Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2006


Lykilorð

  • Höfundarréttur
  • Ómerking héraðsdóms
  • Meðdómsmaður
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. október 2006.

Nr. 55/2006.

Öndvegi ehf.

(Hákon Árnason hrl.

 Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

gegn

Magis SpA

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

 

Höfundaréttur. Matsgerð. Meðdómendur. Ómerking héraðsdóms.

M framleiddi svokallaðan Bombo stól á grundvelli nytjaleyfissamnings við hönnuð stólsins.  Síðla árs 2004 varð M var við að í verslun Ö voru til sölu stólar sem M taldi vera eftirlíkingu af Bombo stólnum. Lagt var lögbann við sölu og annarri ráðstöfun Ö á stólunum. Deilt var um hvort stóllinn Bombo væri háður höfundarrétti sem nytjalist. Ö hélt því fram að M hefði ekki lagt fram haldbær sönnunargögn í héraði er sýndi að stóllinn uppfyllti lágmarksskilyrði þess að njóta höfundarréttarverndar. Hefði M hvorki aflað matsgerðar dómkvaddra manna né lagt fram önnur sérfræðileg gögn í því skyni að sýna fram á það í hverju höfundarrétturinn fælist. Í héraði var viðurkennt að stóllinn Bombo nyti höfundarréttarverndar. Dómurinn var ekki skipaður sérfróðum meðdómsmönnum. Megin málsástæða Ö í héraði var sú að M hefði ekki tekist að sýna fram á hvaða einstakir þættir í hönnun Bombo stólsins ættu að leiða til þess að hann nyti höfundarréttarverndar. Um þessa málsástæðu segir einungis í dóminum að slíkt sé ekki nauðsynlegt þar sem telja verði við mat á því hvort Bombo stóllinn njóti höfundarréttarverndar verði að líta til heildarmyndarinnar. Hæstarétti þótti úrlausn héraðsdómara um þessa megin málsástæðu Ö vera alls ófullnægjandi og að honum hafi borið eins og á stóð að kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í málinu. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2006. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins hannaði Stefano Giovannoni sérstakan stól, sem hann nefndi Bombo, árið 1996 að beiðni stefnda, sem framleiðir hann samkvæmt nytjaleyfissamningi við hönnuðinn. Er stóllinn til í tveimur gerðum, bæði sem hækkanlegur barstóll og í lægri útgáfu með hærra baki. Stefndi kveðst hafa orðið þess var síðla árs 2004 að í verslun áfrýjanda „Heima“ væru til sölu stólar, sem merktir voru KINETIC og stefndi taldi vera eftirlíkingu af Bombo stólnum. Að kröfu þess síðastnefnda lagði sýslumaðurinn í Reykjavík 10. janúar 2005 lögbann við því að áfrýjandi flytti inn, byði til sölu, seldi, flytti úr landi eða ráðstafaði með öðrum hætti stól, sem væri eftirlíking af Bombo stólnum. Með stefnu útgefinni af héraðsdómara 17. janúar 2005 höfðaði stefndi síðan málið til viðurkenningar á réttindum sínum, staðfestingar lögbannsins og greiðslu skaðabóta.

II.

Deilt er um hvort stóllinn Bombo sé háður höfundarétti sem nytjalist samkvæmt 1. og 2. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. lög nr. 80/1972 um heimild ríkisstjórninni til handa til að staðfesta Bernarsáttmálann til verndar bókmenntum og listaverkum. Áfrýjandi heldur því fram að stefndi hafi ekki lagt fram haldbær sönnunargögn í héraði er sýni að stóllinn uppfylli lágmarksskilyrði þess að njóta höfundaréttarverndar. Hafi stefndi hvorki aflað matsgerðar dómkvaddra manna við málsmeðferð í héraði né lagt fram önnur sérfræðileg gögn í því skyni að sýna fram á það í hverju höfundarréttur felist. Stefndi telur sig á hinn bóginn hafa lagt fram fullnægjandi gögn í þessu skyni. Vísar hann til þess að lagðar hafi verið fram í málinu litljósmyndir af stólnum, upplýsingar úr vörulistum stefnda þar sem fram koma mál á einstökum hlutum beggja gerða stólsins, upplýsingar um viðurkenningar er stóllinn hefur hlotið í öðrum löndum, erlendir dómar, sem varða höfundarétt að stólnum, og loks að stóllinn sjálfur hafi verið færður fyrir héraðsdómara við aðalmeðferð málsins. Telur stefndi engin lagaskilyrði krefjast þess að matsgerð sé nauðsynlegt sönnunargagn í því skyni að færa sönnur á að stóllinn njóti höfundaréttarverndar.

Í hinum áfrýjaða dómi var viðurkennt að stóllinn Bombo njóti höfundaréttarverndar. Dómurinn var ekki skipaður sérfróðum meðdómsmönnum. Héraðsdómari hafði kynnt málsaðilum fyrirætlan sína um að beita heimild 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn og tilkynnt 28. september 2005 hverja hann hygðist kveðja. Með bréfi 11. október 2005 mótmælti áfrýjandi hæfi meðdómsmanna á grundvelli ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Í kjölfar þess virðist héraðsdómari hafa snúið frá því að kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dóminum.

III.

Eftir áfrýjun héraðsdóms freistaði stefndi þess að afla frekari sönnunargagna máli sínu til stuðnings. Með beiðni 24. febrúar 2006 óskaði hann eftir því að dómkvaddur yrði einn hæfur, sérfróður og óvilhallur matsmaður til þess að meta staðreyndir í því skyni að færa fram sönnur um „hvort stóll nefndur „Bombo“ hannaður af hönnuðinum Stefano Giovannoni sé verk í skilningi höfundalaga ... og þannig afrakstur sjálfstæðs persónulegs sköpunarframlags hönnuðarins. Jafnframt hvort stólar er seldir voru af hálfu matsþola, merktir KINETIC, fela í sér eftirlíkingu af framangreindum stólum matsbeiðanda í skilningi sömu laga.“

Þegar matsbeiðnin var tekin fyrir 24. febrúar 2006 gerði áfrýjandi athugasemdir við hana, sem lutu að því að nauðsynlegt væri að dómkveðja tvo matsmenn frekar en einn. Þá var því mótmælt að lagt yrði fyrir matsmenn að meta hvort Bombo stóllinn nyti verndar sem verk í skilningi 1. gr. höfundalaga og hvort stóllinn KINETIC fæli í sér eftirlíkingu á stól stefnda. Taldi áfrýjandi að úrlausn um þetta væri lögfræðilegs eðlis, sem dómkvaddir matsmenn yrðu ekki krafðir svars um, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006 var ákveðið að dómkveðja einn matsmann til að framkvæma hið umbeðna mat. Fallist var á mótmæli áfrýjanda gegn því að dómkvaðning matsmanns næði til að meta hvort Bombo stóllinn nyti verndar í skilningi 1. gr. höfundalaga og hvort KINETIC stóllinn fæli í sér eftirlíkingu, þar sem þessi atriði lytu að túlkun á lagareglum. Til að framkvæma matið var dómkvödd Þórdís Zoëga húsgagnahönnuður.

Í matsgerð 17. apríl 2006 kemur fram það álit hins dómkvadda manns að Bombo stóllinn sé afrakstur persónulegs sköpunarframlags hönnuðarins. Stólarnir séu frumlegir og þegar þeir komu fyrst á markaðinn hafi þeir vakið mikla athygli fyrir framsækna hönnun og sérstaka efnisnotkun. Í matsgerðinni er einnig að finna lýsingu á hönnun og einkennum annars vegar Bombo stólsins og hins vegar KINETIC stólsins, auk álits matsmannsins á því hvort þau atriði sem einkenna Bombo stólinn birtist í KINETIC stólnum og hvort einhver einkenni séu á þeim stól sem greini hann með afgerandi hætti frá Bombo stólnum. Niðurstaða matsins er sú að það sé „varla nokkur einkenni að finna á KINETIC sem aðgreina hann frá BOMBO, svo séð verði nema við mjög nákvæma skoðun og þá aðeins þegar hægt er að skoða báða stólana saman, eins og gert var við matsgerðina. Áferð á plasti og stálfótum er nánast sú sama. Lögun stólanna er einnig nánast sú sama ásamt öðrum atriðum. Það sem greinir stólana frá hvor öðrum eru vart sýnilegir þættir.” Matsmaður telur jafnframt að engar líkur séu á því að KINETIC stóllinn hafi verið hannaður án vitundar um tilvist Bombo stólsins.

Með bréfi til Hæstaréttar 8. maí 2006 óskaði áfrýjandi eftir fresti til að afla matsgerðar dómkvaddra manna. Stefndi lagðist gegn því að frestur yrði veittur. Með bréfi Hæstaréttar 12. maí 2006 var áfrýjanda synjað um frekari frest til gagnaöflunar. Matsbeiðni áfrýjanda var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. júní 2006 og féllst héraðsdómari á að kveðja Hermann Gunnarsson húsgagnasmíðameistara til að framkvæma hið umbeðna mat. Með bréfi 13. september 2006 sendi áfrýjandi Hæstarétti matsgerð hans. Barst matsgerðin því að loknum gagnaöflunarfresti fyrir Hæstarétti. Í kjölfarið ítrekaði stefndi mótmæli sín við framlagningu skjalsins.

IV.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. höfundalaga telst nytjalist til lista, sem unnt er að öðlast höfundarétt að eftir 1. mgr. sömu greinar. Aðilana greinir ekki á um að hönnun nytjamuna eins og húsgagna geti fallið undir ákvæðið. Áfrýjandi reisir málsvörn sína hins vegar í senn á því að mikið þurfi til að koma svo fallist verði á að hönnun á stól sé svo sérstök að öll skilyrði geti talist uppfyllt til að höfundaréttur fáist viðurkenndur, sem og á því að í þessu tilviki sé alls ekki í ljós leitt að svo sé. Telur hann að sönnunarbyrði hvíli á stefnda um það hvaða einstakir þættir stólsins njóti verndar. Úrslitum hljóti að ráða hvort einhver hluti viðkomandi nytjamunar teljist bera með sér nýnæmi á sviði hönnunar í viðkomandi grein. Sérfræðiþekkingar á sviði hönnunar sé þörf svo að unnt sé að meta frumleika og nýnæmi, sem geti leitt til að hlutur sé háður höfundarétti. Telur áfrýjandi að í matsgerð Þórdísar Zoëga sé ekki tekið sérstaklega á þessu atriði. Þar sé ekki gerð grein fyrir hvað það sé nákvæmlega sem leiði til að stóllinn teljist fela í sér nýnæmi og frumleika og njóti þar með höfundaréttarverndar, en úrlausn um það sé lögfræðilegs eðlis.

Að framan var þess getið að héraðsdómari kvaddi ekki sérfróða meðdómsmenn til setu í málinu, heldur skar hann einn úr ágreiningi aðilanna. Í niðurstöðu héraðsdóms var vikið að þeirri málsástæðu áfrýjanda að stefndi hafi ekki sýnt fram á hvaða einstakir þættir í hönnun Bombo stólsins eigi að leiða til þess að hann njóti verndar. Um það segir einungis í dóminum að slíkt sé ekki nauðsynlegt þar sem telja verði að við mat á því hvort Bombo stóllinn njóti höfundaréttarverndar verði að líta til heildarmyndarinnar. Á þessum grundvelli einum taldi héraðsdómari stólinn háðan höfundarétti og að áfrýjandi hafi brotið gegn honum. Úrlausn héraðsdómara um þessa megin málsástæðu áfrýjanda var alls ófullnægjandi og bar eins og á stóð að kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í málinu. Verður að þessu virtu ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Fyrir Hæstarétti gerði áfrýjandi sérstaka kröfu að í því tilviki að héraðsdómur yrði ómerktur yrði hann allt að einu sýknaður af kröfu stefnda um staðfestingu lögbannsins 10. janúar 2005. Hann hafi brýna hagsmuni af þessu, þar sem lögbannið hafi staðið lengi og tafir á afstöðu dómstóla til þess séu stefnda að kenna. Ekki verður á þetta fallist, enda gera lög nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. ráð fyrir að fjártrygging bæti tjón þess, sem lögbanni er beint að, ef það verður ekki staðfest og reynist hafa valdið tjóni. Bíður afstaða til lögbannsins því úrlausnar um aðrar kröfur aðilanna.

Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 15. desember 2005.

Mál þetta var þingfest 27. janúar 2005 og var dómtekið 21. október sl.

Stefnandi er Magis spa, Via Magnadola 15, 31045 Motta di Livenza (Treviso), Ítalíu.

Stefndi er Öndvegi ehf., Síðumúla 20, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1.Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af stól, þ.e. barstól, vörunúmer TD0103CA, og lægri stól með hærra baki, vörunúmer TD2368DA, en stóllinn er eftirlíking af stólnum Bombo er framleiddur er af gerðarbeiðanda. 

2.        Að stefndi verði dæmdur til að þola að birgðir hans af framangreindum stól verði gerðar upptækar án endurgjalds til handa stefnanda (sic).

3.        Að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 10. janúar 2005 við því að gerðarþoli flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af stólnum Bombo.

4.        Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð EUR 6.366 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá birtingardegi stefnu þessarar til greiðsludags.

5.        Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur vegna kostnaðar við förgun birgða sem hann fengi afhentar við upptöku að fjárhæð ISK 15.060 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá birtingardegi stefnu þessarar til greiðsludags.

6.        Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.

Dómurinn lítur svo á að með gerðarbeiðanda í kröfugerð stefnanda sé átt við stefnanda en með gerðarþola sé átt við stefnda.

Stefndi krefst aðallega:

   vísað verði  frá dómi  öllum  kröfum  stefnanda er varði  stól  með vörunúmerinu TD2368DA.

Sýknu af dómkröfum stefnanda nr. 1, 2, 4, 5 og 6 er tekur til stóls með vörunúmerinu TD0103CA.

Að fellt verði úr gildi lögbann er tekur til stóls með vörunúmerinu TD0103CA sbr. dómkröfu stefnanda nr. 3.

Að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar til handa stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.

Til vara, verði ekki fallist á frávísun á öllum kröfum stefnanda er varða stól með vörunúmerinu TD2368DA, eru gerðar sömu kröfur vegna stóls með vörunúmerinu TD2368DA og að ofan greinir vegna stóls með vörunúmerinu TD0103CA.

Málavextir

Stefnandi málsins, Magis spa, er hlutafélag skráð á Ítalíu og framleiðir húsgögn.  Stefano Giovannoni, sem mun vera þekktur ítalskur hönnuður, hannaði stólinn Bombo árið 1996 að beiðni stefnanda.  Stefnandi kveðst hafa sett fram óskir um sérstæða, listræna hönnun með löngum líftíma sem hefði möguleika á að verða hönnunarfyrirmynd (e.: design icon). 

Stefnandi kveður stóllinn fyrst hafa verið boðinn til sölu á Ítalíu á Salone Intemazionale del Mobile í Mílanó á tímabilinu 17. - 21. apríl 1996.  Hann hafi hlotið stöðu sem hönnunarfyrirmynd og fengið margar viðurkenningar, Design/Blueprint verðlaun 1997, hafi birst á ítölsku frímerki og birst á Italian Design on Tour exhibition frá árinu 2001.

 Stefnandi hefur samkvæmt nytjaleyfissamningi við Stefano Giovannoni einkarétt til framleiðslu og sölu á Bombo-stólnum. Stóllinn er framleiddur bæði sem hækkanlegur barstóll (kollur) og í lægri útgáfu með hærra baki, báðar útgáfurnar í mörgum litum, m.a. svörtum, gráum og hvítum lit.

Sem framleiðandi þekktrar hönnunar í háum gæðaflokki kveður stefnandi að sér sé afar umhugað um að koma í veg fyrir eftirlíkingar af vörum sínum.

Stefnandi kveðst nýlega hafa orðið var við að í versluninni Heima, verslun sem stefndi hafi opnað vorið 2004, hafi verið til sölu stóll sem sé eftirlíking af Bombo- stólnum.  Ekkert vörumerki sé að finna á eintökum stólsins en umbúðir beri vörumerkið KINETIC.  Samkvæmt reikningi frá versluninni hafi útsöluverð barstóls (vörunúmer TD0103CA) verið 15.900 krónur en stóll með háu baki (vörunúmer TD2368DA) muni hafa verið seldur á 19.700 krónur.  Stólarnir hafi verið fáanlegir að minnsta kosti í svörtum, gráum og hvítum lit.

Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf 7. desember sl. þar sem því var haldið fram að sala stefnda á stól sem líktist Bombo-stólnum bryti gegn höfundalögum og samkeppnislögum.  Þess var óskað að stefndi undirritaði og afhenti stefnanda staðfestingarbréf þess efnis að stefndi viðurkenndi brot sitt og lofaði að framkvæma ekki nánar tilgreind atriði í bréfinu, en staðfestingarbréf þetta fylgdi bréfi lögmanns stefnanda.  Lögmaður stefnda svaraði bréfi lögmanns stefnanda innan tilskilins frests með bréfi dags. 13. desember 2004 og hafnaði öllum kröfum lögmanns stefnanda.

Stefnandi setti, hinn 22. desember sl., fram beiðni um lögbann við því að stefndi flytti inn, byði til sölu, seldi, flytti úr landi eða ráðstafaði með öðrum hætti birgðum af stólnum.  Jafnframt krafðist stefnandi þess, með heimild í 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., að sýslumaður gerði viðeigandi ráðstafanir til þess að hindra að ekki yrði af frekari sölu eða ráðstöfun vörunnar.

Hinn 10. janúar 2005 lagði sýslumaðurinn í Reykjavík lögbann við því að stefndi flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af stólnum Bombo.  Þar sem því var lýst yfir af lögmanni stefnda fyrir sýslumanni að stefndi myndi fara að lögum vegna lögbannsins hafnaði sýslumaður því að svipta stefnda vörslum birgða af vörunni.

Stefnandi höfðaði síðan mál þetta til viðurkenningar á réttindum stefnanda, til eignaupptöku óseldra birgða, staðfestingar lögbannsins, skaðabóta og málskostnaðar.

Í greinargerð stefnda segir að stefndi hafi séð hinn umdeilda stól, og fleiri sambærilega, til sölu á alþjóðlegri sýningu í Köln í Þýskalandi í janúar 2003.  Í mars 2004 hafi stefndi farið á aðra sýningu þar sem stólarnir voru aftur til sýnis.  Stefndi hafi þá skoðað bæði verslun og verksmiðju framleiðanda stólanna sem hann hefur haft til sölu í verslun sinni.  Á þessari sýningu hafi hann pantað hina umdeildu stóla.  Stólarnir voru komnir til landsins og sala hafin á þeim í Heima ehf. í maí 2004.  Það hafi svo verið í desember sem athugasemdir voru gerðar við sölu Heima ehf. á stólunum af hálfu lögmanns stefnanda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að Bombo-stóllinn njóti verndar hér á landi sem nytjalist samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. lög nr. 80/1972 um heimild ríkisstjórninni til handa til að staðfesta Bernarsáttmálann til verndar bók­menntum og listaverkum.  Um vernd Bombo-stólsins sem verks ítalsks hönnuðar er vísað til 5. gr. sáttmálans.  Um vernd sæmdarréttar vísast til 4. mgr. 60. gr. höfundalaga.

Stefnandi heldur því fram að sala stefnda á ofangreindum stól brjóti gegn höfundarréttindum að Bombo-stólnum samkvæmt 3., sbr. 2. gr. og samkvæmt 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Salan sé auk þess brot á 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Um kröfulið 1.

Stefnandi kveður kröfu um viðurkenningu réttinda byggjast á því að stefnandi hafi einkarétt til að selja og dreifa með öðrum hætti hér á landi eintökum af stólnum Bombo og að innflutningur stefnda, sala og önnur ráðstöfun eintaka af umræddum stól, barstól í vörunúmeri TD0103CA, og lægri stól með háu baki í vörunúmeri TD2368, brjóti gegn þeim rétti þar sem sá stóll sé eftirlíking af Bombo-stólnum.  Framangreindan einkarétt hafi stefnandi öðlast með nytjaleyfissamningi við höfund Bombo-stólsins.  Stefnandi telur ótvírætt að inn­flutningur og sala umrædds stóls brjóti gegn einkarétti til framleiðslu og dreifingu Bombo-stólsins samkvæmt 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og gegn sæmdarrétti höfundar samkvæmt 4. gr. höfundalaga.

Bombo-stóllinn sé árangur sjálfstæðs framlags höfundar hans.  Hönnun stólsins einkennist af léttu og stílhreinu yfirbragði.  Meginhluti stólsins sé framleiddur í einu stykki.  Einstakir þættir hönnunarinnar sem einkenni stólinn séu m.a. einn lóðréttur fótur er hvíli á flatri hringlaga gullplötu, ávöl lögun meginstykkisins, bæði bak- og sætishlutans, sporöskjulaga lögun fótskemils barstólsins og lögun handfangs til að hækka og lækka stólinn.  Stóllinn er stefndi hafi haft til sölu sé afar nákvæm eftirlíking Bombo-stólsins, öll hin einstöku atriði er einkenni Bombo-stólinn birtist í eftirlíkingunni, heildarmynd stólanna sé hin sama og stærðir nánast þær sömu.  Eigi það bæði við um eftirlíkingarstólinn sem barstól og lægri stól með hærra baki.

Höfundarréttur að Bombo-stólnum og brot gegn honum með sölu eftirlíkinga hafi að sögn stefnanda verið staðfestur í erlendum dómsúrlausnum auk þess sem fjöldi söluaðila hafi dregið ólögmætar eftirlíkingar úr sölu og þær verið eyðilagðar.

Það að stefndi bauð stólinn til sölu í verslunum sínum sé til þess fallið að valda ruglingi hjá viðskiptavinum og valda hættu á að þeir álíti ranglega að eftirlíkingin sé stóllinn Bombo eða að tengsl séu milli hennar og stólsins Bombo.  Aðgerðir stefnda við að bjóða fram stólinn og við sölu hans hafi því falið í sér brot á 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.  Sala eftirlíkinganna rýri orðspor stólsins Bombo og feli í sér misnotkun á viðskiptavild hans.  Stefndi hafi einbeittan vilja til að brjóta gegn ákvæðinu, sbr. blaðagrein er birst hafi skömmu eftir opnun verslunarinnar Heima, sem stefndi opnaði vorið 2004, en þar sé haft eftir fyrirsvars­manni hennar að mikið af vörum verslunarinnar séu eftirgerðir af þekktri hönnun.

Stóllinn Bombo hafi verið til sölu hér á landi um nokkurra ára skeið og eftirlíkingin hafi því verið stað­göngu­vara gagnvart Bombo-stólnum.  Vegna þess komi brotið enn harkalegar niður á stefnanda.

Um kröfulið 2

Krafa stefnanda um eignaupptöku sé byggð á skýrri og ótvíræðri heimild í 1. mgr. 55. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og 44. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997.  Innflutningur og sala stefnda á eintökum af eftirlíkingunni hafi brotið í bága við ákvæði laganna og séu því skilyrði til eignaupptöku ótvírætt fyrir hendi.  Stefnandi kveður hagsmuni sína fyrir borð borna án eignaupptöku þar sem óeðlilegt sé að birgðir af ólögmætum eintökum er eigi sé heimilt að selja eða ráðstafa, verði áfram í vörslu stefnda.

Lögmaður stefnda hafi upplýst munnlega að óseldar birgðir af barstólnum séu 90 stykki og af lægri stólnum með hærra baki u.þ.b. 10 stykki.

Um kröfulið 3

Krafa stefnanda um staðfestingu lögbanns er byggð á því að þar sem stefnandi eigi þau réttindi sem höfð séu uppi í máli þessu og skilyrði hafi verið til lögbanns samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. beri að staðfesta lögbannið.

Um kröfulið 4

Krafa stefnanda um skaðabætur undir þessum lið sé byggð á 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Um sé að ræða bætur fyrir fjárhagslegt tjón.  Samkvæmt upplýsingum er stefndi hafi lagt fram í lögbannsmálinu hafði hann þá selt 61 stól.  Að svo stöddu sé því sett fram krafa um greiðslu skaðabóta vegna sölu á þessum fjölda stóla.

Krafan taki til þess ágóða er hann hefði haft af sölu sama fjölda eintaka af Bombo-stólnum og seld hafi verið af eftirlíkingunni, sbr. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga.  Ágóði af hverju eintaki er selt hafi verið hér á landi á árinu 2003 sé EUR 52,19.  Miðað sé við að stefndi hafi selt 61 eintak af eftirlíkingunni og í samræmi við dómvenju er gerð krafa um skaðabætur er nema tvöfaldri þeirri fjárhæð eða EUR 6.366.

Yrði eingöngu fallist á að brotið hefði verið gegn 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 sé um bótagrundvöll skaðabótakröfu vísað til almennu skaðabótareglunnar.

Um kröfulið 5

Krafa um skaðabætur til að standa straum af förgun birgða sé byggð á því að eftir að stefnandi hafi fengið afhentar birgðir af eftirlíkingunni sé honum nauðsynlegt að farga þeim.  Kostnaður við förgun birgðanna sé sagður vera 12,55 krónur fyrir hvert kíló, sbr. gjaldskrá móttökustöðvarinnar í Gufunesi.  Með vísan til þess að samkvæmt merkingu á umbúðum vegur hver pakkning barstóls 12 kg nemur kostnaður vegna eyðingar 100 eintaka að lágmarki 15.060 krónum, (12,55 x 12 x 100 krónur) og sé gerð krafa um greiðslu þeirrar fjárhæðar úr hendi stefnda.

Um kröfulið 6

Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök

Þess er krafist að vísað verði frá öllum kröfum er varða stól með vörunúmeri TD2368DA.  Stefnandi hafi einungis fengið lagt lögbann á stól með vörunúmerinu TD0103CA.  Lögmaður stefnanda hafi einungis lagt fram upplýsingar um stól stefnda með vörunúmerinu TD0103CA, þ.e. lagt hann fram sem sönnunargagn í málinu fyrir dómi og myndir af honum.  Hið sama gildi við fyrirtöku lögbanns­beiðninnar hjá sýslumanninum í Reykjavík.  Þá hafi, með lögbannsbeiðninni, einungis verið lagt fram ljósrit af reikningi vegna kaupa lögmanns stefnanda á stól TD0103CA.  Málatilbúnaður og röksemdafærsla stefnanda hafi þannig verið takmarkaður við stól með vörunúmerinu TD0103CA, sem sé stóll með lágu baki, og því haldið fram að sá stóll sé eftirlíking af Bombo-stólnum, hvort heldur sé fyrir dómi eða við fyrirtöku lögbannsbeiðninnar.  Því er þess krafist að dómkröfur stefnanda er lúta að stól með vörunúmerinu TD2368DA verði vísað frá dómi.

Verði ekki fallist á frávísun, þá eru til vara gerðar sömu kröfur vegna stóls með vörunúmerinu TD2368DA og er varðar stól með vörunúmerinu TD0103CA.

Um dómkröfu stefnanda nr. 1 og 2

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda um að honum sé óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti öllum barstólum með vörunúmerunum TD0103CA og TD2368DA.

Fallist er á að stefnandi hafi með framlögðum gögnum sýnt fram á að hann hafi rétt til að koma fram í nafni hönnuðarins, Stefano Giovannoni, og verja réttindi hans.  Jafnframt þyki óumdeilanlegt að Bombo-stóllinn sé verk framangreinds hönnuðar.  Hins vegar sé ekki á það fallist að stefnandi hafi sýnt fram á að Bombo-stóllinn njóti höfunda­réttarverndar né heldur að hvaða marki stefnandi telji að sú vernd sé fyrir hendi.  Ekkert liggi fyrir um hvað það sé raunverulega sem njóti höfunda­réttarverndar, hvort það sé setan, bakið, fóturinn, skemillinn (járnhringurinn) eða stóllinn í heild sinni.  Sé þetta grundvallaratriði þar sem fullheimilt teljist að líkja eftir því sem ekki njóti höfundarréttarverndar.  Það athugist í þessu sambandi að stefndi hafi lagt fram myndir af ólíkum tegundum barstóla á hinum alþjóðlega markaði.  Af þeim megi sjá að Bombo-stóllinn geti ekki talist njóta verndar í heild sinni heldur einungis einstakir þættir hans.  Finna megi stóla sem t.d. hafi sambærilega fætur sem og sambærilega járnhringi.  Því sé þannig hafnað að stefnandi geti haldið því fram að brotið hafi verið gegn höfundarrétti án þess að sýna fram á hvað það sé nákvæmlega sem njóti höfundarréttar og þá þar með í hverju brotið felist.  Það eitt nægi ekki að meta stólana með því að horfa á þá heldur verði að kalla til dómkvadda matsmenn sem meti hvort einhverjir þættir Bombo-stólsins séu með þeim hætti að í þeim komi fram frumlegt sköpunargildi og þá hvernig, ef við eigi, stóll sem stefndi selur sé eftirmynd af því verki.  Nauðsynlegt sé að hafa slíkt mat til að hægt sé að meta það hvort stólarnir, eða afmarkaður hluti þeirra, séu það líkir að um brot sé að ræða.  Stefndi telji sig hafa sýnt fram á að engin mál á stólunum séu eins, hæð þeirra sé ekki sú sama, lag járnhrings sé annað, frágangur annar á handfangi og pumpu og svo sé lögun sætis ekki sú sama, sbr. dskj. 22.  Til að hægt sé að sýna fram á að stóll stefnda brjóti gegn höfundarétti stefnanda þurfi að skoða stólana nákvæmlega út frá lögun og málsetningum til að nytjalist njóti höfundarréttar þurfi verk að bera bæði frumleika og persónuleg sköpunareinkenni höfundar.  Gerð sé krafa um að sköpunin nái út fyrir það sem er tæknilega nauðsynlegt.  Verk njóti aðeins höfundarverndar að því marki sem slík einkenni setja mark sitt á það og því geti verndin verið afmörkuð við hluta verks.

Í ensku þýðingunni á dómi í Belgíu sem stefnandi hafi nú lagt fram, sé viðurkenndur réttur stefnanda til að verjast brotum á höfundarrétti hönnuðar Bombo-stólsins.  Hins vegar, til að meta höfundarréttarverndina og, í því tilfelli, í hverju brotið fólst, hafi verið lögð fram sérfræðiskýrsla þar sem stólarnir hafi verið bornir saman.  Sérfræðiskýrslan hafi ekki verið lögð fram en á grundvelli sérfræðiskýrslunnar hafi verið fallist á að um eftirlíkingu væri að ræða og stólarnir því gerðir upptækir.  Óumdeilt sé að ekki sé um eins stól að ræða og í tilviki stefnda og því sé þannig mótmælt að stefnandi geti byggt á dómnum til að sýna fram á að stóll stefnda brjóti gegn höfundarrétti stefnanda.  Þá hafi aðeins verið lagðar fram óljósar myndir af eftirlíkingunni í því máli.  Dómurinn sýni það einungis að belgískur dómstóll hafi fallist á að stóll stefnanda naut höfundaréttar að einhverju marki og umdeildur stóll í því tilviki hafi verið eftirlíking af stól stefnanda.

Jafnframt er því haldið fram að það sé veigamikið atriði að stóll stefnanda og stóllinn sem stefndi hafi verið með til sölu hafi verið til sölu á mjög ólíku verði í verslunum fyrir ólíka markhópa.  Í dómum Hæstaréttar Danmerkur í sambærilegum málum sé litið til þess atriðis hvernig verk hafi horft við hinum almenna viðskiptavini og svo sérfræðingum og hafi það verið talið skipta miklu máli þegar metið sé hvort um brot á höfundarrétti sé að ræða.  Stóll stefnanda sé seldur í verslunum sem hafi með hönnunarvörur að gera og væntanlega sæki þangað fólk með tekjur yfir meðallagi.  Hins vegar sé stóll stefnda til sölu á mun lægra verði og í hann sæki fólk sem almennt eyði lægri fjárhæðum í slík húsgögn og almennt yngra fólk.  Þá sé varla nokkur vafi á því að hvort sem um almennan viðskiptavin eða sérfræðing sé að ræða þá geti báðir greint að ekki sé um sama stólinn að ræða, t.d. sé samsetning þeirra og frágangur ólíkur.  Þá sýni þetta jafnframt að sú aðgerð stefnda við að hafa stólinn til sölu í verslun sinni sé ekki til þess fallin að valda ruglingi og brjóta gegn 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.  Ennfremur sé það mikilsvert atriði hvort um brot á höfundarrétti sé að ræða, hvort verk njóti annars konar verndar eins og hönnunarverndar sem sé skráð vernd.  Dómvenja í Þýskalandi bendi til þess að dómstólar þar séu tregir til að veita hönnun höfundarréttarvernd, því möguleiki sé á sérstakri hönnunarvernd.  Í dómum Hæstaréttar Danmerkur sé jafnframt litið til þessa atriðis.  Ekki hafi verið sýnt fram á að Bombo-stóllinn njóti annars konar skráðrar verndar.

Framleiðandi stólsins sem stefndi hafi haft til sölu í verslun sinni hafi upplýst að stólarnir séu seldir víða í Evrópu, þ.á m. í Belgíu.  Jafnframt hafi hann upplýst stefnda um að fjöldi stóla hafi verið seldur án þess að nokkur vandamál hafi komið upp og engin málaferli eða slíkt komið upp í tengslum við sölu hans.  Brot gegn höfundarrétti annars aðila vegna þessa stóls hafi því ekki áður komið upp og því sé það vafamál hvort stóll stefnda brjóti gegn stól stefnanda.

Með vísan til þess sem að framan greini sé því hafnað að stefnandi hafi sýnt fram á að stefndi hafi brotið gegn höfundarrétti og því beri að hafna kröfu stefnanda um að stefnda verði óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti öllum barstólum með vörunúmerunum TD0103CA og TD2368DA.

Því er hafnað að stefnda verði gert að upplýsa um nafn og heimilisfang framleiðsluaðila vöru sinnar þar sem telja verður að það séu upplýsingar sem ekki sé erfitt að afla og alfarið á hendi stefnanda.  Því sé jafnframt hafnað að tilskipun ESB 2004/48/EC um fullnustu hugverkaréttinda eigi við þar sem hún hafi ekki verið lögfest hér á landi eins og lög nr. 2/1993 um EES-samninginn geri ráð fyrir.

Verði stefndi sýknaður af kröfu stefnenda um að honum sé óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti öllum barstólum með vörunúmerunum TD0103CA og TD2368DA, krefst stefndi þess að hann verði einnig sýknaður af kröfu um að gera birgðir upptækar.

Um dómkröfu stefnanda nr. 3

Stefndi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík þann 10. janúar 2005 því að hvorki hafi formskilyrðum lögbanns verið fullnægt né efnislegum skilyrðum.

Stefndi lýsir framgangi lögbannsmálsins svo að þann 4. janúar 2005 hafi lögbannsbeiðnin verið tekin fyrir á skrifstofu fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík.  Lögmaður stefnda hafi mótmælt því að lögbannsbeiðnin næði fram að ganga því að lögmaður stefnanda hefði ekki sýnt fram á að skilyrðum lögbanns samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri fullnægt.  Lögmaður stefnanda hafi þá beðið um frest til að bæta úr ágöllum lögbanns­beiðninnar og ræða við sinn skjólstæðing.  Frestur hafi verið veittur til 6. janúar 2005, eða í 2 daga, þrátt fyrir hörð mótmæli lögmanns stefnda.  Við aðra fyrirtöku hafi lögmaður stefnanda lagt fram íslenska þýðingu á útprentun firmaskrár og íslenska þýðingu á nytjaleyfissamningi milli stefnanda og hönnuðarins, auk ýmissa nýrra gagna, sbr. fskj. 18. í lögbannsmálinu.  Lögmaður stefnda hafi mótmælt að lögmaður stefnanda fengi heimild til að leggja fram hin nýju gögn en þau hafi ekki verið tekin til greina.  Lögmaður stefnda hafi þá óskað eftir fresti til að skoða þau gögn sem lögð voru fram við aðra fyrirtöku málsins.  Frestur hafi verið veittur til 10. janúar 2004 og þá hafi þriðja fyrirtaka málsins verið.  Úrskurður hafi verið kveðinn upp síðar sama dag á þá leið að stefnda væri bannað að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti stól sem væri eftirlíking af stólnum Bombo.

Þegar lögbannsbeiðni var lögð fram hafi ekki legið fyrir að stefnandi, sem gerðar­beiðandi, væri réttur aðili að málinu.  Samkvæmt lista í lögbannsbeiðninni hafi verið skjal nr. 2, staðfesting firmaskrár Trevisio á Ítalíu um stefnanda.  Það skjal hafi verið lagt fram á ítölsku án nokkurrar þýðingar yfir á íslenskt mál.  Jafnframt hafi skjal nr. 4, leyfis­samningur milli hönnuðarins og stefnanda, einungis verið lagt fram á ítölsku án frekari skýringa.  Stefnda hafi því ekki verið gert kleift að átta sig á því hvort stefnandi væri yfirhöfuð til og þá hvort hann ætti rétt eða tilkall til þeirra réttinda sem hann krefðist verndar á.  Þegar af þessum ástæðum hafi lögbannsbeiðnin ekki verið þannig úr garði gerð að fulltrúi sýslumanns gæti tekið afstöðu til réttmætis beiðninnar. 

Stefndi hafi vísað, máli sínu til stuðnings, til 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með lögjöfnun, um að þingmálið væri íslenska og hafi krafist þess að málinu yrði hafnað þá þegar.  Fulltrúi sýslumanns hafi hafnað því og ákveðið þess í stað að veita stefnanda frest til að bæta úr ágöllum beiðninnar.  Því hafi verið mótmælt harðlega af hálfu stefnda enda sé það gegn eðli lögbanns að gerðarbeiðanda sé veittur frestur.  Beiðnin og þau gögn sem hún byggist á eigi að vera svo skýr að fulltrúi sýslumanns geti tekið afstöðu til hennar eins og hún er lögð fram.  Hvorki lögin um kyrrsetningu, lögbann ofl. né greinargerð með lögunum nefni neinn frest til handa gerðarbeiðanda.  Eingöngu í undantekninga­rtilvikum eigi að veita frest og sé það þá frestur til handa gerðarþola en ekki gerðarbeiðanda, sbr. ákvæði 13. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.  Stefnanda hafi verið veittur frestur til 6. janúar 2005 eða í 2 daga.

Við aðra fyrirtöku lögbannsins þann 6. janúar 2005 hafi stefnandi lagt fram þýðingar á ofangreindum tveimur skjölum sem hafi sýnt fram á tilvist stefnanda og að um leyfissamning milli hönnuðarins og stefnanda var að ræða og hvert efni hans var.  Við sama tækifæri hafi verið lögð fram frekari gögn af hálfu stefnanda.  Stefnandi hafi lagt fram eftirfarandi ný gögn í málinu: a) ljósrit úr fundargerð Magis vegna breytinga á félagsformi fyrirtækisins (á ítölsku) b) útprentun af heimasíðu Magis um hönnuðinn c) myndir og lýsingar, þ.á m. mál af Bombo-stólnum d) athugasemdir lögmanns stefnanda við þegar framkomnar röksemdir lögmanns stefnda.  Hafi framlagningu þessara gagna verið harðlega mótmælt af hálfu stefnda enda hefði stefnanda aðeins verið gert að koma með þýðingar á þegar framlögðum skjölum.  Ekki hefði verið heimilað að ný gögn yrðu lögð fram til frekari skýringar og til stuðnings beiðninni.  Jafnframt væri það gegn eðli lögbannsmála að frekari gögn af hálfu gerðarbeiðanda væru lögð fram.

Því sé haldið fram að lögbannsbeiðnin hafi ekki verið þannig úr garði gerð að hægt hefði verið að leggja á lögbann á grundvelli hennar og jafnframt að hin afbrigðilega málsmeðferð hafi verið til þess gerð að stefnandi gæti bætt úr ágöllum beiðninnar sem sé óheimilt og andstætt eðli laganna.  Með vísan til þess er á því byggt að formskilyrði til að leggja á lögbann hafi ekki verið uppfyllt og því sé það ólögmætt og beri þegar af þeirri ástæðu að fella það úr gildi.

Er því einnig haldið fram af hálfu stefnda að efnisskilyrði lögbanns hafi ekki verið uppfyllt.

Markmið lögbanns sé að stöðva eða fyrirbyggja með skjótum hætti tilteknar athafnir sem raski eða séu líklegar til að raska lögvörðum rétti manns.  Lögbannið sé hins vegar bráðabirgðaréttarúrræði sem staðfesta þurfi fyrir dómi.  Það felst í því að réttur gerðarbeiðanda eigi að vera svo skýr að sýslumaður geti lagt mat á efni réttarins við fyrirtöku.  Því hvíli rík sönnunarbyrði á gerðarbeiðanda, annars vegar að sanna að hann eigi hinn lögvarða rétt og hins vegar að tiltekin athöfn brjóti eða muni brjóta gegn þeim lögvarða rétti.

Því er haldið fram að stefnandi hafi ekki, við fyrirtökur hjá fulltrúa sýslumanns, sýnt fram á að hann hafi átt þau lögvörðu réttindi sem haldið var fram.  Upphaflega hafi einungis verið lögð fram ljósmynd af stól sem lögmaður gerðarbeiðanda hafi haldið fram að væri Bombo-stóllinn.  Ekkert hafi verið lagt fram sem hafi sannað að mynd af stólnum væri svokallaður Bombo-stóll og í raun hver hin lögvörðu réttindi væru.  Hins vegar á síðari stigum hafi stefnandi lagt fram þýðingu á leyfissamningnum og upplýsingar um hönnuðinn.  Aldrei hafi verið sýnt fram á hver hinn eiginlegi höfundarréttur væri þar sem nytjalist njóti því aðeins höfundaréttarverndar að verk hafi eitthvert frumlegt og persónulegt sköpunareinkenni og þá einungis takmarkað við þann þátt/hluta sem hið frumlega persónulega sköpunareinkenni komi fram í.  Skipti máli að sönnur séu færðar á hvað það sé sem njóti höfundarréttarverndar.  Ekki hafi verið sýnt fram á það eða því svarað hvort það væri fóturinn, setan á stólnum, bakið, heildarsvipurinn eða annað sem nyti verndarinnar og því sé því haldið fram að hin lögvörðu réttindi hafi ekki verið nægilega skýr til að á þeim yrði byggt.

Um brot gegn lögvörðum rétti hafi heldur ekki verið ljóst þar sem engar myndir eða mál hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda um þann stól sem stefndi hafi haft til sölu í verslun sinni.  Lögð hafi verið fram afar óljós ljósmynd af stól sem stefnandi hafi haldið fram að væri stóll úr verslun stefnda en allt eins hafi getað verið um einhvern allt annan stól að ræða.  Einungis hafi verið lagt fram afrit af reikningi sem sýndi hvað hinn umdeildi stóll kostaði í verslun stefnda.  Jafnframt hafi ekki verið leitast við að sýna fram á það hvort stólarnir væru eins eða hver munurinn væri.  Engin gögn hafi þannig verið lögð fram af hálfu stefnanda um mál og annað á hinum umdeilda stól til að bera þá saman þannig að hægt væri að átta sig á hugsanlegu broti sem þó hefði heldur ekki þá verið ljóst því ekki hafi verið sýnt fram á það hvaða hluti Bombo-stólsins nyti höfundaréttarverndar.  Ennfremur skuli þess getið að lagður hafi verið fram dómur, kveðinn upp í Belgíu, sem ekki hafi verið hægt að byggja á við fyrirtöku um lögbann þar sem hann hafi verið á hollensku og engin þýðing hafi fylgt, aðeins afrit af tölvupósti belgísks lögmanns stefnanda þar sem mjög takmarkaðar upplýsingar var að finna um efni dómsins.

Þá verði ekki á það fallist að athöfn hafi verið byrjuð eða yfirvofandi.  Í því tilfelli sem hér um ræði höfðu stólarnir verið til sölu í verslun Heima ehf. síðan í maí 2004.  Það sé þó ekki fyrr en í desember 2004 sem stefnandi geri reka að því að stöðva söluna.  Þá hafi sala og auglýsing átt sér stað í 7 mánuði án þess að stefnandi hefði nokkuð að gert.  Í desember 2004 hafi lögmaður stefnanda sent lögmanni stefnda bréf þar sem vikufrestur hafi verið veittur til svara og hafi bréfinu verið svarað innan þess tíma.  Hátt á aðra viku hafi liðið þar til lögbannsbeiðnin var lögð inn og þá hafi liðið aðrar tvær vikur fram að fyrirtöku málsins.  Við fyrirtökuna hafi engin vandkvæði verið af hálfu lögmanns stefnanda að fresta málinu um 2 daga til viðbótar.  Því verði að hafna því að það eigi við að athöfnin hafi verið annaðhvort byrjuð eða yfirvofandi.

Ennfremur sé það skilyrði fyrir lögbanni að önnur úrræði séu ekki tiltæk.  Lögbann sé neyðarráðstöfun og skuli því einungis beitt ef ekki verði talið að gerðarbeiðandi geti fengið rétti sínum fullnægt með því að bíða dóms.  Í 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann o.fl. segi að lögbann verði ekki lagt á ef réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægjanlega.  Skaðabætur hefðu bætt stefnanda tjón hans að fullu, verði á það fallist að um eitthvert tjón hafi verið að ræða, og því hefði lögbann ekki verið nauðsynlegt.  Þá sé það skilyrði samkvæmt 2. tl. 3. mgr. 24. gr. sömu laga að hagsmunir gerðarbeiðanda af því að fá lögbann sett þurfi að vera óumdeilanlegir og mun meiri en gerðarþola.  Svo mikill munur þurfi að vera á hagsmunum að hagsmunir gerðarbeiðanda á að fá lagt á lögbann þurfi að vera óumdeilanlegir.  Lögbann eigi ekki að leggja á vegna lítilvægra hagsmuna.  Með vísan til skýringa belgísks lögmanns á efni hins belgíska dóms hafi verið ljóst að ekki var sýnt fram á fjárhagslegt tjón stefnanda og aðeins einhverjar smávægilegar miskabætur dæmdar.  Ljóst hafi því verið frá upphafi að hagsmunir stefnanda væru mjög lítilvægir.  Stefndi hafi því haft mun ríkari hagsmuni af því að fá að halda áfram sölu stólanna þar til hinn efnislegi réttur væri staðfestur.  Í þessu tilfelli beri að hafa í huga að margir sambærilegir stólar og sá sem stefndi hafi selt séu til sölu víða um heim og framleiðandi, sá sem stefndi keypti stólinn af, hafi ekki lent í neinum málaferlum vegna hans í hinum ýmsu löndum evrópska efnahagssvæðisins þar sem stóllinn hafi verið til sölu síðastliðin ár.

Af því sem að framan greini megi ljóst vera að skilyrði lögbanns hvað varðar efni hafi ekki verið uppfyllt á þeim tíma sem lögbannsbeiðnin var lögð fram og heldur ekki þegar úrskurður um lögbann var uppkveðinn þrátt fyrir að stefnanda hafi verið gefið færi á að bæta úr göllum lögbannsbeiðninnar og hafi við það tækifæri jafnframt bætt við nýjum gögnum.  Því er þess krafist að lögbann sýslumannsins í Reykjavík verði fellt úr gildi.

Um dómkröfu stefnanda nr. 4

Þess er krafist að stefndi verði sýknaður af kröfu um greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón stefnanda enda hafi ekki verið sýnt fram á að sala stefnda á hinum umdeilda stól hafi skapað stefnanda nokkurt fjárhagslegt tjón.

Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á það að sala stefnda á hinum umdeilda stól hafi valdið því að sala á Bombo-stólnum hafi minnkað, þ.e. færri stólar hafi verið seldir á því tímabili sem stóll stefnda var til sölu.  Stólarnir hafi verið til sölu hjá ólíkum aðilum þar sem mismunandi markhópar komi til að versla, auk þess sem verðmunur sé mikill.  Því verði að telja afar ósennilegt að stólar stefnda hafi haft áhrif á sölu Bombo-stólsins.  Ennfremur hafi stefnandi hvorki sýnt fram á að velta vegna sölu Bombo-stólanna hafi minnkað né að þóknanir til hönnuðarins hafi lækkað á þessu tímabili.  Þyki rétt að vísa hér til synjunar belgíska dómstólsins á fjárhagslegum bótum til handa Magis spa, sbr. lið d) á síðu 9 í dskj. nr. 18, á þeim sama grundvelli og hér sé lagt upp með.  Því sé þannig alfarið hafnað að stefnandi hafi sýnt fram á nokkurt fjárhagslegt tjón sem hann eigi rétt á að verði bætt af hálfu stefnda og þess krafist að stefndi verði sýknaður af þessari kröfu stefnanda bæði á grundvelli 1. mgr. 56. gr. höfundalaga og 20. gr. samkeppnislaga.

Ekki verður orðið við kröfu lögmanns stefnanda um að leggja fram staðfestingu löggilts endurskoðanda á fjölda stóla seldum af hálfu stefnda enda sé því hafnað að stefnandi geti byggt rétt sinn á greiðslu skaðabóta sem miðist við þann ágóða er hann hefði haft af sölu sama fjölda eintaka af Bombo-stólnum og seld hafi verið af stól stefnda.

Um dómkröfu stefnanda nr. 5

Þess er krafist að stefndi verði sýknaður af kröfu um greiðslu skaðabóta vegna kostnaðar við förgun birgða.  Stefndi hafi verið í góðri trú er hann festi kaup á stólunum.  Því verði að telja það bæði ósanngjarnt og óréttmætt að stefndi þurfi að greiða fyrir urðun vörunnar.

Um dómkröfu stefnanda nr. 6

Þess er krafist að stefndi verði sýknaður af kröfu um málskostnað, en til handa stefnda verði fallist á málskostnað úr hendi stefnanda í samræmi við málskostnaðarreikning sem lagður verði fram við aðalmeðferð málsins.

Tilvísun til helstu réttarreglna og lagaákvæða

Aðallega er byggt á meginreglum höfundarréttar, lögum nr. 73/1972 um höfundarrétt og almennum reglum um skaðabætur.

Krafa um að ákvörðun um lögbann verði felld úr gildi er byggð á lögum nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Krafan um málskostnað að skaðlausu byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991.  Um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988.

Niðurstaða

Fyrir liggur að ítalski hönnuðurinn Stefano Giovannoni þróaði og hannaði fyrir stefnanda stól undir vöruheitinu Bombo.  Samkvæmt nytjaleyfissamningi við hönnuðinn hefur stefnandi einkarétt til framleiðslu og sölu á Bombo stólnum.  Eins og fram hefur komið er stóllinn framleiddur bæði sem hækkanlegur barstóll og í lægri útgáfu með hærra baki.  Er stóllinn framleiddur í mörgum litum.  Samkvæmt upplýsingum frá stefnanda, sem fram koma í gögnum málsins, tók um tvö ár að þróa og hanna stólinn.

Eins og rakið er hér að framan varð stefnandi var við að nokkrir aðilar væru að selja eftirlíkingar af stólnum í verslunum sínum hér á landi.  Að ósk stefnanda hættu fjórir aðilar sölu stólsins en stefndi hefur hafnað öllum kröfum stefnanda um að hætta sölu stólsins þar sem hann telur sölu umræddrar vöru ekki brjóta gegn höfundarrétti eða samkeppnislögum eins og stefnandi heldur fram.

Stefndi gerir þá kröfu í málinu að öllum kröfum stefnanda er varða stól með vörunúmerinu TD2368DA verði vísað frá dómi.

Í lögbannsbeiðni er gerð krafa um að lagt verði lögbann við því að gerðarþoli flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af Bombo-stólnum og er í kröfunni vísað til fylgiskjals nr. 5 þar sem er að finna tvær gerðir af Bombo-stólnum.  Fulltrúi sýslumanns tók kröfuna til greina eins og hún var fram sett.  Fyrir liggur samkvæmt framlögðum gögnum að Bombo-stóllinn er framleiddur í fleiri en einni útfærslu.  Ljóst þykir, að með vísan til fylgiskjals nr. 5 með lögbannsbeiðni, taki lögbannið til þeirra tveggja gerða sem myndirnar eru af.  Sama á við um kröfugerð stefnanda í þessu máli.  Þótt í gögnum málsins sé talað um Bombo-stólinn er ljóst að hann er a.m.k. framleiddur í tveimur útfærslum.  Þá er í kröfugerð stefnanda í þessu máli lýst tveimur gerðum stólsins, þ.e. annars vegar barstól og hins vegar lægri stól með hærra baki, sem er lýsing sem svarar til mynda í fylgiskjali nr. 5 með lögbannsbeiðni.  Kemur fram, og er ekki mótmælt af hálfu stefnda, að stefndi hefur selt umrædda stóla, sem stefnandi telur eftirlíkingu af Bombo-stólnum, í vörunúmerunum TD0103CA og TD2368DA.  Er því ekki fallist á að málatilbúnaður og röksemdafærsla stefnanda hafi takmarkast við stól með vörunúmerinu TD0103CA.  Er frávísunarkröfu stefnda að því er tekur til stóls með vörunúmerið TD2368DA því hafnað.      

Stefnandi telur sölu stefnda á stólum með framangreindum vörunúmerum, og stefnandi telur eftirlíkingu af Bombo-stólnum,  brjóta gegn einkarétti hans til að selja og dreifa eintökum af Bombo-stólnum á Íslandi.  Telur stefnandi innflutning stefnda og sölu á umræddum stól vera brot á 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972  og brjóta gegn sæmdarrétti höfundar samkvæmt 4. gr. laganna.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1972 á höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt á því með þeim takmörkunum sem greindar eru í lögunum.  Í 3. gr. laganna er kveðið á um að höfundur hafi einkarétt til þess að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri.  Þá segir í 2. gr. 4. gr. sömu laga að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.

Matsgerð liggur ekki fyrir í máli þessu og hefur ekki farið fram nein nákvæm úttekt eða samanburður á Bombo-stólnum og þeim stólum sem stefndi hefur selt í verslun sinni og eru hér til umfjöllunar.  Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvaða einstakir þættir stólsins það séu sem njóti verndar.  Er ekki fallist á að það sé nauðsynlegt þar sem telja verður að við mat á því hvort Bombo stóllinn njóti höfundarverndar verði að líta til heildarmyndarinnar.

Eins og rakið er í málsástæðum stefnanda lýsir stefnandi því svo að einstakir þættir hönnunarinnar sem einkenni Bombo stólinn séu m.a. einn lóðréttur fótur er hvíli á flatri hringlaga gólfplötu, ávöl lögun meginstykkisins, bæði bak- og sætishlutans, sporöskjulaga lögun fótskemils barstólsins og lögun handfangs til að hækka og lækka stólinn.  Getur þessi lýsing einnig átt við þá stóla sem stefndi seldi í verslun sinni og hér eru til umfjöllunar.   Heildarútlit og heildaryfirbragð stólanna er mjög svipað svo og stærð þeirra.

Af hálfu stefnda er bent á að lögun sætis og fótstigs sé ekki sú sama.  Þá sé frágangur á handfangi og pumpu ekki sá sami og mál ekki þau sömu.  Þá hefur komið fram að frágangur undir fæti stólsins er ekki sá sami.  Þegar bornar eru saman framlagðar myndir af stólunum verður að telja að augljós munur sé ekki til staðar varðandi þessi atriði og þurfi þau sérstakrar skoðunar við til þess að séð verði að einhver munur sé þar á.  Hin einstöku atriði er einkenna Bombo-stólinn birtast í stól stefnda.  Hins vegar er ekkert í stól stefnda sem greinir hann með afgerandi hætti frá Bombo-stólnum.  Enda þótt stólarnir kunni að vera framleiddir úr mismunandi efni eru þeir svo líkir hvað snertir form, stærð og aðra útfærslu að telja verður að venjulegur viðskiptavinur eigi erfitt með að greina þar á milli og telst því veruleg ruglingshætta vera fyrir hendi.  Fram hefur komið að stólarnir eru seldir á misháu verði og kunna að höfða til ólíkra markhópa.  Það eitt sér þykir ekki, eins og hér háttar, nægilegt til þess að hafa áhrif á mat á því hvort um eftirlíkingu telst vera að ræða eða ekki.

Samkvæmt framansögðu er fallist á það með stefnanda að innflutningur, sala eða önnur ráðstöfun stefnda á þeim stólum sem hér eru til umfjöllunar feli í sér brot á 3. og 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og á 20. gr. samkeppnislaga eins og greinin var samkvæmt lögum nr. 8/1993.

Stefnandi krefst staðfestingar á lögbanni er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á þann 10. janúar 2005.  Stefndi krefst þess að þessi ákvörðun verði felld úr gildi því hvorki hafi formskilyrðum né efnisskilyrðum lögbanns verið fullnægt.

Við fyrirtöku í lögbannsmálinu 4. janúar 2005 mótmælti lögmaður stefnda að lögbannið næði fram að ganga og bar því m.a. við að lögmaður stefnanda hefði ekki sýnt fram á aðild stefnanda að málinu.  Lögmanni stefnanda var þá veittur frestur til frekari upplýsinga á þegar framlögðum gögnum.  Í þinghaldi 6. janúar 2005 lagði lögmaður stefnanda m.a. fram þýðingar á tilteknum gögnum varðandi aðild stefnanda.  Lögmaður stefnda óskaði þá eftir fresti til þess að kynna sér gögnin.  Þann 10. janúar 2005 rökstuddu lögmenn aðila kröfur sínar og síðar þann sama dag var úrskurður upp kveðinn svo sem áður er getið.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann ofl. nr. 31/1990 segir að frestir skulu að jafnaði ekki veittir meðan á lögbannsgerð standi nema málsaðilar séu á það sáttir.  Útilokar ákvæði þetta ekki að frestir séu veittir þegar svo ber undir.  Ekki var um langan frest að ræða eins og áður greinir og var frestur veittur að ósk beggja aðila.  Um lögbannsbeiðnina er áður fjallað.   Er ekki fallist á það með stefnda að sú ákvörðun fulltrúa sýslumanns að veita báðum málsaðilum frest feli í sér að málsmeðferð hafi verið afbrigðileg eða að formskilyrði hafi þar með ekki verið uppfyllt varðandi lögbannsgerðina.

Í 24. gr. laganna er að finna skilyrði þess að lögbann verði á lagt.

Eins og áður er rakið telst stefnandi eiga hin lögvörðu réttindi sem um er deilt í málinu.  Liggur ekki annað fyrir en að stefnandi hafi krafist lögbanns strax og honum var kunnugt um að stefndi væri að selja umrædda stóla.  Telja verður að áframhaldandi sala stefnda á stólnum hefði skaðað stefnanda ekki einungis fjárhagslega heldur einnig út frá höfundarréttarlegu sjónarmiði. 

Samkvæmt því sem fram hefur komið telst lögbannið uppfylla ákvæði 24. gr. laga nr. 31/1990 og ber að staðfesta það.

Stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð EUR 6.366.  Til stuðnings kröfu sinni vísar hann til 56. gr. laga nr. 73/1972.  Verður að telja að stefnandi byggi kröfu sína á 1. mgr. þeirrar greinar.  Niðurstaða málsins er sú að stefndi hafi með innflutningi, sölu og dreifingu á umræddum stól brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda, sbr. það sem áður er rakið, og ber honum að bæta fjártjón stefnanda af þeim sökum.  Stefnandi byggir kröfu sína á upplýsingum frá stefnda um að seldur hafi verið 61 stóll.  Stefnandi kveður ágóða af hverju eintaki Bombo-stólsins hafa numið EUR 52,19.  Hefði stefnandi selt þessi 61 eintak af Bombo-stólnum hefði ágóði hans verið EUR 3.183,59.  Þótt ekki verði fullyrt að stefnandi hefði selt 61 eintak af Bombo- stólnum ef stefndi hefði ekki haft umrædda stóla til sölu þykir rétt við ákvörðun fébóta að fallast á þessa viðmiðun.  Ber því að dæma stefnanda bætur að fjárhæð EUR 3.183,59, en stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að samkvæmt dómvenju beri að tvöfalda þá fjárhæð.

Rétt þykir einnig að taka til greina kröfu um greiðslu 15.060 króna vegna kostnaðar við förgun birgða, sbr. það sem áður er rakið.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 800.000 krónur.

  Við munnlegan flutning málsins gerði stefndi þá kröfu að áfrýjun fresti aðför vegna eignaupptöku og förgunar birgða.  Með því að kveðið er á um þetta í lögum, sbr. 5. gr. laga nr. 90/1989, þykja ekki efni til að fjalla sérstaklega um þessa kröfu stefnda.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Viðurkennt er að stefnda, Öndvegi ehf., er óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af stól, þ.e. barstól, vörunúmer TD0103CA, og lægri stól með hærra baki, vörunúmer TD2368DA, en stóllinn telst eftirlíking af stólnum Bombo sem stefnandi, Magis spa, framleiðir. 

Stefndi, Öndvegi ehf., er dæmdur til að þola að birgðir hans af framangreindum stól verði gerðar upptækar án endurgjalds.

Staðfest er lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði, hinn 10. janúar 2005, við því að stefndi, Öndvegi ehf., flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af stólnum Bombo.

Stefndi, Öndvegi ehf., greiði stefnanda, Magis spa, skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð EUR 3.183,59 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2005 til greiðsludags.

Stefndi, Öndvegi ehf., greiði stefnanda, Magis spa, skaðabætur vegna kostnaðar við förgun birgða sem hann fær afhentar við upptöku að fjárhæð 15.060 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2005 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.