Hæstiréttur íslands
Mál nr. 223/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Úrskurður
- Ómerking ákvörðunar héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 4. maí 2006. |
|
Nr. 223/2006. |
Ákæruvaldið(Júlíus Magnússon fulltrúi) gegn X (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Vitni. Úrskurður. Ómerking ákvörðunar héraðsdóms.
Héraðsdómari ákvað að heimila ákæruvaldinu að leiða tvö nafngreind vitni í máli sem höfðað hafði verið gegn X fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hæstiréttur felldi þessa ákvörðun úr gildi með vísan til þess að dómaranum hefði borið að kveða upp úrskurð í stað þess að taka ákvörðun, sbr. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Björk Hákonardóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 25. apríl 2006 um að heimila ákæruvaldinu að leiða tvö nafngreind vitni í máli þess á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kröfu sóknaraðila um vitnaleiðsluna verði hafnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Lögreglustjórinn í Keflavík gaf út ákæru í málinu á hendur varnaraðila 22. nóvember 2005 fyrir ætlað brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Með bréfi til héraðsdómara 18. apríl 2006 mótmælti varnaraðili því að sóknaraðili fengi að leiða tvö tilgreind vitni í málinu. Við aðalmeðferð 25. apríl 2006 krafðist sóknaraðili þess að honum yrði heimilað að leiða vitnin fyrir dóm. Varnaraðili mótmælti því og vísaði til áðurnefnds bréfs síns. Heimilaði héraðsdómur vitnaleiðsluna með hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt 2. mgr. 61. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 1. mgr. 134. gr. laganna, ber héraðsdómi að úrskurða ágreining um atriði sem varða vitni. Var ekki fært að taka afstöðu til ágreinings aðila með ákvörðun, heldur bar að kveða upp úrskurð samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 19/1991 um ágreiningsefnið. Verður því ekki komist hjá því að fella ákvörðun héraðsdóms úr gildi og leggja fyrir hann að kveða upp úrskurð um ágreining málsaðila.
Það athugist að rétt hefði verið að héraðsdómur tæki afstöðu til ágreinings aðila áður en til aðalflutnings málsins kom.
Dómsorð:
Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.