Hæstiréttur íslands
Mál nr. 8/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Skattur
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2008. |
|
Nr. 8/2008. |
Jón Sigurður Ólafsson(Kristján Stefánsson hrl.) gegn tollstjóranum í Reykjavík (Guðfinna H. Þórsdóttir, fulltrúi) |
Kærumál. Fjárnám. Skattar. Fyrning.
T krafðist fjárnáms vegna skattaskuldar J með fjárnámsbeiðni sem barst sýslumanni 28. maí 2003 og lauk gerðinni án árangurs 2. október sama ár. T krafðist fjárnáms að nýju vegna sömu skuldar með beiðni sem barst sýslumanni 6. september 2007 og lauk þeirri gerð án árangurs 23. október sama ár. Var í málinu deilt um gildi síðarnefnda fjárnámsins. Talið var að kröfur sem þessar fyrndust á fjórum árum og hefði fyrningu verið slitið 28. maí 2003 með móttöku hinnar fyrrnefndu fjárnámsbeiðni, enda hefði gerðinni verið haldið fram án ástæðulauss dráttar, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Þar sem meira en fjögur ár liðu frá greindu tímamarki uns ný aðfararbeiðni barst sýslumanni taldist umrædd skattakrafa fyrnd og var því tekin til greina krafa J um ógildingu fjárnámsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. janúar 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2007, þar sem staðfest var fjárnám sýslumannsins í Kópavogi, sem fram fór hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila 23. október 2007. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að ofangreint fjárnám verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Vegna innheimtu varnaraðila á opinberum gjöldum sóknaraðila fyrir árið 2000, með gjalddaga 1. ágúst 2000 og fyrir árið 2002 með gjalddaga 1. febrúar og 1. ágúst 2002 móttók sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnámsbeiðni varnaraðila 28. maí 2003. Var fjárnámi hjá sóknaraðila lokið án árangurs 2. október það ár. Sýslumanni í Kópavogi barst svo aðfararbeiðni varnaraðila 6. september 2007 vegna sömu gjalda og áður greinir. Árangurslaust fjárnám var gert hjá sóknaraðila 23. október 2007. Það er sú fjárnámsgerð sem deilt er um í máli þessu.
Krafa sú sem um ræðir fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. tölulið 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Ákvæði 52. gr. laga nr. 90/1989 mæla fyrir um að fyrningu aðfararhæfrar kröfu verði slitið ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og gerðinni er síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar. Við slit fyrningar hefst nýr fyrningarfrestur, nema lög kveði á um annað. Samkvæmt þessu tók nýr fyrningarfrestur kröfunnar að líða við móttöku sýslumanns á kröfu varnaraðila um fjárnám 28. maí 2003. Meira en fjögur ár liðu frá því önnur beiðni um fjárnám vegna sömu kröfu barst sýslumanni 6. september 2007 og var krafan þá fyrnd. Af þessum sökum verður fallist á með sóknaraðila að ógilda skuli hina umþrættu fjárnámsgerð.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi, sem gerð var að kröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík, hjá sóknaraðila, Jóni Sigurði Ólafssyni, 23. október 2007 er ógilt.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2007.
Sóknaraðili Jón Sigurður Ólafsson, Hrauntungu 64, Kópavogi hefur krafist þess að fjárnámsgerð Sýslumannsins í Kópavogi nr. 037-2007-03144, sem fram fór hjá honum hinn 23. október sl. að kröfu Tollstjórans í Reykjavík, verði ógilt með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness og að málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að fjárnámgerðin verði staðfest og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
I.
Enginn ágreiningur er um málavexti en þeir eru á þá leið að 23. október sl. gerði Sýslumaðurinn í Kópavogi árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila, að kröfu varnaraðila, vegna vangreiddra opinberra gjalda áranna 2000 og 2002. Var beiðni um aðförina móttekin hjá sýslumanni þann 6. september sl.
II.
Krafa sóknaraðila er á því byggð að krafa varnaraðila hafi verið fyrnd. Þá hefur sóknaraðili mótmælt þeim vöxtum sem lagðir hafa verið á kröfuna án nánari skýringa eða rökstuðnings. Hefur sóknaraðili ekki sett þessi mótmæli fram sem kröfu í málinu og verður því ekki um þau fjallað frekar.
Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til 3. tl. 3. gr. laga um fyrningu nr. 14/1905 sem segir að kröfur sem njóta lögtaksréttar fyrnist á 4 árum. Þá telur sóknaraðili að hið fyrra árangurslausa fjárnám sem gert var 2. október árið 2003 sé marklaust vegna þess að þegar aðförin var gerð var sóknaraðili ekki heima hjá sér heldur hittist fyrir fóstursonur hans og aðförinni lokið með árangurslausu fjárnámi. Færir sóknaraðili fram þau rök að það sé skilyrði fyrir því að hægt sé að ganga fram hjá gerðarþola og fá annan í hans stað við fjárnám á heimili hans þurfi tilkynning sannanlega að hafa borist gerðarþola, sbr. 1. mgr. 24. laga um aðför. Sóknaraðila hafi ekki verið kunnugt um aðförina og ekki tilkynnt um fjárnámið. Telur sóknaraðili að undanþáguákvæði 21. gr. aðfararlaga verði ekki skýrt svo rúmri lögskýringu að hægt sé að krefjast, ljúka og framkvæma fjárnám hjá einstaklingi án nokkurrar vitneskju hans. Af þessum sökum sé ljóst að krafa á hendur sóknaraðila er fyrnd og því beri að ógilda hina kærðu aðfarargerð.
III.
Í greinargerð varnaraðila segir að skv. 1. mgr. 5. gr. l. nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, telst upphaf fyrningarfrests frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf, þ.e. upphaf fyrningarfrests miðast við gjalddaga skattkröfu sem eru lögbundnir skv. sérlögum um opinbera skatta og gjöld. Skv. 3. tl. 3. gr. sömu laga fyrnist skattakröfur á 4 árum, sé þeim ekki viðhaldið. Því til stuðnings er vísað til dóms Hæstaréttar í máli H 1998, 163.
Skv. 9. tl. 1. mgr. 1. gr. l. nr. 90/1989 um aðför, má gera aðför til fullnustu kröfum um skatta og önnur samsvarandi gjöld, sem innheimt eru samkvæmt lögum af innheimtumönnum ríkissjóðs, sveitarfélögum eða sameiginlegum gjaldheimtum ríkis og sveitarfélaga. Skv. 52. gr. sömu laga er fyrningu aðfararhæfrar kröfu slitið, ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og gerðinni er síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar.
Upphaf fyrningarfrests vegna opinberra gjalda ársins 2000 miðast við álagningu kröfunnar þann 1. ágúst 2000 og vegna opinberra gjalda ársins 2002 við álagningu kröfunnar þann 1. febrúar 2002 og 1. ágúst 2002.
Aðfararbeiðni vegna gjaldanna hafi upphaflega verið send til Sýslumannins í Reykjavík og móttekin þar þann 28. maí 2003 og lauk málinu með því að gert var árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila þann 2. október 2003.
Aðfararbeiðni var send á nýjan leik vegna sömu gjalda til sýslumannins í Kópavogi sem var móttekinn þann 6. september sl. og lauk málinu með því að gert var árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila þann 23. október sl. að undangenginni lögregluboðun.
Í 1.mgr. 114. gr. l. nr. 90/2003 um tekjuskatt kemur fram að sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skuli greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Þar kemur einnig fram að dráttarvextir skuli vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Í dómi Hæstaréttar frá 22. júní 2000 í máli nr. 49/2000 komi fram að álag og dráttarvextir séu lögbundnar greiðslur sem greiða eigi eftir ákveðnum reglum og verði hluti viðeigandi skattskuldar. Dráttarvöxtum hefur líkt og höfuðstólskröfunni sjálfri verið viðhaldið með útsendingu aðfararbeiðna.
Eru aðgerðir varnaraðila vegna máls þessa því í fullu samræmi við gildandi lög. Með hliðsjón af ofanrituðu og framlögðum gögnum er ljóst að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila var til staðar og ófyrnd er hin umþrætta aðfarargerð fór fram. Ber því að sýkna varnaraðila af kröfum sóknaraðila og staðfesta fjárnámsgerð nr. 037-2007-03144, sem Sýslumaðurinn í Kópavogi gerði hjá sóknaraðila, að kröfu varnaraðila, hinn 23. október sl.
Til stuðnings málsástæðum sínum vísar varnaraðili m.a. til dóma Hæstaréttar í máli nr. 49/2000 og 1998, 163.
Um lagarök er vísað til tilvitnaðra ákvæða laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, ákvæða laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, ákvæða laga nr. 90/1989 um aðför, ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, auk ákvæða laga nr. 91/1991.
Um málskostnaðarkröfu vísar varnaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
IV.
Samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 er heimilt að víkja frá skyldu til þess að tilkynna gerðarþola um fram komna beiðni um aðför og hvar og hvenær hún muni hefjast ef um er að ræða aðför til fullnustu kröfu sem 9. töluliður 1. mgr. 1. gr. laganna tekur til. Í máli þessu er um slíka kröfu að tefla. Í 62. gr. aðfararlaga segir að fjárnámi skuli ekki lokið án árangurs, nema gerðarþoli hafi sjálfur verið viðstaddur gerðina eða málsvari hans, eða hann hvorki finnist né neinn sem málstað hans geti tekið. Hér er mælt fyrir um undantekningu frá þeirri meginreglu að fjárnámi verði ekki lokið á árangurs nema á grundvelli frásagnar gerðarþola um eignaleysi. Er því ekki fallist á með sóknaraðila að hið fyrra árangurslausa fjárnám sé markleysa. Að þessu sögðu og að öðru leyti með vísan til raka varnaraðila er kröfu sóknaraðila hafnað og fjárnámsgerð Sýslumannsins í Kópavogi nr. 037-2007-03144, sem fram fór hjá honum hinn 23. október sl. að kröfu Tollstjórans í Reykjavík staðfest að kröfu varnaraðila.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Að kröfu varnaraðila, Tollstjórans í Reykjavík, er staðfest fjárnámsgerð Sýslumannsins í Kópavogi nr. 037-2007-03144, sem fram fór hjá sóknaraðila, Jóni Sigurði Ólafssyni, hinn 23. október sl.