Hæstiréttur íslands

Mál nr. 309/2015

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
Guðjóni Ingibergi Ólafssyni (Gísli M. Auðbergsson hrl.)

Lykilorð

  • Börn
  • Brot gegn blygðunarsemi


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 28. janúar 2016.

Nr. 309/2015.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

Guðjóni Ingibergi Ólafssyni

(Gísli M. Auðbergsson hrl.)

Börn. Brot gegn blygðunarsemi.

G var sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa í aftursæti bifreiðar sinnar reynt að fá A til að fara með hendurnar inn fyrir buxur hans á kynfærasvæði. Var G hins vegar sýknaður af þeirri háttsemi að hafa sent A tvær myndir af getnaðarlim í síma hennar. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G var 19 ára þegar hann framdi brotið og hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Á hinn bóginn var litið til ungs aldurs A sem var 14 ára þegar brotið átti sér stað. Var refsing G ákveðin fangelsi í 45 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðbundið í 2 ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms reisir ákærði á því að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og ekki hafi farið fram heildstætt mat á öllum gögnum málsins og munnlegum framburði. Ekkert er komið fram í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður af forsendum dómsins ráðið að heildstætt mat fór fram á framburði ákærða og vitna og þeim gögnum sem fyrir dóminn voru lögð. Samkvæmt þessu er kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.

 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Guðjón Ingibergur Ólafsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 603.479 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar  hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og ferðakostnað hans, 63.294 krónur.  

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 6. mars 2015.

       Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 10. september 2014, á hendur Guðjóni Ingibergi Ólafssyni, kt. [...], Sandbakkavegi 2, Höfn í Hornafirði, „fyrir neðangreind brot gegn blygðunarsemi og brot gegn barnaverndarlögum, framin í ágúst 2013 sem hér greinir:

                1. Með því að hafa sent A, fæddri [...] 1999, tvær myndir af getnaðarlimi með forritinu snapchat í síma A.

                2. Með því að hafa í aftursæti bifreiðar sinnar sem lagt var við [...] á [...], reynt að fá A til að fara með hendurnar inn fyrir buxur ákærða á kynfærasvæði.“

                Í ákæru er þessi háttsemi talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Ákærði krefst sýknu. Til vara er krafist þeirrar vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða.

I

                Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum er upphaf máls þessa að rekja til bréfs félagsmálayfirvalda á [...], dags. 25. október 2013, þar sem óskað var lögreglurannsóknar á samskiptum ákærða við þrjár stúlkur, allar fæddar árið 1999, þar á meðal við brotaþola, A. Í bréfinu segir að komið hafi fram upplýsingar um að ákærði hafi sent stúlkunum myndir með kynferðislegu ívafi, að öllum líkindum um nokkurra vikna skeið. Þá hafi ákærði reynt að fá brotaþola til að „fara inn á sig“ í bifreið, að viðstaddri annarri þessara stúlkna, B.

                Ákærði var handtekinn og húsleit gerð á heimili hans 5. nóvember 2013, samkvæmt heimild í dómsúrskurði. Við leitina var lagt hald á tölvur og síma ákærða en ekkert saknæmt fannst við rannsókn á þeim munum.

                Að kröfu lögreglu voru skýrslur teknar af öllum stúlkunum þremur undir stjórn dómara á rannsóknarstigi málsins, sbr. a-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skýrslutökurnar fóru allar fram 7. nóvember 2013 og liggja fyrir upptökur af þeim í hljóði og mynd.

                Í framburði brotaþola kom fram að hún hefði vistað á tölvu nokkrar ljósmyndir frá ákærða. Samdægurs nálgaðist lögregla myndirnar á heimili brotaþola, samkvæmt því sem greinir í skýrslu, dags. 7. janúar 2014, um þá rannsóknaraðgerð. Kemur þar fram að fimm svokallaðar „Snapchat“ myndir hafi verið „afhentar“. Lýtur ákæra málsins að tveimur þeirra mynda, sem eru mjög áþekkar, báðar nærmyndir þar sem sést í getnaðarlim og hönd utan um hann (merktar nr. 4 og 5 í rannsóknargögnum lögreglu). Til viðbótar hafi brotaþoli sent lögreglu eina mynd með tölvupósti, sem B hafi tekið í bifreið ákærða það sinn sem fjallað er um í síðari lið ákærunnar (merkt nr. 7). Sú mynd sýnir stúlku og mann í aftursæti bifreiðar, en stúlkan er að horfa út um hægri hliðarrúðu og heldur hún að hluta fyrir andlit sitt, en maðurinn liggur að því er virðist á læri hennar og horfir upp til hennar, með síma í hendinni. Loks er í skýrslunni getið um eina mynd til viðbótar sem aflað hafi verið frá þriðju stúlkunni, C (merkt nr. 6). Liggja allar þessar sjö myndir fyrir í málinu.

II

                Ákærði, sem neitar sök hvað báða ákæruliði varðar, kvaðst fyrir dómi kannast við brotaþola og hafa vitað nokkurn veginn um aldur hennar. Brotaþoli hafi haft frumkvæði að samskiptum þeirra með því að „adda“ honum sem vini í samskiptamiðlinum „Snapchat“. Þau hafi aðallega átt samskipti í gegnum samskiptamiðla, s.s. Snapchat og Facebook. Ákærði noti heitið [...] á Snapchat.

                Ákærði neitaði alfarið að hafa sent frá sér þær tvær myndir af getnaðarlim sem liggja fyrir í málinu, hvorki til brotaþola né nokkurs annars. Þær myndir hafi fyrst komið fyrir sjónir hans við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa sent brotaþola neinar myndir sem geti talist vafasamar. Hann kunni enga skýringu á því hvers vegna brotaþoli beri um að hann hafi sent henni þessar myndir. Hann kvaðst ekki vita til þess að einhver annar hafi sent myndir úr síma hans en það sé ekki útilokað.

                Bornar voru undir ákærða fleiri myndir sem liggja fyrir meðal málsgagna og var aflað frá brotaþola, m.a. ein mynd sem sýnir ákærða, þar á meðal andlit hans, þar sem hann hylur nekt sína að framanverðu með baðhandklæði (merkt nr. 1 í rannsóknargögnum lögreglu). Kannaðist ákærði við að hafa sent vinum sínum á Snapchat þá mynd, þar á meðal e.t.v. brotaþola, en sú mynd væri „eðlileg“. Einnig var borin undir hann mynd (merkt nr. 3) sem ákærði kvaðst telja sýna niður eftir líkama karlmanns, að því er virðist reistan lim undir nærbuxum. Kvað ákærði að það „gæti verið“ að hann kannaðist við þá mynd og umhverfi sem sjáist á myndinni svipi til herbergis hans. Ákærði var þó ekki spurður beint að því hvort hann hafi tekið eða sent brotaþola eða öðrum þá mynd.

                Aðspurður kvaðst ákærði kannast við að hafa einhvern tímann átt í rafrænum samskiptum við brotaþola og B á meðan þær voru að passa fyrir frænku annarrar hvorrar þeirra.

                Varðandi síðari lið ákærunnar kvaðst ákærði hafa getað rifjað það upp að hann hafi farið með brotaþola og vinkonu hennar í eitt skipti á rúntinn. Kvaðst hann hafa átt í erfiðleikum með að rifja þetta upp, enda fari hann svo oft á rúntinn. Stúlkurnar hafi margsinnis verið búnar að biðja hann að bjóða þeim á rúntinn og í eitt skipti hafi hann látið það eftir þeim, rúntað með þær og spjallað við þær um stund. Þetta hafi verið að sumarlagi og kvaðst ákærði hafa verið þreyttur eftir vinnudaginn. Er hann hafi viljað fara heim hafi stúlkurnar ekki viljað það. Hafi hann þá stungið upp á því að hann stöðvaði aksturinn og hvíldi sig aðeins. Hann hafi lagst í aftursætið, í kjöltu brotaþola og farið að skoða símann sinn. Þar hafi hann legið í svolitla stund. B hafi setið í framsæti bifreiðarinnar. Stúlkurnar og hann hafi spjallað saman og hlustað á útvarpið. Meðal annars hafi ákærði hringt í vin sinn úr síma brotaþola, en ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi svarað.

                Brotaþoli hafi síðan misst símann sinn. Síminn hafi lent á gólfinu. Brotaþoli hafi beðið ákærða að ná í hann. Kvaðst ákærði ekki hafa náð að teygja sig í hann og sagt henni að ná bara í hann sjálf, en brotaþoli hljóti að hafa misskilið það og ekki tekið eftir því hvar síminn lenti. Brotaþoli hafi farið út úr bílnum, staðið þar og leitað að símanum og fljótlega eftir það hafi hann skutlað stúlkunum heim.

                Ákærði neitaði því alfarið að hafa hneppt frá buxnaklauf sinni umrætt sinn og ýjað að því við brotaþola að hún skyldi sækja símann inn undir buxur hans á kynfærasvæði. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki gefið framangreinda skýringu fyrr, þ.e. við rannsókn málsins, sagði ákærði þessi atvik ekki hafa rifjast upp fyrir sér fyrr en eftir síðari skýrslutökuna hjá lögreglu. Fyrir dómi staðfesti ákærði að mynd (merkt nr. 7 í rannsóknargögnum lögreglu) af manni og stúlku í aftursæti bifreiðar, sýni hann og brotaþola og hafi myndin verið tekin í bifreið hans umrætt sinn.

                Ákærði gaf skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu, fyrst 7. nóvember 2013 og aftur 13. janúar 2014, í bæði skiptin að viðstöddum verjanda. Við fyrri skýrslutökuna kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa verið á rúntinum með brotaþola og B, en ekki getað útilokað það enda sé hann oft á rúntinum. Á sama veg bar ákærði við upphaf síðari skýrslutökunnar. Var þá borinn undir hann framburður brotaþola, þar á meðal um að hann hafi stöðvað bifreiðina á [...], farið á milli sæta aftur í bifreiðina og lagst í aftursætið á læri hennar, þar sem hann hafi m.a. handleikið síma hennar, rennt frá buxnaklauf og gefið henni til kynna að hann vildi að hún færi með hendur að kynfærum hans. Einnig var borinn undir hann samsvarandi framburður B. Kvaðst ákærði ekkert kannast við þetta og telja að hann hefði munað það ef þetta hefði gerst. Ákærða var þá sýnd áður nefnd mynd (merkt nr. 7) af manni og stúlku í aftursæti bifreiðar. Þekkti ákærða sjálfan sig og brotaþola á myndinni en kvaðst ekki muna við hvaða tilefni hún hafi verið tekin. Er framburður ákærða fyrir dómi breyttur að því leyti að hann kveðst nú muna eftir atvikum í bifreiðinni. Að öðru leyti samræmist framburður ákærða fyrir dómi í meginatriðum framburði hans hjá lögreglu.

                Brotaþoli, A, þá 14 ára gömul, gaf skýrslu undir stjórn dómara við rannsókn málsins 7. nóvember 2013. Er aðalmeðferð málsins fór fram hafði hún náð 15 ára aldri, en ekki var talin þörf á að leiða hana fyrir dóminn á nýjan leik. Í skýrslu hennar, sem liggur fyrir í hljóði og mynd, kom fram að hún væri komin til að gefa skýrslu „út af strák sem var alltaf að senda mér myndir af sér og svo tókum við alveg ömurlega ákvörðun og fórum upp í bíl með honum, ég og vinkona mín ... hann fór eitthvað aftur í og lagðist ofan á mig og ég hljóp út úr bílnum fyrst, þú veist, já, en hann var þá búinn að taka símann af mér og þóttist vera búinn að setja hann innan á sig og hneppti frá buxunum og sagði „náðu bara í hann“ og ég sagði „nei, ég vil það ekki“ og já, það var þá sem ég hljóp út úr bílnum ... það var dimmt í kringum okkur því hann lagði á einhverjum stað sem enginn getur séð ... ég heyrði eitthvað eins og einhver væri að hlaupa fyrir utan bílinn og ég var geðveikt hrædd og hljóp bara aftur inn í bílinn ...“.

                Í framburði brotaþola kom fram að umræddur „strákur“ sé ákærði. Hún hafi kynnst honum þannig að hann hafi „addað“ henni á Snapchat og hún „bara samþykkt“ það skömmu áður en þessir atburðir gerðust.

                Nánar skýrði brotaþoli svo frá að hún teldi atburðinn í bifreiðinni hafa átt sér stað síðla kvölds í júlí eða ágúst s.á. og telja að ákærði hafi farið að senda sér myndir eftir það. Þau hafi verið þrjú í bílnum, B í framsæti og brotaþoli í aftursæti, en ákærði hafi klifrað aftur í til hennar á milli framsætanna. „Hann fór aftur í til að leggjast ofan á mig ... leggst bara hérna ofan á lærið á mér ... ég veit ekki af hverju“. „B tók mynd af honum liggjandi ofan á mér ... ég var bara eitthvað að þykjast vera að horfa út og skoða stjörnurnar af því að mér leið svo óþægilega ... ég vissi ekkert hvað ég gat gert, ég þorði ekkert að ýta honum í burtu ... hann fékk að skoða símann minn og ég [sagði] „getur þú látið mig hafa símann minn“ og hann [sagði] bara „þú verður bara að finna hann“ og þóttist vera búinn að setja hann inn á sig og byrjaði að hneppa frá buxunum ... hann var alveg búinn að reyna að láta mig fara inn á sig í örugglega 10 mínútur sko og svo gafst hann bara upp af því að hann vissi að ég var ekki að fara að gera það og vildi þetta ekki“. Aðspurð hvar ákærði hafi reynt að fá hana til að fara inn á sig, svaraði hún: „Á typpið.“ Aðspurð hvernig hún hafi vitað að hann vildi að hún færi inn á hann þar, sést á upptöku að brotaþoli ber hönd að buxnastreng, svarar hún: „Af því að hann hneppti frá og var eitthvað svona og kom eitthvað „þú verður að ná í símann“ bara hérna“. Nánar aðspurð hvernig ákærði hafi gefið í skyn að hún ætti að fara inn á hann svaraði hún: „Ég man það ekki alveg, hann var bara „komdu bara hérna og farðu bara hérna inn á mig“ og var bara að segja „síminn er þarna“ ... ég sagði bara nei og ætlaði að hlaupa út úr bílnum, en ég ætlaði ekkert hvort eð er að fara án símans“. Aðspurð hvernig þetta hafi endað svarði hún: „Hann kom eitthvað „æ fock you“ og keyrði okkur bara heim.“

                Brotaþoli kvað ákærða hafa verið að senda sér myndir á Snapchat, fyrst „kannski í júlí“ og síðast í október 2013. Taldi hún þetta hafa gerst fimm sinnum. Kom fram við upphaf skýrslutökunnar að þetta hafi verið myndir af kynfærum hans, en ekki sést mikið í þau, og einnig myndir af honum „á brókinni“. Nánar aðspurð um hvað hafi sést á myndunum sagði hún: „Sko, þetta var bara yfirleitt að hann var að senda eitthvað upp úr þurru, bara á brókinni sko, skrifaði eitthvað „like it“ og eitthvað svona“. Er brotaþola var bent á að hún hefði verið búin að nefna að sést hefði í kynfæri hans sagði hún: „Já það var á einhverjum, það var samt ekkert mikið sko. Hann, þú veist, það var ekki ég sem hann var að senda þannig, það var önnur vinkona mín [leturbreyting dómara].“ Aðspurð hvort ákærði hafi þá alltaf verið í brókinni á myndunum var svarið: „Yfirleitt.“ Beinlínis aðspurð hvort hún hafi séð einhverja líkamsparta eða eitthvað  slíkt var svarið: „Það var bara á tveimur myndum, en það sást ekkert allt, bara eitthvað svona smá ... hann var bara haldandi eitthvað utan um og tók mynd“. Aðspurð um hvað hann hafi haldið svaraði hún: „Typpið á sér ... ég vildi ekkert horfa á þetta, ég opnaði bara og úff.“ Aðspurð í beinu framhaldi hvernig hún fékk „þessa mynd“ senda svaraði hún: „Snapchat.“ Kom fram að myndin hafi verið send með Snapchat í símann hennar.

                Síðar við skýrslutökuna dró spyrillinn saman það sem komið hafði fram hjá brotaþola og bað hana að leiðrétta ef eitthvað væri rangt. Var borið undir brotaþola að hún hafi fengið sendar 5 myndir, þar af tvær þar sem sést hafi í typpið á ákærða, þar sem hann haldi utan um það. Svaraði brotaþoli: „Já, en það er sko ekkert mikið ... en mér fannst það alveg nóg ... ég hefði ekki viljað sjá neitt meira ...“ Síðar við skýrslutökuna er brotaþoli enn spurð út í þessar tvær myndir, og þá spurð hvernig hún viti að þær sýni ákærða halda um typpið á sér, og svaraði hún: „Hann sagði það, hann var eitthvað talandi um að hann ætlaði að gera það ... og svo var hann allt í einu búinn að senda það.“

                Síðasta myndin sem ákærði hafi sent henni hafi sýnt hann standandi, nakinn, en með handklæði fyrir framan sig og með hafi fylgt textinn „bað yeee“. Þá hafi hún sent honum boðin „þetta er allt of langt gengið hjá þér“ og hann svarað „það sást ekki neitt“. Í framhaldinu hafi hún eytt honum sem vini á samskiptamiðlum.

                Brotaþoli kvaðst hafa vistað skjáskot af þessum myndum. Aðspurð hvernig henni hafi liðið þegar hún fékk þessar myndir sagði hún að fyrst hafi henni fundist þetta fyndið, en síðan fundist þetta „allt of gróft“. Henni líði „ógeðslega illa“ við að sjá hann á förnum vegi eða hugsa um hann. Einnig kom fram að henni líði „ömurlega“ út af því að málið hafi undið upp á sig með aðkomu lögreglu og félagsmálayfirvalda.

                Vitnið B gaf fyrst skýrslu undir stjórn dómara við rannsókn málsins 7. nóvember 2013 og síðan aftur við aðalmeðferð málsins.

                Við fyrri skýrslugjöf hennar kvaðst hún komin til viðtals „af því að [ákærði] var að senda stelpunum myndir ... A var að peppa hann í að senda myndir eða segja honum að senda ... hún var bara að biðja hann að senda myndir af sér og eitthvað.“ Aðspurð hvernig myndir brotaþoli hafi beðið ákærða að senda henni svaraði hún: „Af typpinu sínu.“ Aðspurð hvort hann hafi gert það svaraði hún: „Hann hélt bara fyrir, það sást bara í neðst.“ Fram kom að umrætt sinn hafi þær brotaþoli verið saman að passa heima hjá frænku vitnisins og að brotaþoli hafi átt samskipti við ákærða í gegnum Facebook og Snapchat. U.þ.b. 4 til 6 myndir hafi komið frá ákærða þetta kvöld sem þær voru að passa og vitnið séð þær allar hjá brotaþola, sem og samskiptin við ákærða. Á einni myndinni, sem hafi verið tekin í spegil, hafi ákærði sést á brókinni „og síðan allar hinar sem hann hélt bara fyrir og það sást bara svona“. Sýndi vitnið með bili milli tveggja fingra hve mikið hafi sést. Aðspurð í hvað sást svaraði hún: „Bara neðst á typpinu.“

                Aðspurð hvort hún hafi sjálf átt einhver samskipti við ákærða sagðist vitnið bara hafa átt samskipti við hann „þegar við fórum á rúntinn með honum“. Lýsti hún því atviki svo að brotaþoli hafi haft frumkvæði að því að biðja ákærða að bjóða þeim á rúntinn. Ákærði hafi alltaf verið „að fara á staði til að stoppa og fara í símann sinn og á einum staðnum fór hann eitthvað aftur í til A ... hún sat og hann lagðist bara hjá henni, hún var eitthvað í símanum sínum og hann eitthvað tók símann hennar og var eitthvað að segja að hann væri inni á sér ... hún var eitthvað „má ég fá símann?“ ... svo ætluðum við að fara og hann var ennþá með símann ... ég var eitthvað „náðu þá bara í hann“ en hún hélt að hann væri inni á brókinni hans og var eitthvað „já, ég er ekkert að fara án símans míns af því að hann er ekki læstur“ ... ég sagði „já farðu þá og náðu í hann“ en hún misskildi það og hélt að ég væri að segja [henni] að fara ofan í buxurnar, sem ég var auðvitað ekki að láta hana gera.“

                Nánar aðspurð, sagði B að brotaþoli hafi verið að biðja ákærða að hringja í vin sinn. Ákærði hafi fengið símann hennar til að hringja úr honum. Svo hafi ákærði verið „eitthvað að þykjast hafa sett hann inn á sig“ og þær brotaþoli farið út úr bílnum, en síðan hafi ákærði verið „að djóka eitthvað í okkur og tók símann upp og keyrði okkur heim“. Ákærði hafi farið aftur í til brotaþola með því að klifra á milli framsæta bifreiðarinnar. Hann hafi legið í aftursætinu á lærum brotaþola í „svona korter, við vorum alltaf að segja honum að fara, en hann vildi það ekki, ekki strax“. Brotaþoli hafi verið „komin með geðveikt mikinn kvíða þannig að hún horfði bara og var eitthvað að telja stjörnurnar“. Aðspurð hvernig hún vissi um kvíða brotaþola sagði vitnið hana hafa sent sér SMS-skeyti um það á meðan þau voru öll í bílnum. Aðspurð hvort hún vissi hvort ákærði hafi í raun sett símann inn á sig eða bara þóst gera það sagðist hún fyrst ekki vita það en síðan að síminn hafi örugglega ekki verið þar. Ákærði hafi sagt brotaþola að ná í símann ofan í brókina. Aðspurð hvort ákærði hafi sagt brotaþola þetta með orðum játti hún því í fyrstu, en nánar aðspurð sagði hún brotaþola hafa spurt ákærða hvort hún mætti fá símann sinn og ákærði hafi sagt: „Þú verður bara að ná í hann.“ Ákærði hafi ekki beinlínis sagt henni að ná í símann ofan í buxurnar, en gefið í skyn að síminn væri þar. Aðspurð hvernig ákærði hafi gefið þetta í skyn svaraði hún: „... hún var eitthvað „Má ég fá símann?“ og hann bara „Þú verður að ná í hann“ og hann var með hneppt frá ... buxunum“ Kvaðst B hafa séð að buxurnar voru fráhnepptar. Ákærði hafi þá legið á lærum brotaþola. Hún kvaðst ekki vita hvenær ákærði hneppti frá sér en hafa tekið eftir þessu er hún tók mynd af þeim. Aðspurð hve oft hún hafi heyrt ákærða segja þetta kvaðst hún bara hafa heyrt það einu sinni en tók fram að hún hafi „eiginlega ekkert [verið] að hlusta, ekki mikið“.

                 Aðspurð hvort ákærði hafi gert eitthvað fleira svaraði hún: „Nei, þær náttúrulega gerðu svo mikið mál úr þessu af því að hann var ekki að gera neitt.“

                Í framburði B kom fram að þessi atburður hafi átt sér stað u.þ.b. þremur dögum áður en skólinn hófst að hausti, þetta hafi verið seint að kvöldi, nálægt miðnætti. Þau hafi verið þrjú í bílnum og bílnum hafi verið lagt nálægt gistiheimili, [...]. Hún hafi tekið eina mynd af ákærða liggjandi á lærum brotaþola. Hitt tilvikið, þar sem ákærði sendi brotaþola myndir þegar þær voru að passa, sagði hún hafa gerst í ágúst, u.þ.b. viku áður en þær fóru á rúntinn með ákærða.

                Við aðalmeðferð málsins gaf B skýrslu fyrir dómi á ný. Tók framburður hennar þá nokkrum breytingum sem hér verður vikið sérstaklega að.

                Eins og fyrr kvað hún ákærða hafa sent brotaþola myndir af sér kvöldið sem þær brotaþoli voru að passa hjá frænku vitnisins, en þetta hafi verið myndir af honum „á brókinni ... með standpínu“. Sést hafi í andlit ákærða á einhverjum myndanna og allar myndirnar komið frá sama „aðganginum“. Aðspurð sagði hún ekki hafa sést í getnaðarlim á þessum myndum. Er borinn var undir hana fyrri framburður hennar um að hafa verið með brotaþola er ákærði sendi henni myndir þar sem sást í getnaðarlim sagði hún að það hafi „annað hvort“ verið „A eða C“ sem hafi fengið slíka mynd, þar sem „sást sko eiginlega ekkert ... það sást svona höndin, ef það var einhver mynd. Við erum búnar að fá svo margar svona myndir sko.“ Aðspurð hvort hún hafi munað betur atvik þegar hún gaf skýrslu ríflega ári áður svaraði hún: „Nei, af því að þær voru að láta mig segja helling af hlutum sem að, eða þú veist, þær sko sögðu mér að segja bara eins og þær væru að gera, ég vildi ekki missa þær þarna en mér er eiginlega alveg sama núna ...“. Kom skýrt fram í framburði B að með „þeim“ væri hún að vísa til brotaþola og vitnisins C, og bætti hún við: „Það var sko C sem stjórnaði þessu öllu. A vildi ekkert segja frá þessu.“ Aðspurð hvort hún hafi þá verið að skálda þegar hún sagðist hafa séð slíka mynd svaraði hún: „Ég alla vega man ekki eftir neinni mynd sko, ég átti bara að segja eins og þær sögðu ... þær voru bara að segja mér að segja að hann hafi verið að senda helling af ógeðslegum myndum og eitthvað ... ég átti náttúrulega bara að hjálpa þeim.“

                Aðspurð um atvikið á rúntinum, sbr. síðari lið ákærunnar, varð af framburði B ráðið að hún vildi gera sem minnst úr því atviki. Aðspurð hvort eitthvað hafi þá gerst sagði hún: „Ekki eins og hún er að segja. Ég var þarna sko og ég veit alveg hvað gerðist ...“. Sagði vitnið að brotaþoli hafi sagt henni síðar „að þetta hefði ekki verið jafn mikið og hún hefði upplifað það fyrst“.

                Tók vitnið fram að ákærði hafi lagst á hné brotaþola, en „ekki svona ofarlega eins og hún var að segja“ og að „hann potaði í magann á henni, mér finnst það ekkert eitthvað kynferðislegt ofbeldi sko, en það er náttúrulega bara misjafnt hvernig fólk upplifir það ... svo tók hann eitthvað símann af henni og var eitthvað að djóka í henni, að segja, að þú veist, hann faldi hann, setti hann bara í sætið og það var alveg augljóst að síminn var í sætinu sko, ... hann var eitthvað að djóka í henni og segja henni að sækja símann ofan í buxurnar. Hvernig gat hún ekki fattað að þetta væri djók ...“.        Kvaðst B viss um að ákærði hafi ekki sett símann inn fyrir buxur sínar í raun og veru, því að hún hafi séð þegar hann sótti símann undan læri sínu. Síminn hafi verið „í sætinu, ekki ofan í buxunum“.

                Að öðru leyti lýsti vitnið atvikum með sama eða svipuðum hætti og við fyrri skýrslugjöf fyrir dómi, þar á meðal um að ákærði hafi verið með fráhneppta buxnaklauf, eða með hennar orðum: „... hún sagði honum að koma með símann og hann hafði einhvern veginn gefið í skyn að hann hefði verið ofan í buxunum af því að hann hneppti frá og hérna og já svo var hann eitthvað að, hún sagði „nennir þú að koma með símann“ og hann eitthvað „náðu í hann“ „ok, ég er ekki að fara að ná í hann ofan í buxurnar þínar“.“ Nánar aðspurð kvaðst vitnið þó ekki muna beinlínis eftir því að brotaþoli hafi sagst ekki vilja sækja símann ofan í buxur ákærða.

                Brýnt var sérstaklega fyrir vitninu að gera greinarmun á því sem hún sjálf hefði séð, heyrt eða skynjað með öðrum hætti og því sem brotaþoli hefði e.t.v. sagt henni um sína upplifun af atvikinu. Endurtók vitnið þá efnislega fyrri frásögn sína, þar á meðal um að ákærði hafi verið með fráhneppta buxnaklauf. Sérstaklega aðspurð hvort ákærði hafi með hátterni sínu gefið brotaþola í skyn að síminn væri inni á honum svaraði hún: „Já, annað hvort það eða hann hafi verið að biðja hana um að gera eitthvað, en ég veit að hann er alveg ekki það ruglaður, en já, hún eitthvað „ég veit ekkert hvar hann er“ og þú veist, hann var bara alltaf að segja henni að sækja símann.“

                Fyrir dómi var borin undir B ljósmynd, merkt nr. 7 í rannsóknargögnum lögreglu, og staðfesti hún að hafa tekið þessa mynd af ákærða og brotaþola í bifreiðinni umrætt sinn.

                C gaf skýrslu undir stjórn dómara við rannsókn málsins 7. nóvember 2013 og liggur framburður hennar fyrir í hljóði og mynd. Verða hér aðeins rakin atriði úr framburði hennar sem haft geta þýðingu fyrir mál þetta. Fram kom að hún hafi ekki vistað myndir sem ákærði hafi sent henni. Ákærði noti heitið [...] á Snapchat. Hún viti til þess að brotaþoli eigi myndir frá ákærða í tölvunni sinni. Brotaþoli hafi sýnt sér þær. Brotaþoli hafi einnig sagt sér frá atviki í bifreið, þar sem ákærði hafi verið byrjaður að hneppa frá buxum sínum. Brotaþoli hafi verið miður sín er hún skýrði vitninu frá þessu.

                D, móðir brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi og kvað dóttur sína hafa upplýst sig um málið haustið 2013. Hafi dóttir hennar upplýst vitnið að hún mætti eiga von á símtali frá móður vinkonu sinnar, C, sem hafi verið búin að upplýsa félagsmálayfirvöld um mál hennar. Dóttir hennar hafi lýst fyrir vitninu atvikum í bifreið með ákærða, en ekki nefnt neinar myndsendingar. Hafi vitninu ekki orðið kunnugt um að brotaþola hefðu borist myndir fyrr en lögregla nálgaðist þær í tölvu á heimili þeirra. Hún hafi ekki séð þessar myndir sjálf. Aðspurð um líðan brotaþola haustið 2013 sagði vitnið dóttur sína vera haldna kvíða og hafa liðið illa á þeim tíma ef hún mætti ákærða á förnum vegi, en í dag líði henni fyrst og fremst illa yfir því í hvern farveg málið hafi farið og hve mikið hafi verið gert úr því.

                Borið var undir vitnið að í samantekt á framburði hennar hjá lögreglu 14. nóvember 2013 komi fram að dóttir hennar hafi sýnt vitninu mynd á síma sínum af ákærða, þar sem hann hylji nekt sína að hluta með handklæði, og sagt vitninu að ákærði hafi sent sér fleiri myndir. Kvað vitnið ekki rétt að dóttir hennar hafi sýnt sér myndina, en hún hafi sagt sér frá þessari mynd.

                E lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa farið á heimili brotaþola til að nálgast myndir í fartölvu þar. Þar hafi brotaþoli sýnt honum myndir, sem hafi verið vistaðar þar í möppu með fleiri myndum. Ekki hafi tekist að afrita myndirnar yfir á minnislykil og brotaþoli því sent lögreglu þessar sömu myndir með tölvupósti.

                Þegar Snapchat-myndir séu vistaðar sem skjáskot vistist þær á venjulegu myndasniði, t.d. „jpg“. Myndirnar sem fundust í tölvu á heimili brotaþola hafi verið á slíku sniði og því auðvelt að vinna með þær í myndvinnsluforriti. Vitnið staðfesti að hafa stækkað og lýst upp tvær þessara mynda, að beiðni saksóknara, sbr. skýrslu hans, dags. 9. september 2014. Hann kvaðst ekki muna skráarheiti myndanna. Tölur í horni myndanna sýni að þær hafi verið sendar með Snapchat-forritinu og sýni þær hve margar sekúndur hafi verið eftir af birtingartíma myndanna þegar skjáskot var tekið af þeim.

                F rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi. Staðfesti hann að hafa fengið myndir framsendar frá E 8. nóvember 2013. Myndirnar hafi verið á „png“-formi, heiti þeirra ekki lýsandi fyrir efni þeirra og ekki hafi fylgt þeim neitt „snið“, þ.e. upplýsingar um hvenær þær hafi verið teknar. Talan „2“ sjáist í horni á tveimur myndum af getnaðarlim í hendi, sem vitnið hafi fengið sendar frá E. Sé sú tala til marks um að um Snapchat-mynd sé að ræða.

                Loks gaf skýrslu fyrir dómi G sálfræðingur og staðfesti vottorð sitt varðandi brotaþola, dags. 13. nóvember 2014, þar sem fram kemur að brotaþoli eigi við kvíðaröskun að etja og mælst til þess að álag á hana verði mildað með því að víkja ákærða úr dómsal, komi til þess að henni verði gert að bera vitni við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa sinnt brotaþola í rúm tvö ár vegna kvíða, eftir tilvísun frá skóla, og síðast hitt hana ásamt móður hennar snemma árs 2014. Vitnið kvaðst ekki geta lagt mat á það hvort mál þetta hafi haft áhrif á brotaþola, enda hafi hún aldrei rætt málið neitt við vitnið og vitnið fyrst fengið upplýsingar um að mál þetta væri til meðferðar í gegnum félagsmálastjóra.

III

1.

                Með fyrri lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa, í ágúst 2013, brotið gegn blygðunarsemi brotaþola, sem þá var 14 ára gömul, með því að hafa sent henni, þ.e. í síma hennar með forritinu Snapchat, tvær myndir af getnaðarlim. Er brotið talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins neitað að hafa sent brotaþola myndir sem sýna getnaðarlim og ekki kannast við tvær slíkar myndir sem brotaþoli framvísaði við lögreglu.

                Í skýrslu, sem brotaþoli, A, gaf undir stjórn dómara á rannsóknarstigi málsins, kom margsinnis fram að ákærði hafi sent henni tvær myndir þar sem sést hafi í typpi innan í hendi og hún talið um kynfæri hans að ræða. Þó kom í eitt skipti fram í framburði brotaþola, snemma í skýrslutökunni, nokkurt misræmi að þessu leyti, sbr. setninguna „það var ekki ég sem hann var að senda þannig, það var önnur vinkona mín“. Í ljósi þess hve skýrt kom annars fram í framburði brotaþola að ákærði hafi sent henni sjálfri slíkar myndir er ekki ólíklegt að með tilvitnaðri setningu hafi brotaþoli verið að vísa til þess að vinkona hennar hafi fengið sendar enn skýrari myndir af kynfærum. Sökum þess vafa sem á um þetta leikur verður ekki hjá þessu misræmi litið við mat á framburði brotaþola. Þá verður að líta til þess að framburður brotaþola var ekki svo skýr sem skyldi um t.d. það hvenær ákærði hafi sent henni þessar myndir, hvar hún var stödd er hún opnaði þær og hvort hún hafi opnað myndirnar í félagsskap einhvers annars, s.s. vinkonu. Að öðru leyti en að framan greinir er ekkert fram komið sem dregur úr trúverðugleika framburðar brotaþola, sem virtist einlæg í sínum framburði.

                Við útgáfu ákæru naut framburður brotaþola um myndsendingar ákærða stoðar í framburði sem B gaf undir stjórn dómara meðan á rannsókn málsins stóð. Kom í framburði hennar fram að þær A hafi verið að passa, skömmu fyrir skólabyrjun, þegar ákærði hafi sent A nokkrar myndir, þar á meðal myndir þar sem sést hafi í typpi innan í hendi.

                Þennan framburð dró B til baka er hún gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og kvaðst ekki hafa orðið vitni að því að ákærði sendi brotaþola myndir af getnaðarlim. Gaf hún þá skýringu á breyttum framburði að stúlkurnar hafi lagt að henni að segja eins frá og þær, áður en þær gáfu allar skýrslu undir stjórn dómara 7. nóvember 2013. Var á henni að skilja að þrýstingurinn hafi verið mestur frá C.

                Ekkert er fram komið sem bendir til þess að síðari framburður B sé rangur eða að hún hafi verið undir þrýstingi er hún gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Verður því að leggja til grundvallar að hún sé ekki til vitnis um það hvernig og hvaðan brotaþola bárust þær myndir af getnaðarlim sem í ákæru greinir.

                Myndirnar sjálfar, sem brotaþoli framvísaði og eru nærmyndir af getnaðarlim sem hönd heldur utan um, bera engin einkenni sem tengt geta þær við ákærða. Engar tækniupplýsingar liggja heldur fyrir um tilurð myndanna sem stutt geta að þær séu frá ákærða komnar.

                Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gegn eindreginni neitun ákærða fær framburður brotaþola ekki þá stoð í gögnum málsins eða framburði vitna að sannað geti talist að ákærði hafi brotið gegn henni með þeim hætti sem greinir í fyrri lið ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða af því sakaratriði.

2.

                Með síðari lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa, í aftursæti bifreiðar sinnar, sem lagt var á tilgreindum stað, „reynt að fá [brotaþola] til að fara með hendurnar inn fyrir buxur ákærða á kynfærasvæði“. Með því hafi ákærði brotið gegn blygðunarsemi brotaþola og er þetta talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. 

                Í framangreindri háttsemislýsingu ákæru er ekki tilgreint með hvaða hætti ákærði hafi reynt að fá brotaþola til að fara með hendur inn fyrir buxur sínar á kynfærasvæði. Ekki var að því fundið af hálfu ákærða að ákæran væri óskýr að þessu leyti og verður ekki séð að vörn ákærða hafi orðið áfátt af þessum sökum.

                Eins og fyrr var rakið bar ákærði við aðalmeðferð málsins um að hafa getað rifjað upp atvik sem hann hafi ekki getað munað er hann gaf skýrslur hjá lögreglu. Kvaðst hann minnast þess að hafa farið í bíltúr með brotaþola og vitninu B, og þess að hafa lagst aftur í hjá brotaþola, í kjöltu hennar. Síminn hennar hafi dottið á gólf bifreiðarinnar. Brotaþoli hafi beðið hann að rétta sér símann en ákærði kvaðst hafa sagt henni að sækja símann sjálf. Kvaðst hann telja framburð brotaþola á einhverjum misskilningi byggðan.

                Við mat á trúverðugleika þessa framburðar ákærða verður ekki hjá því litið að það var fyrst við aðalmeðferð málsins sem hann bar með framangreindum hætti um atvikið, en við skýrslutökur hjá lögreglu kvaðst hann alls ekki minnast þess að hafa farið í bíltúr með stúlkunum, enda þótt borinn væri undir hann framburður stúlknanna við síðari skýrslutökuna og honum sýnd mynd sem hann kannaðist við að sýndi hann sjálfan liggjandi í kjöltu brotaþola í aftursæti bifreiðar. Sú skýring sem ákærði gaf fyrir dómi á breyttum framburði sínum, þ.e. að hann hafi ekki getað rifjað þetta atvik upp fyrr þar sem hann sé svo oft á rúntinum, virðist ekki ýkja trúverðug, sérstaklega í ljósi þess að ekkert bendir til annars en að þetta hafi verið í fyrsta og eina skiptið sem hann fór í bíltúr með stúlkunum. Að áliti dómsins ber þessi skýring einkenni þess að vera búin til eftir á, auk þess sem skýringin sjálf virðist ekki sennileg. Dregur þetta úr trúverðugleika framburðar ákærða.

                 Óumdeilt er að vitnið B var með ákærða og brotaþola í bifreiðinni umrætt sinn. Ber ákærða og báðum stúlkunum saman um að ákærði hafi klifrað aftur í til brotaþola, lagst í kjöltu hennar og handleikið símann hennar. Það sem skilur í milli framburðar ákærða og stúlknanna er að ákærði neitar að hafa hneppt frá buxnaklauf sinni umrætt sinn og gefið brotaþola til kynna að hún ætti að sækja símann sinn inn fyrir föt hans á kynfærasvæði. Um það efni er framburður brotaþola afdráttarlaus og kveður hún að á þessu hafi gengið um nokkra hríð í bílnum, eða í um 10 mínútur. Hafi ákærði gefið henni þetta til kynna bæði með orðum og hátterni, þar sem hann lá með höfuðið á lærum hennar. Eins og fyrr sagði virtist brotaþoli einlæg í framburði sínum og var framburður hennar um atvik í bifreiðinni mun nákvæmari en framburður hennar um myndsendingar ákærða. Er framburður brotaþola um atvik í bifreiðinni bæði skýr og trúverðugur að áliti dómsins.

                Framburður B hefur verið stöðugur um atvik í bifreiðinni í öllum meginatriðum, þótt nokkurra áherslubreytinga hafi gætt í síðari framburði hennar fyrir dómi varðandi alvarleika og þýðingu þeirra atburða. Samræmist framburður hennar framburði brotaþola um atvik í bifreiðinni í öllum meginatriðum, þar á meðal um að hafa veitt því athygli að ákærði hafði hneppt frá buxnaklauf sinni. Þá kom að áliti dómsins skýrt fram í framburði hennar að með hátterni sínu og orðum hafi ákærði gefið brotaþola til kynna að hún ætti að sækja símann sinn inn fyrir buxur hans, þótt hann hafi ekki beinlínis sagt henni að gera það. Rennir framburður vitnisins stoðum undir það að brotaþoli hafi mátt leggja þann skilning í hátterni ákærða sem hún gerði.

                Við mat á trúverðugleika framburðar B verður ekki hjá því litið að vitnið viðurkenndi fyrir dómi að hafa sagt ósatt við fyrri skýrslugjöf sína varðandi myndsendingar ákærða. Þetta viðurkenndi hún hins vegar hreinskilnislega og bar við að hafa verið undir þrýstingi frá hinum stúlkunum, einkum þó C. Á hinn bóginn varð ekki ráðið af framburði B að hún hafi verið undir neinum þrýstingi varðandi frásögn af atvikum í bifreiðinni er hún gaf skýrslu undir stjórn dómara 7. nóvember 2013 og aftur við aðalmeðferð málsins og hefur framburður hennar um þau atvik verið stöðugur eins og fyrr sagði. Verður heldur ekki annað ráðið en að vitnið hafi lýst atvikum af eigin raun, eins og sérstaklega var brýnt fyrir henni að gera við aðalmeðferð málsins. Þá styrkir það fremur trúverðugleika framburðar vitnisins heldur en hitt, að hún bar um að vera ekki lengur í nánum vináttutengslum við brotaþola.

                Samkvæmt öllu framanrituðu þykir trúverðugur framburður brotaþola um atvik í bifreiðinni fá slíka stoð í framburði vitnisins B, að gegn neitun ákærða telst fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi reynt að fá brotaþola til að fara með hendurnar inn fyrir buxur hans á kynfærasvæði.

                Af hálfu ákærða var jafnframt borið við þeirri vörn, teldist háttsemi hans sönnuð, að virða verði háttsemina sem grín og að hann hafi ekki haft ásetning til kynferðisbrots. Teljist háttsemin honum því ekki refsiverð.

                Í framburði ákærða fyrir dómi bar hann því við að brotaþoli hlyti að hafa misskilið hann þegar hann sagði henni að sækja símann sinn sjálf, en ekkert kom fram sem getur stutt það að um grín af hans hálfu hafi verið að ræða. Þótt þessi málsvörn ákærða fái vissa stoð í framburði B, einkum við aðalmeðferð málsins, um að brotaþola hafi mátt vera ljóst að um grín væri að ræða, kom ekkert fram efnislega í framburði vitnisins sem rennir stoðum undir það að háttsemi ákærða hlutlægt séð hafi verið sett fram sem grín og að brotaþola hafi mátt skiljast það. Kom heldur ekkert fram í framburði ákærða eða vitnisins um að brotaþola hafi verið tjáð að um grín hefði verið að ræða. Virtist framburður vitnisins fyrst og fremst byggður á því að vegna aldursmunar ákærða og brotaþola hafi vitnið talið ólíklegt að hann væri að fara á fjörurnar við hana og því hlyti að hafa verið um grín að ræða. Getur afstaða vitnisins engum úrslitum ráðið í þessum efnum. Hins vegar kom skýrt fram í framburði B að brotaþoli hafi sýnt þess merki í bifreiðinni að henni liði illa vegna hátternis ákærða. Samræmist það framburði brotaþola sjálfrar um upplifun hennar af atvikinu. Verður framangreindri vörn ákærða því hafnað.

                Sú háttsemi sem sannað er samkvæmt framanrituðu að ákærði viðhafði í garð brotaþola, þar sem hann lá í kjöltu hennar og gaf í skyn með orðum og látbragði að hún gæti sótt símann sinn inn undir fráhnepptar buxur hans á kynfærasvæði, er hlutlægt séð af kynferðislegum toga og til þess fallin að brjóta gegn blygðunarsemi brotaþola, eins og framburður hennar er jafnframt til marks um. Er brot ákærða réttilega heimfært í ákæru til 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og jafnframt til 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, í ljósi ungs aldurs brotaþola.

IV

                Samkvæmt framanrituðu er ákærði hér sakfelldur fyrir brot samkvæmt síðari lið ákærunnar, en sýknaður af fyrri lið hennar, og varðar brot hans við 209. gr. almennra hegningarlaga, auk 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

                Ákærði var 19 ára er brot hans átti sér stað og hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverð brot. Við ákvörðun refsingar hans er litið til ungs aldurs hans og hreins sakaferils, en jafnframt til ungs aldurs brotaþola, sem var 14 ára gömul er brotið átti sér stað. Framburður móður brotaþola fyrir dómi bendir þó ekki til þess að brot ákærða hafi haft varanleg neikvæð áhrif á líðan brotaþola og liggja ekki fyrir gögn sem benda til annars. Með hliðsjón af framanrituðu og brotinu sjálfu, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hrl., vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, eru hæfilega ákveðin í einu lagi að fjárhæð 742.500 krónur, en auk þess á verjandinn rétt til greiðslu 70.064 króna vegna aksturs. Þóknun réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., vegna starfa hennar í þágu brotaþola á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, þykir hæfilega ákveðin 207.075 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda og þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá féll við aðalmeðferð málsins til sakarkostnaður vegna aksturs vitnis, 59.392 krónur. Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að dæma ákærða til greiðslu helmings áfallins sakarkostnaðar, þ.e. 539.515 krónur, en að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

                Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara föstudaginn 6. mars 2015, kl. 14.00, í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum. Við dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dráttur varð á dómsuppsögu vegna embættisanna dómara.

Dómsorð:

                Ákærði, Guðjón Ingibergur Ólafsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði 539.515 krónur í sakarkostnað, en að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði. Innifalið í sakarkostnaði eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hrl., 742.500 krónur, ferðakostnaður verjandans, 70.064 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., 207.075 krónur.