Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-123
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verkkaup
- Þóknun
- Samningssamband
- Fyrning
- Aðildarskortur
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 16. nóvember 2023 leitar Ísfélag hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. október sama ár í máli nr. 288/2022: Ísfélag hf. gegn Þorgeiri Pálssyni og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort gagnaðili eigi rétt á þóknun úr hendi leyfisbeiðanda vegna milligöngu á tímabilinu 4. júlí 2017 til 12. september sama ár í tengslum við möguleg kaup leyfisbeiðanda á aflaheimildum í hestamakríl af namibísku félagi.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á að gagnaðili ætti rétt til greiðslu þóknunar úr hendi leyfisbeiðanda að fjárhæð 2.976.000 krónur. Í dóminum var lagt til grundvallar að stofnast hefði til samningssambands milli aðila þótt út af hefði staðið að semja um þóknun. Landsréttur taldi jafnframt að krafa gagnaðila væri ekki fyrnd, hvorki í heild né að hluta, þar sem hann gat fyrst átt rétt til efnda við verklok en líta yrði á verkið sem eina heild. Þá byggði Landsréttur á því að gögn málsins styddu ekki að gagnaðili hefði unnið umrædd störf í þágu leyfisbeiðanda fyrir hönd nánar tiltekins félags. Um fjárhæð þóknunar leit Landsréttur til matsgerðar dómkvadds manns en jafnframt til þess að takmarkaðra gagna gætti í málinu um hversu miklum tíma gagnaðili varði í verkið. Hefði hann ekki fært fyrir því fullnægjandi rök að hann hefði varið meira en 20% af vinnutíma sínum í það eða að miða ætti við hærra viðmið en 800.000 krónur á mánuði.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því í fyrsta lagi að dómur Landsréttar sé haldinn formannmarka. Í stefnu hafi gagnaðili vísað til matsgerðar þar sem lagt hafi verið til grundvallar að miða skyldi við fasta mánaðarlega þóknun við hvern byrjaðan mánuð en í dóminum hafi verið lagt til grundvallar að gagnaðili hafi fyrst átt rétt til efnda við verklok. Þá hafi niðurstaða dómsins um aðildarskort að hluta verið byggð á röngum upplýsingum um hver væri rétthafi fjárkröfu málsins. Í öðru lagi sé dómur Landsréttar haldinn efnisannmarka. Annars vegar á grundvelli fyrrgreindra formannmarka sem haft hafi afgerandi áhrif á niðurstöðu málsins og hins vegar vegna forsendna dómsins um að það leiði af meginreglum kröfuréttar að gagnaðili hafi átt rétt til efnda við verklok. Þar vísar leyfisbeiðandi til þess að ekki var um að ræða árangurstengingu þóknunar heldur ráðgjafarvinnu meðan á verki stæði sem að jafnaði er talin standa í samhengi við þá vinnu sem unnin er hverju sinni. Að endingu byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi og almenna þýðingu um stofnunartíma kröfuréttinda vegna ráðgjafarvinnu og sérfræðiþjónustu, hvort aðilum sem reki starfsemi í nafni einkahlutafélags sé í sjálfsvald sett hvort þeir leggi til grundvallar að vinna sé unnin af þeim persónulega eða í nafni félags þeirra og loks um þóknun vegna miðlunarverkefna.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.