Hæstiréttur íslands

Mál nr. 157/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 157/2014.

Sveinn Ívarsson ehf.

(Fanney Hrund Hilmarsdóttir hdl.)

gegn

Hestamannafélaginu Spretti

(enginn)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

S ehf. höfðaði mál gegn H til heimtu skuldar samkvæmt reikningi vegna hönnunar á reiðhöll. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að aðilar hefðu ekki samið um hvert endurgjald vegna verksins væri, en í slíkum tilvikum færi eftir almennum reglum. Meginregla 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup leysti S ehf. ekki undan þeirri skyldu að reifa kröfu sína og grundvöll hennar með viðhlítandi hætti. Væri krafa S ehf. svo vanreifuð að vísa yrði henni frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að S ehf. hefði ekki skýrt svo viðhlítandi væri grundvöll reikningsins, en slíkur reikningur gæti ekki einn út af fyrir sig varpað á H sönnunarbyrði fyrir því að gangverð viðkomandi þjónustu væri annað en lagt hafi verið til grundvallar í reikningi S ehf. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. febrúar 2014, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í úrskurði héraðsdóms höfðaði sóknaraðili mál þetta til heimtu skuldar samkvæmt reikningi, sem hann gerði á hendur varnaraðila 1. mars 2013. Reikningurinn var að fjárhæð 14.432.500 krónur að teknu tilliti til innborgunar á 2.000.000 krónum, sem sóknaraðili gerði kröfu um með öðrum reikningi 1. september 2012, en á þeim fyrrnefnda kom sú skýring ein fram að hann væri um „þóknun fyrir hönnun á reiðhöll og félagsaðstöðu við Kjóavelli“. Eftir fyrirliggjandi gögnum skýrði sóknaraðili ekki frekar svo að viðhlítandi sé grundvöll þessa reiknings, hvorki í tengslum við framvísun hans né undir rekstri þessa máls. Reikningur sem þessi getur ekki einn út af fyrir sig varpað á varnaraðila sönnunarbyrði fyrir því að gangverð slíkrar þjónustu, sem sóknaraðili veitti, hafi að réttu lagi verið annað en lagt var til grundvallar í reikningnum, sbr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. febrúar 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. desember sl., höfðaði stefnandi, Sveinn Ívarsson ehf., Grundarhvarfi 9, Kópavogi, hinn 19. júní 2013, gegn stefnda, Hestamannafélaginu Spretti, Kjóavöllum, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru stefnda verði gert að greiða stefnanda 14.432.745 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefnda þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Allnokkur munur er á reifun málsatvika hjá aðilum. Þannig segir stefnandi upphaf málsins það að á vormánuðum árið 2009 hafi Hermann Vilmundarson, formaður hestamannafélagsins Gusts, haft frumkvæði að aðkomu og vinnu stefnanda við undirbúning hönnunar reiðhallar á Kjóavöllum. Í framhaldinu hafi stefnandi unnið þarfagreiningu og frumdrög að reiðhöllinni. Á haustmánuðum 2011 hafi fyrirsvarsmaður Gusts óskað eftir áframhaldandi vinnu stefnanda við undirbúning að byggingu reiðhallarinnar. Stefnandi hafi þá þegar hafist handa við áframhaldandi undirbúning og unnið teikningar. Í því ferli hafi hann haft samráð við stjórnir Gusts og Andvara, sem stefnandi kveður hafa sameinast í stefnda. Hinn 1. nóvember 2011 hafi tillaga að hönnuninni legið fyrir og hafi rýnifundur verið haldinn 13. desember 2011 þar sem farið hafi verið yfir hönnun og framlagðar teikningar stefnanda. Í framhaldinu hafi lokavinna við hönnunina hafist og í maí 2012 hafi verkinu nánast verið lokið. Á því tímamarki hafi stefnda gert samkomulag við Garðabæ og Kópavogsbæ um að félagið sæi um uppbyggingu á Kjóavöllum. Í framhaldi af því hafi verkefnisstjóri stefnda óskað eftir því við stefnanda að hann gengi frá verkinu til útboðs, sbr. framlagðan tölvupóst hans til fyrirsvarsmanns stefnanda frá 25. maí 2012. Verkið hafi síðan verið unnið í samræmi við beiðni stefnda, til samræmis við kröfur byggingarfulltrúa, og skráningartafla unnin. Mats brunavarna hafi verið aflað á grundvelli hönnunarinnar og þegar til útboðs kom hafi bygginganefndarteikningar verið tilbúnar. Hafi þær eingöngu átt eftir að fá samþykki byggingarfulltrúa.

Stefnda lýsir upphafi málsins hins vegar svo að gerður hafi verið samningur á milli Hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og bæjarstjórnar Kópavogs í maí árið 2006. Í meginatriðum hafi falist í þeim samningum að hestamannafélagið skyldi leggja félagssvæði og hesthúsalóðir félagsmanna til sveitarfélagsins. Í staðinn hafi sveitarfélagið átt að útvega annað land fyrir hestamennina og félagið. Þá hafi í 4. og 5. gr. samningsins verið kveðið á um að sveitarfélagið annaðist skipulagsvinnu á hinu nýja hesthúsasvæði í samvinnu við Garðabæ og Hestamannafélagið Andvara í Garðabæ. Hafi sveitarfélagið tekið að sér að byggja hið nýja svæði upp, meðal annars með því að hafa forgöngu um sýningar- eða keppnishöll fyrir hestamannafélögin. Á þessum tíma hafi fyrirsvarsmaður og eigandi stefnanda verið félagi í hestamannafélaginu Gusti. Stefnda segir það vera grundvallaratriði að á þessum tíma, þ.e. frá árinu 2006, hafi það verið Kópavogsbær sem haft hafi á sinni hendi undirbúning að byggingu reiðhallar fyrir hestamannafélögin. Öll hönnunarvinna hafi því um árabil verið unnin af sveitarfélaginu og ráðgjöfum þess. Þetta megi glögglega ráða af framlagðri fundargerð frá 7. september 2011. Á þeim fundi virðist sem teikningar hafi verið lagðar fram af hálfu Kópavogsbæjar „að mestu í samræmi við tillögur frá Sveini Ívarssyni arkitekt“. Á þessum tíma hafi Kópavogsbær verið með útboð í undirbúningi og hafi það átt að fara fram eftir að félagsfundir hestamannafélaganna hefðu fjallað um málið, sbr. niðurlag 1. gr. fundargerðarinnar.

Stefnda segir ekki hafa orðið af áformum Kópavogsbæjar og eftir nokkrar tafir á málinu hafi stefnda gert samkomulag í júní 2012 við Garðabæ og Kópavogsbæ um að félagið sæi sjálft um uppbyggingu á svæðinu. Stefnda hafi þá fengið afhent drög að útboðsgögnum og teikningum frá Kópavogsbæ, án þess þeim fylgdu nokkrar kvaðir um óuppgerðar greiðslur til þeirra hönnuða sem komið höfðu fyrr að málum.

Er hér var komið sögu réðst stefnda í undirbúning útboðs vegna byggingar reiðhallarinnar. Útboðsgögnin voru afhent 24. ágúst 2012 og opnað fyrir tilboð 21. september sama ár. Útboðið var lokað í samræmi við reglur ÍST 30 frá 2012 um lokuð útboð. Frestur var síðan gefinn á opnun tilboða til 12. október 2012. Í útboðsgögnum og minnisblaði var ítrekað vísað til hönnunar stefnanda.

Eykt ehf., ÍAV hf., Ístaki hf., JÁVERK ehf., Landstólpa ehf., Límtré Vírneti ehf. og SS Verktökum ehf. var boðið að taka þátt í útboðinu. Framlagt minnisblað, dagsett 20. ágúst 2012, var afhent þeim aðilum. Í minnisblaðinu kom fram að útboðsgögnum fylgdu teikningar stefnanda. Var tilboðsgjöfum veitt heimild til að gera annað tveggja, byggja tilboð sitt á þeirri hönnun eða skila inn nýrri hönnun sem byggði þá á öðrum teikningum, hugmyndum og útfærslum tilboðsgjafa.

JÁVERK ehf. átti lægsta boð og nam það 401.900.000 krónum. Þar af gerði tilboðið ráð fyrir 9.800.000 krónum vegna hönnunar- og undirbúningskostnaðar og heldur stefnandi því fram að tilboðsgjafi hafi vanáætlað þennan kostnaðarlið verulega. Meðfylgjandi tilboðinu voru teikningar vegna hönnunar á reiðhöllinni og var þar um að ræða sömu teikningar og fylgt höfðu útboðsgögnum, þ.e. teikningar stefnanda. Teikningunum skilaði JÁVERK ehf. hins vegar ranglega inn undir nafni ASK arkitekta, án heimildar stefnanda.

Hestamannafélagið á Kjóavöllum, er nú heitir hestamannafélagið Sprettur, greiddi 2.510.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, til stefnanda samkvæmt reikningi sem stefnandi gerði félaginu 1. september 2012. Samkvæmt efni reikningsins var um „innborgun vegna hönnunar reiðhallar“ að ræða.

Hinn 26. nóvember 2012 sendi stefnandi bréf vegna notkunar ASK arkitekta á hönnun hans sem JÁVERK ehf. byggði á í tilboði sínu. Bréfin voru send stefnda, ASK arkitektum og JÁVERK ehf. Benti stefnandi á að hann hefði ekki veitt ASK arkitektum heimild til að fjarlægja nafn sitt af teikningum af reiðhöllinni, hvað þá setja eigið nafn í staðinn.

Hinn 10. desember 2012 hafði formaður stefnda samband við stefnanda og óskaði eftir því að hann sendi byggingarnefndarteikningar af reiðhöllinni þegar inn til samþykktar hjá byggingarfulltrúa. Stefnandi varð við þessari ósk stefnda og strax daginn eftir höfðu teikningarnar verið samþykktar og stimplaðar af byggingarfulltrúa. Umsókn stefnda um byggingarleyfi var undirrituð af formanni stefnda og var stefnandi tilgreindur sem hönnuður reiðhallarinnar í umsókninni. Á grundvelli teikninga og vinnu stefnanda var gefið út byggingarleyfi fyrir reiðhöllinni 27. mars 2013.

Hinn 12. desember 2012 rituðu málsaðilar undir samkomulag ásamt fyrirsvarsmanni JÁVERK ehf. þar sem fram kom meðal annars að stefnandi tæki að sér „... arkitektahönnun á Reiðhöll Kjóavöllum fyrir Hestamannafélagið á Kjóavöllum.“ Einnig kom fram í samkomulaginu að stefnandi myndi vinna með ráðgjöfum JÁVERK ehf. að hönnun reiðhallarinnar.

Hinn 18. febrúar 2013 sendi stefnandi bréf til stefnda þar sem upplýst var að heildarþóknun stefnanda fyrir verkið, að frádreginni fyrrnefndri 2.510.000 króna innborgun, næmi 14.432.500 krónum með virðisaukaskatti. Var sérstaklega tekið fram að stefnandi hefði lækkað þóknun sína umtalsvert og væri hin umkrafða þóknun „... lítill hluti af því sem vinnureglur Arkitektafélagsins ganga út frá.“ Bréfi þessu svaraði stefnda skriflega 19. febrúar 2013 þar sem kröfum stefnanda var hafnað. Í framhaldinu sendi stefnandi reikning í samræmi við kröfu sína, dagsettan 1. mars 2013. Útgáfu reikningsins svaraði stefnda skriflega 12. mars 2013. Í því bréfi var fjárhæð reikningsins mótmælt á þeim grunni að hún væri ekki í samræmi við vinnu þá sem um hefði verið beðið í lok maí 2012.

Þar sem innheimtutilraunir stefnanda báru ekki árangur höfðaði félagið mál þetta gegn stefnda 19. júní 2013 samkvæmt áðursögðu.

II

Hvað aðild stefnda að málinu varðar vísar stefnandi til þess að málið sé til komið vegna ágreinings um greiðslu þóknunar fyrir hönnun og teikningu á reiðhöll á Kjóavöllum í Kópavogi. Stefnda hafi orðið til árið 2012 við samruna hestamanna­félagsins Gusts í Kópavogi og hestamannafélagsins Andvara í Garðabæ. Hið nýja félag hafi um tíma haft vinnuheitið „hestamannafélagið á Kjóavöllum“, en hafi síðan hlotið nafnið „hestamannafélagið Sprettur“. Strax á vormánuðum 2009 hafi samruni félaganna verið fyrirséður, sem og flutningur hins sameinaða félags á nýtt félagssvæði að Kjóavöllum. Félögin tvö hafi því ákveðið að reisa skyldi reiðhöll á Kjóavöllum og hafi samstarfið við stefnanda hafist með þeim hætti að Hermann Vilmundarson, þáverandi formaður hestamannafélagsins Gusts, leitaði til stefnanda um hönnun verksins. Öll vinna stefnanda á fyrri stigum hafi farið fram undir stjórn hestamannafélaganna beggja, sem samkvæmt áðursögðu hafi síðar tekið upp vinnuheitið „hestamannafélagið á Kjóavöllum“. Þrátt fyrir að stefndi í máli þessu heiti öðru nafni en sá aðili sem stefnandi hafi samið við sé ljóst að hestamannafélögin Gustur og Andvari hafi verið samningsaðilar við stefnanda, síðar undir vinnuheitinu „hestamannafélagið á Kjóavöllum“. Hestamannafélagið Sprettur hafi við stofnun árið 2012 tekið við öllum réttindum og skyldum félaganna tveggja við algeran samruna þeirra. Samruninn hafi farið fram án allra skuldaskila og hafi félagið Sprettur síðan haldið uppi samningssambandinu við stefnanda. Samkvæmt öllu þessu sé ljóst að hestamannafélagið Sprettur sé réttur aðili að málinu.

Eftir því sem stefnandi komist næst hafi upphaflega staðið til að Kópavogsbær og Garðabær stæðu straum af uppbyggingu á hinu nýja félagssvæði á Kjóavöllum. Því samkomulagi hafi verið breytt með þeim hætti að hestamannafélagið á Kjóavöllum fékk ákveðna greiðslu frá Kópavogsbæ og Garðabæ og tók samhliða yfir allar greiðsluskyldur og ábyrgð vegna uppbyggingarinnar. Það samkomulag sé stefnanda hins vegar óviðkomandi með öllu, enda hafi hann eingöngu átt samskipti við fyrirsvarsmenn stefnda, áður fyrirsvarsmenn hestamannafélagsins á Kjóavöllum, og þar á undan fyrirsvarsmenn hestamannafélaganna Gusts og Andvara.

Stefnandi kveðst reisa kröfu sína á samningssambandi sem komist hafi á milli aðila málsins. Stefnandi hafi innt af hendi umbeðna vinnu og eigi hann rétt á því að fá greitt fyrir hana. Stefnandi hafi gefið út reikning vegna vinnu sinnar, dagsettan 1. mars 2013, að fjárhæð 14.432.500 krónur með virðisaukaskatti. Gjalddagi reikningsins hafi verið sá sami og útgáfudagur hans. Reikningurinn taki til þóknunar stefnanda fyrir hönnun á reiðhöll og félagsaðstöðu við Kjóavelli. Þennan reikning hafi stefnda neitað að greiða.

Kröfu sína segir stefnandi meðal annars styðjast við meginregluna um skuldbindingargildi samninga. Útboðsskilmálar í hinu lokaða útboði stefnda hafi gert ráð fyrir að kostnaður vegna hönnunar og teikninga væri innifalinn í tilboðsfjárhæð. Þegar í ljós hafi komið að áætlaður kostnaður JÁVERK ehf. fyrir þennan þátt verksins var lægri en sú þóknun sem stefnandi hafði þegar unnið fyrir hafi stefnandi þegar gert stefnda það ljóst. Hann hafi í kjölfarið reynt, alfarið án skyldu, að koma verulega til móts við stefnda, enda telji stefnandi að fjárhæð reiknings hans frá 1. mars 2013 sé verulega lægri en tíðkist að greitt sé fyrir sambærilega vinnu.

Stefnda hafi margsinnis viðurkennt að samningssamband hafi komist á milli aðila, t.d. með samkomulagi aðila frá desember 2012. Með því hafi stefnda jafnframt viðurkennt skyldu til greiðslu fyrrnefnds reiknings vegna vinnu stefnanda í þágu stefnda. Hafi það og verið í samræmi við þá staðreynd að stefnandi hafi aldrei gert samning við JÁVERK ehf. heldur starfað á vegum stefnda við umbeðið verkefni, áður hestamannafélaganna Gusts og Andvara, allt frá árinu 2009. Stefnda hafi einnig viðurkennt greiðsluskyldu sína sérstaklega með innborgun á verkið að fjárhæð 2.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, 1. september 2012.

Af hálfu stefnanda er til þess vísað að í samkomulagi aðila hafi sérstaklega verið tiltekið að stefnandi myndi „taka að sér arkitektahönnun á Reiðhöll Kjóavöllum fyrir Hestamannafélagið Kjóavöllum“, sbr. framlagt „Samkomulag varðandi Reiðhöll Kjóavöllum-Arkitektahönnun“ frá 12. desember 2012. Umsókn um byggingarleyfi staðfesti að stefnandi sé og hafi verið arkitektinn að reiðhöllinni á Kjóavöllum. Umsóknin sé jafnframt til sönnunar um samningssamband aðila og að stefnda beri ábyrgð og greiðsluskyldu gagnvart stefnanda.

Stefnandi segir óumdeilt að stefnda hafi lagt vinnu stefnanda til grundvallar við byggingu reiðhallarinnar. Stefnda hafi meðal annars fengið útgefið byggingarleyfi, af þar til bærum yfirvöldum, sem grundvallist á vinnu stefnanda. Samt telji stefnda sér heimilt að hafna að greiða fyrir þá vinnu. Þeirri afstöðu stefnda sé mótmælt.

Kröfur sínar kveðst stefnandi reisa á þeirri grundvallarreglu að samningar skuli standa. Stefnda beri samkvæmt henni að efna samning sinn við stefnanda og greiða fyrir þá vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi og stefnda hafi nýtt sér til fulls.

Þá bendir stefnandi á að hann sé sérfræðingur og vinni verkefni sem verktaki. Stefnda hafi enga ástæðu haft til að ætla að stefnandi ynni verkið á öðrum forsendum en almennt tíðkist á meðal sérfræðinga á sviði arkitektúrs. Stefnandi hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að stefnda væri verkbeiðandi og að félagið myndi greiða fyrir þá þjónustu, og það verk, sem stefnandi innti af hendi að beiðni stefnda. Það sé því ljóst að stefnda beri að efna greiðsluskyldu sína samkvæmt samningssambandi aðila og til samræmis við efni fyrrnefnds reiknings sem stefnandi hafi gert stefnda 1. mars 2013.

Stefnda mótmælir þeirri mótbáru stefnda að títtnefndur reikningur stefnanda, að fjárhæð 14.432.500 krónur, sé ekki í samræmi við þá vinnu sem beðið hafi verið um í lok maí 2012. Bendir stefnandi á í því sambandi að árið 2009 hafi stefnandi gert þarfagreiningu og fyrstu teikningu, dagsetta 18. júní 2009. Á haustmánuðum 2011 hafi formaður hestamannafélagsins Gusts óskað eftir gögnum frá stefnanda. Stefnandi hafi í framhaldinu hafið vinnu og lýst því yfir í tölvupósti 1. nóvember 2011 að hann væri tilbúinn með tillögu sína. Þá tillögu hafi verið farið yfir á rýnifundi með báðum hestamannafélögunum, þá starfandi undir vinnuheitinu „hestamannafélagið á Kjóavöllum“, 13. desember 2011. Þær teikningar stefnanda, sem þá hafi verið lagðar fram, séu dagsettar 1. nóvember 2011.

Í minnisblaði sem stefnda hafi sent útboðsþátttakendum 20. ágúst 2012 hafi félagið tekið fram að meðfylgjandi væru „grunnmyndir og útlitsmyndir af reiðskemmunni sem Sveinn Ívarsson arkitekt hefur unnið fyrir verkkaupa“. Í útboðsskilmálum hafi hið sama verið tekið fram með skýrum hætti. Með greiðslu innborgunar að fjárhæð 2.510.000 krónur 1. september 2012 hafi stefnda staðfest og viðurkennt greiðsluskyldu sína, enn einu sinni. Á reikningnum hafi staðið: „Innborgun vegna hönnunar reiðhallar.“ Stefnda hafi í engu mótmælt greiðslunni heldur greitt reikninginn án nokkurs fyrirvara eða athugasemda. Þá hafi stefndi ekki gert fyrirvara við greiðsluna, þrátt fyrir að ljóst væri að einungis væri um innborgun að ræða á heildarþóknun fyrir vinnu stefnanda. Hafi stefnandi fullt forræði á því hvaða fjárhæð hann kaus að taka sem borgun inn á heildarverkefnið.

Af öllu framangreindu kveður stefnandi ljóst að stefnda sé með öllu ófært að bera fyrir sig að stefnandi hafi aðeins unnið að verkinu frá því í lok maí 2012, eða að stefnda beri af einhverjum ástæðum aðeins að greiða fyrir þá vinnu stefnanda sem unnin hafi verið frá þeim tíma. Reikningur stefnanda frá 1. september 2012 beri það í engu með sér að um fullnaðargreiðslu sé að ræða fyrir þá vinnu sem þá hafði verið unnin, enda sé skýrt tekið fram í texta reikningsins að einungis sé um „innborgun“ að ræða.

Þá kveðst stefnandi mótmæla harðlega þeirri fullyrðingu stefnda að krafa félagsins sé allt of há. Vísar stefnandi til þess að þóknun vegna vinnu stefnanda byggist á reglum um störf arkitekta, sem fjölmargir arkitektar styðjast við í útreikningi á þóknun. Þar segi að öll verk yfir 200 rúmmetrum skuli gjaldtekin samkvæmt rúmmetragjaldi. Þessa reglu hafi stefnandi stuðst við á öllum sínum starfsferli, eða í yfir 30 ár. Sé tekið er mið af verðbankanum „HANNARR“, sem stefnandi segir þekktan verðbanka fyrir bæði verkfræðinga og arkitekta, þá sé lægsti hönnunar­kostnaður miðað við desember 2012 1.478 krónur á m³. Samkvæmt því ætti upphæðin fyrir hönnun reiðhallarinnar að Kjóavöllum að vera 45.818.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum. Sé þóknun stefnanda reiknuð eftir vinnureglum þá sé viðmiðun á þóknun fyrir hönnun íþróttahúss af einföldustu gerð og án áhorfendabekkja 36.227.000 krónur (61.091 kr/m³  x 31.211 m³ x 1,9%/100). Af þessu megi sjá að fjárhæð reiknings stefnanda sé afar lág miðað við almennt gangverð á slíkri þjónustu sem stefnandi hafi veitt stefnda. Því sé fráleitt annað en að umstefndur reikningur og þóknun stefnanda sé bæði sanngjörn og hófleg.

Stefnandi kveður kröfu sína vegna þóknunar vera reiknaða með hliðsjón af framangreindum vinnureglum og venjum á sviði arkitektúrs, þó þannig að krafa stefnanda sé miklum mun lægri vegna þess afsláttar sem hann hafi þegar gefið stefnda. Stefnda hafi hvorki gert athugasemdir við þóknun stefnanda né nokkurn fyrirvara um að samið yrði á annan hátt en almennt væri viðtekin venja í samningssamböndum eins og því sem hér um ræði. Þar að auki, þegar stefnda hafi innti af hendi greiðslu 1. september 2012, hafi stefnda enga fyrirvara gert vegna hennar eða fyrirséðrar áframhaldandi vinnu stefnanda gegn fyrirséðri þóknun. Stefnda hafi mátt vera fyllilega ljóst, og hafi raunar verið ljóst frá upphafi, að stefnandi ynni vinnu sína gegn greiðslu. Stefnandi hafi nú uppfyllt allar sínar skyldur gagnvart stefnda án þess að stefndi hafi efnt skyldu sína til greiðslu þóknunar.

Stefnandi tekur sérstaklega fram að hann sé með öllu óbundinn af tilboði JÁVERK ehf. og því að þar sé tilboðsliðurinn um hönnun lægri en eðlilegt megi teljast. Stefnda og JÁVERK ehf. verði sjálf að bera ábyrgðina og hallann af slíkri tilboðsgerð, enda sé hún stefnanda með öllu óviðkomandi.

Þá hafi stefnda sönnunarbyrðina fyrir því samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar að krafa stefnanda vegna þóknunar fyrir vinnu félagsins sé ósanngjörn eða of há. Þá hafi stefnda enga réttmæta ástæðu haft til að ætla að stefnandi ynni umþrætt verk á lægri kjörum en almennt tíðkist, eða á lægri kjörum en samkvæmt reglum um störf arkitekta.

Samkvæmt framangreindu sé því ljóst að almennar reglur og venjur hafi gilt við útreikning þóknunar. Verði stefnda að bera hallann af því að hafa ekki gætt þess að semja á annan veg við stefnanda.

Um fjárhæð kaupverðs vísar stefnandi einnig til 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, enda sé umkrafið verð bæði sanngjarnt og í samræmi við gangverð sams konar verkefna.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglunnar um að samninga skuli halda, sem og meginreglna kröfuréttar. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, einkum 45. gr. laganna, sem og höfundalaga nr. 73/1972.

III

Stefnda kveðst mótmæla því sem í stefnu segi um að Hestamannafélagið Sprettur hafi orðið til við samruna hestamannafélagsins Gusts og hestamannafélagsins Andvara. Bæði hestamannafélögin séu enn starfandi, hvort í sínu lagi. Félögin hafi einfaldlega ákveðið að sameina krafta sína sem félög í einu stóru hestamannafélagi. Í raun megi segja að hestamannafélagið Gustur og hestamannafélagið Andvari séu félagar í hestamannafélaginu Spretti.

Stefnandi hafi í upphafi haft samskipti við Hermann Vilmundarson, sitjandi formann hestamannafélagsins Gusts. Enginn skriflegur samningur hafi legið til grundvallar þeirri vinnu stefnanda. Ekki sé þörf á að leysa frekar úr því, enda sé sú úrlausn þessu máli óviðkomandi. Kröfunni sé nú beint að stefnda sem ekki hafði verið stofnað þegar óskað var eftir vinnunni. Forræði á hönnunarvinnu til ársins 2011 hafi verið á hendi Kópavogsbæjar.

Allar skuldbindingar fram til þess að Hestamannafélagið Sprettur gerði samkomulag við Garðabæ og Kópavogsbæ, um að félagið sæi um uppbyggingu á svæðinu, séu á milli stefnanda og hestamannafélagsins Gusts. Það hafi ekki verið fyrr en í framhaldi af samkomulaginu við Garðabæ og Kópavogsbæ sem verkefnisstjóri stefnda hafi óskað eftir vinnu stefnanda með beiðni um að gengið yrði frá verkinu til útboðs. Þótt félög stofni sérstakt félag í kringum samvinnu sína leiði það ekki sjálfkrafa til þess að hið nýstofnaða félag taki við öllum réttindum og skyldum stofnfélaganna. Greiðslur vegna vinnu stefnanda fyrir maí 2012 séu því ekki á ábyrgð stefnda.

Stefnda telji sér ekki skylt að greiða fyrir þá vinnu sem áður hafði verið innt af hendi vegna þessara uppdrátta, enda ekki um það samið þegar stefnda tók að sér uppbygginguna. Þar sem röngum aðila hafi verið stefnt í þessu máli, að því er varði vinnu fyrir maí/júní 2012, sé krafist sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Endurgjald fyrir vinnu eftir það tímamark hafi að fullu verið gert upp.

Þá krefjist stefnda jafnframt sýknu á þeim grundvelli að krafa stefnanda, og sá útreikningur sem henni liggi til grundvallar, sé sett þannig fram að ekki verði séð hvaða hluti kröfunnar sé fyrir vinnu stefnanda sem unnin hafi verið fyrir maí 2012. Þá sé krafa stefnanda, eins og málið sé lagt fyrir dóminn, eingöngu á því byggð að verklaun skuli miðuð við gjaldskrá Arkitektafélagsins. Engar frekari upplýsingar séu veittar, þrátt fyrir áskoranir þar um, varðandi vinnutímafjölda o.þ.h. Málið standi því og falli af hálfu stefnanda með nefndri gjaldskrá, sem aldrei hafi verið samið um að gilda ætti í samskiptum málsaðila.

Af málsatvikalýsingu og skjalaskrá stefnanda segir stefnda ljóst að skriflegur samningur hafi ekki legið fyrir þegar stefnandi hóf vinnu sína við þarfagreiningu og teikningu reiðhallarinnar. Ekkert liggi fyrir um umsamið verð í upphafi. Því fari um ákvörðun verklauna eftir almennum reglum. Stefnda tekur þó fram að ávallt verði að gera þá kröfu að sá sem setji slíka kröfu fram veiti nægjanlegar upplýsingar til að hægt sé að leggja mat á það hvort krafa hans sé eðlileg. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert.

Reglur þær sem stefnandi vísi til hafi verið settar af gjaldskrárnefnd Arkitektafélags Íslands í ágúst 1993. Þessar reglur séu í raun ekki til lengur og séu þær ólögmætar. Hinn 23. ágúst 1993 hafi Arkitektafélag Íslands sótt formlega um undanþágu á grundvelli 16. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 til að nota „Reglur um störf arkitekta“ til leiðbeiningar við verðlagningu á verkum arkitekta. Samkeppnisráð hafi ekki talið efni til að veita Arkitektafélagi Íslands undanþágu frá 10. gr. þágildandi samkeppnislaga. Umsókn félagsins hafi því verið hafnað, sbr. framlagða ákvörðun samkeppnisráðs nr. 25/1994.

Ofangreind ákvörðun um höfnun á veitingu undanþágu hafi verið tekin í gildistíð eldri samkeppnislaga. Háttsemin sé hins vegar allt að einu bönnuð samkvæmt núgildandi samkeppnislögum, nema undanþága sé veitt. Ekki verði séð að Arkitektafélag Íslands hafi sótt aftur um undanþágu eftir að núgildandi samkeppnislög nr. 44/2005 tóku gildi. Hér hátti því þannig til að stefnandi byggi útreikning þóknunar á reglum sem samkeppnisráð hafi ekki heimilað að yrðu settar. Tilvísun í umræddar reglur nægi af þeim sökum ekki til þess að sýna fram á að um eðlilegt gangverð sé að ræða, enda beinlínis óheimilt að styðjast við reglurnar. Stefnandi hafi því ekki lagt neinn lögmætan grunn að kröfum sínum. Samkvæmt því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Telur stefnda og rétt að ítreka að félagið hafi nú þegar greitt umtalsverða fjárhæð í verklaun til stefnanda og hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á hærri greiðslum. Sýknukrafan byggist á því og enn fremur þeim sjónarmiðum sem lækkunarkrafa stefnda byggist á.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu kveðst félagið byggja á því að lækka beri kröfu stefnanda þar sem reikningur félagsins frá 1. mars 2012 sé of hár. Reikningurinn hafi verið endursendur með bréfi 12 mars 2013, enda fjárhæð hans í engu samræmi við þá vinnu sem óskað hafi verið eftir.

Heildarfjárhæð umkrafinnar þóknunar sé heldur ekki í neinu samræmi við það sem búast hafi mátt við þegar lagður var fram reikningur 1. september 2012 að fjárhæð 2.510.000 krónur, en við útgáfu þess reiknings hafi útboðsteikningar legið fyrir sem verið hafi ígildi bygginganefndarteikninga. Hafi stefnandi á því stigi átt að gefa út fullnaðarreikning fyrir vinnu sína, enda hafi þá ekkert legið fyrir um frekari aðkomu hans að verkinu. Stefnda hafi samkvæmt því verið í góðri trú um að uppgjöri væri lokið, en enginn áskilnaður hafi verið hafður uppi um frekari kröfur vegna þeirrar vinnu sem innt hafði verið af hendi þá um sumarið.

Þá sé umkrafin fjárhæð ekki í samræmi við seinna samkomulag um arkitekta­hönnun reiðhallar á Kjóavöllum, dagsett 12. desember 2012. Af samkomulaginu hafi mátt draga þá ályktun að endurgjald fyrir vinnu stefnanda í þágu verktaka mannvirkisins væri metið á um 1.500.000 krónur, en með samkomulaginu hafi greiðslur frá verkkaupa til verktaka samkvæmt tilboði verið lækkaðar um þá fjárhæð. Undir þetta skjal hafi stefnandi skrifað. Greiðslur til JÁVERK ehf. hafi verið lækkaðar þar sem stefnanda hafi verið ætlað að yfirtaka umræddan verkþátt fyrir stefnda, sem myndi greiða honum fyrir verkið en ekki JÁVERK ehf. Lækkun greiðslna til JÁVERK ehf. hafi tengst mati á kostnaði við hönnun og hafi stefnda verið í þeirri trú að stefnandi væri sama sinnis, enda hafi hann verið viðstaddur gerð samkomulagsins og skrifað undir það til staðfestingar samkvæmt áðursögðu.

Verði það sem að framan er rakið ekki talin óræk sönnun fyrir hæfilegu endurgjaldi til stefnanda bendir stefnda á að það eina sem ljóst sé í málinu um vinnuframlag stefnanda sé að svo virðist sem stefnandi hafi í tveimur lotum unnið að tilteknum þáttum hönnunar reiðhallarinnar. Fyrst í tvo mánuði sumarið 2012 við undirbúning útboðsgagna og síðan um áramótin 2012-2013 við gerð verkteikninga, eftir að verksamningur hafði verið gerður. Fyrir þessa vinnu hafi stefnandi fengið greiddar 2.000.000 króna en hann krefjist nú u.þ.b. 14.500.000 króna til viðbótar, eða samtals um 16.500.000 króna. Sú upphæð sé úr öllu hófi, ekki síst að því gættu stefnandi hafi ekki upplýst nokkurn skapaðan hlut um vinnuframlag, vinnustundir, útlagðan kostnað eða annað sem nauðsynlegt sé að greina frá svo leggja megi mat á eðlileg verklaun. Tekur stefnda fram í þessu sambandi að sönnunarbyrði fyrir kröfunni hvíli að sjálfsögðu á stefnanda.

Stefnda vísar til þess að í ákvæði 3.3 í siðareglum Arkitektafélags Íslands segi svo: „Arkitekt er skylt að veita verkkaupa sem gleggstar upplýsingar um framkvæmd og áætlaðan kostnað fyrirhugaðs verkefnis og sjá til þess að gerður sé skilmerkilegur samningur um verkefnið.“ Verði því að gera þá kröfu til arkitekts sem verktaka og sérfræðings að hann geri verkkaupa grein fyrir áætluðum kostnaði verksins. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að verkkaupi, stefnda í málinu, þekki fyrrgreindar reglur Arkitektafélags Íslands, sem stefnandi vísi í, enda hafi félagið ekki fengið heimild til að setja þær og reglurnar þar af leiðandi ekki aðgengilegar fyrir verkkaupa. Reglurnar sé t.d. ekki að finna á internetinu. Ætla megi að framlagt eintak sé í eigu stefnanda og sé frá því að til stóð að setja reglurnar árið 1993. Samkvæmt þessu sé ljóst að stefnda hafi ekki með nokkru móti getað kynnt sér útreikningsaðferð stefnanda fyrir fram. Félagið hafi því ekki haft möguleika á að átta sig á endanlegum kostnaði samkvæmt reglunum.

Þegar ekki liggi fyrir nein viðmið um útreikning lokaverðs vegna verks við gerð samnings sé eðlilegt að verkkaupi geri ráð fyrir að miðað verði við tímakaup. Þegar samið hafi verið um verkið á fundi í lok maí 2012 hafi ekkert annað komið fram en verkið ætti að vinna í tímavinnu. Ef greiða hafi átt fyrir verkið með öðrum hætti hafi verktaki með réttu átt að taka það sérstaklega fram. Það hafi ekki verið gert.

Stefnda kveðst margoft hafa skorað á stefnanda að afhenda tímaskýrslur svo meta mætti hvort um sanngjarnt endurgjald væri að ræða. Það hljóti að teljast eðlileg krafa að verkkaupi fái tímaskýrslur til að geta áttað sig á þeirri vinnu sem varið hafi verið í verkið og þar með hversu mikil vinna sé undirliggjandi við útreikning þóknunar þeirrar sem hann eigi að greiða.

Kröfum um dráttarvexti og innheimtukostnað segist stefnda mótmæla, enda sé ljóst að félaginu hafi engin skylda borið til að greiða of háan reikning og þá hafi það ekki fengið fullnægjandi skýringar svo mögulegt hafi verið að greiða hluta reikningsins. Í greinargerð sinni skoraði stefnda á stefnanda að senda sér upplýsingar um sundurliðun reikningsins þannig að fram kæmi hve marga vinnutíma væri verið að krefjast gjalds fyrir.

Að lokum vísar stefnda, kröfum sínum til stuðnings, til meginreglna samninga- og kröfuréttar.

IV

Mál þetta hefur stefnandi höfðað gegn stefnda til innheimtu á reikningi, dagsettum 1. mars 2013, að fjárhæð 14.432.500 krónur. Á reikningnum kemur fram að hann taki til þóknunar „... fyrir hönnun á reiðhöll og félagsaðstöðu við Kjóavelli.“

Fyrir liggur í málinu að stefnandi sá um arkitektahönnun á reiðhöll stefnda á Kjóavöllum. Einnig er upplýst að stefnandi vann að verkinu frá upphafi. Ágreiningur er hins vegar uppi um það fyrir hvaða aðila hann hafi unnið þar til í júní 2012, en stefnda hefur haldið því fram að vinna fyrir það tímamark sé félaginu óviðkomandi. Enginn skriflegur samningur liggur fyrir í málinu hvað þetta atriði varðar og þá voru engin vitni leidd við aðalmeðferð málsins sem varpað gátu á það ljósi.

Eins og mál þetta liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður að telja upplýst að málsaðilar hafi ekki samið um hvert endurgjald stefnanda fyrir vinnu hans í þágu stefnda skyldi vera. Í tilvikum þar sem svo háttar til fer um ákvörðun verklauna eftir almennum reglum, eftir atvikum meginreglu 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, sem stefnandi hefur vísað til í málatilbúnaði sínum.

Fyrrnefnd meginregla 45. gr. laga nr. 50/2000 leysir ekki þann aðila, sem krefur viðsemjanda sinn um endurgjald fyrir verk, undan þeirri skyldu, sbr. d-, e- og g-liði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að reifa kröfu sína og grundvöll hennar með viðhlítandi hætti. Stefnandi hefur meðal annars vísað til þess að umkrafin þóknun vegna vinnu hans byggist á reglum um störf arkitekta, sem fjölmargir arkitektar styðjast við. Þar segi að öll verk yfir 200 rúmmetrum skuli gjaldtekin samkvæmt rúmmetragjaldi. Þá liggi fyrir samkvæmt verðbankanum „HANNARR“ að fjárhæð reiknings stefnanda sé afar lág miðað við almennt gangverð á slíkri þjónustu sem stefnandi hafi veitt stefnda. Krafa stefnanda sé reiknuð með hliðsjón af framangreindum vinnureglum og venjum á sviði arkitektúrs, þó þannig að krafan sé miklu mun lægri vegna þess afsláttar sem stefnandi hafi gefið stefnda.

Í greinargerð stefnda í málinu er svohljóðandi ákvæði 3.3 í siðareglum Arkitektafélags Íslands tekið orðrétt upp: „Arkitekt er skylt að veita verkkaupa sem gleggstar upplýsingar um framkvæmd og áætlaðan kostnað fyrirhugaðs verkefnis og sjá til þess að gerður sé skilmerkilegur samningur um verkefnið.“ Svo sem mál þetta liggur fyrir dómnum verður ekki séð að stefnandi hafi gætt að þessu ákvæði er hann tók að sér umrætt verk.

Samkvæmt framansögðu, sem og að gögnum málsins virtum, þykir ljóst að hin umkrafða stefnufjárhæð sé hvorki nákvæmlega út reiknuð né ítarlegum gögnum studd. Virðist um að ræða fjárhæð sem stefnandi hafi fundið út með hliðsjón af framlagðri gjaldskrá Arkitektafélags Íslands og að teknu tilliti til ríflegs afsláttar sem stefnandi kveðst hafa veitt stefnda.

Reglur þær sem stefnandi vísar til munu stafa frá gjaldskrárnefnd Arkitektafélags Íslands. Ekkert liggur fyrir í málinu um að málsaðilar hafi samið um að leggja reglurnar til grundvallar við ákvörðun þóknunar til handa stefnanda vegna hins umdeilda verks. Auk þess verður ekki fram hjá því litið að 23. ágúst 1993 sótti Arkitektafélagið formlega um undanþágu á grundvelli 16. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 til að nota „Reglur um störf arkitekta“ til leiðbeiningar við verðlagningu á verkum arkitekta. Samkeppnisráð taldi hins vegar ekki efni til að veita félaginu undanþágu frá 10. gr. þágildandi samkeppnislaga og hafnaði umsókn félagsins, sbr. ákvörðun samkeppnis­ráðs nr. 25/1994. Ekkert hefur fram um það komið í málinu að Arkitektafélagið hafi sótt aftur um undanþágu eftir að núgildandi samkeppnislög nr. 44/2005 tóku gildi, en setning slíkra reglna sem hér um ræðir er bönnuð samkvæmt þeim lögum, nema undanþága sé veitt. Að öllu þessu gættu þykir ljóst að reglurnar séu hvorki tölulega til stuðnings stefnukröfunni, né geti þær haft nokkurt efnislegt gildi við úrlausn málsins. Reglurnar geta því ekki talist vera lögmætur grundvöllur kröfugerðar stefnanda.

Hvað verðbankann „HANNARR“ varðar gildir hið sama og um framangreindar reglur Arkitektafélags Íslands að því leyti að ekkert haldbært liggur fyrir í málinu um að málsaðilar hafi samið um að leggja „HANNARR“ til grundvallar við ákvörðun þóknunar til handa stefnanda vegna verksins. Auk þess verður ekki séð að framlögð ákvæði úr tilvitnuðum verðbanka séu stefnukröfunni tölulega til stuðnings með þeim hætti að byggjandi sé á í málinu.

Stefnandi hefur engin haldbær gögn lagt fram um umfang vinnu sinnar hvað varðar fjölda unninna vinnustunda. Í málinu liggja hins vegar frammi nokkrar teikningar sem óumdeilt er að stefnandi vann. Augljóst er af gögnunum að umtalsverð vinna stefnanda liggur þeim að baki. Þá verður framburður stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi, sem og vætti Guðna Eiríkssonar, verkefnisstjóra stefnda við hið umdeilda verk, ekki skilinn öðruvísi en svo að stefnandi hafi ekki enn fengið að fullu greitt fyrir vinnu sína í þágu stefnda.

Svo sem áður var nefnt leysir meginregla 45. gr. laga nr. 50/2000 ekki þann aðila, sem krefur viðsemjanda sinn um endurgjald fyrir verk, undan þeirri skyldu, sbr. d-, e- og g-liði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að reifa kröfu sína og grundvöll hennar með viðhlítandi hætti. Samkvæmt öllu framansögðu þykir stefnukrafan svo vanreifuð að hvorki sé mögulegt að dæma stefnanda hina umkröfðu fjárhæð í heild né að hluta. Þá þykir ótæk sú niðurstaða að sýkna stefnda alfarið af kröfum stefnanda í ljósi þess álits dómsins að vafalaust megi telja, þrátt fyrir þá galla sem á málatilbúnaði stefnanda séu samkvæmt áðursögðu, að stefnandi hafi enn ekki fengið greitt að fullu fyrir vinnu sína í þágu stefnda. Þykir því sú leið ein fær að vísa málinu alfarið frá dómi ex officio vegna vanreifunar.

Í ljósi niðurstöðu dómsins hér að framan eru ekki efni til að taka afstöðu til annarra þeirra málsástæðna aðila, sem í málatilbúnaði þeirra kunna að felast, en þegar hefur verið vikið að.

Samkvæmt framangreindri niðurstöðu dómsins, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að úrskurða stefnanda til að greiða stefnda málskostnað er hæfilega þykir ákveðinn, að öllum atvikum máls virtum, svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.

Stefnandi, Sveinn Ívarsson ehf., greiði stefnda, Hestamannafélaginu Spretti, 300.000 krónur í málskostnað.