Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-167
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótakrafa
- Gæsluvarðhaldsvist
- Einangrun
- Stjórnarskrá
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 23. desember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 25. nóvember sama ár í máli nr. 412/2021: Íslenska ríkið gegn A. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti. Ágreiningur málsins snýr að því hvort leyfisbeiðandi hafi verið látinn sæta ólögmætri einangrunarvist og hvort önnur réttindi hans sem gæsluvarðhaldsfanga hafi verið skert með því að hann var ekki færður beint í fangelsið á Hólmsheiði eftir úrskurð um að hann sætti gæsluvarðhaldi heldur verið vistaður í fangaklefa á lögreglustöð í tæpa 21 klukkustund.
4. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda þar sem gagnaðila var gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 200.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Með dómi Landsréttur var gagnaðili aftur á móti sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi réttarins kom fram að játa yrði lögreglu ákveðið svigrúm til að vista gæsluvarðhaldsfanga í skamman tíma í fangageymslum sínum og að ekki yrði annað talið en að tilefni þeirrar ákvörðunar hefði verið lögmætt. Litið var til aðstæðna í fangaklefa lögreglustöðvarinnar og ekki talið óheimilt að vista leyfisbeiðanda þar. Þá væri ekki hægt að jafna vistuninni til einangrunarvistunar í skilningi 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, auk þess sem um þriðjungur vistunartímans hefði verið yfir nótt þegar fangar í fangelsinu á Hólmsheiði væru einnig læstir inni einir í klefum sínum, hefði ákvörðun ekki verið tekin um annað, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Leyfisbeiðandi hefði ekki borið nein atriði varðandi framkvæmd gæsluvarðhaldsins undir dómara, svo sem honum hefði verið heimilt samkvæmt 5. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá væru engar upplýsingar í málinu um að hann hefði óskað eftir og verið synjað um að neyta þeirra réttinda sem honum væru tryggð í a- til f-liðum 1. mgr. sömu lagagreinar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hann til þess að ágreiningur snúi að því hvort og við hvaða aðstæður heimilt sé að vista gæsluvarðhaldsfanga í fangageymslum lögreglu á grundvelli 4. mgr. 17. gr. laga nr. 15/2016. Þá byggir hann á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Einnig telur hann dóminn í andstöðu við dóm Hæstaréttar 16. mars 2017 í máli nr. 345/2016.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er þess þá að gæta að sakarefni þessa máls verður ekki jafnað til þess sem á reyndi í fyrrgreindum dómi réttarins. Beiðninni er því hafnað.