Hæstiréttur íslands

Mál nr. 159/1999


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Ökuréttur
  • Neyðarréttur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 21. október 1999.

Nr. 159/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Steingrími Njálssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Ölvunarakstur. Ökuréttur. Neyðarréttur.

S var ákærður fyrir að hafa þrívegis ekið undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda. Ekki var fallist á að honum hefði verið nauðugur kostur að aka í eitt skiptið vegna aðsúgs, sem gerður var að honum, enda hafi honum verið önnur úrræði tæk. Var niðurstaða héraðsdóms um ævilanga ökuréttarsviptingu og fangelsisvist staðfest en S átti að baki langan sakarferil og hafði m.a. sautján sinnum hlotið refsingu fyrir ölvun við akstur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt fyrsta lið ákæru, en að öðru leyti vægustu refsingar, sem lög leyfa.

Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir að hafa ekið bifreiðinni K 3425 þrisvar sinnum undir áhrifum áfengis og án ökuréttar, fyrst 15. október 1998 og síðan tvívegis 31. sama mánaðar. Með dómi Hæstaréttar, sem er birtur í dómasafni 1994 bls. 2686, var ákærði sviptur ökurétti í fjögur ár og sex mánuði frá 23. mars á því ári að telja. Tímabilinu, sem ákærði var sviptur ökurétti, var því lokið við akstur hans 15. október 1998. Fyrir liggur að ákærði hafði á þeim tíma undir höndum ökuskírteini, sem bar með sér að það væri í gildi. Hann var í kjölfarið sviptur ökurétti til bráðabirgða með ákvörðun sýslumannsins á Hvolsvelli 19. desember 1998. Af hálfu ákæruvalds hefur gegn þessu ekki verið rökstutt nægilega að ákærði hafi í reynd verið án ökuréttar þegar sviptingartímanum samkvæmt fyrrnefndum dómi lauk. Eru því ekki efni til að sakfella ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á þá málsvörn ákærða að aksturinn 15. október 1998 hafi verið honum refsilaus vegna þeirra atvika, sem þar greinir nánar, samkvæmt 2. mgr. 12. gr. eða 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir öll brotin, sem honum eru gefin að sök. Hins vegar verður að líta til ákvæðis 6. töluliðar 1. mgr. 74. gr. sömu laga við ákvörðun refsingar fyrir brot ákærða 15. október 1998.

Í héraðsdómi er réttilega greint frá fyrri tilvikum, þar sem ákærða hefur verið gerð refsing fyrir ölvunarakstur. Að því gættu ásamt framangreindu er refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, sem verður því staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Steingrímur Njálsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. mars 1999.

I.

Mál þetta, sem var þingfest hinn 9. febrúar síðastliðinn en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 1. þessa mánaðar, var höfðað með svofelldri ákæru Sýslumanns á Hvolsvelli, dagsettri 7. janúar síðastliðinn á hendur Steingrími Njálssyni, kt. 210442-3679, Akurhóli, Rangárvallahreppi, „fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

I. Með því að hafa að kveldi fimmtudagsins 15. október 1998, ekið bifreiðinni K-3425 undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda, frá Hvolsvelli vestur Suðurlandsveg þar til bifreiðin var stöðvuð af lögreglu vestan við Hróarslæk á Rangárvöllum.

II. Með því að hafa að morgni laugardagsins 31. október 1998 ekið bifreiðinni K-3425 undir áhrifum áfengis, án ökuréttinda, á Sæbraut í Reykjavík, þar til bifreiðin var stöðvuð af lögreglu stutt frá gatnamótum við Dalbraut.

III. Með því að hafa síðdegis laugardaginn 31. október 1998 ekið bifreiðinni K-3425 undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda, austur Austurveg á Selfossi þar til bifreiðin var stöðvuð af lögreglu við Rauðholt.

Teljast ofangreind brot varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði sviptur ökurétti samkvæmt 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. lög nr. 44/1993.”.

Við flutning málsins krafðist sækjandi þess einnig að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talinna saksóknarlauna til ríkissjóðs.

Verjandi ákærða hefur krafist þess aðallega að ákærði verði sýknaður af I. hluta ákæru, en dæmdur til vægustu refsingar vegna annarra hluta ákærunnar. Til vara að refsing vegna I. hluta ákærunnar verði felld niður og ákærði dæmdur til vægustu lögleyfðrar refsingar vegna hinna hluta ákærunnar. Þá krefst verjandi þess að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, að öllu leyti eða að hluta. Verjandinn krefst í öllum tilvikum málsvarnarlauna sér til handa.

II.

 Málavextir.

I. hluti ákæru.

Ákærði var við drykkju fimmtudaginn 15. október á Hvolsvelli. Aðsetur ákærða var sendibifreið af gerðinni Mazda 220, árgerð 1985. Henni hafði verið lagt á milli tveggja rútubifreiða á bifreiðastæði við matsölustaðinn Hlíðarenda. Ákærði þekkti lítið sem ekkert til á Hvolsvelli. Ákærði hafði dvalist á Hvolsvelli í nokkurn tíma, en þennan fimmtudag þvældist ákærði ölvaður um um bæinn. Meðal annars fór ákærði á samkomu, svokallað opið hús, 6-13 ára barna í félagsmiðstöðinni á Hvolsvelli, en var vísað þaðan út af forstöðukonu. Það spurðist út meðal barna og unglinga bæjarins að ákærði, sem hlotið hefur dóma fyrir kynferðisbrot gagnvart ungum börnum, væri að gefa sig á tal við börn og unglinga á Hvolsvelli og virðist það hafa verið ásetningur a. m. k. nokkurra þeirra að stuðla að því að ákærði yfirgæfi bæinn. Að kvöldi þessa dags, eftir að ákærði var lagstur til svefns í bifreið sinni á bifreiðaplani við matsölustaðinn Hlíðarenda, vaknaði hann við hávaða og læti í um 20-30 ungmennum, sem safnast höfðu saman á planinu. Nokkur ungmennanna voru á bifreiðum og lýstu þau ljósum bifreiðanna að bifreið ákærða. Ákærði reyndi án árangurs að gangsetja bifreiðina, en skömmu síðar ýttu nokkrir unglinganna bifreið ákærða í gang og ók ákærði á brott. Einn af unglingunum hringdi þá á lögreglu og nokkrir þeirra óku á eftir ákærða allt þar til lögregla stöðvaði akstur ákærða vestan við Hróarslæk á Rangárvöllum, eftir að ákærði hafði ekið um það bil 7-8 kílómetra. Reyndist ákærði vera með 2,01%o alkóhóls í blóði. Ákærða og vitnum ber ekki saman um hvers eðlis og hversu mikil læti voru í unglingunum, eða hvort bifreið ákærða hafi verið ýtt í gang að ósk ákærða.

Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi verið sofnaður í bifreiðinni, en vaknað við mikil læti og hafi bifreiðinni verið ruggað harkalega til. Ákærði kvaðst ekkert hafa séð út um glugga bifreiðarinnar vegna móðu á rúðum, en hafa heyrt „öskur, læti og óhljóð og hótanir.”. Meðal annars hafi verið öskrað „drepum hann, drepum hann.”. Ákærði kvaðst hafa þurrkað móðuna af framrúðunni og séð að hópur fólks var fyrir utan bílinn. Ákærði kvaðst hafa tekið hótanir fólksins alvarlega og því reynt að gangsetja vél bifreiðarinnar, en án árangurs. Þá hafi bifreiðinni skyndilega verið ýtt áfram og hann náð að gangsetja vél bifreiðarinnar vegna þess. Ákærði kvaðst ítrekað engin orðaskipti hafa átt við þá sem fyrir utan bifreiðina voru og ekkert vitað hvað biði sín fyrir utan en vegna látanna hafi hann ekki treyst sér til að ganga út úr bifreiðinni og inn á veitingastaðinn Hlíðarenda, en ákærði hafi ekki verið með símtæki í bifreiðinni. Ákærði kvaðst ekkert hafa vitað hvert hann væri að fara, en hann hefði haft það eina markmið að forða sér af vettvangi. Þá kom fram hjá ákærða að grjóti hefði verið kastað í bifreiðina. Ákærði kvað atvik á planinu hafa gerst á um það bil 10 mínútum. Ákærði nefndi einnig að hann hefði talið sig hafa ökurétt er hann ók bifreiðinni, þar sem hann hafði verið svipur ökurétti tímabundið, en sá tími var liðinn, en ákærði kvaðst ekki hafa vitað að hann þyrfti að taka ökupróf á ný.

Vitnið Ingólfur Waage lögregluvarðstjóri kvaðst hafa fengið tilkynningu símleiðis um að ölvaður maður væri að aka sendiferðabifreið vestur úr bænum. Vitnið kvaðst hafa stöðvað akstur ákærða við Varmadal og hafi ákærði verið augljóslega undir áhrifum áfengis. Í kjölfar bifreiðar ákærða hafi fylgt fjórar til fimm bifreiðar, sem í hafi verið ungmenni af Hvolsvelli. Ungmennin hafi verið á þönum í kringum bifreið ákærða og í uppnámi. Vitnið nefndi að ákærði hafi sagst vera að flýja frá ungmennunum.

Vitnið Anton Kári Halldórsson, kt. 030583-3539, kvað krakka og unglinga hafa safnast saman við bifreið ákærða á bifreiðastæðinu við Hlíðarenda. Vitnið kvað einhvern unglinganna hafa sparkað í bifreið ákærða, en ekki kvaðst vitnið minnast þess að bifreiðin hafi verið hrist til eða að ákærða hefði verið hótað. Hins vegar hafi ökumenn bifreiða sem á planinu voru beint ljósum bifreiða sinna að bifreið ákærða. Ákærði hafi reynt að gangsetja bifreið sína en án árangurs. Hafi unglingar sem fyrir utan bifreiðina voru spurt ákærða hvort þeir ættu ekki að aðstoða ákærða við að gangsetja bifreiðina með því að ýta henni áfram. Í framhaldi af jákvæðu svari ákærða hafi bifreið hans verið ýtt í gang, en jafnframt hafi einn unglingana hringt í lögreglu og tilkynnt um að ákærði væri undir áhrifum áfengis að aka bifreið. Vitnið kvaðst hafa fylgst með atvikum á bifreiðaplaninu nánast allan tímann, utan við tvær mínútur sem hann hafi verið í versluninni Hlíðarenda. Vitnið kvaðst ekki hafa merkt það á ákærða að hann væri hræddur við unglinganna, sem hafi verið um 25-30. Þá kom fram hjá vitninu að hann hafi vitað að ákærði var undir áhrifum áfengis. Aðspurður um hvort tilgangurinn með háttalagi unglinganna hafi verið að koma ákærða í klípu með því að stuðla að því að hann æki ölvaður, þá kvaðst vitnið ekkert vita um það, en tilgangur unglinganna hafi verið að stuðla að því að ákærði yfirgæfi Hvolsvöll.

Hjá lögreglu var bókað eftir vitninu að unglingarnir hafi hrist bifreið ákærða til, en vitnið ítrekaði fyrir dómi að hann hefði ekki orðið var við það.

Vitnið Ingi Þór Pálsson, kt. 040683-5349, kvaðst hafa farið ásamt 10 öðrum unglingum að veitingastaðnum Hlíðarenda þar sem ákærði geymdi bifreið sína. Þau hafi verið á vappi við bifreið ákærða og hafi vitnið sparkað einu sinni í framenda bifreiðar ákærða og kvaðst vitnið hafa verið hinn eini sem eitthvað gerði við bifreið ákærða á planinu. Vitnið kvaðst hafa heyrt ákærða óska eftir aðstoð við að gangsetja bifreiðina og hafi nokkrir unglinganna því ýtt bifreið ákærða áfram. Vitnið kvaðst hafa verið með þeim fyrstu á vettvang og hafa fylgst með allan tímann. Ekki kvaðst vitnið minnast þess að ákærða hafi verið hótað líkamsmeiðingum eða einhverju verra. Hins vegar var á vitninu að skilja að unglingarnir hafi kallað ókvæðisorðum að ákærða í um það bil fimm til tíu mínútur. Vitnið kvað tilganginn með þessum aðförum hafa verið þann að láta ákærða vita að þau vildu ekki hafa ákærða á Hvolsvelli.

Hjá lögreglu var bókað eftir vitninu að unglingarnir hefðu ruggað bifreið ákærða til. Er það var borið undir vitnið fyrir dómi, kvaðst vitnið ekki minnast þess, en nefndi að unglingarnir hafi hópast við bifreið ákærða.

Vitnið Björgvin Kristinn Sigvaldason, kt. 281082-5669, kvaðst hafa komið á vettvang eftir að hópur ungmenna á aldrinum 14-17 ára, flest yngri en 16 ára, höfðu safnast þar saman. Ökumenn annarra bifreiða á planinu hafi lýst upp bifreið ákærða. Ákærði hafi óskað eftir því að unglingarnir aðstoðuðu sig við að gangsetja bifreiðina. Í framhaldi af því hafi vitnið spurt ákærða hvort hann þægi aðstoð þeirra og hafi ákærði sagt já við því. Vitnið kvaðst hafa brýnt fyrir ákærða að hafa bifreiðina í öðrum gír og hafi fimm eða sex drengir ýtt bifreiðinni í gang. Vitnið kvaðst ekki hafa séð unglingana hrista bifreið ákærða til og ekki hafa orðið var við að aðsúgur hafi verið gerður að ákærða, en hafa frétt að unglingarnir hafi verið æstir áður en vitnið kom á staðinn. Aðspurður um ástæðu þess að unglingarnir aðstoðuðu ákærða við að gangsetja bifreiðina, þá sagði vitnið: „Það var náttúrulega eina leiðin til að losna við hann. Það var að láta hann keyra. Það var búið að segja áður við hann, ef þú keyrir þá hringjum við á lögguna.”.

Vitnið Heiðar Þormarsson, kt. 130384-3159, kvaðst hafa slegist í för með öðrum ungmennum og gengið að Hlíðarenda og hafi þeir hópast í kringum bifreið ákærða. Þá hafi þar verið hópur ungmenna fyrir. Vitnið kvað ákærða hafa skrúfað niður rúðu á bifreiðinni og óskað eftir því að þau ýttu bifreiðinni í gang. Vitnið kvað ákærða hafa haft opinn glugga á bifreið sinni. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða hvort hann væri ekki undir áhrifum áfengis og hafi ákærði játað því. Vitnið kvaðst því hafa sagt við ákærða að ef ákærði æki yrði hringt í lögreglu, en ákærði eigi að síður óskað eftir að bifreiðinni yrði ýtt í gang. Svo hafi verið gert, ákærði ekið á brott en hringt hefði verið á lögreglu og tilkynnt um akstur ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við að bifreið ákærða hafi verið hrist til, unglingarnir hafi hlegið mikið og verið spenntir og gert hróp að ákærða, en þó hótað honum í engu og taldi vitnið að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að ákærði hefði getað gengið inn á veitingastaðinn Hlíðarenda. Vitnið kvað tilganginn með aðgerðum unglinganna hafa verið þann að fá ákærða á brott úr bænum. Það hafi ekki verið markmið að fá ákærða til að fremja refsivert brot.

Vitnið Elvar Þormarsson, kt. 060581-3129, kvað sig og áðurnefndan Björgvin Kristinn Sigvaldason hafa fengið upplýsingar um að unglingar hefðu fundið ákærða þar sem hann væri í bifreið sinni á bifreiðaplani við verslunina Hlíðarenda. Þeir Björgvin hafi ekið á vettvang, lagt bifreið sinni í um það bil fimm metra fjarlægð frá bifreið ákærða og beint ljósgeislum bifreiðarinnar að bifreið ákærða, en það hafi aðrir sem á bifreiðum voru einnig gert. Vitnið kvaðst hafa setið í bifreið sinni með rúðuna skrúfaða niður og fylgst með atburðum, en í þann mund er þeir Björgvin hafi komið á vettvang hafi unglingar verið að ýta bifreið ákærða. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir að ákærði og unglingarnir hafi kallast á en ekki heyrt hvað það var. Vitnið kvaðst ekki hafa séð að unglingarnir hafi ruggað bifreið ákærða til eða sparkað í bifreiðina og kvaðst ekki telja að unglingarnir myndu hafa ráðist á ákærða hefði hann stigið út úr bifreið sinni. Vitnið kvaðst hafa verið á planinu í um það bil fimm mínútur og hafi vitnið og aðrir elt ákærða á bifreiðum sínum eftir að ákærði ók af stað. Vitnið kvað þá unglingana hafa ætlað að fá ákærða með einhverjum hætti á brott og ef með þyrfti að haga málum þannig að ákærði myndi aka ölvaður og kæmist í hendur lögreglu.

Vitnið Árni Þór Guðjónsson, kt. 080579-5519, kvaðst hafa verið að aka fram hjá Hlíðarenda ásamt kærustu sinni, er þau hafi orðið vör við hóp unglinga á planinu. Vitnið kvaðst hafa ekið á vettvang, skrúfað niður rúðu bifreiðarinnar og talað við tvo drengi þar, sem sagt hefðu að ákærði væri í bifreið á planinu. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða reyna að gangsetja vél bifreiðarinnar en án árangurs. Hafi ákærði þá skrúfað niður glugga á bifreið sinni og spurt unglingana hvort hann gæti fengið start. Í framhaldi af því hafi bifreið ákærða verið ýtt í gang, en vitnið þá hringt í lögregluna og tilkynnt um aksturinn. Vitnið kvaðst hafa veitt bifreið ákærða eftirför uns lögregla stöðvaði akstur ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við að unglingarnir hafi verið æstir eða að aðsúgur hafi verið gerður að ákærða, eða að sparkað hafi verið í bifreið ákærða. Hins vegar hafi unglingarnir kallað ókvæðisorðum að ákærða, án þess þó að hóta ákærða. Í skýrslu hjá lögreglu var m.a. bókað eftir vitninu: „Voru krakkarnir að hrista bifreiðina bifreiðina og létu öllum illum látum. …”. Vitnið kvaðst fyrir dómi ekki minnast þess að svo hefði verið, en ekki vilja rengja skýrslu sína hjá lögreglu, en nefndi að þegar hann segði að krakkar hefðu látið öllum illum látum, þá hefði hann átt við ókvæðisorð sem þar hefðu fallið, en ekki minnast þess að ákærða hefði verið hótað. Hins vegar hefðu ökumenn bifreiða á planinu beint ljósum bifreiðanna að bifreið ákærða. Um tilgang aðgerða unglinganna sagði vitnið að það hafi verið markmiðið að fá ákærða á brott frá Hvolsvelli.

Vitnið Jón Heiðar Erlendsson, kt. 130779-4259, kvaðst hafa komið að málum er ákærði hafði ekið af stað. Vitnið kvaðst hafa ekið á eftir ákærða allt þar til hann var handtekinn. Vitnið kvað ungmennin ekki hafa verið æst, en bætti við að eftir handtöku ákærða hafi vitnið fengið fregnir af háttalagi ákærða fyrr um daginn og því ekið þangað sem bifreið ákærða var og sparkað í bifreiðina.

II. og III. hluti ákæru.

Samkvæmt framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi sem samrýmast gögnum málsins, ók ákærði bifreið sinni án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis eins og greinir í ákæru. Samkvæmt niðurstöðu rannsókna á blóðsýnum sem tekin voru úr ákærða, var hann með 1,88%o alkohóls í blóði að morgni laugardagsins 31. október 1998, en 2,05%o alkohóls í blóði við akstur síðdegis þann sama dag.

III.

 Niðurstöður.

Með játningu ákærða, framburði vitna og gögnum málsins, er sannað að ákærði ók bifreiðinni K-3425 undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda að kvöldi fimmtudagsins 15. október 1998, þá leið sem greinir í I. hluta ákæru. Hins vegar er því haldið fram af hálfu ákærða að háttsemi hans beri að meta refsilausa á grundvelli neyðarréttar samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða að fella eigi refsingu niður með skírskotun til 1., 4. og/eða 6. töluliðar 1. mgr. 74. gr. eða 75. gr. laganna.

Eins og rakið hefur verið var ákærði lagstur til hvílu í bifreið sinni er hópur unglinga safnaðist kringum bifreið hans og gerði hróp að honum, auk þess sem bifreið ákærða var lýst upp með ljósum nokkurra bifreiða á bifreiðaplaninu. Af framburði vitna hjá lögreglu verður að ganga út frá því að bifreið ákærða hafi verið hrist til, auk þess sem upplýst er að sparkað var einu sinni í bifreiðina. Þá er einnig upplýst að tilgangur unglinganna var að fá ákærða með einhverjum ráðum brott frá Hvolsvelli. Mátti ákærði því hafa beyg af þeim skara unglinga sem safnast höfðu saman á bifreiðaplaninu og í kring um bifreið hans.

Hins vegar ber að líta til þess að þótt unglingarnir hafi kallað ókvæðisorðum að ákærða, verður samkvæmt framburði vitna í málinu ekki byggt á þeirri fullyrðingu ákærða að honum hafi verið hótað lífláti eða líkamsmeiðingum. Þá er ekkert fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu ákærða að bifreið hans hafi orðið fyrir grjótkasti. Ekki er heldur trúverðugur framburður ákærða um að ungmennin hafi að eigin frumkvæði ýtt þannig með samstilltu átaki á bifreið ákærða að ákærði gat gangsett hana, heldur ber að miða við framburð vitna um að ákærði hafi átt orðaskipti við ungmennin og sjálfur óskað eftir aðstoð þeirra. Ákærði mátti vita að akstur hans var vítaverður þar sem hann ók undir áhrifum áfengis um götur Hvolsvallar og eftir þjóðvegi nr. 1, þar sem umferð getur verið töluverð, í stað þess til dæmis að leita eftir aðstoð á matsölustaðnum Hlíðarenda eða hringja þaðan eftir aðstoð, en atvik gerðust snemma kvölds og bifreið ákærða var lagt rétt við matsölustaðinn. Verður því hvorki fallist á með ákærða að réttlætanlegt hafi verið fyrir hann að aka bifreiðinni réttindalaus og verulega undir áhrifum áfengis né að atvik hafi verið með þeim hætti að fella beri refsingu ákærða niður.

Með játningum ákærða á háttsemi þeirri sem honum er gefin að sök í II. og III. hluta ákæru og því sem að framan er rakið um I. hluta ákæru, telst ákærði hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og réttilega er færð til lagaákvæða. Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Brotaferill ákærða nær aftur til ársins 1959. Frá árinu 1963 hefur ákærði hlotið 29 refsidóma fyrir margvísleg brot. Hefur ákærði meðal annars sjö sinnum hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum, síðast 19. október 1995, níu sinnum fyrir auðgunarbrot, síðast 8. desember 1994. Nemur dæmd óskilorðsbundin refsivist ákærða frá upphafi tæpum fimmtán árum, en auk refsivistar var ákærði í eitt sinn dæmdur auk refsingar í fimmtán mánaða hælisvist. Þá hefur ákærði nokkrum sinnum gengist undir sáttir, aðallega vegna brota á áfengislögum. Ákærði hefur sautján sinnum hlotið refsingu fyrir ölvun við akstur, síðast með dómi Hæstaréttar hinn 8. desember 1994, en þá var ákærði dæmdur til sex mánaða fangelsisrefsingar vegna ölvunaraksturs og þjófnaðar. Var hann jafnframt sviptur ökurétti í 4 ár og 6 mánuði. Ákærði hefur einnig nokkrum sinnum hlotið refsingar vegna aksturs án ökuréttinda, síðast árið 1986.

Við ákvörðun refsingar verður sérstaklega að líta til þess að ákærði hefur margítrekað gerst sekur um ölvunarakstur. Samkvæmt framansögðu og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði. 

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. og 2. og 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá 19. desember 1998, en þá var ákærði sviptur ökurétti hjá lögreglu.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þ. m. t. 70.000 krónur vegna starfa skipaðs verjanda síns, Erlendar Gíslasonar, héraðsdómslögmanns, við rannsókn og meðferð málsins bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og 45.000 krónur í saksóknarlaun til ríkissjóðs.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Anna Birna Þráinsdóttir, fulltrúi sýslumannsins á Hvolsvelli.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm

Dómsorð:

Ákærði, Steingrímur Njálsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá 19. desember 1998 að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ. m. t. þóknun verjanda síns, Erlendar Gíslasonar, héraðsdómslögmanns, 70.000 krónur og saksóknarlaun til ríkissjóðs, 45.000 krónur.