Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2003


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Slysatrygging


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 297/2003.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Róbert Atla Clausen

(Magnús Thoroddsen hrl.)

 

Vátryggingarsamningur. Slysatrygging.

R krafðist þess að undanþáguákvæði vátryggingarskilmála, sem giltu um slysatryggingu hans hjá T, skyldi vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a-c laga nr. 7/1936. Talið var að R hafi mátt vera kunnugt um að skilmálar vátryggingarinnar hefðu að geyma undanþáguákvæði líkt og venja væri með staðlaða samningsskilmála vátryggingar. Hafi það staðið R næst að kynna sér efni skilmála þeirrar tryggingar sem hann valdi sér. Vísað var til meginreglu íslensks réttar þess efnis að aðilum vátryggingarsamnings sé frjálst að semja um efni hans, en samkvæmt henni væri vátryggjanda almennt heimilt með ákvæði í samningi að takmarka þá áhættu, sem hann tekur að sér með vátryggingu. Undanþáguákvæðið þótti skýrt og ekki óvenjulegt. Kröfum R var því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Krafa stefnda um bætur vegna vinnuslyss, sem hann varð fyrir 18. desember 2000, er reist á vátryggingarsamningi, sem gerður var fyrir hans hönd við áfrýjanda 7. nóvember 1997 og endurnýjaður árlega eftir það. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er deilt um hvort undanþáguákvæði vátryggingarskilmála, sem giltu um slysatryggingu stefnda hjá áfrýjanda, skuli vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum. Hið umdeilda ákvæði skilmálanna er grein 9.4. og hljóðar svo: „Jafnvel þótt slys verði talin sönnuð orsök greiðir félagið ekki bætur vegna eftirfarandi sjúkdóma eða sjúklegs ástands: Brjóskloss, þursabits (lumbago ischias), liðagigtar, slitgigtar eða hvers konar annarra gigtarsjúkdóma.“ Er óumdeilt að stefndi hlaut brjósklos af völdum áðurnefnds slyss eins og nánar er rakið í héraðsdómi.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að athygli hans hafi ekki verið vakin sérstaklega á ofangreindu undanþáguákvæði vátryggingarskilmálanna. Hann hafi heldur ekki fengið þá afhenta. Beri áfrýjandi sönnunarbyrði fyrir því að hið umdeilda ákvæði skuli teljast hluti samnings málsaðila. Undanþáguákvæðið sé óvenjulegt, en auk þess ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig. Fyrir Hæstarétti var auk framangreindra lagaákvæða vísað til 36. gr. b. og 36. gr. c. sömu laga.  

Sýknukrafa áfrýjanda er byggð á því að vátryggingafélögum sé heimilt að takmarka ábyrgð sína á þann hátt, sem gert var í tilviki stefnda. Af hálfu áfrýjanda hafi upplýsingaskyldu verið gætt með því að skilmálar vátryggingarinnar hafi legið frammi við samningsgerðina. Almennt sé lögð áhersla á að viðskiptamenn áfrýjanda kynni sér vátryggingarskilmála sem best, en ókleift sé að fara í gegnum þá lið fyrir lið með hverjum þeim, sem kaupi vátryggingu. Það sé á ábyrgð vátryggingartaka að kynna sér efni skilmálanna áður en gengið er til samninga, en almennt sé vitað að staðlaðir vátryggingarskilmálar eru ekki sérstaklega sniðnir að þörfum hvers og eins. Tilvísanir stefnda til ákvæða laga nr. 7/1936 eigi hér ekki við.

Þegar meta skal hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera löggerning fyrir sig skal samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika, sem síðar komu til. Stefndi hefur haldið því fram að áfrýjanda hafi borið sérlega rík skylda til að kynna honum efni undanþáguákvæðis greinar 9.4., meðal annars vegna þess að áfrýjanda hafi verið kunnugt um að stefndi starfaði sem sendibílstjóri. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi upphaflega verið skráður hjá áfrýjanda sem trésmíðaverktaki á vátryggingaskírteinum sem gefin voru út á hans nafn. Starfsheitið sendibílstjóri ber hann fyrst í vátryggingarskírteini útgefnu 15. janúar 1999, er hann endurnýjaði vátryggingu sína. Stefnda mátti vera kunnugt um að skilmálar hennar hefðu að geyma undanþáguákvæði líkt og venja er með staðlaða samningsskilmála vátrygginga. Stóð það honum næst sem vátryggingartaka að kynna sér efni skilmála þeirrar tryggingar, sem hann valdi sér, en val á tryggingum hlýtur að ráðast af aðstæðum vátryggingartaka og þörfum hverju sinni. Hafi áhætta stefnda af því að verða fyrir slysi aukist í nýju starfi gaf það honum enn frekara tilefni til að kynna sér samninginn og afla sér ríkari vátryggingarverndar. Það er viðurkennd meginregla íslensks réttar að aðilum vátryggingarsamnings er frjálst að semja um efni hans, sbr. 3. gr. laga 20/1954 um vátryggingasamninga. Er vátryggjanda í samræmi við það almennt heimilt með ákvæði í samningi að takmarka þá áhættu, sem hann tekur að sér með vátryggingu. Undanþáguákvæði, sem eru samhljóða og jafnvel víðtækari en það, sem hér um ræðir, hefur verið að finna um nokkurt skeið í vátryggingarskilmálum á markaði hérlendis, svo og annars staðar á Norðurlöndum. Þá er orðalag hins umþrætta undanþáguákvæðis skýrt og uppfyllir þær kröfur, sem gera má til staðlaðra samningsskilmála að því leyti. Kemur ákvæði 36. gr. b laga nr. 7/1936 því ekki til álita eins og hér háttar til. Ákvæði 36. gr. a og 36. gr. c laganna geta heldur ekki leitt til þess að kröfur stefnda nái fram að ganga.

Af öllu framangreindu leiðir að ekki verður talið að umrætt undanþáguákvæði í vátryggingarskilmálum áfrýjanda um takmörkun á bótaskyldu hans sé þess eðlis eða að atvik hafi verið með þeim hætti að víkja beri ákvæðinu til hliðar. Ber því að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda verða staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfu stefnda, Róberts Atla Clausen.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí s.l., er höfðað með stefnu birtri 29. janúar  s.l.

Stefnandi er Róbert Atli Clausen, kt. 220550-3899, Hraunbæ 118, Reykjavík.

Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að vikið verði til hliðar ákvæði um takmörkun á bótaskyldu stefnda vegna brjóskloss í grein 9.4 í vátryggingaskilmálum stefnda, 300 slysa­tryggingu, og viðurkennd verði með dómi greiðsluskylda stefnda á vá­trygg­inga­bótum vegna slyss, er stefnandi varð fyrir við vinnu sína 18. desember 2000.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðherra 13. janúar 2003.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefn­anda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að 7. nóvember 1997 keypti þáverandi sambýliskona stefn­anda, Jónína Birna Sigmarsdóttir, svokallaða 300 slysatryggingu hjá stefnda stefnanda til hagsbóta.  Var stefnandi á vátryggingaskírteini sagður vera trésmíðaverktaki en sam­kvæmt vátryggingaskírteini sem gilti frá 15. janúar 1999 er starfsheiti stefnanda skráð sendibílstjóri.  Um vátryggingu þessa munu gilda skilmálar frá 1. janúar 1997 og í 9. gr. skilmálanna er fjallað um takmarkanir á bótaskyldu vegna sjúkdóma o.fl.  Í gr. 9.4 er svohljóðandi ákvæði:  „Jafnvel þótt slys verði talin sönnuð orsök greiðir félagið ekki bætur vegna eftirfarandi sjúkdóma eða sjúklegs ástands: Brjóskloss, þursabits (lumbago ischias), liðagigtar, slitgigtar eða hvers konar annarra gigtarsjúkdóma.”  Samkvæmt gögnum málsins ritaði stefnandi undir beiðni um slysatryggingu 7. nóvember 1997 og gefur jafnframt upplýsingar um heilsufar sitt, en þar kemur t.d. fram að hann hafi ekki orðið fyrir slysi eða fengið sjúkdóma, hann hafi ekki þjáðst af brjósk­losi, þursabiti, verkjum í hálsi/mjóhrygg eða öðrum baksjúkdómum.  Þá ritar stefn­andi undir yfirlýsingu um að honum sé ljóst að vátryggingin nái ekki til fyrri slysa eða afleiðinga þeirra.  Á þessu eyðublaði er ekki að finna upplýsingar um að stefnanda hafi verið kynntir skilmálar þeir sem um vátrygginguna giltu.  Stefnandi heldur því fram að athygli hans hafi ekki verið vakin á gr. 9.4. og heldur stefnandi því fram að hann hafi verið í góðri trú um að hann væri að kaupa slysatryggingu sem héldi yrði hann fyrir slysi í starfi.  Stefndi mótmælir því hins vegar að starfsmenn hans hafi ekki gætt upplýsingaskyldu sinnar að þessu leyti og segir vátryggingaskilmála ætíð liggja fyrir við sölu vátrygginga og gæti starfsmenn stefnda þess að kynna ákvæði þeirra fyrir vænt­anlegum vátryggingatökum.

Stefnandi var 18. desember 2000 að bera djúpan stól niður stiga í fjölbýlishúsi er hann missteig sig á vinstra fæti og skall með vinstri hlið, aðallega öxl, út í vegg stiga­gangs­ins.  Mun hann hafa snúist á fæti og tognað á ökkla og rist.  Við segul­óm­rann­sókn kom í ljós að hann hefði einnig hlotið brjósklos milli 6. og 7. hálsliðbola yfir til vinstri.  Stefnandi hefur verið óvinnufær að mestu eftir slysið og mun vera í end­ur­hæfingu og sjúkraþjálfun.

Stefndi hafnaði bótaskyldu með vísan til undanþáguákvæðis gr. 9.4. í vá­trygg­inga­skilmálunum og komust Tjónanefnd vátryggingafélaganna og Úrskurðarnefnd í vát­ryggingamálum að sömu niðurstöðu.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hann hafi verið sendibílstjóri og hafi hann iðulega þurft að bera þunga hluti í starfi sínu.  Hafi stefndi vitað þetta og því hafi starfsmönnum hans borið að vekja athygli stefnanda sérstaklega á undanþáguákvæði gr. 9.4. í vá­trygg­ingaskilmálunum og jafnframt útskýra efni þess fyrir honum.  Þetta hafi ekki verið gert og því hafi stefnandi verið í góðri trú um að hann væri að kaupa sér slysa­tryggingu er héldi ef hann yrði fyrir slysi í starfi sínu.

Stefnandi byggir á því að undanþáguákvæði þetta sé bæði óvenjulegt og ósann­gjarnt þar eð það takmarki bótaskyldu á afleiðingum af slysi, andstætt venjulegum tak­mörk­unum á bótaskyldu þegar veiklun, sjúklegt eða annarlegt ástand vátryggðs leiði bein­línis til slyssins.  Er á því byggt að hér sé um ósanngjarna samningsskilmála að ræða og andstætt góðri viðskiptavenju að bera þá fyrir sig.

Stefnandi vísar til 36. gr. og 36. gr. a, laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 og 2. gr. laga nr. 19/1995 og EES-tilskipunar nr. 93/13 EBE, 3. gr. um ósanngjarna samn­ingsskilmála.  Krafa um málskostnað er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því að ósannað sé að starfsmenn hans hafi ekki gætt upp­lýs­inga­skyldu sinnar um vátryggingaskilmála þegar umrædd vátrygging var keypt.  Þá er því mót­mælt að umrætt undanþáguákvæði sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig.  Ákvæðið sé skýrt og undanskilji ákveðnar afleiðingar tjóns­at­burða.  Séu sams konar ákvæði algeng og þekkt hér á landi hjá öðru vátryggingafélagi og á Norðurlöndum án þess að þau hafi verið talin ósanngjörn eða andstæð góðum venjum við vátryggingar.

Stefndi byggir á því að samningsfrelsi ríki varðandi það til hvaða sviða vá­trygg­ingar nái.  Sé umrætt undanþáguákvæði hlutræn ábyrgðartakmörkun sem frjálst sé að semja um að gildi í slysatryggingu.  Sé ekki með nokkrum hætti hægt að fella ákvæðið undir huglæga ábyrgðartakmörkun sem skýra þurfi með hliðsjón af 20. gr. laga nr. 20/1954, þar sem það hafi ekkert með háttsemi vátryggðs að gera.

Stefndi telur stefnanda ekki með nokkrum hætt hafa sýnt fram á að skilyrði séu upp­fyllt til að víkja ákvæðinu til hliðar með hliðsjón af 36. gr. og 36.gr. a samn­inga­laga.

Málskostnaðarkrafa stefnda er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Ágreiningur aðila máls þessa snýst um undanþáguákvæði í skilmálum slysa­trygg­ingar sem stefndi seldi stefnanda en samkvæmt þessu ákvæði greiðir félagið ekki bætur m.a. vegna brjóskloss jafnvel þótt slys verði talið sönnuð orsök.  Því hefur ekki verið haldið fram í málinu að afleiðingar slyssins hafi orðið aðrar en brjósklos.  Stefn­andi krefst þess að umræddu undanþáguákvæði verði vikið til hliðar og greiðsluskylda stefnda verði viðurkennd.

Stefnandi kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og skýrði svo frá að athygli hans hefði ekki verið vakin á umræddu undanþáguákvæði og þá hafi hann ekki verið hvattur til að kynna sér vátryggingaskilmálana, sem hann kvaðst raunar aldrei hafa fengið í hendur.  Hann kvaðst ekki hafa vitað um undanþáguákvæðið og ekki vitað um til­vist þess fyrr en eftir slysið.

Eins og mál þetta er vaxið verður fyrst að leysa úr því hvort í raun hafi svo um sam­ist með aðilum að umrætt undanþáguákvæði, sem virðist vera hluti af stöðluðum vátrygg­ingaskilmálum stefnda, skyldi gilda gagnvart stefnanda.  Eins og rakið hefur verið heldur stefnandi því fram að honum hafi aldrei verið kynnt undanþáguákvæðið.  Af umsókn um slysatryggingu, sem stefnandi hefur undirritað, verður ekki ráðið að honum hafi verið kynntir vátryggingaskilmálar.  Stefndi heldur því hins vegar fram að starfs­menn hans hafi gætt upplýsingaskyldu sinnar að þessu leyti en hann hefur ekki lagt fram gögn því til stuðnings.  Verður stefndi að bera hallann af sönnunarskorti í þessum efnum.   Að mati dómsins hefur stefnda því ekki tekist að sanna að umrætt undan­­þáguákvæði hafi gilt gagnvart stefnanda.  Verða kröfur stefnanda því teknar til greina.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður, en kostnaður stefnanda af málinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt gjafsóknarleyfi hans, þar með talin þóknun lögmanns hans, Magnúsar Thoroddsen, hrl., sem telst hæfilega ákveðin 300.000 krónur.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Vikið er til hliðar ákvæði um takmörkun á bótaskyldu stefnda, Trygg­inga­mið­stöðv­ar­innar hf, vegna brjóskloss í grein 9.4 í vátryggingaskilmálum stefnda, 300 slysa­­tryggingu. Viðurkennd er með dómi greiðsluskylda stefnda á vátryggingabótum vegna slyss, er stefnandi, Róbert Atli Clasen, varð fyrir við vinnu sína 18. desember 2000.

Málskostnaður fellur niður, en kostnaður stefnanda af málinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt gjafsóknarleyfi hans, þar með talin þóknun lögmanns hans, Magnúsar Thoroddsen, hrl.,  300.000 krónur.