Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2009


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Skaðabætur


                                                        

Fimmtudaginn 4. mars 2010.

Nr. 335/2009.

Pétur Ingason

(Klemenz Eggertsson hdl.)

gegn

þrotabúi FS 14 ehf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Ráðningarsamningur. Riftun. Skaðabætur.

P og G gerðu samning í maí 2006 við félagið N um kaup þess á 99% hluta í félögunum Í og V. Í samningnum kom fram að seljendur myndu starfa sem launþegar hjá félögunum næstu tvö árin og gerður yrði sérstakur ráðningarsamningur við hvorn seljanda um sig. Skriflegir ráðningarsamningar voru ekki gerðir en óumdeilt er að P starfaði áfram og þáði laun frá Í til loka ágúst 2007. Ágreiningur var á hinn bóginn um grundvöll starfa P hjá félaginu eftir að kaupsamningurinn kom til framkvæmdar og ástæðu þess að þeim lauk. P höfðaði mál gegn Í og krafðist launa til loka þess tveggja ára tímabils, sem um ræddi í kaupsamningnum. Talið var að leggja yrði til grundvallar að milli aðilanna hefði í reynd gilt ráðningarsamningur með því efni, sem lýst var í kaupsamningnum. Með því að sú ráðning hefði verið tímabundin hefði Í verið óheimilt að slíta henni upp á sitt eindæmi nema skilyrði hefðu verið til að rifta samningum, en því var ekki borið við í málinu. Í hefði staðið næst að tryggja sér viðhlítandi sönnur fyrir að samkomulag hefði tekist um að slíta tímabundinni ráðningu P og að engin frekari laun yrðu greidd. Yrði Í að bera hallann af því að það hefði verið látið ógert. Þá var P ekki talinn hafa fyrir tómlæti glatað rétti til að krefjast launa til loka umsamins ráðningartíma. Var krafa P því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2009 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 6.271.704 krónur en til vara 2.787.424 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. október 2007 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að höfuðstóll kröfu áfrýjanda verði lækkaður og kröfu hans um dráttarvexti vísað frá héraðsdómi. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms var nafni Íshluta ehf., sem áfrýjandi beindi kröfu sinni að í héraði, breytt í FS 14 ehf. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 9. febrúar 2010 og hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu áfrýjandi og Gunnar Björnsson samning 26. maí 2006 við félag, sem þar var nefnt NewCo ehf., um kaup þess á 99% hluta í Íshlutum ehf. og Vélafli ehf., en fyrir liggur að fyrstnefnda félagið fékk síðar heitið Hið íslenska gáfumannafélag ehf. Í samningnum var meðal annars svofellt ákvæði: „Seljendur munu starfa sem launþegar hjá félögunum næstu 2 árin. Gerður verður sérstakur ráðningarsamningur við hvorn seljanda um sig þar sem laun þeirra verða kr. 600.000,- á mánuði auk þess sem nánar skilgreind risna verður greidd.“ Skriflegir ráðningarsamningar voru ekki gerðir samkvæmt þessu ákvæði, en óumdeilt er að áfrýjandi hafi allt að einu starfað áfram og þegið laun frá Íshlutum ehf. til loka ágúst 2007, svo og að fjárhæð mánaðarlauna hans hafi verið 600.000 krónur auk bifreiðahlunninda. Ágreiningur er á hinn bóginn um grundvöll starfa áfrýjanda hjá félaginu eftir að fyrrnefndur kaupsamningur kom til framkvæmdar og ástæðu þess að þeim hafi lokið. Stefndi ber því við að enginn samningur hafi verið um ráðningu áfrýjanda til þessara starfa, en samkomulag hafi tekist um að þeim lyki 31. ágúst 2007. Gagnstætt þessu heldur áfrýjandi því fram að áðurgreint ákvæði í kaupsamningi hafi falið í sér tímabundinn ráðningarsamning, sem félagið hafi vanefnt með því að víkja honum úr starfi, og hafi ekkert samkomulag verið gert um þau starfslok. Aðalkrafa áfrýjanda er um greiðslu launa til loka þess tveggja ára tímabils, sem um ræddi í kaupsamningnum, en varakrafa hans er reist á því að honum hafi borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur.

Samningur áfrýjanda og Gunnars Björnssonar 26. maí 2006 var ekki gerður við Íshluti ehf., heldur laut meginefni hans að kaupum á hlutum í því félagi og Vélafli ehf. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að kaupandinn samkvæmt samningnum réði upp frá því yfir þessum tveimur félögum. Ákvæði í kaupsamningnum um gerð skriflegs ráðningarsamnings við áfrýjanda um störf hans hjá félögunum var ekki hrundið í framkvæmd, en allt að einu leysti hann þau af hendi til loka ágúst 2007 og fékk þá fjárhæð að launum, sem ráðgerð var í kaupsamningnum. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að milli aðilanna hafi í reynd gilt ráðningarsamningur með því efni, sem lýst var í kaupsamningnum. Með því að sú ráðning var tímabundin var félaginu óheimilt að slíta henni upp á sitt eindæmi nema skilyrði væru til að rifta samningnum, en því hefur ekki verið borið við í málinu. Sem fyrr segir heldur stefndi því á hinn bóginn fram að samkomulag hafi tekist milli félagsins og áfrýjanda um að hann léti af störfum 31. ágúst 2007, svo og að þetta hafi verið tilkynnt á starfsmannafundi í lok þess mánaðar, sem áfrýjandi hafi verið viðstaddur. Við aðalmeðferð málsins í héraði leiddu aðilarnir samtals ellefu vitni, sem öll voru við störf hjá félaginu á þessum tíma og sóttu þennan fund. Vitni þessi skiptust í tvö horn um það hvort rætt hafi verið á fundinum um að áfrýjandi væri að hverfa frá störfum. Þegar litið er til þess að vitni, sem báru um að þetta hafi gerst, voru þá enn við störf hjá félaginu, en þau, sem báru á gagnstæðan veg, höfðu látið af þeim, verður ekkert byggt á þessari sönnunarfærslu. Félaginu stóð næst að tryggja sér viðhlítandi sönnur fyrir að samkomulag hafi tekist um að slíta tímabundinni ráðningu áfrýjanda og að engin frekari laun yrðu greidd, en stefndi verður að bera hallann af því að það hafi verið látið ógert. Ekki eru efni til að fallast á með stefnda að áfrýjandi hafi fyrir tómlæti glatað rétti til að krefjast launa til loka umsamins ráðningartíma. Samkvæmt þessu öllu verður að taka til greina aðalkröfu áfrýjanda, en um fjárhæð launa hans hefur ekki verið deilt í málinu. Þótt annmarki hafi verið á orðalagi kröfugerðar áfrýjanda í héraðsdómsstefnu að því er varðar dráttarvexti hefur verið úr honum bætt og fer því um þá vexti eins og í dómsorði segir.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, þrotabú FS 14 ehf., greiði áfrýjanda, Pétri Ingasyni, 6.271.704 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 696.856 krónum frá 1. október 2007 til 1. nóvember sama ár, af 1.393.712 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 2.090.568 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2008, af 2.787.424 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 3.484.280 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 4.181.136 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 4.877.992 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 5.574.848 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, en af 6.271.704 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2009.

Mál þetta sem dómtekið var 12. maí 2009 var höfðað með stefnu birtri 20. október 2008.

Stefnandi er Pétur Ingason, Hesthömrum 13, Reykjavík. Stefndi er Íshlutir ehf., Völuteig 4, Mosfellsbæ.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 6.271.704 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III., IV. og V. kafla laga nr. 38/2001 af 696.856 krónum frá 1. október 2007 til 1. nóvember 2007, af 1.393.712 krónum frá þeim degi til 1. desember 2007, af 2.090.568 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2008, af 2.787.424 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2008, af 3.484.280 krónum frá þeim degi til 1. mars 2008, af 4.181.136 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2008, af 4.877.992 krónum frá þeim degi til 1. maí 2008, af 5.574.848 krónum frá þeim degi til 1. júní 2008, af 6.271.704 krónum, sem er stefnufjárhæðin, frá þeim degi til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, að mati réttarins og eða framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta verði vísað frá dómi. Þá krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.

Málavextir:

Stefnandi gerði hinn 26. maí 2006, samning við þá óstofnað hlutafélag, nú Hið íslenska gáfumannafélag ehf., um kaup á félagsins á nánast öllum hlutum stefnanda í Íshlutum ehf. og Vélafli ehf. Í samningnum var gert ráð fyrir að stefnandi skyldi starfa hjá félögunum næstu 2 árin. Í samningi þessum, sem liggur frammi í málinu, var gert ráð fyrir að gerður yrði sérstakur ráðningarsamningur og skyldu föst mánaðarlaun vera 600.000 krónur og greiðast eftir á, auk nánar skilgreindrar risnu. Þá var í samningi þessum kafli um samkeppnisbann, eða um að stefnanda væri óheimilt að vera í samkeppni við hin seldu félög með nánar skilgreindum hætti.

Óumdeilt er að stefnandi hélt áfram að starfa hjá stefnda allt til ágúst 2007 og að stefnandi fékk launagreiðslu fyrir ágústmánuð 2007 og síðan ekki frekari laun. Greinir aðila á um hvernig það kom til að stefnandi hætti störfum hjá Íshlutum ehf. Eins og stefnandi lýsir atvikum, tjáði Hjálmar Helgason, fyrirsvarsmaður stefnda, honum í ágúst 2007 að frekari laun yrðu ekki greidd og nærveru hans væri ekki óskað á vinnustaðnum. Hafi stefnandi þá yfirgefið vinnustaðinn þar sem ljóst hafi verið að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans.

Stefndi lýsir aðdraganda þess að stefnandi lét af störfum hjá stefnda hins vegar þannig að í ágúst 2007 hafi orðið samkomulag með aðilum um að stefnandi hætti störfum hjá stefnda og ástæða starfslokanna þannig verið gagnkvæmur vilji aðila. Hafi vegna starfsloka stefnanda m.a. verið boðað til fundar með starfsmönnum til að tilkynna um starfslokin og hafi stefnandi þar tekið til máls og þakkað fyrir samstarf og staðfest þannig samkomulag um starfslokin.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann hafi með ólögmætum hætti verið gerður brottrækur út starfi og krefjist hann launa út ráðningartímann, sem sé það tjón sem hann hafi orðið fyrir. Stefnandi hafi ekki með neinum hætti brotið gegn starfskyldum sínum og stefndi hafi því með ólögmætum hætti vanefnt ráðningarsamning, hrakið stefnanda úr starfi og beri að bæta það fjártjón sem af leiðir, eða umsamin laun út ráðningartímann samkvæmt meginreglu vinnuréttar um greiðslu verkkaups.

Ógreidd laun út samningstímann sundurliðist þannig:

Laun

600.000

krónur

Bifreiðahlunnindi

36.856

krónur

Mótframlag í lífeyrissjóð

48.000

krónur

Mótframl. í séreignasjóð

12.000

krónur

Samtals

696.856

krónur

Stefnandi byggir á meginreglun samininga- kröfu- og vinnuréttarins um skuld­bindingagildi vinnusamninga og vísar til laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups. Þá er vísað til sjónarmiða skaðabótaréttarins.

Málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi byggir á því að hann sé skuldlaus við stefnanda. Ekki hafi verið gerður ráðningarsamningur milli aðila og ekki orðið samkomulag um að stefnandi starfaði hjá stefnda þann tíma sem tilgreindur var í samningi stefnanda við óstofnaða hlutafélagið um sölu á eignarhlutum í stefnda frá 26. maí 2006. Samkomulag hafi orðið milli aðila um að stefnandi hætti störfum hjá stefnda 31. ágúst 2007. Stefndi hafi því hvorki vanefnt né rift ráðningarsamningi við stefnanda. Ástæða þess að stefnandi hætti í lok ágúst 2007 hafi verið gagnkvæmur vilji aðila.  Stefnandi hafi ekki starfað hjá stefnda frá þeim tíma og eigi því ekki rétt á launum frá þeim tíma. Stefndi hafi greitt stefnanda umsamin laun þar til hann hætti störfum þann 31. ágúst 2007 og með þeim hætti efnt að fullu samkomulag aðila.

Stefndi hafi greitt stefnanda laun fyrir ágúst 2007 og samið hafi verið um að frekari laun yrðu ekki greidd. Krafa stefnanda sé í andstöðu við samkomulag aðila og þá staðreynd að stefnandi hafi ekki unnið fyrir stefnda frá því í lok ágúst 2007. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Þá er lögð áhersla á að stefnandi krafði stefnda ekki um greiðslu ætlaðra launa fyrr en með stefnu í lok október 2008, eða um 14 mánuðum eftir umsamin starfslok stefnanda og styðji það tómlæti stefnanda  fullyrðingu stefnda um samkomulag um starfslok stefnanda. Stefndi telur að sýkna beri hann af kröfum stefnanda með vísan til réttareglna kröfuréttar um tómlæti, en stefndi telur málssókn þessa aðeins vera veikburða svar stefnanda við málshöfðun Hins íslenska gáfumannafélags ehf. á hendur stefnanda og Gunnari Björnssyni í september sl. til heimtu skaðabóta vegna vanefnda þeirra á samningi um sölu hluta í Íshlutum ehf.

Krafa stefnda um sýknu sem og varakrafa um verulega lækkun krafna byggist á því að lækka beri kröfur stefnanda m.a. sem nemur launum sem stefnandi hefur þegið frá öðrum frá því í september 2007, enda ætlað tjón stefnanda aðeins mismunur tekna hans á því tímabili og kröfu hans á hendur stefnda um laun það tímabil. Þá leggur stefndi áherslu á að stefnanda hafi borið að draga úr ætluðu tjóni sínu með því að afla tekna annars staðar og beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda enda þótt í ljós komi að stefnandi hafi engri eða lítilli vinnu sinnt frá því í september 2007. Þá sé þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar sem nemur staðgreiðsluhlutfalli enda skylda stefnda að lögum að greiða staðgreiðslu launa til ríkissjóðs ef svo ótrúlega færi að fallist yrði á kröfur stefnanda að einhverju leyti eða öllu.

Stefndi krefst þess að kröfu um dráttarvexti verði vísað frá dómi, þar sem í kröfugerð stefnanda sé vaxtafótur ekki tilgreindur og ekki vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi vísar þessu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 292/2007.

Krafa um frávísun byggist á ákvæðum laga nr. 38/2001, laga nr. 91/1991.  Krafa um sýknu byggst á reglum samninga- og kröfuréttar. Þá er vísað til reglna vinnuréttar og skaðabótaréttar. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða:

Stefnandi virðist byggja kröfugerð sína á samningi sem hann gerði 26. maí 2006 við óstofnað hlutafélag, síðar Hið íslenska gáfumannafélag ehf., en í þeim samningi er meðal annars ákvæði um að stefnandi skyldi vinna hjá félögunum, sem hann seldi hlut í samkvæmt samningnum, næstu tvö ár. Kaupandinn samkvæmt samningnum er ekki aðili að máli þessu og stefndi var ekki aðili að samningnum. Þó að svo virðist sem sami aðaleigandi sé að bæði stefnda og Hinu íslenska gáfumannafélagi ehf., og sami maður sem undirritaði samninginn frá 26. maí 2006 fyrir það félag, teljist fyrirsvarmaður stefnda, er ljóst að um tvo sjálfstæða lögaðila er að ræða. Því verður ekki litið svo á að ákvæði í nefndum samningi á milli stefnanda og hins þá óstofnaða félags, um tveggja ára ráðningartíma stefnanda, bindi stefnda.

Það liggur hins vegar fyrir og er óumdeilt að stefnandi starfaði hjá stefnda frá því að hann seldi hluti sína í stefnda eða frá maí 2006 og þar til í ágúst 2007, þó að ekki hafi verið gerður formlegur ráðningarsamningur. Stefnandi lét af störfum í ágúst 2007 og fékk greidd laun út þann mánuð. Launaseðill hans vegna ágústmánaðar 2007 liggur frammi í málinu og fær kröfugerð stefnanda stoð í honum að því er varðar mánaðarleg launakjör stefnanda.

Skýrslur voru teknar af nokkrum aðilum við aðalmeðferð málsins og kom þar fram nokkuð mismunandi skilningur á því hver hefði verið aðdragandi starfsloka stefnanda hjá stefnda. Þó kom þar nokkuð skýrt fram að á fundi með starfsmönnum, sem haldinn var í lok ágúst, hafi verið tilkynnt um starfslok stefnanda og hann við það tækifæri kvatt samstarfsmenn sína og þakkað samstarf. Gegn mótmælum stefnanda verður ekki talið að stefnda hafi tekist sönnun þess að samkomulag hafi orðið um starfslok stefnanda og er því mögulegt að stefnandi eigi rétt á launum í uppsagnarfresti. Hins vegar er kröfugerð og öllum málatilbúnaði stefnanda ekki þannig háttað í máli þessu að unnt sé að leggja dóm á það atriði á grundvelli hans. Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu málsins þykir, með vísan til atvika málsins, rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Íshlutir ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Ingasonar.

Málskostnaður fellur niður.