Hæstiréttur íslands
Mál nr. 601/2012
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Skaðabótamál
- Eigin sök
- Aðfinnslur
|
|
Þriðjudaginn 26. mars 2013. |
|
Nr. 601/2012. |
Sigurjón G. Halldórsson (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Gæsluvarðhald. Skaðabótamál. Eigin sök. Aðfinnslur.
S krafði Í um skaðabætur vegna fjártjóns og miska sem hann taldi sig hafa orðið fyrir með því að hafa undir rannsókn lögreglu á mansalsmáli og tryggingasvikum verið hnepptur í gæsluvarðhald og gert að sæta því í einangrun, auk þess sem hann taldi að hann hefði verið beittur harðræði á meðan á því stóð. Með dómi héraðsdóms, sem var endanlegur hvað S varðaði, var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu. Hæstiréttur taldi ósannað að S hefði orðið óvinnufær vegna gæsluvarðhaldsins og var því krafa hans um bætur vegna fjártjóns ekki tekin til greina. Þá var talið að S hefði með framgöngu sinni í aðdraganda þess að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og í framhaldi af því stuðlað að þeirri aðgerð og yrðu honum því ekki dæmdar bætur fyrir að hafa í öndverðu sætt gæsluvarðahaldi. Eftir að hann hefði hins vegar greint frá tiltekinni vitneskju sinni í málinu yrði að líta svo á að þáttur hans í málinu hefði að mestu leyti verið upplýstur og því hefðu ekki verið efni til að halda honum í gæsluvarðhaldi eftir þann tíma. Með vísan til þessa var það niðurstaða Hæstaréttar að S ætti rétt til miskabóta fyrir að hafa setið nokkru lengur í gæsluvarðahaldi en efni hefðu verið til. Þá var einnig litið til þess að breyting hefði verið gerð á lyfjagjöf hans við upphaf gæsluvarðhaldsins og þótti aðbúnaður hans í gæsluvarðhaldinu hafa verið ófullnægjandi að því leyti. Á hinn bóginn hefði S ekki fært sönnur á að hann hefði sætt harðræði meðan á gæsluvarðhaldinu stóð. Var Í gert að greiða S 400.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2012. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 17.280.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. október 2009 til 30. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér „skaða- og miskabætur“ að álitum með sömu vöxtum og greinir í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Laust eftir miðnætti laugardaginn 10. október 2009 kom til landsins með flugi frá Póllandi E, sem þá var 19 ára að aldri og litháískur ríkisborgari. Fljótlega eftir komu hennar vaknaði sá grunur að hún væri fórnarlamb mansals og að hún hefði verið send hingað til að stunda vændi. Á Keflavíkurflugvelli munu þrír menn hafa beðið konunnar, en hún var flutt til aðhlynningar á sjúkrahúsi. Síðar sama dag kom áfrýjandi á lögreglustöðina við Hverfisgötu ásamt þremur mönnum af litháísku þjóðerni og spurðust fyrir um konuna. Áfrýjandi átti og rak fyrirtækin SR Holdings ehf. og SR eignir ehf. og meðal starfsmanna þeirra munu hafa verið litháískir ríkisborgarar. Einnig liggur fyrir að áfrýjandi hafði samband símleiðis við lögregluna á Suðurnesjum mánudaginn 12. október 2009 og spurðist fyrir um konuna og mun hann þá hafa sagt á sér deili með því að gefa upp nafn og kennitölu.
Eftir að konan hafði fengið aðhlynningu á sjúkrahúsi var hún í umsjá lögreglu en síðan dvaldi hún í húsnæði á vegum félagsmálayfirvalda í Reykjanesbæ. Að morgni 13. október 2009 mun lögregla hafa komist að raun um að konan hafi yfirgefið dvalarstað sinn í Keflavík seint kvöldið áður og var talið að þangað hefði hún verið sótt. Lögreglan lýsti síðan eftir konunni 15. sama mánaðar og fannst hún við gistihús í Reykjavík að kvöldi þess dags.
Hinn 13. október 2009 mætti áfrýjandi samkvæmt boðun til skýrslutöku hjá lögreglunni á Suðurnesjum og var hann yfirheyrður sem sakborningur þar sem hann væri grunaður um að hafa gerst sekur um mansal. Fram kom hjá áfrýjanda að hann þekkti mjög lítið þá menn sem hefðu beðið hann um að hafa samband við lögreglu til að spyrjast fyrir um konuna, en þeir hefðu sagt hana vera vinkonu eða kærustu einhvers þeirra eða eitthvað í þá veru.
Á þessum tíma voru einnig til rannsóknar hjá lögreglu ætluð tryggingasvik vegna bruna sem varð að [...] í [...] 28. ágúst 2009, en fasteignin var í eigu SR eigna ehf. og var húsnæðið leigt út. Samkvæmt tjónskvittun Vátryggingafélags Íslands hf. voru félaginu greiddar 36.500.000 krónur í bætur vegna skyldutryggingar eignarinnar og var sú greiðsla innt af hendi 19. október sama ár. Í upplýsingaskýrslu lögreglu 22. þess mánaðar kemur fram að leigutaki í húsnæðinu hafi haft samband við lögreglu og greint frá því að kunningi hans hafi verið að vinna nærri húsinu um kl. 22.00 og þá hafi ekkert verið athugavert en húsið orðið alelda rúmri klukkustund síðar. Þá var í skýrslunni haft eftir þessum leigutaka að honum hafi borist upplýsingar um grunsamlegar mannaferðir í bænum þetta kvöld. Í kjölfarið voru tildrög brunans rannsökuð nánar af lögreglu með því að taka skýrslur af þeim sem gátu borið um þau. Með bréfi 12. nóvember 2009 lagði lögregla hald á fjármuni á tilgreindum bankareikningi SR eigna ehf. og var tekið fram að það væri gert sökum þess að áfrýjandi væri grunaður um tryggingasvik. Þessari haldlagningu var aflétt 16. desember sama ár.
Með úrskurði héraðsdóms 19. október 2009 var lögreglu heimilað að afla upplýsinga frá símfyrirtækjum um það úr hvaða símanúmerum hringt hefði verið í tiltekin símanúmer sem áfrýjandi hafði og í hvaða númer hefði verið hringt úr þeim símanúmerum frá 1. ágúst sama ár. Jafnframt var lögreglu með úrskurði sama dag heimilað að hlusta og hljóðrita símtöl í og úr símanúmerum áfrýjanda til og með 16. nóvember það ár. Í beiðnum um þessar aðgerðir kom fram að rannsóknin beindist meðal annars að ætluðu mansali og tryggingasvikum.
II
Áfrýjandi var handtekinn 20. október 2009 og við upphaf yfirheyrslu hjá lögreglu síðar sama dag sagðist hann að öllu leyti vera búinn að tjá sig um sakarefnið. Nánar aðspurður greindi áfrýjandi frá því að hann hefði um árabil verið með í vinnu hjá sér nokkra menn frá Litháen. Einnig kannaðist hann við þá einstaklinga sem grunur lék á að væru viðriðnir það mál sem var til rannsóknar, en tveir þeirra hafi verið í vinnu hjá sér í apríl það ár. Jafnframt hafi hann lánað einum þeirra bifreið fyrir um hálfum mánuði og hitt annan á bensínstöð og við Kringluna. Við það tækifæri hafi sá sem átti í hlut spurt „um húsið á [...], koma með sér í business og svoleiðis.“ Kvaðst áfrýjandi hafa hundsað þetta en hann treysti ekki þessum mönnum. Jafnframt sagði áfrýjandi að hann hefði að beiðni þessa manns ekki haft farsíma á sér. Þá hefðu þessir menn komið heim til sín en hann ekkert viljað við þá ræða. Um aðdraganda þess að áfrýjandi hafði samband við lögreglu vegna ungu konunnar, sem kom til landsins 10. október 2009, sagði áfrýjandi að hann hefði gert það að beiðni þessara manna til að túlka fyrir þá. Spurður um eignina að [...] í [...] tók áfrýjandi fram að hann hafi verið erlendis þegar húsið brann.
Eftir að áfrýjandi hafði gefið skýrslu var hann í haldi þar til hann var leiddur fyrir dómara daginn eftir og gæsluvarðhalds krafist yfir honum. Til stuðnings þeirri kröfu var vísað til þess að fyrir hendi væri grunur um umfangsmikla og skipulagða glæpastarfsemi. Með úrskurði héraðsdóms sama dag var áfrýjanda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 28. október 2009 og var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 23. þess mánaðar í máli nr. 606/2009. Í kjölfar handtöku áfrýjanda var gerð húsleit á heimili hans og á starfsstöðvum fyrirtækja í hans eigu.
Áfrýjandi var næst yfirheyrður af lögreglu 23. október 2009 og við upphaf skýrslutökunnar kvaðst hann enga vitneskju hafa um konuna frá Litháen, sem kom til landsins 10. sama mánaðar, umfram það sem þegar hefði komið fram. Þvertók áfrýjandi fyrir að tengjast komu hennar til landsins með einhverju móti, svo sem með því að hafa keypt farmiða eða útvegað henni húsnæði. Þá kannaðist áfrýjandi ekki við að hafa greitt götu Litháa hér á landi ef frá er talið að hafa ráðið þá í vinnu. Einnig kannaðist áfrýjandi ekki við að þeir Litháar sem störfuðu hjá honum væru viðriðnir glæpastarfsemi af einhverju tagi. Þá neitaði áfrýjandi því að Litháar á hans vegum hafi verið valdir að brunanum að [...] í [...]. Við lok skýrslutökunnar voru bókuð eftir verjanda áfrýjanda andmæli við því að umbjóðandi hans hefði ekki fengið nauðsynlega læknisþjónustu.
Áfrýjandi gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 27. október 2009 og við upphaf skýrslugjafar sagðist hann engu hafa að bæta við fyrri frásögn sína. Nánar spurður um þá Litháa sem störfuðu hjá honum kvaðst hann engin tengsl hafa við þessa menn. Þeir hefðu verið ágengir gagnvart sér með að fá vinnu og atvinnuleyfi, auk þess sem áfrýjandi kannaðist við að hafa veitt þeim óveruleg lán. Einnig tók áfrýjandi fram að hann hefði reynt að ljúka samskiptum við mennina eftir uppákomu í samkvæmi hjá sér á liðnu vori þegar tveir þeirra hefðu barið ungan dreng fyrir utan heimili sitt. Þá ítrekaði áfrýjandi að ekkert merkilegt hefði farið fram á fundum sem hann átti með þessum mönnum. Aðspurður kannaðist áfrýjandi við að nýlega hefði staðið til að leigja þeim húsnæði á hans vegum. Fyrirhugað hafi verið að þeir löguðu húsnæðið og kvaðst áfrýjandi hafa látið þá hafa málningu og verkfæri. Loks var áfrýjandi spurður nánar út í kaup á fasteigninni að [...] í [...].
Hinn 28. október 2009 krafðist lögregla þess að gæsluvarðhaldi áfrýjanda yrði framlengt til 4. nóvember sama ár. Í kröfu lögreglu kom fram að áfrýjandi hafi tveimur dögum áður en unga konan frá Litháen kom til landsins verið að ræða í síma við annan mann um afdrif stúlkna sem væru að koma til landsins, auk þess sem fyrir hendi væru upplýsingar um mikil símasamskipti áfrýjanda við aðra, sem grunur beindist að, það kvöld þegar konan hvarf og daginn eftir. Þá var tekið fram í kröfunni að áfrýjandi hafi gefið ótrúverðugar skýringar á aðild sinni að málinu og sagst lítið þekkja til annarra sakborninga þrátt fyrir tíð símasamskipti við þá. Með úrskurði héraðsdóms sem kveðinn var upp samdægurs var krafan tekin til greina og var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. nóvember 2009 í máli nr. 627/2009.
Áfrýjandi var enn yfirheyrður af lögreglu 3. nóvember 2009 og greindi þá frá því að nokkrir af sakborningum, sem væru frá Litháen, hefðu starfað hjá sér um skamma hríð. Í ljósi þess hvernig áfrýjandi hafði lýst samskiptum sínum og annarra sakborninga var hann inntur eftir hvernig stæði á því að síðan í ágúst 2009 hefðu farið „63 símtöl og SMS sendingar“ milli hans og Darius Tomasevskis, eins af sakborningum. Því svaraði áfrýjandi svo til: „Hann sendi mér mörg SMS meðan ég var heima veikur og var að reyna að fá vinnu fyrir vini sína ... Þetta var bara vinnutengt hann hringdi út af launum hinna og svoleiðis“. Einnig var áfrýjandi spurður út í mikil símasamskipti við annan sakborning að nafni Deividas Sarapinas um það leyti sem bruninn varð að [...] í [...] og því svaraði hann þannig: „Deividas var að reyna að fá mig til þess að gera atvinnuleyfi fyrir sig, það var ekkert annað og það voru ekki mörg símtöl“. Undir áfrýjanda var síðan borinn mikill fjöldi tímasettra símtala við tilgreinda sakborninga án þess að hann gæti greint frá efni þeirra að öðru leyti en því að um þetta leyti hafi hann rætt við aðra sakborninga um húsnæði sem þeir ætluðu að taka á leigu og áttu að lagfæra. Auk þess kvaðst áfrýjandi skömmu eftir að rannsókn málsins hófst hafa hringt í aðra sakborninga til að fá skýringar á því sem þeir hefðu flækt hann í. Um samskipti sín við einn sakborninga á þessu tímabili sagði áfrýjandi síðan orðrétt: „Eftir þetta hringir Deividas í mig þá hafði þessi stelpa hringt í þá og beðið þá að ná í sig til Keflavíkur. Og þeir eru með stelpuna í sinni umsjá og biðja að hjálpa með húsnæði og ég segi nei nei ég vilji ekki koma nálægt þessu. Og ég kom ekki nálægt þessu. Ég var bara drullusmeykur við þetta það var allt í uppnámi mátti ekki hafa símann með mér og ég var bara í rusli út af þessu dæmi. Þetta eru svona tengslin mín af þessu máli og það eina sem ég gerði var að ráðleggja þessum strákum að fara með þessa stelpu niður á lögreglustöð. Ég var ekki að flytja neinar stelpur hérna inn. Ég hef fylgst með í fréttum og þetta skýrir þessi stífu símtöl milli mín og þessara manna.“ Þá var áfrýjandi spurður um símtal þar sem vitni segi að hann hafi greint frá því að til landsins væri von á tveimur litháískum stúlkum og svaraði hann því þannig til: „Þetta er bara bull bara einhver fíflagangur á milli vina“. Loks var áfrýjandi inntur eftir því hvort hann hefði farið með Litháum til [...] viku fyrir brunann að [...] hinn 28. ágúst 2009 þá svaraði hann svo: „Ég fór til [...] og það kom eitthvað af þeim með mér sko. Ég var að reyna að rukka karlinn sem skuldaði mér leigu af húsinu.“ Í framhaldinu var áfrýjandi spurður hvernig þetta kæmi heim og saman við frásögn hans um að vilja ekki koma nálægt þessum mönnum og svaraði hann þannig: „Þeir komu bara með mér er það bannað með lögum“. Síðan var haft eftir áfrýjanda að það hafi verið „áhrifameira að hafa þá með“.
Með kröfu 4. nóvember 2009 fór lögregla þess á leit að áfrýjanda yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 18. þess mánaðar. Í kröfunni kom fram að áfrýjandi hefði verið ósamvinnufús og gefið misvísandi og breytilegan framburð að því marki sem hann hafi kosið að svara spurningum. Með úrskurði héraðsdóms síðar sama dag var áfrýjanda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 11. nóvember 2009. Þeim úrskurði var ekki skotið til Hæstaréttar.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu greindi áfrýjandi lögreglumönnum frá því 5. nóvember 2009 að hann hefði upplýsingar um dvalarstað ungu konunnar á þeim tíma sem hún var ekki í umsjá lögreglu eða á vegum félagsmálayfirvalda. Var þá farið í ökuferð með áfrýjanda og vísaði hann á íbúð að [...] í [...], en íbúðin mun vera í eigu kunningja hans.
Meðan áfrýjandi sat í gæsluvarðhaldinu var að lokum tekin skýrsla af honum fyrir dómi 9. nóvember 2009. Aðspurður gerði áfrýjandi þar grein fyrir hvernig það kom til að Litháar fóru að vinna hjá fyrirtækjum í hans eigu og rakti hann þessi samskipti í einstökum atriðum. Kom fram hjá áfrýjanda að þessir menn hefðu verið ágengir og kannaðist hann við mikil símasamskipti, en hann kvaðst einnig hafa hringt til baka til að fá frið. Um ungu konuna sem kom til landsins sagði áfrýjandi að þeir hefðu greint sér frá því að vinkona þeirra væri væntanleg en annað og meira kvaðst hann ekki hafa vitað. Að beiðni þessara manna hefði áfrýjandi síðan haft samband við lögreglu til að afla upplýsinga um afdrif hennar. Framhaldinu lýsti áfrýjandi þannig að 12. október 2009 hefðu mennirnir haft samband símleiðis og greint frá því að konan hefði beðið þá um að ná í sig og nokkru síðar hefði verið lýst eftir henni í fjölmiðlum. Áfrýjandi kvaðst síðan hafa komist að því að hún dveldi að [...] í íbúð kunningja síns, sem var erlendis á þessum tíma. Tók áfrýjandi fram að hann hefði ekki haft neina milligöngu þar að lútandi heldur þvert á móti krafist þess að þeir kæmu þessari manneskju út úr íbúðinni. Jafnframt var áfrýjandi spurður um brunann í [...] og neitaði hann afdráttarlaust að eiga þar einhvern hlut að máli. Að lokinni þessari skýrslutöku sat áfrýjandi í gæsluvarðhaldi til 11. nóvember 2009 en þá var hann látinn laus.
Hinn 29. desember 2009 var gefin út ákæra á hendur áfrýjanda þar sem honum var, ásamt fimm öðrum mönnum sem allir eru litháískir ríkisborgarar, gefið að sök mansal gagnvart konunni sem kom til landsins 10. október sama ár. Var brotið talið varða við 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. mars 2010 var áfrýjandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins þar sem sakir hans þóttu ekki sannaðar. Dóminum var ekki áfrýjað að því leyti. Aðrir ákærðu voru hins vegar sakfelldir og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 224/2010. Allan þann tíma sem málið var til rannsóknar hjá lögreglu og meðferðar fyrir dómi var mikið um það fjallað í fjölmiðlum.
III
Áfrýjandi var vistaður í fangageymslu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík frá 20. til 22. október 2009. Hann var þá fluttur í fangageymslu lögreglunnar á Suðurnesjum en þar dvaldi hann til 29. sama mánaðar. Frá þeim degi til 7. nóvember sama ár var áfrýjandi í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík en þá var hann fluttur að Litla-Hrauni og dvaldi þar til 9. þess mánaðar. Áfrýjandi var svo aftur í fangageymslu lögreglunnar á Suðurnesjum til 11. nóvember 2009 þegar honum var sleppt úr haldi. Allan þann tíma sem áfrýjandi sat í gæsluvarðhaldi var hann í einangrun.
Í bréfi 3. nóvember 2009, sem sálfræðingur fangelsismálastofnunar ritaði verjanda áfrýjanda, kom fram að sálfræðingurinn hafi átt viðtal við áfrýjanda 1. sama mánaðar. Þar hafi meðal annars komið fram að áfrýjandi hafi greinst með [...] þremur árum fyrr og verið settur á lyf, en það verið tekið af honum við komu í fangelsið og hann settur á annað lyf sem hafi farið mjög illa í hann. Í bréfinu sagði að líðan áfrýjanda hafi verið mjög slæm og taldi sálfræðingurinn að fylgjast þyrfti vel með honum vegna [...]. Jafnframt kom fram að sálfræðingurinn hafi rætt við fangelsislækni sem hafi breytt lyfjagjöf og sett áfrýjanda aftur á það lyf sem hann hafði verið á. Sálfræðingurinn gaf út vottorð 26. nóvember 2010 þar sem lýst var andlegri líðan áfrýjanda meðan á gæsluvarðhaldinu stóð. Í vottorðinu kom fram að sálfræðingurinn hafi átt þrjú viðtöl við áfrýjanda meðan á gæsluvarðhaldinu stóð, auk þess sem hann hafi hitt áfrýjanda einu sinni eftir að hann var látinn laus. Um líðan áfrýjanda sagði að hún hafi verið slæm og hafi áfrýjandi reynt að [...], meðan á viðtali í Hegningarhúsinu 4. nóvember 2009 stóð, [...]. Þótt líðan áfrýjanda hafi batnað, að því er virtist, hafi hann verið fluttur á Litla-Hraun nokkrum dögum síðar eftir [...].
Áfrýjandi heldur því fram að gæsluvarðhaldið hafi valdið því að hann varð óvinnufær. Að beiðni lögmanns áfrýjanda gaf Björgvin Magnús Óskarsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir, út vottorð 5. nóvember 2010 vegna tímabilsins frá október 2009. Fram kom í vottorðinu að áfrýjandi hafi verið talsvert langt niðri og ólíkur sjálfum sér. Einnig sagði að mikil breyting hafi orðið á áfrýjanda sem alltaf hafi verið mjög hress og glaður, en læknirinn kvaðst hafa þekkt hann frá árinu 2006. Í vottorði sama læknis 23. maí 2012 sagði að áfrýjandi hafi „í raun [verið] óvinnufær allt árið 2010 vegna veikinda.“ Einnig hefur lögmaður áfrýjanda aflað álits Önnu Kristínar Newton, sálfræðings, á andlegri líðan áfrýjanda. Í skýrslu hennar 17. maí 2012 kom meðal annars fram að áfrýjandi ætti í miklum vanda með ýmis sálræn einkenni og sjálfsmynd hans hafi beðið verulegan hnekki í kjölfar þess að vera dreginn inn í sakamál þar sem hann hafi svo verið sýknaður. Í niðurlagi skýrslunnar sagði að þótt ekki væri hægt að fullyrða að alla þá þætti sem fram kæmu hjá áfrýjanda mætti eingöngu rekja til gæsluvarðhaldsins virtist það hafa haft afgerandi neikvæð áhrif á líf hans og valdið verulegri röskun á því og lífsgæðum hans. Var það mat sálfræðingsins að áfrýjandi væri í mun betra andlegu og líkamlegu ástandi ef hann hefði ekki verið úrskurðaður í einangrun.
IV
Svo sem rakið hefur verið var sakamál höfðað á hendur áfrýjanda þar sem honum var gefið að sök mansal gagnvart ungri konu sem kom til landsins 10. október 2009. Með dómi 8. mars 2010, sem var endanlegur gagnvart áfrýjanda, var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann væri talinn ósakhæfur. Í 2. mgr. segir síðan að dæma skuli bætur vegna ráðstafana samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Þó er settur sá fyrirvari að bætur megi fella niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Einnig er til þess að líta að réttur til skaðabóta vegna frelsissviptingar að ósekju er varinn af 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar í máli nr. 175/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 3135, verða þau fyrirmæli skýrð með hliðsjón af almennum reglum skaðabótaréttar, þar á meðal um meðábyrgð tjónþola.
Í málinu krefst áfrýjandi skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hann hann hafi orðið fyrir með því að hafa undir rannsókn málsins verið hnepptur í gæsluvarðhald og gert að sæta því í einangrun frá 21. október 2009 til 11. nóvember sama ár, auk þess sem áfrýjandi telur að hann hafi verið beittur harðræði meðan á því stóð.
Krafa áfrýjanda um fjártjón lýtur að því að hann hafi vegna gæsluvarðhaldsins orðið óvinnufær í kjölfar þess og út árið 2010. Laun hans í júní til október 2009 hafi numið 520.000 krónum á mánuði, en krafan svari til þeirrar fjárhæðar á mánuði frá 1. nóvember 2009 til ársloka 2010 og nemi því samtals 7.280.000 krónum. Í læknisvottorði Björgvins Magnúsar Óskarssonar 23. maí 2012 sagði að áfrýjandi hafi í raun verið óvinnufær vegna veikinda allt árið 2010. Ekkert var þar vikið að orsökum þessara veikinda og nánari skýringar á þeim komu ekki fram í vætti læknisins fyrir dómi að öðru leyti en því að þau hafi fyrst og fremst verið rakin til andlegrar vanheilsu. Þá sagði það eitt í skýrslu Önnu Kristínar Newton, sálfræðings, 17. maí 2012 að gæsluvarðhaldið hafi haft afgerandi neikvæð áhrif á líðan áfrýjanda og hann væri í mun betra andlegu og líkamlegu ástandi ef honum hefði ekki verið gert að sæta einangrun sem því fylgdi. Að virtum þessum gögnum er ósannað að áfrýjandi hafi orðið óvinnufær vegna gæsluvarðhaldsins og þegar af þeirri ástæðu verður krafa hans vegna tekjutaps ekki tekin til greina. Kemur því aðeins til álita hvort áfrýjandi eigi rétt til miskabóta úr hendi stefnda.
Það mansalsmál sem lögregla hóf rannsókn á 10. október 2009, þegar til landsins kom ung kona af litháísku þjóðerni, var umfangsmikið. Brotið var mjög alvarlegt og allt benti til að það væri þáttur í skipulagðri glæpastarfsemi sem teygði anga sína til annarra landa. Samhliða þessu var til rannsóknar hjá lögreglu ætluð brenna í [...] 28. ágúst sama ár og beindust grunsemdir að sömu mönnum og bornir voru sökum í mansalsmálinu.
Þegar eftir að konan kom til landsins setti áfrýjandi sig í samband við lögreglu og hélt uppi fyrirspurnum um hana. Af þessu tilefni féll grunur á áfrýjanda og því var hann yfirheyrður hjá lögreglu sem sakborningur 13. október 2009. Í þeirri skýrslu áfrýjanda kom fram að hann hafi aðeins verið að aðstoða menn sem hann þekkti mjög lítið vegna vinkonu eða kærustu einhvers þeirra. Við nánari rannsókn málsins og eftir að aflað hafði verið upplýsinga um símasamskipti áfrýjanda við þessa menn, sem voru grunaðir um að vera viðriðnir fyrrgreind brot ásamt honum, var ljóst að áfrýjandi hafði viljað gera mun minna úr samskiptum sínum við þá en nokkur efni voru til. Því var rík ástæða til að handtaka áfrýjanda 20. október 2009. Við skýrslutöku síðar um daginn hélt hann fast við fyrri frásögn sína og vildi greinilega gera eins lítið og kostur var úr samskiptum við aðra sakborninga sem hann sagðist ekki treysta. Var því jafnframt tilefni til að láta hann sæta gæsluvarðhaldi í kjölfarið. Þá upplýsti áfrýjandi ekki fyrr en 5. nóvember 2009 um vitneskju, sem hann bjó yfir, um dvalarstað konunnar í íbúð kunningja síns eftir að hún hafði um skeið horfið úr umsjá lögreglu og félagsmálayfirvalda. Áfrýjandi hafði þó beinlínis verið spurður um það við skýrslutöku 23. október sama ár hvort hann ætti einhvern hlut að máli með því að finna húsnæði fyrir konuna. Að sama skapi greindi hann ekki frá þessari vitneskju sinni í skýrslutöku 27. sama mánaðar þegar hann sagði frá því að einn sakborninga hefði beðið sig um að útvega húsnæði. Í bæði skiptin var augljóst tilefni fyrir áfrýjanda að greina lögreglu þá þegar frá því sem hann vissi um dvalarstað konunnar í íbúð kunningja síns.
Við skýrslutöku hjá lögreglu var áfrýjanda óskylt að svara spurningum um þá refsiverðu hegðun sem honum var gefin að sök, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt gat það ekki varðað hann refsingu þótt hann greindi rangt frá málavöxtum, sbr. 1. mgr. 143. gr. almennra hegningarlaga. Þrátt fyrir þetta bar áfrýjanda að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kynni að skipta kysi hann á annað borð að tjá sig, sbr. 3. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Eins og málið lá fyrir, eftir að grunur féll á áfrýjanda í kjölfar þess að hann hélt uppi fyrirspurnum hjá lögreglu um konu sem allt benti til að væri fórnarlamb mansals, var mjög brýnt að hann skýrði greinilega og undanbragðalaust frá öllum samskiptum sínum við aðra sakborninga og mátti honum vera ljóst mikilvægi þess. Að virtri framgöngu áfrýjanda í aðdraganda þess að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og í framhaldi af því verða honum ekki dæmdar bætur fyrir að hafa í öndverðu sætt gæsluvarðhaldi þar sem hann sjálfur hafði með háttsemi sinni stuðlað að þeirri aðgerð, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Eftir að áfrýjandi hafði hins vegar 5. nóvember 2009 skýrt frá vitneskju sinni um dvalarstað konunnar verður að líta svo á, eins og málið horfði við á því tímamarki, að þáttur hans hafi að mestu leyti verið upplýstur og því hafi ekki verið efni til að halda honum í gæsluvarðhaldi allt til 11. sama mánaðar, eins og gert var.
Samkvæmt framansögðu á áfrýjandi rétt til miskabóta fyrir að hafa setið nokkru lengur í gæsluvarðhaldi en efni voru til. Jafnframt er þess að gæta að breyting var gerð á lyfjagjöf hans við upphaf gæsluvarðhaldsins þegar hann var tekinn af lyfi sem hann hafði fengið við [...]. Samkvæmt fylgiseðli lyfsins með upplýsingum fyrir notendur þess getur það valdið fráhvarfseinkennum ef skyndilega er hætt að taka lyfið. Eftir að áfrýjandi hafði kvartað undan slíkum einkennum við sálfræðing í viðtali 1. nóvember 2009 og sálfræðingurinn rætt við lækni fangelsisins í kjölfarið mun lyfjagjöf hafa verið breytt aftur í fyrra horf. Áður hafði verjandi áfrýjanda gert athugasemd við skýrslutöku 23. október 2009 þess efnis að áfrýjandi hefði ekki fengið nauðsynlega læknisþjónustu. Þrátt fyrir beint tilefni vegna málatilbúnaðar áfrýjanda hefur stefndi ekki aflað læknisfræðilegra gagna um lyfjagjöf og aðra læknisþjónustu sem áfrýjanda var veitt. Því verður að leggja til grundvallar að aðbúnaður hans í gæsluvarðhaldinu hafi verið ófullnægjandi að þessu leyti. Ber að líta til þessa við ákvörðun miskabóta. Hins vegar hefur áfrýjandi ekki fært sönnur á að hann hafi sætt harðræði meðan á gæsluvarðhaldinu stóð. Samkvæmt þessu þykja miskabætur til áfrýjanda hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og verður stefnda gert að greiða honum þá fjárhæð með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Verða vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 reiknaðir frá 5. nóvember 2009, en dráttarvextir frá þingfestingu málsins í héraði í samræmi við kröfu áfrýjanda.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda verður staðfest en um málskostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði segir.
Það athugast að í hinum áfrýjaða dómi skortir á að gerð sé grein fyrir frásögn áfrýjanda við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi og að rakin séu önnur gögn sem hafa áhrif við úrlausn málsins. Þá eru stefna og greinargerð tekin upp í héraðsdóm í heild sinni í stað þess að dómari lýsi sjálfstætt málavöxtum og málatilbúnaði aðila í helstu atriðum, sbr. d. og e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Sigurjóni G. Halldórssyni, 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. nóvember 2009 til 30. júní 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda eru staðfest.
Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 7. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurjóni Halldórssyni, kt. [...], Hvammsgerði 1, Reykjavík, með stefnu, birtri 30. júní 2011, á hendur íslenzka ríkinu vegna ríkissjóðs Íslands, kt. [...], Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur, að fjárhæð kr. 17.280.000, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 20.10. 2009 til 30.06. 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og leggist vextir við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 20.10. 2010, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að álitum, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 20.10. 2009 til 30.06. 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og leggist vextir við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 20.10. 2010, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Í báðum tilvikum er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, samkvæmt mati dómsins, auk 15,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafizt, að krafa stefnanda verði lækkuð stórkostlega og málskostnaður felldur niður.
II
Málavextir
Þann 13.10. 2009 var stefnandi boðaður til yfirheyrslu hjá lögreglunni í Reykjavík sem sakborningur í tengslum við meint mansalsmál, en stefnandi hafði hringt til lögreglu til þess að spyrjast fyrir um afdrif litháiskrar stúlku, sem talin var geta verið fórnarlamb mansals. Var stefnanda sleppt að lokinni yfirheyrslu. Hinn 20.10.2009 var hann handtekinn fyrir utan heimili sitt og úrskurðaður í gæzluvarðhald næsta dag, að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum, til 28.10. 2009, vegna meintrar aðildar að mansalsmálinu, en ætlað brot hans var talið varða við 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var honum jafnframt gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.
Hinn 28.10. 2009 var stefnandi að kröfu lögreglustjórans úrskurðaður til áframhaldandi einangrunarvistar til 4.11. 2009 á grundvelli meints brots á alm. hgl. einkum 227. gr.a og 248. gr. almennra hegningarlaga.
Hinn 4.11. 2009 gerði lögreglustjórinn enn kröfu um einangrunarvist og nú til 18.11. 2010. Var ekki á það fallizt, en stefnandi úrskurðaður til áframhaldandi einangrunarvistar, nú á grundvelli meints brots gegn 227. gr. og 248. gr. alm. hgl. til 11.11. 2009. Þann dag var stefnandi leystur úr haldi. Í öllum tilvikum var krafa lögreglustjórans um einangrunarvist reist á a-lið 1. mgr. 95. gr. l. 88/2008 um meðferð sakamála, en hinn 4.11. 2009 var að auki vísað til vara í d-lið 95. gr. s.l.
Stefnandi var vistaður í fangageymslu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu frá 20.-22.10. 2009, en þann dag var hann fluttur í fangageymslu hjá lögreglunni á Suðurnesjum og var þar til 29.10. 2009, er hann var færður í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík. Hinn 7.11. 2009 var hann fluttur á Litla Hraun og dvaldist hann þar til 9.11. 2009, er hann var fluttur á ný til lögreglunnar á Suðurnesjum, þar sem hann var í haldi til 11.11. 2009.
Sama dag og stefnandi var handtekinn var [...], A einnig handtekin við [...] að [...], Reykjavík. Var tekin af henni skýrsla auk þess sem framkvæmd var húsleit í tvígang á [...] að [...]. Var A sleppt úr haldi seinna sama dag. Þá var einnig framkvæmd húsleit á starfsstöð stefnanda að [...] í [...] og [...] í [...] og enn fremur í bifreiðum stefnanda.
Hinn 29.12. 2009 var gefin út ákæra á hendur stefnanda. Hinn 8. marz 2010 gekk héraðsdómur í málinu, nr. S-1064/2009, og var stefnandi sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og allur málskostnaður og sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Mál þetta vakti mikla athygli fjölmiðla, og kveðst stefnandi hafa mátt þola neikvæða og níðingslega umfjöllun í fjölmiðlum meðan á gæzluvarðhaldsvist hans stóð og að henni lokinni. Þá hafi ítrekað gæzluvarðhald og einangrun verið stefnanda mikið áfall, einkum þar sem hann hafi átti við [...] að etja, sem hafi lýst sér í [...]. Meðan á gæzluvarðhaldsvistinni stóð hafi lyf þau, sem hann hafi þurft skv. læknisráði verið tekin af honum og honum neitað um þau. [...] Frá útgáfu ákæru og allt til þess að hann var sýknaður í héraðsdómi hafi hann legið óvinnufær innilokaður heima hjá sér í sinnuleysi og þunglyndi. Hafi hann verið algjörlega ófær um að reka fyrirtæki sín, SR Holdings ehf., sem hafi hrunið á þessum tíma, og enn fremur SR Eignir ehf. Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum hafi lagt hald á fjárreiður SR Eigna ehf. þann 23.10. 2009, sem hafi staðið til 16.12. 2009, þegar lögreglustjóri hafi beitt sér fyrir því, að Vátryggingarfélag Íslands hf. kyrrsetti innstæðu félagsins í Arion banka hf. um leið. Kyrrsetning VÍS hf. hafi síðan verið felld úr gildi hinn 10.02. 2010.
Á sama tíma og stefnandi var handtekinn hafi [...], B, verið handtekinn og settur í gæzluvarðhald. Hafi honum verið borið á brýn að eiga þátt í því að kveikja í húseign SR Eigna ehf. að [...] í [...] ásamt stefnanda í því skyni að svíkja út tryggingarfé vegna eignarinnar.
Þessar ásakanir hafi reynzt rangar og hafi Hæstiréttur fellt úr gildi varðhaldsúrskurð yfir B í málinu nr. [...].
Í október 2010 kveðst stefnandi hafa hafizt handa við enduruppbyggingu rekstur síns, án árangurs. Hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota í desember 2010.
Stefndi mótmælir málavaxtalýsingu stefnanda að því leyti, sem hún er í ósamræmi við það, sem stefndi heldur fram í málinu, m.a. því að gæzluvarðhald stefnanda og einangrunarvist hafi verið tilefnislaus, að lögregluyfirvöld hafi verið með aðdróttanir á hendur stefnanda í fjölmiðlum, að stefnanda hafi verið neitað um nauðsynleg lyf, auk þess sem lýsingar stefnanda á líðan sinni og afleiðingum gæzluvarðhaldsins séu ósannaðar.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi krefst skaða- og miskabóta fyrir þá 22 daga, sem hann var í einangrunargæzluvarðhaldi og þurfti að þola frelsissviptingu og nemur miskabótakrafa hans vegna þess kr. 10.000.000. Þá gerir stefnandi kröfur um skaðabætur vegna fjártjóns, sem hann kveðst hafa orðið fyrir og sé bein og óbein afleiðing af einangrunargæzluvarðhaldinu, kr. 7.280.000. Þá krefst hann vaxta frá upphafi gæzluvarðhalds. Til vara krefst hann bóta að álitum.
Miskabætur:
Kröfu sína um miskabætur reisir stefnandi á því, að hann hafi verið beittur harðræði og orðið fyrir tjóni, bæði líkamlegu og andlegu vegna einangrunargæzluvarðhaldsins. Hafi það úrræði verið tilefnislaust og rangt. Aldrei hafi legið fyrir gögn, sem fellt gætu á hann sök í umræddu sakamáli. Um sé að ræða alvarlega aðför af hálfu lögreglu, óréttmæta handtöku og óréttmæta gæzluvarðhaldsúrskurði, sbr. dskj. nr. 27. Stefnandi vísi til 67. gr. stjsk. nr. 33/1944, þar sem kveðið sé á um, að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Eigi það stoð í 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um, að allir menn eigi rétt til frelsis og mannhelgi o.fl.
Í máli þessu liggi fyrir, að stefnandi hafi verið úrskurðaður í einangrun í gæzluvarðhaldi í 22 daga. Úrskurðir hafi ítrekað verið kveðnir upp og því ávallt borið við af hálfu rannsakanda, að stórfelldir rannsóknarhagsmunir krefðust þess, að stefnandi sætti einangrun. Nýjar ástæður hafi sífellt verið tilgreindar, svo sem mansal, peningaþvætti, íkveikjur, handrukkanir, tryggingasvik o.fl. Allar ávirðingar þessar hafi verið tilhæfulausar með öllu, en rannsakandi hafi ítrekað lagt fram slíkar ávirðingar og meiningar gagngert til þess að geta haldið stefnanda í einangrun í gæzluvarðhaldinu. Verði að telja augljóst, að skilyrði 1. og 2. mgr. 95.gr. l. nr. 88/2008 hafi ekki verið uppfyllt með framgangi rannsakanda, sbr. einnig 2. ml. 1. mgr. 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Vísist til dskj. nr. 9, 10 og 11 þar að lútandi.
Stefnandi hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð og eigi það bæði við um gæzluvarðhaldsúrskurði og framgöngu rannsakanda og lögreglu undir rannsókn málsins. Eigi það við um tilbúnar og rangar „upplýsingaskýrslur“, sbr. dskj. nr. 58 og 59, og enn fremur dskj. nr. 60, sem sé úr yfirheyrslu lögreglustjóra fyrir héraðsdómi. Hafi framganga rannsakanda haft í för með sér ónærgætna umfjöllun í fjölmiðlum, þar sem stefnandi hafi mátt þola mynd- og nafnbirtingu, sem leitt hafi til mannorðsmissis og alvarlegrar röskunar á högum og atvinnumöguleikum, sbr. dskj. nr. 54 og 55. Telji stefnandi, að ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjskr. hafi verið brotin, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Enda þótt rannsókn svokallaðs mansalsmáls hafi verið umfangsmikil, liggi fyrir, að gögn, sem beinist að stefnanda, sýni afdráttarlaust, að fráleitt hafi verið og varhugavert að álykta, að hann væri viðriðinn málið. Það að stefnandi hafi gert fyrirspurn hjá lögreglu að beiðni annarra um erlenda stúlku undir fullu nafni og kennitölu úr eigin síma geti ekki verið tilefni til þeirrar meðferðar, sem hann hafi hlotið af hálfu lögreglu. Ekki hafi verið um neina leynd að tefla, og afdráttarlausar skýringar stefnanda á umræddu símtali hafi tekið af allan vafa um, að hann væri ekkert viðriðinn það ákæruefni, sem beinzt hafi að hinum erlendu aðilum. Þá sé ljóst, að einangrunarvistun stefnanda, reist á þeim grundvelli að „stórfelldir rannsóknarhagsmunir væru í húfi“, eða að stefnandi gæti haft áhrif á rannsókn málsins, ef hann væri frjáls, hafi verið út í hött og beinlínis fjarstæðukenndar. Þeir menn, sem sætt hafi rannsókn og verið ákærðir í kjölfar rannsóknar lögreglu, hafi sjálfir verið í einangrunargæzluvarðhaldi allan þann sama tíma og stefnandi og því augljóst, að stefnandi hafi engin áhrif getað haft á þá aðila, eins og reynt sé að halda fram af hálfu rannsakanda. Ljóst verði að telja, að meðalhófs hafi ekki verið gætt, eins og skilyrt sé í 3. mgr. 71. gr. stjskr. nr. 33/1944. Í meðalhófsreglu felist, að beita skuli vægasta úrræði, sem hafi í þessu tilviki augljóslega falizt í skýrslutökum yfir stefnanda, en alls ekki með innilokun í einangrun í fangaklefa, eins og gert hafi verið. Þá verði að telja, að 3. mgr. 67. gr. stjskr. nr. 33/1944 hafi verið brotin, en afdráttarlaust sé, að stefnandi hafi verið látinn sæta gæzluvarðhaldi að tilefnislausu.
Stefnandi hafi sætt ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í einangrunargæzluvarðhaldi, meðal annars vegna þess að lífsnauðsynleg lyf hafi strax við handtöku verið tekin af honum, þrátt fyrir mótmæli stefnanda sjálfs. Um það vísist til dskj. nr. 18 og 52. Sem afleiðingu af því hafi hann verið beittur líkamlegu harðræði í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Afleiðingar af einangrunarvistinni og ekki sízt því, að hann hafi verið sviptur lyfjum sínum, hafi leitt til þess, [...], sjá dskj. nr. 13, 19, 27 og 28. Verði að líta til þessa og telja, að meðferð á stefnanda fari gegn 1. mgr. 68. gr. stjskr. nr. 33/1944 og sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Eigi þetta einkum við, þar sem einstaklingar séu sviptir frelsi, eins og hér hátti til.
Í 71. gr. stjskr. sé friðhelgi einkalífs, heimili og fjölskyldu varin, og sé það áréttað í 12. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ. Eigi það einnig stoð í 17. gr. samnings um borgaraleg réttindi, að enginn skuli þurfa að þola ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu eða heimili, eða ólögmætar árásir á heiður og mannorð sitt. Stefnandi telji, að á honum hafi verið brotið að þessu leyti.
Skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefnda vegna frelsissviptingar sé reist á 5. mgr. 67. gr. stjsk. nr. 33/1944, en stefnandi hafi verið sviptur frelsi að ósekju, og eigi hann þá rétt til skaðabóta. Í 228. gr. laga nr. 88/2008 sé kveðið á um, að maður, sem borinn hafi verið sökum í sakamáli, eigi rétt til bóta, hafi hann verið sýknaður með endanlegum dómi. Enn fremur skuli, skv. 2. mgr. 228. gr. s.l., dæma bætur vegna aðgerða, sbr. IX.-XIV. kafla l. nr. 88/2008, sem eru úrræði í þágu rannsóknar máls s.s. haldlagning á eigum, hleranir á símum, upplýsingar hjá símafyrirtækjum og fjarskiptafyrirtækjum, húsleitir, röskun á friðhelgi, stöðu og heimilishögum o.fl. þvingunarúrræði. Öllum þessum úrræðum hafi verið beitt gegn stefnanda, hvoru tveggja að tilefnislausu og með röngum hætti, en rannsókn málsins hafi einkennzt af vandræðagangi og ótta við, að sá mikli tilkostnaður, sem orðið hafi af rannsókninni, myndi ekki leiða til neinnar niðurstöðu eða sakfellingar. Ljóst verði að telja, að stefnandi hafi goldið þess, að rannsakandi hafi farið offari í aðgerðum sínum og með yfirlýsingum í fjölmiðlum.
Ekki séu efni til að lækka bætur eða fella þær niður, enda hafi stefnandi ekkert tilefni gefið til þeirra aðgerða lögreglu, sem að honum hafi beinzt.
Skaðabætur:
Stefnandi reisi skaðabótakröfu sína á því, að hann hafi setið saklaus í fangelsi í 22 daga vegna rangra sakargifta, og ekkert lögmætt tilefni hafi verið til þess að hneppa hann í einangrunargæzluvarðhald. Frelsissvipting sé alvarlegt inngrip í frelsi borgara. Stefnandi hafi þurft að þola að vera hnepptur í gæzluvarðhald, án þess að hafa brotið af sér og án þess að rökstuddur grunur eða næg stoð væri fyrir hendi til að slíkur grunur félli á stefnanda.
Afleiðing af aðgerðum lögreglu hafi valdið stefnanda miklu fjártjóni. Stefnandi geri kröfu vegna atvinnutjóns, en hann hafi orðið algjörlega óvinnufær frá 20. október 2009 og út árið 2010. Laun stefnanda hafi verið kr. 520.000 á mánuði frá júní til október á árinu 2009, en að viðbættum veikindadögum, sem greiddir hafi verið út í október 2009, og fæðingarorlofi, hafi heildarlaun stefnanda 1. janúar til 31. október 2009 numið kr. 3.745.778, en engin laun hafi verið frá 31. október 2009 til ársloka 2010. Vísist til framlagðra gagna, sbr. dskj. nr. 56, 57 og 68 þar að lútandi.
Eins og fram sé komið, hafi stefnandi verið launalaus allt árið 2010 af völdum einangrunarvarðhaldsvistarinnar og afleiðinga hennar. Vísist til læknisvottorða þar að lútandi, hvoru tveggja varðandi heilsufar og óvinnufærni. Krafa þar að lútandi frá október 2009 til desember 2010 nemi kr. 7.280.000, en miðað sé við mánaðarlaun kr. 520.000 frá 1. nóvember 2009 til 31. desember 2010.
Verði ekki fallizt á aðalkröfu stefnanda, sé höfð uppi varakrafa, og komi þá til skoðunar fyrir dóminn að taka tillit til þess tjóns, sem stefnandi hafi orðið fyrir, hvoru tveggja miska og fjártjóns, og dæma stefnanda miska- og skaðabætur að álitum.
Mál þetta sé sótt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem er varnarþing ríkissjóðs.
Stefnandi vísi til laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, XXXVII. kafla einkum 228. og 230. gr. Þá vísist til 5. mgr. 67. gr. stjsk. 33/1944, laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og almennra skaðabótareglna. Enn fremur vísi stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum XXI. kafla laganna, varðandi málskostnað, sbr. einnig 230. gr. laga nr. 88/2008. Vísað sé til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.
Málsástæður stefnda
Stefndi mótmælir þeim málsástæðum stefnanda, að hann hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð og það eigi við bæði um gæzluvarðhaldsúrskurði og framgöngu rannsakenda og lögreglu undir rannsókn málsins og tilbúnar og rangar „upplýsingaskýrslur“, sbr. dskj. nr. 58 og 59 og dskj. 60. Þá er því mótmælt, að framganga rannsakanda hafi haft í för með sér ónærgætna umfjöllun í fjölmiðlum, þar sem stefnandi hafi mátt þola mynd- og nafnbirtingu, sem leitt hafi til mannorðsmissis og alvarlegrar röskunar á högum og atvinnumöguleikum og að ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið brotin.
Á því sé byggt af hálfu stefnda, að stefnandi hafi fengið réttláta málsmeðferð og sé öðru mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Stefndi geti ekki borið ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla.
Í stefnu, neðst á bls. 6, sé fullyrt, að enda þótt rannsókn svokallaðs mansalsmáls hafi verið umfangsmikil, liggi fyrir, að gögn, sem beinzt hafi að stefnanda, hafi afdráttarlaust sýnt, að fráleitt hafi verið og varhugavert að álykta, að hann væri viðriðinn málið. Stefndi mótmæli þessari fullyrðingu.
Umfjöllun stefnanda, efst á bls. 7 og áfram í stefnu, um rannsóknarhagsmuni o.fl., sé mótmælt, og því sé mótmælt, að rökstuðningur/skýringar fyrir þvingunaraðgerðum lögreglu hafi verið fjarstæðukenndar. Því sé mótmælt, að meðalhófs hafi ekki verið gætt. Því sé mótmælt, að brotið hafi verið gegn 3. mgr. 71. gr. og 3. mgr. 67 gr. stjórnarskrár.
Því sé mótmælt, að stefnandi hafi sætt ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í einangrunargæzluvarðhaldi. Ósannað sé, að lífsnauðsynleg lyf hafi verið tekin af stefnanda strax við handtöku, þrátt fyrir mótmæli hans sjálfs. Þetta atriði sé algerlega ósannað að mati stefnda en sönnunarbyrðin fyrir þessari staðhæfingu hvílir á stefnanda. Stefnandi byggi á því í stefnu, að hann hafi verið beittur líkamlegu harðræði í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Þessum fullyrðingum sé mótmælt.
Í stefnu sé eftirfarandi fullyrðing: „Afleiðingar af einangrunarvistinni og ekki sízt því að hann var sviptur lyfjum sínum leiddi til þess að hann [...], sjá dskj. nr. 13, 19, 27 og 28.“ Stefndi mótmæli þessari fullyrðingu og telji hana ósannaða.
Því sé mótmælt, að meðferð á stefnanda hafi farið gegn 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefnandi byggi á því í stefnu, að brotið hafi verið á honum með vísan til 71. gr. stjórnarskrár og vísan til 12. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ, en einnig sé vísað til 17. gr. samnings um borgaraleg réttindi. Stefndi mótmæli þessu.
Skaðabótakröfu sinni til stuðnings vísi stefnandi til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár og 228. gr. laga nr. 88/2008, m.a. til 2. mgr., og vísi til þvingunarúrræða og telji, að úrræðum, sem þar sé lýst, hafi verið beitt gegn sér að tilefnislausu og með röngum hætti og telji, að rannsóknin hafi einkennzt af vandræðagangi og ótta við að sá mikli tilkostnaður, sem orðið hafi af rannsókninni, myndi ekki leiða til neinnar niðurstöðu eða sakfellingar. Stefnandi telji ljóst, að hann hafi goldið þess, að rannsakandi hafi farið offari í aðgerðum sínum og með yfirlýsingum í fjölmiðlum. Stefndi telji, að stefnandi eigi ekki rétt til bóta í þessu máli, hvorki samkvæmt stjórnarskrá, lögum nr. 88/2008 né öðrum réttarheimildum. Öllum framangreindum sjónarmiðum og málsástæðum sé mótmælt.
Stefnandi byggi skaðabótakröfu sína vegna meints fjártjóns m.a. á því, að ekkert lögmætt tilefni hafi verið til að hneppa hann í einangrunargæzluvarðhald. Stefndi mótmæli þessu. Þá sé því mótmælt, að stefnandi hafi þurft að þola að hafa verið hnepptur í gæzluvarðhald, án þess að rökstuddur grunur væri fyrir hendi, eða næg stoð hafi verið fyrir því að slíkur grunur félli á hann.
Meint fjártjón stefnanda sé algerlega ósannað, og sé kröfu stefnanda og rökstuðningi fyrir henni mótmælt að öllu leyti.
Fram komi í stefnu, að afleiðing af aðgerðum lögreglu hafi valdið stefnanda miklu fjártjóni. Stefnandi byggi kröfu sína m.a. á því, að hann hafi orðið fyrir atvinnutjóni og verið algjörlega óvinnufær frá 20. október 2009 og út árið 2010. Í stefnu séu laun miðuð við ákveðið tímabil 2009. Kröfum stefnanda sé öllum mótmælt. Þær séu vanreifaðar og að auki algerlega ósannaðar. Forsendum, útreikningum, viðmiðunum og fjárhæð launa sé mótmælt að öllu leyti. Stefndi telji, að stefnandi eigi enga kröfu samkvæmt þessum lið. Í þessu sambandi sé m.a. bent á þá skyldu þess, sem telji sig verða fyrir tjóni, að reyna að takmarka tjón sitt.
Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu, sem bótakröfu hans viðkomi, m.a. um sök, ólögmæti, sennilega afleiðingu, orsakasamband o.fl., og sé slíkt samband ósannað.
Stefnandi hafi, með ákæruskjali ríkissaksóknara, dagsettu 29. desember 2009, verið ákærður, ásamt fimm erlendum mönnum, fyrir aðild að broti gegn 1. tl. 1. mgr. 227. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. gr. laga nr. 40/2003, en til vara sama ákvæði sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Rannsókn málsins hafi hafizt í október 2009 og verið mjög viðamikil. Í ákæru ríkissaksóknara hafi þáttur stefnanda verið talinn sá að hafa útvegað húsnæði í [...], þar sem brotaþoli í mansalsmálinu hafi verið hýstur í tvo daga í október 2009. Sé ljóst, að ríkissaksóknari hafi metið það svo, skv. reglum 145. gr. laga nr. 88/2008, að það, sem fram væri komið við rannsóknina, hvað varðaði þátt stefnanda, væri nægilegt eða líklegt til sakfellis.
Rannsókn málsins, hvað stefnanda varði, hafi ekki eingöngu lotið að meintum þætti hans í mansalsbrotinu, heldur einnig að meintum tryggingasvikum, en stefnandi hafi ekki verið ákærður fyrir þann þátt málsins. Vísist að öðru leyti til gagna málsins.
Ljóst sé, að dómstólar, bæði Héraðsdómur Reykjaness og Hæstiréttur, sem hafi úrskurðað og dæmt stefnanda til að sæta gæzluvarðhaldi, hafi talið nægilega sterkan og rökstuddan grun fyrir hendi fyrir þeirri niðurstöðu. Vísist í þessu sambandi til dæmis til rökstuðnings Hæstaréttar í dómi 3. nóvember 2009 í máli nr. 627/2009. Þá sé vísað til rökstuðnings lögreglustjóra fyrir gæzluvarðhaldskröfum í málinu, en stefnandi hafi þótt gefa ótrúverðugar skýringar um sinn þátt í ætluðum brotum; skýringar, sem hafi þótt stangast á við önnur gögn í málinu, m.a. upplýsingar um símanotkun, sem aflað hafi verið í þágu rannsóknarinnar. Sérstaklega skuli nefnt, að stefnandi hafi ekki strax gefið lögreglu upplýsingar, sem lögregla hafi talið hann búa yfir um íbúðina í [...], þar sem brotaþoli mansalsins hafi verið hýstur og telji stefndi ljóst, að með tregðu sinni við að upplýsa rannsóknaraðila hafi stefnandi sjálfur stuðlað að eða valdið því, hve lengi gæzluvarðhaldsvist hans stóð.
Hinir fimm erlendu menn, sem ákærðir hafi verið ásamt stefnanda, hafi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. marz 2010, verið sakfelldir, en stefnandi hafi verið sýknaður. Fimmmenningarnir hafi síðan, með dómi Hæstaréttar 16. júní 2010, verið sakfelldir og dæmdir til refsingar, en ríkissaksóknari hafi ekki áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, hvað stefnanda varðaði.
Rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi um aðild stefnanda að málinu. Vísist í því sambandi til gagna málsins og þeirrar staðreyndar, að stefnandi hafi verið ákærður. Því sé mótmælt, að ekki hafi verið skilyrði til aðgerða lögreglu í málinu og á því byggt, að aðgerðir lögreglu hafi verið nauðsynlegar og nægt tilefni til þeirra.
Meðal lögbundinna hlutverka lögreglu samkvæmt 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sé að vinna að uppljóstrun brota og fylgja málum eftir í samræmi við það, sem kveðið sé á um í lögum um meðferð opinberra mála og öðrum lögum. Þá vísist einnig til laga nr. 88/2008.
Um hafi verið að ræða mjög umfangsmikla rannsókn, þar sem sakarefni hafi verið alvarlegt.
Á því sé byggt af hálfu stefnda, að lögregla hafi staðið eðlilega að öllum þáttum rannsóknar, en einnig að vistun stefnanda, og sé á því byggt, að vel hafi verið farið með stefnanda, og að hann hafi fengið þá þjónustu, sem hann hafi þurft á að halda, og sé öðru mótmælt sem röngu. Brugðizt hafi verið við vanda stefnanda í gæzluvarðhaldi um leið og hann hafi komið upp. Það komi fram í gögnum, sjá t.d. dskj. nr. 3 og 18, að stefnandi hafi átt við veikindi að stríða nokkrum árum áður en mál þetta kom upp. Telji stefndi, að ekkert sé fram komið um, að stefnandi hafi sætt neins konar harðræði í gæzluvarðhaldi eða við rannsóknaraðgerðir lögreglu í málinu, eins og stefnandi gefi í skyn í skjölum, sem hann hafi lagt fram, sjá t.d. dskj. nr. 27. Ítrekað sé, að stefnandi hafi fengið nauðsynlega sálfræði- og læknisþjónustu, meðan hann sætti gæzluvarðhaldi, sbr. skjöl, sem hann leggi sjálfur fram. Þá hafi hann fengið þjónustu prests og einnig heimsókn eiginkonu sinnar, meðan á einangrun í gæzluvarðhaldi stóð.
Á því sé byggt, að stefnanda hafi ekki verið haldið lengur en nauðsynlegt var. Á því sé byggt, að allar aðgerðir lögreglu og yfirvalda hafi verið löglegar og nauðsynlegar og að fullt tilefni hafi verið til þeirra og þær ekki gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið.
Ætla verði lögreglu lágmarks svigrúm til rannsóknar mála. Ósannað sé með öllu, að atvinnumöguleikar stefnanda séu skertir.
Byggt sé á því, að lögregla hafi nýtt tímann vel til rannsóknar málsins, meðan stefnandi var í gæzluvarðahaldi.
Stefndi mótmæli því, að stefnandi eigi rétt til bóta. Þannig sé mótmælt bæði miskabótakröfu og skaðabótakröfu vegna meints fjártjóns, en fjártjónskrafa sé vanreifuð og óskýr, og sé henni mótmælt að öllu leyti. Að mati stefnda hafi verið fullt tilefni til rannsóknaraðgerða og beitingar þvingunarúrræða gagnvart stefnanda; lögmæt skilyrði hafi verið fyrir hendi vegna allra aðgerða lögreglu, og lögregla hafi gætt þess meðalhófs, sem henni hafi borið að gæta hverju sinni miðað við stöðu rannsóknarinnar.
Stefnandi hafi ekki sannað, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra atriða, sem hann byggi mál sitt á, en hann hafi sönnunarbyrði fyrir öllu, sem bótakröfu hans viðkomi.
Stefndi byggi á því, að ekki sé fullnægt skilyrðum XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 til að dæma megi bætur og þannig hvorki fullnægt skilyrðum 228. né 230. gr. Stefndi byggi á því, að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisi kröfu sína á og eigi því ekki rétt á bótum sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Á því sé m.a. byggt, að framburður stefnanda hafi á köflum verið ruglingslegur. Þá sé á það bent, að stefnandi hafi haft samband við lögreglu og spurzt fyrir um konuna. Þá hafi mikil símasamskipti við einhverja meðákærðu þótt grunsamleg. Þá hafi stefnandi um síðir vísað lögreglu á íbúð fyrir stúlkuna að [...], en hann hafi haft lykla að íbúðinni. Fram komi á dskj. nr. 59, að þegar Litháarnir hafi beðið stefnanda að útvega íbúð fyrir stúlkuna, hafi hann leyft þeim að fara með hana í umrædda íbúð. Þá virðist stefnandi hafa þekkt alla þá, sem dæmdir hafi verið, og að þeir hafi allir unnið hjá honum. Framangreint sé ekki endanleg upptalning atriða um þessa málsástæðu.
Stefndi vísi að öðru leyti til gagna málsins, m.a. til skýrslna, sem teknar hafi verið af stefnanda og til rannsóknargagna að öðru leyti, svo og beiðna lögreglu um þvingunarráðstafanir.
Málskostnaðarkrafa sé reist á 130. gr. 1.mgr. laga nr. 91/1991.
Varakröfu stefnanda um bætur að álitum sé mótmælt. Fráleitt sé t.d., að hægt sé að dæma vanreifaða fjártjónskröfu að álitum.
Til vara krefjist stefndi þess, að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórkostlega og málskostnaður felldur niður.
Krafa stefnanda um bætur sé margfalt hærri en dæmi séu um, að dæmdar hafi verið í málum af þessum toga. Ekki sé með neinum hætti unnt að gera lögreglu eða ríkið ábyrgt fyrir því, að fjölmiðlar fjalli um mál, eða fyrir því, hvernig fjölmiðlar fjalli um mál. Lögregla og ákæruvald stýri ekki fjölmiðlaumfjöllun.
Vegna varakröfu vísi stefndi til allra sömu málsástæðna og sjónarmiða og fram komi hér að framan varðandi aðalkröfu.
Öllum kröfuliðum sé mótmælt, en verði einhver þeirra tekinn til greina, sé á það bent, að kröfur þær, sem stefnandi setji fram, séu ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd, og hver einstakur kröfuliður sé allt of hár.
Miskabótakrafa vegna handtöku og gæzluvarðhalds sé allt of há og ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd. Kröfu þessari sé mótmælt sem allt of hárri.
Krafa um meint fjártjón sé algerlega vanreifuð og ósönnuð og sé henni mótmælt að öllu leyti, m.a. sem allt of hárri. Stefnandi miði við allt of langt tímabil, og sé þess krafizt, að það verði stytt verulega. Þá sé viðmiðunartekjum á mánuði mótmælt sem allt of háum. Verði fallizt á kröfu stefnanda um bætur vegna fjártjóns, sé þess krafizt, að allar tekjur, sem stefnandi hafi haft á viðmiðunartíma bóta, komi til frádráttar bótakröfu hans.
Með vísan til sömu sjónarmiða og raka og fram komi varðandi aðalkröfu, telji stefndi að lækka eigi bætur, þar sem stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisi kröfu sína á, sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Kröfur stefnanda hafi fyrst komið fram með stefnu. Fallist dómurinn á að dæma dráttarvexti, sé á því byggt, að þeir geti fyrst byrjað að falla á mánuði eftir birtingu stefnu í málinu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi sem og vitnin Anna Kristín Newton sálfræðingur, A, [...], B [...], Magnús Páll Ragnarsson fangavörður, Björgvin Magnús Óskarsson svæfingalæknir, Guðmundur Benediktsson lögreglufulltrúi og Þórarinn Viðar Hjaltason sálfræðingur.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi verið beittur harðræði, andlegu og líkamlegu, vegna gæzluvarðhalds, þar sem honum hafi verið haldið í einangrun. Hafi verið um að ræða óréttmæta handtöku og gæzluvarðhaldsúrskurði án tilefnis.
Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir bótakröfu sína á.
Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX-XIV kafla laganna, séu skilyrði 1. mgr. fyrir hendi, þ.e. að maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, hafi verið sýknaður með endanlegum dómi eða málið fellt niður. Þó má fella niður bætur eða lækka þær, hafi hann valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 8. marz 2010 í máli nr. S-1064/2009 var stefnandi sýknaður af aðild að svokölluðu mansalsmáli, en það mál og meint tengsl stefnanda við það, var tilefni handtöku og síðan gæzluvarðhalds stefnanda, sem hér er deilt um. Við rannsókn málsins hafði stefnandi réttarstöðu sakbornings og var meint brot hans einkum talið varða við 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í framburðarskýrslum stefnanda, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, annars vegar í sakamálinu og hins vegar í máli þessu, sem hér er til úrlausnar, gerir stefnandi lítið úr tengslum sínum við þá Litháa, sem komu að mansalsmálinu, enda þótt í ljós hafi komið, þegar leið á skýrslutökurnar, að tengslin voru töluvert meiri en stefnandi vildi vera láta. Þá eru allar skýringar stefnanda á tengslum sínum við mennina á reiki og lítt trúverðugar. Þannig bar stefnandi hjá lögreglu hinn 20. október 2009, að hann kannaðist aðeins við Deividas Sarapinas. Hann hefði unnið hjá stefnanda en verið rekinn úr vinnu og ráðinn síðan aftur. Síðan hefðu Litháarnir verið að reyna að fá vinnu hjá honum og peningalán. Spurður um leynifundi með Deividas, kvað hann ekki hafa verið um leynifundi að ræða, hann hefði hitt Deividas á bensínstöð og svoleiðis. Umræður á þessum fundum hefðu ekki verið um neitt sérstakt, en Deividas hefði farið fram á, að hann hefði ekki með sér síma á þessa fundi.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hinn 27. október 2009 er stefnandi enn spurður um Deividas og kveðst hann þá ekki þekkja mennina, og spyr hver Deividas sé. Eftir að honum var sýnd mynd af honum, kvað hann Deividas hafa verið að vinna hjá sér og [...], en hann hafi verið að biðja stefnanda um að útvega sér atvinnuleyfi. Spurður um tengsl hans við Deividas og aðra Litháa, svaraði stefnandi því svo, að engin tengsl væru við þessa menn. Upphaflega hafi þeir verið í vinnu hjá honum en hætt, og síðan hafi þeir aftur falast eftir vinnu og svo hafi það smáaukizt. „Það eru engin tengsl við Deividas, hann er bara búinn að vera að ganga á mig með að redda þessu atvinnuleyfi og það allt upp í tvisvar til þrisvar sinnum á dag og síðustu tvo til þrjá mánuði.“
Í skýrslutöku hjá lögreglu 3. nóvember er stefnandi enn spurður um Deividas og hvort rétt sé, að hann hafi unnið hjá honum. Enn virðist stefnandi ekki koma nafni hans fyrir sig, og kannast ekki við hann fyrr en hann sér mynd af honum.
Spurður út í fjölmörg símtöl við Deividas um það leyti, sem bruninn varð í fasteign stefnanda á [...], sem og símtöl um það leyti, sem von var á litháísku stúlkunni til landsins og dagana eftir að hún kom, svarar hann, að Deividas hafi verið að fá hann til þess að útbúa fyrir sig atvinnuleyfi. Þá getur hann engar skýringar gefið á fjölmörgum símtölum, sem hann átti við aðra Litháa, sem tengdust mansalsmálinu á svipuðum tíma. Þá gaf hann ótrúverðugar skýringar á símtali, sem hann átti við kunningja sinn um, að hann ætti von á litháískum stúlkum til landsins, um það leyti, sem von var á stúlkunni, sem kölluð var C, til landsins.
Þrátt fyrir að stefnandi héldi því fram, að kunningsskapur hans við Litháana hefði verið afar lítill, var einhverjum þeirra, m.a. Deividasi, boðið í svokallað Eurovision partí hjá honum. Enn fremur kom fram við skýrslutökur, að hann hafi farið til [...], ásamt þeim Deividasi, Dariusi og Sarunasi, til þess að innheimta skuld, en um leið kvaðst hann ekki muna, hverjir þeirra þetta hefðu verið. Þá keypti hann bifreið fyrir Sarunas, sem var þó skráð á stefnanda en í vörzlum Sarunasar.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu Guðmundar Baldurssonar, dags. 6.11. 2009, kemur fram, að stefnandi hafi bent honum á íbúð D, að [...] í [...], sem Litháarnir hefðu haft til afnota fyrir stúlkuna, en síðar dró hann í land og kannaðist ekki við að þetta væri rétt. Fyrir dómi í Héraðsdómi Reykjaness hinn 9. nóvember 2009 gaf stefnandi skýrslu sem vitni og kvaðst þar hafa sýnt lögreglumanninum íbúðina að [...]. Spurður, hvort sú íbúð tengist mansalsmálinu, svarar hann svo: „Ja, strákarnir þarna vita af þessari íbúð og vita að hann D sé erlendis og þeir keyrðu D heim og bíllinn hans D var inni í [...] eða niðri í [...] og lyklarnir af íbúðinni, og síðan frétti ég það, að þeir hafi farið með stelpuna í íbúðina þar.“ Hann kvaðst hafa farið til Deividasar, eftir að hafa séð umfjöllun um mansalsmálið í sjónvarpi og sagt honum að koma sér út úr íbúðinni með stúlkuna.
Þegar framangreind tengsl stefnanda við þá Litháa, sem tengdust mansalsmálinu, eru virt og jafnframt haft í huga, að stefnandi gerði lítið úr þeim tengslum við skýrslutökur og var framburður hans allan tímann afar misvísandi um þau tengsl, sem og um vitneskju hans um Litháísku stúlkuna og verustað hennar, er fallizt á með stefnda, að stefnandi hafi, með framferði sínu stuðlað að þeim aðgerðum, sem viðhafðar voru gagnvart honum. Með vísan til umfangs málsins og alvarleika þess, er ekki fallizt á, að tími gæzluvarðhaldsins hafi verið óhóflega langur, og með hliðsjón af rannsóknarhagsmunum má fallast á, að nauðsyn hafi borið til að halda stefnanda í einangrun, meðan á rannsókn málsins stóð. Þá er ósannað, að stefnandi hafi verið beittur harðræði við handtökuna, að hann hafi sætt ómannúðlegri meðferð í gæzluvarðhaldinu eða að lífsnauðsynleg lyf hafi verið tekin af honum. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, kr. 900.000, en við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenzka ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Sigurjóns G. Halldórssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, kr. 900.000.