Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/2006
Lykilorð
- Dómsuppkvaðning
- Ómerking
|
|
Fimmtudaginn 21. september 2006. |
|
Nr. 271/2006. |
Reykjavíkurborg(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn GT verktökum ehf. (Marteinn Másson hrl. |
Dómsuppkvaðning. Ómerking.
Héraðsdómur var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju, þar sem ekki hafði verið fylgt fyrirmælum síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2006. Hann krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun kærunefndar útboðsmála um málskostnað samkvæmt úrskurði hennar í máli nr. 40/2004, sem upp var kveðinn 19. apríl 2005, en til vara að sá málskostnaður verði lækkaður. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var munnlega flutt og dómtekið í héraði 3. febrúar 2006. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 10. mars sama ár. Var þá liðinn fjögurra vikna frestur, sem mælt er fyrir um í 1. mgr 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og varð dómur því ekki felldur á málið að svo komnu án yfirlýsinga aðila um að þeir teldu óþarft að flytja það á ný. Þar sem slíkra yfirlýsinga var ekki aflað er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til málflutnings og uppsögu dóms að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.