Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-171
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Fjárslit milli hjóna
- Opinber skipti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 16. júní 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í málinu nr. 230/2020: A gegn B, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli leyfisbeiðanda og gagnaðila vegna hjónaskilnaðar. Sá ágreiningur snýr aðallega að því hvort við skiptin skuli beita helmingaskiptareglu samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eða skáskiptareglu samkvæmt 1. mgr. 104. gr. sömu laga. Byggir leyfisbeiðandi á því að skilyrði séu fyrir hendi að víkja frá helmingaskiptum meðal annars þar sem hún hafi flutt mun meiri verðmæti í búið með erfðafé sínu heldur en gagnaðili. Héraðsdómur taldi ekki unnt að fallast á með leyfisbeiðanda að það væri bersýnilega ósanngjarnt í hennar garð að viðhafa helmingaskipti samkvæmt meginreglu hjúskaparlaga, sbr. 103. gr. laganna. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Í úrskurði Landsréttar kom fram að hjúskapur aðila teldist ekki skammvinnur og af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að fjárhagsleg samstaða hefði verið með aðilum á hjúskapartímanum.
Leyfisbeiðandi byggir á því að sá hluti kæruefnisins er varðar kröfu hennar um skáskipti samkvæmt 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga hafi verulegt fordæmisgildi. Þá telur leyfisbeiðandi hluta af niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar bersýnilega ranga að efni til. Þannig hafi mat þeirra á framlögðum gögnum og málatilbúnaði ekki verið réttur, bæði hvað varðar kröfu leyfisbeiðanda um skáskipti samkvæmt fyrrnefndu ákvæði hjúskaparlaga og þeirri niðurstöðu að ekki skyldi taka til greina kröfu um að leyfisbeiðandi hefði verið í skuld við móður sína vegna fasteignakaupa við viðmiðunardag skipta.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um kæruleyfi því hafnað.