Hæstiréttur íslands
Mál nr. 299/2009
Lykilorð
- Líkamstjón
- Sjómaður
- Slysatrygging
- Örorka
- Miski
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 2010. |
|
Nr. 299/2009. |
Gylfi Sigurðsson (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Líkamstjón. Sjómenn. Slysatrygging. Örorka. Miski. Uppgjör.
G varð fyrir slysi í mars 2004 við vinnu um borð í fiskiskipi og tók slysatrygging hjá T til tjónsins. G fékk greiddar bætur frá T í ágúst 2005 sem hann tók við án fyrirvara. G höfðaði mál 31. mars 2008 og krafði T um bætur meðal annars vegna aukins varanlegs miska og aukningar varanlegrar örorku. Ekki þóttu efni til að verða við aðalkröfu G fyrir Hæstarétti um ómerkingu héraðsdóms vegna vanhæfis meðdómsmanns. Líkamstjón G var metið þrívegis í tengslum við kröfu hans um greiðslu úr slysatryggingu hjá T, auk þess sem fyrir lá mat á læknisfræðilegri örorku hans vegna bóta úr almannatryggingum sökum vinnuslyssins. Ekki var talið að byggt yrði á örorkumati frá 5. desember 2007, sem G hafði aflað einhliða, þar sem umfang líkamstjónsins var metið meira en í öðrum mötum. Þá varð ekki ráðið af samanburði á álitsgerð örorkunefndar við örorkumat, sem uppgjörið í ágúst 2005 studdist við, að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu á þessu þriggja ára tímabili orðið á heilsufari G. Í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar þótti ekki unnt að líta svo á að varanlegur miski og varanleg örorka G samkvæmt álitsgerð örorkunefndar væru í skilningi 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verulega hærri en lagt hafði verið til grundvallar við greiðslu bóta. Var T því sýkn af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. mars 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 6. maí 2009 og var áfrýjað öðru sinni 3. júní sama ár. Áfrýjandi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.572.843 krónur, en að því frágengnu 1.650.000 krónur, með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2004 til 7. janúar 2008 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins varð áfrýjandi fyrir slysi 4. mars 2004 við vinnu um borð í fiskiskipinu Flatey ÞH 383, sem Íshaf ehf. mun þá hafa gert út, en það félag hafði keypt hjá stefnda slysatryggingu, sem óumdeilt er að taki til tjóns af orsökum sem þessum. Í vottorði frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 22. september 2004 kemur meðal annars fram að áfrýjandi hafi leitað þangað á slysdegi og er atvikum þar lýst á eftirfarandi hátt: „Skipverji á rækjutogaranum Flatey, sem hafði nýverið sett á sig öryggishjálm, er vír slengdist af miklu afli í höfuðið á honum, lenti á hjálminum, sem tók af honum mesta höggið, en högg hefur komið á hægri augabrún og á gleraugu, sem hann var með. ... Hann rotaðist ekki og kennir sér ekki annars meins en frá sárunum í andlitinu. Búið var um sárin um borð, en togarinn var á heimleið með fullfermi. Var kominn í land rúmum fjórum tímum eftir slysið. ... Sárin voru hreinsuð og deyfð og aðeins snyrt. Augabrúnasárið var saumað ... en sárinu á nefinu var lokað ... Við eftirlit þann 7. mars lýsti maðurinn tvísýni, einkum þegar hann horfði beint fram. Útlínur stundum bjagaðar og sjón óskýr með hægra auga. Lýst blæðingu undir conjunctiva hægra augans, glóðarauga. Sjónsvið á hægra auga er nokkuð skert. Samdægurs vísað til Margrétar Loftsdóttur, augnlæknis. Fram kemur í lýsingu hennar að Gylfi hafi ættgengan augnbotnasjúkdóm: Atrophia areata. ... Tvísýni e.t.v. vegna bólgu og þrota í kringum augað, en ekkert sem gert er að sinni. Bíðum og sjáum til, þetta ætti að lagast af sjálfu sér.“ Fyrir liggur að áfrýjandi leitaði síðan til annars augnlæknis, sem í vottorði 20. nóvember 2004 greindi frá því að áfrýjanda hafi strax eftir slysið fundist sjón minnka mikið á hægra auga, en koma þó í kjölfarið að einhverju leyti hægt til baka. Nokkrum mánuðum síðar hafi honum á hinn bóginn fundist sjónin ekki hafa batnað sem skyldi og minnkað á hægra auga. Í vottorðinu var greint frá niðurstöðum mælinga á sjón og augum áfrýjanda og komist að svofelldri niðurstöðu: „Það er hugsanlegt að við höggið hafi komið bjúgur í sjónhimnu eða lítil choroidea ruptura. Teknar eru augnbotnamyndir til staðfestingar og einnig sjónsvið sem sýnir stækkaðan blindan blett á báðum augum þó meira á hæ. auganu.“
Málsaðilarnir leituðu sameiginlega 11. mars 2005 eftir örorkumati Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns og Leifs N. Dungal sérfræðings í heimilislækningum. Í mati þeirra 8. ágúst sama ár var meðal annars lýst efni fyrirliggjandi læknisvottorða og tekið fram að í niðurlagi vottorðs frá síðastnefndum augnlækni hafi ekki verið getið um horfur, en áfrýjandi hafi greint frá því að læknirinn hefði varað sig við að sjón gæti með tímanum jafnvel tapast á hægra auga. Því var lýst að áfrýjandi hafi kvartað undan nánar tilteknum óþægindum frá þessu auga, sem færu heldur versnandi, auk þess sem hann hafi sagst fá höfuðverki af og til. Í örorkumatinu var talið að þessir verkir gætu verið afleiðing þess þunga höggs, sem áfrýjandi fékk í höfuðið, og til þess mætti einnig að verulegu leyti rekja versnandi sjón hans. Ættgengur hrörnunarsjúkdómur í augnbotnum, sem áfrýjandi ætti við að etja, myndi smám saman hafa leitt til þess sama, en höfuðhöggið „flýtt mjög fyrir þessum sjúkdómsgangi.“ Á þessum grunni var varanlegur miski áfrýjanda talinn 10 stig og varanleg örorka 10%, en að auki var hann talinn hafa verið tímabundið óvinnufær vegna slyssins í 15 daga og eiga rétt til bóta fyrir þjáningar án rúmlegu í tvo mánuði. Aðilarnir gengu til uppgjörs 31. ágúst 2005, sem reist var á þessu örorkumati. Fékk áfrýjandi greiddar frá stefnda samtals 3.626.614 krónur í bætur þegar frá höfðu verið dregnar 750.000 krónur vegna áætlaðra greiðslna til hans úr almannatryggingum og lífeyrissjóði, en að auki greiddi stefndi nánar tiltekna fjárhæð í vexti og innheimtukostnað. Við þessu tók áfrýjandi án fyrirvara.
Á vegum Tryggingastofnunar ríkisins var áfrýjanda 21. september 2005 metin 15% varanleg læknisfræðileg örorka sökum tvísýni og annarra sjóntruflana, sem hann taldist hafa hlotið af slysinu. Vegna þessa fékk hann greiddar úr almannatryggingum 29. sama mánaðar 548.567 krónur, en eftir gögnum málsins hefur hann hvorki notið frekari greiðslna þaðan né úr lífeyrissjóði af þessu tilefni.
Í vottorði Guðmundar Viggóssonar augnlæknis 6. október 2006, sem gert var á grundvelli skoðunar hans á áfrýjanda 7. september sama ár, var staðfest að sjónskerðing á hægra auga væri honum til talsverðra óþæginda í daglegu lífi og störfum. Þar sagði jafnframt eftirfarandi: „Þá er ekki ósennilegt að til frekari versnunar á sjónskerpunni komi í náinni framtíð, þar sem hrörnunin er þegar komin ofan í lespunktinn á hægra auga. Gæti sjónskerpan á auganu því hæglega versnað niður undir lögblindumörk (10%) á næstu árum.“
Með bréfi 21. september 2007 leitaði áfrýjandi eftir mati Björns Daníelssonar héraðsdómslögmanns og Stefáns Dalberg sérfræðings í bæklunarskurðlækningum á varanlegum miska og varanlegri örorku, sem hann hafi hlotið af slysinu, auk þess sem sérstaklega var óskað eftir áliti á því hvort og þá hvernig heilsa hans hafi versnað frá því í ágúst 2005 og af hvaða ástæðum. Stefndi átti ekki hlut að öflun þessa nýja örorkumats, sem lokið var 5. desember 2007. Í því var meðal annars sagt frá einkennum, sem áfrýjandi hafi lýst og teldi af völdum slyssins, en þau færu að hans mati versnandi. Getið var einstakra atriða, sem vörðuðu sjón áfrýjanda á hægra auga, auk tvísýni og annarra sjóntruflana, en þetta væri „aðalvandamál hans“. Einnig var greint frá því að áfrýjandi segðist vera daglega með slæma höfuðverki, aðallega í hnakka, enni og hægra megin í höfðinu, ásamt skertri hreyfigetu og verkjum í hálsi, sem leiði út í herðar, hægri öxl og höfuð. Í niðurstöðum örorkumatsins var talið að miða yrði við að einkenni áfrýjanda frá hægra auga og höfuðverkir stafi af slysinu, en svo væri á hinn bóginn ekki um einkenni frá hálsi, enda hafi þeirra ekki verið getið í eldri læknisfræðilegum gögnum en frá árinu 2006. Þótt áfrýjandi hafi gengið með augnsjúkdóm gætti orðið einkenna í hægra auga hans, sem annaðhvort hefðu aldrei komið fram eða síðar á lífsleiðinni ef slysið hefði ekki borið að höndum. Einnig var vísað til fyrrnefnds vottorðs augnlæknis frá 6. október 2006 um hvernig sjón á auganu gæti versnað á næstu árum. Að þessu gættu var varanlegur miski áfrýjanda af slysinu talinn 20 stig, en varanleg örorka 30%. Að því er varðar spurningu um hvort heilsa áfrýjanda hafi versnað frá fyrra örorkumati var tekið fram að svo væri vegna frekari einkenna frá hægra auga ásamt líkindum fyrir að þau gætu enn versnað, en jafnframt gætti aukinna höfuðverkja hjá honum.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 31. mars 2008 og krafðist þess í héraðsdómsstefnu að stefnda yrði gert að greiða sér 6.895.701 krónu, en þá kröfu, sem sögð var studd í meginatriðum við síðastnefnt örorkumat, sundurliðaði hann þannig að 673.600 krónur væru vegna varanlegs miska, sem aukist hafi um 10 stig frá tjónsuppgjöri 31. ágúst 2005, 4.383.501 króna vegna aukningar varanlegrar örorku um 20%, 415.000 krónur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar og 750.000 krónur vegna greiðslna úr almannatryggingum, sem ranglega hafi verið dregnar frá bótum í uppgjörinu. Áður en málið var höfðað hafði stefndi tilkynnt áfrýjanda 28. desember 2007 að hann hygðist ekki una við örorkumatið frá 5. sama mánaðar og myndi því bera það undir örorkunefnd samkvæmt heimild í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Örorkunefnd, sem skipuð var Sveini Sveinssyni hæstaréttarlögmanni og læknunum Birni Zoëga og Brynjólfi Mogensen, lauk 14. ágúst 2008 álitsgerð um líkamstjón áfrýjanda af völdum slyssins. Í niðurstöðum hennar var meðal annars vísað til þess að augnlæknar, sem áfrýjandi hafi leitað til, teldu mestar líkur á að breytingar á sjón á hægra auga hans yrðu raktar til slyssins, en ekki einungis hrörnunar vegna ættgengs sjúkdóms. Nefndin teldi því að meginhluti versnandi sjónar áfrýjanda og truflana, sem hún hafi leitt til í daglegu lífi hans, væri afleiðing slyssins. Hann hafi einnig hlotið tognun á hálsi, en hún virtist þó vera frekar væg. Á þessum grunni var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski áfrýjanda af slysinu væri 15 stig og varanleg örorka hans 15%, en um það síðastnefnda var meðal annars tekið fram að nefndin teldi hann áfram geta stundað þau störf, sem hann sinnti þá, en vegna slyssins hafi þó dregið úr kostum hans á að afla sér atvinnutekna í framtíðinni.
Við aðalmeðferð málsins í héraði breytti áfrýjandi kröfugerð sinni á þann hátt að hann krafðist þess að stefnda yrði aðallega gert að greiða sér 7.572.843 krónur, en til vara 1.650.191 krónu. Aðalkröfuna studdi áfrýjandi sem fyrr við örorkumat Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg og sundurliðaði hana þannig að 673.600 krónur væru vegna hækkunar varanlegs miska úr 10 stigum í 20 og 7.447.810 krónur vegna varanlegrar örorku, sem hafi hækkað úr 10% í 30%, en til frádráttar kæmu 548.567 krónur, sem hann hafi fengið greiddar úr almannatryggingum. Varakrafan tók á hinn bóginn mið af niðurstöðum örorkunefndar og var sundurliðuð á þann hátt að 336.806 krónur væru vegna aukins varanlegs miska um 5 stig og 1.861.952 krónur vegna hækkunar varanlegrar örorku úr 10% í 15%, en áðurgreind fjárhæð var þar dregin frá vegna greiðslu úr almannatryggingum. Stefndi samþykkti að áfrýjandi fengi með aðalkröfunni komið að hækkun á dómkröfu í héraðsdómsstefnu og lýsti því jafnframt yfir að ekki væri ágreiningur um fjárhæð krafnanna. Varakröfur áfrýjanda fyrir Hæstarétti eru sundurliðaðar á sama hátt, en sú síðari er þó sem fyrr segir um greiðslu á 1.650.000 krónum úr hendi stefnda.
II
Áfrýjandi styður aðalkröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms einkum við þau rök að meðdómsmaðurinn Ríkharður Sigfússon bæklunarlæknir hafi verið vanhæfur til dómstarfa með því að í málinu reyni á sönnunargildi álitsgerðar um líkamstjón áfrýjanda frá örorkunefnd, sem samstarfsmenn meðdómsmannsins á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, Björn Zoëga og Brynjólfur Mogensen, hafi átt sæti í. Björn hafi að auki gefið skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, einn nefndarmanna í örorkunefnd, og verið á þeim tíma yfirmaður meðdómsmannsins sem „framkvæmdarstjóri“ sjúkrahússins, svo sem komist er að orði í greinargerð áfrýjanda fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hreyfði engum athugasemdum við hæfi meðdómsmannsins þegar málið var rekið fyrir héraðsdómi, þótt honum hafi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verið tilkynnt 16. september 2008 um hverjir myndu gegna þeim störfum og hann hafi að auki skorað á stefnda í þinghaldi 8. sama mánaðar að leiða meðal annarra Björn Zoëga fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Án tillits til þess verður að gæta að því að líkamstjón áfrýjanda snýr að engu leyti að verkum lækna við Landspítala háskólasjúkrahús. Fyrrnefndir tveir læknar gegndu störfum í örorkunefnd utan aðalstarfa sinna og átti hvorugur þar sæti vegna stöðu sinnar við sjúkrahúsið, heldur vegna sérþekkingar í læknisfræði. Eins er farið um starf Ríkharðs Sigfússonar sem meðdómsmanns. Auk þess verður ekki litið fram hjá því að samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi lagði fyrir Hæstarétt, gegndi Björn Zoëga stöðu framkvæmdastjóra lækninga við sjúkrahúsið þegar hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi 14. nóvember 2008, en var um leið staðgengill nafngreinds manns, sem þá var í starfi forstjóra. Áfrýjandi hefur hvorki rökstutt hvernig þessi störf Björns gætu varðað hagsmuni meðdómsmannsins né hverju niðurstaða þessa máls gæti skipt fyrir þann fyrrnefnda. Því hefur ekki verið hreyft að meðdómsmaðurinn hafi átt önnur tengsl við læknana tvo í örorkunefnd en að þeir starfi allir við sama fjölmenna vinnustaðinn. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að verða við aðalkröfu áfrýjanda á þessum grunni, en fyrir henni hefur hann heldur ekki fært önnur viðhlítandi rök.
III
Eins og að framan greinir hefur líkamstjón áfrýjanda verið metið þrívegis í tengslum við kröfu hans um greiðslu úr slysatryggingu hjá stefnda, auk þess sem fyrir liggur mat á læknisfræðilegri örorku hans vegna bóta úr almannatryggingum sökum vinnuslyssins 4. mars 2004. Af gögnum um þessi möt er ljóst að í öllum tilvikum hefur verið lagt til grundvallar að höfuðhögg, sem áfrýjandi hlaut við slysið, hafi leitt til þess annars vegar að sjón hans á hægra auga hafi versnað hraðar en henni hefði ella hrakað vegna ættgengs hrörnunarsjúkdóms í augnbotnum og hins vegar að hann hafi átt við þráláta höfuðverki að etja. Í álitsgerð örorkunefndar, gagnstætt öðrum þessum gögnum, var að auki vísað til þess að áfrýjandi hafi tognað á hálsi, en þess var getið að tognunin „virðist vera frekar væg“ og verður því að ætla að hún hafi ekki haft sjálfstæð áhrif á niðurstöðu um varanlegar afleiðingar slyssins fyrir heilsu hans. Í örorkumatinu frá 8. ágúst 2005, sem stuðst var við í uppgjöri bóta til áfrýjanda 31. sama mánaðar, var varanlegur miski hans talinn 10 stig og varanleg örorka 10%. Í mati 21. september 2005, sem gert var vegna bóta til áfrýjanda úr almannatryggingum, var hliðstæða varanlegs miska hans talin 15 stig. Í álitsgerð örorkunefndar 14. ágúst 2008 var varanlegur miski áfrýjanda talinn 15 stig og varanleg örorka 15%. Að því er varðar umfang líkamstjóns áfrýjanda sker örorkumatið frá 5. desember 2007 sig úr, en þar var sem áður segir talið að varanlegur miski áfrýjanda væri 20 stig og varanleg örorka 30%. Af greinargerð um það örorkumat og skýrslum Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg við aðalmeðferð málsins í héraði verður ekki annað ráðið en að sá munur, sem varð á niðurstöðum þeirra og annarra, stafi að nær öllu leyti af því að þeir einir hafi metið varanlegar afleiðingar slyssins á grundvelli þess, sem fram kom í fyrrnefndu vottorði augnlæknis frá 6. október 2006 um að sjón á hægra auga áfrýjanda gæti „versnað niður undir lögblindumörk ... á næstu árum.“ Um líkurnar fyrir slíkri þróun á sjón áfrýjanda liggur ekkert annað fyrir en þetta vottorð, sem aflað var fyrir nær hálfu fjórða ári síðan. Að því virtu er ófært gegn andmælum stefnda að leggja slíkar hugsanlegar framtíðarhorfur um heilsufar áfrýjanda til grundvallar mati á varanlegum afleiðingum slyssins og verður af þeim sökum ekki byggt á niðurstöðum örorkumatsins frá 5. desember 2007 við úrlausn málsins.
Af framansögðu leiðir að eftir stendur að taka afstöðu til þess hvort áfrýjandi geti krafið stefnda um frekari bætur úr slysatryggingu en greiddar voru samkvæmt uppgjöri 31. ágúst 2005 sökum þess að örorkunefnd hafi í álitsgerð 14. ágúst 2008 komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski hans væri 15 stig í stað 10 stiga, sem uppgjörið tók mið af, og varanleg örorka hans 15% í stað 10%. Af samanburði á þessari álitsgerð við örorkumatið, sem uppgjörið studdist við, verður ekki ráðið að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi á þessu þriggja ára tímabili orðið á heilsufari áfrýjanda. Í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóma 22. maí 2003, 4. desember 2003 og 18. september 2008 í málum nr. 514/2002, 199/2003 og 614/2007, er ekki unnt að líta svo á að varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda samkvæmt álitsgerð örorkunefndar sé í skilningi 11. gr. skaðabótalaga verulega hærri en lagt var til grundvallar við greiðslu bóta. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2008.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi og endurupptekið og flutt að nýju fyrr í dag, var höfðað fyrir dómþinginu af Gylfa Sigurðssyni, Sólvöllum 3, Húsavík, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 31. mars 2008.
Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær, að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 7.572.843 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2004 til 7. janúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess, að stefndu verði gert að greiða stefnanda 1.650.191 krónu krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefnda krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar, að skaðlausu úr hans hendi, en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi slasaðist hinn 4. mars 2004 við vinnu sína um borð í Flatey ÞH., sem er skip í eigu útgerðarinnar Íshafs hf., Ásgarðsvegi 2, Húsavík. Var skipið tryggt hjá stefndu.
Stefnandi kveðst hafa verið að hífa út toghlera sem lá á dekkinu. Þung keðja, sem fest hafi verið við hlerann hafi slegist í höfuð stefnanda. Stefnandi kveðst hafa fengið mikið högg á hægra auga og síðan misst meðvitund. Er hann hafi fengið meðvitund aftur hafi hann ekkert séð með hægra auganu fyrstu 3 til 4 klukkutímana. Sjónin hafi komið til baka næstu 2 vikurnar, en þó mjög bjöguð.
Í vottorði Ingimars S. Hjálmarssonar, læknis á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, dagsettu 22. september 2004, segir m.a. „Við eftirlit hinn 7. mars lýsti maðurinn tvísýni, einkum þegar hann horfði beint fram. Útlínur stundum bjagaðar og sjón óskýr með hægra auga. Lýsti blæðingu undir conjunctiva hægra augans, glóðarauga. Sjónsvið á hægra auga nokkuð skert.“
Stefnandi taldi sjón sína hafa versnað á hægra auga, en hann er með ættgengan augnbotnasjúkdóm. Leitaði stefnandi til augnlæknanna Margrétar Loftsdóttur og Maríu Soffíu Gottfreðsdóttur vegna þessa.
Með samkomulagi stefnda og þáverandi lögmanns stefnanda var ákveðið að fela Leifi Dungal, lækni, og Ingvari Sveinbjörnssyni, hrl. að meta afleiðingar slyssins. Er mat þeirra dagsett 8. ágúst 2005. Samkvæmt matinu var varanlegur miski stefnanda metinn 10% og varanleg örorka 10%. Í samantekt matsgerðarinnar kemur m.a. fram, að stefnandi sé með ættgengan augnbotnasjúkdóm, sem að hans sögn hafi þó engin veruleg áhrif haft á sjón hans hin síðari ár. Hafi hann notað sama gleraugnastyrkleika í fimmtán ár. Síðan segir:
„Í vinnuslysi 040304 var Gylfi við vinnu á dekki rækjutogarans Flateyjar ÞH-383 þegar þung keðja slóst í höfuð honum, en Gylfi var með öryggishjálm. Mikið högg kom ofan á hjálminn og sennilega á hægri augabrún sem og á nefsöðli. Gert var að sárum og þau saumuð. Í eftirliti þremur dögum síðar lýsti Gylfi tvísýni og bjöguðum útlínum. Honum var vísað til augnlæknis sem lýsti vægri blæðingu í sjónhimnu en taldi að tvísýni gæti verið vegna bólgu og þrota í kringum augað. Gylfi sá lítið sem ekkert með hægra auganu fyrstu tímana eftir slysið en sjónin lagaðist svo smám saman næstu vikurnar, þó talsvert bjöguð. Á næstu mánuðum á eftir fór sjónin svo aftur versnandi og hefur Gylfi verið í skoðun hjá augnlækni í Reykjavík, sem hefur sérhæft sig í augnbotnasjúkdómum. Sá augnlæknir telur hugsanlegt að höggið hafi valdið bjúgi í sjónhimnu eða lítilli rifu á choroidea. Í niðurlagi vottorðs er ekki getið um horfur en að sögn Gylfa hefur augnlæknirinn varað hann við að sjón geti jafnvel tapast á hægra auga þegar fram í sækir.
Gylfi kvartar um að eftir slysið hafi hann átt við ýmis óþægindi frá hægra auga að stríða, þessi óþægindi hafi heldur farið versnandi. Hann eigi erfitt með lestur, einnig með vinnu sína um borð, finni fyrir birtuóþoli en jafnframt geti hann lítið séð til í myrkri með hægra auga. Loks kvartar Gylfi um höfuðverki af og til.
Höfuðverkir geta verið afleiðing þess þunga höfuðhöggs sem Gylfi fékk og ljóst er að sú versnun á sjón sem Gylfi lýsir er að verulegu leyti tilkomin vegna afleiðinga vinnuslyssins 040304. Þannig megi ætla að ættgengur hrörnunarsjúkdómur í augnbotnum myndi hafa smám saman leitt til versnandi sjónar en að höggið hafi flýtt mjög fyrir þessum sjúkdómsgangi. Varanlegur miski er metinn vegna afleiðinga höfuðhöggs og versnunar á sjón og telst hæfilega metinn 10 stig.
Tímabundið atvinnutjón er metið samkvæmt framlögðu læknisvottorði og telst hafa verið frá slysdegi og fram til 190304.
Matsmenn telja að Gylfi hafi talist veikur í skilningi skaðabótalaga í tvo mánuði eftir þetta slys og miðast batahvörf við dagsetninguna 010504.
Við mat á varanlegri örorku er litið til þeirra einkenna sem að framan er lýst. Stuttur tími er liðinn frá slysi og verða því ekki dregnar neinar ályktanir af tekjusögu um áhrif slyssins á starfsgetu til lengri tíma litið. Gylfi hefur afar takmarkaða menntun en mikla starfsreynslu sem sjómaður og með 65 tonna skipstjórnarréttindi. Matsmenn telja líklegt að afleiðingar slyssins muni hafa truflandi áhrif á vinnu hvort sem miðað er við störf í landi eða á sjó. Afleiðingar slyssins eru ekki þess eðlis að mati matsmanna að hann verði að hætta á sjó. Nokkrum vandkvæðum er bundið að meta áhrif á starfsgetu til lengri tíma litið þar sem afleiðingar slyssins tengjast sjón á öðru auga auk höfuðverkja. Undirliggjandi er og augnsjúkdómur sem líklegt er að hefði áhrif á starfsgetu á efri árum. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með tilvísun til almennra sjónarmiða er varanleg örorka metin 10%.“
Hinn 31. ágúst 2005 tók þáverandi lögmaður stefnanda á móti bótagreiðslum fyrir hans hönd, án fyrirvara. Voru stefnanda greiddar 4.112.764 krónur úr ábyrgðartryggingu ms. Flateyjar ÞH 383.
Stuttu síðar var stefnandi metinn hjá Tryggingastofnun ríkisins af Halldóri Baldurssyni, aðstoðartryggingayfirlækni. Mat hann tvísýni stefnanda til 10% miska og sjóntruflanir til 5% miska, eða samanlagður miski 15%.
Stefnandi kveður að í ársbyrjun 2006 hafi afleiðingar slyssins farið versnandi. Kveðst hann hafa leitað sér lögmannsaðstoðar vegna þess. Hafi lögmaðurinn ráðlagt honum að leita til Marinós P. Hafstein, taugalæknis. Í vottorði læknisins, dagsettu 10. júlí 2006, segir, að höfuðáverkar stefnanda séu meiri en fram komi í þeim vottorðum sem aflað hafi verið fyrir matsgerð þeirra Leifs N. Dungal og Ingvars Sveinbjörnssonar frá 8. ágúst 2005. Í framhaldi af því leitaði stefnandi til Guðmundar Viggóssonar, augnlæknis. Í vottorði hans, dagsettu 6. október 2006, kemur fram að stefnandi hafi enn mikil einkenni, bæði almenn og staðbundin frá höfði og hálsi eftir slysið. Telur læknirinn að sjónskerðing á hægra auga stefnanda sé vegna slyssins, enda hafi sjónin versnað óeðlilega hratt á stuttum tíma úr 1,0 niður í 0,7-0,8 á nokkrum mánuðum. Rökin fyrir því, að það megi tengja slysinu telur hann vera eftirgreind: 1) að fljótlega eftir slysið hafi stefnandi upplifað bjögun á sjón hægra augans, sem bendi til skyndilegrar bjúgmyndunar, 2) að augnlæknir hafi séð smá-blæðingu við þann arm stjörnunnar sem legið hafi við lespunktinn, en það hvort tveggja bendi eindregið til skyndilegs viðbótar rofs á æðahimnu augans. Slíkar snöggar breytingar séu ekki hluti af náttúrulegum gangi sjúkdómsins. Telur læknirinn ekki ósennilegt að sjónskerpa augans eigi eftir að versna frekar í náinni framtíð, þar sem hrörnunin sé þegar komin ofan í lespunkt hægra auga. Gæti sjónskerpan á auganu því hæglega versnað niður undir lögblindumörk (10%) á næstu árum. Megi því segja að sjónskerðing nú sé vegna áhrifa umrædds slyss á meðfæddan sjúkdóm hans og hafi slysið umtalsvert flýtt fyrir náttúrulegum gangi sjúkdómsins, sem nemi fjölda ára.
Stefnandi fékk þá Björn Daníelsson, lögfræðing, og Stefán Dalberg, lækni, til að endurmeta örorku stefnanda á afleiðingum slyssins. Er matsgerð þeirra dagsett 5. desember 2007. Er niðurstaða þeirra, að stefnandi hafi hlotið 20 stiga miska vegna slyssins og 30% varanlega örorku.
Á grundvelli þessa mats krafði stefnandi stefndu, hinn 7. desember 2007, um bætur fyrir 10% miska og 20% varanlega örorku, í viðbót við það sem þegar hafði verið greitt.
Stefnda svaraði þessu bréfi stefnanda með símbréfi, dagsettu 28. desember 2007, og tilkynnti lögmanni stefnanda, að því mati yrði ekki unað, en óskað yrði eftir áliti örorkunefndar. Er álit hennar dagsett hinn 14. ágúst 2008. Segir þar m.a. að stefnandi hafi í áðurgreindu slysi fengið högg á höfuðið við störf sín um borð í togara. Tvennum sögum fari af því hvort hann hafi rotast eður ei, en a.m.k. hafi hann fengið högg á hægra augað þannig að gleraugu hafi brotnað og hann fengið skurð. Að sögn stefnanda hafi hann ekkert séð með auganu til að byrja með, en ekkert sé minnst á það fyrr en í skoðun á skurðunum þremur dögum eftir slysið. Hann hafi verið saumaður samdægurs og skoðaður af lækni. Við skoðun á skurðinum hinn 7. mars 2004, þ.e.a.s. þremur dögum eftir slysið, hafi komið í ljós tvísýni og vandamál með sjón á hægra auga. Stefnandi hafi þá verið sendur strax til augnlæknis á Akureyri og skoðaður þar vel og nákvæmlega. Einhver grunur hafi þá vaknað um að hann hafi hlotið einhverja áverka á sjónhimnu, en ekki hafi komið fram blæðing inn á forhólf eða gler. Talið hafi verið að tvísýni hans og sjóntruflanir væru afleiðing af högginu, enda hafi hann verið með glóðarauga um augað. Stefnandi sé með ættgengan hrörnunarsjúkdóm í augum, en að hans sögn og samkvæmt gögnum sem fyrir örorkunefnd hafi legið hafi sá sjúkdómur ekki haft áhrif á sjón hans í mörg ár þar á undan. Stefnandi hafi einnig farið að kenna sér meiri óþæginda frá hálsi, sem hrjái hann enn í dag við störf. Stefnandi starfi sem sjómaður, en við öðruvísi vinnu en áður og treysti sér ekki til sömu vinnu og áður, eða a.m.k. ekki samskonar, enda hafi fyrirtækið sem hann hafi starfað hjá orðið gjaldþrota. Eftir það hafi hann unnið við dagróðra og vinni enn. Við skoðun hafi komið í ljós eymsli á hálsi, sem gætu samræmst afleiðingum af hálstognun. Hann hafi einnig verið mældur með breytingu á sjón hægra megin frá því fyrir slysið.
Þá segir í álitinu, að þeir augnlæknar sem komið hafi að máli stefnanda telji langmestar líkur á því að sú breyting sem orðið hafi á sjóninni hægra megin sé afleiðing slyss þess sem hér um ræði, en ekki einungis hrörnunarbreytingar vegna ættgengs sjúkdóms.
Telur því örorkunefnd að meiripartur af versnandi sjón og þeim truflunum sem stefnandi verði fyrir í daglegu lífi vegna þessa megi rekja til slyssins. Einnig segir í samantekt örorkunefndar að stefnandi hafi hlotið tognun á hálsi, sem hann sé enn að berjast við í dag, þó svo sú tognun virðist frekar væg.
Stefnandi var óvinnufær frá 4. mars 2004 til 19. mars 2004. Örorkunefnd telur að eftir 4. júní 2004 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins hinn 4. mars 2004.
Örorkunefnd telur að miska og varanlega örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins vera hæfilega metna 15%, fimmtán af hundarði.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að þegar örorka hans hafi verið metin hinn 8. ágúst 2005, vegna slyssins, hafi ekki verið fyrirséð, að slíkar breytingar yrðu á heilsu stefnanda, sem raunin hafi orðið, sbr. framlagða matsgerð, dagsetta 3. desember 2007. Byggir stefnandi á því, að í hugtakinu heilsa sé átt við bæði miska og varanlega örorku. Þessu til grundvallar bendir stefnandi á að 11. gr. skaðabótalaga nefni breytingar á heilsu, þannig, að miski eða varanleg örorka sé verulega hærri, en áður hafi verið talið. Byggir stefnandi á því, að svo sé einmitt í hans tilviki, eins og fram komi í sérfræðimati Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg. Miðað við niðurstöðu mats þeirra sé um að ræða verulega hærri stig miska og örorkuprósentu en áður hafi verið miðað við. Þar með sé fullnægt skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993, fyrir endurupptöku málsins.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því, að lög nr. 50/1993 byggi á að mat á miska og varanlegri örorku gangi greiðlega fyrir sig og gert sé ráð fyrir því, að tjónþolar leiti til matslækna til mats m.a. á varanlegri örorku, sem fyrst eftir að áverkar þeirra komist í jafnvægi og ekki sé að vænta frekari bata. Tímabundinni örorku ljúki þegar ekki sé að vænta frekari bata, við svokallaðan stöðugleikapunkt. Á þeim tímapunkti ríði á, að niðurstaða fáist fljótlega um hver varanleg örorka sé, þar sem tjónþolar séu, frá þessum tímapunkti, án allra bóta og eigi oft erfitt uppdráttar, þar til endanleg niðurstaða fáist. Tryggingafélög greiði ekki tímabundnar örorkubætur lengur en eitt ár nema í sérstökum tilvikum. Tjónþolar verði og að treysta því, að möt matslækna séu traust og rétt grundvölluð. Er tjónþolar hafi fengið mat á örorku vegna slysa, sé ekki annað ráð til en byggja á viðkomandi mati, því mjög kostnaðarsamt og tímafrekt sé að biðja um viðbótarmat eða dómkvaðningu sérfróðra matsmanna enda þótt einhver vafi sé í huga viðkomandi tjónþola gagnvart fyrirliggjandi mati. Einnig verði það til þess, að tjónþoli verði án bóta í langan tíma. Við þessa stöðu tjónþola bætist síðan, að þeir séu oftar en ekki í erfiðri samningsstöðu við viðkomandi tryggingafélag. Allt þetta geri það að verkum að líta verði með sanngirni á mál, eins og þetta mál, þar sem í ljós hafi komið að miski og varanleg örorka sé verulega hærri en fram komi í því mati, sem fyrr hafi verið byggt á. Telur stefnandi mat þeirra Leifs og Ingvars vera hroðvirknislega unnið. Bendir stefnandi á því til stuðnings, að skömmu eftir að þeir hafi lokið mati sínu hafi hann verið metinn hjá Tryggingastofnun ríkisins til 5% hærri miska. Þá hafi Leifur Dungal starfað í fjölda ára fyrir hið stefnda félag sem verktaki og megi því draga hlutleysi hans í efa.
Einnig byggir stefnandi á því, verði ekki fallist á fyrrgreindar málsástæður hans, að í því felist þrenging á þeim reglum, sem áður hafi gilt í þessum efnum á grundvelli meginreglna kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur og sanngirnisrök varðandi endurupptöku skaðabótamála vegna líkamstjóna. Þar með brjóti 11. gr. skaðabótalaga gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, en Hæstiréttur hafi viðurkennt það í málum sínum að vinnugeta manna séu eignarréttindi, sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnandi byggir og á því, að höfnun hins stefnda félags á greiðslu viðbótarbóta fari gegn bótaverndarákvæðum þeirra alþjóðlegu samninga, sem Ísland hafi undirgengist. Byggir stefnandi á því, að ákvæði 11. gr. skaðabótalaga, eins og það sé túlkað af hinu stefnda félagi, sé óeðlileg tálmun tjónþola til réttmætra bóta.
Stefnandi hefur sundurliðaða endanlegar dómkröfu sína með eftirgreindum hætti:
|
1. Miskabætur: 6.736.136 x 10% |
kr. 673.600 |
|
2. Bætur fyrir varanlega örorku: 3.729.873 x 9,984 x 20% |
kr. 7.447.810 |
|
3. Bætur frá TR til frádráttar |
kr. 548.567 |
|
Samtals kröfur: |
kr. 7.572.843 |
Byggir stefnandi endanlega dómkröfu sína á því að samkvæmt sérfræðimati sé miski metinn 10 stigum hærri og varanleg örorka 20 stigum hærri en samkvæmt upphaflegu mati, sem greitt hafi verið eftir.
Stefnandi kveður kröfu sína um bætur fyrir miska vera grundvallaða á sérfræðimatinu og 4. gr. skaðabótalaga. Byggir stefnandi á 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga varðandi uppfærslu á höfuðstól miskabóta, eða 4.000.000 x 5.527/3282 = 6.736.136 krónur.
Krafa um bætur fyrir varanlega örorku sé byggð á launum stefnanda þrjú ár fyrir slys hækkuðum samkvæmt lánskjaravísitölu og við þau bætt 6% lífeyrisiðgjaldi. Kröfu þessari til grundvallar vísar stefnandi til 5. gr. skaðabótalaga, sem og til 6. og 7. greinar sömu laga. Þá vísar stefnandi til þess að líta verði þannig á að nýr stöðugleikapunktur sé í málinu við niðurstöðu sérfræðimatsins, en þá fyrst verði séð hverjar afleiðingar slyssins hafi í raun verið.
Bætur fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað, sé vegna lækniskostnaðar, sem stefnandi hafi haft af endurupptöku máls þessa og ferðakostnaðar hans til Reykjavíkur 4 sinnum til lækna. Matskostnaður sé 350.320 krónur. Læknisvottorð Guðmundar Viggóssonar sé 30.000 krónur og vottorð Marinós P. Hafstein 35.000 krónur. Ferðakostnaður og símkostnaður áætli stefnandi 60.000 krónur. Alls sé því krafa vegna fjártjóns og sjúkrakostnaðar 475.000 krónur. Krefst stefnandi þess, að litið verði til þessa kostnaðar hans við ákvörðun málskostnaðar.
Stefnandi kveður kostnað áður frádreginn af Tryggingastofnun ríkisins hafa verið 750.000 krónur, en hafi átt að vera 548.567 krónur. Stefnandi byggir á því, að kostnaður þessi komi til frádráttar kröfum hans.
Stefnandi hefur sundurliðaða endanlega varakröfu sína með eftirgreindum hætti:
|
Miskabætur 6.736.136 x 5% |
kr. 336.806 |
|
Bætur fyrir varanlega örorku 3.729.873 x 9,984 x 5% |
kr. 1.861.952 |
|
Bætur frá Tryggingastofnun til frádráttar |
kr. 548.567 |
|
Samtals |
kr. 1.650.191 |
Varakröfu sína rökstyður stefnandi á sömu lund og aðalkröfu, en miðar við álit örorkunefndar, þar sem hækkun á miskastigi var talinn 5 stig og hækkun á varanlegri örorku 5 stig.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna fjármunaréttarins og 72. gr. stjórnarskrárinnar.
IV
Stefnda hefur viðurkennt bótaskyldu, enda hafi félagið gert upp tjónið á grundvelli upphaflegrar matsgerðar, dagsettri 31. ágúst 2005.
Stefnda mótmælti niðurstöðu mats Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg. Í greinargerð áskildi stefnda sér rétt til að afla álits örorkunefndar, sem félagið og gerði undir rekstri málsins. Mótmælti stefnda því, að heimilt væri að endurupptaka uppgjör frá 31. ágúst 2005 með vísan til 11. gr. skaðabótalaga, þar sem skilyrðum hennar væri ekki fullnægt. Í þinghaldi hinn 8. september sl., er álit örorkunefndar lá fyrir, óskaði lögmaður stefndu eftir því að bókað yrði að hann teldi að í ljósi niðurstöðu álitsgerðar örorkunefndar væru ekki efni til að fallast á endurupptöku málsins.
Mál þetta snúist um greiðslur úr slysatryggingu sjómanna. Eins og kröfugerð stefnanda sé háttað þýði það, að bætur skuli ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga, sbr. grein 6.1 í skilmálunum. Það þýði að frádráttarreglur skaðabótalaga gildi um bótagreiðsluna og verði því að hafna sjónarmiðum stefnanda hvað það varði og mótmælti stefndi sjónarmiðum stefnanda hvað þetta varðaði. Þá mótmælti stefnda sjónarmiðum stefnanda um að 11. gr. skaðabótalaga brjóti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og sömuleiðis að afstaða stefndu brjóti gegn bótaverndarákvæðum alþjóðasamninga er Ísland kunni að hafa gengist undir, enda sé það órökstutt með öllu.
Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu eftir að stefnandi leiðrétti kröfur sínar í upphafi aðalmeðferðar, en hins vegar féllst stefnda á leiðréttingu vegna áætlaðs verðmætis greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins, sem í upphaflega uppgjörinu hafi verið ákveðið 750.000 krónur, en hafi reynst lægra, eða 548.567 krónur.
Stefnda mótmælir sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta, enda hafi fullnægjandi gagna til ákvörðunar bótafjárhæðar ekki verið aflað fyrr en álit örorkunefndar lá fyrir.
Stefnda mótmælir og málskostnaðarkröfu stefnanda, en stefnda telur að hér hafi mál verið höfðað að ófyrirsynju, án þess að gagnaöflun væri lokið og sjónarmið stefnanda um að málssókn hafi verið nauðsynleg til að rjúfa fyrningu séu stefndu óviðkomandi, þar sem stefnda hafi engin áhrif getað haft á það.
V
Eins og áður hefur komið fram varð stefnandi fyrir slysi við vinnu sína hinn 4. mars 2004. Er ekki ágreiningur um að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna þessa. Í samræmi við það greiddi stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., sem ábyrgðartryggjandi, stefnanda bætur vegna tjóns hans. Voru bætur greiddar hinn 31. ágúst 2005 á grundvelli örorkumats Leifs Dungal, læknis, og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., dagsettu 8. ágúst 2005. Samkvæmt þeirri matsgerð var varanleg örorka stefnanda metin 10% og varanlegur miski 10%. Þá var svokallaður stöðugleikapunktur ákveðinn 4. maí 2004, og eftir þann tíma hefði stefnandi ekki getað vænst frekari bata. Samkvæmt framlagðri tjónskvittun var þar tekið á móti greiðslu bóta vegna slyssins, sem fullnaðar- og lokagreiðslu.
Eftir þetta taldi stefnandi heilsu sinni hraka og afleiðingar slyssins hafa orðið meiri en lagt var til grundvallar við bótauppgjörið.
Í málinu liggja fyrir nýjar matsgerðir og vottorð lækna. Fékk stefnandi, án aðkomu stefnda, Björn Daníelsson lögfræðing og Stefán Dalberg, lækni, til að endurmeta örorkuna. Töldu þeir, að heilsa stefnanda hefði versnað frá því að hann fór í skoðun til fyrri matsmanna, hinn 22. apríl 2005, og fram til þess dags er þeir skoðuðu stefnanda, sem var 26. október 2007. Byggðu þeir það mat sitt á því, að einkenni frá hægra auga hefðu versnað en líka á auknum höfuðverk stefnanda. Töldu þeir, að umfang einkenna frá hægra auga væri meira en það hefði verið þegar fyrri matsfundur fór fram. Þá töldu þeir aukin líkindi fyrir versnandi einkennum í hægra auga í samræmi við áðurgreint læknisvottorð Guðmundar Viggóssonar, dagsett 6. október 2006, en þar komi fram, að ekki sé ósennilegt að sjónskerpa versni frekar í náinni framtíð, þar sem hrörnunin sé þegar komin ofan í lespunktinn á hægra auga og sjónskerpan geti hæglega versnað niður undir lögblindumörk á næstu árum. Töldu þeir varanlega örorku stefnanda rétt metna 30% og varanlegan miska 20%.
Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar, sem dagsett er 14. águst 2008, var varanleg örorka stefnanda vegna slyssins metin 15% og varanlegur miski 15%. Kemur þar fram, að við skoðun hafi komið í ljós eymsli á hálsi, sem gætu samræmst afleiðingum eftir hálstognun, en sú tognun sé frekar væg. Stefnandi hafi einnig verið mældur með breytingu á sjón hægra megin frá því fyrir slysið. Telji augnlæknar, sem komið hafi að máli stefnanda, langmestar líkur á því að sú breyting sem orðið hafi á sjóninni hægra megin sé afleiðing slyssins, en ekki einungis hrörnunarbreytingar vegna ættgengs sjúkdóms. Taldi örorkunefndin, að eftir 4. júní 2004 hefði stefnandi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins. Kom fram við aðalmeðferð málsins, að fyrrgreind hálstognun hefði ekki haft áhrif á mat á örorku.
Þegar litið er til læknisfræðilegra gagna, sem fyrir liggja í málinu, og skýrslna stefnanda og skýrslna lækna við aðalmeðferð málsins, er það álit hinna sérfróðu meðdómenda, að engin veruleg og ófyrirsjáanleg breyting hafi orðið á heilsufari stefnanda vegna afleiðinga slyssins frá því áðurnefnt bótauppgjör fór fram. Verður ekki ráðið af vottorðum augnlækna að veruleg breyting hafi orðið á sjónskerpu stefnanda frá því að matið, sem greitt var eftir, lá fyrir. Kemur það fram m.a. í vottorði augnlæknisins Margrétar Lofsdóttur, sem mældi sjón stefnanda á hægra auga tæplega 1,0 og 1,0 á vinstra auga, með gleraugum. Í vottorði Maríu Soffíu Gottfreðsdóttur augnlæknis, dagsettu 20. nóvember 2004, kemur fram, að við skoðun 17. ágúst 2004 sé sjón stefnanda með gleraugum 0,7 á hægra auga, en 1,0 á vinstra. Í vottorði Guðmundar Viggóssonar, augnlæknis, dagsettu 6. október 2006, mældist sjón stefnanda 0,7-0,8 á hægra auga. Sérfróðir meðdómendur telja, að bæði mat Leifs N. Dungal, læknis, og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., sem samkomulag varð um milli aðila að biðja um, sem og álit örorkunefndar, séu studd gildum rökum. Að vísu er 5% munur milli matanna á varanlegri örorku stefnanda sem og varanlegum miska, en að mati hinna dómkvöddu matsmanna sé það ekki vegna sjúkdómseinkenna, sem ekki hafi verið tekið tillit til í fyrra mati og við uppgjör aðila. Með vísan til þess sem fyrir liggur verður því ekki talið að ófyrirsjáanleg og veruleg breyting hafi orðið á heilsufari stefnanda frá því upphaflegt örorkumat fór fram.
Í 11. gr. skaðabótalaga er heimild til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði slíkrar endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að forsendur séu brostnar fyrir tjónsuppgjöri því, sem fram fór 31. ágúst 2004, en stefnandi naut við það lögmannsaðstoðar. Eru skilyrði 11. gr. skaðabótalaga því ekki uppfyllt og því ekki fallist á að efni séu til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorku stefnanda, enda var gengið til þess uppgjörs án nokkurs fyrirvara. Með því að komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að ekki hafi orðið veruleg breyting á heilsu stefnanda frá því að uppgjör vegna slyssins fór fram, verður ekki fallist á að uppgjörið hafi verið bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, að forsendur fyrir bótauppgjöri aðila séu brostnar þannig að efni séu til að víkja því til hliðar, eða að bótauppgjörið hafi verið brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá kemur ekki til skoðunar sú málsástæða stefnanda, að höfnun stefnda á greiðslu viðbótarbóta fari gegn bótaverndarákvæðum ótilgreindra alþjóðlegra samninga, sem Ísland hafi undirgengist, enda með öllu órökstutt af stefnanda.
Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt læknunum Friðberti Jónassyni og Ríkarði Sigfússyni.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf. er sýkn af kröfum stefnanda, Gylfa Sigurðssonar.
Málskostnaður fellur niður.