Hæstiréttur íslands
Mál nr. 399/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
|
|
Föstudaginn 26. október 2001. |
|
Nr. 399/2001. |
Sólbakki ehf. og Örn Erlingsson (Kristján Stefánsson hrl.) gegn þrotabúi Fiskis ehf. (Hlöðver Kjartansson hrl.) Sparisjóði Hafnarfjarðar(Árni Grétar Finnsson hrl.) Lífeyrissjóði Suðurnesja og(Garðar Garðarsson hrl.) Íslandsbanka hf. (Steingrímur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala.
Báturinn F, eign þrotabús F ehf., var við nauðungarsölu sleginn hæstbjóðanda, S, þrátt fyrir að Ö og S ehf. hefðu í frammi mótmæli gegn því að salan næði fram að ganga. Ö og S ehf. skutu málinu þá til dómstóla og kröfðust þess að nauðungarsalan yrði ógilt. Var hafnað þeirri málsástæðu Ö og S ehf. að ógilda bæri söluna vegna þess að fyrstu uppboðsaðgerð hefði verið beint að F ehf. en ekki þrotabúinu, enda lá fyrir að nauðungarsöluaðgerðir voru stöðvaðar þegar upplýstist að F ehf. hefði verið úrskurðaður gjaldþrota og sölunni svo verið fram haldið með samþykki skiptastjóra sem mætti sjálfur á uppboðsþingið þar sem umrædd sala fór fram. Ö og S ehf. byggðu í öðru lagi á því að S ehf. væri eigandi aflahlutdeildar sem flutt hafi verið á bátinn tímabundið. Talið var að með því að S ehf. hefði ekki fengið samþykki veðhafanna S og FBA hf. til þess að flytja aflahlutdeild af bátnum, sbr. 4. tl. 3. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997, hefði sýslumanni verið rétt að bjóða upp aflahlutdeild þá sem skráð var á bátinn ásamt bátnum sjálfum. Þá var í þriðja lagi krafist ógildingar nauðungarsölunnar á þeim grundvelli að Ö og S ehf. hefði ekki verið tilkynnt um nauðungarsöluna. Þessu var einnig hafnað með vísan til þess að engin skylda hvíldi á uppboðsbeiðanda eða sýslumanni að tilkynna öllum þeim er telja sig eiga rétt yfir eign, að til standi að selja hana nauðungarsölu, sbr. 2. tl. 2. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, sbr. 9. gr. Þess utan hefði Ö og S ehf. verið kunnugt um söluna, við fyrirtöku hjá sýslumanni hefði verið mætt af þeirra hálfu og hagsmuna þeirra verið gætt. Niðurstaða málsins var því sú að nauðungarsalan skyldi standa óhögguð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði nauðungarsala sýslumannsins í Hafnarfirði á fiskiskipinu Fiski HF 51. Kæruheimild er í 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að fyrrnefnd nauðungarsala verði felld úr gildi, en til vara að ógilt verði ákvörðun sýslumanns um að selja með Fiski HF 51 nánar tilgreinda aflahlutdeild, sem sóknaraðilinn Sólbakki ehf. kveður tilheyra sér. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess hver fyrir sig að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sólbakki ehf. og Örn Erlingsson, greiði í sameiningu varnaraðilum, þrotabúi Fiskis hf., Sparisjóði Hafnarfjarðar, Lífeyrissjóði Suðurnesja og Íslandsbanka hf., hverjum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2001.
Mál þetta, sem þingfest var 18. maí 2001, var tekið til úrskurðar 12. september sl. Sóknaraðilar eru Örn Erlingsson, kt. 030237-4479, Sæbraut 20, Seltjarnarnesi og Sólbakki ehf., kt. 590190-1019.
Varnaraðilar eru þb. Fiskis ehf., kt. 590899-2249, Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 4, Hafnarfirði, Lífeyrissjóður Suðurnesja, kt. 571171-0239, Tjarnargötu 12, Keflavík og Íslandsbanki hf., kt. 550500-3530 ( áður Íslandsbanki-FBA hf., þar áður Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf)
Sóknaraðilar gera þá kröfu aðallega að nauðungarsala við framhaldsuppboð á m.b. Fiski HF-51, skipaskráningarnúmer 1438, er fram fór hinn 21. mars 2001 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, verði ógilt með dómi. Til vara krefjast sóknaraðilar þess að ákvörðun sýslumanns um að selja skráða aflaheimild með skipinu verði ógilt. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, þb. Fiskis ehf., gerir þá kröfu að kröfum sóknaraðila verði alfarið hafnað og þeir dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað auk álags á málskostnað og jafnframt að lögmaður sóknaraðila, Kristján Stefánsson hrl., verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar in solidum með sóknaraðilum.
Varnaraðili, Sparisjóður Hafnarfjarðar, krefst þess að nauðungarsala sem fram fór við framhaldssölu á m.b. Fiski HF-51, skipaskráningarnúmer 1438, ásamt aflaheimildum og aflamarki, þann 21. mars 2001, verði staðfest. Þá krefst hann einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila in solidum, að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili, Lífeyrissjóður Suðurnesja, gerir þá dómkröfu að framangreind nauðungarsala verði staðfest og að honum verði dæmdur málskostnaður, að mati dómsins, úr hendi Sólbakka ehf. og Kristjáns Stefánssonar hrl., in solidum.
Varnaraðili, Íslandsbanki hf., gerir þá kröfu að framangreind nauðungarsala verði staðfest og skráð aflahlutdeild fylgi skipinu við sölu. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins auk virðisaukaskatts.
I.
Þann 1. desember 2000 var fyrst tekin fyrir nauðungarsala á m.b. Fiski HF-51, skráningarnúmer 1438, hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði. Enginn var þá mættur af hálfu gerðarþola, Fiskis ehf. Nauðungarsölumeðferð var frestað til 23. janúar 2001 og þá byrjaði uppboð á eigninni. Af hálfu varnaraðila var mætt og einnig mætti af hálfu gerðarþola Guðbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins. Var leitað eftir boðum í eignina og ákveðið að uppboðinu yrði fram haldið 14. febrúar 2001. Þann dag mætti á ný framkvæmdastjóri Fiskis ehf. og upplýsti að bú fyrirtækisins hefði verið tekið til gjaldþrotaskipa. Hann greindi jafnframt frá því að skiptastjóri hefði verið skipaður. Þar sem skiptastjóri var ekki mættur við fyrirtökuna ákvað sýslumaður að fresta málinu að svo stöddu, með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Þann 21. mars 2001, var nauðungarsölu fram haldið. Þá voru mættir af hálfu sóknaraðila Örn Erlingsson, stjórnarformaður Sólbakka ehf. ásamt Kristjáni Stefánssyni hrl. Sóknaraðilar mótmæltu uppboðinu og framgangi þess. Sýslumaður ákvað eftir sem áður að uppboðið næði fram að ganga og var eignin ásamt aflaheimildum seld hæstbjóðanda á 7.000.000 króna. Sóknaraðilar lýstu því yfir að þeir áskildu sér rétt til að bera þessa ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm.
Sólbakki ehf., átti og gerði út m.b. Haförn KE-15, skipaskráningarnúmer 1438, sem er 36 brúttórúmlesta eikarbátur, smíðaður árið 1975. Þann 16. september 1999, seldi Sólbakki ehf. Fiski ehf. bátinn og var hann eftir það skráður sem Fiskir HF-15. Í kaupsamningi segir m.a.: "Báturinn selst án aflahlutdeildar, en með heimild til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Allar aflaheimildir, sem úthlutað kann að verða á bátinn, hvort heldur, sem er í tegundum sem nú eru innan eða utan kvóta og byggðar verða á aflareynslu bátsins til afhendingardags, verða eign seljanda og á sama hátt eign kaupanda þær aflaheimildir, sem úthlutað kann að verða á bátinn á grundvelli veiða eftir afhendingardag.
Seljandi flytur á bátinn aflahlutdeild sem nemur 15 þorskígildistonnum (0,4658385 aflahlutdeild í sandkola) að kröfu 1. veðréttarhafa (FBA), sem verður áfram eign seljanda og verður flutt af bátnum þá þegar skilyrði skapast til þess. Kaupandi hefur forleigurétt að aflamarki skv. greindri aflahlutdeild á markaðsverði, sem ella verði seld á kvótaþingi."
Sparisjóður Hafnarfjarðar er 3. veðréttarhafi samkvæmt veðskuldabréfi upphaflega að fjárhæð 8.000.000 milljónir króna, útgefnu 3. september 1999. Með yfirlýsingu 13. september 1999, heimilaði Sparisjóður Hafnarfjarðar flutning aflahlutdeildar og aflamarks af bátnum. Flutningsheimild þessi var bundin því skilyrði að fyrst yrðu greiddar upp skuldir á 1. og 2. veðrétti. Fram hefur komið í málinu að þessar skuldir á 1. og 2. veðrétti voru aldrei greiddar. Með yfirlýsingu 15. febrúar 2001 afturkallaði Sparisjóður Hafnarfjarðar þessa flutningsheimild. Var yfirlýsingu þar að lútandi þinglýst á skipið og send skiptastjóra þrotabús Fiskis ehf.
II.
Sóknaraðilar halda því fram að við framhaldssölu hinn 21. mars sl. hafi uppboðsþoli verið tilgreindur Fiskir ehf. og uppboðsaðgerðum beint gegn því félagi, en ekki þrotabúinu sem lögpersónu eins og eðlilegt hefði verið. Beri því þegar af þeirri ástæðu að ógilda uppboðið og uppboðsaðgerðir frá og með 14. febrúar 2001. Þá mótmæla sóknaraðilar því að við uppboð hafi fylgt aflaheimild sem skráð hafi verið á skipið, nánar tilgreint 30.000 kg. aflamark af sandkola sem er aflaheimild 0,4658385% og svari til 15.000 kg. þorskígilda. Sóknaraðilar telja að Sólbakki ehf. sé eigandi þessarar aflahlutdeildar sem hafi verið flutt tímabundið á bátinn að kröfu 1. veðréttarhafa, þá Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. Aðrir kröfuhafar hafi samþykkt flutning þessarar aflahlutdeildar af skipinu. Lagaskilyrðum laga nr. 38/1990 hafi því verið fullnægt til þess að flytja aflahlutdeildina af skipinu og einnig hafi þessi flutningur verið heimill samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997.
Sóknaraðilar mótmæla nauðungarsölu að kröfu Íslandsbanka hf. á þeim grundvelli að Sólbakka ehf. hafi ekki verið tilkynnt um nauðungarsölu, þrátt fyrir að félagið væri þinglýstur og skráður eigandi að því aflamarki sem skráð hafi verið á m.b. Fiski HF-051. Uppboðsbeiðanda hafi borið að beina greiðsluáskorun til sóknaraðila með því að skuldskeyting hafi ekki farið fram á þeim veðskuldabréfum sem bankinn reisi kröfu sína á.
III.
Varnaraðili, þrotabú Fiskis ehf., telur sóknaraðila ekki eiga réttmæta aðild að mótmælum og kröfu um ógildingu uppboðsins vegna hugsanlegs galla á málsmeðferð uppboðsmálsins gagnvart þrotabúinu. Af hálfu þrotabúsins hafi verið mætt við nauðungarsöluna og hafi þrotabúið þegar af þeirri ástæðu orðið aðili að uppboðsmálinu. Veiðiheimildir fylgi óhjákvæmilega með bátnum og seljist með honum við nauðungarsölu, bæði lög- og samningsveðhöfum til fullnustu. Enga nauðsyn hafi borið til að beina uppboðsaðgerðum að Sólbakka ehf., en auk þess hafi Sólbakka ehf. verið kunnugt um væntanlega nauðungarsölu. Hvað sem líði útgáfu sóknaraðila á skuldabréfum til Fiskveiðasjóðs séu þeir ekki gerðarþolar við uppboðið og engin þörf hafi verið að senda þeim greiðsluáskorun til þess að uppboðið gæti farið fram. Sóknaraðilar hafi mætt við uppboðið og verið kunnugt um fyrirtöku þess.
Varnaraðili, Sparisjóður Hafnarfjarðar, mótmælir því sérstaklega að ranglega hafi verið staðið að uppboðinu og að lagaskilyrðum laga nr. 38/1990 hafi ekki verið fullnægt. Uppboðsþingi 14. febrúar 2001 hafi verið frestað þegar í ljós hafi komið að Fiskir ehf. hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Ákvæðum 4. mgr. 116. gr. gjaldþrotaskiptalaga hafi því verið fylgt. Skiptastjóri hafi boðað til veðhafafundar skv. 129. gr. sömu laga og í framhaldi af því veitt heimild til nauðungarsölunnar. Skiptastjóri hafi síðan mætt á uppboðsþing sjálfur og verði því ekki annað séð en að ákvæðum uppboðslaga hafi verið fullnægt þrátt fyrir að uppboðstilkynningu hafi verið beint gegn Fiski ehf., en ekki þrotabúi Fiskis ehf.
Varnaraðili, Sparisjóður Hafnarfjarðar, telur einnig að aflahlutdeild og aflamark tilheyri hinu veðsetta, sbr. lög um samningsveð nr. 75/1997, 4. tl. 3. gr. Samkvæmt þeirri lagagrein verði aflahlutdeild og aflamark ekki skilin frá bátnum nema með samþykki veðhafa. Varnaraðili hafi fyrir sitt leyti samþykkt flutning aflaheimilda með því skilyrði þó að lán við Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. á 1. veðrétti yrði greitt upp áður. Svo hafi hins vegar ekki verið gert og varnaraðili þá afturkallað leyfi sitt til flutnings aflahlutdeildar.
Varnaraðili mótmælir því að Sólbakki ehf. sé þinglesinn eigandi aflahlutdeildarinnar og þess vegna hafi átt að beina greiðsluáskorun til hans. Samkvæmt 2. tl. 2. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu sé gerðarþoli sá aðili sem teljist eigandi þeirrar eignar sem selja á. Í þessu tilviki hafi eigandinn verið Fiskir ehf., sbr. framlagt veðbókarvottorð. Sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að þinglýsa sérstakri kvöð á m.b. Fiski HF-51. Ekki hafi komið annað fram hjá Fiskistofu en að umrædd aflahlutdeild væri skráð á Fiskir HF-51.
Varnaraðili, Lífeyrissjóður Suðurnesja, segir Sólbakka ehf. hafa gefið út skuldabréf til lífeyrissjóðsins og hafi það verið tryggt með veði í bátnum. Síðar hafi Sólbakki ehf. selt Fiski ehf. bátinn. Sólbakki ehf. hafi óskað eftir því að bréfinu yrði skuldskeytt á Fiski ehf., en því hafi verið hafnað. Vanskil hafi orðið á bréfinu. Greiðsluáskorun hafi verð beint til þinglýsts eiganda, Fiskis ehf., sem gerðarþola sbr. 2. tl. 2. gr. laga nr. 90/1991. Greiðsluáskorun hafi verið í samræmi við 9. gr. sömu laga og birt með venjulegum hætti. Lífeyrissjóðurinn hafi hins vegar heimilað flutning aflaheimilda af bátnum, enda hafi það verið mat sjóðsins að Sólbakki ehf. væri tryggur skuldari. Krafan um málskostnað byggi á 131. gr. einkamálalaga og krafan á hendur lögmanni sóknaraðila byggi á 4. mgr. 131. gr. Þessi málssókn gagnvart lífeyrissjóðnum sé gjörsamlega að ástæðulausu.
Varnaraðili, Íslandsbanki hf., tekur undir málsástæður annarra varnaraðila og bætir því við að aflahlutdeild og aflamark verði ekki aðskilið frá hinu veðsetta, sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 75/1997, nema með samþykki veðhafa. Fjárfestingabanki atvinnulífsins hf. hafi gert það að skilyrði á sínum tíma að skráðar aflaheimildir í sandkola skyldu fylgja skipinu.
IV.
Þann 1. desember 2001 var tekin fyrir hjá sýslumanni í Hafnarfirði beiðni um nauðungarsölu á Fiskir HF-51, skráningarnúmer 1438, eign Fiskis ehf. Engin var þá mættur af hálfu gerðarþola og var málinu frestað til 23. janúar 2001. Þá mætti framkvæmdastjóri gerðarþola hjá sýslumanni og var ákveðið að framhaldsuppboð færi fram 14. febrúar 2001. Við þá fyrirtöku upplýsti framkvæmdastjóri gerðarþola að Fiskir ehf. væri gjaldþrota og að skiptastjóri væri tekinn við búinu. Í þetta þinghald mætti einnig sóknaraðili, Örn Erlingsson, stjórnarformaður sóknaraðila Sólbakka ehf., og Kristján Stefánsson hrl., lögmaður sóknaraðila. Málinu var frestað með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Skiptastjóri heimilaði framhaldsuppboð og 21. mars 2001 var málið tekið fyrir á ný. Sóknaraðilar mótmæltu þá að nauðungarsalan næði fram að ganga. Sýslumaður ákvað þá engu að síður að sala færi fram og var báturinn sleginn hæstbjóðanda, Sparisjóði Hafnarfjarðar, á 7.000.000 króna. Sóknaraðili mótmælti sölunni og skaut máli þessu til héraðsdóms eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Sóknaraðilar halda því fram í fyrsta lagi að ógilda eiga nauðungarsöluna vegna þess að fyrstu uppboðsaðgerð hafi verið beint gegn Fiski ehf., en ekki þrotabúinu. Ekki þykir hald í þessari málsástæðu sóknaraðila enda voru nauðungarsöluaðgerðir stöðvaðar þegar upplýstist 14. febrúar 2001 að Fiskir ehf. hafði verið úrskurðaur gjaldþrota 26. janúar 2001. Nauðungarsölu var síðan fram haldið með samþykki skiptastjóra og mætti hann sjálfur á uppboðsþingið 21. mars 2001.
Í öðru lagi byggja sóknaraðilar kröfur sínar á því að Sólbakki ehf. sé eigandi aflahlutdeildar sem flutt hafi verið á bátinn tímabundið. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997, er ekki heimilt að veðsetja aflahlutdeild fiskiskips, en hafi fiskiskip verið veðsett verða þau réttindi ekki skilin frá fjárverðmæti nema fyrir liggi samþykki veðhafa. Aflahlutdeild og aflamark verða því ekki skilin frá bátnum nema með samþykki veðhafa. Fyrir liggur að Sparisjóður Hafnarfjarðar samþykkti fyrir sitt leyti, með yfirlýsingu 13. september 1999, að sóknaraðilum væri heimilt að flytja aflamark og aflahlutdeild að jafngildi 15 þúsund kíló þorskígilda. Sparisjóðurinn setti þó það skilyrði að lán Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á 1. veðrétti yrði greitt upp eða fengið leyfi til flutnings framangreindra aflaheimilda af bátnum. Þetta gekk ekki eftir og fór svo að Sparisjóður Hafnarfjarðar afturkallaði yfirlýsingu sína. Sóknaraðili fékk því ekki samþykki veðhafanna, Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. til þess að flytja aflahlutdeild af bátnum. Sýslumanni var því rétt að bjóða upp aflahlutdeild þá sem skráð var á bátinn ásamt bátnum sjálfum.
Í þriðja lagi er málsástæða sóknaraðila sú að sóknaraðilum hafi ekki verið tilkynnt um nauðungarsöluna þrátt fyrir að Sólbakki ehf. væri þinglýstur og skráður eigandi að því aflamarki sem skráð var á mb. Fiski HF-51. Samkvæmt 2. tl. 2. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, sbr. 9. gr., er uppboðsbeiðanda einungis gert að beina greiðsluáskorun sinni til gerðarþola, en þinglesinn eigandi bátsins var Fiskir ehf. Engin skylda hvíldi á uppboðsbeiðanda eða sýslumanni að tilkynna öllum þeim er telja sig eiga rétt yfir eign, að til standi að selja hana nauðungarsölu. Þess utan var sóknaraðilum kunnugt um söluna, mættu við fyrirtöku hjá sýslumanni og gættu hagsmuna sinna.
Niðurstaða málsins verður því sú að framangreind nauðungarsala verður staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eftir þessari niðurstöðu verða sóknaraðilar dæmdir til að greiða málskostnað. Ekki þykir nægilegt tilefni til þess að beita ákvæðum 2. og 4. mgr. 131. gr. eða einkamálalaga nr. 91/1991 um ákvörðun málskostnaðar. Málskostnaður og virðisaukaskattur á málflutningsþóknun úrskurðast eftir kröfugerð aðila þannig: Báðir sóknaraðilar greiði þrotabúi Fiskis ehf. 120.000 krónur í málskostnað. Báðir sóknaraðilar greiði Sparisjóði Hafnarfjarðar in solidum 120.000 krónur í málskostnað. Sóknaraðili Sólbakki ehf., greiði Lífeyrissjóði Suðurnesja 120.000 krónur í málskostnað. Sóknaraðilar báðir greiði Íslandsbanka FBA hf. in solidum 120.000 krónur í málskostnað.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Staðfest er nauðungarsala á m.b. Fiski HF-51, skipaskráningarnúmer 1438, er fram fór hjá sýslumanninum í Hafnarfirði hinn 21. mars 2001 og að skráð aflahlutdeild og aflamark fylgi bátnum við söluna.
Sóknaraðilar, Sólbakki ehf. og Örn Erlingsson greiði varnaraðila, þrotabúi Fiskis ehf., 120.000 krónur í málskostnað.
Báðir sóknaraðilar greiði varnaraðila, Sparisjóði Hafnarfjarðar, in solidum 120.000 krónur í málskostnað.
Sóknaraðili, Sólbakki ehf., greiði varnaraðila, Lífeyrissjóði Suðurnesja, 120.000 krónur í málskostnað.
Sóknaraðilar báðir greiði varnaraðila, Íslandsbanka FBA hf., in solidum 120.000 krónur í málskostnað.