett lög. Þeim mun víðtækari og meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er þeim mun strangari kröfur verða gerðar til þess að þær hafi skýra og ótvíræða heimild í lögum. Við mat á því hvort ákvörðun teljist íþyngjandi sé litið til þess hvaða réttindi hún skerðir auk umfangs og eðlis skerðingarinnar. Ljóst sé að ákvörðun um að rifta ráðningarsamningi sé verulega íþyngjandi og því beri að gera meiri kröfur til þess að ákvörðunarástæða riftunar sé byggð á réttri lagalegri túlkun. Stefnandi hafi verið fjár síns ráðandi þegar ákvörðunin var tekin og þar að leiðandi hafi ekki verið lagaheimild fyrir riftuninni auk þess sem hún hafi stangast á við 3. mgr. 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga. Réttmætisreglan sé nátengd lögmætisreglunni. Í henni felist að ávallt þurfi að byggja stjórnvaldsákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Stefndi hefði því átt að leggja frekara mat á hæfi stefnanda áður en ákvörðun hafi verið tekin um að rifta ráðningarsamningi við hann. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi riftunin ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum.
Stefnandi vísar til þess að það teljist til ómálefnalegra sjónarmiða að líta eingöngu til fjárhagslegra haga stefnanda sem forsendu fyrir riftun ráðningarsamnings, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þar sem kveðið sé á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til efnahags. Þetta fái frekari stoð þegar 11. gr. stjórnsýslulaga er skoðuð en í ákvæðinu felist m.a. að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðra á efnahag.
Stefnandi telur að samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hafi hvílt sú skylda á stefnda að upplýsa málið nægilega áður en ákvörðun var tekin og staðreyna upplýsingarnar sem byggt var á til að tryggja að ákvörðun yrði tekin á réttum grundvelli. Í tilfelli stefnanda hafi ákvörðunin verið mjög íþyngjandi og tilfinnanleg og byggst á mjög íþyngjandi og neikvæðum upplýsingum um stefnanda. Í ljósi þessa hafi verið enn meiri ástæða fyrir stefnda að ganga úr skugga um að upplýsingarnar væru sannar og réttar. Þeirri skyldu sinni samkvæmt 10. gr. laganna hafi stefndi ekki sinnt þegar hann tók ákvörðunina þar sem hann var í um villu á túlkun á 3. mgr. 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Stefnda hafi verið upp á lagt að afla sér frekar túlkunar á því hvað fælist í að „vera fjár síns ráðandi“ hjá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga en gerði það ekki. Ljóst sé því að rannsókn stefnda á staðreyndum og lagalegum grundvelli hafi ekki verið fullnægjandi og hann hafi því brotið gegn almennum reglum um rannsóknarskyldu stjórnvalda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 310/1996 sem birtur var í dómasafni 1997, bls. 1544. Þá hefði stefndi getað komist hjá þessari villu ef umsækjanda hefði verið gefið færi á að andmæla fram komnum upplýsingum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, sem hefði leitt til þess að málsatvik hefðu verið betur upplýst og stefnandi hefði getað varið réttindi sín og hagsmuni. Hafi það verið sérstaklega brýnt í ljósi þess hversu hagsmunirnir voru miklir og hefði það jafnframt verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Sveitarfélagi beri, með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga, almennt að eigin frumkvæði, og áður en ákvörðun er tekin um ráðningu í opinbert starf, að veita umsækjanda færi á að kynna sér upplýsingar sem það hefur aflað um viðkomandi og honum er ekki kunnugt um að dregnar hafi verið inn í málið, enda hafi þær upplýsingar verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og séu umsækjandanum í óhag. Þá beri að gefa umsækjanda ráðrúm til að tjá sig um slíkar upplýsingar.
Stefnandi byggir á því að sjónarmið meðalhófsreglu hafi verið brotin við undanfara riftunarinnar. Markmið ákvörðunar hafi verið að rifta ráðningarsamningi stefnanda þar sem stefndi taldi hann ekki uppfylla skilyrði 3. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga. Ljóst sé að stefndi hafi verið í lögvillu um túlkun á ákvæðinu. Ákvörðunin hafi þar af leiðandi ekki verið markhæf og íþyngdi stefnanda að nauðsynjalausu. Þá hafi verið gengið lengra við framkvæmd ákvörðunarinnar en tilefni var til en í bréfi lögmanns stefnda 16. september 2010 segir að ráðning einstaklings sem hefur farið í gegnum gjaldþrotaskipti fari gegn þeirri grundvallarreglu að ráða hæfasta umsækjandann. Í kjölfar þess hafi honum verið tilkynnt að forsendur væru þar af leiðandi brostnar og ekki yrði gengið til samninga við hann. Með tilliti til sjónarmiða meðalhófsreglunnar hefði átt að leyfa honum að andmæla framkomnum upplýsingum og á grundvelli þess framkvæma heildstætt mat á því hvort hann væri ekki lengur hæfasti umsækjandinn. Sérstaklega eigi þetta við þar sem hann hafi ekki uppfyllt það skilyrði að vera fjár síns ráðandi samkvæmt þágildandi sveitastjórnarlögum. Með vísan til þessa telur stefnandi að brotið gegn meðalhófsreglunni við meðferð málsins þar sem ekki hafi verið tekið tilit til hagsmuna og réttinda stefnanda.
Þá bendir stefnandi á að við meðferð málsins hjá stefnda hafi komið upplýsingar frá einum starfsmanni nefndarinnar um að stefnandi hefði verið gjaldþrota. Hafi stefnda því borið samkvæmt 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að skrá niður upplýsingar um málsatvik þar sem þær voru ákvörðunarástæða fyrir riftun og höfðu þar af leiðandi verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins, þ.e. upplýsingar um gjaldþrot stefnanda. Það hafi hins vegar ekki verið gert og því hafi verið brotið gegn ákvæðinu.
Loks telur stefnandi að fyrrnefnd ólögmæt og saknæm háttsemi hafi leitt til þess að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum riftunarinnar sem sé andstæð lögum og meginreglum vinnu- og samningaréttar og að stefndi beri ábyrgð á þeirri háttsemi og því tjóni.
Skaða- og miskabótakrafan
Fjárhæð bótakröfunnar er byggð á tjóni stefnanda og er krafan sundurliðuð svo:
1. Launatap 32.543.339 krónur
2. Tap lífeyrisréttinda 3.576.191 króna
3. Miskabætur 4.000.000 króna
4. Lögmannskostnaður 489.224 krónur
Samtals 40.608.754 krónur
Töluliður 1 og 2, skaðabótakrafa
Töluliðir 1 og 2 eru vegna launataps og tapaðra lífeyrisréttinda. Kröfurnar eru fengnar með útreikningi á höfuðstólsverðmæti framtíðartekna út kjörtímabilið sem er fjögur ár. Í 3. mgr. 54. gr. laga. nr. 45/1998 er kveðið á um að ráðningartími framkvæmdastjóra skuli að jafnaði vera sá sami og kjörtími sveitarstjórnar. Þetta sé meginreglan samkvæmt lögunum auk þess sem hún sé algeng í framkvæmd. Við útreikning á framtíðartekjum sé miðað við kjör sem stefnandi og stefndi sömdu um á fundi 10. september 2010 en á þeim fundi var stefnandi ráðinn sem sveitarstjóri. Samkvæmt ráðningarsamningi áttu grunnlaun hans að vera 536.500 krónur. Skaðabótakrafan miðist við launamissi stefnanda frá miðjum september 2010 til loka kjörtímabils í maí 2014. Hins vegar hækkuðu grunnlaunin í júní 2011, um 4,25% samkvæmt kjarasamningum ASÍ og hefðu orðið 559.301 krónur. Önnur launahækkun var 1. febrúar 2012 samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningum og man hún 3,5%. Við það hefðu grunnlaunin hækkað sem því nemur og orðið 578.877 krónur. Að endingu sé gert ráð fyrir annarri launahækkun 1. febrúar 2013 um 3,2% sem hefði leitt til þess að launin hefðu hækkað í 597.690 krónur.
Stefnandi telur ljóst að orsakatengsl séu á milli hinnar ólögmætu háttsemi stefnda og tjóns stefnanda. Við skoðun á skattframtölum stefnanda 20 mánuði frá umræddri riftun sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir gríðarlegu fjártjóni vegna hennar. Stefnandi hafi einungis fengið 3.392.816 krónur í tekjur á því tímabili. Stefnandi hafi reynt að takmarka tjón sitt með margvíslegum hætti. Hann hafi m.a. verið virkur í atvinnuleit en óvægin umfjöllun í fjöl- og vefmiðlum um gjaldþrot hans hafi lagt stein í götu hans í atvinnuleit.
Töluliður 3, miskabótakrafa
Stefnandi styður miskabótakröfu sína við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hin ólögmæta riftun og eftirfarandi umfjöllun á vefmiðlum sem stefnandi þurfti að sæta vegna athafna stefnda hafi valdið honum sársauka, óþægindum og andlegum þjáningum og hefur orðið honum til gríðarlegs álitshnekkis. Þannig hafi stefndi með saknæmum hætti staðið að meingerð gegn persónu, friði og æru stefnanda og beri á því óskipta bótaskyldu.
Þá telur stefnandi að framkoma stefnda gagnvart stefnanda hafi ekki falið í sér góða sveitarstjórnarhætti og ljóst að hún fól í sér ólögmætt brot gegn persónu hans, æru og starfsheiðri þar sem stefndi braut með saknæmum hætti á stefnanda. Eins og fyrr greinir var málið ekki nægilega upplýst áður en ákvörðunin var tekin um að rifta ráðningarsamningnum samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, riftunin var ekki markhæf, auk þess sem framkvæmd hennar var úr hófi og gekk lengra en nauðsyn krafðist og var þ.a.l. brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Stefnandi fékk ekki að tjá sig um nýjar upplýsingar sem komu fram eftir að hann hafði lagt inn umsókn og verið ráðinn þrátt fyrir að þær hefðu verið ákvörðunarástæða fyrir riftuninni og höfðu þ.a.l. verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Riftunin var háð fyrir opnum tjöldum á mörgum vefmiðlum og þar birtist m.a. ákvörðunarástæða riftunarinnar, þ.e. að stefnandi hafi orðið gjaldþrota. Afleiðingar þeirrar umfjöllunar höfðu verulega slæm áhrif á hann andlega og framtíðarstarfsmöguleika hans enn stefnandi var í kjölfarið atvinnulaus í tæp tvö ár.
Töluliður 4, lögmannskostnaður
Stefnandi byggir kröfu sína um lögmannskostnað á því að eðlilegt sé að stefnandi hafi leitað lögmannsaðstoðar til að rétta hlut sinn. Stefndi hafi hafnað sáttatilboði stefnanda um að greiða honum laun er jafngildi fimm mánaða launum auk orlofs. Þá hafi riftunin og ráðning á nýjum sveitarstjóra verið kærð til innanríkisráðuneytisins 29. janúar 2011. Samkvæmt framansögðu verði að líta svo á að sannanlegur lögmannskostnaður stefnanda við að ná fram rétti sínum vegna ólögmætrar riftunar sé tjón sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.
Ólögmæt afturköllun
Verði ekki fallist á að um ólögmæta riftun hafi verið að ræða gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta, að fjárhæð 40.608.754 krónur þar sem um ólögmæta afturköllun á ráðningu (stjórnvaldsákvörðun) sé að ræða samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga. Stefndi hafi að eigin frumkvæði afturkallað lögmæta ákvörðun sína sem birt hafi verið stefnanda. Mat á því hvort skilyrði afturköllunar hafi verið fyrir hendi ræðst einkum af ástæðum stjórnvalds fyrir afturköllun og þýðingu ákvörðunarinnar fyrir þann sem hún beinist að. Í bréfi lögmanns stefnda sé því haldið fram að stefnandi hafi „látið þessa [gjaldþrots] engu getið í umsókn sinni og hafi leynt stefnda mikilvægum atriðum“. Stefnandi hafi haft samband við Samband íslenskra sveitarfélaga áður en hann sendi umsóknina 20. ágúst 2010 og fengið staðfestingu á að gjaldþrot hans bryti ekki í bága við skilyrði 3. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem skiptum hafi lokið 12. ágúst 2010. Hann hafi því verið fjár síns ráðandi og hafi hann á grundvelli þessa faglega álits ekki talið nauðsyn að geta þessa. Þá hafi það ekki verið hæfisskilyrði í auglýsingu stefnda að umsækjandi hafi ekki orðið gjaldþrota. Hann hafi þar af leiðandi ekki verið að leyna stefnda fyrrnefndum upplýsingum. Sé það ákvörðunarástæða fyrir því að vera ráðinn í starf sveitarstjóra að bú umsækjanda sé ekki undir gjaldþrotaskiptum þá hafi stefnda verið í lófa lagið að tiltaka það í auglýsingu eða inna eftir svörum um það í starfsviðtölum. Það hafi ekki verið gert og verði stefnandi ekki sakaður um að geta ekki um það í umsókn sinni eða hafa leynt þeim upplýsingum fyrir stefnda. Þá sé óheimilt að gera upp á milli umsækjenda með tilliti til efnahags, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga.
Stefnandi byggir á því að þær afturköllunarástæður sem stefndi vísar til hafi legið fyrir þegar ákvörðunin var tekin. Stefnda hafi verið í lófa lagið að fletta stefnanda upp í vanskilaskrá eða spyrja hann hvort bú hans væri undir skiptum eða hefði verið undir skiptum. Stefndi hafi tekið ákvörðun um að ráða stefnanda sem sveitarstjóra Reykhólahrepps og í kjölfarið hafi verið gerður ráðningarsamningur við hann og ráðningin tilkynnt á ýmsum vefmiðlum. Stefndi afturkallaði ákvörðunina eftir að samningur komst á. Afturköllunin og sú umfjöllun sem af henni leiddi á vefmiðlum hafi leitt til verulegs tjóns fyrir stefnda, m.a. þess að hann hafi ekki fengið starf í 24 mánuði. Samkvæmt 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga getur stjórnvald ekki afturkallað ákvörðun sína ef það er til skaða fyrir aðila máls. Hafi afturköllunin þar af leiðandi verið ólögmæt en með vísan í fyrrgreint sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir gríðarlegu tjóni.
Stefnandi telur að hvort sem um ólögmæta riftun eða ólögmæta afturköllun hafi verið að ræða þá sé ljóst að ofangreind ákvörðun stefnda hafi leitt til þess að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af völdum riftunarinnar/afturköllunarinnar með saknæmri háttsemi sem sé andstæð lögum og meginreglum vinnu- og samningaréttar. Stefndi beri ábyrgð á þeirri háttsemi og því tjóni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 190/1992 sem birtur var í dómasafni Hæstaréttar 1995, bls. 382 og máli nr. 301/1996, sem birtur var í dómasafni réttarins frá 1997, bls. 1544. Þá vísar stefnandi einnig til fyrri rökstuðnings varðandi saknæma háttsemi stefnda og sundurliðunar á skaða- og miskabótakröfu.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi einkum til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, almennra reglna vinnuréttar, almennra reglna skaðabótaréttarins, sakarreglunnar og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Um aðalkröfu
Stefndi byggir á því að aldrei hafi verið komið á ráðningarsamband milli stefnanda og stefnda og sé því mótmælt að samningi hafi verið rift þar sem aldrei hafi verið gerður neinn samningur við stefnanda. Áður en viðræðum um ráðningu eða ráðningarkjör hafi lokið komu fram upplýsingar sem gerðu það að verkum að stefndi hvorki gat né vildi ráða stefnanda sem sveitarstjóra. Þar hafi ráðið úrslitum að bú stefnanda hafi verið undir gjaldþrotaskiptum og að stefnandi hafi ekki látið þess getið. Bú hans var undir gjaldþrotaskiptum frá 28. apríl 2010 og auglýsing um skiptalok var gefin út 28. júlí 2011 og birt í Lögbirtingablaðinu 3. ágúst 2011. Það liggi því fyrir að þegar stefnandi sótti um starf sem sveitarstjóri stefnda hafi bú hans verið undir gjaldþrotaskiptum. Um þetta hafi stefnandi ekki getið í umsókn sinni. Á fundum með sveitarstjórnarmönnum 2. og 10. september 2010 sagði hann heldur ekki frá þessu. Með þögninni hafi hann beitt blekkingu um mikilvægt atriði.
Stefndi telur að stefnanda hafi mátt vera ljóst að fjárræði sveitarstjóra væri skilyrði samkvæmt 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Fyrst hann hafi ákveðið að sækja um starfið þrátt fyrir gjaldþrotaskiptin hefði hann átt að segja frá þessum aðstæðum sínum á hreinskilnislegan hátt. Hann hefði getað þrýst á skiptastjóra um að skiptalok væru auglýst sem allra fyrst, hafi hann talið að skiptum væri lokið. Það virðist hann ekki hafa gert en á því beri stefndi enga ábyrgð.
Stefndi vísar til þess að hann hafi fengið staðfest að bú stefnanda væri undir gjaldþrotaskiptum haustið 2010 og á þeim grundvelli hafi hann talið ólögmætt að ráða stefnanda sem sveitarstjóra. Blekkingarleikur stefnanda hafi hins vegar einnig skipt miklu máli og hafi spillt því trúnaðarsambandi sem nauðsynlegt væri að ríkti milli hans og sveitarstjórnar. Þessi blekkingarleikur stefnanda hefði komið í veg fyrir ráðningu, þótt gjaldþrotaskiptum hefði verið lokið, vegna þess að trúnaður gat ekki ríkt við þessar aðstæður.
Þá mótmælir stefndi því að hann hafi átt að rannsaka málið frekar eða að hann hafi ekki aflað nægra upplýsinga um hæfi stefnanda. Opinber skráning og opinberar upplýsingar lágu fyrir um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda. Stefnda hafi verið rétt og skylt að styðjast við þær upplýsingar. Þar að auki hafi stefnanda verið í lófa lagið að leggja fram aðrar eða meiri upplýsingar um þetta ef hann vildi. Það hafi hann ekki gert, ekki einu sinni þegar honum hafi orðið ljóst að gjaldþrotaskiptin voru meðal þess sem fældu stefnda frá því að ráða hann sem sveitarstjóra. Stefndi telur að það hafi m.a. verið vegna þess að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að bú hans væri enn undir gjaldþrotaskiptum enda hafði auglýsing um skiptalok ekki verið birt.
Stefndi bendir á að það hafi fyrst og fremst verið tvö atriði sem réðu því að hætt hafi verið við ráðningu. Annars vegar voru það upplýsingar um að bú stefnanda væri undir gjaldþrotaskiptum. Undir þeim aðstæðum var ólögmætt að ráða stefnanda sem sveitarstjóra, sbr. 55. gr. laga nr. 45/1998. Hins vegar hafi það verið blekkingarleikurinn sem stefndi hafi verið staðinn að með því að greina ekki frá gjaldþrotaskiptunum. Þegar þessi blekking hafði verið afhjúpuð hafi enginn vilji verið til ráðningar. Dómstólar hafa ekki vald til að endurskoða það mat stjórnvaldsins.
Einnig mótmælir stefndi því að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för þegar hann ákvað að ráða stefnanda ekki sem sveitarstjóra eða að hann hafi mismunað stefnanda á nokkurn hátt með því að ráða hann ekki eftir að hafa fengið upplýsingar um að bú hans væri undir gjaldþrotaskiptum. Því sé einnig mótmælt að stefnda hafi borið að gefa stefnanda sérstakt tækifæri til andmæla áður en hætt var við að ráða hann sem sveitarstjóra. Meðalhófsregla hafi ekki verið brotin. Framganga stefnanda og sú hegðun sem hann sýndi gerði það að verkum að sveitarstjórn stefnda var ljóst að nauðsynlegur trúnaður gæti ekki ríkt milli aðila. Það var því sjálfhætt við og dómstólar eiga ekki úrskurðarvald um það mat stjórnvaldsins.
Stefndi telur að almennar stjórnsýslureglur, eins og þær sem stefnandi vísar til í málsástæðum sínum, eigi auk þess ekki við um ráðningarferli eins og það sem fór af stað milli stefnanda og stefnda heldur eigi þær fyrst og fremst við um samskipti íbúa við stjórnvöld. Þær reglur sem fyrst og fremst eiga við á því sviði, sem í þessu máli er fjallað um, eru reglur samningaréttar og vinnuréttar. Hann mótmælir því að frétt skapi stefnanda nokkurn lagalegan rétt eða geti verið grundvöllur krafna hans á hendur stefnda. Því sé mótmælt að umfjöllun fjölmiðla feli í sér sönnun um ráðningu sveitarstjóra. Slíkir ráðningarsamningar eru gerðir skriflega milli sveitarstjórnar og umsækjanda og það var ekki gert í þessu máli. Stefnandi vinnur ekki rétt á hendur stefnda á grundvelli frétta í fjölmiðlum. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á tjón, hve mikið það hafi verið, orsakatengsl eða að meint tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af því að stefndi hætti við að ráða hann.
Stefndi bendir á að í málinu sé því haldið fram að gjaldþrotaskiptin hafi verið ákvörðunarástæða hjá stefnda um að ráða ekki stefnanda. Í málsástæðum er farið mikinn yfir þessu og þetta sagt hafa haft verulega neikvæð áhrif á hann andlega og framtíðarstarfsmöguleika hans. Þessu er mótmælt sem staðlausu og órökstuddu. Það liggur hins vegar fyrir að stefnda tókst að láta það ekki fara á flug í fjölmiðlum að stefnandi hafði leynt upplýsingum og reynt að blekkja sveitarstjórnarmenn með því að þegja um gjaldþrotaskipti á búi sínu. Gjaldþrotaskipti eru auglýst opinberlega og allir geta fengið upplýsingar um þau. Það sé augljóst að aðrir atvinnurekendur geta sótt þessar upplýsingar líkt og stefndi gerði. Stefndi beri enga ábyrgð á því ef aðrir hafa sótt þessar upplýsingar og dregið sínar ályktanir af þeim. Í málsástæðum stefnda er ekki byggt á því að samið hafi verið um fjögurra ára ráðningartíma. Þetta veikir fullyrðingu stefnanda um að búið hafi verið að semja um ráðningarkjörin og er staðfesting á því að honum hafi verið jafnljóst og stefnda að ekki hafði verið gerður neinn samningur um ráðningu eða ráðningarkjör.
Stefnandi byggir á því að hann hafi fengið upplýsingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að aðstæður hans hafi ekki verið í bága við skilyrði sveitarstjórnarlaga um ráðningu í starf sveitarstjóra. Því er mótmælt að þetta liggi fyrir í málinu þar sem þau samskipti, sem þar eru rakin, eru frá því í desember 2010, eða löngu eftir að hætt var við ráðningu. Þegar af þeirri ástæðu eiga þau gögn ekkert erindi inn í málið.
Þá mótmælir stefndi því sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi mætt á eitthvert námskeið 13. september 2010 sem fulltrúi fyrir stefnda eða að hann hafi haft nokkurt umboð til þess. Málsástæður stefnanda um þetta séu algerlega órökstuddar og er mótmælt að í þessu felist sönnun um að ráðningarsamband hafi verið komið á.
Loks mótmælir stefndi því sérstaklega að lögmannskostnaður stefnanda sé hluti af dómkröfu hans. Slíkur kostnaður eigi að vera hluti af málskostnaði.
Um varakröfu
Stefndi byggir varakröfu sína á eftirfarandi sjónarmiðum, auk þess sem að framan er rakið.
Stefnandi bendir á að stefnandi byggir kröfu sína um að miðað verði við fjögurra ára ráðningartíma á sveitarstjórnarlögum. Því er mótmælt að lögin veiti stefnanda nokkra tryggingu fyrir fjögurra ára ráðningartíma. Þótt þar sé gert ráð fyrir að alla jafnan sé ráðningartímabil hið sama og kjörtímabilið er einnig gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti skipt um sveitarstjóra á kjörtímabilinu. Lögin veita sveitarstjóra þess vegna enga tryggingu fyrir því að hann haldi starfi sínu út kjörtímabilið. Það er algengt og alkunna að sviptingar verða í meirihlutasamstarfi innan sveitarstjórna á kjörtímabili og oft er skipt um sveitarstjóra í kjölfar þess að nýr meirihluti tekur við. Stefnandi gerir kröfu um laun vegna fjögurra ára en þau ár eru enn ekki liðin og er bótakrafan því gerð inn í framtíðina. Stefnanda ber að takmarka tjón sitt með öllum þeim tekjum sem hann fær á því tímabili sem stefndi verður talinn bera ábyrgð á. Þessari framsetningu sé því mótmælt sérstaklega. Jafnvel þótt stefndi verði talinn bera ábyrgð á tjóninu, hefur það ekki verið staðfest. Í mesta lagi væri hægt að gera mismunakröfu fram að þeim tíma sem stefna var gefin út, en sú krafa er ekki gerð í málinu og verður því tæplega dæmd. Ekki er heldur gerð varakrafa um tiltekinn uppsagnartíma, t.d. þrjá mánuði, og slíkt tímabil því tæplega dæmt.
Einnig byggir stefnandi á því að launakjör hafi átt að hækka miðað við kjarasamninga hjá ASÍ. Ekkert liggur fyrir um þetta. Hefði stefnandi verið ráðinn sem sveitarstjóri er ekki augljóst að laun hans hefðu hækkað á ráðningartímabilinu né eftir hvaða kjarasamningi hefði verið farið. Þessi fullyrðing er algerlega órökstudd og henni er mótmælt sem bæði rangri og ósannaðri. Einnig byggir stefnandi á því að hann hafi átt rétt á 13,4% orlofi, 12% lífeyrissjóði og 2% viðbótarlífeyrissjóði. Þessu er mótmælt. Ekkert liggur fyrir um að um þetta hafi verið samið eða átt að semja. Það liggur heldur ekkert fyrir um það í málinu hvort stefnda hefði borið lagaskylda til að greiða stefnanda þetta hefði hann verið ráðinn sem sveitarstjóri. Af gögnum málsins má ráða að þær tekjur sem stefnandi hefur haft til þessa hafa ekki verið dregnar frá bótakröfunni. Með þessari framsetningu er ekki tekið tillit til þeirrar grundvallarreglu skaðabótaréttarins að tjónþola beri að takmarka tjón sitt. Það sé í raun verið að gera fulla bótakröfu, án tillits til þeirra tekna sem stefnandi hefur þegar haft. Ekki hafi verið sýnt fram á tjón, hve mikið það hafi verið, né heldur orsakatengsl milli þess að stefndi hætti við að ráða hann sem sveitarstjóra og tjónsins, eða að meint tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af því að stefndi hætti við að ráða hann.
Þá vísar stefnandi til þess að jafnvel þótt talið sé að ráðningarsamband hafi verið komið á hafi stefnda verið lögmætt að hætta við ráðningu, afturkalla fyrri ákvörðun sína, rifta samningnum. Vísað er til þess sem áður er rakið um lagaskilyrði 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga, sem stefnandi fullnægði ekki. Þar að auki mátti stefnanda vera ljóst að hann var að beita blekkingu þegar hann leyndi upplýsingum um að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Það að leyna upplýsingum, sem umsækjanda mátti vera ljóst að væru mikilvægar í ljósi aðstæðna, er ekki til þess fallið að skapa traust milli væntanlegs sveitarstjóra og sveitarstjórnarmanna. Stefnanda var sem sveitarstjóra ætlað að vera æðsti yfirmaður skrifstofu sveitarfélagsins og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. Honum var m.a. ætlað að vera ábyrgur fyrir stjórnun og eftirliti með fjármálum, bókhaldi og launavinnslu sveitarfélagsins og bera ábyrgð á innra eftirliti. Þegar af þessum ástæðum sé rétt og eðlilegt að gera ríkari kröfur til sveitarstjóra en til annarra starfsmanna hjá sveitarfélaginu. Að þegja um gjaldþrotaskiptin hafi verið rangt af stefnanda og í andstöðu við það sem sveitarstjórn mátti ætlast til af verðandi sveitarstjóra. Með því að leyna mikilsverðum upplýsingum brást stefnandi því trausti og þeim trúnaði sem ætlast mátti til að hann sýndi strax í ráðningarferlinu. Stefnandi mátti vita að sveitarstjórn mundi vilja vita um gjaldþrotaskiptin og þau gætu verið grundvallarforsenda fyrir afstöðu sveitarstjórnar til umsóknar hans um starfið. Með þögninni blekkti stefnandi sveitarstjórn. Ráðning hans undir þessum aðstæðum hefði verið ólögmæt og hefði auk þess valdið sveitarfélaginu álitshnekki og tjóni. Í ljósi þessa ákvað sveitarstjórn að hætta við fyrirhugaða ráðningu. Því er mótmælt að sú ákvörðun skapi sveitarfélaginu bótaábyrgð.
Loks telur stefndi að hann beri ekki ábyrgð á gjaldþrotaskiptum stefnanda eða á því að aðrir vinnuveitendur hafi ákveðið að ráða hann ekki í vinnu. Sú frásögn sem kemur fram í málsástæðum stefnanda sýnir að hugsanlega hafa margir aðrir atvinnurekendur talið gjaldþrotaskipti vera mikilvægt atriði þegar umsækjendur eru valdir til starfa. Stefndi beri enga ábyrgð á þeirri umfjöllun sem gjaldþrotaskipti stefnda hafa fengið eða fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar þess að hætt var við ráðningu hans. Stefnandi beri fyrst og fremst ábyrgð á því sjálfur að hafa ekki sagt frá gjaldþrotaskiptunum.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna samninga-, kröfu-, vinnu-, skaðabóta- og stjórnsýsluréttar, sérstaklega til réttar stjórnvalda til að taka ákvarðanir byggðar á eigin mati á aðstæðum og málsgögnum, um rétt og skyldu sveitarstjórnarmanna til að taka ákvarðanir í ljósi mikilvægra upplýsinga og um stofnun samninga. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum er ótvírætt að stefndi ber enga bótaskyldu gagnvart stefnanda. Þá er vísað til sveitarstjórnarlaga um starfsskilyrði sveitarstjóra. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, aðallega 1. mgr. 130. gr.
Forsendur og niðurstaða
Óumdeilt er að stefndi valdi stefnanda úr hópi umsækjenda um stöðu sveitarstjóra í Reykhólahrepp til að ganga til samninga við. Aðila greinir á um hvort samningur hafi komist á milli þeirra. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að komið hafi verið á ráðningarsamband milli stefnanda og stefnda sem aðallega hafi verið rift með ólögmætum hætti en til vara að um ólögmæta afturköllun hafi verið að ræða.
Stefndi vísaði til þess í bréfi sínu 16. september 2010, þegar hann lýsti því yfir að forsendur fyrir ráðningu stefnanda væru brostnar, að stefnandi hafi í engu látið þess getið að hann væri gjaldþrota og hafi leynt stefnda mikilvægum atriðum. Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að eina forsenda riftunar hafi verið sú að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 en ekki hafi verið lagaheimild fyrir þeirri ákvörðun stefnda þar sem stefnandi hafi verið fjár síns ráðandi þegar ákvörðunin var tekin og að með riftuninni hafi verið brotið gegn stjórnsýslu- og upplýsingalögum, m.a. lögmætisreglunni.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að almennar reglur samningaréttarins gildi um það hvenær samningur sé kominn á. Þegar honum hafi verið tilkynnt af þáverandi varaoddvita 8. september 2010 að ákvörðun hafi verið tekin af hreppsnefnd um að ráða hann sem sveitarstjóra hafi verið komið á ráðningarsamband. Aðila greinir hins vegar á um það hvort oddvitinn hafi boðið stefnanda starfið í símtali 8. september. Í skýrslu Andreu Björnsdóttur, sem þá var varaoddviti, kom fram að hún hafi hringt í stefnanda þennan dag. Honum hafi ekki verið boðið starfið heldur hafi einungis verið búið að ákveða að ganga til samninga við hann og leitað yrði eftir því hvort samkomulag næðist um kaup og kjör. Kæmist samningur á yrði að bera hann undir sveitarstjórn til samþykktar. Samkvæmt framlagðri fundargerð hreppsnefndar Reykhólahrepps frá 9. september 2010 var á þeim fundi fjallað um ráðningu sveitarstjóra og segir þar að ákveðið hafi verið að ganga til samninga við stefnanda um stöðu sveitarstjóra og að oddvita, Gústaf Jökli Ólafssyni, og varaoddvita, Andreu Björnsdóttur, væri falið að ganga frá samningum við hann. Málsaðilum ber saman um að stefnandi hafi 10. september 2010 fundað með oddvita og varaoddvita, vegna umsóknar stefnanda, þar sem rætt hafi verið um starfið og starfskjör. Engin formleg fundargerð var bókuð vegna þessa fundar. Stefnandi lagði fram ódagsett skjal sem bar yfirskriftina „Kjör sem samið var um“. Í skýrslu stefnanda við aðalmeðferð málsins staðfesti hann að hafa útbúið skjalið og sagði þetta vera lista yfir þau atriði sem farið hafi verið yfir á fundinum. Ljóst er af framburði stefnanda, Gústafs og Andreu að ætlunin var sú að þau yrðu eftir fundinn í frekari samskiptum í gegnum tölvupóst í því skyni að ganga frá skriflegum samningi. Óumdeilt er að skriflegur samningur hafði ekki verið gerður þegar stefndi breytti afstöðu sinni. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins tók Andrea undir það með stefnanda að rætt hafi verið um að ráðningartímabilið yrði kjörtímabilið og einnig hafi verið rætt um laun og íbúð og eftir fundinn hafi þau skoðað litla íbúð á Hellisbraut. Hún kvaðst ekki muna hvort önnur þau atriði sem stefnandi tilgreinir á skjalinu hafi verið rædd á fundinum. Þá sagði hún að tilgangur fundarins hafi verið sá að athuga hvort hægt væri að semja. Þá kom fram hjá henni að samningar sem þessir væru ávallt gerðir með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar og að henni og oddvita hafi ekki verið falið að gera samninginn.
Samkvæmt 51. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga var það sveitarstjórn sem réð framkvæmdastjóra og samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laganna átti hún að gera skriflegan ráðningarsamning við hann þar sem starfskjör hans væru ákveðin. Í 3. mgr. ákvæðisins var sérstaklega tilgreint að tekið skuli fram í samningi hvort ráðningin miðist við kjörtímabil sveitastjórnar. Með hliðsjón af málsatvikum verður orðalag fundargerðarinnar frá 9. september 2010 „að ganga til samninga“ ekki skilið öðruvísi en svo að ákveðið hafi verið að fara í samningaviðræður við stefnanda um starfskjör en einnig má af því ráða að ætlunin hafi verið að gera skriflegan samning. Eins og rakið hefur verið kemur fram í 51. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga að sveitastjórn geri ráðningarsamninga við sveitarstjóra. Það hafi því ekki verið á valdi oddvita og varaoddvita að klára samning við stefnanda heldur hafi þurft samþykki sveitarstjórnar á formlegum fundi.
Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi lagði fram tölvupóst frá One System þar sem fram kemur að hann hafi farið á um tveggja tíma fund, kynningu eða námskeið hjá fyrirtækinu 13. september 2010 vegna tölvukerfis. Þetta staðfesti Hrafnkell Erlendsson starfsmaður fyrirtækisins fyrir dómi. Andrea greindi frá því í skýrslu sinni að námskeiðið væri sjaldan haldið og því hafi þurft að nýta tækifærið og senda væntanlegan sveitarstjóra á það. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að sú staðreynd að stefnandi mætti á fund eða námskeið vegna tölvukerfis sem notað er hjá stefnda staðfesti að samkomulag hafi legið fyrir. Verður því þátttöku stefnanda á námskeiðinu ekki jafnað við það að hann hafi hafið störf fyrir stefnda.
Loks byggir stefnandi á því að ráðningin hafi verið tilkynnt í vefmiðlum, m.a. á Reykhólavefnum, reykholar.is, 10. september 2010, en vefurinn er rekinn af hálfu stefnda. Í skýrslu Hlyns Þórs Magnússonar, umsjónarmanns með vefnum, kom fram að hann mundi ekki hver hefði veitt honum þær upplýsingar að búið væri að ráða stefnanda og taldi að þær gætu eins hafa komið frá stefnanda og hreppsnefndarmönnum. Þá sagði hann að það gæti hafa verið bráðræði í honum sem olli því að hann birti fréttina á þessum tíma. Framangreindir aðilar könnuðust ekki við það í skýrslum sínum að hafa sagt Hlyni að búið væri að ráða stefnanda. Í skýrslum Hlyns, Andreu og Gústafs Jökuls kom fram að Hlynur hafi alfarið ákveðið hvaða fréttir væru settar á vefinn og hafði sveitarstjórn engin afskipti af því. Ekki verður talið að fréttaumfjöllun um ráðningu stefnda á Reykhólavefnum eða öðrum fjölmiðlum verði rakin til stefnda og er því hafnað þeirri málsástæðu að birting fréttarinnar styðji það að samningur hafi verið kominn á milli aðila.
Sönnunarbyrði um að samningur hafi verið kominn á milli aðila hvílir á stefnanda. Hann hefur ekki sýnt fram á að samkomulag hafi verið komið á um starfskjör heldur einungis að samningaviðræður hafi farið fram. Þá verður að líta til þess að bæði í skýrslu Andreu og stefnanda kom fram að í símtali sunnudaginn 12. september 2010 hafi Andrea veitt stefnanda tækifæri á að draga umsókn sína til baka. Af þessu og bréfi stefnda frá 16. september 2010 má ráða að stefndi hafi ekki litið svo á að búið væri að ráða stefnanda í starfið. Af orðalag fundargerðarinnar frá 9. september 2010 má ráða að ætlunin hafi verið sú að fara í samningaviðræður við stefnanda og að með ákvörðun hreppsnefndar hafi því hafist ferli sem hefði geta leitt til ráðningar hans. Það verður hins vegar ekki túlkað svo að oddvita og varaoddvita hafi verið falið að klára samning við stefnanda. Einnig er til þess að líta að bæði stefnandi, Andrea og Gústaf litu þannig á að í kjölfar fundarins yrði gerður skriflegur samningur sem færi á milli þeirra í tölvupósti. Við úrlausn málsins verður ekki einungis litið til almennra reglna samningaréttarins um skuldbindingargildi munnlegra samninga heldur verður einnig að líta til þeirra lagareglna sem sérstaklega fjölluðu um ráðningu sveitarstjóra. Gildi samningsins var háð því að sveitarstjórn samþykkti hann á formlegum fundi, sbr. 51. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga. Getur stefnandi ekki byggt rétt sinn til starfsins á öðru en samningi við þann aðila sem hafði vald til að ráða hann, þ.e. sveitarstjórn og þá á skriflegum samningi, sbr. 2. mgr. 54. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga. Er því ljóst að endanlegur samningur hefði ekki getað komist á einungis með aðkomu oddvita og varaoddvita. Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að ráðningasamband hafi verið kominn á milli aðila eins og kröfugerð stefnanda byggist á. Eftir framangreindri niðurstöðu kemur ekki til skoðunar hvort um ólögmæta riftun eða afturköllun hafi verið að ræða. Eftir þessu og eins og málatilbúnaður stefnanda er upp byggður kemur ekki til skoðunar hvort stefndi hafi brotið gegn stjórnsýslu- og upplýsingalögum. Er stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Að öllu virtu þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af málinu.
Innanríkisráðherra veitti stefnanda gjafsókn með bréf 26. september 2012 og greiðist allur málskostnaður hans, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Jónasar Arnar Jónassonar hdl. 1.450.000 krónur, úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Örn Jónasson hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Tryggvi Guðmundsson hdl.
Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari málsins töldu að ekki væri þörf á því að málið yrði flutt að nýju.
Dómari málsins tók við málinu 2. september 2013 en hafði fram að þeim tíma ekki haft nein afskipti af meðferð þess.
Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Reykhólahreppur, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Gylfa Þórs Þórissonar.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jónasar Arnar Jónassonar hdl., 1.450.000 krónur.