Hæstiréttur íslands
Mál nr. 582/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
Þriðjudaginn 13. október 2009. |
|
|
Nr. 582/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 651 dag eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið brot varðað gæti allt að 6 ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að afplána 651 dag eftirstöðva fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí og 21. september 2007 og 19. nóvember 2008 og Héraðsdóms Suðurlands 10. október 2008 og 2. júlí 2009. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2009.
Með kröfu beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri í 9. október sl., er þess krafist að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 651 dag eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 12. júlí 2007, dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 21. september 2007, dóms Héraðsdóms Suðurlands frá 10. október 2008, dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 19. nóvember 2008 og dóms Héraðsdóms Suðurlands frá 2. júlí 2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 8. júlí 2009.
Af hálfu kærða er kröfunni mótmælt
Í greinargerð lögreglustjóra segir að með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 12. júlí 2007 hafi kærði hlotið 21 mánaða fangelsisdóm fyrir fjölda brota, m.a. þjófnað, hylmingu, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 21. september 2007 hafi kærði hlotið 1 mánaðar fangelsisdóm fyrir þjófnað og nytjastuld. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 10. október 2008 hafi kærði hlotið 8 mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað, nytjastuld og fjársvik. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 19 nóvember 2008 hafi kærði hlotið 4 mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 2. júlí 2009 hafi kærði 2 mánaða fangelsisdóm fyrir fíkniefnalagabrot og tilraun til fjársvika. Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 8. júlí hafi honum verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingarinnar, 651 dag.
Lögregla hefur nú til rannsóknar eftirgreind mál, þar sem kærði sé sterklega grunaður um aðild:
007-2009-62363
Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009, í búningsklefa í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði, stolið jakka af gerðinni Hummel. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu neitar kærði sök. Kærði klæddist jakkanum er hann var handtekinn.
007-2009-62372
Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009 brotist inn í bifreiðina [...], þar sem hún stóð fyrir utan verslunarmiðstöðina Fjörður í Hafnarfirði, með því að brjóta fremri hliðarrúðu á hægri hlið bifreiðarinnar, og stolið úr henni tösku af gerðinni Chanel, sem innihélt snyrtivörur, og ýmsum smáhlutum. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu neitar kærði sök.
007-2009-62360
Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009, í félagi við tvo men, farið inn í verslunina Mind X-tra í verslunarmiðstöðinni Fjörður og stolið þaðan 3. stk. hálsmen, 2. stk. armbönd, Úlpu, tösku og 4000 krónum í seðlum auk ótilgreindrar smámyntar úr sjóðsvél verslunarinnar. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu neitar kærði sök.
007-2009-62412
Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009 farið inn í bifreiðina [...], þar sem hún stóð við [...] í Hafnarfirði, og stolið þaðan 500 krónur í skiptimynt, leðurhanska að verðmæti um 10.000 krónur og geisladiskahulstri sem innihélt geisladiska. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu neitar kærði sök.
007-2009-62347
Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009 brotist inn í íbúð [...] við [...] í Reykjavík, með því að brjóta stóra glerrúðu í útidyrahurð með grjóti, og stolið þaðan flatskjá, heimabíó, vöðlum, veiðistöng, veiðivesti, 2 stk. jakki, leðurjakka, tölvu og tölvuskjá. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu neitar kærði sök.
007-2009-60843
Fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 3. október 2009 brotist inn í bifreiðina [...] þar sem hún stóð við [...] í Hafnarfirði og stolið úr henni DVD spilara að verðmæti um 30.000 krónur. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu neitar kærði sök.
007-2009-60408
Fyrir nytjastuld, með því að hafa á tímabilinu 30. september-1. október 2009, í félagi við annan mann, tekið bifreiðina [...] án þess að hafa til þess heimild og ekið henni víðsvegar um Hafnarfjörð uns akstri lauk við [...].
007-2009-60127
Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 30. september 2009, í félagi við annan mann, í kennslustofu 204 í húsnæði Verslunarskóla Íslands við Ofanleiti 1 í Reykjavík, stolið fartölvu af gerðinni Apple, svartri úlpu, farsíma af gerðinni Samsung og Ipod. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við yfirheyrslu neitar kærði sök. Á myndum úr öryggismyndavél sést hvar kærði kemur inn í skólann og fer inn í umrædda kennslustofu.
007-2009-58159
Fyrir þjófnað, nytjastuld og fjársvik, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 22. september 2009 brotist inn í íbúð við [...] í Hafnarfirði og stolið þaðan Canon ljósmyndavél ásamt tösku og aukahlutum að samanlögðu andvirði um 100.000 krónur, um 80.000 krónum í seðlum og kveikjuláslyklum bifreiðarinnar [...], svartur Lexus RX400H jeppabifreið, en bifreiðin var í kjölfarið tekin í heimildarleysi. Í bifreiðinni var seðlaveski sem innihélt greiðslukort og kom í ljós að kortin höfðu verið misnotuð eftir þjófnaðinn. Háttsemin er talin varða við 244. gr., 248. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í málinu er komið fram vitni sem segir kærða, auk annars manns, hafa ekið bifreiðinni og einnig að sömu menn hafi verið viðriðnir kortamisnotkunina.
007-2009-57631
Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa laugardaginn 19. september 2009, í félagi við annan mann og í auðgunartilgangi, brotist inn í raðhúsíbúð að [...] í Reykjavík, með því að spenna upp glugga á baðherbergi íbúðarinnar, og rótað í skápum en horfið á braut án þess að hafa með sér verðmæti. Kærði náðist á hlaupum frá vettvangi og við yfirheyrslu kvaðst hann ekkert muna sökum lyfja- og sveppaáts. Háttsemin telst varð við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. laganna.
007-2009-51392
Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 24. ágúst 2009, í verslun Hagkaupa í Smáralind í Kópavogi, stolið ilmvatnsglasi með því að setja glasið í hettu á peysu félaga sins, en þeir voru stöðvaðir af öryggisvörðum er þeir gengu út úr versluninni. Við yfirheyrslu neitaði kærði að hann hafi ætlað að stela ilmvatnsglasinu. Háttsemin telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé fullnægt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Þá sé og ljóst að hann sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað getur allt að 6 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu lögreglustjóra um að honum verði gert að afplána framangreindar eftirstöðvar fangelsisrefsingar og hefur krafist þess að henni verði hafnað.
Að öllu framanrituðu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður að fallast á það með lögreglustjóra að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði gerst sekur um brot sem varðað geta allt að 6 ára fangelsi, og þannig rofið gróflega skilyrði reynslulausnar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar 651 dag, sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2007, dómi Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2007, dómi Héraðsdóms Suðurlands 10. október 2008, dómi Héraðsdóms Reykjaness 19. nóvember 2008 og dómi Héraðsdóms Suðurlands 2. júlí 2009.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kærði, X, afpláni 651 dag eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2007, dómi Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2007, dómi Héraðsdóms Suðurlands 10. október 2008, dómi Héraðsdóms Reykjaness 19. nóvember 2008 og dómi Héraðsdóms Suðurlands 2. júlí 2009.